Hæstiréttur íslands

Mál nr. 321/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


         

Föstudaginn 15. júní 2007

Nr. 321/2007.

Sýslumaðurinn á Ísafirði

(Ólafur Hallgrímsson fulltrúi)

gegn

X

(Björn Jóhannesson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. júní 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 13. júní 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengi í máli hans, þó ekki lengur en til þriðjudagsins 3. júlí 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

          Fram er komið að varnaraðili fór á neðri hæð húss síns og kom aftur upp á aðra hæð þess með hlaðna byssu. Elti hann eiginkonu sína og fór skot úr byssunni í konuna þegar hún var á leið undan varnaraðila út úr húsinu. Er fallist á með héraðsdómara að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi varnaraðila. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

          Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 3. júlí 2007 kl. 16.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 13. júní 2007.

Mál þetta barst dómnum í gær og var tekið til úrskurðar á dómþingi samdægurs.

Sýslumaðurinn á Ísafirði krefst þess að kærða, X, [kt. og heimilisfang], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til og með þriðjudagsins 3. júlí 2007, klukkan 16:00.

Kærði krefst þess að kröfunni verði hafnað, en ella verði varðhaldinu markaður skemmri tími en krafist er.

Fyrir liggur að kærði, að undangenginni einhverri áfengisneyslu, vopnaðist einhleyptri hlaðinni haglabyssu á heimili sínu að kvöldi 8. júní sl. og ógnaði með henni eiginkonu sinni. Flúði hún heimilið. Er hún var búin að opna útidyr hússins og var stödd í dyrunum hljóp skot úr byssunni. Fór skotið svo nálægt konunni að treyja hennar rifnaði og samkvæmt áverkavottorði voru yfirborðskenndar húðrispur við hægra munnvik og hægra nasavæng hennar og í þeim smá blóðdreggjar. Konan komst undan en kærði varð eftir í húsinu. Sérsveit lögreglunnar var kölluð til og yfirbugaði hún kærða um nóttina. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald daginn eftir, allt til 15. júní n.k.

Rannsóknari kveður rannsóknina hafa beinst að því að upplýsa hver ásetningur kærða hafi verið. Rannsókn á vettvangi sé á lokastigi, en úrvinnsla sönnunargagna hafi ekki farið fram. Af rannsókn á vettvangi og sviðsetningu atburða megi ráða að skot hafi ekki hlaupið með þeim hætti úr byssunni sem kærði haldi fram, heldur að hleypt hafi verið úr henni í axlarhæð. Verði ekki litið svo á að um slysaskot hafi verið að ræða. Þá hafi kærði hlaðið byssuna og þannig undirbúið verknaðinn. Áverkar á andliti konunnar beri með sér að vera af völdum hagla úr byssunni og hún beri að hafa fundið eitthvað strjúkast við vangann er hleypt var af.

Rannsóknari kveður liggja fyrir að ekki séu lengur forsendur fyrir að kærði sæti gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarhagsmuna. Sé því nauðsynlegt að fara fram á gæsluvarðhald með vísan til alvarleika brotsins, sem geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Sé brotið þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

Rannsóknari telur kærða hafa gerst sekan um háttsemi sem varði við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara að hún varði við 2. mgr. 218. gr. sömu laga, en til þrautavara 21. gr., sbr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998. Gæsluvarðhalds er krafist með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Kærði mótmælir kröfunni og tekur fram að hann hafi aldrei ætlað að valda eiginkonu sinni skaða. Hann kveðst hafa haldið á byssunni í vinstri hönd er eiginkona hans var að opna útidyr og beint hlaupinu upp í loft. Útidyrahurðin hafi rekist í hægri vanga sinn og þá hafi hann misst tak á byssunni þannig að hún beindist fram á við og skot hljóp jafnharðan úr henni.

Kærði mun hafa staðið rétt aftan við eiginkonu sína er skotið hljóp af. Samkvæmt skýrslu hennar fyrir lögreglu sá hún hlaup byssunnar beinast að sér er hún var að opna útidyrnar.

Ljósmyndir sem eru meðal rannsóknargagna benda til þess að byssan hafi verið í axlarhæð er skotið hljóp úr henni. Óljóst er hvað kærða gekk til með því að hlaða byssuna og ógna konu sinni með henni. Þrátt fyrir neitun kærða verður á þessu stigi málsins að fallast á það með rannsóknara að sterkur grunur beinist að honum um að hafa af ásetningi hleypt skotinu af og gerst með því sekur um brot sem heimfært verði til 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að líkamlegir áverkar af verknaðinum séu afar litlir, er það brot sem kærði er grunaður um, sérstaklega með tilliti til þess verkfæris sem hann beitti, svo alvarlegs eðlis að fallast verður á það að ætla megi að áframhaldandi varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Er samkvæmt þessu fullnægt skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrir áframhaldandi varðhaldi. Verður því fallist á kröfu rannsóknara eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðinn kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó ekki lengur en til þriðjudagsins 3. júlí 2007, klukkan 16:00.