Hæstiréttur íslands

Mál nr. 331/2001


Lykilorð

  • Gæsluvarðhald
  • Skaðabætur
  • Gjafsókn
  • Aðfinnslur


Fimmtudaginn 24

 

Fimmtudaginn 24. janúar 2002.

Nr. 331/2001.

Sigurjón Sigurgeirsson

(Tómas Jónsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Gæsluvarðhald. Skaðabætur. Gjafsókn. Aðfinnslur.

S, sem sætt hafði gæsluvarðhaldi vegna sakargifta um líkamsárás, höfðaði bótamál á hendur íslenska ríkinu (Í). Með hliðsjón af gögnum málsins var talið að réttmætt tilefni hefði verið til handtöku S og gæsluvarðhalds yfir honum frá 29. september 1998 til 9. næsta mánaðar. Í gæti því ekki orðið bótaskylt gagnvart S af þessum sökum, sbr. síðari málslið 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991. Þá var og hafnað að S gæti byggt bótakröfu á því að þessar aðgerðir hefðu verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt eða að gæsluvarðhaldsvist hans hafi í heild verið óþarflega harkaleg. Af hálfu Í hafði hins vegar ekki verið sýnt fram á að hagsmunir tengdir rannsókn málsins hafi með réttu getað staðið til þess að hefta frelsi S frá 9. til 23. október 1998, er hann var leystur úr gæsluvarðhaldi. S hafði endanlega verið sýknaður af umræddum sakargiftum með dómi 14. júní 2000. Samkvæmt þessu var fullnægt skilyrðum a. liðar 176. gr. og 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 til að dæma S bætur fyrir fjártjón og miska. Við ákvörðun miskabóta var meðal annars litið til þess að S hafði fram til 9. október 1998 sætt gæsluvarðhaldi, sem réttmætt tilefni var til.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. september 2001. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.828.878 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 7. desember 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst stefndi þess að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verði felldur niður.

I.

Eins og rakið er í héraðsdómi á málið rætur að rekja til þess að áfrýjandi var ásamt nokkrum félögum sínum staddur í miðborg Reykjavíkur aðfaranótt sunnudagsins 27. september 1998. Hittu þeir fyrir annan hóp manna við veitingahús að Austurstræti 3, þar sem átök urðu á milli þeirra. Í þessum átökum varð einn maður í hópi áfrýjanda, Sveinn Gunnar Jónasson, fyrir meiðslum, en þrír úr hinum hópnum, þar á meðal Kristinn Rúnar Magnússon. Fékk sá síðastnefndi hnefahögg í andlitið og féll af því til jarðar, þar sem hann skall niður á hnakkann. Eftir þetta kom aðvífandi einn maður eða fleiri, sem spörkuðu í Kristin, meðal annars í höfuð hans. Hlaut Kristinn af þessu öllu veruleg meiðsl, sem einkum voru sprunga í hvirfilbeini og nefbrot, svo og heilablæðing og heilamar, en af þessu síðastnefnda mun hann hafa orðið fyrir varanlegum skaða í framheila.

Lögreglan var þegar kvödd á vettvang og hóf rannsókn málsins, meðal annars með því að taka tali tíu manns, sem ýmist tóku þátt í átökunum eða urðu vitni að þeim. Að áliðnum morgni og eftir hádegi sama dag handtók lögreglan fimm menn vegna þessara atvika, þar á meðal áfrýjanda. Þá fékk lögreglan í hendur síðdegis þennan dag myndbandsupptöku, sem vegfarandi hafði náð af hluta átakanna. Á grundvelli þessarar upptöku og frásögn vitna beindi lögreglan grun einkum að fyrrnefndum Sveini og áfrýjanda um að hafa veitt Kristni þá áverka, sem áður er getið. Þeim þremur, sem að auki höfðu verið handteknir, var sleppt úr haldi að kvöldi sama dags, en áfrýjandi og Sveinn voru leiddir fyrir dómara næsta dag og krafist gæsluvarðhalds yfir þeim. Fyrir dómi viðurkenndi Sveinn að hafa veitt Kristni áðurgreint hnefahögg í andlitið, en kvaðst ekki minnast þess að hafa sparkað í hann eftir það. Féllst héraðsdómari með úrskurði sama dag á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um að Sveinn yrði hnepptur í gæsluvarðhald allt til 19. október 1998. Áfrýjandi neitaði á hinn bóginn fyrir dómi að hafa átt nokkurn hlut að árásinni á Kristin, en kannaðist þó við að hafa verið staddur á vettvangi og átt þar orðaskipti við hann áður en átökin hófust. Með úrskurði héraðsdómara 29. september 1998 var áfrýjanda gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 9. næsta mánaðar. Gæsluvarðhald samkvæmt báðum þessum úrskurðum var reist á ákvæði a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og var hvorugum þeirra skotið til Hæstaréttar.

Lögreglustjóri krafðist þess 8. október 1998 að gæsluvarðhald yfir áfrýjanda yrði á grundvelli síðastnefnds ákvæðis, svo og 2. mgr. sömu lagagreinar, framlengt allt til 16. nóvember sama árs. Héraðsdómari féllst á þessa kröfu með úrskurði sama dag, en þó þannig að gæsluvarðhaldinu var markaður tími allt til 30. október 1998. Í sama þinghaldi kvað héraðsdómari upp úrskurð, þar sem hafnað var kröfu áfrýjanda um að honum yrði ekki lengur gert að sæta einangrun og öðrum takmörkunum í gæsluvarðhaldsvist. Áfrýjandi kærði úrskurðinn um gæsluvarðhald til Hæstaréttar, sem með dómi 19. október 1998 féllst á að fullnægt væri skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir áfrýjanda og staðfesti á þeim grunni niðurstöðu úrskurðarins. Áður en þessi dómur gekk hafði lögreglan ákveðið 13. sama mánaðar að leysa áfrýjanda úr einangrun og aflétta öðrum takmörkunum, sem hann hafði búið við í gæsluvarðhaldsvist.

Hinn 19. október 1998 krafðist lögreglustjóri þess að Sveini yrði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til 15. desember sama árs. Var sú krafa eingöngu reist á 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Héraðsdómari varð við henni með úrskurði 20. október 1998, sem Sveinn kærði til Hæstaréttar. Með dómi réttarins 23. sama mánaðar var úrskurður héraðsdómara felldur úr gildi, þar sem ekki var fullnægt skilyrðum umrædds lagaákvæðis fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Að gengnum þessum dómi voru Sveinn og áfrýjandi báðir leystir þegar í stað úr haldi.

