Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-170

A (Hulda Rós Rúriksdóttir lögmaður)
gegn
B (Þyrí H. Steingrímsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Opinber skipti
  • Fjárslit
  • Óvígð sambúð
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 28. desember 2022 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 15. sama mánaðar í máli nr. 589/2022: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að ágreiningi aðila í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli sambúðarfólks samkvæmt XIV. kafla laga nr. 20/1991. Með úrskurði Landsréttar var meðal annars staðfest niðurstaða héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu gagnaðila um að við fjárslit milli aðila skyldu þau hvort um sig teljast eiga 50% eignarhlutdeild í fasteigninni Æ í Kópavogi auk þess sem gagnaðili teldist eiga 25% eignarhlutdeild í fasteigninni Þ en leyfisbeiðandi 75%. Jafnframt var nokkrum kröfum gagnaðila vísað frá héraðsdómi.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi. Í því sambandi vísar hann einkum til þess að málið hafi þýðingu við úrlausn fjárskipta við slit óvígðrar sambúðar um hvenær og hvernig fasteignir aðila hafi verið fjármagnaðar. Með úrskurði Landsréttar hafi verið vikið frá dómaframkvæmd og ný sjónarmið látin ráða niðurstöðunni.

5. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu á grundvelli þess að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að formi eða efni til. Beiðninni er því hafnað.