Hæstiréttur íslands

Mál nr. 127/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðfarargerð
  • Ógilding samnings


                                              

Þriðjudaginn 12. mars 2013.

Nr. 127/2013.

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf.

(Hlynur Jónsson hrl.)

gegn

Guðrúnu Margréti Jóhannesdóttur

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

Kærumál. Aðfarargerð. Ógilding samnings.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem felld var úr gildi aðfarargerð sýslumanns, sem gerð var að beiðni S hf. í fasteign G á grundvelli skuldabréfs útgefnu af syni hennar, innan tryggingaréttinda sem G hafði samþykkt að yrðu þinglýst á fasteign hennar. Talið var að skuldabréfið hefði að geyma viðurkenningu á skuld í erlendri mynt og færi því ekki í bága við 14. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Á hinn bóginn var talið með vísan til þess hvernig staðið hafði verið að greiðslumati sonar G og þeirra skyldna sem hvíldu á S hf. sem fjármálafyrirtæki þegar matið var gert og þess trausts, sem G mátti hafa til vinnubragða fyrirtækisins, að ósanngjarnt væri af S hf. að bera fyrir sig samþykki G á því að veita veðleyfi fyrir tryggingabréfinu. Þá var jafnframt talið að aðstöðumunur hefði verið með aðilum og að atvik sem síðar komu til hefðu einnig gert samþykki G meira íþyngjandi en ella. Var skilyrðum 36. gr. laga nr. 7/1936 til að ógilda samþykkið talið fullnægt og hinn kærði úrskurður því staðfestur um að fella gerðina úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst héraðsdómi 15. febrúar 2013 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 2013 þar sem felld var úr gildi aðfarargerð nr. 011-2010-05756 sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði 18. apríl 2012 í fasteign varnaraðila að Baldursgötu 24a í Reykjavík til tryggingar kröfu sóknaraðila. Sóknaraðili krefst þess aðallega að áðurgreind aðfarargerð verði staðfest og honum dæmdur málskostnaður úr hendi varnaraðila í héraði og kærumálskostnaður. Til vara krefst hann þess, verði hinn kærði úrskurður staðfestur, að málskostnaður fyrir héraðsdómi verði lækkaður og kærumálskostnaður felldur niður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Mál þetta á rót sína að rekja til skuldabréfs, sem ranglega er sagt vera veðskuldabréf, sem Jóhannes Hafsteinn Sigurðsson, sonur varnaraðila, gaf út 16. apríl 2007, þar sem hann viðurkenndi að skulda sóknaraðila fjárhæð sem tilgreind var sem 1.901.829 japönsk jen og 45.370,37 svissneskir frankar. Nokkrum dögum fyrr hafði hann gefið út tryggingarbréf sem tryggja skyldi skilvísa og skaðlausa greiðslu á skuldum hans við sóknaraðila allt að 73.075 svissneskum frönkum. Samkvæmt tryggingarbréfinu setti Jóhannes Hafsteinn að veði með 2. veðrétti fasteignina Baldursgötu 24a, Reykjavík, fastanúmer 200-7550, en fasteignin var í eigu varnaraðila. Varnaraðili ritaði nafn sitt á tryggingarbréfið til samþykkis veðsetningunni.

Krafan samkvæmt skuldabréfinu var ekki greidd og sendi sóknaraðili aðfararbeiðni 13. apríl 2010 til sýslumannsins í Reykjavík þar sem krafist var fjárnáms í fasteign varnaraðila til tryggingar skuldinni samkvæmt skuldabréfinu. Í aðfararbeiðni er fjárhæð skuldar tilgreind samtals 7.030.186 krónur. Fjárnámið fór fram 18. apríl 2012 og var það gert innan þeirra tryggingarréttinda sem varnaraðili hafði veitt með framangreindu samþykki sínu á veðsetningu tryggingarbréfsins. Varnaraðili krafðist þess 12. júní sama ár að Héraðsdómur Reykjavíkur felldi úr gildi aðfarargerðina og var á það fallist í hinum kærða úrskurði.

II

Eins og áður greinir er krafa sóknaraðila reist á skuldabréfi sem Jóhannes Hafsteinn Sigurðsson, sonur varnaraðila, gaf út til sóknaraðila. Sóknaraðili hefur ekki framselt skuldabréfið og fer sjálfur með kröfuna, þótt félagið hafi verið tekið til slita með úrskurði 23. júní 2009. Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009, sem gerð er grein fyrir í hinum kærða úrskurði, segir um ráðstöfun eigna sóknaraðila meðal annars að félagið skuli stofna sérstakt hlutafélag, dótturfélag, sem taki við öllum eignum félagsins og jafnframt öllum tryggingarréttindum sem tengjast kröfum þess. Var skilanefnd, sem skipuð var af Fjármálaeftirlitinu, falið að hrinda þessari ákvörðun í framkvæmd. Hvað sem þessari ákvörðun Fjármálaeftirlitsins líður hefur sóknaraðili ekki framselt skuldabréf það sem um ræðir. Þótt félagið hafi verið tekið til slita getur það innheimt ætlaðar kröfur sínar eftir atvikum með atbeina dómstóla eins og það gerir í máli þessu. Er sóknaraðili því réttur aðili að málinu.

Þá er ágreiningur um hvort lánið sem sóknaraðili veitti Jóhannesi Hafsteini, og skuldabréfið tilgreinir, hafi verið lán í íslenskum krónum, sem bundið var gengi erlendra gjaldmiðla og hafi því farið í bága við 14. gr., sbr. 13. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eða hvort um var að ræða skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum. Um er að ræða skuldabréf, viðskiptabréf, sem hefur að geyma tæmandi lýsingu á þeim réttindum sem það veitir og þeim takmörkunum, sem á þeim réttindum kunna að vera. Í yfirskrift skuldabréfsins segir að um sé að ræða: ,,Veðskuldabréf í erlendri mynt“. Skuldin er tilgreind eingöngu í erlendum myntum þannig að útgefandi skuldabréfsins viðurkennir að skulda ,,eftirgreindar fjárhæðir í erlendum myntum ... JPY 1.901.829“ og ,,CHF 45.370,37“ og ekki tekið fram í skuldabréfinu sjálfu að hún sé jafngildi einhverrar fjárhæðar í íslenskum krónum. Önnur atriði í texta skuldabréfsins svo sem til dæmis vextir sem greiða skyldi af skuldinni, bera með sér að um lán í erlendri mynt sé að ræða. Breytir engu í því sambandi þótt skuldara væri veitt heimild til þess að breyta myntsamsetningu að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Ekki ræður heldur úrslitum við mat á því hvers eðlis skuldbinding sé að þessu leyti, andspænis framangreindum texta bréfsins, þótt í því segi að gjaldfallnar fjárhæðir umreiknist ávallt í íslenskar krónur. Yfirlýsing sem útgefandi skuldabréfsins undirritaði þegar skuldabréfið var gefið út ber einnig skýrlega með sér að um lán í erlendri mynt sé að ræða, þótt í henni komi einnig fram að lánið sé jafnvirði 3.500.000 króna.

Samkvæmt framansögðu hefur skuldabréfið að geyma viðurkenningu á skuld í erlendri mynt og fer því ekki í bága við framangreind ákvæði laga nr. 38/2001.

