Hæstiréttur íslands

Mál nr. 73/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Greiðsla
  • Fyrning
  • Aðild
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


                                                             

Föstudaginn 5. mars 1999.

Nr. 73/1999.

Lífeyrissjóður verkalýðsfélaganna

á Suðurlandi

(Ásgeir Magnússon hrl.)

gegn

Dalverki sf.

Halldóri Ólafssyni og

Grétari Ólafssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

                                                               

Kærumál. Fjárnám. Greiðsla. Fyrning. Aðild. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi að hluta.

V stefndi sameignarfélaginu D og eigendum þess, H og G, til innheimtu vangreiddra lífeyrissjóðsiðgjalda. Á þingfestingardegi málsins greiddi D hluta skuldarinnar en málið var dómtekið. Í héraðsdómi var dæmt að stefnukröfur D væru að hluta fallnar niður fyrir fyrningu. Í framhaldi af þessu inntu D, H og G af hendi greiðslu til V sem þeir töldu vera fullnaðargreiðslu á skuld sinni, enda hefði innborgun þeirra á þingfestingardegi átt að koma til frádráttar þeim skuldum sem þá hefðu verið ófyrndar. Í máli þar sem D, H og G mótmæltu fjárnámi sem gert hafði verið hjá D fyrir eftirstöðvum skuldarinnar, var talið að D hefði mátt vera fullljóst við fyrri innborgun sína að V héldi fram kröfu sinni alls óskertri, þótt hluti hennar væri sýnilega eldri en sem næmi fyrningarfresti kröfu þessarar tegundar. Var V því heimilt að láta innborgunina ganga til greiðslu elsta hluta skuldarinnar. Var fjárnám fyrir kröfu V því staðfest, þó þannig að tekið var tillit til síðari innborgunar D. Kröfum H og G var vísað frá dómi þar sem fjárnámsgerð sú sem um var fjallað í málinu hafði ekki beinst að þeim heldur aðeins V.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. febrúar 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. febrúar 1999, þar sem fellt var úr gildi fjárnám, sem var gert 3. desember 1998 að kröfu sóknaraðila hjá varnaraðilanum Dalverki sf. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fyrrnefnd fjárnámsgerð verði staðfest. Einnig krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili mál hendur varnaraðilum með birtingu stefnu 9. og 11. mars 1998 til greiðslu lífeyrisjóðsiðgjalda frá árunum 1988 til 1990 og 1992 til 1996, sem námu samtals 604.248 krónum auk dráttarvaxta. Sama dag og málið var þingfesting, 25. mars 1998, greiddi varnaraðilinn Dalverk sf. lögmanni sóknaraðila 400.000 krónur inn stefnukröfur. Varnaraðilar sóttu hins vegar ekki þing í málinu. Í dómi Héraðsdóms Suðurlands, sem gekk í málinu 10. júní 1998, var hluti krafna sóknaraðila talinn fyrndur, en varnaraðilum gert að greiða honum í sameiningu 396.134 krónur með dráttarvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 9. mars 1994 til greiðsludags. Við úrlausn málsins virðist héraðsdómara ekki hafa verið kunnugt um fyrrgreinda innborgun varnaraðila. Hinn 22. október 1998 sendu varnaraðilar til lögmanns sóknaraðila greiðslu á 318.185 krónum. Með þessu telja varnaraðilar sig hafa að fullu greitt kröfur sóknaraðila, enda hefði honum borið að ráðstafa innborgun þeirra 25. mars 1998 til greiðslu þess hluta skuldar þeirra, sem ekki var fyrndur. Sóknaraðili telur hins vegar að sér hafi verið heimilt að ráðstafa greiðslunni inn á þann hluta skuldarinnar, sem elstur var, og því hafi varnaraðilar enn staðið í skuld við hann þegar fjárnámið var gert 3. desember 1998.

II.

