Hæstiréttur íslands
Mál nr. 154/2009
Lykilorð
- Brot gegn valdstjórninni
- Líkamsárás
- Þjófnaður
- Hegningarauki
- Skilorðsrof
- Skaðabætur
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 18. júní 2009. |
|
Nr. 154/2009. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn Árnýju Evu Davíðsdóttur(Kristján Stefánsson hrl.) (Berglind Svavarsdóttir hrl.) |
Brot gegn valdstjórninni. Líkamsárás. Þjófnaður. Hegningarauki. Skilorðsrof. Skaðabætur. Skilorð.
X var ákærð fyrir brot gegn valdstjórninni með því að veist að starfsmönnum fjölskyldudeildar A og slegið, meðal annars einn starfsmann með glerbroti. Var henni einnig gefið að sök að hafa hótað starfsmönnum fjölskyldudeildarinnar lífláti og einum starfsmanni að smita hann af HIV-sjúkdómi. Þá var X jafnframt ákærð fyrir þjófnað. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu X. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að með einu brotanna rauf hún skilorð. Var refsing X samkvæmt þessu hæfilega ákveðin fangelsi í fimmtán mánuði, en fullnustu refsingarinnar var frestað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. mars 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærðu, en refsing hennar þyngd.
A krefst þess að ákærðu verði gert að greiða sér 1.059.350 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. nóvember 2007 til 14. febrúar 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar.
B krefst þess að ákærðu verði gert að greiða sér 500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. nóvember 2007 til 14. febrúar 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar.
Ákærða krefst aðallega sýknu af öðrum sökum en þeim, sem greinir í ákæru 7. apríl 2008, og verði henni gerð vægasta refsing sem lög leyfa fyrir þær. Til vara krefst hún að sér verði ekki gerð refsing fyrir háttsemi sem lýst er í ákæru 26. febrúar 2008. Að því frágengnu krefst hún þess að refsing verði milduð. Þá krefst hún þess aðallega að kröfum A, B, C og Akureyrarbæjar um skaðabætur verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að bæturnar til B og A verði lækkaðar.
Af hálfu ákærðu var lögð fyrir Hæstarétti yfirlýsing D um að hún hafi samið um og fengið greiddar skaðabætur úr hendi ákærðu og geri því engar kröfur á hendur henni.
Fallist er á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærðu.
Sakaferli ákærðu er rétt lýst í héraðsdómi. Brot þau sem hún er nú sakfelld fyrir voru framin 6. apríl 2006, 6. nóvember 2007 og 12. mars 2008. Með dómi 29. nóvember 2007 var hún dæmd í þriggja mánaða fangelsi skilorðsbundið í þrjú ár. Verður henni nú ákveðin refsing í einu lagi fyrir brot sem þar um ræðir og þau brot sem hún er nú sakfelld fyrir, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. og 77. gr. og 78. gr. sömu laga.
Við ákvörðun refsingar ákærðu verður tekið tillit til þess að með broti því sem hún framdi 12. mars 2008 rauf hún skilorð dómsins frá 29. nóvember 2007. Er refsing ákærðu samkvæmt þessu hæfilega ákveðin fangelsi í fimmtán mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ekki eru rök til að vísa frá héraðsdómi kröfum B, A, C og Akureyrarbæjar. Kemur niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð skaðabóta til hinna tveggja fyrsttöldu einungis til endurskoðunar. Staðfest er niðurstaða héraðsdóms um miskabætur úr hendi ákærðu 250.000 krónur til B. Að virtum atvikum málsins eru miskabætur til A hæfilega ákveðnar 500.000 krónur, sem ákærðu verður gert að greiða ásamt 59.350 krónum vegna munatjóns, eða alls 559.350 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Eins og úrslit verða um bætur úr hendi ákærðu til B og A eru ekki efni til að dæma þeim málskostnað fyrir Hæstarétti.
Niðurstaða héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærða greiði allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærða, Árný Eva Davíðsdóttir, sæti fangelsi í fimmtán mánuði. Fullnustu refsingarinnar skal frestað og hún niður falla að liðnum þremur árum ef ákærða heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærða greiði A 559.350 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. nóvember 2007 til 14. febrúar 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um greiðslu úr hendi ákærðu til B, C og Akureyrarbæjar skulu vera óröskuð.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærða greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 405.616 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. janúar 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 26. nóvember, er höfðað með tveimur ákærum á hendur Árnýju Evu Davíðsdóttur, kt. 060179-3959, Skálateigi 1, Akureyri. Sú fyrri er gefin út af ríkissaksóknara hinn 26. febrúar 2008 og er „fyrir brot gegn valdstjórninni, gagnvart starfsmönnum Fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar, vegna starfa þeirra, eins og hér greinir:
1. Fimmtudaginn 6. apríl 2006, með því að hafa, í afgreiðslu skrifstofu Fjölskyldudeildar að Glerárgötu 26, Akureyri, veist að B og slegið hana hnefahögg vinstra megin í höfuðið með þeim afleiðingum að hún hlaut þar þreyfieymsli og kúlu.
2. Þriðjudaginn 6. nóvember 2007, með því að hafa, í afgreiðslu fjölskyldudeildar, hótað að smita C af HIV sjúkdómi.
3. Með því að hafa, á sama stað og tíma og greinir í 2. ákærulið og í framhaldi af atvikum sem þar er greint frá, veist að A og slegið hana einu sinni í andlitið með blóðugu glerbroti og einu sinni á kinn með flötum lófa, með þeim afleiðingum að A hlaut þriggja cm langan skurð fyrir neðan vinstra auga, grunna rispu niður vinstri kinn, eins cm langan skurð við vinstra eyra og mar og bólgu yfir vinstra kinnbeini auk þess sem hætta skapaðist á því að ákærða hefði smitað hana af lifrabólgu B og C.
4. Með því að hafa, sama dag og í framhaldi af þeim atvikum sem lýst er í 2. og 3. ákærulið, á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, við Eyrarlandsveg, Akureyri, hótað B og A, lífláti.
Teljast ofangreind brot ákærðu varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum, en brot ákærðu samkvæmt ákærulið 3 að auki við 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar.
Bótakröfur:
Af hálfu B, kennitala [...], er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 500.000.
Af hálfu A, kennitala [...], er krafist skaða- og miskabóta að fjárhæð kr. 1.059.350.
Af hálfu C, kennitala [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 5.990.
Af hálfu Akureyrarbæjar, kennitala 410169-6229, er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 36.464.
Þess er krafist að ofangreindar kröfur beri allar vexti frá 6. nóvember 2007 samkvæmt lögum 38/2001 um vexti og verðtryggingu en síðan dráttarvexti samkvæmt sömu lögum.“
Síðari ákæran er gefin út af sýslumanninum á Akureyri hinn 7. apríl 2008 og er „fyrir þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 12. mars 2008, á líkamsræktarstöðinni Bjargi, Bugðusíðu 1 á Akureyri, stolið greiðslukorti og GSM síma af gerðinni Motorola, en kortið notaði hún síðan við að stela kr. 50.000- út af greiðslukortareikningi eiganda kortsins og símans, D, kt. [...], með því að nota pin-númer, sem D hafði vistað í símanum til að ná út peningum í hraðbönkum að Glerártorgi og Strandgötu 1 á Akureyri.
Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar.
Í málinu gerir D, kt. [...],[...], Akureyri, bótakröfu á hendur ákærðu að fjárhæð kr. 50.500-.“
Ákærða neitar sök að öllu leyti samkvæmt ákæru ríkissaksóknara og krefst þar sýknu. Hún krefst frávísunar bótakrafna samkvæmt þeirri ákæru, en til vara að hún verði af þeim sýknuð. Til þrautavara krefst hún lækkunar krafnanna. Hún játar hins vegar skýlaust sök samkvæmt ákæru sýslumanns og fellst á gerða bótakröfu þar. Hún krefst þess að sér verði ekki gerð refsing vegna þeirrar ákæru en til vara að ákveðin verði vægasta refsing er lög heimili.
Málin voru sameinuð. Sakflytjendur voru sammála um að sök ákærðu teldist sönnuð að því er ákæru sýslumanns varðaði og væri þar ekki þörf sérstakrar sönnunarfærslu. Með skýlausri játningu ákærðu, sem fær stoð í gögnum málsins og ekki þykir ástæða til að draga í efa, er hún sönn að sök samkvæmt þeirri ákæru og hefur unnið sér til refsingar.
Víkur þá sögunni að ákæru ríkissaksóknara.
Málavextir.
Ákæruliður I
Samkvæmt lögregluskýrslu er liggur fyrir í málinu, kom B til lögreglunnar á Akureyri hinn 4. desember 2007 og kærði Árnýju Evu Davíðsdóttur, ákærðu í þessu máli, fyrir líkamsárás og hótanir sem hún hefði orðið fyrir af hálfu ákærðu hinn 6. apríl 2006. Umræddan dag hefði B verið við vinnu sína á fjölskyldudeild Akureyrar þegar ákærða hefði orðið á vegi hennar, og hefði ákærða slegið til sín, með krepptum hnefa, og hún fengið þungt högg ofarlega á höfði, vinstra megin. Þá hafi ákærða, í viðtali við starfsmanninn E, haft í frammi hótanir í sinn garð, sem og við önnur tækifæri allt frá árinu 2005, jafnt við sig beint sem og í gegnum aðra.
Í málinu liggur fyrir bréf H deildarstjóra fjölskyldudeildar Akureyrar til lögreglu, dagsett 21. apríl 2006, þar sem hún kveðst tilkynna um ofbeldi gagnvart opinberum starfsmanni, B, er hinn 6. apríl 2006 hafi orðið í húsnæði fjölskyldudeildar með þeim hætti að ákærða hafi slegið B með krepptum hnefa í höfuðið svo B hafi fengið kúlu. Í viðtali skömmu áður hafi ákærða verið með hótanir í garð B.