Ríkissaksóknari höfðaði 11. júní 1999 mál meðal annars á hendur áfrýjanda og Sveini, þar sem þeim var gefin að sök líkamsárás á Kristin Rúnar Magnússon aðfaranótt 27. september 1998 með því að Sveinn hafi með krepptum hnefa slegið Kristin í andlitið, þannig að hann skall aftur fyrir sig í götuna og missti meðvitund, en þeir Sveinn og áfrýjandi síðan báðir sparkað í höfuð Kristins, þar sem hann lá, allt með þeim afleiðingum að sá síðastnefndi hlaut þá áverka, sem áður er getið. Var þessi verknaður talinn varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 12. október 1999 var áfrýjandi sýknaður af þessum sakargiftum, en Sveinn á hinn bóginn sakfelldur og dæmdur til að sæta fangelsi í tvo mánuði skilorðsbundið. Þessum dómi var áfrýjað til Hæstaréttar, sem ómerkti hann með dómi 9. mars 2000 og vísaði málinu heim í hérað til nýrrar aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný. Héraðsdómur gekk um þetta ákæruefni öðru sinni 14. júní 2000. Áfrýjandi var á ný sýknaður, en Sveinn sakfelldur og þessu sinni dæmdur í sjö mánaða fangelsi skilorðsbundið. Þessum dómi var ekki áfrýjað.

Með bréfi 9. nóvember 2000 krafði áfrýjandi stefnda um bætur vegna gæsluvarðhalds, sem hann sætti á framangreindan hátt vegna sakargifta um líkamsárásina á Kristin Rúnar Magnússon. Að fram kominni höfnun stefnda á þeirri kröfu höfðaði áfrýjandi þetta mál 4. desember 2000. Eins og nánar greinir í héraðsdómi krefst áfrýjandi skaðabóta vegna missis tekna að fjárhæð 119.250 krónur meðan hann sætti gæsluvarðhaldi, vegna kostnaðar af lögmannsaðstoð, 249.623 krónur, sem tildæmd málsvarnarlaun í opinberu málunum gegn honum nægðu ekki til að greiða, og vegna kostnaðar af ferð hingað til lands út af rekstri opinbera málsins öðru sinni, 60.005 krónur. Að auki krefst áfrýjandi miskabóta vegna gæsluvarðhaldsins, samtals 3.400.000 krónur. Með hinum áfrýjaða dómi voru áfrýjanda eingöngu dæmdar bætur vegna framangreinds ferðakostnaðar og unir stefndi við þá niðurstöðu.

II.

Fallist verður á með héraðsdómara að réttur áfrýjanda til bóta úr hendi stefnda ráðist af ákvæði 176. gr. laga nr. 19/1991, ásamt þeim frekari skilyrðum fyrir bótarétti, sem fram koma í 175. gr. sömu laga, eins og þeim var breytt með 42. gr. laga nr. 36/1999.

Þegar áfrýjandi gaf að kvöldi 27. september 1998 í fyrsta skipti skýrslu fyrir lögreglunni um áðurgreinda atburði undangenginnar nætur neitaði hann með öllu að hafa átt í átökum við Kristin Rúnar Magnússon eða sparkað til Kristins eftir að hann féll til jarðar. Framburður áfrýjanda fyrir dómi næsta dag var á sömu lund. Af fyrrnefndri myndbandsupptöku af hluta þeirra slagsmála, sem brutust út í umrætt sinn, var þegar ljóst að áfrýjandi greindi hér rangt frá, enda áttu þeir Kristinn sýnilega í snörpum átökum rétt áður en Sveinn Gunnar Jónasson sló Kristin niður með hnefahöggi í andlitið. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að réttmætt tilefni hafi verið til handtöku áfrýjanda og gæsluvarðhalds yfir honum samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 1998. Getur stefndi ekki orðið bótaskyldur gagnvart áfrýjanda af þessum sökum, sbr. síðari málslið 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 með áorðnum breytingum. Á sama hátt verður staðfest niðurstaða héraðsdómara um að áfrýjandi geti ekki krafist bóta á þeim grunni að þessar aðgerðir hafi verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt eða að gæsluvarðhaldsvist hans hafi í heild verið óþarflega harkaleg.

Eins og áður greinir var áfrýjandi handtekinn af lögreglunni síðdegis 27. september 1998 vegna fyrrgreindra atvika og auk hans fjórir aðrir menn. Skýrslur voru teknar af þeim öllum sama dag, en jafnframt skýrslur af tíu vitnum. Dagana fram til 2. október 1998 tók lögreglan sautján vitnaskýrslur vegna málsins, þar af fjórtán skýrslur af nýjum vitnum en þrjár af vitnum, sem höfðu einnig borið um það á fyrsta degi rannsóknarinnar. Á sama tímabili voru teknar tvær skýrslur af áfrýjanda, en engar af öðrum sakborningum. Dagana 6. til 8. október 1998 tók lögreglan skýrslu af einu nýju vitni og fimm skýrslur af öðrum sakborningum en áfrýjanda. Á því tímabili voru vitni einnig leidd til sakbendingar.

