Hæstiréttur íslands
Mál nr. 571/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Miðvikudaginn 4. nóvember 2009. |
|
Nr. 571/2009. |
Sigurbjörn Sigurðsson og Wendy Heather Nerestan (Sigurður Sigurjónsson hrl.) gegn Hafdísi Ölmu Karlsdóttur og Jóni Inga Ægissyni (Grímur Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.
S og W höfðuðu mál gegn H og J til staðfestingar kyrrsetningar sýslumanns á fasteign H og J og greiðslu samkvæmt tékka. Þá kröfðust þau skaðabóta og/eða afsláttar vegna kaupa á fasteign af H og J. Vísaði héraðsdómari málinu frá þar sem áður hafði verið dæmt í máli sem H og J höfðu höfðað gegn S og W til heimtu eftirstöðva kaupverðs vegna fasteignarinnar þar sem S og W kröfðust skaðabóta og/eða afsláttar vegna galla á fasteigninni. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í fyrra málinu hefði verið leyst úr ágreiningi og sýknað vegna galla sem hafi að hluta verið hinir sömu og S og W krefjist nú að fá bætta. Að öðru leyti snúi krafan að öðrum annmörkum á fasteigninni. Í málatilbúnaði S og W hafi engin viðleitni verið höfð uppi til að greina þar á milli. Var því talið að málið væri vanreifað og niðurstaða héraðsdóms um frávísun staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 26. september 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. september 2009, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þau kærumálskostnaður.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Hinn 23. september 2005 komst á samningur um kaup sóknaraðila á fasteigninni Bakkavegi 19 í Reykjanesbæ af varnaraðilum fyrir 39.000.000 krónur. Umsaminn afhendingardagur var 6. janúar 2006. Sóknaraðilar töldu eignina vera haldna göllum og fengu dómkvadda menn 30. mars 2007 til að leggja mat á tiltekin atriði, svo sem nánar greinir í hinum kærða úrskurði. Í matsgerð þeirra í júlí 2007 varð niðurstaðan sú að kostnaður við að laga galla, sem matsbeiðni laut að, var talinn nema 2.223.400 krónum. Sú fjárhæð var sundurliðuð í fjórtán einstaka verkliði. Í dómsmáli sem reis milli aðilanna kröfðust sóknaraðilar þess að varnaraðilar greiddu þeim þessa fjárhæð í „skaðabætur og/eða afslátt“ vegna gallanna. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2007 voru varnaraðilar sýknuð. Þeim dómi var ekki áfrýjað til Hæstaréttar.
Sóknaraðilar fengu sömu menn dómkvadda á ný 16. október 2008 til að meta tiltekna galla, sem þau töldu vera á húseigninni. Þessi atriði voru talin í fimm liðum eins og nánar er lýst í hinum kærða úrskurði. Þeir skiluðu matsgerð í nóvember 2008 og komust að þeirri niðurstöðu að kostnaður við lagfæringar myndi nema 17.161.800 krónum. Fjárhæðin var sundurliðuð í tuttugu og þrjá einstaka verkliði. Sóknaraðilar höfðuðu mál þetta 3. mars 2009 og kröfðust þess meðal annars að varnaraðilar greiddu þeim „skaðabætur og eða afslátt“ að fjárhæð 17.970.141 krónu. Með hinum kærða úrskurði var málinu vísað frá dómi. Sú niðurstaða var á því reist að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2007 hafi verið leyst úr ágreiningi aðilanna að því er varðar sömu kröfur, málsatvik og málsástæður, sem lögð séu til grundvallar í málatilbúnaði sóknaraðila nú.
