Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-224

Samkeppniseftirlitið og íslenska ríkið (Gizur Bergsteinsson lögmaður)
gegn
Byko ehf. og Norvik hf. (Halldór Brynjar Halldórsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Samkeppni
  • Stjórnvaldssekt
  • EES-samningurinn
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 11. júlí 2019 leita Samkeppniseftirlitið og íslenska ríkið eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 14. júní sama ár í málinu nr. 490/2018: Byko ehf. og Norvik hf. gegn Samkeppniseftirlitinu og íslenska ríkinu og Samkeppniseftirlitið gegn Byko ehf. og Norvik hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Byko ehf. og Norvik hf. taka ekki afstöðu til beiðninnar.

Mál þetta lýtur að ákvörðun leyfisbeiðandans Samkeppniseftirlitsins 15. maí 2015 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að nánar tilgreind samskipti gagnaðilans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. á tímabilinu nóvember 2008 til mars 2011 hafi falið í sér ólögmætt samráð sem hafi verið andstætt 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og 53. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Þá var gagnaðilanum Norvik hf., móðurfélagi Byko ehf., gert að greiða sekt að fjárhæð 650.000.000 krónur vegna brota þess síðarnefnda. Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála 28. september 2015 var staðfest að gagnaðilinn Byko ehf. hafi brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga en á hinn bóginn ekki talið sýnt fram á að brotið hafi verið gegn 53. gr. EES-samningsins. Þá lækkaði áfrýjunarnefndin sektina í 65.000.000 krónur. Í dómi 16. maí 2018 komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að gagnaðilinn Byko ehf. hafi brotið bæði gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins og var sektin hækkuð í 400.000.000 krónur. Í áðurnefndum dómi taldi Landsréttur að gagnaðilinn Byko ehf. hafi brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga en að virtu eðli brotanna og markaðarins sem þau beindust að var talið að Samkeppniseftirlitið hafi ekki sýnt fram á að brotin gætu hafa haft áhrif á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt 53. gr. EES-samningsins. Þá var sekt gagnaðilans Norvik hf. ákveðin 325.000.000 krónur.

Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi annars vegar um beitingu 53. gr. EES-samningsins og hins vegar um fjárhæð stjórnvaldssektar og varði málið þannig sérstaklega mikilvæga hagsmuni þeirra. Telja þeir að í niðurstöðu Landsréttar hafi verið gerðar ríkari kröfur en áður hafi sést til sönnunar á því hvort brot geti hafa haft áhrif á viðskipti milli aðila innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þá sé niðurstaðan í andstöðu við fyrirmæli Eftirlitsstofnunar EFTA og dómaframkvæmd Evrópudómstólsins. Leyfisbeiðendur benda á að í dómi Landsréttar hafi fjárhæð sektar verið lækkuð í sömu fjárhæð og Húsasmiðjan ehf. hafi samþykkt að greiða með sátt á árinu 2014 vegna brota félagsins í sömu tilvikum. Sé sú niðurstaða fallin til að draga verulega úr hvata fyrirtækja til að gera sátt vegna samkeppnisbrota. Þá sé fjárhæð sektarinnar reist á röngum forsendum þar sem Landsréttur leggi ranglega til grundvallar lengd brotatímabils gagnaðilans Byko ehf., áhrif verðsamráðsins og fjárhæð sekta í öðrum samkeppnismálum sem komið hafa til kasta dómstóla. Að þessu leyti sé dómur Landsréttar jafnframt bersýnilega rangur að efni til.

Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í máli þessu myndi hafa fordæmisgildi um framangreind atriði. Er umsókn leyfisbeiðenda um áfrýjunarleyfi því tekin til greina.