Hæstiréttur íslands
Mál nr. 544/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Niðurfelling máls
- Málskostnaður
|
|
Mánudaginn 10. október 2011. |
|
Nr. 544/2011.
|
A (Oddgeir Einarsson hdl.) gegn B (Eva B. Helgadóttir hrl.) |
Kærumál. Niðurfelling. Málskostnaður.
A kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hann var sviptur sjálfræði í tvö ár. A lýsti því síðar yfir að hann félli frá kröfum um annað en þóknun til skipaðs verjanda síns. Var málið því fellt niður fyrir Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Greta Baldursdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. september 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. september 2011, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Með bréfi 7. október 2011 lýsti sóknaraðili yfir að hann félli frá kröfu um annað en þóknun til skipaðs verjanda síns.
Með vísan til c. liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 150. gr. og 166. gr. laganna með áorðnum breytingum, er málið fellt niður fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en hún er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Mál þetta er fellt niður.
Þóknun Oddgeirs Einarssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda sóknaraðila, og Evu Bryndísar Helgadóttur hæstaréttarlögmanns, skipaðs talsmanns varnaraðila, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.