Hæstiréttur íslands
Mál nr. 627/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaðartrygging
|
|
Fimmtudaginn 11. október 2012. |
|
Nr. 627/2012. |
Erna Valsdóttir og Fasteignakaup ehf. (Sveinn Skúlason
hdl.) gegn Heimiliskaupum ehf. (Jóhannes
Sigurðsson hrl.) |
Kærumál.
Málskostnaðartrygging
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem
hafnað var kröfu E og F um að H ehf. yrði gert að leggja fram
málskostnaðartryggingu. Kröfu sinni til stuðnings vísuðu E og F til þess að
samkvæmt ársreikningi H ehf. fyrir árið 2010 hafði verið tap á rekstri félagsins
það ár og eigið fé þess neikvætt. Auk þess var getið um vanskil H ehf. á
vanskilaskrá. Ekki var talið að E og F hefðu með þessu leitt nægar líkur að því
að H ehf. væri nú ófært um greiðslu málskostnaðar og var hinn kærði úrskurður
því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál
þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og
Eiríkur Tómasson.
Sóknaraðilar
skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 24. september 2012 sem barst réttinum
ásamt kærumálsgögnum 3. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms
Reykjavíkur 18. september 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að
varnaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli á
hendur þeim og Tryggingamiðstöðinni hf. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr.
laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess varnaraðila
verði gert að setja málskostnaðartryggingu að fjárhæð 3.000.000 krónur fyrir
hvorn sóknaraðila um sig. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.
Varnaraðili
krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðilar
reisa kröfu sína á því að varnaraðili sé ófær um greiðslu málskostnaðar, sbr.
b. lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Vísa þeir til þess að samkvæmt
ársreikningi varnaraðila fyrir árið 2010 hafi verið tap á rekstri hans það ár
og eigið fé hans neikvætt um 621.400.000 krónur. Sóknaraðilar vísa einnig til
þess að í framlagðri útskrift úr vanskilaskrá sé í sex tilvikum getið um
vanskil varnaraðila við nafngreindan banka á kröfum samkvæmt skuldabréfum.
Af
ársreikningi varnaraðila fyrir árið 2010 verða ekki dregnar viðhlítandi
ályktanir um hvort hann sé ófær nú um að greiða málskostnað sem kynni að verða
felldur á hann í máli þessu. Í framlögðum gögnum um færslur í vanskilaskrá
kemur ekkert fram um fjárhæðir vanskila við áðurnefndan banka eða hvort þau
standi enn, en færslur þessar voru skráðar þar á tímabilinu frá mars 2009 til
janúar 2010. Einnig er til þess að líta að samkvæmt gögnum, sem varnaraðili
hefur lagt fyrir Hæstarétt, gerði hann samning við Landsbankann hf. 20.
september 2012 um fjárhagslega endurskipulagningu, sem felur meðal annars í sér
að skuldir hans við bankann verða felldar niður að stórum hluta, auk þess sem
hann hefur lagt fram yfirlýsingu löggilts endurskoðanda um áhrif þess samnings á
efnahag hans . Af þessum sökum hafa sóknaraðilar ekki leitt nægar líkur að því að
varnaraðili sé ófær um greiðslu málskostnaðar þannig að fullnægt sé skilyrðum
fyrir því að honum verði gert að setja tryggingu í því skyni samkvæmt b. lið 1.
mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.
Sóknaraðilar verða dæmdir til að greiða
kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Erna Valsdóttir og Fasteignakaup ehf., greiði
í sameiningu varnaraðila, Heimiliskaupum ehf., 250.000 krónur í
kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. september 2012.
I
Mál þetta,
sem var tekið til úrskurðar 13. september sl., er höfðað af Heimiliskaupum
ehf., Suðurlandsbraut 8, Reykjavík, á hendur Ernu Valsdóttur, Flókagötu 67,
Fasteignakaupum ehf., Ármúla 15 og Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24,
einnig í Reykjavík.
Stefnandi
krefst þess aðallega að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda in solidum skaðabætur að fjárhæð
13.046.196 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um
vexti og verðtryggingu, frá 31. desember 2009 til 6. febrúar 2010, en
dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim
degi til greiðsludags.
Til vara
krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda in solidum skaðabætur að álitum.
Stefnandi
krefst þess einnig að stefndu verði dæmd til að greiða honum málskostnað að
mati dómsins eða samkvæmt fram lögðum málskostnaðarreikningi og að tekið verði
tillit til virðisaukaskattskyldu stefnanda.
Við
þingfestingu málsins, 4. september sl., kröfðust stefndu Erna Valsdóttir og
Fasteignakaup ehf. málskostnaðartryggingar úr hendi stefnanda með vísan til
b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, vegna líkinda
fyrir ógjaldfærni stefnanda. Einnig krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi
stefnanda í þessum þætti málsins. Munnlegur málflutningur fór fram um þessa
kröfu stefndu 13. september sl.
Stefnandi
mótmælir kröfunni.