Þegar lögreglustjórinn í Reykjavík krafðist þess 8. október 1998 að gæsluvarðhald yfir áfrýjanda yrði framlengt var meðal annars borið við rannsóknarhagsmunum, sbr. a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Í því sambandi var vísað til þess að eftir væri að taka skýrslur af vitnum og fleiri skýrslur af sakborningum, auk þess sem enn væri beðið niðurstöðu úr rannsókn, sem stæði yfir á fatnaði og skóm áfrýjanda til að leita þar ummerkja af hugsanlegum átökum hans við Kristin Rúnar Magnússon. Svo sem áður greinir reisti lögreglustjóri kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir áfrýjanda einnig á því að nauðsyn bæri til þess vegna almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Í úrskurði héraðsdómara um þessa kröfu, sem var kveðinn upp 8. október 1998, var fallist á hana á grundvelli beggja þeirra lagaheimilda, sem hér um ræðir. Í dómi Hæstaréttar 19. sama mánaðar var sem fyrr segir staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að áfrýjandi skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi til 30. október 1998, en þó aðeins með stoð í a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Var þannig hafnað að gæsluvarðhald yfir áfrýjanda gæti á því stigi helgast af öðru en að nauðsyn bæri til þess svo komið yrði í veg fyrir að hann gæti torveldað rannsókn málsins. Eftir að héraðsdómari féllst á kröfu lögreglustjóra um framlengingu gæsluvarðhalds og fram til þess að dómur Hæstaréttar gekk 19. október 1998 tók lögreglan skýrslu af einu nýju vitni 9. sama mánaðar og einum sakborningi þremur dögum síðar. Á sama tímabili var rannsókn lokið á fatnaði áfrýjanda og annarra sakborninga. Dagana 12. til 14. október 1998 leitaði lögreglan tveggja vitna, sem þótti mega sjá bregða fyrir í áðurnefndri myndbandsupptöku en ekki hafði tekist að bera kennsl á. Sú leit bar ekki árangur. Upp frá þessu og fram til 30. október 1998 voru teknar fjórar skýrslur af vitnum um aðra þætti málsins, sem lutu ekki að áfrýjanda, en þau vitni höfðu öll gefið skýrslur á fyrri stigum um atriði, sem hann vörðuðu. Þá mættu tvö vitni til svokallaðrar myndsakbendingar. Lögreglan leysti áfrýjanda sem fyrr segir úr einangrun í gæsluvarðhaldsvist 13. október 1998 og létti um leið af öðrum takmörkunum, sem hann hafði þar sætt, meðal annars á því að eiga samskipti við aðra. Það sama hafði lögreglan þegar gert 9. sama mánaðar að því er varðaði gæsluvarðhaldsvist Sveins Gunnars Jónassonar. Gegn þessu, sem nú liggur fyrir, hefur ekki verið sýnt fram á að hagsmunir tengdir rannsókn málsins hafi með réttu getað staðið til þess að hefta frelsi áfrýjanda eftir 9. október 1998, svo sem lögreglustjórinn í Reykjavík bar þó við, en til þess dags hafði gæsluvarðhaldi yfir honum verið markaður tími með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september sama árs. Er því ekki sýnt að nægilegt tilefni hafi verið til þess að áfrýjandi yrði látinn sæta gæsluvarðhaldi frá 9. til 23. október 1998. Hann var endanlega sýknaður af sakargiftum um líkamsárás á hendur Kristni Rúnari Magnússyni með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2000. Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrðum a. liðar 176. gr. og 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 með áorðnum breytingum til að dæma áfrýjanda bætur fyrir fjártjón og miska, sem gæsluvarðhaldið að þessu leyti leiddi til, sbr. 2. mgr. síðarnefndu lagagreinarinnar.

III.

Svo sem áður greinir krefst áfrýjandi 119.250 króna í skaðabætur úr hendi stefnda vegna vinnutekna, sem áfrýjandi kveðst hafa farið á mis við á tímabilinu frá 27. september til 23. október 1998. Til stuðnings þessari kröfu hefur áfrýjandi ekki lagt fram önnur gögn en yfirlýsingu 6. nóvember 2000 frá þáverandi vinnuveitanda sínum, þar sem staðfest er að laun áfrýjanda frá 1. ágúst til 25. september 1998 hafi numið alls 246.750 krónum. Í málatilbúnaði áfrýjanda er þess meðal annars getið að þegar atvik málsins gerðust hafi legið fyrir að hann hæfi nánar tiltekið nám erlendis 26. október 1998. Ekkert liggur fyrir um að áfrýjandi hafi ætlað sér að leggja stund á vinnu eftir 9. október 1998 og fram til þess dags, sem hann hefði að öðru óbreyttu haldið utan, eða að honum hafi staðið slík vinna til boða. Af þessum sökum er krafa hans um bætur vegna missis tekna svo vanreifuð að efnisdómur verður ekki felldur á hana.

Í annan stað krefst áfrýjandi eins og áður segir skaðabóta að fjárhæð 249.623 krónur vegna mismunar á þeirri fjárhæð, sem skipaður verjandi hans í áðurgreindu sakamáli áskildi sér úr hendi hans vegna vinnuframlags síns, og þeirri fjárhæð, sem verjandanum var þar dæmd og greiddist úr ríkissjóði. Hæstaréttarlögmaðurinn, sem hér átti í hlut, var skipaður verjandi áfrýjanda samkvæmt bréflegri beiðni þess síðarnefnda 21. október 1998, en um leið var fyrri verjandi leystur frá starfi. Hlaut lögmaðurinn opinbera skipun til að gegna þessu starfi, sem honum var og skylt að taka að sér, sbr. 20. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þóknun fyrir starfið var ákveðin í áðurnefndum dómum, sem gengu í sakamálinu í héraði og fyrir Hæstarétti, sbr. 44. gr. laga nr. 19/1991 með áorðnum breytingum. Við þóknun þannig ákveðna verður lögmaður að una nema hann hafi samið um annað við skjólstæðing sinn, sbr. að nokkru dóm Hæstaréttar í dómasafni 1974, bls. 457. Hafi áfrýjandi samið um að greiða verjanda sínum aðra og hærri fjárhæð í þóknun en næmi tildæmdum málsvarnarlaunum getur slíkur samningur ekki varðað annað en lögskiptin þeirra á milli. Verður þessum lið í kröfu áfrýjanda því hafnað.

Í héraðsdómi var tekinn til greina kröfuliður áfrýjanda vegna kostnaðar af ferð hans hingað til lands í tengslum við rekstur opinbera málsins á hendur honum öðru sinni fyrir héraðsdómi. Fjárhæð þess kröfuliðar er 60.005 krónur og fellst stefndi á niðurstöðu héraðsdóms um hann. Verður sú niðurstaða því staðfest.

Áfrýjandi á svo sem áður segir rétt samkvæmt 2. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 til miskabóta úr hendi stefnda vegna gæsluvarðhalds, sem hann sætti án nægilegs tilefnis eftir 9. október 1998 til 23. sama mánaðar. Við ákvörðun miskabóta verður að gæta að því að fram til þess tíma sætti áfrýjandi gæsluvarðhaldi, sem réttmætt tilefni var til. Að því athugðu og að virtum atvikum málsins að öðru leyti eru miskabætur til áfrýjanda hæfilega ákveðnar 350.000 krónur.

Samkvæmt framangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda samtals 410.005 krónur. Hefur áfrýjandi krafist dráttarvaxta af tildæmdri fjárhæð frá þeim degi, sem málið var þingfest í héraði, og verður á það fallist, eins og nánar greinir í dómsorði.

Áfrýjandi hefur notið gjafsóknar í málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Eru því ekki efni til að dæma íslenska ríkið til greiðslu málskostnaðar, sem fellur þannig niður á báðum dómstigum. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.

Í málsgögn, sem áfrýjandi afhenti Hæstarétti samkvæmt 1. mgr. 156. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 10. gr. laga nr. 38/1994, hafa meðal annars verið tekin upp á 365 blaðsíðum að virðist öll gögn úr lögreglurannsókn, sem lögð voru fram í áðurgreindu opinberu máli á hendur honum. Þau gögn varða þó alls ekki öll það sakarefni, sem til úrlausnar er í þessu máli. Í málsgögnum hafa ýmis þessara gagna verið tekin upp oftar en einu sinni og allt að fimm sinnum. Gögnum úr lögreglurannsókn hefur ekki verið raðað í aldursröð eða á einhvern annan rökréttan hátt. Verður ekki komist hjá að átelja þá verulegu misbresti, sem hér hafa orðið á því að fylgt yrði ákvæðum reglna nr. 463/1994 um málsgögn (ágrip) í einkamálum.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Sigurjóni Sigurgeirssyni, 410.005 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 7. desember 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda skal vera óraskað.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.