Þá heldur varnaraðili því einnig fram að það fari í bága við 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga að sóknaraðili beri fyrir sig samþykki hennar á því að veita leyfi til að setja fasteign sína að veði fyrir skuld samkvæmt tryggingarbréfinu 11. apríl 2007 að fjárhæð 73.075 svissneska franka. Reisir hún málsástæðu þessa einkum á því að sóknaraðili hafi ekki farið eftir reglum samkomulags 1. nóvember 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem hann sé þó bundinn af. Reglur samkomulagsins séu settar til verndar meðal annars þeim sem veita veð í fasteignum sínum til tryggingar fjárhagslegum skuldbindingum annarra við fjármálafyrirtæki.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði segir svo í reit fyrir ofan þann sem varnaraðili ritaði nafn sitt í til samþykkis veðsetningunni: ,,Ég undirritaður hef kynnt mér efni bréfs þessa og geri mér grein fyrir í hverju ábyrgð mín sem veðleyfisgjafa er fólgin og tel hana samrýmast greiðslugetu minni. Jafnframt hef ég kynnt mér upplýsingabækling um ábyrgðir og efni samkomulags um notkun ábyrgða einstaklinga frá 1. nóvember 2001.“ Fallist er á með héraðsdómi að með undirritun skjalsins hafi varnaraðili gefið til kynna á þann hátt, sem sóknaraðili mátti treysta, að hún hefði kynnt sér efni upplýsingabæklingsins og efni samkomulagsins, sem áður greinir. Samkvæmt 3. gr. samkomulagsins hvíldi sú skylda á sóknaraðila að meta greiðslugetu lántaka, Jóhannesar Hafsteins, áður en lánið væri veitt. Vegna lánsfjárhæðarinnar varð ekki undan þessu vikist fyrir sóknaraðila. Hann kveðst hafa framkvæmt greiðslumatið, eins og til hafi verið ætlast. Í 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins segir svo: ,,Tryggt skal að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgðina, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. Ef niðurstaða greiðslumats bendir til að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar en ábyrgðarmaður óskar eftir að lán verði veitt engu að síður, skal hann staðfesta það skriflega.“ Ósannað er að varnaraðila hafi verið kynnt niðurstaða greiðslumatsins. Varnaraðili mátti treysta því að greiðslumat það, sem sóknaraðila var skylt að framkvæma, væri trúverðugt og til þess vandað og hagsmunir viðskiptavina almennt og lántaka, og þess sem veitti veð til tryggingar skuldinni, sérstaklega hafðir að leiðarljósi, sbr. til hliðsjónar 4. gr. og 6. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti.

Greiðslumat það, sem sóknaraðili framkvæmdi á greiðslugetu Jóhannesar Hafsteins, liggur frammi í málinu. Það er ódagsett og óundirritað af Jóhannesi Hafsteini eða öðrum. Gera verður ráð fyrir að það hafi verið gert fyrir lánveitinguna í apríl 2007. Á yfirliti um skuldir lánataka í greiðslumatinu eru tilgreindar þrjár skuldir, sem allar eru við sóknaraðila. Um er að ræða skuld samkvæmt skuldabréfi 952.000 krónur og skuld samkvæmt kreditkorti 533.775 krónur, en fram kemur að þessar skuldir eigi að greiða upp með láninu, sem veita skyldi. Þá er tilgreind yfirdráttarskuld 608.367 krónur, sem eigi að fella niður. Engar aðrar skuldir eru tilgreindar og er greiðslugeta Jóhannesar Hafsteins metin miðað við þær forsendur. Fastur kostnaður hans á mánuði, án afborgunar af lánum, er sagður 198.167 krónur og greiðslubyrði lána 24.666 krónur en með því er eingöngu skírskotað til þess láns, sem til stóð að veita. Framfærslukostnaður er áætlaður 75.000 krónur á mánuði. Tekjur hans eru tilgreindar þannig að útborguð laun eru sögð 361.500 krónur og aðrar tekjur 100.000 krónur eða samtals að frádregnum sköttum 461.500 krónur. Samkvæmt greiðslumatinu átti Jóhannes Hafsteinn að hafa 163.667 krónur til ráðstöfunar eftir að framangreindur kostnaður og skattar væru greiddir. Heildartekjur að frádregnum opinberum gjöldum voru tilgreindar 5.538.000 krónur, heildareignir 24.860.000 krónur og heildarskuldir 3.500.000 krónur, en það var jafnvirði þess láns, sem til stóð að veita. Hrein eign var því tilgreind 21.360.000 krónur. Hið veitta lán var því sagt 5,34% af hreinni eign og tiltekið að það myndi vera unnt að greiða allar skuldir lánataka á 0,63 árum miðað við þessar forsendur.

Sóknaraðili hefur enga grein gert fyrir því á hvaða gögnum greiðslumatið var reist. Hann hefur heldur engum stoðum rennt undir réttmæti þess. Þótt ekki verði gerðar kröfur til þess að fjármálafyrirtæki varðveiti til lengri tíma gögn, sem liggja slíkum greiðslumötum til grundvallar, verður að ætlast til að það geti upplýst um á hvaða gögnum hafi helst verið byggt. Varnaraðili hefur lagt fram skattframtöl Jóhannesar Hafsteins 2007 og 2008. Hið fyrra sýnir framtaldar launatekjur hans hér á landi árið 2006 og eignir og skuldir 31. desember það ár. Launatekjur 2006 eru tilgreindar 1.242.801 króna. Engar fjármagnstekjur eru tilgreindar og engin peninga-, verðbréfa- og hlutafjáreign er tilfærð. Samkvæmt skattframtalinu hefur sambúðarmaki hans engar launatekjur en hefur 6.500 krónur í hreinar tekjur af eigin atvinnurekstri á árinu. Jóhannes Hafsteinn er á framtalinu ásamt sambúðarmaka skráður fyrir fasteign að Rauðalæk 55 í Reykjavík og er heildarverðmæti hennar skráð 13.800.000 krónur og verðmæti bifreiðar sagt vera 2.295.000 krónur. Áhvílandi veðskuldir á fasteigninni eru sagðar 10.926.130 krónur og aðrar skuldir 2.071.047 krónur. Á álagningarseðli 2007, vegna tekjuársins 2006, segir að stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars sé 1.170.555 krónur og eignastofn til útreiknings vaxtabóta er sagður 1.548.911 krónur.

Af framangreindu verður sú ályktun dregin að upplýsingar um launatekjur Jóhannesar Hafsteins, eignir hans og skuldir á greiðslumati því, sem áður greinir, séu í engu samræmi við upplýsingar hans um þessi atriði við síðustu skattskil áður en greiðslumatið var gert. Sóknaraðili heldur því fram að Jóhannes Hafsteinn hafi verið í Danmörku á þessum tíma við vinnu. Það kemur einnig fram í skýrslu varnaraðila fyrir dómi. Þótt leggja verði til grundvallar að svo hafi verið, liggja hvorki fyrir upplýsingar eða gögn um tekjur hans þar né eignir og skuldir. Greiðslumatið ber ekki með sér að það sé reist á upplýsingum eða gögnum sem aflað hefur verið frá Danmörku. Athugasemdir sem starfsmenn sóknaraðila hafa skráð um veru Jóhannesar Hafsteins og vinnu í Danmörku eru engum gögnum studdar.