Í málinu liggur fyrir lögregluskýrsla er tekin var af ákærðu hinn 14. janúar 2008. Er þar haft eftir ákærðu að hún muni eftir atvikinu, hún hafi verið í viðtali á fjölskyldudeildinni og orðin „æst og pirruð“. Segir svo í skýrslunni: „Árný segir að mikil reiði hafi hlaðist upp hjá henni og þegar hún var að fara mæti hún B í dyrunum að skrifstofunni þar sem hún hafði verið í viðtali. Þá skipti það engum togum að hún slái B í höfuðið eitt högg. Síðan rjúki hún bara áfram og út. Hún kveðst ekki muna hvort hún sló B með krepptum hnefa eða flötum lófa.“ Segir í skýrslunni að ákærðu hafi verið kynnt bótakrafa sem hún hafi hafnað.
Þá liggur fyrir í málinu áverkavottorð, dagsett 4. desember 2007 og undirritað af Val Þór Marteinssyni lækni við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Segir þar að B hafi leitað á slysadeild hinn 7. apríl 2006 þar hún hafi daginn áður fengið hnefahögg í höfuð. Segir meðal annars um hana í vottorðinu: „Var með væg eymsli á gagnaugasvæði vinstra megin en engin ör eða skurði, nokkurra millimetr[a] stór kúla var á höfðinu á áður nefndum stað en ekkert mar undir eða merki um áverka af dýpri toga.“ Segir jafnframt að B virðist ekki hafa orðið fyrir alvarlegum áverka og engin merki séu um taugakerfisskaða og engin um heilahristing. Batahorfur ágætar.
Ákæruliðir II og III
Samkvæmt lögregluskýrslu er liggur fyrir í málinu var kl. 09:48 hinn 6. nóvember 2007 hringt til lögreglunnar á Akureyri og óskað tafarlausrar aðstoðar á fjölskyldudeild Akureyrar, þar sem ákærða hefði „brjálast og veist að starfsmanni með ofbeldi“. Lögregla hafi þegar haldið á vettvang, en þá séð hvar ákærða hefði verið á hlaupum suður Glerárgötu. Lögregla hefði ekið að henni og hún þá óðar komið upp í bifreiðina, blóðug á höndum, grátandi og í miklu uppnámi. Hefði ákærða að eigin frumkvæði þegar skýrt frá því að hún hefði brotið glerkertastjaka í afgreiðslu fjölskyldudeildarinnar og skorið sig með brotunum. Hefði hún sagt starfsfólki þar að hún væri smituð af HIV og hygðist smita það. Því næst hefði hún ráðizt á einn starfsmann og skorið í andlit, en hlaupið út við svo búið. Hefði hún jafnframt tjáð lögreglu að HIV-smitið væri uppspuni sinn en hins vegar væri hún smituð af lifrarbólgu. Lögregla hafi farið með ákærðu á slysadeild til aðhlynningar. Þar hafi hitzt fyrir A, starfsmaður barnaverndarnefndar, og verið með skurð fyrir neðan vinstra auga og bólgin á vinstri kinn og gagnauga. Hefði hún tjáð lögreglu að ákærða hefði, í afgreiðslu fjölskyldudeildar, skorið hana í andlit með glerbroti og slegið svo nokkur högg í andlit og höfuð en því næst hlaupið út. Næst hefði lögregla farið á fjölskyldudeildina og þar hafi starfsmennirnir C og F sagt að ákærða hefði gripið lítinn glerkertastjaka og sagzt ætla að drepa sig. Hún hefði síðan farið inn á snyrtingu og læst að sér. Þaðan hefði heyrzt er hún hefði brotið kertastjakann og síðan hefði hún komið fram aftur, og þá verið alblóðug um hendur. Hefði hún stillt sér upp við hlið afgreiðsluborðsins, lyft upp blóðugum höndum og sagzt vera með AIDS og hyggjast smita þær. Í sömu andrá hefði A gengið um afgreiðsluna á útleið með syni sínum. Hefði ákærða þá ráðizt að henni og látið högg dynja á henni. C hafi sagzt hafa ýtt við ákærðu sem þá hefði rokið út.
Samkvæmt annarri lögregluskýrslu sem liggur fyrir í málinu, kom A til lögreglu hinn 7. nóvember 2007 og kærði þar líkamsárás er hún hefði orðið fyrir af hendi ákærðu degi áður. Er haft eftir A að hún hafi verið á útleið af fjölskyldudeildinni þegar hún hafi fengið högg á gagnauga vinstra megin, snúið sér við og þá fengið annað í höfuðið. Hafi hún séð að ákærða réðist á sig. Eftir árásina hafi hún fundið að mikið hafi blætt úr sári undir vinstra auga.
Í málinu liggur fyrir lögregluskýrsla sem tekin var af F, starfsmanni í afgreiðslu fjölskyldudeildar, hinn 12. nóvember 2007. Er þar haft eftir henni að hinn 7. nóvember 2007 hafi ákærða verið stödd þar, og svo hafi farið að ákærða hafi gengið að F og samstarfskonu hennar, C að nafni, blóðug á hönd og haldið á einhverju. Hafi ákærða sagzt vera smituð af HIV og ætla að smita þær. A hafi komið að, og hefði ákærða ráðizt að henni. Hafi F sýnzt ákærða kasta því, sem hún hefði haft í höndinni, í A, hluturinn hafi dottið í gólfið og blætt hefði úr andliti A. Þá er haft eftir F, að eftir að ákærða hefði verið farin af vettvangi hefði hún þurrkað blóðið af salernisgólfinu og „týndi glerbrotin á gólfinu á baðherberginu og í afgreiðslunni.“
Þá liggur fyrir í málinu lögregluskýrsla sem tekin var hinn 13. nóvember 2007 af C, starfsmanni fjölskyldudeildar. Er haft eftir henni, að hinn 6. nóvember 2007 hafi ákærða komið að henni og F, í afgreiðslu fjölskyldudeildarinnar, með aðra hönd blóðuga og krepptan hnefa, og hótað að smita þær af HIV. Hefði A þá gengið gegn um afgreiðsluna en ákærða snúizt að henni, og að því er C teldi, ráðizt að henni, „hún alla vega fór með hendurnar í andlitið á A “ og hafi A orðið blóðug í andliti eftir.
Í málinu liggur fyrir lögregluskýrsla er tekin var af ákærðu hinn 14. janúar 2008. Er þar meðal annars haft eftir henni: „A kom svo þarna gangandi og þá missti ég mig alveg vegna þess að barnaverndarnefnd er búin að eyðileggja líf mitt. Ég tók svo kertastjaka sem var þarna, braut hann og fór inn á baðherbergi þar sem ég skar mig í hendina enda langaði mig að drepa mig. Síðan fór ég fram aftur og þá var A þar. Ég barði hana strax í höfuðið og var með hluta af kertastjakanum í lófanum á meðan. Svo sló ég hana einu sinni í kinnina.“ Í skýrslunni er haft eftir ákærðu að hún neiti að hafa hótað að smita starfsfólk deildarinnar af HIV. Þá er haft eftir henni að henni þyki mjög miður að hafa ráðizt á A og meitt hana, því það hafi hún ekki átt skilið.
Í málinu liggur fyrir áverkavottorð um A , ritað af Ernu aðstoðarlækni við Fjórðungssjúkrahúsið og dagsett 5. desember 2007. Segir þar meðal annars: „Í andliti rétt neðan við vinstra auga er grunnur skurður ca 3 cm langur. Hann liggur í boga frá nefrót og niður út á kinn. Fyrir ofan liggur grunn rispa niður kinnina. Skurðurinn sjálfur leggst vel saman og næst að líma hann vel saman. ... Út við vinstra eyra er einnig lítill skurður, l-laga. Hann er rétt rúmur cm að lengd. Hann er grunnur og leggst vel saman. Ekki talin þörf á saumaskap og er hann því límdur saman og sett steristrip yfir. Yfir vinstra kinnbeini er svolítið mar og bólga, hún er heit og rauð þar viðkomu. Hún er aum þar viðkomu en þó ekki klínískt brotin. Ekki er að sjá fleiri áverka á höfuð- eða hálssvæði. Á hægra handarbaki er lítil rispa sem er hreinsuð og sett þar plaster yfir.“
Ákæruliður IV
Samkvæmt lögregluskýrslu sem liggur fyrir í málinu kom B á lögreglustöð hinn 8. nóvember 2007 og kærði hótun sem hún hefði orðið fyrir í anddyri slysadeildar Fjórðungssjúkrahússins hinn 6. nóvember. Hefði hún verið þar stödd ásamt A, þegar ákærða hefði þar haft uppi þá hótun að sitt helzta markmið í lífinu væri að fyrirkoma þeim tveimur áður en hún fyrirfæri sér. Er haft eftir B að ákærða hafi frá árinu 2005 ítrekað hótað henni lífláti.
Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglu sem liggur fyrir í málinu ræddi lögregla símleiðis við A hinn 23. nóvember 2007. Hafi hún þá sagzt hafa, hinn 6. nóvember, verið stödd á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins ásamt B þegar ákærða hefði komið þar að, ásamt tveimur lögregluþjónum. Hefði ákærða, strax og hún hafi séð þær B, sagt eitthvað á þessa leið: „Mér skal takast að drepa ykkur áður en ég drep mig.“ Engan hafi hún þó nafngreint.
Í málinu liggur fyrir lögregluskýrsla er tekin var af ákærðu hinn 14. janúar 2008. Er þar haft eftir henni að á slysadeild sjúkrahússins, hinn 6. nóvember 2007, hafi hún verið æst og vanstillt og ekki búin að ná sér niður eftir atvik sem orðið hafi á fjölskyldudeild bæjarins skömmu áður. Hún hafi séð þær B og A í móttökunni og þá sagt eitthvað á þá leið að hún ætlaði að drepa sjálfa sig og taka B með, eða þá að hún hygðist drepa sig og hefði engu að tapa þó hún tæki B með. Þetta hafi hún hins vegar ekki meint, aðeins talað svona í æsingi.