 

 

Dómur  Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2001

Mál þetta, sem dómtekið var 23. maí síðastliðinn að afloknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu, þingfestri 7. desember 2000, af Sigurjóni Sigurgeirssyni, kt. 060876-4149, Birtingakvísl 10, Reykjavík, gegn íslenska ríkinu.

Stefnandi krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 3.828.878 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þingfestingardegi til greiðsludags. Þess er krafist, að dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 7. desember 2001. Að lokum er krafist málskostnaðar að mati réttarins.

Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega, að hann verði sýknaður af öllum dóm­kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati réttarins, en til vara, að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.

I.

Málsatvik

Stefnandi var handtekinn 27. september 1998 og sat í gæsluvarðhaldi til 23. október sama ár, eða samtals 26 daga, þar af 16 daga í einangrunarvist. Ástæðan fyrir handtöku stefnanda voru átök, sem brutust út í Austurstræti, Reykjavík, aðfaranótt laugardagsins 27. september 1998. Fjölmargir aðilar komu þar við sögu og nokkrir hlutu áverka, þó enginn varanlega, að undanskildum Kristni Rúnari Magnússyni, sem hlaut alvarlega höfuðáverka, er höfðu í för með sér heilablæðingu og framheilaskaða. Í upphafi féll grunur á stefnanda fyrir að hafa, ásamt Sveini Gunnari Jónassyni, valdið Kristni Rúnari framan­greindum áverkum. Stefnandi var handtekinn klukkan 12.45 þann 27. september 1998 og færður til yfirheyrslu að kvöldi sama dags. Daginn eftir féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á kröfu  lögreglustjórans í Reykjavík um, að stefnandi yrði úrskurðaður í gæsluvarðhald til 9. október sama ár. Gæsluvarðhaldið var framlengt til 30. október 1998 með úrskurði héraðsdóms 8. október 1998, sem var staðfestur með dómi Hæstaréttar 19. sama mánaðar. Stefnandi var þó leystur úr haldi 23. október 1998 á grundvelli dóms Hæstaréttar sama dag, sem felldi úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir áðurnefndum Sveini Gunnari Jónassyni.

Stefnandi var, ásamt Sveini Gunnari, ákærður 11. júní 1999 fyrir brot á 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en sýknaður í héraðsdómi 12. október sama ár. Dóminum var áfrýjað til Hæstaréttar, sem þann 9. mars 2000 ómerkti hann vegna formgalla og vísaði málinu heim í hérað til nýrrar málsmeðferðar. Þann 14. júní 2000 féll dómur í málinu öðru sinni í héraði og var stefnandi þá sem áður sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins. Byggðist sýknan á því, að ekki hefði komið fram lögfull sönnun um þá refsiverðu háttsemi, sem stefnandi sætti ákæru fyrir.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir bótakröfu sína á því, að hann hafi orðið fyrir tjóni með því að honum hafi verið haldið í gæsluvarðhaldi í ofangreindan tíma og vegna rannsóknar lögreglu og málsóknar ákæruvaldsins á hendur honum. Byggt sé á því, að íslenska ríkið sé skaðabótaskylt fyrir tjóni stefnanda, þar sem ekki hafi verið færðar sönnur á hina meintu refsiverðu háttsemi og hafi stefnandi verið sýknaður með óáfrýjuðum dómi. Þá sé á því byggt, að hvorki hafi verið tilefni né lögmæt skilyrði uppfyllt fyrir umræddu gæsluvarðhaldi og það framkvæmt með óþarflega harkalegum, særandi og móðgandi hætti. Stefnandi hafi ávallt haldið fram sakleysi sínu gagnvart þeirri háttsemi, sem hann var ákærður fyrir, og ljóst megi vera, að gæsluvarðhaldsvistin hafi verið að ósekju. Einnig sé á því byggt, að gæsluvarðhaldsvistin hafi verið óþarflega harkaleg, miðað við eðli og umfang málsins. Eigi það sérstaklega við um einangrunarvistina. Stefnandi hafi dvalið í einangrun frá 28. september 1998 til 13. október sama ár og í gæsluvarðhaldi án takmarkana frá þeim degi til 23. október sama ár. Hann hafi hins vegar aðeins verið yfirheyrður einu sinni á þeim tíma, eða þann 2. október 1998. Ekki fáist því séð, að nægjanlegt tilefni hafi verið fyrir aðgerðunum, hvorki út frá eðli hins ætlaða afbrots, fyrirliggjandi sönnunargögnum né framgangi rannsóknarinnar. Jafnvel þó að stefnandi hefði verið fundinn sekur um meint afbrot, hefði ekki beðið hans jafn harkaleg refsing og hann hafi þurft að þola með gæsluvarðhaldsvistinni.

Samkvæmt framansögðu geri stefnandi gerir þá kröfu, að stefndi bæti honum fjárhagslegt tjón, sem hann hafi orðið fyrir af völdum rannsóknarinnar, handtökunnar, gæsluvarðhaldsins og umræddrar málsmeðferðar. Sé þar um að ræða bætur fyrir launamissi, miðað við þau laun, sem hann hafi haft, er hann var handtekinn. Bætur fyrir lögmannskostnað miðist við þann kostnað, sem stefnandi hafi sjálfur þurft að bera, en sá kostnaður sé samtals 800.500 krónur, auk virðisaukaskatts. Til frádráttar komi dæmdur málskostnaður, samtals 600.000 krónur. Eftirstöðvar nemi 200.500 krónum, auk virðisaukaskatts, eða samtals 249.623 krónum. Bætur fyrir ferðarkostnað séu vegna flugferðar, sem stefnandi hafi þurft að greiða vegna síðari meðferðar málsins í héraði, 60.005 krónur, eða USD 694,5 á gengi 4. desember 2000, sem hafi verið 86,4.