Fjárnámi sýslumannsins á Selfossi 3. desember 1998, sem deilt er um í málinu, var sem áður segir beint að varnaraðilanum Dalverki sf. Aðrir varnaraðilar hafa ekki skýrt ástæðu þess að þeir hafi gerst aðilar að málinu, en í þeim efnum skiptir engu þótt þeir hafi átt aðild að einkamáli, sem var undanfari fjárnámsins. Er málið að þessu leyti vanreifað og verður því kröfum varnaraðilanna Halldórs Ólafssonar og Grétars Ólafssonar vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Af dómi Héraðsdóms Suðurlands 10. júní 1998 er ljóst að í stefnu sóknaraðila í því máli kom skýrlega fram að krafan, sem hann beindi þar að varnaraðilum, væri að fjárhæð 604.248 krónur og ætti rætur að rekja til lífeyrissjóðsiðgjalda vegna nafngreinds starfsmanns þeirra frá árunum 1988 til 1996, að árinu 1991 undanskildu. Eftir birtingu stefnunnar greiddi varnaraðilinn Dalverk sf. lögmanni sóknaraðila fyrrnefndar 400.000 krónur inn á skuldina. Í kvittun lögmannsins 25. mars 1998 fyrir þessari greiðslu var meðal annars svofelld lýsing á kröfunni: „Vangreidd iðgjöld árin 1988, 1989, 1990, 1992, 1993, 1994, 1995 og 1996“. Þar á eftir var greint frá stöðu kröfunnar. Var höfuðstóll hennar sagður vera sama fjárhæð og áður er getið, áfallnir dráttarvextir til dagsetningar kvittunarinnar 739.540 krónur, málskostnaður 183.062 krónur og vextir af kostnaði 77 krónur, en alls voru þetta 1.526.927 krónur. Í kvittuninni kom fram að eftir innborgunina væru eftirstöðvar skuldarinnar 1.126.927 krónur. Af þessum atriðum í stefnu sóknaraðila og kvittun lögmanns hans mátti varnaraðilanum Dalverki sf. vera fyllilega ljóst að sóknaraðili héldi fram kröfu sinni alls óskertri, þótt hluti hennar væri sýnilega eldri en nam fyrningarfresti kröfu þessarar tegundar. Allt að einu innti varnaraðilinn af hendi innborgun á kröfuna og gerði hvorki fyrirvara um rétt sinn til að bera við fyrningu né áskilnað um að greiðslan yrði látin ganga inn á ákveðinn hluta skuldarinnar. Lagði hann þar með á vald sóknaraðila að ákveða hvernig innborguninni yrði ráðstafað. Sóknaraðila var þannig heimilt að láta hana ganga inn á elsta hluta skuldarinnar og getur hún því ekki komið til frádráttar kröfu hans samkvæmt héraðsdóminum frá 10. júní 1998.

Sóknaraðila var sem áður segir send greiðsla 22. október 1998 að fjárhæð 318.185 krónur, að ætla verður frá varnaraðilum í sameiningu. Í bréfi lögmanns þeirra, sem fylgdi greiðslunni, kom ótvírætt fram að hún væri innt af hendi vegna dóms Héraðsdóms Suðurlands í fyrrnefndu máli. Sóknaraðila bar því að fara með greiðsluna sem borgun inn á þann hluta kröfu sinnar, sem dómur hafði fengist fyrir. Af endurriti fjárnámsins frá 3. desember 1998, sem deilt er um í þessu máli, verður ráðið að sóknaraðili taldi kröfu sína alls nema 777.337 krónum, en tók ekkert tillit þar til umræddrar innborgunar varnaraðila á 318.185 krónum.

Samkvæmt framangreindu verður fallist á kröfu sóknaraðila um að fjárnám sýslumannsins á Selfossi 3. desember 1998 hjá varnaraðilanum Dalverki sf. verði staðfest, en þó með þeirri breytingu að frá kröfu sóknaraðila, sem fjárnám var gert fyrir, dragist 318.185 krónur.