II
Í máli, sem rekið var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og lauk með dómi 19. nóvember 2007, var leyst úr ágreiningi um ætlaða galla á Bakkavegi 19, sem voru að hluta hinir sömu og sóknaraðilar krefjast nú að fá bætta. Að öðru leyti snýr krafa þeirra að annmörkum á eigninni, sem ekki voru til úrlausnar í fyrra málinu, og forsendur í hinum kærða úrskurði fyrir frávísun eiga ekki við um. Matsgerðin í nóvember 2008 tók til ætlaðra galla á húsinu án tillits til þess hvort áður hafi verið um þá dæmt eða ekki og í málatilbúnaði þeirra eftir það hefur engin viðleitni verið höfð uppi til að greina þar á milli. Þegar af þeirri ástæðu telst málið svo vanreifað af þeirra hálfu að staðfesta verður niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að vísa málinu frá dómi og um málskostnað.
Sóknaraðilar verða dæmd til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Sigurbjörn Sigurðsson og Wendy Heather Nerestan, greiði óskipt varnaraðilum, Hafdísi Ölmu Karlsdóttur og Jóni Inga Ægissyni, hvoru um sig 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. september 2009.
I.
Mál þetta, sem höfðað var með réttarstefnu áritaðri um birtingu 3. mars 2009, var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefndu 2. september sl.
Stefnendur eru Sigurbjörn Þór Sigurðsson og Wendy Heather Nerestan, bæði til heimilis að Bakkavegi 19, Reykjanesbæ, en stefndu eru Hafdís Alma Karlsdóttir og Jón Ingi Ægisson, bæði til heimilis að Heiðarbóli 71, Reykjanesbæ.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
I. Að staðfest verði með dómi kyrrsetningargerð sýslumannsins í Keflavík í málunum nr. 034-2009-00238 og 034-2009-239, sem fram fóru 12. febrúar 2009 að kröfu stefnenda í fasteign stefndu nr. 71 við Heiðarból í Reykjanesbæ og greiðslu kr. 3.863.290 samkvæmt tékka frá Sparisjóðnum í Keflavík en tékkinn er nr. 7051710 útgefinn 10. febrúar 2009 af Sparisjóðnum í Keflavík.
II.
1. Aðallega að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnendum skaðabætur og/eða afslátt að fjárhæð kr. 17.970.141 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. nóvember 2008 til greiðsludags. Krafist er uppfærslu samkvæmt 12. gr. sömu laga miðað við 1. nóvember ár hvert í fyrsta sinn 1. nóvember 2009.
2. Til vara krefjast stefnendur skaðabóta og/eða afsláttar úr hendi stefndu in solidum að mati dómsins auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. nóvember 2008 til greiðsludags og uppfærslu eins og krafist er í aðalkröfum.
III. Af hálfu stefnenda er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu að skaðlausu að mati réttarins, hvoru tveggja málflutningsþóknunar að teknu tilliti til 24,5% virðisaukaskatts, matskostnaðar og alls kostnaðar vegna kyrrsetningargerðar og eftirfarandi staðfestingarmáls. Áskilinn er réttur til að leggja fram málskostnaðarreikning fyrir munnlegan flutning málsins.
Stefndu krefjast aðallega frávísunar málsins en til vara að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnenda og að synjað verði um staðfestingu kyrrsetningargerðar í fasteign stefndu, Heiðarbóli 71 í Reykjanesbæ, og greiðslu að fjárhæð kr. 3.863.290 og kyrrsetningin þannig felld niður.
Í öllum tilvikum krefjast stefndu þess að þeim verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnenda að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að teknu tilliti til þess að stefndu eru ekki virðisaukaskattskyld.
II.
Helstu málavextir eru þeir, að stefnandi, Sigurbjörn Þór Sigurðsson, samþykkti hinn 23. september 2005 gagntilboð stefndu vegna kaupa á fasteigninni að Bakkavegi 19 í Reykjanesbæ að fjárhæð 39.000.000 krónur. Í gagntilboðinu segir að kaupandi geri fyrirvara um ástandsskoðun óháðs fagaðila og að niðurstaða úr ástandsskoðun skuli liggja fyrir innan 7 daga frá samþykki kauptilboðs og hafi kaupandi rétt til að falla frá tilboðinu ef áður óþekktir gallar komi fram í ástandsskoðuninni.