Með vísan til framangreinds og miðað við skyldur sem á sóknaraðila sem fjármálafyrirtæki hvíldu þegar greiðslumatið var gert og það traust, sem varnaraðili mátti hafa til vinnubragða fyrirtækisins, verður fallist á með héraðsdómi að vegna framangreindra atvika og efnis loforðsins sé ósanngjarnt af sóknaraðila að bera fyrir sig samþykki varnaraðila á því að veita veðleyfi fyrir tryggingarbréfinu. Fallist er á forsendur héraðsdóms um mat á stöðu samningsaðila. Atvik sem síðar komu til gera einnig samþykki varnaraðila meira íþyngjandi en ella. Er því skilyrðum 36. gr. laga nr. 7/1936 til að ógilda samþykkið fullnægt. Þá verður fallist á úrlausn héraðsdóms á öðrum málsástæðum aðila. Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og segir í dómsorði. 

Dómsorð:

Felld er úr gildi aðfarargerð nr. 011-2010-05756 sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði 18. apríl 2012 í fasteign varnaraðila, Guðrúnar Margrétar Jóhannesdóttur, að Baldursgötu 24a í Reykjavík til tryggingar kröfu sóknaraðila Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf.

Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms er staðfest. 

Sóknaraðili greiði varnaraðila 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 2013.

Mál þetta, sem barst dóminum með kæru móttekinni 12. júní 2012, var tekið til úrskurðar 7. janúar sl.

Sóknaraðili, Guðrún Margrét Jóhannesdóttir, gerir þær dómkröfur að aðfarargerð varnaraðila frá 18. apríl 2012, nr. 011-2010-05756 gerð af sýslumanninum í Reykjavík fyrir kröfu að fjárhæð 4.813.593 kr. ásamt dráttarvöxtum og kostnaði, sem gerð var inn í tryggingarbréf nr. 1150-63-009749, dags. 11.4.2007, í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni Baldursgötu 24a, fnr. 200-7550, Reykjavík, verði felld úr gildi og að frekari fullnustugerðum verði frestað meðan aðfararmál þetta er til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.

Varnaraðili, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf., gerir þær dómkröfur að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði aðfarargerð nr. 011-2010-05756, sem framkvæmd var hinn 18. apríl 2012.

Þá er þess krafist að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi.

I

Þann 11. apríl 2007 gaf Jóhannes H. Sigurðsson út tryggingarbréf nr. 1150-63-009749 þar sem fasteign móður hans, sóknaraðila máls þessa, að Baldursgötu 24a, Reykjavík, fnr. 200-7550, var sett að veði til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuldum hans við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis hf. allt að fjárhæð 73.075 CHF auk dráttarvaxta og vanskilakostnaðar.

Þann 16. apríl 2007 gaf nefndur Jóhannes út skuldabréf, sem er nr. 398-35-10234, þar sem hann viðurkennir að skulda Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. 1.901.829 JPY og 45.370,37 CHF. Vextir eru tilgreindir Libor vextir. Skuldabréfið er vottað af tveimur starfsmönnum varnaraðila. Í 6. gr. skilmála skuldabréfsins kemur fram að krefjast megi aðfarar skv. 7. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 til fullnustu skuldar samkvæmt því án undangengins dóms.

Framangreint skuldabréf hefur verið í vanskilum frá 1. september 2008. Greiðsluáskorun var birt sóknaraðila 25. febrúar 2010. Með aðfararbeiðni 13. apríl 2010 krafðist Hörður Helgi Helgason hdl. þess að aðför færi fram hjá sóknaraðila til tryggingar skuld samkvæmt skuldabréfinu að fjárhæð 7.030.186 kr. Í greiðsluáskoruninni og aðfararbeiðninni var gjaldfelldur höfuðstóll skuldabréfsins í svissneskum frönkum og japönskum jenum umreiknaður í íslenskar krónur, í samræmi við ákvæði skuldabréfsins þar að lútandi, miðað við gengi viðkomandi gjaldmiðla þann 1. september 2008.  

Fyrirtöku aðfararmálsins var frestað að beiðni varnaraðila þann 22. júní 2010 í kjölfar dóma Hæstaréttar þann 16. júní 2010 um ólögmæti gengistryggingar í málum Lýsingar og SP-fjármögnunar.

Með tölvupósti 10. febrúar 2012 var óskað eftir fyrirtöku aðfararmálsins og var aðför gerð hjá sóknaraðila þann 18. apríl 2012.

II

Sóknaraðili byggir á því að kröfur á hendur honum samkvæmt aðfararbeiðni séu um margt óljósar og stríði því í bága við þá grundvallarreglu að kröfuhafi peningakröfu verði að hafa dóm fyrir kröfu sinni til að geta leitað fullnustu hjá skuldara kröfunnar.

Þá sé Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf. í slitameðferð og geti því ekki átt sjálfstæða aðild að dómsmáli eða aðfararmáli. Slitastjórn verði að koma fram fyrir félagið, en ekki verði séð frá hvaða aðila útgefandi aðfararbeiðninnar leiði rétt sinn og það hafi heldur ekki verið upplýst við gerðina sjálfa. Um aðild varnarmegin gildi ákvæði 3. gr. aðfararlaga, en aðallega 2. gr. sömu laga sem og 28. gr. sömu laga og síðan almennar reglur einkamálaréttar um aðild sóknarmegin. Sjá í því sambandi 1. mgr. 16. gr. einkamálalaga vegna aðildar og 17. gr. sömu laga vegna fyrirsvars.

Sóknaraðili byggir einnig á því að greiðsluáskorunin hafi ekki fullnægt megininntaki reglna aðfararlaga um greiðsluáskorun. Í því efni verði að horfa til þess, að sóknaraðili komi að málinu í gegnum svokallað tryggingarbréf. Ekki verði séð að sú fjárhæð sem tilgreind er í greiðsluáskoruninni sé í samræmi við tryggingarbréfið né hvernig kröfubréfið fellur undir skuldabréfið. Í tryggingarbréfinu séu bókstafirnir CHF og tölustafirnir 73.075, en í greiðsluáskoruninni bókstafirnir JPY og að því er virðist tilgreining á íslenskum krónum. Ekki verði því séð að sóknaraðili hafi getað gert sér grein fyrir því um hvaða skuldbindingu hans væri að ræða.

Sóknaraðili byggir á því að þar sem dómur hafi ekki gengið um kröfu samkvæmt skuldabréfinu sé það ekki gild aðfararheimild þar sem hann sé ekki aðili að því.

Þá byggir sóknaraðili á því að skuldabréf verði samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga að vera með „ákveðinni peningaupphæð“. Þar sem ákveðin peningaupphæð sé ekki tilgreind í skuldabréfinu, heldur eingöngu ákveðnir bókstafir sem tákna ákveðna mynt og síðan tölustafir í ákveðinni röð sem séu bundnir ákveðnu gengi erlendra mynta, sé eitt helsta skilyrði þess að skuldabréfið sé bein aðfararheimild brostið.