Einnig geri stefnandi þá kröfu, að stefndi bæti honum ófjárhagslegt tjón, sem felist í mannorðsmissi, þjáningum og óþægindum vegna framangreindrar rannsóknar og frelsissviptingar. Miðist miskabótakrafan við 150.000 krónur fyrir hvern dag í einangrun og 100.000 krónur fyrir hvern dag í gæsluvarðhaldi án takmarkana. Eðli sínu samkvæmt sé frelsissvipting alvarlegur hlutur og andleg þrekraun. Einangrunar­vistin hafi verið stefnanda sérstaklega þungbær og hann átt erfitt með svefn og verið haldinn miklum kvíða yfir framtíð sinni. Hafi hann verið búinn að skrá sig í nám í flugvirkjun í Bandaríkjunum, sem átti hafi að byrja 26. október 1997. Hafi hann verið í mikilli óvissu um, hvort hann næði að byrja á tilsettum tíma, sem hefði þýtt seinkun eða jafnvel niðurfellingu námsins. Þá hafi stefnandi haft miklar áhyggjur af aðstandendum sínum og átt við andlega vanlíðan að stríða, einkum í einangrunarvistinni.

Ekki verði með neinu móti haldið fram, að stefnandi hafi valdið eða stuðlað að handtökunni, gæsluvarðhaldsvistinni eða málsókninni. Enginn áreiðanlegur vitnisburður gefi það til kynna og virðist eina sök stefnanda fólgin í því að vera staddur á brotavettvangi. Vitnisburður stefnanda hafi verið skýr og rannsakendur haft undir höndum myndband af hinum umdeildu atburðum. Með hliðsjón af því og fyrirliggjandi vitnisburðum hefði rannsakendum mátt vera ljóst, að enginn grundvöllur hafi verið fyrir gæsluvarðhaldskröfu yfir stefnanda.

Bótakrafan sundurliðist þannig:

 

Bætur vegna tekjutaps frá 27. september 1998 til

23. október 1998, samtals 26 dagar

119.250 kr.

Bætur vegna lögmannsaðstoðar

249.623 kr.

Bætur vegna ferðakostnaðar

60.005 kr.

Miskabætur vegna einangrunarvistar frá 27. september 1998

til 13. október 1998, samtals 16 dagar

 

2.400.000 kr.

Miskabætur vegna gæsluvarðhaldsvistar frá 13. október 1998

til 23. október 1998,

samtals 10 dagar

 

 

1.000.000 kr.

Samtals

3.828.878 kr.

 

Um lagarök vísar stefnandi til 5. mgr. 67. og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 22/1944 og XXI. kafla nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, einkum 175. og 176. gr. þeirra laga. Byggt er 175. gr. laganna, eins og hún er í núverandi mynd, sbr. 42. gr. l. nr. 36/1999, enda hafi með lagabreytingunni verið að laga 1. nr. 19/1991 að 5. og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. nr. 62/1994, sem einnig sé vísað til. Þá er vísað til Hrd. 1983:474 og Hrd. 1983:523.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er á því byggt, að samkvæmt forsendum gæsluvarðhaldsúrskurða héraðsdóms og dóms Hæstaréttar frá 19. október 1998 hafi það fyrst og fremst verið rökstuddur grunur um refsivert athæfi stefnanda, sem ráðið hafi þeirri ákvörðun dómenda að fallast á kröfugerð lögreglunnar um, að stefnandi sæti í gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Stefnandi hafi síðan verið leystur úr gæsluvarðhaldi 23. október 1998, eða fyrr heldur en gæsluvarðhalds­úrskurðurinn frá 8. október sagði til um. Á þeim tímamótum hafi verið talið, að ekki væru lengur rannsóknarhagsmunir fyrir hendi til að halda stefnanda í gæslu­varðhaldi. Er af hálfu stefnda mótmælt sérstaklega þeirri fullyrðingu stefnanda, að rannsakendum hafi mátt vera ljóst af fyrirliggjandi vitnisburðum, að enginn grundvöllur væri fyrir gæsluvarðhaldskröfu þeirra yfir stefnanda. Að mati stefnda sé hér verið að snúa hlutum við, þar sem af fyrirliggjandi vitnisburðum hafi verið yfirgnæfandi líkur á því, að stefnandi væri meira viðriðinn málið, en hann hafi sjálfur látið í veðri vaka við rannsókn þess.

Ljóst sé, að þvingunaraðgerðir þær, sem stefnandi sætti, meðan lögreglu­rannsókn máls hans stóð yfir, hafi í alla staði verið lögmætar og í samræmi við réttarframkvæmd hér á landi. Úrskurðir um gæsluvarðhald hafi verið kveðnir upp af þar til bærum dómstólum á grundvelli fyrirliggjandi rannsóknargagna. Þar að auki hafi stefnanda verið sleppt úr gæsluvarðhaldi, fyrr en úrskurður sagði til um. Hafi forsendur, lögmæt skilyrði og tilefni gæsluvarðhalds verið fyrir hendi að mati Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar og framlengingu þess síðar. Séu fullyrðingar stefnanda um, að gæsluvarðhald hafi verið framkvæmt með óþarflega harkalegum, særandi og móðgandi hætti, órökstuddar og þar með ósannaðar. Samkvæmt þessu hafi öll lagaskilyrði verið fyrir hendi til að láta stefnanda sæta gæsluvarðahaldi í þágu rannsóknar máls og séu því engar forsendur af hálfu stefnanda fyrir því að krefja stefnda um bætur á grundvelli 176. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 175. gr. sömu laga. Beri þegar af þessari ástæðu að sýkna stefnda.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 28. september 1998 komi fram megin­röksemdin fyrir þeirri niðurstöðu úrskurðarins, að stefnandi skuli sæta gæsluvarðhaldi. Þar sé talið, að framburður stefnanda varðandi samskipti hans og Kristins Rúnars sé ótrúverðugur. Þessi ótrúverðugi framburður, ásamt þátttöku í átökum þeim, sem urðu aðfaranótt 27. september 1998, hafi leitt til þess, að stefnandi hafi verið látinn sæta gæsluvarðhaldi. Ýmislegt annað hafi á þessum tíma bent til aðildar stefnanda að líkamsmeiðingum Kristins Rúnars, svo sem framburður vitna, klæðaburður stefnanda, eins og honum var lýst af vitnum, og myndbandsupptaka á vettvangi. Vissulega hafi framburður stefnanda verið á aðra lund en önnur fram komin gögn. Þetta hafi þurft að rannsaka, en að áliti rannsakenda hafi verið rökstuddur grunur um refsiverða aðild stefnanda að málinu, þrátt fyrir fullyrðingar hans um annað, og hafi þessi afstaða rannsakenda hlotið hljómgrun allra dómenda, sem að málinu komu. Þessar forsendur séu því lögmætar og þar af leiðandi ekki bótaskyldar samkvæmt XXI. kafla laga nr. 19/1991.