Hinn 26. október 2005 undirrituðu aðilar máls þessa kaupsamning þar sem stefndu seldu stefnendum fasteignina og var kaupverðið 39.000.000 krónur. Skyldi kaupverðið greiðast þannig að við undirritun kaupsamningsins 26. október 2005 greiddust með peningum 23.200.000 krónur og þegar seljendur hefðu aflétt láni á 1. veðrétti eignarinnar skyldu greiðast með peningum 8.000.000 krónur, við afhendingu fasteignarinnar með peningum 3.900.000 krónur og loks við útgáfu afsals, einum mánuði eftir afhendingu eignarinnar, með peningum 3.900.000 krónur.
Samkvæmt kaupsamningi skyldi afhending fara fram 6. janúar 2006 eða fyrr en stefndu fluttu út í desember 2005. Eftirstöðvar kaupverðs hinn 6. febrúar 2006 námu 3.900.000 krónur og hinn 10. febrúar 2006 greiddu stefnendur 2.400.000 krónur.
Vegna ætlaðra galla á húseigninni, létu stefnendur dómkveðja matsmenn, Frey Jóhannesson og Ríkharð Kristjánsson, og skiluðu þeir matsgerð í júlí 2007. Samkvæmt matsbeiðni var lagt fyrir matsmennina að meta eftirfarandi:
„I Rafkerfi:
Af hálfu matsbeiðenda hefur verið kvartað yfir því, að rafkerfið sé ekki eins og við má búast í nýlegu húsi. Kvöddu matsbeiðendur því til fyrirtækið Rafskoðun ehf. til þess að taka út raflögn og skilaði fyrirtækið skýrslu hinn 8. febrúar 2007 ásamt athugasemdum. Þess er óskað að hinir dómkvöddu matsmenn meti og skoði raflögn hússins með hliðsjón af skýrslu Rafskoðunar dags. 8. febrúar 2007.
a. Er frágangi hússins ábótavant varðandi raflögn, þannig að í bága fari við reglur og reglugerðir.
b. Hitakerfi í gólfi virkar ekki. Þess er óskað, að hinir dómkvöddu matsmenn staðreyni það.
Þess er óskað að hinir dómkvöddu matsmenn meti til verðs hina meintu ágalla og sundurgreini efni og vinnu og aðfinnslur skv. umræddri skýrslu og bendi á úrbætur og lagfæringar, sem fram þurfa að fara skv. ábendingum Rafskoðunar ehf. og lögum og reglugerðum.
II Almenn skoðun:
Í málinu liggur fyrir ástandsskoðunarskýrsla. Þess er óskað að hinir dómkvöddu matsmenn meti ástand Bakkavegar 19 út frá athugasemdum skoðunarmanns Guðmundar Hreinssonar.
a. Er húsið Bakkavegur 19 byggt í samræmi við teikningar? Er frágangur hússins í samræmi við reglugerðir og byggingalög?
b. Þess er óskað að hinir dómkvöddu matsmenn skoði og staðreyni meinta ágalla með hliðsjón af ábendingum skv. skoðunarskýrslu Guðmundar Hreinssonar og einkum eftirfarandi:
A. Leka meðfram hurðum og gluggum.
B. Frágang á rennum á þaki.
C. Frágang á þakkanti.
D. Steiningu á húsi utanhúss.
E. Gólf þ.e. flísar á gólfum og hvort réttur gólfhalli sé í húsinu.
F. Frágangur á hurðum í bílskúr og millihurð.
c. Kanni hvort réttilega hefur verið gengið frá húsinu við sökkul en vart hefur orðið við músagang í húsinu“.
Var niðurstaða matsmannanna sú að ástand hússins væri ekki gott og mátu þeir kostnað við lagfæringu gallanna á 2.223.400 krónur. Í því fólst einkum lagfæring á raflögn, gólfhitalögn, leka í gluggum, samskeyti þakrenna, flísalögn, steiningu, frágang bílskúrshurðar og kostnaður við að koma fyrir músarbandi undir múrklæðningu við sökkul.
