- Kærumál
- Fjárnám
- Skattur
- Fyrning
|
Fimmtudaginn 22. janúar 2004. |
Nr. 469/2003. |
Ólafur Magnússon(Magnús B. Brynjólfsson hdl.) gegn tollstjóranum í Reykjavík (Svala Hilmarsdóttir fulltrúi) |
Kærumál. Fjárnám. Skattar. Fyrning.
T fékk gert fjárnám hjá Ó í tiltekinni eign hans fyrir kröfu vegna ógreiddra opinberra gjalda. Stóð fjárnámið óhaggað þegar T krafðist þess rúmu ári síðar að það yrði endurupptekið vegna sömu gjalda en fyrir hærri fjárhæð. Í framhaldinu var gert fjárnám í sömu eign Ó. Deildu aðilar um gildi þessara fjárnáma. Með vísan til þess að heimildir laga nr. 90/1989 um aðför til endurupptöku fjárnámsgerða áttu ekki við um þá aðstöðu sem um var að ræða í málinu var síðara fjárnámið fellt úr gildi. Þá var talið að tiltekin krafa T vegna launaskatts, tryggingagjalds og virðisaukaskatts samkvæmt fyrri aðfararbeiðni væri fyrnd. Var niðurstaðan því sú að það fjárnám stóð óraskað fyrir hluta þeirra gjalda sem aðfararbeiðnin tók til.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. desember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. nóvember 2003, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að hnekkt yrði fjárnámum, sem sýslumaðurinn í Kópavogi gerði hjá honum 29. janúar 2001 og 14. nóvember 2002 fyrir kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst aðallega „frávísunar á fjárnámum“, sem áður er getið, „frá sýslumanninum í Kópavogi“, til vara að þau verði „ógild og felld niður“, en til þrautavara að fjárnámið 14. nóvember 2002 verði „ógilt og fellt niður.“ Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Ágreiningur málsaðila hefur áður verið borinn undir Hæstarétt, en með dómi réttarins 23. maí 2003 í máli nr. 186/2003 var því vísað frá héraðsdómi á grundvelli ákvæðis 4. mgr. 4. gr. laga nr. 90/1989.
I.
Varnaraðili fékk gert fjárnám hjá sóknaraðila 29. janúar 2001 fyrir kröfu vegna ógreiddra opinberra gjalda að fjárhæð 1.466.428 krónur. Var fjárnámið gert í eignarhluta sóknaraðila í hesthúsi nr. 2 í B-Tröð 3, Víðdal í Reykjavík. Stóð fjárnámið óhaggað þegar varnaraðili krafðist þess 13. maí 2002 að það yrði endurupptekið vegna sömu gjalda og í fyrra skiptið, en fyrir hærri fjárhæð. Við fyrirtöku hjá sýslumanni 15. október 2002 mótmælti sóknaraðili því að gerðin næði fram að ganga og við fyrirtöku 24. sama mánaðar mótmælti hann einnig lögmæti fjárnámsins frá 29. janúar 2001, svo sem nánar er rakið í hinum kærða úrskurði. Gerðinni var fram haldið 14. nóvember 2002 og þá gert fjárnám í sömu eign sóknaraðila og áður fyrir kröfu varnaraðila að fjárhæð 1.912.561 króna auk áfallandi dráttarvaxta „samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987“ til greiðsludags og kostnaðar.
Í kröfu um endurupptöku fjárnámsins vísaði varnaraðili til heimildar í 3. tölulið 1. mgr. 66. gr. laga nr. 90/1989. Þær skýringar á kröfunni að öðru leyti, sem varnaraðili hefur gefið, eru raktar í hinum kærða úrskurði. Samkvæmt nefndri lagagrein getur gerðarbeiðandi leitað eftir endurupptöku til að fá muni, sem fjárnám hefur verið gert í, skráða nánar en gert var í bókun um upphaflegu gerðina. Sú aðstaða, sem kveðið er á um í ákvæðinu, var hér ekki fyrir hendi og aðrar heimildir í lögunum til að endurupptaka fjárnámsgerð að kröfu gerðarbeiðanda eiga ekki heldur við. Verður samkvæmt því fallist á kröfu sóknaraðila um að fjárnámið 14. nóvember 2002 verði fellt úr gildi.
II.
Þegar sóknaraðili bar fyrst fram kröfu sína 10. desember 2002 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um að fjárnámið 29. janúar 2001 yrði fellt úr gildi var löngu liðinn sá frestur, sem sóknaraðili hafði til að krefjast úrlausnar héraðsdóms samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989. Hins vegar hreyfði varnaraðili ekki andmælum á þeim grundvelli að málið hafi verið lagt of seint fyrir dóm, hvorki þá né þegar ágreiningurinn var síðar lagður fyrir Héraðsdóm Reykjaness. Hefur hann látið málið til sín taka og haldið uppi vörnum um efni þess. Verður að virða þessa afstöðu varnaraðila þannig að hann hafi í verki lýst sig samþykkan því að málið yrði borið undir dóm að liðnum almennum fresti í því skyni, sbr. 2. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989.