Stefndi telji, að niðurstaða um bótaskyldu í máli þessu ráðist af túlkun á 176. gr. laga nr. 19/1991. Þurfi dómendur að leggja mat á, hvort skilyrði a. og b. liða greinarinnar séu fyrir hendi. 175. gr. sömu laga sé varla hægt að túlka sem sjálfstæða bótareglu. Ákvæði greinarinnar séu almenn ákvæði fyrir öll bótaákvæði XXI. kafla laga nr. 19/1991 og fjalli fyrst og fremst um, að dómari megi taka bótakröfu til greina og á sama hátt fella niður bætur eða lækka þær, ef sakborningur hefur stuðlað að þeim aðgerðum, sem hann reisir kröfur sínar á. Enginn hlutlægur mælikvarði sé gefinn til ákvörðunar bóta og sýknudómur einn og sér í opinberu máli ráði ekki úrslitum um forsendur bótaskyldu. Í þessu tilviki ráðist bótagrundvöllurinn af skilyrðum 176. gr. og almennu skaðabótareglunni og síðan taki við hin almennu ákvæði 175. gr., þar sem dæma megi bætur og/eða fella þær niður eða lækka, t.d. á grundvelli eigin sakar krefjanda, sbr. að öðru leyti aðrar almennar reglur skaðabótaréttarins. Allt sé þetta háð eins konar sanngirnismati dómenda á aðstæðum í viðkomandi máli.

Öllum tölulegum kröfum stefnanda er mótmælt sem ósönnuðum og án nokkurra fordæma. Þá er framlögðum skjölum, sem varða fjárkröfur stefnanda, mótmælt sem þýðingar­lausum.

IV.

Forsendur og niðurstaða

Skilyrði til skaðabóta í tilvikum, eins og hér um ræðir, lúta ákvæðum 175. gr. og 176. gr. laga nr. 19/1991. Ákvæði 175. gr. laganna var breytt með 42. gr. laga nr. 36/1999, sem tóku gildi 1. maí sama ár. Enda þótt atvik máls hafi átt sér stað, áður en breytingin tók gildi, verður að skýra 175. gr. laga nr. 19/1991 til samræmis við hana og fær sú skoðun stoð í lögskýringargögnum.

Skýra verður 175. gr. og 176. gr. laga nr. 19/1991 svo, að í síðarnefndu greininni, svo og 177. gr. laganna, sem hér á ekki við, séu tæmandi taldar þær aðgerðir, er leitt geta til bótaskyldu stefnda á grundvelli hlutlægrar ábyrgðarreglu. Jafnframt þurfi þó að vera fullnægt öðrum skilyrðum, sem greinir í 176. gr. laganna, og þeim skilyrðum, sem tilgreind eru í 175. gr. þeirra. Hafa ákvæði 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, með áorðnum breytingum, verið skýrð svo, að þau veiti ekki ríkari bótarétt en reglur XXI. kafla laga nr. 19/1991.

Í 176. gr. laga nr. 19/1991 er heimilað að dæma bætur meðal annars vegna gæsluvarðhalds. Áskilið er, að brostið hafi lögmæt skilyrði til slíkra aðgerða eða ekki hafi, eins og á stóð, verið nægilegt tilefni til þeirra eða þær framkvæmdar á óþarflega særandi eða móðgandi hátt. Samkvæmt 175. gr. laganna má þó fella niður bætur eða lækka þær, hafi sakborningur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum, sem hann reisir kröfu sína á.

Svo sem áður greinir var stefnandi handtekinn um hádegisbil 27. september 1998 og færður til yfirheyrslu af hálfu lögreglu að kvöldi sama dags vegna rannsóknar framangreinds sakamáls. Stefnandi neitaði allri aðild að málinu, en kannaðist við að hafa verið á vettvangi greint sinn og kvaðst hafa verið klæddur hvítum buxum, blárri skyrtu og hvítum jakka. Þá kvaðst hann hafa hafa verið í svörtum strigaskóm tiltekinnar tegundar. Hann kannaðist við að hafa viðurnefnið ,,Grjóni”. Stefnandi var færður fyrir dóm kl. 12.45 næsta dag vegna kröfu lögreglu um gæsluvarðhald og neitaði sem fyrr sök. Var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald allt til 9. október 1998. Í forsendum úrskurðarins kemur meðal annars fram, að skýrslur hafi verið teknar af allnokkrum vitnum, en hvergi nærri öllum þeim, er sýnt þyki, að borið geti um málsatvik. Meðal gagna málsins sé myndbandsupptaka, sem gefi vísbendingu um, að til snarpra átaka hafi komið milli stefnanda og áðurnefnds árásarþola og að stefnandi hafi haft uppi tilburði til að sparka í hinn síðarnefnda, að því er virðist í eða í námunda við höfuð hans, þar sem hann lá meðvitundarlaus í götunni. Þá liggi fyrir framburður vitnis, sem þekki stefnanda, þess efnis, að það hafi séð stefnanda sparka í höfuð pilts, sem lá meðvitundarlaus í götunni. Sé ljóst, að aðild stefnanda að málinu sé önnur og meiri, en hann vilji láta í veðri vaka, og verði að telja, að fram sé kominn rökstuddur grunur um refsiverða aðilda hans að málinu. Úrskurðurinn sætti ekki kæru til Hæstaréttar. Stefnandi var yfirheyrður aftur af lögreglu 2. október 1998 og neitaði sök. Ekki var um frekari skýrslugjöf af hans hálfu að ræða hjá lögreglu.