Byggir sóknaraðili á því að af því leiði, að ekki sé um ákveðna peningaupphæð að ræða, heldur sé um að ræða breytu, sem enginn hafi er bréfið var útgefið vitað hvern enda tæki. Enda sé í aðfarargerðinni ekki tilgreind erlend mynt, heldur fjárhæð í íslenskum krónum. Byggir sóknaraðili á því að fjárhæð sem sé háð annaðhvort breytingu á vísitölu eða gengi sé ekki ákveðin peningafjárhæð í almennum skilningi, þar sem miklar breytingar geti á orðið vegna ýmissa ófyrirséðra atvika og atriða, en til álita geti þá jafnframt komið að hvaða leyti breytingar á fjárhæðum séu réttar og hvaða forsendur séu fyrir þeim og hvort þær séu réttar. Ekki sé eðlilegt að hægt sé að ganga að skuldurum slíkra krafna án þess að dómstólar hafi ákveðið hvaða kröfufjárhæð sé um að ræða. Sú peningaupphæð sem aðfararlög geri ráð fyrir, verði að vera ótvíræð og fyrirséð. Þá sé með engu móti hægt að botna í hvernig hinar íslensku krónur eru útreiknaðar, sem gert var fjárnám fyrir, og hvar sé að finna heimildir fyrir þeim útreikningi.

Þá verði ekki séð á skuldabréfinu að um veðskuldabréf sé að ræða eða að bréfið beinist með einhverjum hætti að sóknaraðila.

Loks byggir sóknaraðili á því að ekki sé um gilt tryggingabréf að ræða þar sem hann sé ekki útgefandi þess. Ekkert veðleyfi frá sóknaraðila til útgefanda tryggingarbréfsins hafi verið lagt fram eða sé þinglýst á Baldursgötu 24a, Reykjavík.

Byggir sóknaraðili á því að veðréttur verði aðeins stofnaður með samningi, þannig að gildi hafi að lögum samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð.  Veðsamningur sem brjóti gegn téðri 2. mgr. 2. gr. skorti ekki aðeins réttarvernd gagnvart þriðja manni, heldur sé hann einnig ógildur milli aðila.

Ekki verði séð að tryggingarbréfið fullnægi ákvæðum 3. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1997, þar sem ekki sé tilgreint í því hvernig hækkun fjárhæða sé bundin vísitölu eða gengi.

Þó að sóknaraðili hafi ritað í reitinn „samþykki þingl. eiganda“ byggir sóknaraðili á því, að sú áritun fullnægi ekki þeim skilyrðum sem sett eru til stofnunar veðsamnings, þ.e. ekki sé um eiginlegan samning að ræða milli útgefanda tryggingarbréfsins og sóknaraðila og engan veginn milli sóknaraðila og veðhafa samkvæmt tryggingarbréfinu. Ekki sé um gilt loforð að ræða.

Einnig verði að horfa til þess, að ef veðsamningur verður talinn hafa stofnast, þá sé um að ræða tryggingarábyrgð sóknaraðila. Meginreglan sé einnig sú, að ábyrgð veðsala sé einungis svokölluð einföld ábyrgð, sem ekki verði gengið að, fyrr en ljóst sé að aðalskuldari sé ófær um greiðslu viðkomandi skuldar. Þá sé ábyrgð einfalds ábyrgðarmanns nokkurs konar bakábyrgð, sem sé háð því að krafan á aðalskuldara sé gild að lögum. Komi hér til ábyrgðarreglur kröfuréttarins. 

Sóknaraðili byggir einnig á því að áritun hans á tryggingarbréfinu sé markleysa og allavega ógild. Ljóst sé, að sóknaraðili sé ekki útgefandi skuldabréfsins, heldur í mesta lagi ábyrgðarmaður, en hann hafi aldrei verið látinn svara því hjá lánveitanda, útgefanda tryggingarbréfsins, hvort hann hefði greiðslugetu fyrir skuldinni eða verið upplýstur um skuldina að einhverju leyti, svo sem að ábyrgð hans væri háð erlendu gengi. Upphaflegur lánveitandi hafi því í engu farið að þeim boðum sem fram koma í 3. mgr. 3. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, frá 1. nóvember 2001, sbr. einnig 2. gr. samkomulagsins. Í raun hafi fjármálafyrirtækið verið að ná sér í tryggan greiðanda þeirra skulda, sem aðalskuldari hafi verið í við fjármálafyrirtækið (SPRON), þegar þeir fjármálagerningar sem mál þetta snýst um hafi verið gefnir út. Ábyrgðarloforð sóknaraðila sé því ógilt eða allavega ógildanlegt, samkvæmt 33. og 36. gr. samningalaga og túlka verði fjármálagerningana, skv. 36. gr. b. samningalaga (hrd. 604/2010).

Horfa verði til þess að sóknaraðili hefur réttarstöðu neytanda (lög nr. 121/1994), en varnaraðili sé fjármálafyrirtæki (lög nr. 161/2002). Því beri að víkja tryggingarábyrgð hans til hliðar á grundvelli ógildingarákvæða samningalaga, svo sem téðri 36. gr., þar sem sóknaraðili hafi ekki verið upplýstur um bága fjárhagsstöðu aðalskuldara, sem lánveitandinn hafi vitað að væri verulega slæm, enda hafi skuldin strax eða fljótlega fallið í gjalddaga. Sjá í þessu sambandi RF 1993:797, Rt 1984:28 og Rt 1995:1540.

Þá byggir sóknaraðili á því, að fjárnám hafi ekki verið gert í samræmi við að um væri að ræða kröfu í erlendum myntum, heldur í samræmi við að samningur aðila væri í raun í íslenskum krónum. Af þeim sökum sé um ógilt eða allavega ógildanlegt fjárnám að ræða, þar sem að þessu leyti sé ekki samræmi á milli fjárnámsheimildarinnar og fjárnámskröfunnar. Allavega verði ekki hægt að sjá að um „ákveðna peningaupphæð“ hafi verið að ræða, þar sem hún sé annaðhvort í erlendum myntum eða íslenskum krónum og geti því ekki verið „ákveðin“.

Sóknaraðili byggir einnig á því, eftir því sem við á, að um sé að ræða ógilda kröfu, samkvæmt þeim sjónarmiðum sem fram koma í hæstaréttardómum nr.: 92/2010, 153/2010, 471/2010, 603/2010, 604/2010, 30/2011, 31/2011, 155/2011, 282/2011 og 600/2011.

Þar sem varnaraðili krefji sóknaraðila um greiðslu í íslenskum krónum, og þar sem öll framkvæmd lánasamningsins virðist hafa verið á þann veg, að greitt hafi verið í íslenskum krónum, sbr. kröfu varnaraðila um greiðslu skuldarinnar, verði að telja að um lán í íslenskum krónum hafi verið að ræða og því sé krafan ógild samkvæmt 13. og 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. 2. gr. laganna. 

Sóknaraðili byggir einnig á því að óheimilt hafi verið að veita lánið í erlendum myntum, þar sem um neytendalán hafi verið að ræða.

Loks byggir sóknaraðili á því að framkvæmd aðfararinnar hafi ekki verið í samræmi við meginreglur aðfararlaga, svo sem að fjárnámsbeiðni geti ekki verið svo lengi í meðförum sýslumanns, eins og raunin varð í þessu máli, en með því hafi varnaraðili sýnt af sér tómlæti og sýslumaður átt að hafna frekari aðgerðum og krefjast þess í stað nýrrar aðfararbeiðni. Þá byggir sóknaraðili einnig á því, að öll gögn sem lögð eru fyrir dóm eigi alfarið að vera á íslensku, skv. þeim meginreglum einkamálalaga sem einnig gilda í aðfararmálum. Ekki hafi verið gerð grein fyrir því í aðfararbeiðni um hvers konar myntir væri að ræða á íslensku. Þá segi að fjárnámið sé gert inn í tryggingarbréfið í viðkomandi fasteign sem sé texti sem er vita óskiljanlegur.