Verður nú rakinn framburður fyrir dómi eftir því sem ástæða þykir til.
Framburður ákærðu fyrir dómi.
Ákæruliður I
Ákærða kvaðst ekki muna eftir því atviki er greinir í ákærulið I og ekki eftir að hafa komið á fjölskyldudeild Akureyrarbæjar þann dag. Hún kvaðst þó muna eftir „rifrildum“ en ekki því að hafa slegið nokkurn. Samskiptum sínum og fjölskyldudeildar lýsti hún sem slæmum, eftir að fjölskyldudeildin hefði hlutazt til um að ákærða væri svipt börnum sínum. Hún kvaðst þó ekki geta lýst þeim samskiptum nánar, en það hefði ætíð kostað sig mikla fyrirhöfn að fá litla hjálp frá deildinni.
Ákærða kvaðst eiga tvö börn, annað fætt 23. maí 2005 og hitt 1. október 2003. Hefðu bæði börnin verið tekin úr sinni umsjá, að tilhlutan fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar. Samskipti hennar við fjölskyldudeildina hefðu fyrst og fremst verið við B, en einnig A, og væri ákærða viss um að B hefði ráðið mestu um þær ákvarðanir sem þar hefðu verið teknar. Hefði sér sýnzt fjölskyldudeildin fara sínu fram, óháð fyrirmælum dómstóla.
Ákærða sagðist hafa verið í slæmu ástandi á þeim tíma sem greinir í ákærulið I. Lýsti hún því með þeim orðum að andlega hefði hún verið „í tjóni“ og hefði auk þess leitað undan lífinu í hassreykingar og aðra fíkniefnaneyzlu. Hefði hún margsinnis reynt að fyrirfara sér.
Ákærða kvað sig ráma í skýrslu sem eftir henni er höfð 14. janúar og kannaðist við undirritun sína. Hún var spurð um þau orð sem eftir henni eru höfð að hún hafi verið æst og reið og slegið B er þær hefðu mætzt í dyrum að skrifstofu E. Ákærða kvað ekkert rifjast upp fyrir sér er hún sæi þetta skráð í skýrslunni.
Ákæruliður II
Ákærða kvaðst ekki muna til þess að hafa hótað C og ekki eftir því að hafa farið á fjölskyldudeildina umræddan dag. Þó rámaði hana í að hafa skorið sig. Kvaðst hún ekki þekkja C í sjón.
Ákærða kvaðst ekki vera smituð HIV og ekki muna sérstaklega til þess að hafa hótað nokkrum slíku smiti.
Ákærða sagðist oft hafa komið í afgreiðslu fjölskyldudeildar og hafa jafnan þótt það óþægilegt og viðmót starfsmanna fráhrindandi. Hefði sér liðið sem dæmdri manneskju frammi fyrir þeim.
Ákærða sagðist hafa veikzt. Hún hefði fengið áfallastreituröskun á háu stigi, fengið martraðir og átt bágt með svefn, jafnvel á svefnlyfjum. Í marz 2008 hefði hún verið lögð inn á sjúkrahús vegna sýkingar sem hefði leitt upp í heila, og hefði þurft höfuðaðgerð vegna þess og hefði ákærða legið alls þrjá mánuði á sjúkrahúsi. Hún kvaðst aldrei ná sér að fullu af þessum veikindum, skammtímaminni væri mjög slæmt, jafnvægisskyn slæmt og sjón sömuleiðis. Væri hún öryrki nú. Hún kvaðst stundum reykja hass, en hana langaði að komast til langtímameðferðar. Áfengi kvaðst hún ekki drekka. Hún hefði leitað sér aðstoðar hjá Sigmundi lækni Sigfússyni.
Ákærða kvaðst hafa vitað hún væri með lifrarbólgu af C-stofni og hafa vitað frá árinu 2005. Hún hefði hins vegar ekki verið smitberi. Þá sagði ákærða lifrarbólgu ekki mælast í sér nú.
Ákæruliður III
Ákærða kvaðst ekki hafa í huga sér nokkura skýra mynd af umræddum atburðum. Það hefði borið við að hún hefði hellt sér yfir „þetta fólk“, og þækti það leitt, en hún myndi ekki eftir þeim atburðum sem ákæruliður III tæki til. Á þessum tíma hefði hún neytt fíkniefna og myndi fátt. Andlegt ástand sitt hefði verið afar bágborið og lífslöngun lítil.
Ákærða var spurð um skýrslu, sem eftir henni er höfð 14. janúar 2008, þar sem eftir henni eru höfð orðin „síðan fór ég fram aftur og þá var A þar. Ég barði hana strax í höfuðið og var með hluta af kertastjakanum í lófanum á meðan. Svo sló ég hana einu sinni í kinnina“, og taldi hún að rétt væri eftir sér haft. Hún kvaðst þó lítt muna eftir skýrslutökunni en kvaðst þó muna eftir að hafa verið sókt til skýrslutöku. Hún sagðist ætíð hafa fengið að lesa skýrslur yfir að þeim loknum.
Ákæruliður IV
Ákærða kvað sig ráma í að lögreglan hefði tekið sig upp í bifreið. Hún myndi hins vegar ekki eftir komu á slysadeild umræddan dag og ekki eftir því að hafa hitt þær B og A þar. Þó myndi hún til þess að hafa einhvern tíma skorið sig á hönd, en áverkar af því hefðu ekki verið miklir og ekki kallað á sauma.
Borin var undir hana skýrsla frá 14. janúar og kannaðist hún við undirritun sína. Hún myndi hins vegar ekki eftir skýrslugjöfinni, en kvaðst telja rétt eftir sér haft. Hún var sérstaklega spurð um þau orð sem eftir henni eru höfð, að hún hygðist fyrirfara sér og hefði engu að tapa þó hún „tæki B með“, og kvaðst hún um þau orð geta það eitt sagt að hún hefði verið „mjög beizk út í B“. Ákærða kvaðst ekki muna eftir sérstökum hótunum sínum í garð B, en taldi sig vafalaust hafa hótað henni ýmsu um dagana, enda hefði B alls ekki reynzt sér vel.
Vitnið B uppeldisráðgjafi og starfsmaður Barnaverndarnefndar Eyjafjarðar kvaðst hafa verið á gangi á vinnustað sínum og á leið á skrifstofu sína þegar hún hefði mætt ákærðu, sem hefði verið að koma úr viðtali við E. Ákærða hefði sagt eitthvað við vitnið og kýlt það því næst í höfuðið, svo vitnið hefði fallið undan og á vegg. Vitnið hefði ekkert sagt heldur farið rakleiðis inn á skrifstofu sína. E hefði síðar sagt sér, að í viðtali þeirra hefði ákærða sagzt ætla að senda þrjá menn á heimili vitnisins til að gera heimilisfólki þar einhverja skráveifu. Vitnið kvaðst hafa fengið þreifieymsli af högginu og kúlu. Það hefði jafnað sig að fullu líkamlega, en bæði árásin og hótanir ákærðu hefðu haft á sig mikil andleg áhrif, sem lýstu sér meðal annars í svefnleysi og lystarleysi og vitninu hefði fundizt það hvergi óhult, hvorki í vinnu né heimili. Vitnið hefði hins vegar fengið mikinn stuðning frá samstarfsfólki sínu og hefði sér meðal annars verið útveguð sálfræðiaðstoð.
Vitnið var spurt hví það hefði ekki kært umrædda líkamsárás fyrr en um ári síðar. Kvaðst það hafa óttazt að kæra gerði illt verra og yki líkur á því að ákærða léti verða af hótunum sínum.
Vitnið kvaðst starfs síns vegna hafa þurft að hafa afskipti af börnum ákærðu, allt frá fyrri meðgöngu ákærðu árið 2003. Hefði vitnið verið annar tveggja starfsmanna sem það hefðu gert, og hefðu lyktir orðið þær að ákærða hefði verið svipt forræði barna sinna. Eftir fæðingu yngra barns ákærðu, í maí 2005, hefði ákærða tekið að hóta vitninu og hefðu hótanir hennar aukizt stig af stigi, og hefði ákærða bæði hótað vitninu milliliðalaust sem og haft í heitingum við aðra. Í lok október 2007 hefði ákærða til dæmis komið óvænt á vinnustað vitnisins og hótað henni lífláti „áður en ég drepst sjálf“. Hinn 6. nóvember 2007 hefði vitnið verið statt á slysadeild sjúkrahússins á Akureyri, ásamt samstarfskonu sinni, A, og þá hefði ákærða verið þar, horft á þær og mælt á þessa lund: „Mitt mottó í lífinu er að drepa þessar tvær áður en ég drepst sjálf“. Hefði vitnið tekið þessa hótun alvarlega og hefði verið algerlega ljós í sínum huga að ákærða hefði átt við vitnið og A. Á staðnum hefðu auk ákærðu verið þær tvær, og tveir lögregluþjónar. Annar þeirra hefði verið kona og hefði hún staðið við hlið ákærðu. Degi síðar hefði yfirmaður vitnisins, G, farið á heimili ákærðu og eftir þá heimsókn hefði G haft eftir ákærðu að hún ætlaði að drepa vitnið, og hefði vitnið skynjað það á honum að hann teldi raunverulega ógn að baki. Vitnið taldi ótvírætt að hótanir ákærðu sinn garð væru til komnar vegna starfs vitnisins. Vitnið kvaðst ekki vita til þess að sá starfsfélagi sinn, sem einnig hefði unnið að málefnum barna ákærðu, hefði orðið fyrir aðkasti vegna þess.
Vitnið sagði að fram að 6. apríl 2006 hefði það ekki orðið vart við að ákærða væri ofbeldisfull. Þó hefðu orðið ákveðnar „uppákomur“ á heimili ákærðu sem „beindust á milli þeirra“, en vitnið myndi ekki nákvæmlega hvenær það hefði verið eða með hverjum hætti.