Stefndu í þessu máli höfðuðu mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur gegn stefnendum og tóku stefnendur til varna og höfðuðu gagnsakarmál, sem sameinað var aðalmálinu. Dómur var kveðinn upp 19. nóvember 2007 þar sem stefnendur voru dæmd til að greiða stefndu eftirstöðvar kaupverðsins að fjárhæð 1.400.000 krónur með dráttarvöxtum en stefnendur höfðu ekki mótmælt greiðsluskyldu samkvæmt kaupsamningi aðila. Jafnframt voru stefndu sýknuð af öllum kröfum stefnenda í málinu vegna ætlaðra galla á húsinu og var stefnendum gert að greiða stefndu málskostnað. Dómnum var ekki áfrýjað. Stefndu kröfðust efnda samkvæmt dómnum og var krafan innheimt með atbeina sýslumanns.
Stefnendur kvöddu til Heilbrigðiseftirlit og byggingafulltrúa til að skoða fasteignina. Úttektarskýrsla byggingafulltrúans er dagsett 17. september 2008. Þar kemur fram að nauðsynlegt sé að huga að burðarvirki hússins og byggingu þess. Hinn 28. ágúst 2008 létu stefnendur dómkveðja sömu matsmenn og áður höfðu verið dómkvaddir. Voru lagðar fyrir matsmennina eftirfarandi spurningar:
„1. Að hinir dómkvöddu matsmenn meti og skoði frágang á þaki með tilliti til þess að matsbeiðendur hafa greint leka innandyra og sýnileg eru lekamerki á þaki.
2. Að kannaður verði frágangur og þéttleiki á milli útveggja og botnplötu hússins ásamt ástandi á fótstykki útveggja og grind.
3. Að kannaður verði þéttleiki milli útveggja og botnplötu með sama hætti og klæðningar utanhúss og staðreyndar verði inngönguleiðir meindýra en matsbeiðendur hafa orðið vör við nagdýr inn á loftum hússins.
4. Að matsmenn kanni pappaklæðningu á þaki hússins og hvort pappaklæðning sé óþétt og ennfremur hvort frágangur neðra þaks við útveggi sé fullnægjandi.
5. Að matsmenn kanni almennt ástand þaks og frágang á þaki og hvort það sé í samræmi við reglugerðir og lög“.
Er það niðurstaða matsmanna í matsgerð dagsettri í nóvember 2008 að kostnaður við að framkvæma lagfæringar á húsinu nemi 17.161.800 krónum.
Stefnendur kröfðust kyrrsetningar hjá stefndu og var kyrrsetningarmálið tekið fyrir hjá sýslumanninum í Keflavík 12. febrúar 2009. Við fyrirtökuna voru lögð fram kaupsamningur aðila frá 23. september 2005 og áðurnefnd matsgerð frá því í nóvember 2008. Stefnda, Hafdís Alma Karlsdóttir, mótmælti framgangi gerðarinnar en sýslumaður féllst á kröfu stefnenda og kyrrsetti eignarhlut stefndu í fasteigninni að Heiðarbóli 71 í Reykjanesbæ.
III.
Stefndu byggja frávísunarkröfu sína á því annars vegar, að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. nóvember 2007 hafi verið leyst úr ágreiningi aðila og ekki verði leyst úr sakarefninu að nýju fyrir hliðsettum dómstóli með vísan til 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þ.e. vegna res judicata áhrifa. Hins vegar er á því byggt að kröfugerð stefnenda uppfylli ekki skilyrði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefndu vísa til þess að res judicata áhrifin eigi að tryggja að dómur um ágreiningsefni milli aðila sé endir þrætunnar og að aðilar megi treysta því að lokaniðurstöðu í dómsmáli verði ekki haggað með annarri málsókn. Þetta mál varði ágreining milli sömu aðila vegna sömu fasteignakaupa og áttust við í málinu, sem dæmt var 19. nóvember 2007. Verði því að vísa þessu máli frá, enda væri önnur niðurstaða í andstöðu við framangreinda meginreglu um endanlega niðurstöðu dómsmála. Gildi þetta jafnvel þótt dómari líti svo á að örlítill blæbrigðamunur sé á málunum, enda séu kröfur, málsástæður og lagarök í öllum meginatriðum þau sömu og í fyrra málinu. Tilganginum með res judicata áhrifum og áhrifum, sem 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sé ætlað að hafa, yrði ekki náð ef heimilt væri að bera sömu mál ítrekað undir dómstóla með örlitlum frávikum í hvert skipti. Í báðum málunum sé krafist skaðabóta eða afsláttar vegna ætlaðra galla og kröfur í báðum málunum séu studdar sömu málsatvikum, málsástæðum og lagarökum. Verði ekki fallist á frávísun málsins í heild, sé rétt að vísa frá eða sýkna stefndu af þeim kröfuliðum, sem eru þeir sömu og í fyrra máli.