Í málinu liggja fyrir framburðarskýrslur lögreglu, sem teknar voru skömmu eftir atburðinn af nokkrum vitnum, er voru á vettvangi greint sinn. Í skýrslu Kristins Ólafs Kristinssonar, sem tekin var af honum um hádegisbil 27. september 1998, kemur fram, að það hafi ekki verið maðurinn í hvítu jakkafötunum, sem sparkaði í Kristin Rúnar, en vitnið hafi ekki séð greinilega hver það var. Í skýrslu Kristins Ólafs frá 1. október 1998 skýrir hann hins vegar svo frá, að tveir menn hafi ráðist á Kristin Rúnar og sparkað í höfuð hans, þar sem hann lá í götunni. Hafi annar þeirra, sem hafi verið áberandi dökkhærður, verið í hvítum buxum og hafi hann sparkað fyrst í höfuð mannsins, en síðan hafi annar maður, sem vitnið gat ekki lýst, komið að árásarþola og sparkað í höfuð hans. Samkvæmt skýrslu, sem tekin var af Gunnari Má Jónssyni síðdegis 27. september 1998 sá vitnið, að maður í hvítum jakkafötum, sem vitnið sagði, að væri kallaður ,,Grjóni”, sparkaði í höfuðið á manni, sem lá í götunni. Þá þekkti vitnið stefnanda í myndsakbendingu 6. október 1998 sem þann mann, er veitt hafði umrætt spark í höfuð mannsins. Í skýrslu, sem tekin var af Sváfni Hermannssyni að kvöldi sama dags, kemur fram, að maður, klæddur í dökkbláa íþróttapeysu með hvítum röndum, dökkar buxur, dökkhærður, með frekar þykkt hár, tæplega axlarsítt, hafi komið hlaupandi út úr slagsmálaþvögunni og sparkað í hinn liggjandi mann þrisvar til fjórum sinnum. Katrín Jónsdóttir hafði svipaða sögu að segja samkvæmt framburðarskýrslu hennar að kvöldi 27. september 1998. Hafi maður með axlarsítt hár í íþróttatreyju, annað hvort dökkblárri eða svartri, slegið ,,þann snoðaða” (Kristin Rúnar) þannig að hann féll við og skall með höfuðið í götuna og í framhaldi af því sparkað tvisvar í höfuðið á manninum, þar sem hann lá, að því er virtist meðvitundarlaus, og einu sinni eða tvisvar í líkama hans, en síðan hlaupið í burtu. Ásgeir Reynir Bragason kvaðst hafa séð dökkhærðan mann í hvítum eða ljósum buxum sparka í Kristin Rúnar, þar sem hann lá í götunni, samkvæmt skýrslu, sem tekin var af honum 29. september 1998. Hafi árásarmaðurinn eftir þetta ráðist að öðrum manni, sem staðið hafi þar rétt hjá. Annar maður hafi svo komið að Kristni Rúnari og veitt honum spark í höfuðið. Brynja Hjaltalín segir í skýrslu 30. september 1998, að hún hafi séð dökkklæddan strák sparka í höfuðið á ,,Kidda” (Kristni Rúnari), þar sem hann lá hreyfingarlaus í götunni. Kvaðst hún vera viss um, að það hafi verið sá sami og sló hann í götuna. Þá hafi annar maður komið að Kristni Rúnari og sparkað í höfuðið á honum. Kvaðst hún ekki treysta sér til að lýsa honum, en hana minnti, að það hefði verið strákurinn, sem hefði verið klæddur hvítum jakkafötum þá skömmu áður. Gísli Guðmundsson skýrði svo frá í skýrslu 1. október 1998, að hann hefði séð ,,Grjóna” sparka í einhvern liggjandi mann, en hvort það hefði verið ,,þessi krúnurakaði” (Kristinn Rúnar) gæti hann ekki fullyrt um. Hafi ,,Grjóni” virst mjög æstur á vettvangi og haft sig mikið í frammi í átökunum. Sunna Áskelsdóttir skýrði frá því hjá lögreglu 2. október 1998, að hún hefði séð mann í ljósum buxum koma hlaupandi í áttina að manninum, sem lá í götunni og sparka í höfuð hans, þar sem hann lá. Hafi höfuð þess, sem sparkað var í, kastast til við höggið. Í skýrslu Hildar Sifjar Lárusdóttur fyrir lögreglu 6. október 1998 kemur fram, að hún hafi séð mann koma að ,,Kidda” (Kristni Rúnari), þar sem hann lá í götunni og hafi maðurinn sparkað tvisvar eða þrisvar í höfuð Kristins Rúnars. Hafi árásarmaðurinn verið í svörtum skóm, svörtum buxum, dökkum jakka eða peysu, dökkhærður með millisítt hár. Hafi vitnið aldrei séð stefnanda sparka í Kristin Rúnar, eftir að hann féll í götuna, heldur einungis áðurnefndan mann.

Af hálfu lögreglu var krafist áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir stefnanda frá 8. október til 16. nóvember 1998. Féllst héraðsdómur á kröfuna með úrskurði 8. október 1998, en þó þannig, að gæsluvarðhaldi var markaður skemmri tími en krafist var, eða til 30. október 1998. Kemur fram í forsendum úrskurðarins, að rannsóknargögn beri með sér, að sterkur grunur leiki á, að kærði hafi gerst brotlegur við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Af gögnunum verði ráðið, að afleiðingar árásarinnar séu alvarlegar og hætt við, að svo verði til frambúðar. Í ljósi þess, hvað hér sé um alvarlegt sakarefni að tefla, telji dómurinn skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 vera fyrir hendi til að verða við kröfu lögreglustjórans í Reykjavík, auk þess sem skilyrði a. liðar 1. mgr. 103. gr. sé uppfyllt. Stefnandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar, sem staðfesti hann með dómi 19. október 1998. Segir í dóminum, að rannsóknargögn málsins beri með sér, að rökstuddur grunur leiki á, að varnaraðili hafi gerst brotlegur við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og séu uppfyllt skilyrði a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi. Verði niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.

Með ákæru ríkissaksóknara 11. júní 1999 var stefnandi ákærður fyrir að hafa sparkað, ásamt Sveini Gunnari Jónssyni, í höfuð Kristins Rúnars Magnússonar, þar sem hann lá í Austurstræti við veitingastaðinn Subway, en Sveinn Gunnar var auk þess ákærður fyrir að hafa slegið Kristin Rúnar í andlitið með krepptum hnefa, svo að hann skall aftur fyrir sig í götuna og missti meðvitund. Allt hafi þetta haft þær afleiðingar, að Kristinn Rúnar hafi hlotið nefbrot, glóðarauga hægra megin, bólgu og mar á höfði hægra megin ofan og aftan við eyra og sprungu í hvirfilbeini þar undir, marblett og bólgu aftan við vinstra eyra og heilamar og heilablæðingu framan til í heila, er hafði í för með sér framheilaskaða. Var brot ákærðu talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Stefnandi og Sveinn Gunnar voru sýknaðir af ákærunni með dómi fjölskipaðs héraðsdóms 14. júní 2000. Í forsendum dómsins segir, að gegn neitun ákærðu sé ekki komin fram nægileg sönnun, sem hafin verði yfir skynsamlegan vafa, að ákærðu hafi gerst sekir um að hafa sparkað í höfuð Kristins Rúnars, þar sem hann lá. Hins vegar þyki sannað, að Kristinn Rúnar hafi fengið spörk í höfuðið, eftir að hann skall í götuna og ekki með öllu unnt að útiloka, að heilamar það, sem hann hlaut, stafi að einhverju leyti af sparki aftan til í höfuðið. Dóminum var ekki áfrýjað.