Vitnið kvaðst ekki muna eftir að hafa haft afskipti af málefnum ákærðu frá sumri 2005 og ekki koma að umgengnismálum ákærðu við börn hennar. Þá kvaðst vitnið ekki hafa neinar skýringar, aðrar en störf sín, á viðhorfum ákærðu til sín.
Vitnið kvað hótanir, eins og þær sem hún hefði fengið frá ákærðu, ekki hefðbundinn fylgifisk starfs síns. Að því vitnið bezt vissi ætti það sama við um samstarfsfólk þess. Hefði enginn nema ákærða hótað sér lífláti, og væru hótanir hennar óvenjulegar. Vitnið hefði tekið þær allar alvarlega.
Vitnið E kvað ákærðu hafa verið í viðtali hjá sér, komin að sunnan, illa til höfð, þreytt og þvæld. Ákærða hefði verið í fjárhagskröggum og viljað aðstoð, en einnig hefði hún talað um börn sín. Viðtalinu hefði lokið og ákærða verið ósátt við aðstæður sínar, en ekki við vitnið sérstaklega. Ákærða hefði gengið fram og vitnið fylgt henni, og þar hefði B verið og staðið upp við dyr. Ákærða hefði skyndilega slegið til hennar, að höfði hennar, og mælt einhver ásökunarorð varðandi börn sín. Vitnið kvaðst ekki vita hvort B hefði fengið áverka af þessu.
B hefði haft með mál ákærðu að gera, og verið í forsvari þegar ákærða hefði verið svipt forsjá barna sinna. Hefði ákærða margsinnis lýst óánægju sinni með þau mál í samtölum við vitnið.
Vitnið A félagsráðgjafi kvaðst hafa verið á leið út af vinnustað sínum, ásamt syni sínum, þegar ákærða hefði ráðizt að sér í þjónustuanddyri og skorið sig við auga, og hefði vitnið einnig hlotið skurð við eyra og högg á andlit. Vitnið kvaðst nokkuru áður hafa tekið eftir ákærðu í húsinu og hafa þá heyrt einhverja háreysti og að ákærða væri æst. Hefði vitnið hvorki litið á ákærðu né átt við hana nokkur samskipti áður en það hefði fengið högg frá henni. Árásin hefði verið með öllu fyrirvaralaust og vitnið hefði ekki séð ákærðu koma að sér. Vitnið hefði tekið fyrir andlit sér, fundið blæða og hlaupið inn ganginn.
Vitnið kvaðst ekki hafa fundið sig skorið og ekki hafa vitað fyrr en eftir á að ákærða hefði verið með glerbrot í hönd. Vitnið hefði sjálft ekki séð ákærðu með glerbrotið. Höggin hefðu að minnsta kosti verið tvö, hugsanlega þrjú. Vitnið kvaðst hafa fengið 3 cm skurð undir vinstra auga og grunna rispu niður á kinn, cm langan skurð við vinstra eyra og mar og bólgu yfir vinstra kinnbeini. Þá hefði vitnið farið í blóðrannsóknir á sjúkrahúsi, sex vikum eftir atvikið og svo aftur hálfu ári eftir það, vegna gruns um sýkingu, en vitað hefði verið að ákærða væri lifrarbólgusmituð, en einnig hefði verið leitað að HIV-sýkingu, enda hefði ákærða, að sögn F og C, starfsmanna í afgreiðslu, sagzt vera HIV-smituð. Sjálft hefði vitnið ekki heyrt hana segja það. Önnur þeirra, sem verið hefði í afgreiðslunni, hefði jafnframt sagt, nokkurum mínútum eftir atburðinn, að ákærða hefði verið búin að skera sjálfa sig. Niðurstöður blóðrannsókna hefðu verið þær að vitnið hefði reynzt ósmitað. Líkamlegar afleiðingar árásarinnar væru ör fyrir neðan auga og annað lítið við eyra.
Vitnið kvaðst ekki vita hvort árásinni hefði verið beint að sér persónulega eða hvort tilviljun hafi ráðið að hún hefði orðið fyrir henni. Ákærða hefði hins vegar þekkt sig í sjón á þessum tíma og vitað að hún var starfsmaður barnaverndarnefndar að hún hefði sem slíkur komið að hennar málum. Hefðu vitnið og ákærða hitzt áður vegna þeirra.
Vitnið kvaðst hafa, sem starfsmaður barnaverndarnefndar, átt nokkur samskipti við ákærðu, en slík samskipti væru einkum á könnu annarra starfsmanna. Vitnið hefði komið að málum barna hennar, en ekki fyrr en eftir að tekin hefði verið ákvörðun um forræðissviptingu hennar. Þá hefði vitnið komið að samskiptum við fósturforeldra barnanna, en ekki gagnvart ákærðu. Vitnið kvaðst ekki hafa fundið fyrir að ákærða beindi reiði sinni sérstaklega að vitninu, en ákærða hefði oft haft samband við skrifstofuna og þá verið reið.
Vitnið A kvað þær B hafa setið á gangi fyrir innan biðstofu á sjúkrahúsinu þegar Jóhannes lögregluvarðstjóri hefði sagt þeim að verið væri að hlynna að ákærðu og að farið yrði með hana út um annan inngang. Nokkuru síðar hefði ákærða komið í fylgd lögregluþjóna og hefði hún séð þær og þá kallað, æst, að sér skyldi takast að drepa þær, áður en hún dræpi sjálfa sig. Hefðu þetta verið nokkurn veginn orð hennar. Milli þeirra hefðu verið á að gizka 10 metrar. Vitnið sagði ákærðu hafa horft á þær þegar hún hefði mælt þessi orð og taldi vitnið hana hafa beint þeim að þeim báðum.
Vitnið kvað þessi atvik hafa haft mikil áhrif á sig. Það hefði orðið mjög kvíðið lengi á eftir og átt jafnvel erfitt með að fara um anddyrið á vinnustaðnum. Svefn hefði orðið erfiðari. Þá hefði þetta haft mikil áhrif á heimilisfólk hennar. Loks hefði biðin eftir niðurstöðum úr blóðprufu hefði verið mjög erfið, en meðan á henni hefði staðið hefði vitnið mjög hugsað um hvað tæki við ef það hefði smitazt og hvort hætta væri á að það smitaði aðra á heimilinu.
Vitnið kvaðst enn hafa afskipti af málum ákærðu hjá barnaverndinni.
Vitnið kvað ákærðu aldrei áður hafa veitzt að sér vegna starfa sinna og hafa ekki talið sig hafa ástæðu til að óttast ákærðu. Þá hefði ákærða ekki haft ástæðu til að ráðast að vitninu persónulega.
Vitnið kvað hótanir sem þessar fátíðar.
Vitnið C félagsráðgjafi kvaðst hafa gengið fram í afgreiðslu og hefði þá heyrt til ákærðu í biðstofunni. Í afgreiðslunni hefði símastúlkan F beðið vitnið um að doka við því hún þyrfti sjálf að bregða sér frá. Ákærða hefði þá komið að og borið sig illa, en hún hefði beðið eftir félagsráðgjafa sínum, og spurt vitnið hvort það gæti ekki afgreitt hana. Vitnið hefði hafnað því, og eftir nokkur orðaskipti þeirra, hefði ákærða beðið vitnið um að aka sér heim. Vitnið hefði ekki orðið við því, en þá hefði ákærða orðið reið, tekið kertastjaka af afgreiðsluborðinu og rokið með hann inn á baðherbergi með þeim orðum að hún hygðist fyrirfara sér. Vitnið hefði hlaupið til F og beðið hana um að hringja til lögreglu. Næst hefðu þær heyrt skell, og taldi vitnið hann hafa komið af því er ákærða hefði brotið kertastjakann. Ákærða hefði því næst komið fram af baðherberginu, lyft upp blóðugri hönd og tilkynnt að hún hygðist smita þær af HIV. Í því hefði A komið í afgreiðsluna með syni sínum á útleið og hefði ákærða þá snúið sér og ráðizt á A og lamið hana í andlit, en vitnið hefði ekki tekið eftir hvort það hefði verið gert með hnefahöggum eða flötum lófa, og ekki gert sér grein fyrir fjölda högga. Þá hefði vitnið ekki tekið eftir því hvort ákærða hefði verið með hring á hönd. Vitnið hefði þá reynt að taka ákærðu af A, og hefði ákærða þá hætt árásinni. Vitnið taldi ákærðu hafa verið stadda einn til tvo metra frá sér, er hún hefði hótað þeim smitinu. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað hvort ákærða væri í raun smituð sjálf, en hefði talið hótunina raunverulega, en vitnið hefði vitað að ákærða hefði neytt fíkniefna. Vitnið taldi ákærðu hafa, í samtali þeirra, áður en hún hefði rokið inn á baðherbergið, verið eins og hún hefði átt að sér að vera.
Vitninu var sýnd mynd af kertastjaka, er liggur fyrir í málinu, og staðfesti það að stjakinn væri eins og sá er ákærða hefði tekið. Ekki kvaðst vitnið hafa tekið eftir að ákærða hefði glerbrot í hönd, en hnefi hennar hefði verið krepptur og blóðugur. Vitnið hefði aldrei séð glerbrot eða hluta úr stjakanum. Einhverjir hefðu þrifið baðherbergið eftir á, en vitnið vissi ekki meira um það.
Vitnið kvaðst hafa haft nokkur afskipti af málum ákærðu, en langt væri síðan. Hefði komið fyrir að það hefði rætt við ákærðu vegna hennar mála og meðal annars farið á heimili hennar. Væri hún ráðgjafi hennar í dag en nýtekin við því hlutverki. Í kjölfar þessara atburða hefði verið ákveðið að ákærðu væri óheimil koma á skrifstofuna, en heimilt að hafa símasamband á ákveðnum tímum. Ákærða hefði virt það. Hefði ákærða aldrei verið ofbeldisfull gagnvart vitninu og ekki vita til þess að hún hefði verið það gagnvart öðrum, áður en þetta atvik hefði orðið.