Sóknaraðili vísar til þeirra réttarreglna, sem hér að ofan hafa verið tilgreindar. Sérstaklega er vísað til reglna veðréttar um stofnun veðs og til reglna kröfuréttar um ábyrgðir, svo sem þeirrar meginreglu að ábyrgð teljist einföld, nema annað sé sérstaklega tekið fram. Þá skírskotar sóknaraðili einnig til tilskipunar EBE 102 frá 22. des 1986, sbr. lög nr. 121/1994, sbr. og 2. gr. og 3. gr. laga nr. 2/1993. Sóknaraðili byggir á því, að varnaraðili hafi alla sönnunarbyrði um alla þætti málsins, sem kröfuhafi. Varðandi ógildingarkröfu aðfarargerðarinnar er einnig vísað til þeirra sjónarmiða sem varða frávísun í málum Hæstaréttar nr.: 25/2012, 107/2011, 62/2011 og þær frávísunarástæður sem skuldari hafði upp í málinu nr. 551/2011 og nr. 3/2012.

III

Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi með undirritun sinni á tryggingarbréf nr. 1150-63-009749 veitt syni sínum Jóhannesi H. Sigurðssyni veðleyfi í fasteign sinni að Baldursgötu 24a, til tryggingar öllum skuldum hans við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis hf. Með undirritun sóknaraðila á tryggingarbréfið og þinglýsingu þess í kjölfarið hafi stofnast til fullgilds veðréttar sparisjóðsins í eigninni.

Það sé ekki skilyrði í íslenskum rétti að veðsali þurfi að vera titlaður „útgefandi“ þess tryggingarbréfs sem veðsetur réttindi hans. Stofnun veðréttinda þurfi aðeins að uppfylla það skilyrði 2. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð að til þeirra sé stofnað með samningi og sé þeim áskilnaði fullnægt.

Skýrt komi fram í tryggingarbréfinu að það tryggi skuldir aðalskuldara allt að 73.075 CHF. Þannig sé fjárhæð veðkröfunnar tilgreind í erlendri mynt í tryggingarbréfinu sjálfu, eins og sérstaklega sé heimilað í 2. mgr. 4. gr. laga um samningsveð nr. 75/1997. Fjárhæðin sé hvorki bundin við vísitölu né gengi.

Af framangreindu leiði að til tryggingarskuldbindingarinnar hafi verið stofnað með loforði sóknaraðila og undirritun hans á tryggingarbréfið þar sem hann samþykkti, sem þinglýstur eigandi fasteignarinnar, að veita aðalskuldara leyfi til þess að veðsetja hana til tryggingar skuldbindingum hans.

Þá beri að hafna málsástæðum sóknaraðila um einfalda ábyrgð þar sem um veðskuldbindingar gildi lög um samningsveð en ekki óskráðar meginreglur um kröfuábyrgðir einstaklinga. Við veðleyfisveitinguna hafi ákvæða samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 verið gætt. Framkvæmt hafi verið mat á greiðslugetu aðalskuldara 10. apríl 2007, sem benti til þess að skuldari gæti staðið við skuldbindingar sínar miðað við þáverandi fjárhagsstöðu. Samkomulagið kveði hins vegar ekki á um að greiðslumeta skuli ábyrgðarmann. Með undirritun á tryggingarbréfið hafi sóknaraðili lýst því yfir að hann hafi kynnt sér efni bréfsins, gert sér grein fyrir því í hverju ábyrgð hans sem veðleyfisgjafa væri fólgin og teldi hana samrýmast greiðslugetu sinni. Jafnframt hafi hann lýst því yfir að hafa kynnt sér upplýsingabækling um ábyrgðir og efni samkomulags um notkun ábyrgða einstaklinga frá 1. nóvember 2001. Í greinargerð sóknaraðila sé því ranglega haldið fram að aðalskuldari hafi undirritað umrædda yfirlýsingu. Í bæklingnum sé ábyrgðarmönnum bent á að greiðslumat skuli framkvæmt þegar ábyrgðin nemi meira en 1.000.000 kr. og þeir hvattir sérstaklega til þess að kynna sér greiðslugetu aðalskuldara. Greiðslumatið hafi verið til reiðu og sóknaraðili hafi þekkt rétt sinn til þess að kynna sér greiðslumatið. Hafi hann ekki gert það verði hann sjálfur að bera hallann af því. Niðurstaða greiðslumatsins hafi gefið til kynna að afgangur ráðstöfunartekna Jóhannesar H. Sigurðssonar eftir að tekið hafði verið tilliti til greiðslubyrði lána, annars fasts kostnaðar og framfærslukostnaðar væri ríflega 160 þúsund krónur. Með hliðsjón af framangreindu séu engin efni til þess að ógilda umrætt veðleyfi enda hvorki ósanngjarnt né andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu varnaraðila að bera það fyrir sig í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Sóknaraðili hafi tekið þá ákvörðun að veita veð í fasteign sinni. Í slíku felist skuldbinding sem honum beri að standa við. 

Þá liggi fyrir að sóknaraðili hafi ekki haft uppi athugasemdir varðandi ofangreint fyrr en fjórum og hálfu ári eftir veðsetninguna, en tryggingarbréfið sé dagsett 16. apríl 2007 og fyrsta bréf sóknaraðila til veðhafa er dagsett 4. nóvember 2011. Sé því um tómlæti að ræða af hálfu sóknaraðila sem leiði einnig til þess að hafna beri kröfum hans.

Varnaraðili byggir á því að aðfararbeiðni í málinu sé beint að sóknaraðila sem gerðarþola með heimild 2. ml. 1. mgr. 3. gr. aðfararlaga nr. 90/1080. Í ákvæðinu segi m.a. að „aðfarar megi krefjast hjá þeim sem eiga verðmæti sem standa að veði til tryggingar kröfu skv. 7. tl. 1. mgr. 1. gr. […]“. Í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar, sbr. einnig 36. gr. aðfararlaga, sé varnaraðila því rétt að beina aðfararbeiðninni að sóknaraðila málsins sem gerðarþola eins og atvikum málsins sé háttað.

Skuldabréf nr. 10234 sé í fullu samræmi við 7. tl. 1. gr. aðfararlaga og því engin nauðsyn að afla aðfararheimildar skv. 1. tl. sömu greinar. Tekið sé fram í skuldabréfinu að aðför megi gera til fullnustu skuldarinnar án undangengins dóms eða réttarsáttar. Jafnframt sé undirskrift skuldara vottuð af tveimur vitundarvottum og uppfylli vottun skuldabréfsins því áskilnað 7. tl. 1. gr. aðfararlaga auk þess sem þar komi fram kennitölur vottanna.

                Skuldabréfið hljóði upp á ákveðna fjárhæð í japönskum jenum og svissneskum frönkum. Samkvæmt dómum Hæstaréttar, einkum dómi frá 7. júní 2012 í máli nr. 524/2011, sé ljóst að skuldin sé í erlendri mynt en ekki gengistryggð með ólögmætum hætti. Í 2. gr. skilmála bréfsins sé einnig tiltekið að „gjaldfallnar fjárhæðir umreiknist ávallt í íslenskar krónur“. Af þeim sökum hafi skuldin verið umreiknuð í íslenskar krónur við gjaldfellingu.