Stefndu byggja jafnframt á því að framsetning á kröfum stefnenda sé óljós og ekki í samræmi við ákvæði d-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Engan tölulegan útreikning á fjárkröfum sé að finna í stefnunni heldur sé þar einungis vísað til matsgerðar. Þá sé ekkert tillit tekið til þess að fjárhæðir matsgerðar miðist við 1. nóvember 2008 en fjárhæðirnar beri með réttu að miða við verðlag eins og það var við afhendingu eignarinnar um áramótin 2005/2006. Þá hafi stefnandi ekki dregið frá 60% af virðisaukaskatti vegna vinnu á verkstað þrátt fyrir að beinlínis sé um það rætt í matsgerð. Þá nemi frádráttur vegna vinnu á verkstað nú 100%, sbr. 2. gr. laga nr. 10/2009, um breyting á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Loks vísa stefndu til þess að krafa II í stefnu sé valkvæð á þann veg að gerð sé krafa um „skaðabætur og/eða aflsátt“ en slík krafa sé ódómtæk. Kröfur stefndu sé þannig vanreifaðar og beri því að vísa þeim frá dómi.
IV.
Í þessum þætti málsins er eingöngu til úrlausnar krafa stefndu um frávísun, sem stefnendur hafa mótmælt.
Fyrir liggur að stefndu höfðuðu dómsmál nr. 579/2007 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í janúar 2007 til heimtu greiðslu eftirstöðva kaupverðsins úr hendi stefnenda vegna kaupa stefnenda á fasteigninni að Bakkavegi 19 í Reykjanesbæ. Stefnukrafan nam 1.400.000 krónum með dráttarvöxtum frá 6. febrúar 2006 til greiðsludags auk málskostnaðar. Stefnendur kröfðust aðallega sýknu af kröfum stefndu en til vara lækkunar. Jafnframt gagnstefndu stefnendur og kröfðust aðallega skaðabóta og/eða afsláttar að fjárhæð 2.223.400 krónur auk vaxta frá 6. febrúar 2006 til greiðsludags. Var þess krafist að dómkröfur í gagnsök yrðu notaðar til skuldajafnaðar við kröfur stefndu að svo miklu leyti sem til þyrfti en að sjálfstæður dómur yrði kveðinn upp um mismuninn. Til vara var krafist skaðabóta og/eða aflsáttar að mati dómsins með vöxtum og að kveðinn yrði upp sjálfstæður dómur um allar dómkröfur í gagnsök. Loks var krafist málskostnaðar.
Dómur gekk í framangreindu máli 19. nóvember 2007 og var niðurstaða dómsins sú, að stefndu í þessu máli voru sýknuð af öllum gagnkröfum stefnenda en hinir síðarnefndu voru dæmdir til að greiða stefndu í þessu máli eftirstöðvar kaupverðsins að fjárhæð 1.400.000 krónur með dráttarvöxtum frá 6. febrúar 2006 til greiðsludags. Þá var stefnendum gert að greiða stefndu málskostnað.
Bæði aðal- og varakrafa stefnenda í kröfulið II í þessu máli er krafa um skaðabætur og/eða afslátt úr hendi stefndu að viðbættum dráttarvöxtum. Byggja stefnendur á því þeir hafi orðið fyrir tjóni vegna galla á hinni keyptu fasteign að Bakkavegi 19. Samkvæmt framlögðu endurriti framangreinds dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2007 gerðu stefnendur þessa máls í gagnkröfu sinni í því máli einnig kröfu um skaðabætur og/eða afslátt vegna galla á sömu fasteign.