Vitnið kvað hótun ákærðu í sinn garð ekki hafa haft bein áhrif á líf sitt og starf og ekki kljást við neinar afleiðingar hennar. Málið hefði hins vegar kallað á umræður á vinnustað og þar hafi fólki almennt verið brugðið. Hefði málið meðal annars verið rætt á sameiginlegum fundi starfsmanna, og hefði A verið þar stödd og því hefði hún vitað af smitunarhótun ákærðu. Vitnið hefði tekið hótunina alvarlega og til sín, en það hefði verið nær ákærðu en F hefði verið.
Þegar vitnið hefði reynt að stöðva ákærðu í árás hennar á A hefði blóð komizt á peysu þess. Sóttvarnarlæknir hefði mælt fyrir um eyðing peysunnar.
Vitnið F, fyrrverandi starfsmaður í móttöku fjölskyldudeildar, sagði ákærðu hafa komið um morguninn og hafa setið nokkura stund í biðstofunni, og borið sig illa. Vitnið hefði þurft að bregða sér frá, en samstarfskona þess, C, hefði leyst sig af. C hefði svo kallað til vitnisins, þar sem ákærða hefði farið inn á salerni og brotið þar kertastjaka. Hefði hún nú verið komin aftur, blóðug, og hótað að smita vitnið og C af HIV. Ákærða hefði haldið kertastjakanum á lofti í blóðugri hægri hönd, þegar hún hótaði þessu. A hefði næst komið gangandi, án þess að skipta sér neitt af ákærðu, en ákærða hefði ráðizt að henni og skorið hana með broti úr kertastjakanum. Taldi vitnið að um eitt högg hefði verið að ræða. C hefði eitthvað blandað sér í átökin en vitnið farið og hringt á lögreglu. Eftir árásina á A hefði ákærða hlaupið út.
Vitnið var nánar spurt um árásina á A, og treysti það þá sér ekki til að fullyrða að það hefði séð ákærðu snerta A með högginu, en ákærða hefði verið með glerbrotið í höndinni, að því er vitnið teldi sig muna sterklega. Áverki A hefði komið af kertastjakanum, en vitnið kvaðst ekki treysta sér til að fullyrða hvort ákærða hefði þá haldið um stjakabrotið eða kastað því.
Þegar ákærða hefði hótað þeim, hefði hún verið um metra frá C, en vitnið hefði staðið fyrir aftan C, en vitnið hefði tekið hótunina til sín. Vitnið sagðist hafa týnt glerbrot úr kertastjakanum inni á baðherberginu og hefði þeim verið hent, en vitnið kvaðst ekki muna hvort brot hefðu fundizt í afgreiðslunni.
Vitnið G, forstöðumaður Barnaverndar Eyjafjarðar, sagði ákærðu hafa við sig kvartað undan því að börn sín hafi verið tekin frá sér og að hún fengi ekki myndir af þeim. Hún hefði í þeim kvörtunum nafngreint þær B og A en ekki aðra starfsmenn. Bæri ákærða kala til þeirra beggja.
Vitnið kvaðst hafa komið til starfa hjá barnaverndinni í marz 2007. Það sagði ekki algengt að skjólstæðingar hótuðu starfsmönnum barnaverndar. Slíkar hótanir væru teknar alvarlega og hefði vitnið heyrt starfsmennina bera sig illa undan þeim.
Vitnið Jóhannes Sigfússon lögregluþjónn sagði lögreglu hafa verið tilkynnt að ákærða hefði veitzt að starfsfólki fjölskyldudeildar. Vitnið og María Jespersen lögregluþjónn hefðu ekið þangað, en á Glerárgötu hefðu þau séð ákærðu hraða sér suður eftir götunni. Vitnið hefði numið staðar hjá henni og hefði hún þegar setzt inn, og verið mikið niðri fyrir og talsvert blóðug um hendur. Hefði ákærða verið grátandi og í ójafnvægi. Vitnið hefði ákveðið að aka henni þegar á slysadeild og á leiðinni þangað hefði það spurt hana hvað hefði farið fram, og hefði hún svarað því til að hún hefði misst stjórn á sér á fjölskyldudeildinni og hefði þar veitzt að starfsmanni með glerbroti og hefði einnig hótað starfsfólki að smita það af alnæmi. Hefði verið auðheyrt að ákærðu væri mjög uppsigað við starfsfólkið og að það tengdist forsjársviptingarmáli hennar. Ákærða hefði hins vegar sagt þeim að hún væri í raun ekki með þann sjúkdóm heldur lifrarbólgu, og hefði vitnið í framhaldinu upplýst starfsfólk fjölskyldudeildarinnar um það.
Á slysadeild hefði verið gert að sárum ákærðu. Nokkru síðar hefðu tveir starfsmenn fjölskyldudeildar, B og A, komið á slysadeildina og hefði vitnið talað við þær, en María setið yfir ákærðu. Ákærða hefði því næst komið fram og veitzt að þeim B og A með hótunum, sem vitnið kvaðst þó ekki muna hverjar hefðu verið. Engir aðrir hefðu verið á vettvangi sem hótanir ákærðu hefðu getað beinzt að. María hefði komið rétt á eftir ákærðu og þau leitt ákærðu út og ekið henni heim. Á leiðinni hefði ákærða látið þess getið að hún myndi drepa einhverja starfsmenn fjölskyldudeildar, þó það yrði sitt síðasta.
Eftir að vitnið hefði skilað ákærðu heim hefði verið hringt frá sjúkrahúsinu og óskað eftir að ákærða yrði sókt að nýju og nú til blóðrannsóknar. Hefði ákærða þá verið sókt og hún komið greiðlega og öll orðin rólegri.
Vitnið María Jespersen lögregluþjónn kvað þau Jóhannes Sigfússon hafa verið á leið á fjölskyldudeildina vegna útkalls, þegar þau hafi séð ákærðu á gangi sunnan við Glerárgötu. Hefðu þau ekið til hennar og hún strax komið upp í bifreiðina. Ákærða hefði verið blóðug á höndum og í uppnámi og hefði sagt þeim í óspurðum fréttum að hún hefði misst stjórn á sér á fjölskyldudeildinni, brotið þar kertastjaka, skorið sig og hótað að smita starfsfólk af alnæmi. Ákærða hefði tekið fram að sjálf vissi hún að hún væri ekki smituð af alnæmi heldur lifrarbólgu, en það hefði starfsfólkið ekki vitað. Í kjölfarið hefðu þau ekið henni á slysadeild til aðhlynningar. Á slysadeildinni hefði ákærða sagzt hafa slegið til starfsmanna en halda að hún hefði ekki meitt neinn. Ákærða hefði verið með nokkura litla skurði á hægri hönd, en mikið hefði blætt.
Þegar aðhlynningu ákærðu hefði verið lokið, en þá hefði ákærða verið bæði róleg og kurteis, hefðu þær gengið tvær fram, þangað sem Jóhannes Sigfússon varðstjóri hefði setið með þeim B og A. Jafnskjótt og ákærða hefði séð þær hefði hún hrópað að hún skyldi drepa þær báðar, og sérstaklega B, en ákærða hefði nafngreint að minnsta kosti hana. B og A hefðu heyrt þetta og skelfzt mjög. Vitnið hefði þá farið með ákærðu afsíðis og fyrir utan hefði ákærða ítrekað þessar hótanir. Ákærða hefði meðal annars sagt að þær tvær, B og A, hefðu tvívegis drepið hana.
Þegar afskiptum af ákærðu hefði verið lokið hefði lögreglan farið á fjölskyldudeild og athugað vettvang. Blóð hefði verið á salerni þar og eitthvað af glerbrotum að því er vitnið minnti, lítil brot úr kertastjaka. Frammi hefði verið blóð en vitnið kvaðst ekki muna hvort þar hefðu verið glerbrot.
Vitnið Erna læknir sagði A hafa við komu á slysadeild hafa verið með grunna skurði í andliti, rétt neðan við vinstra auga og út við vinstra eyra. Ekki hefði þurft að sauma skurðina. Þá hafi A verið marin yfir kinnbeini en ekki brotin. Áverkarnir gætu samrýmzt því að sá, sem þá hefði veitt, hefði verið með einhvern beittan hlut í hönd. Þá væri hugsanlegt að þeir stöfuðu af höggi, ef sá er slægi væri til að mynda með hring á fingri. Ekki hins vegar af tómu hnefahöggi, þar er A hefði fengið skurði en húðin ekki sprungið. Vitnið taldi ólíklegt að einungis hefði verið slegið einu sinni, en kvaðst þó ekki treysta sér til að svara því með vissu. A hefði lýst áhyggju af smiti, vegna hugsanlega blóðsmits, og því hefði verið gerð blóðrannsókn.
Vitnið staðfesti að við blóðrannsókn á ákærðu hefði komið í ljós að hún væri með lifrarbólgu B og C en ekki HIV. Sá sem bæri lifrarbólgu B og C gæti jafnan smitað aðra við blóðblöndun, en á því væru hlutfallslega ekki miklar líkur.
Vitnið staðfesti þau vottorð sem það gaf, áverkavottorð ritað 15. desember 2007 og bráðabirgðaskrá ritaða 6. nóvember 2007.
Vitnið Jóhanna Gunnarsdóttir læknir kvaðst hafa skoðað B en muna mjög óljóst eftir áverkum hennar. Þó fyndist vitninu það muna eftir kúlu á höfði hennar og eymsli hefðu verið á þeim stað er B hefði sagzt hafa verið slegin. Áverkar gætu samrýmzt því að B hefði orðið fyrir hnefahöggi vinstra megin á höfði. Hvorki hefði hins vegar mátt sjá skurð né mar með berum augum.