Varnaraðili byggir á því að greiðsluáskorun og aðfararbeiðni varnaraðila fullnægi áskilnaði skv. 1. mgr. 7. gr. aðfararlaga. Þannig sé fjárhæð skuldarinnar tilgreind sérstaklega ásamt því að ítarlega sé gerð grein fyrir því um hvaða skuldbindingu sé að ræða. Þá sé sérstaklega tekið fram að krafan sé vegna skuldabréfs nr. 10234 og að baki kröfunni sé tryggingarbréf. Loks sé tryggingarbréfinu lýst með ítarlegum hætti; fram komi að númer þess sé 9749, það sé að fjárhæð 73.075 CHF og sé tryggt með veði í Baldursgötu 24a, fnr. 200-7550.

Það sé misskilningur af hálfu sóknaraðila að sú fjárhæð sem tilgreind sé í greiðsluáskorun hafi átt að vera í samræmi við fjárhæð tryggingarbréfsins. Tryggingarbréfið sem slíkt hafi ekki fjárhagslegt gildi heldur sé aðfararheimildin og þar með sú fjárkrafa sem málið snýst um sótt í skuldabréfið. Varnaraðili hafni einnig rökum sóknaraðila um að „ekki verði séð“ af greiðsluáskoruninni „hvernig kröfubréfið falli undir skuldabréfið“. Í samræmi við áður greint hafi fjárhæð skuldarinnar verið tilgreind í íslenskum krónum en fjárhæð tryggingarbréfsins í þeim gjaldmiðli sem það sé í.

Ljóst sé að höfuðstóll skuldarinnar sem tryggingarbréfið tryggi hafi verið gjaldfallinn og hafði honum því verið myntbreytt í íslenskar krónur miðað við gjaldfellingardag. Höfuðstóll tryggingarbréfsins sé hins vegar í svissneskum frönkum og því hafi verið nauðsynlegt að tilgreina hann með þeim hætti.

Þá byggir varnaraðili á því að aðfararbeiðni varnaraðila, dags. 13. apríl 2010, sé undirrituð af Herði Helga Helgasyni hdl. sem hafi haft fullt umboð varnaraðila til að gera umrædda aðfararbeiðni sem lögmaður varnaraðila á þessum tíma, sbr. einnig 21. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998.

Einnig byggir varnaraðili á því að rangt sé að slitabú Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis geti ekki átt sjálfstæða aðild að dómsmáli eða aðfararmáli. Frá efnahagshruninu hafi slitabú fjármálastofnana verið aðilar að hundruðum dóms- og aðfararmála og standi engin lagafyrirmæli því í vegi.

Um aðfararbeiðnir gildi 10. gr. aðfararlaga sem tiltaki sérstaklega hvað skuli koma fram í beiðninni. Hvergi sé þess getið að nauðsynlegt sé að tilgreina fyrirsvarsmenn í aðfararbeiðni. Þá sé því alfarið hafnað að skortur á tilgreiningu fyrirsvarsmanns geti undir nokkrum kringumstæðum leitt til ógildingar aðfarar.

Loks byggir varnaraðili á því að það geti ekki leitt til ógildingar aðfararinnar að fyrirtöku hennar hafi verið frestað um tíma vegna réttaróvissu um skilsmun á gengistryggðum lánum og erlendum lánum. Samkvæmt 9. gr. aðfararlaga hafi varnaraðila verið heimilt að krefjast aðfarar að liðnum aðfararfresti, hvenær sem er, svo lengi sem krafan væri ekki fallin niður vegna fyrningar. Einungis sé óheimilt að fresta gerð á meðan gerðinni stendur, sbr. 26. gr. aðfararlaga, en ljóst sé að umrædd gerð var ekki hafin er varnaraðili óskaði eftir frestun hennar. Einnig vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili hafi aldrei fyrr en nú haft uppi mótmæli vegna frestunar málsins og að frestunin hafi verið skuldurum til hagsbóta.

Varnaraðili vísar til aðfararlaga nr. 90/1989, einkum 1., 3., 10., 26. og 36. gr. Þá vísar varnaraðili einnig til samningsveðlaga nr. 75/1997, einkum 2. og 4. gr. og til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Málskostnaðarkröfu styður varnaraðili við 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 91. gr. aðfararlaga.

IV

Þann 11. apríl 2007 gaf Jóhannes Hafsteinn Sigurðsson út tryggingarbréf þar sem fasteign móður hans, sóknaraðila máls þessa, að Baldursgötu 24a, Reykjavík, fnr. 200-7550, var sett að veði til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuldum Jóhannesar H. gagnvart Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. allt að fjárhæð 73.075 CHF auk dráttarvaxta og vanskilakostnaðar. Tryggingarbréfið ber númerið 1150-63-009749 og var því þinglýst á 2. veðrétt í fasteign sóknaraðila.

Þann 16. apríl 2007 gaf nefndur Jóhannes út skuldabréf, sem er nr. 398-35-10234, þar sem hann viðurkennir að skulda Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. 1.901.829 JPY og 45.370,37 CHF.

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þann 21. mars 2009 vék Fjármálaeftirlitið stjórn SPRON í heild sinni frá og skipaði skilanefnd yfir sparisjóðinn. Þá skyldi samkvæmt ákvörðuninni stofna sérstakt hlutafélag sem tæki við öllum eignum félagsins og jafnframt öllum tryggingarréttindum. Verður því að telja að hið sérstaka félag sem stofnað var í samræmi við ákvörðunina (Drómi hf.) fari með fyrirsvar í málum vegna SPRON. Varnaraðili sé því ekki réttur aðili að máli þessu.

Með undirritun sinni á tryggingarbréf nr. 1150-63-009749 veitti sóknaraðili syni sínum, Jóhannesi Hafsteini Sigurðssyni, veðleyfi í fasteign sinni að Baldursgötu 24a, Reykjavík til tryggingar öllum skuldum hans við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis hf.

Áskilnaði 2. gr. laga nr. 75/1997 um að stofnað væri til veðréttarins með samningi var því fullnægt.

Í íslenskum rétti er ekki að finna það skilyrði að veðsali þurfi að vera titlaður „útgefandi“ þess tryggingarbréfs sem veðsetur réttindi hans.

Með undirritun sóknaraðila á tryggingarbréfið og þinglýsingu þess í kjölfarið stofnaðist því til veðréttar sparisjóðsins í eigninni.

Tryggingarbréfið kveður á um að það tryggi skuldir útgefanda, Jóhannesar Hafsteins Sigurðssonar, allt að 73.075 CHF. Fjárhæð veðkröfunnar er þannig tilgreind í erlendri mynt eins og sérstaklega er heimilað í 2. mgr. 4. gr. laga um samningsveð nr. 75/1997.

Þann 16. apríl 2007 gaf nefndur Jóhannes út skuldabréf, sem er nr. 398-35-10234, þar sem hann viðurkennir að skulda Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. 1.901.829 JPY og 45.370,37 CHF. Vextir eru tilgreindir Libor vextir. Í 6. gr. skilmála skuldabréfsins kemur fram að krefjast megi aðfarar skv. 7. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 til fullnustu skuldar samkvæmt því án undangengins dóms.

