Hæstiréttur íslands
Mál nr. 97/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Mánudaginn 24. mars 2003. |
|
Nr. 97/2003. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (sjálfur) |
Kærumál. Farbann.
X kærði þá ákvörðun héraðsdóms að banna honum för frá Íslandi allt til 23. apríl 2003 en hann var grunaður um aðild að innflutningi á hassi til landsins. Fyrir lá að X hafði undanfarin ár dvalið í Thailandi og hafði hann lýst því fyrir lögreglu og dómi að hann hygðist fara þangað aftur. X neitaði allri aðild að málinu, en frásögn hans bar ekki saman við skýrslur annarra er tengdust því. Voru talin fyrir hendi skilyrði til að neyta heimildar í 110. gr. laga um meðferð opinberra mála til að banna X för úr landi. Var hin kærða ákvörðun því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. mars 2003. Kærumálsgögn bárust réttinum 21. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2003, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi allt til miðvikudagsins 23. apríl nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Verður að ætla að varnaraðili kæri ákvörðun héraðsdómara til að fá hana fellda úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun héraðsdómara verði staðfest.
Varnaraðili var handtekinn 20. febrúar 2003, grunaður um aðild að innflutningi á fíkniefnum, sem tollgæslan lagði hald á 19. sama mánaðar í vörugeymslu DHL á Keflavíkurflugvelli. Með ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2003 var varnaraðila gert að sæta farbanni allt til fimmtudagsins 20. mars sl. Þann dag krafðist sóknaraðili þess að varnaraðila yrði bönnuð för úr landi allt til 23. apríl 2003. Sú krafa var tekin til greina með hinni kærðu ákvörðun.
Samkvæmt gögnum málsins er kominn fram rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi átt aðild að innflutningi á 1.166,33 g af hassi til landsins. Fyrir liggur að varnaraðili hefur undanfarin ár dvalið í Thailandi og hefur hann lýst því fyrir lögreglu og dómi að hann hyggist fara þangað aftur í þessum mánuði. Hefur varnaraðili neitað allri aðild að málinu, en frásögn hans ber ekki saman við skýrslur annarra er tengjast því. Fallast verður á með sóknaraðila að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru varnaraðila til að ljúka megi rannsókn málsins og taka ákvörðun um hvort af saksókn verði. Samkvæmt þessu eru fyrir hendi skilyrði til að neyta heimildar 110. gr. laga nr. 19/1991 til að banna varnaraðila för úr landi. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.
Dómsorð:
Hin kærða ákvörðun er staðfest.
Ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2003
Í dóminum er nú skv. 110. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 tekin svohljóðandi
Ákvörðun:
Kærði, X, skal sæta farbanni og vera bönnuð för frá Íslandi uns máli hans er lokið, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 23. apríl 2003, kl. 16:00.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari