Hæstiréttur íslands

Mál nr. 50/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Varnarþing
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                                        

Miðvikudaginn 3. febrúar 2010.

Nr. 50/2010.

Hafsbrún ehf.

(Erlendur Þór Gunnarsson hdl.)

gegn

Sjóferðum Arnars ehf.

(Björn Þorri Viktorsson hrl.)

Kærumál. Varnarþing. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli H ehf. gegn S ehf. var vísað frá dómi. Talið var að málið yrði hvorki rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á grundvelli 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 né eftir heimild í samningi aðilanna. Þá hafi H ehf. ekki sannað, gegn mótmælum S ehf., að samið hafi verið munnlega á milli lögmanna þeirra um að málið yrði rekið fyrir þeim dómstóli, sbr. 3. mgr. 42. gr. sömu laga. Verði ekki litið svo á að S ehf. hafi glatað rétti til að hafa uppi kröfu um frávísun vegna rangs varnarþings þó því hafi ekki verið hreyft af honum við þingfestingu málsins, heldur fyrst með greinargerð hans. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. janúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2010, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann „málskostnaðar í héraði úr hendi lögmanns varnaraðila ... og kærumálskostnaðar.“

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Hann krefst þess einnig að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður „verði ákvarðaður sameiginlega úr hendi sóknaraðila og lögmanns hans“.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti. Ákvæði úrskurðarins um málskostnað getur því ekki komið til endurskoðunar fyrir Hæstarétti að kröfu hans.

Samkvæmt gögnum málsins gerðu aðilarnir samning 27. mars 2009, þar sem varnaraðili, sem á heimili á Húsavík, skuldbatt sig til að selja sóknaraðila nánar tiltekið skip. Í kaupsamningnum var meðal annars kveðið á um að reka mætti mál, sem risi vegna hans, á „varnarþingi seljanda og á sama hátt fyrir varnarþingi þess sem stefnt er.“ Sóknaraðili höfðaði mál þetta 28. ágúst 2009 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og leitar í því dóms um skyldu varnaraðila til að efna kaupsamning þeirra.

Af framansögðu liggur fyrir að mál þetta verður hvorki rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á grundvelli 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 né eftir heimild í kaupsamningi aðilanna. Gegn mótmælum varnaraðila hefur sóknaraðili ekki sannað að munnlega hafi verið samið milli lögmanna þeirra um að málið yrði rekið fyrir þeim dómstóli með stoð í 3. mgr. 42. gr. sömu laga. Í greinargerð varnaraðila, sem lögð var fram í þinghaldi í héraði 15. október 2009, var þess krafist að málinu yrði vísað frá dómi sökum þess að það væri höfðað á röngu varnarþingi. Þótt þessu hafi ekki verið hreyft af varnaraðila við þingfestingu málsins 3. september sama ár verður ekki litið svo á að hann hafi þar með glatað rétti til að hafa þá kröfu uppi. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði, en ekki eru efni til að verða við kröfu þess síðarnefnda um að lögmaður sóknaraðila verði dæmdur til greiðslu kærumálskostnaðar með umbjóðanda sínum.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Hafsbrún ehf., greiði varnaraðila, Sjóferðum Arnars ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2010.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 15. desember sl. en það var höfðað 28. ágúst sl. af Hafsbrún ehf., Arnórsstöðum neðri, Patreksfirði, gegn sjóferðum Arnars ehf., Litla­gerði 8, Húsavík.

Stefnandi krefst þess að hið stefnda félag verði með dómi, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 50.000 krónum á dag frá uppkvaðningu dóms og þar til skyldum stefnda er fullnægt, gert skylt að afhenda stefnanda bátinn M/B Þingey ÞH 51, skipanúmer 1650, aflétta tryggingabréfi, að fjárhæð 15.000.000 króna, sem hvílir á 1. veðrétti bátsins, og gefa út afsal til stefnanda, allt í samræmi við kaupsamning aðila frá 27. mars 2009. Í öðru lagi er þess krafist að viðurkenndur verði réttur stefnanda til skaðabóta úr hendi stefnda vegna þess missis hagnaðar sem stefnandi hafi þegar orðið fyrir og muni verða fyrir vegna vanefnda stefnda á kaupsamningnum. Krafist er máls­kostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Af hálfu stefnda er þess krafist að málinu verði vísað frá dómi en til vara er krafist sýknu af kröfum stefnanda. Krafist er málskostnaðar að mati dómsins.

Úrskurðurinn er kveðinn upp til úrlausnar á frávísunarkröfu stefnda. Af hálfu stefnanda er þess krafist að frávísunarkröfunni verði hafnað. Báðir málsaðilar krefjast málskostnaðar í þessum þætti málsins.

I.

Málsatvik eru þau að með kaupsamningi 27. mars 2009 keypti stefnandi bátinn M/B Þingey ÞH 51 af stefnda. Kaupverðið var 7.000.000 króna og skyldi stefnandi greiða 1.000.000 króna við undirritun samningsins en eftirstöðvar við undirritun afsals og afhendingu bátsins 22. maí s.á. Í málinu er deilt um efndir kaupsamningsins. Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi hafi ekki greitt kaupverðið á réttum tíma og hafi vanefndir af þessum sökum verið verulegar. Stefnda hafi því verið rétt að rifta kaupunum. Af stefnanda hálfu er þessu mótmælt. Óverulegur dráttur hafi verið á fyrri hluta greiðslunnar en síðari hluta hennar hafi ekki átt að inna af hendi fyrr en stefndi afhenti bátinn og gæfi út afsal fyrir honum. Þetta hafi stefndi vanefnt.  