Rétt þykir að hver aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.                  Dómsorð:

Málinu er vísað frá héraðsdómi að því er varðar varnaraðilana Halldór Ólafsson og Grétar Ólafsson.

Fjárnám, sem sýslumaðurinn á Selfossi gerði 3. desember 1998 fyrir kröfu sóknaraðila, Lífeyrissjóðs verkalýðsfélaganna á Suðurlandi, á hendur varnaraðilanum Dalverki sf. er staðfest með þeirri breytingu, að til frádráttar þargreindri kröfu sóknaraðila koma 318.185 krónur.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. febrúar 1999.

                Með bréfi er barst dóminum 16. desember 1998 skutu Dalverk sf., kt. 490175-0169, Halldór Ólafsson, kt. 010251-2149 og Grétar Ólafsson, kt. 140247-4569, til héraðsdóms fjárnámsgerð er sýslumaðurinn á Selfossi framkvæmdi 3. desember að kröfu Lífeyrissjóðs verkalýðsfélaga á Suðurlandi, kt. 460172-0479.

                Sóknaraðilar krefjast þess að fjárnámið verði ógilt.  Þá krefjast þeir málskostnaðar.

                Varnaraðili krefst þess að fjárnámsgerðin verði staðfest.

                Málið var tekið til úrskurðar 26. fyrra mánaðar.

                Umdeilt fjárnám var gert til lúkningar kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðilum.  Fjárnámsheimild var dómur Héraðsdóms Suðurlands 10. júní 1998.  Sóknaraðilar telja að krafan samkvæmt dóminum sé að fullu greidd, en varnaraðili telur svo ekki vera.

                Stefna málsins var birt 9. og 11. mars 1998 og það þingfest 25. sama mánaðar.  Í stefnu var krafist greiðslu á kr. 604.248 auk vaxta og kostnaðar.  Var um að ræða vangreidd lífeyrissjóðsiðgjöld vegna starfsmanns sóknaraðila árin 1988-1990 og 1992-1996. 

                Sóknaraðilar sóttu ekki þing, en á þingfestingardegi greiddu þeir kr. 400.000 inn á skuldina á skrifstofu lögmanns varnaraðila.  Dómur var kveðinn upp í málinu 10. júní, en varnaðili hafði ekki breytt kröfugerð sinni að neinu leyti.  Í dóminum var fallist á kröfur stefnanda með þeirri breytingu að hluti þeirra var talinn fyrndur og voru dæmdar kr. 396.134, auk vaxta og kr. 68.000 í málskostnað.

                Varnaraðili áfrýjaði málinu, en féll síðan frá áfrýjun og kveðst sóknaraðili þá hafa greitt kr. 318.185, sem hann telur að ásamt greiðslunni 25. mars sé fullnaðargreiðsla á kröfu varnaraðila. 

                Sóknaraðilar halda því fram að greiðslurnar tvær, samtals kr. 718.185 séu fullnaðargreiðsla á kröfu varnaraðila.  Varnaraðili eigi ekki lögvarða kröfu umfram það sem viðurkennt sé í dóminum 10. júní.  Sé honum óheimilt að ráðstafa innborgun upp í kröfu, sem ekki sé lögvarin, sé fallin niður fyrir fyrningu.  Telja þeir að skuldari verði að samþykkja sérstaklega greiðslu upp í fyrnda kröfu.

                Varnaraðili mótmælir því ekki að greiðslur sóknaraðila hafi samtals verið nægilega háar til að ljúka greiðslu á skuld skv. dóminum 10. júní.  Hann heldur því fram að þegar greiddar voru kr. 400.000 hinn 25. mars hafi ekki verið höfð uppi nein andmæli um að hluti höfuðstóls og vaxta væri fyrndur.  Greiðslunni hafi verið ráðstafað upp í elsta hluta skuldarinnar og því hafi ekki verið mótmælt og ekki hafi verið hafður uppi áskilnaður um aðra ráðstöfun greiðslunnar.