Frumrannsókn ofangreinds sakamáls beindist að alvarlegri líkamsárás. Var fjöldi vitna yfirheyrður í þeim tilgangi að komast að því, hver eða hverjir kynnu að bera refsiábyrgð á henni. Er ljóst af framansögðu, að eitt vitni fullyrti fyrir lögreglu, að stefnandi hefði sparkað í höfuð manns, sem lá liggjandi í götunni umrædda nótt og staðfesti þann framburð sinn í myndsakbendingu. Þá kvaðst annað vitni hafa séð stefnanda sparka í liggjandi mann. Enn fremur báru tvö vitni, að maður í hvítum eða ljósum buxum hefði sparkað í höfuð hins liggjandi manns, en svo sem áður greinir samræmdist lýsing vitnanna á buxnalit manns þess, sem vitnin báru, að sparkað hefði í liggjandi mann, klæðaburði stefnanda um nóttina. Að auki liggur fyrir í málinu áðurnefnd myndbandsupptaka, sem sýnir stefnanda, eftir að Sveinn Gunnar sést slá Kristin Rúnar í götuna, grípa í föt Kristins Ólafs Kristinssonar og slá til hans með hægri hendi, en eftir það stökkva yfir fætur Kristins Rúnars, þar sem hann liggur í götunni, og fara á móts við þann stað, þar sem höfuð Kristins Rúnars liggur. Í framhaldi af því verður að mati dómsins ráðið af myndbandsupptökunni, að stefnandi geri sig líklegan til að sparka í höfuð hans, en þar sem fætur stefnanda fara í framhaldinu út fyrir myndrammann, sést ekki, hvort af því verður. 

Samkvæmt framansögðu verður að telja, að stefnandi hafi verið undir rökstuddum grun um refsivert athæfi, sbr. ákvæði 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sem fangelsisrefsing liggur við, ef sök sannast. Var því óhjákvæmilegt að úrskurða stefnanda í gæsluvarðhald 28. september 1998 vegna rannsóknarhagsmuna, sbr. a. lið 1. mgr. nefndrar lagagreinar, og framlengja það, svo sem gert var með úrskurði héraðsdóms 8. október sama ár, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 19. sama mánaðar. Voru þannig uppfyllt lagaskilyrði til að kveða á um gæsluvarðhald yfir stefnanda og dómsúrlausnir í þá átt þar af leiðandi reistar á lögmætum grunni og í samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála, stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá verður engan veginn talið í ljós leitt af hálfu stefnanda, að gæsluvarðhaldið hafi verið framkvæmt á óþarflega harkalegan, særandi eða móðgandi hátt eða að gæsluvarðhaldsvistin hafi verið óþarflega harkaleg, miðað við eðli og umfang málsins, svo sem hann heldur fram.

Samkvæmt úrskurði héraðsdóms 20. október 1998 var Sveinn Gunnar Jónasson, sem viðurkennt hafði að hafa átt þátt í árás á Kristin Rúnar aðfaranótt 27. september 1998,  úrskurðaður að kröfu lögreglu í gæsluvarðhald til 15. desember sama ár vegna rannsóknar framangreinds sakamáls. Var gæsluvarðhalds eingöngu krafist á grundvelli ákvæðis 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Með dómi Hæstaréttar 23. október 1998 var úrskurðurinn felldur úr gildi með því að ekki var fallist á, að fullnægt væri því skilyrði lagaákvæðisins, að ætla mætti gæsluvarðhald yfir Sveini Gunnari nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Eftir að dómur Hæstaréttar lá fyrir kröfðust rannsóknarhagsmunir þess ekki lengur, að stefnandi sætti gæsluvarðhaldi og var hann látinn laus sama dag, eða viku áður en gæsluvarðhaldstíminn samkvæmt áðurnefndum dómi Hæstaréttar rann út. Er það mat dómsins, að stefnandi hafi ekki setið lengur í gæsluvarðhaldi en efni stóðu til.

Með vísan til alls framanritaðs er það niðurstaða dómsins, að ekki séu uppfyllt lagaskilyrði til þess að stefnanda verði dæmdar bætur úr hendi stefnda vegna handtöku hans og gæsluvarðhaldsvistar. Verður því hvorki fallist á fjárkröfu stefnanda vegna tekjutaps frá 27. september 1998 til 23. október sama ár né miskabótakröfu hans.

Stefnandi gerir jafnframt kröfu um bætur vegna ,,umræddrar málsmeðferðar”. Enda þótt málatilbúnaður stefnanda, hvað þennan þátt málsins varðar, sé ekki svo skýr sem skyldi, verður að telja, að hér sé átt við tjón stefnanda vegna höfðunar opinbers máls á hendur honum, ómerkingar Hæstaréttar á fyrri héraðsdómi og nýrrar málsmeðferðar í héraði. Gerir stefnandi annars vegar kröfu um bætur vegna lögmannskostnaðar, að fjárhæð 249.623 krónur, sem er mismunur milli dæmdra málsvarnarlauna og málskostnaðar samkvæmt gjaldskrá lögmannsstofu verjandans, að viðbættum virðisaukaskatti, og ferðakostnaðar, að fjárhæð 60.005 krónur.

Hvergi er að finna í lögum heimild til að endurmeta ákvarðanir dómstóla á málsvarnarlaunum verjenda. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda stefnanda voru ákveðin með dómum héraðsdóms 12. október 1999 og 14. júní 2000 og málsvarnarlaun fyrir Hæstarétti með dómi réttarins 9. mars 2000. Ber því að sýkna stefnda af nefndri fjárkröfu stefnanda.

 Áður er rakið, að fyrri dómur héraðsdóms í umræddu refsimáli var ómerktur með dómi Hæstaréttar 9. mars 2000. Þurfti því að fara fram ný málsmeðferð fyrir héraðsdómi og stefnandi að koma aftur fyrir dóm. Stefnandi hefur lagt fram í málinu ljósrit flugfarseðils, að fjárhæð 60.005 krónur, sem hann hafi þurft að leggja út fyrir vegna ferðar sinnar hingað til lands frá Minneapolis í Bandaríkjum Norður-Ameríku í tilefni af hinni nýju málsmeðferð.

Á engan hátt var við stefnanda að sakast, að endurtaka þurfti aðalmeðferð í sakamálinu. Verður stefndi að bera hallann af því, að svo fór og að stefnandi var þá staddur á erlendri grundu og þurfti af þeim sökum að stofna til útgjalda með kaupum á umræddum flugfarseðli. Samkvæmt því og þar sem bein orsakatengsl eru á milli endurtekningar málsmeðferðarinnar í héraði og tjóns stefnanda að þessu leyti, verður  krafa stefnanda tekin til greina, eins og hún er fram sett, með þeim vöxtum, sem krafist er og nánar greinir í dómsorði.

Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi dómsmálaráðuneytisins 5. febrúar. Ber að ákveða, að allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, sem þykir hæfilega ákveðin 400.000 krónur, og kostnaður vegna fjölföldunar myndbandsspólu, að fjárhæð 2.200 krónur, eða samtals 402.200 krónur.

Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Sigurjóni Sigurgeirssyni, 60.005 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 7. desember 2000 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, 402.200 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 400.000 krónur.