Vitnið Sigmundur Sigfússon yfirlæknir kvaðst hafa haft með ákærðu að gera frá júní 2001. Vitnið kvaðst minna vita um aðdraganda fyrra atviksins, en þekkja eldri sögu ákærðu betur, forsjársviptingu og málarekstur henni tengda. Í janúar 2006 hefði ákærða gengið í gegnum afar erfiðan og ofbeldistengdan skilnað og eignamissi og lýsti vitnið lífi hennar sem „rúst“. Ofan á geðrænan vanda sinn hefði hún verið með einkenni svo kallaðrar áfallastreituröskunar og endurlifði áfram og áfram það atvik er hún var svipt yngra barni sínu nýfæddu. Hefði hún á þessum tíma ekki verið í andlegu jafnvægi. Vitnið hefði hitt ákærðu vikulega á þessum tíma auk ótal margra símtala þeirra í millum. Í atvikinu hinn 6. apríl 2006 hefði orðið á vegi ákærðu barnaverndarstarfsmaður, sem hefði fjarlægt barn ákærðu og verið henni fyrir hugskotssjónum nánast daglega eftir að yngra barnið hefði verið frá henni tekið.
Um aðdraganda atburðanna í nóvember 2007 sagði vitnið að ákærða hefði misserin á undan dvalizt fyrir sunnan en hefði þarna verið búin að ákveða að flytja aftur til Akureyrar, að ráði vitnisins, og hefði fengið leigða íbúð í bænum. Daginn áður hefði vitnið ráðlagt henni að leita fjárhagsaðstoðar hjá fjölskyldudeildinni, en henni hefði verið synjað um hana, að því er vitninu hefði verið sagt. Vitnið kvaðst hins vegar ekki vita fyrir víst hvort ákærða hefði í raun lagt beiðni sína fram. Vitnið hefði, eftir atburðina, heyrt í ákærðu í síma og hefði hún sagt sér að hún hefði haft orð á því að hún hygðist drepa starfsmenn barnaverndarinnar og sjálfa sig, og hefði vitnið sett þau orð í samhengi við sjálfseyðileggjandi hugsanir hennar.
Vitnið kvaðst ekki telja ákærðu ofbeldisfulla í gerðinni. Þau tilvik, er koma hér við sögu, væru, að því vitnið bezt vissi, einstök gagnvart því starfsfólki sem hefði komið að hennar málum fyrr og síðar. Á örvæntingarstundum kæmi í huga hennar að ljúka lífi sínu og taka þá jafnvel með þær manneskjur er hún legði hatur á, og allt snerist þetta um forræðissviptingu barna hennar.
Vitnið var spurt hvort það teldi ákærðu líklega til að standa við hótanir sínar í garð barnaverndarstarfsmannanna, og taldi það að á andartakinu í nóvember hefði hún verið óútreiknanleg. Hefði hún á því andartaki, er hún hefði ráðizt að A, verið í geðshræringu illa ráðið gerðum sínum, af lýsingum hennar sjálfrar og starfsmanna að dæma. Ákærða hefði að sínu mati upplifað höfnun vegna synjunar á fjárbeiðni sinni. Síðar um daginn hefði vitnið hins vegar talað við ákærðu og hefði þá verið bráð af henni. Hefði ákærða einnig í síðara samtali þeirra sagt sér að hrein tilviljun hefði ráðið því að A hefði orðið fyrir atlögu hennar, og kvaðst vitnið trúa þeirri lýsingu. Vitnið kvaðst ekki telja ákærðu hafa farið á fjölskyldudeildina með það í huga að skaða nokkurn mann, en slíkur ásetningur hefði vaknað þar. Vitnið kvaðst telja fráleitt að ákærða hefði stjórnazt af rökhugsun á þessum augnablikum, en framganga hennar hefði á engan hátt verið henni í hag, árásin hefði verið stórhættuleg og tilviljun hver varð fyrir.
Vitnið var spurt hvort það teldi fangelsisrefsingu yfir ákærðu þjóna tilgangi. Vitnið sagði að sér væri „náttúrlega efst í huga að svara nei“, og fyndist sér að ákærða hefði lært af þessum atburðum og ekkert þeim líkt hefði aftur gerzt. Kærur í málinu væru hins vegar eðlilegar og málaferli þeirra vegna hefðu fyrirbyggjandi áhrif. Það hefði verið borið undir sig hvort rétt væri að hlutaðeigandi starfsmenn legðu fram kæru og hefði vitnið álitið svo vera. Væri það einnig spurning um virðingu fyrir sjúklingi að hann bæri ábyrgð á gerðum sínum og svaraði fyrir þær. Eftir atburðina í nóvember hefði verið ákveðið að hún kæmi ekki á skrifstofur fjölskyldudeildarinnar heldur hefði einungis símasamband þangað, og hefði sér sýnzt ákærða samþykk því sem fyrirbyggjandi tilhögun. Væri það álit sitt að fangelsisrefsing hefði heilsuspillandi áhrif á ákærðu.
Vitnið var spurt hvort ákærða væri með formlega geðsjúkdóma og kvað það hana gjalda „tilfinningalegrar vanrækslu í uppvextinum“ og bera ýmsar menjar hennar. Þar að auki hefði fíkniefnaneyzla dregið úr tilfinningaþroska, en á þeim árum, sem vitnið hefði sinnt henni, hefði hún þroskazt talsvert. Eftir sviptingu yngra barnsins, nýfædds, hefði kvíði og áfallastreituröskun bætzt við. Vitnið hefði hins vegar hvorki séð hana í geðrofsástandi né vita til slíks. Ekki væri ástæða til að efast um sakhæfi hennar.
Vitnið var spurt um það minnisleysi sem ákærða ber við um atburði málsins og kvað það hugsanlegt að uppnám hennar ylli slíku minnisleysi, en um það gæti það ekkert fullyrt. Þá væri á það að líta, að í marz 2008 hefði komið í ljós að ákærða hefði verið með ígerð í heila og ætti slíkt sér jafnan töluverðan aðdraganda. Ekki væri útilokað að ákærða hafi verið þegar haldin því í nóvember 2007. Þá kynni þetta að hafa áhrif á skammtímaminni hennar.
Vitnið kvaðst hafa trú á vitsmunum og getu ákærðu og vilja að hún nýtti umgengnisrétt sinn við börn sín. Hefði ákærða hug á því, en reynslan sýndi að áætlanir væru eitt og framkvæmd annað.
Niðurstaða
Þær B, A og C eru allar starfsmenn fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar og eru opinberir starfsmenn. Njóta þær sem slíkar verndar 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærða neitar sök samkvæmt öllum ákæruliðum í ákæru ríkissaksóknara, og ber iðulega fyrir sig minnisleysi um meinta atburði. Tók hún fram að höfuðmein, sem hefði kallað á aðgerð, hefði skilið sig eftir með skert skammtímaminni. Fyrir dómi kvað læknirinn Sigmundur Sigfússon, er lengi hefur haft með ákærðu að gera, það ekki útilokað.
Ákæruliður I.
Ákærða neitar sök og hvorki muna eftir að hafa komið á fjölskyldudeildina umræddan dag né að hafa slegið nokkurn. Fyrir dómi rámaði hana hins vegar í skýrslu sem liggur fyrir í málinu og tekin var af henni hinn 14. janúar 2008. Staðfesti hún undirritun sína á skýrslunni og sagði fyrir dómi að hún hefði ætíð fengið að lesa lögregluskýrslur yfir. Í skýrslunni er haft eftir henni að hún hafi slegið B er þær hafi mætzt í dyrum.
B hefur fyrir dómi borið um að ákærða hafi á umræddum stað og stund kýlt sig í höfuð.
E bar fyrir dómi að ákærða hefði slegið til B og að höfði hennar.
Í málinu liggur fyrir áverkavottorð um B og segir þar að hún hafi leitað til slysadeildar hinn 7. apríl, vegna hnefahöggs er hún hafi fengið daginn áður. Kemur fram í vottorðinu að B hafi verið með kúlu og þreyfieymsli.
Jóhanna Gunnarsdóttir læknir taldi sig fyrir dómi muna til þess að B hafi verið með kúlu við komu á slysadeild. Þó kvaðst hún lítið muna eftir skoðun sinni á B.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið, einkum vitnisburðar þeirra B og E, sem fá stoð í framlögðu áverkavottorði og að nokkuru í framburði Jóhönnu, og með vísan til þess að í gögnum málsins er ekkert sem bendir í aðra átt, er það niðurstaða dómsins, þrátt fyrir neitun ákærðu, að ákærða sé sönn að sök samkvæmt ákærulið I og hafi unnið sér til refsingar. Þau orð sem eftir ákærðu eru höfð í lögregluskýrslu, en hún staðfesti undirritun sína á skýrslunni fyrir dómi, styrkja þessa niðurstöðu. B er opinber starfsmaður og árásin er gerð á vinnustað hennar. Ekki er ágreiningur um að ákærðu var ljóst að B var starfsmaður fjölskyldudeildar. Er háttsemi ákærðu réttilega færð til refsiákvæðis í ákærunni.
Ákæruliður II.
Ákærða neitar sök og kvaðst fyrir dómi hvorki muna eftir að hafa farið á fjölskyldudeildina umræddan dag né að hafa hótað C.
C bar fyrir dómi að ákærða hefði umræddan dag, í afgreiðslu fjölskyldudeildar, hótað að smita hana af HIV. Hefði ákærða haldið uppi blóðugri hönd er hún hefði hótað þessu.
F bar fyrir dómi að ákærða hefði á þeim stað og stund hótað að smita bæði hana og C af HIV. Hefði ákærða haldið uppi blóðugri hönd er hún hefði hótað þessu.
Jóhannes Sigfússon og María Jespersen, lögregluþjónar, báru bæði fyrir dómi að ákærða hefði sagt þeim að hún hefði hótað starfsfólki fjölskyldudeildar að smita það af alnæmi. Þetta hefði ákærða gert í lögreglubifreið, skömmu eftir að beiðni um aðstoð hefði borizt lögreglu frá fjölskyldudeildinni.