I
Til
stuðnings þeirri kröfu að stefnanda verði gert að setja málskostnaðartryggingu
vísa stefndu til þess að samkvæmt fram lögðum ársreikningi fyrir reikningsárið
2010 hafi verið tap á rekstri stefnanda að fjárhæð 24,9 milljónir króna, auk
þess sem eigið fé hans sé neikvætt um 621,4 milljónir króna. Kröfur í eigu
stefnanda, samtals að fjárhæð 1.165 milljónir, hafi verið afskrifaðar að fullu.
Fram komi í áritun endurskoðanda á ársreikningnum að veruleg óvissa sé um
rekstrarhæfi stefnanda. Stefnandi hafi ekki skilað yngri ársreikningi til
ársreikningaskrár þrátt fyrir að frestur til þess sé nú liðinn. Stefndu byggja
á því að ársreikningur sé öruggari heimild en árangurslaus fjárnám, enda verði
fjárnámi lokið sem árangurslausu ef fyrirsvarsmaður gerðarþola mæti ekki hjá
sýslumanni. Einnig hafi skuldir stefnanda við Landsbanka Íslands hf. verið gjaldfelldar.
Augljóst sé að stefnandi sé orðinn gjaldþrota í skilningi 64. gr. laga nr.
21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og beri stjórnarmönnum hans að gefa bú
stefnanda upp til gjaldþrotaskipta. Telja stefndu að af þessum upplýsingum megi
leiða líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar sem á hann
kynni að vera lagður í málinu. Því sé fullnægt skilyrði b-liðar 1. mgr. 133.
gr. laga nr. 91/1991 fyrir því að stefnanda verði gert að setja tryggingu fyrir
greiðslu málskostnaðar. Það hvíli á stefnanda að hnekkja þessum líkum fyrir
ógjaldfærni sinni, en það hafi hann ekki gert.
Stefndu
telja að hæfileg trygging nemi þremur milljónum króna fyrir hvorn stefndu, en
mögulega verði farið fram á dómkvaðningu matsmanna í málinu.
II
Stefnandi
vísar til þess að skilyrði fyrir því að stefnanda máls verði gert að setja
tryggingu fyrir málskostnaði komi fram í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, um
meðferð einkamála. Stefnandi sé í fullum rekstri og vinni að endurskipulagningu
rekstrar síns í samvinnu við Landsbanka Íslands hf. Háar skuldir stefnanda séu
vegna lána með ólöglega gengistryggingu. Algengt sé að félög séu með neikvætt
eigið fé. Stefnandi sé ekki í þeirri stöðu að stjórnarmönnum hans sé skylt að
gefa bú hans upp til gjaldþrotaskipta samkvæmt 2. mgr. 64. gr. laga nr.
21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Að lokum mótmælir stefnandi umkrafinni
fjárhæð málskostnaðartryggingar og telur hana úr hófi. Hæfileg trygging væri í
kringum 500.000 krónur.
III
Samkvæmt
b-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, getur stefndi
krafist þess, við þingfestingu máls, að stefnandi setji tryggingu fyrir
greiðslu málskostnaðar megi leiða líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu
málskostnaðar sem á hann kunni að falla í málinu.
Stefndu,
Erna Valsdóttir og Fasteignakaup ehf., byggja á því að lesið verði úr
ársreikningi stefnanda fyrir árið 2010 að hann sé ógjaldfær. Samkvæmt 2. mgr.
65. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., er það skilyrði fyrir því
að fjárnámsgerð, sem er árangurslaus að öllu eða að hluta, geti verið
grundvöllur gjaldþrotaskipta að hún hafi farið fram á síðustu þremur mánuðum
fyrir frestdag, það er þann dag þegar dómara berst beiðni um töku einstaklings
eða fyrirtækis til gjaldþrotaskipta. Árangurslausar fjárnámsgerðir, sem hafa
farið fram fyrir þann tíma, þykja ekki geta gefið afdráttarlausa mynd af
ógjaldfærni skuldara. Að mati dómsins gildir hið sama um aðrar upplýsingar um
fjárhagsstöðu stefnanda, að því eldri sem þær eru, því lakari mynd gefi þær af
fjárhagsstöðu hans. Þegar krafa stefnda var tekin til úrskurðar, 13. september
sl., voru liðnir rétt um 20 mánuðir frá lokum ársins 2010. Þykir ársreikningur
stefnanda fyrir það ár því ekki geta gefið rétta mynd af gjaldfærni hans nú.
Þar sem
stefndu hafa ekki fært fram önnur gögn til stuðnings kröfu sinni þykja þau ekki
hafa fært sönnur fyrir því að stefnandi sé ófær um að greiða þann málskostnað
sem kann að verða felldur á hann í þessu máli. Hafa stefndu því ekki sýnt fram
á að fullnægt sé skilyrði b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Verður því
að hafna kröfu þeirra um að stefnandi leggi fram málskostnaðartryggingu.
Af hálfu
stefnanda var ekki krafist málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins.
Ingimundur
Einarsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Hafnað er
kröfu stefndu, Ernu Valsdóttur og Fasteignakaupa ehf., um að stefnanda,
Heimiliskaupum ehf., verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu
málskostnaðar.