Af hálfu stefnda er því lýst að fyrri greiðslan hafi ekki borist fyrr en 16. apríl s.á., eða 20 dögum eftir undirritun kaupsamningsins. Að sögn skipasalans hafi síðari greiðslan ekki borist fyrr en 12. júní s.á. Tíu dögum áður hefði riftun verið lýst yfir af hálfu stefnda, þ.e. 2. júní s.á. Stefndi hafi höfðað mál gegn stefnanda fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra til riftunar kaupsamningsins. Það hafi verið gert vegna þess að frestur til að gagnstefna í þessu máli hafi verið liðinn og ekki hafi tekist að ná samkomulagi við stefnanda um að koma gagnsök að í málinu þegar stefndi hafi leitað eftir því samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála. Af þeim sökum hafi stefndi höfðað mál gegn stefnanda fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra í samræmi við 5. gr. kaupsamningsins.

Frávísunarkrafa stefnda er byggð á því að málið sé af hálfu stefnanda höfðað í rangri dómþinghá. Stefnandi vísi til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 varðandi varnar­þing en ekkert samkomulag hafi verið milli málsaðila um þinghá þar sem málið skyldi sótt. Samkvæmt 5. gr. kaupsamningsins frá 27. mars 2009 skyldi reka mál sem risi út af honum fyrir varnarþingi seljanda og þar með á varnarþingi stefnda. Stefndi sé með lögheimili að Litlagerði 8 á Húsavík og varnarþing hans sé því í umdæmi Héraðsdóms norðurlands eystra. Rangt varnarþing varði frávísun málsins.

II.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að samþykkt hafi verið af hálfu stefnda að málið yrði sótt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og hafi bindandi samkomulag komist á um það. Samþykki stefnda hafi verið munnlegt og engar athugasemdir gerðar þegar málið var þingfest. Vísað er til samskipta milli fulltrúa lögmanna málsaðila fyrir þingfestingu málsins og upplýsinga sem fram komi í málagrunni lögmannsstofu lögmanns stefnanda. Þar komi fram að lögmenn eða fulltrúar þeirra hefðu verið sam­mála um að málið skyldi þingfest og rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Eftir að ekki hafði tekist að koma gagnstefnu að í málinu þar sem frestir til þess voru liðnir hafi lögmaður stefnda borið því við að varnarþingið væri rangt og sett fram kröfu í greinargerð um að málinu yrði af þeim sökum vísað frá dómi. Fyrir þann tíma hefði því aldrei verið hreyft af hálfu stefnda að málið væri höfðað fyrir rangri dómþinghá. Stefnandi hafi skorað á stefnda að veita aðgang að upptökum af samtölum fulltrúa lögmannanna þar sem fram komi að þeir hafi verið sammála um varnarþing. Stefndi verði að bera hallann af því að hafa neitað að leggja þessar upplýsingar fram en dómari geti í samræmi við 1. mgr. 68. gr. laga um meðferð einkamála skýrt það svo að hann samþykki frásögn stefnanda um efni þessara samtala.

III.

Málið var þingfest 3. september sl. og var stefnda veittur frestur til 1. október s.á. til að leggja fram greinargerð. Stefnda var þann dag veittur frestur á ný til 15. sama mánaðar en í því þinghaldi var lögð fram greinargerð af hans hálfu ásamt fylgiskjölum. Í greinargerð stefnda er þess krafist að málinu verði vísað frá dómi þar sem það hafi verið höfðað í rangri þinghá.

Í gögnum málsins koma fram fyrirspurnir í tölvupóstum frá lögmannsstofu lögmanns stefnanda til lögmanns stefnda um samkomulag varnar­þings. Hvorki verður af þessum gögnum né öðrum gögnum málsins ráðið að þau veiti fullnægjandi sönnun fyrir því að málsaðilar hafi samið um að málið mætti reka fyrir Héraðsdómi Reykja­víkur. Af gögnum málsins verður heldur ekki ráðið að stefndi hafi samþykkt varnarþing í umdæmi Héraðsdóms Reykjavíkur með því að hreyfa ekki athuga­semdum varðandi varnarþing fyrr en í greinargerð. Andmæli stefnda við því að málið yrði rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þykja því ekki of seint fram komin. Ákvæði 1. mgr. 68. gr. laga um meðferð einkamála, sem vísað er til af hálfu stefnanda, þykir ekki eiga við um ágreiningsefnið en í lagaákvæðinu er vísað til skjals sem sannað þyki að máls­aðili hafi undir höndum. Í áskorun stefnanda er því beint til lögmanns stefnda og fulltrúa hans að veita skriflegt samþykki fyrir því að upptaka af samtali fulltrúans og fyrrum starfsmanns hjá lögmanni stefnanda, nú starfsmanni slitastjórnar Lands­banka Íslands, sem átti sér stað í gegnum símtæki Landsbankans 15. október sl., verði afhent lögmannsstofu lögmanns stefnanda. Enginn þeirra sem tilgreindir eru í áskorun­inni er aðili að þessu máli.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið liggja engin gögn fyrir um hið meinta samkomulag málsaðila um varnarþing. Ósannað er því gegn andmælum stefnda að samið hafi verið um að málið yrði rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Málið verður ekki rekið hér fyrir dóminum samkvæmt öðrum varnarþingsreglum enda ekki gert ráð fyrir því í málatilbúnaði stefnanda. Ber með vísan til þessa og 2. mgr. 24. gr. laga um meðferð einkamála að vísa málinu frá dómi.

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.

Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Hafsbrún ehf., greiði stefnda, Sjóferðum Arnars ehf., 150.000 krónur í máls­kostnað.