Með vísan til framburðar vitnanna C, F, Jóhannesar og Maríu, er það niðurstaða dómsins, gegn neitun ákærðu, að ákærða sé sönn að sök samkvæmt ákærulið II. C er opinber starfsmaður og hótun ákærðu var að henni beint þar sem hún var við störf á vinnustað sínum. Er háttsemi ákærðu réttilega færð til refsiákvæðis í ákærunni.
Ákæruliður III.
Ákærða neitar sök og kvaðst fyrir dómi ekki muna eftir því að hafa farið á fjölskyldudeildina umræddan dag.
A lýsti því fyrir dómi að ákærða hefði í anddyri fjölskyldudeildarinnar ráðizt að sér og greitt sér högg, að minnsta kosti tvö, hugsanlega þrjú. Hefði hún fengið 3 cm skurð undir vinstra auga og grunna rispu niður á kinn, cm langan skurð við vinstra eyra og mar og bólgu yfir vinstra kinnbeini. A kvaðst hins vegar á verknaðarstund ekki hafa veitt því athygli að hún hefði verið skorin og ekki hafa séð glerbrot í hönd henni.
C taldi fyrir dómi að ákærða hefði brotið kertastjaka inni á salerni, komið svo fram blóðug á hönd og skömmu síðar ráðizt á A í afgreiðslunni og lamið hana í andlit. Hún kvaðst ekki hafa tekið eftir því að ákærða hefði verið með glerbrot í hönd, en hnefi hennar hefði verið krepptur og blóðugur.
F bar fyrir dómi að ákærða hefði ráðizt að A og skorið hana með broti úr kertastjaka. Nánar spurð treysti hún sér þó ekki alveg til að fullyrða að ákærða hefði snert A með högginu en telja sig sterklega muna að ákærða hefði þá verið með glerbrot í hönd. Taldi hún að um eitt högg hefði verið að ræða.
Jóhannes Sigfússon lögregluþjónn bar fyrir dómi að ákærða hefði í lögreglubifreið, skömmu eftir að beiðni um aðstoð hefði borizt lögreglu frá fjölskyldudeildinni, sagzt hafa veitzt að starfsmanni fjölskyldudeildar með glerbroti.
María Jespersen lögregluþjónn bar fyrir dómi að ákærða hefði í lögreglubifreiðinni sagt að á fjölskyldudeildinni hefði hún brotið kertastjaka og skorið sig, en síðan slegið til starfsmanna, en halda sig ekki hafa meitt neinn.
Erna læknir sagði A hafa við komu á slysadeild verið með grunna skurði í andliti, rétt neðan við vinstra auga og út við vinstra eyra. Þá hefði hún verið marin yfir kinnbeini. Áverkarnir gætu samrýmzt því að beitt áhald hefði verið notað, en einnig væri hugsanlegt að um hring á fingri hefði verið að ræða. Ólíklegt væri að einungis hefði verið um eitt högg að ræða.
Í lögregluskýrslu, er liggur fyrir í málinu, er haft eftir ákærðu: „A kom svo þarna gangandi og þá missti ég mig alveg vegna þess að barnaverndarnefnd er búin að eyðileggja líf mitt. Ég tók svo kertastjaka sem var þarna, braut hann og fór inn á baðherbergi þar sem ég skar mig í hendina enda langaði mig að drepa mig. Síðan fór ég fram aftur og þá var A þar. Ég barði hana strax í höfuðið og var með hluta af kertastjakanum í lófanum á meðan. Svo sló ég hana einu sinni í kinnina.“ Fyrir dómi kvaðst hún telja að rétt væri eftir sér haft, þó hún myndi lítið frá skýrslutökunni.
Í málinu liggur fyrir áverkavottorð um A og segir þar meðal annars: „Í andliti rétt neðan við vinstra auga er grunnur skurður ca 3 cm langur. Hann liggur í boga frá nefrót og niður út á kinn. Fyrir ofan liggur grunn rispa niður kinnina.“
Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið, annars en þess að ákærða neitar sök og ber við minnisleysi, er það niðurstaða dómsins að sannað sé að ákærða hafi, á þeim stað og stund er tilgreind eru í ákærulið III, ráðizt að A og greitt henni höfuðhögg. Með vísan til framburðar A og Ernu telur dómurinn jafnframt sannað að um fleiri en eitt högg hafi verið að ræða, og fær það stuðning í því sem eftir ákærðu er haft í lögregluskýrslu. Í ákæru er ákærðu gefið að sök að hafa „slegið hana einu sinni í andlitið með blóðugu glerbroti og einu sinni á kinn með flötum lófa.“
Það glerbrot, sem ákærðu er gefið að sök að hafa slegið A með, hefur ekki verið lagt fram í málinu. Kom fram hjá vitninu F að glerbrot hefðu verið tekin af baðherberginu og þeim hent. Hún kvaðst ekki muna hvort glerbrot hefðu verið á gólfi afgreiðslunnar. C segir ákærðu hafa brotið kertastjaka inni á salerninu. F segist hafa þrifið upp glerbrot af salernisgólfinu. María hefur eftir ákærðu að hún hafi brotið kertastjaka á fjölskyldudeildinni. Í lögregluskýrslu er haft eftir ákærðu að hún hafi brotið kertastjakann. Að mati dómsins er sannað að ákærða hafi brotið kertastjakann á salerni fjölskyldudeildarinnar, örskömmu áður en hún réðist á A. Þá þykir dóminum sannað að hún hafi notað brot úr honum til að skera sig á hönd. Ákærða kom fram af salerninu eftir að hafa þar skorið sig með broti úr kertastjakanum. F telur sig sterklega muna til þess að ákærða hafi verið með glerbrot í hönd er hún réðist á A. Erna læknir segir áverka A koma heim og saman við að beitt áhald hafi verið notað. Jóhannes lögregluþjónn hefur eftir ákærðu, örskömmu eftir atvikið, að hún hafi ráðizt að starfsmanni með glerbroti. Í þessu ljósi er það mat dómsins að sannað sé í málinu að ákærða hafi í greint sinn ráðizt að A með glerbroti. Fær það stuðning í því sem eftir ákærðu er haft í lögregluskýrslu.
Í ákæru er tekið fram að glerbrotið hafi verið blóðugt. Ekkert er fram komið um það, þó fyrir liggi að ákærða hafi verið blóðug á höndum. Með því sönnunarbyrði um allt það, sem ákærðu er í óhag, hvílir á ákæruvaldinu, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008, verður því ekki slegið föstu í málinu að glerbrotið hafi verið blóðugt. Í ákæruliðnum er þess og getið að hætta hafi skapazt á að ákærða hefði smitað A af lifrarbólgu B og C. Fyrir liggur í málinu, með vitnisburði Ernu læknis, að ákærða er með lifrarbólgu B og C og getur smit orðið með blóðblöndun. Ákærða var blóðug um hendur þegar hún greiddi A högg í andlit sem meðal annars urðu til þess að skurðir opnuðust. Álítur dómurinn að með því hafi skapazt möguleiki á smiti.
A er starfsmaður fjölskyldudeildar og var stödd á vinnustað sínum er árásin var gerð.
Samkvæmt framanrituðu er það niðurstaða dómsins að ákærða sé sönn að sök samkvæmt ákærulið III og hafi unnið sér til refsingar en háttsemi hennar er í ákæru rétt færð til refsiheimildar, en í ljósi verknaðaraðferðar verður fallizt á vísun ákæruvalds til 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940.
Ákæruliður IV.
Ákærða neitar sök og kveðst ekki muna eftir komu á slysadeild.
B bar fyrir dómi að ákærða hefði á slysadeildinni mælt á þessa lund: „Mitt mottó í lífinu er að drepa þessar tvær áður en ég drepst sjálf“. Hefði ekki verið vafi á því að orðunum hefði verið beint að sér og A .
A bar fyrir dómi að á slysadeildinni hefði ákærða kallað að sér skyldi takast að drepa þær báðar, hana og B, áður en hún fyrirfæri sér.
Jóhannes Sigfússon lögregluþjónn sagði fyrir dómi að ákærða hefði á slysadeildinni veitzt að þeim B og A með hótunum, sem hann þó ekki myndi hverjar hefðu verið. Hefðu hótanirnar ekki getað beinzt að neinum öðrum.
María Jespersen lögregluþjónn sagði fyrir dómi að ákærða hefði á slysadeildinni hrópað að hún skyldi drepa þær báðar og sérstaklega B.
Í ljósi vitnisburðar þeirra B og A, sem fær stoð í framburði lögregluþjónanna Jóhannesar og Maríu, er það niðurstaða dómsins að ákærða hafi á greindum stað og tíma látið sér um munn fara orð sem ekki verði skilin öðru vísi en svo að hún hóti að vega þær B og A.
Eins og áður er getið eru þær B og A opinberir starfsmenn. Þessar hótanir ákærðu voru ekki settar fram þar sem þær voru að gegna starfi sínu. Það þykir hins vegar hafið yfir skynsamlegan vafa að hótanir þessar hafi ákærða sett fram í garð þeirra vegna hinna opinberu starfa þeirra, en fyrir liggur að ákærða er ákaflega ósátt við hvernig starfsmenn fjölskyldudeildarinnar hafa sinnt hennar málum, einkum þó B. Voru ummæli ákærðu til þess fallin að vekja þeim B og A ótta um líf sitt og heilsu. Er ákærða sönn að sök samkvæmt ákærulið IV og hefur unnið sér til refsingar, en háttsemi hennar í ákærunni rétt færð til refsiheimildar.
Eins og áður greinir er ákæra sönn að sök samkvæmt ákæru sýslumannsins á Akureyri og hefur unnið sér þar til refsingar en háttsemi hennar er í ákærunni rétt færð til refsiheimildar.