Framangreint skuldabréf hefur verið í vanskilum frá 1. september 2008. Áður en aðfarar var krafist sendi varnaraðili sóknaraðila greiðsluáskorun sem birt var honum 25. febrúar 2010, sbr. 7. gr. aðfararlaga. Í greiðsluáskoruninni er áskorun um að greiða skuldina eða semja um greiðslu hennar innan 15 daga ella verði krafist aðfarar. Greiðsluáskorunin lýsir ítarlega þeirri kröfu sem hún varðar og í henni er skorað á sóknaraðila að greiða kröfuna annars verði krafist aðfarar. Þá er sérstaklega tekið fram að að baki skuldabréfinu sé tryggingarbréf tryggt með veði í fasteigninni Baldursgötu 24, Reykjavík. Einnig kemur þar fram að bréfið hafi verið í vanskilum frá 1. september 2008. Verður því að telja að sóknaraðila hafi mátt vera ljóst um hvaða skuld var að ræða.

Ljóst þykir einnig af aðfararbeiðninni um hverja skuld er að ræða en þar er einnig ítarleg lýsing heimildarskjals.

Með aðfararbeiðninni, sem dagsett er 13. apríl 2010, krafðist Hörður Helgi Helgason hdl. þess að aðför færi fram hjá sóknaraðila til tryggingar skuld samkvæmt skuldabréfinu.

Þar sem ósannað verður að telja að lögmaðurinn hafi ekki haft umboð varnaraðila til þess að hafa kröfuna uppi verður að telja að hann hafi haft umboð til þess, sbr. 21. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998.

Í greiðsluáskoruninni og aðfararbeiðninni var gjaldfelldur höfuðstóll skuldabréfsins í svissneskum frönkum og japönskum jenum umreiknaður í íslenskar krónur, í samræmi við ákvæði skuldabréfsins þar að lútandi, miðað við gengi viðkomandi gjaldmiðla þann 1. september 2008.  

Fyrirtöku aðfararmálsins var frestað að beiðni varnaraðila þann 22. júní 2010 í kjölfar dóma Hæstaréttar þann 16. júní 2010 um ólögmæti gengistryggingar í málum Lýsingar og SP-fjármögnunar. Verður að telja að frestunin hafi verið eðlileg í ljósi þeirrar réttaróvissu sem var fyrir hendi.

Með tölvupósti 10. febrúar 2012 var óskað eftir fyrirtöku aðfararmálsins hjá sýslumanni og var aðför gerð hjá sóknaraðila þann 18. apríl 2012.

Sóknaraðili heldur því fram að lánið sé gengistryggt, sem er óheimilt skv. 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Við úrlausn málsins þarf því að leysa úr því hvort með veðskuldabréfinu hafi Jóhannesi H. verið veittar að láni framangreindar erlendar myntir eða íslenskar krónur tengdar við erlenda mynt. Við þá túlkun skiptir mestu máli efni samningsins auk þess sem líta ber til framkvæmdar hans.

Í forprentuðum texta veðskuldabréfsins, sem ber yfirskriftina „Veðskuldabréf í erlendri mynt“, kemur fram að fyrirgreiðsla SPRON sé endurlánað erlent lánsfé veitt í formi fjölmyntaláns þar sem myntir mega á hverjum tíma vera allt að 5 að vali skuldara. Tilskilið sé að SPRON hafi aðgang að þeim myntum og Seðlabanki Íslands skrái þær.

Upphafsmyntsamsetning lánsins er 1.901.829 JPY og 45.370,37 CHF. Vextir eru tilgreindir vextir. Upplýst er að SPRON hafði aðgang að myntunum.

Í dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 var því slegið föstu að ófrávíkjanleg ákvæði 14. gr. laga nr. 38/2001 stæðu því í vegi að lántaki væri skuldbundinn af ákvæði í samningi um að fjárhæð láns í íslenskum krónum tæki breytingum eftir gengi erlends gjaldmiðils.

Við úrlausn þess hvort um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum sé að ræða eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum er fyrst að líta til heitis skuldabréfsins en fyrirsögn þess er: „Veðskuldabréf í erlendri mynt“. Í öðru lagi að lánsfjárhæðin er samkvæmt orðalagi skuldabréfsins tilgreind í tveimur erlendum gjaldmiðlum, japönskum jenum og svissneskum frönkum. Í þriðja lagi eru vextir samkvæmt skuldabréfinu til samræmis við að um erlent lán sé að ræða tilgreindir LIBOR. Jafnvirðisfjárhæðar í íslenskum krónum er þar ekki getið.

Þá verður jafnframt að líta til þess hvernig aðilar samningsins hafa í raun efnt hann.

Varnaraðili hefur ekki orðið við áskorun sóknaraðila um að leggja fram gögn um að greiðsla fyrir skuldabréfið frá 16. apríl 2007 hafi verið innt af hendi í erlendum myntum. Verður því við það að miða að SPRON og Jóhannes H. hafi efnt skuldbindingar sínar í íslenskum krónum og því hafi lánið í raun verið íslenskt gengistryggt lán bundið við gengi erlendra gjaldmiðla og þar með í andstöðu við ófrávíkjanleg ákvæði 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. fordæmi Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010, eins og áréttað var enn fremur m.a. í dómi Hæstaréttar í máli nr. 155/2011.

                Umrætt tryggingarbréf er undirritað af sóknaraðila sem þinglýstum eiganda. Fyrir ofan nafnritun hans er forskráð á bréfið: „Ég undirritaður hef kynnt mér efni bréfs þessa og geri mér grein fyrir í hverju ábyrgð mín sem veðleyfisgjafa er fólgin og tel hana samrýmast greiðslugetu minni. Jafnframt hef ég kynnt mér upplýsingabækling um ábyrgðir og efni samkomulags um notkun ábyrgða einstaklinga frá 1. nóvember 2001.“

                Varnaraðili heldur því fram að fyrir hafi legið mat á greiðslugetu Jóhannesar H. dags. 10. apríl 2007.

                Sóknaraðili bar fyrir dóminum að hann hefði samþykkt að ábyrgjast fyrir Jóhannes H., son sinn, tveggja til þriggja milljóna króna lán við Sparisjóðinn með u.þ.b. 20.000 kr. afborgun á mánuði enda hafi hún talið sig ráða við greiðslu slíks láns ef illa færi. Jóhannes H. hafi síðan komið með tryggingarbréfið heim til hans til undirritunar þann 11. apríl 2007. Þar hafi hann undirritað bréfið í viðurvist votta en annar þeirra sé móðir hans sem hafi verið veik og rúmliggjandi á heimili hans. Jóhannes H. hafi ekki kynnt henni greiðslumat né hafi hún kynnt sér upplýsingabækling um ábyrgðir og efni samkomulags um notkun ábyrgða einstaklinga frá 1. nóvember 2001.