Eins og áður er rakið lá frammi í fyrra dómsmálinu matsgerð dómkvaddra matsmanna um ætlaða galla á fasteigninni. Í matsbeiðni var lagt fyrir matsmennina að meta rafkerfi fasteignarinnar auk þess sem þess var óskað að þeir kvæðu upp úr um það, hvort húsið væri byggt í samræmi við teikningar og hvort frágangur þess væri í samræmi við reglugerðir og byggingalög. Jafnframt var lagt fyrir matsmennina að skoða og staðreyna ætlaða ágalla, einkum varðandi leka meðfram hurðum og gluggum, frágang á rennum á þaki, frágang á þakkanti, steiningu utan á húsinu, flísar á gólfum og gólfhalla, frágang á hurðum í bílskúr og millihurð og frágang hússins við sökkul. Var lagt mat á þessi atriði í fyrrgreindri matsgerð.
Í síðari matsbeiðni stefnenda, sem dagsett er eftir að fyrrgreindur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur gekk, er þess farið á leit við dómkvadda matsmenn, að þeir meti og skoði frágang á þaki, frágang og þéttleika á milli útveggja og botnplötu hússins ásamt ástandi á fótstykki útveggja og grind, að kannaður verði þéttleiki milli útveggja og botnplötu með sama hætti og klæðningar utan húss og að staðreyndar verði inngönguleiðir meindýra, að könnuð verði pappaklæðning á þaki og þéttleiki hennar og hvort frágangur neðra þaks við útveggi sé fullnægjandi, að kannað verði almennt ástand þaks og frágang á þaki og hvort það sé í samræmi við reglugerðir og lög. Er síðan tekið fram að óskað sé eftir því að matsmenn kanni sérstaklega, hvort farið hafi verið að samþykktum, reglugerð og lögum við frágang og byggingu hússins. Er lagt mat á þessi atriði í matsgerðinni.
Að framanrituðu virtu verður að fallast á það með stefndu að báðar þessar matsgerðir hafi í öllum aðalatriðum fjallað um sambærilega galla þótt fyrir liggi að dómkrafa stefnenda nemur mun hærri fjárhæð í þessu máli en gagnkrafa þeirra í máli nr. 579/2007, sem dómur var lagður á 19. nóvember 2007. Þegar litið er til alls framangreinds verður ekki ráðið að stefnendur hafi nú uppi málsástæður, sem ekki var haldið fram eða tilefni var til að hafa uppi í fyrra skiptið. Er enda ekkert fram komið sem leiðir líkum að því að þeir gallar, sem tíundaðir eru í þessu máli til viðbótar þeim, sem taldir eru fram í fyrra málinu, hafi ekki verið til komnir fyrr en eftir að fyrri matsgerð var unnin. Í ljósi alls framangreinds er það mat dómsins að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. 579/2007 frá 19. nóvember 2007 hafi verið leyst úr ágreiningi aðila að því er varðar sömu kröfur, málsatvik og málsástæður og lagt er upp með af hálfu stefnenda í þessu máli. Var þeim dómi ekki áfrýjað. Er það því niðurstaða dómsins að framangreindur dómur sé bindandi um úrslit þess sakarefnis milli aðila, sem borið er fyrir dóminn í kröfulið II í stefnu. Með vísan til meginreglu 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 er þeim kröfulið því þegar af þeirri ástæðu vísað frá dómi. Að fenginni þessari niðurstöðu verður kröfum stefnenda í kröfulið I jafnframt vísað frá dómi.
Eftir þessum úrslitum verða stefnendur dæmdir til að greiða stefndu 260.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur, Sigurbjörn Þór Sigurðsson og Wendy Heather Nerestan, greiði stefndu, Hafdísi Ölmu Karlsdóttur og Jóni Inga Ægissyni, 260.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.