Sakarferill ákærðu er með þeim hætti að í janúar 2000 voru henni ákveðin viðurlög, 50.000 króna sekt fyrir fíkniefnalagabrot. Í nóvember 2001 gekkst hún undir sátt, 40.000 króna sekt, fyrir fíkniefnalagabrot. Í júní 2003 voru henni ákveðin viðurlög, 60.000 króna sekt fyrir fíkniefnalagabrot. Í marz 2007 var ákærða dæmd í 45 daga fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára, fyrir þjófnað og fíkniefnalagabrot. Hin 29. nóvember 2007 var ákærða dæmd í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára, fyrir þjófnað. Var þar um hegningarauka að ræða og var fyrrgreindur skilorðsdómur frá marz 2007 dæmdur upp.
Þau brot sem ákærða er nú sakfelld fyrir framdi hún 6. apríl 2006, 6. nóvember 2007 og 12. marz 2008. Með síðastgreindu broti sínu rauf hún skilorð dómsins frá 29. nóvember 2007. Brot samkvæmt ákæru ríkissaksóknara framdi hún hins vegar fyrir uppsögu þess dóms og verður henni fyrir þau ákveðin refsing eftir 78. gr. laga nr. 19/1940. Skilorðsdómurinn frá 29. nóvember verður nú tekinn upp og verður ákærðu ákveðin refsing í einu lagi sbr. 77. gr. laga nr. 19/1940.
Við ákvörðun refsingar verður að hafa í huga þann fjölda brota sem ákærða er nú sakfelld fyrir. Brot samkvæmt ákæru ríkissaksóknara beindust að konum sem komu að málum hennar, starfs síns vegna, og í tveimur ákæruliðum er hún sakfelld fyrir ofbeldisbrot gagnvart þeim, þar af í öðru tilvikinu alvarlega líkamsárás. Verður þar einnig að líta til þess að umræddir opinberir starfsmenn eru ekki í hópi þeirra sem hafa hlotið þjálfun í að verjast árásum og eiga sér einskis ills von í starfi sínu. Þá er ákærða nú í þriðja sinn sakfelld fyrir auðgunarbrot en um aðra ítrekun hennar á skömmum tíma er þar að ræða. Horfir þetta allt til refsiþyngingar.
Ákærða játar sök samkvæmt ákæru sýslumannsins á Akureyri og samþykkir þar bótakröfu. Þá hefur ákærða ekki áður verið sakfelld fyrir ofbeldisbrot. Ákærða hefur lengi glímt við afar erfiðar aðstæður og margt verið henni öndvert í lífinu. Fyrir dómi rakti Sigmundur Sigfússon læknir, sem lengi hefur haft með ákærðu að gera, ástæður hennar og þykir dóminum sem töluvert megi byggja á vætti hans. Fyrir liggur að ákærða missti á árinu 2005 forsjá barna sinna, og var eldra barnið rúmlega hálfs annars árs en hitt nýfætt þegar ákærða mátti sjá á bak þeim. Þykir dóminum sem byggja megi á því, að þetta hafi haft veruleg áhrif á ákærðu og snúist tilvera hennar að miklu leyti um þessa staðreynd. Lýsti Sigmundur læknir því að ákærða hefði verið með einkenni svo kallaðrar áfallastreituröskunar og endurlifði aftur og aftur það atvik er nýfætt barn hennar var frá henni tekið. Það liggur fyrir að B var í fyrirsvari barnaverndar gagnvart ákærðu á þessum tíma, og þó í málinu hafi ekkert komið fram um að hún, eða aðrir starfsmenn barnaverndarinnar, hafi á nokkuru stigi málsins brotið gegn réttindum ákærðu eða barna hennar, liggur fyrir að ákærða ber mjög þungan hug til þeirra, og B sérstaklega. Lýsti Sigmundur því fyrir dómi að B hefði verið ákærðu fyrir hugskotssjónum nær daglega frá forsjársviptingu og þar til fundum þeirra bar saman og ákærða réðist á B svo sem lýst er í ákærulið I. Að mati dómsins verður það hins vegar ekki til refsimildunar eitt og sér, að maður, sem vinnur öðrum manni mein, hafi lagt á fórnarlamb sitt hatur lengi eða verið sem gagntekinn af því. Sigmundur lýsti því jafnframt fyrir dómi, að skömmu fyrir þá atburði sem fjallað er um í ákærulið I, hafi ákærða gengið í gegn um afar erfiðan skilnað, sem hafi verið ofbeldisfullur og haft eignaleysi hennar í för með sér. Hefði hún verið „í rúst“. Við þessar aðstæður hafi hún skyndilega hitt þann barnaverndarstarfsmann sem hafi fjarlægt barn hennar, og úr hafi orðið sú árás sem fjallað er um í ákærulið I. Þykir dóminum sem þessi heildarmynd komi hér öll til skoðunar.
En eins og áður segir, verður ekki fram hjá því horft að brot ákærðu eru alvarleg, sérstaklega samkvæmt ákærulið III, en þar sker hún konu, sem á sér einskis ills von, í andlit með glerbroti og verður af skurður rétt fyrir neðan auga og blasir við að ekki hefði mátt miklu muna svo glerbrotið hefði ekki farið í augað sjálft og þá líklega með verulegu líkamstjóni. Sama kona mátti auk þess í hálft ár lifa í óvissu um það hvort hún hefði smitazt af alvarlegum sjúkdómi. Þegar á allt er litið verður ákærða dæmd til átján mánaða fangelsis, en með vísan til málavaxta ákveður dómurinn að fullnustu fimmtán mánaða af refsingunni skuli frestað og niður falli hún að liðnum þremur árum haldi ákærða almennt skilorð.
Einkaréttarkröfur
Í málinu liggja fyrir nokkurar einkaréttarkröfur og koma þær hér til úrlausnar sbr. d lið ákvæðis II til bráðabirgða við lög nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Ákærða hefur fyrir sitt leyti fallizt á kröfu D og þykir mega dæma hana til greiðslu hennar.
B gerir í málinu miskabótakröfu á hendur ákærðu um greiðslu 500.000 króna. A krefst skaða- og miskabóta að fjárhæð 1.059.350 króna. C krefst skaðabóta að fjárhæð 5.990 króna. Akureyrarbær krefst skaðabóta að fjárhæð 36.464 króna. Allir þessir bótakrefjendur krefjast auk þess vaxta.
Ákærða hefur í máli þessu verið sakfelld fyrir árás á B fyrir að hóta henni lífláti. Sú hótun, sem sett var fram í framhaldi af því að ákærða framdi alvarlega líkamsárás á starfssystur B, var til þess fallin að vekja henni ótta um líf sitt og heilsu. B lýsti fyrir dómi miklum áhrifum sem hún hefði orðið fyrir. Hún lýsti hins vegar ýmsum fleiri hótunum sem hún kvaðst hafa orðið fyrir af hendi ákærðu, en fyrir þær hefur ekki verið ákært, engin sönnun verið færð fram um þær og vitaskuld engin sakfelling. Allt að einu þykir dóminum fært að dæma B bætur að álitum vegna þeirra brota sem ákærða er sakfelld fyrir gagnvart henni, og verður ákærða dæmd til að greiða henni 250.000 krónur í miskabætur.
Krafa A sundurliðast svo að krafizt er skaðabóta að fjárhæð 59.350 króna og 1.000.000 króna í miskabætur. Skaðabótakrafan er studd gögnum og verður tekin til greina, en eyða varð fatnaði og síma hennar sem fékk á sig blóð úr ákærðu. Þegar hefur verið lýst áverkum A en hún ber tvö ör eftir árásina, þar af annað undir auga. Þá mátti hún í hálft ár búa við óvissu um það hvort hún hefði tekið smit af alvarlegum sjúkdómi, og þó svo hafi ekki farið efast dómurinn ekki um að það ástand hafi verið þrúgandi fyrir hana og takmarkandi á ýmsan hátt í daglegu lífi. Hótun ákærðu í hennar garð, í framhaldi af umræddri árás, var svo til þess fallin að vekja ótta með A um líf sitt og heilsu. Verða miskabætur til hennar ákveðnar 750.000 krónur og ákærða því alls dæmd til að greiða henni 809.350 krónur ásamt nánar greindum vöxtum. Bótakröfur C og Akureyrarbæjar eru studdar gögnum og verða teknar til greina. Bótakröfur B, A og C voru kynntar ákærðu hinn 14. janúar 2008 en Akureyrarbæjar degi síðar. Fer því um dráttarvexti eins og í dómsorði greinir en af hálfu D var ekki krafizt dráttarvaxta. Ákærða er sakfelld fyrir brot gegn B, framin annars vegar 6. apríl 2006 og annars vegar 6. nóvember 2007. Með því ekki þykja efni til að greina í sundur miska B vegna þessara tveggja brota verður upphafstími vaxta miðaður við hið síðara brot.
Ákærða verður dæmd til að greiða allan sakarkostnað þar á meðal málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, sem alls ákveðast 560.250 krónur, og hefur þá verið litið til reglna um virðisaukaskatt, útlagðan kostnað verjandans, alls 78.820 krónur og annan sakarkostnað sem samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara nemur 54.765 krónum. Gætt var ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.
Þorsteinn Davíðsson kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Ákærða, Árný Eva Davíðsdóttir, sæti fangelsi í átján mánuði. Fullnustu fimmtán mánaða af refsingunni skal frestað og niður skal hún falla að liðnum þremur árum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærða greiði B 250.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. nóvember 2007 til 14. febrúar 2008 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærða greiði A 809.350 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. nóvember 2007 til 14. febrúar 2008 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærða greiði C 5.990 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. nóvember 2007 til 14. febrúar 2008 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærða greiði Akureyrarbæ 36.464 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. nóvember 2007 til 15. febrúar 2008 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærða greiði D 50.500 krónur.
Ákærða greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 560.250 krónur, útlagðan kostnað verjandans, 78.820 krónur, og annan sakarkostnað, 54.765 krónur.