                Varnaraðili var bundinn af reglum áðurnefnds samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga bæði þegar lán bankans voru tryggð með ábyrgð þriðja manns og þegar þau voru tryggð með veði í eignum annars en lántaka. Í 1. gr. samkomulagsins er lýst því markmiði þess að draga úr vægi ábyrgða einstaklinga ,,og að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugeta greiðanda og eigin tryggingar hans. Með samkomulaginu eru settar meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum í þeim tilvikum er ... veð í eign annars einstaklings er sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu.“ Í 1. mgr. 3. gr. segir meðal annars að sé veð sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu beri fjármálafyrirtæki að meta greiðslugetu greiðanda nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir að svo verði ekki gert. Í framhaldi af þessu er lýst í stuttu máli hvaða aðferð skuli nota við greiðslumatið. Í 3. mgr. þessarar greinar segir að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. sé ,,fjármálafyrirtæki skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi skuldara nemur meira en kr. 1.000.000,-“. Samkvæmt 4. gr. samkomulagsins skal fjármálafyrirtæki gefa út upplýsingabækling meðal annars um veðsetningar og dreifa með skjölum sem afhent séu. Segir jafnframt að með undirritun skjala sem fyllt séu út í tengslum við afgreiðslu láns staðfesti veðsali að hann hafi kynnt sér efni upplýsingabæklings um ábyrgðir. Þá segir að tryggt skuli að veðsali geti kynnt sér niðurstöður greiðslumats áður en hann heimili veðsetningu. ,,Ef niðurstaða greiðslumats bendir til að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar en [veðsali] óskar að lán verði veitt engu að síður, skal hann staðfesta það skriflega.“

Í málinu liggur frammi ódagsett og óundirritað greiðslumat frá SPRON fyrir Jóhannes H. vegna nýs láns 3.500.000 kr. til 30 ára með greiðslubyrði 24.666 kr. Samkvæmt matinu voru mánaðartekjur Jóhannesar H. 461.500 kr. og tekjuafgangur eftir lánveitingu 163.667 kr.

Samkvæmt skattframtali Jóhannesar H. 2008 vegna tekjuársins 2007 voru launatekjur hans 101.280 kr.

Ljóst þykir að greiðslumat það sem liggur frammi í málinu og varnaraðili byggir á, gefur ekki með hliðsjón af skattskýrslum Jóhannesar H. rétta mynd af greiðslugetu hans. Samkvæmt því og þar sem matið er óundirritað þykir ekki verða á því byggt.

Sóknaraðili kveður Jóhannes hafa búið í Danmörku árið 2007 og hafa unnið hjá föður sínum þar. Þá hafi íbúð hans hér á landi verið í útleigu. Frekari vitneskju hafi hún ekki haft um afkomu hans.

Krafa sóknaraðila er m.a. reist á 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Telur sóknaraðili að varnaraðili hafi ekki sinnt þeim skyldum, sem reglur samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga lögðu honum á herðar varðandi upplýsingagjöf til hans áður en hann undirgekkst þá skuldbindingu sem um ræðir. Þá hafi varnaraðili ekki sinnt þeim almennu skyldum sem á honum hvíldu samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 4. gr. þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti.

SPRON bar að fullnægja þeim skyldum sem á honum hvíldu samkvæmt framangreindu samkomulagi um notkun ábyrgða þegar leitað var eftir veði í eign þriðja manns til tryggingar skuld við bankann.

Það leysti bankann ekki undan þessum skyldum gagnvart sóknaraðila, þótt hann hefði kosið að fela Jóhannesi H. að afla undirskrifta bankans undir skjölin og sinna að öðru leyti skyldum hans samkvæmt samkomulaginu. Er óumdeilt að sóknaraðila voru ekki kynntar reglur samkomulagsins áður en hann samþykkti að veita veð í fasteign sinni. Eins og áður er getið fólst í undirskrift hans á tryggingarbréfið einnig yfirlýsing um að hann hefði kynnt sér efni upplýsingabæklings bankans um persónulegar ábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila. Mátti bankinn treysta því að með undirritun sinni hefði sóknaraðili kynnt sér efni bæklingsins. Verður því ekki á það fallist að það eitt getið orðið grundvöllur ógildingar á samþykki hans, þótt bankinn hafi falið Jóhannesi H. að kynna skjölin og þar með tryggja að sóknaraðili ætti kost á að þekkja efni samkomulagsins en hann vanrækt þessar skyldur.

Sem fyrr greinir reisir sóknaraðili kröfu sína m.a. á 36. gr. laga nr. 7/1936, en samkvæmt þeirri grein má víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta eða breyta ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við sanngirnismatið skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.

                Við mat á efni samnings þess, sem komst á 11. apríl 2007 milli sóknaraðila og SPRON með áritun hans á tryggingarbréfið, um að hann heimilaði að veita veð í fasteign sinni til tryggingar skuldum Jóhannesar verður í fyrsta lagi að líta til þess að leggja verður til grundvallar að sóknaraðila hafi ekki verið kynnt greiðslumat.

                Verður varnaraðili að bera hallann af því að óvíst er hvort sóknaraðili hefði veitt veðheimild í eigninni ef hann hefði fengið þær upplýsingar, sem SPRON bar með réttu að veita.

                Þegar litið er til stöðu aðila er ljóst að SPRON var stórt fjármálafyrirtæki, sem starfaði á grundvelli opinbers leyfis, og að til þess mátti gera ríkar kröfur um sérfræðiþekkingu og vönduð vinnubrögð. Þessar kröfur leiða bæði af óskráðum reglum og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 og 4. gr. þágildandi laga nr. 33/2003. Óumdeilt er að sóknaraðili býr ekki yfir sérstakri menntun eða þekkingu á því sviði, sem um ræðir.

                Áður hefur verið gerð grein fyrir atvikum við samningsgerð, en eins og þar segir ákvað bankinn að fela Jóhannesi H. sjálfum að annast um að skyldum bankans til að veita upplýsingar væri fullnægt. Mátti bankinn gera sér ljóst að Jóhannes hafði ríka hagsmuni af því að veðheimild yrði veitt og að ekki væri víst að hann sinnti þeim skyldum til hlítar sem á bankanum hvíldu. Þá var líklegra að ekki yrði staðið jafn faglega að upplýsingagjöf þegar sá, sem annast átti hana fyrir bankann, var eins tengdur þeim, sem til stóð að veita skyldi veðheimild, og raun bar vitni.

                Sanngirnismat samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 ræðst af heildarmati á þeim fjórum þáttum, sem tilgreindir eru í 2. mgr. greinarinnar og lýst er að framan.

                Niðurstaða sanngirnismats eins og atvikum er háttað í máli þessu, er á þann veg að ósanngjarnt sé af hálfu varnaraðila að bera fyrir sig samninginn sem fólst í samþykki sóknaraðila við að veita veð í fasteign sinni til tryggingar skuldum Jóhannesar H.

                Þegar allt framanritað er virt er það niðurstaða dómsins að fella skuli úr gildi aðfarargerð varnaraðila frá 18. apríl 2012, nr. 011-2010-05756, í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni Baldursgötu 24a, fnr. 200-7550, Reykjavík.

Eftir niðurstöðu málsins verður varnaraðili úrskurðaður til að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

                Felld er úr gildi aðfarargerð varnaraðila, Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., frá 18. apríl 2012, nr. 011-2010-05756, í eignarhluta sóknaraðila Guðrúnar Margrétar Jóhannesdóttur, í fasteigninni Baldursgötu 24a, fnr. 200-7550, Reykjavík.

                Varnaraðili greiði sóknaraðila 800.000 kr. í málskostnað.