                Varnaraðili telur að venja standi til þess í íslenskum og norrænum rétti, að ráðstafa innborgun upp í elsta hluta skuldar, komi ekki fram krafa eða áskilnaður um aðra tilhögun af hálfu skuldarans.  Þá segir varnaraðili að fræðimenn séu sammála um að kröfuhafa sé heimilt að ráðstafa innborgun upp í skuld, sem sé fyrnd, hafi skuldari ekki uppi andmæli gegn fyrningu eða geri kröfu eða hafi upp sérstakan áskilnað um aðra ráðstöfun.  Í þessu máli hafi ekki verið höfð uppi andmæli byggð á fyrningu og ekki gerður áskilnaður um ráðstöfun greiðslunnar þann 25. mars.  Hafi sér því verið heimilt að ráðstafa greiðslunni upp í elsta hluta skuldarinnar og skipti engu þó hann hafi þá verið fyrndur.

                Varnaraðili mótmælir sérstaklega málskostnaðarkröfu sóknaraðila, þar sem hún kom ekki fram fyrr en í málflutningsræðu lögmanns sóknaraðila.

Niðurstaða.

                Staðhæfing varnaraðila um að gildandi sé sú regla að ráðstafa megi innborgun á skuld upp í elsta hluta skuldarinnar er rétt.  Vísa má um þetta til Kröfuréttar Páls Sigurðssonar, bls. 135-137, og greinar Stig Jörgensen í UfR B 1960, bls. 197.  Virðist af þessum skrifum mega sjá þá meginreglu að greiðandi megi ákveða hvað hann greiði, en ef hann ákveði ekki tilhögun þá megi kröfuhafi ráðstafa innborgun eftir eigin höfði.  Sama regla gildir í þýskum rétti, þó þannig að hlutlæg atriði ákveða ráðstöfun greiðslu ef skuldari ákveður hana ekki, sbr. 366. gr. BGB.

                Í öðru samhengi er einnig rétt sú staðhæfing varnaraðila að skuldara sé heimilt að greiða fyrnda kröfu.  Reynir þá á hvort fullnægt er skilyrðum fyrir endurgreiðslu ofgreidds fjár.  Ekki verður fjallað nánar um þau skilyrði í þessum úrskurði, en í ofangreindum tilvitnunum má ekki sjá neina stoð fyrir því að kröfuhafa sé heimilt að ráðstafa innborgun upp í fyrnda kröfu, þegar ófyrndar kröfur eru ógreiddar.  Sóknaraðili hefur hvorki í orði né verki sýnt vilja til að greiða fyrndar kröfur varnaraðila og var því engin heimild til þess að ráðstafa greiðslunum upp í fyrndar kröfur. 

                Þar sem ráðstafa ber greiðslunni 25. mars inn á þann hluta kröfunnar sem ófyrndur var verður í samræmi við málflutning aðila að miða við að kröfur varnaraðila hafi verið að fullu greiddar er umdeilt fjárnám var gert.  Verður því að fella það úr gildi.

                Sóknaraðili krafðist málskostnaðar fyrst í fyrri málflutningsræðu við aðalmeðferð.  Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 93. gr. laga nr. 90/1989 skal í tilkynningu um málskot til héraðsdóms greina hvers krafist sé.  Er það í samræmi við þá meginreglu réttarfars að allar kröfur skuli koma fram þá tilefni gefst.  Ber þegar af þessari ástæðu að fella málskostnað niður.

                Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Úskurðarorð:

                Framangreint fjárnám gert 3. desember 1998 að kröfu varnaraðila, Lífeyrissjóðs verkalýðsfélaga á Suðurlandi, mál nr. 033-1998-01011, er fellt úr gildi.

                Málskostnaður fellur niður.