Samkvæmt aðfararbeiðni varnaraðila 3. mars 2000, sem barst sýslumanni 8. sama mánaðar, var krafa þess fyrrnefnda sundurliðuð þannig að höfuðstóll hennar var sagður nema 733.042 krónum, kostnaður fram að dagsetningu beiðninnar 36.524 krónum, dráttarvextir til sama dags 685.362 krónum og aðfarargjald í ríkissjóð 11.500 krónum, samtals 1.466.428 krónum. Var jafnframt krafist fjárnáms vegna áfallandi dráttarvaxta samkvæmt þágildandi vaxtalögum nr. 25/1987 og kostnaðar af frekari fullnustugerðum, ef til þeirra kæmi. Við fjárnámið 29. janúar 2001 var fallist á kröfuna. Greiðslustöðuyfirlit, sem dagsett var sama dag og aðfararbeiðnin, fylgdi henni. Samkvæmt því var krafan vegna eftirgreindra gjalda: Launaskatts fyrir gjaldárin 1987 og 1988, samtals 238.334 krónur, tryggingagjalds fyrir gjaldárin 1995 og 1996, samtals 269.885 krónur, virðisaukaskatts 1994 og 1995, samtals 867.503 krónur, bifreiðagjalda 1997, samtals 15.739 krónur og annarra ótilgreindra opinberra gjalda fyrir gjaldárin 1996 og 1997, samtals 74.967 krónur. Í öllum tilvikum voru áfallnir dráttarvextir til 3. mars 2000 innifaldir í framangreindum fjárhæðum og einnig kostnaður varðandi önnur gjöld en bifreiðagjöld.
Sóknaraðili reisir málatilbúnað sinn í fyrsta lagi á því að krafa varnaraðila vegna framangreindra gjalda eldri en 1996 sé fyrnd. Þessi málsástæða er nánar rökstudd í einstökum atriðum varðandi launaskatt, tryggingagjald og virðisaukaskatt. Í annan stað telur sóknaraðili tölulega hlið málsins vanreifaða. Þannig sé engin grein gerð fyrir því í aðfararbeiðni, bókun sýslumanns um fjárnám eða öðrum gögnum málsins hver vaxtafótur sé eða frá hvaða tíma dráttarvextir séu reiknaðir. Vextir fyrnist á 4 árum, sbr. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, en ráða megi að þeirra sé krafist allt frá 1995. Í þriðja lagi byggir sóknaraðili á því að verði talið þrátt fyrir allt framangreint að skuld sé fyrir hendi þá hafi varnaraðila borið skylda til að millifæra inneign hans hjá gjaldheimtunni í Reykjavík vegna útsvars og tekjuskatts inn á skuldina, sem var til innheimtu hjá varnaraðila, í stað þess að greiða sóknaraðila hana út 18. apríl 1996. Krafa varnaraðila sé einkum vegna dráttarvaxta, sem fallið hafi á frá þeim degi, og með ráðstöfun inneignarinnar upp í skuldina hefði henni verið eytt. Um skyldu varnaraðila til að millifæra vísar hann til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 110. gr., 111. gr. og 114. gr. þágildandi laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt.
Varnaraðili mótmælir því að krafan sé fyrnd. Kveður hann sóknaraðila hafa greitt inn á kröfuna vegna allra þeirra opinberu gjalda, sem um ræðir, síðast 26. febrúar 1999 vegna tryggingagjalds. Það ásamt skattbreytingum skattstjóra hafi rofið fyrningu. Þá hafi sóknaraðili fyrst hreyft mótmælum, sem að þessu lúta, 15. október 2002. Það hafi hann ekki gert við fjölda fjárnáma, sem áður hafi verið gerð hjá honum, þar á meðal við fjárnámið 29. janúar 2001. Margir munnlegir greiðslusamningar við hann feli einnig í sér viðurkenningu á kröfunni. Þá hafi sóknaraðili haft fulla vitneskju um skuldastöðu sína hjá varnaraðila, bæði þegar gjaldheimtan greiddi honum inneign sína og síðar. Loks er því mótmælt að gjaldheimtunni hafi borið skylda að lögum til að millifæra eða skuldajafna inneign sóknaraðila á opinberum gjöldum inn á vanskil hans hjá varnaraðila, auk þess sem fáheyrt sé að gjaldendur kvarti undan endurgreiðslu, eins og sóknaraðili geri.
III.
Sóknaraðili heldur fram að hann hafi enga greiðslu innt af hendi upp í launaskatt, tryggingagjald eða virðisaukaskatt, sem geti falið í sér viðurkenningu hans á skuldinni og þar með rofið fyrningu. Þvert á móti hafi hann margoft farið fram á að gjöldin yrðu felld niður þar eð skattáætlanir hafi verið verulega of háar á árunum 1990 1995, en framtalsgögn á þeim árum hafi misfarist í meðförum endurskoðanda hans. Með endurgreiðslu gjaldheimtunnar hafi fengist viðurkenning á því að hann hafi á þessum árum verið krafinn um mun hærri fjárhæðir en réttmætt var. Varnaraðili hafi einnig sjálfur viðurkennt mistök með því að lækka kröfu um dráttarvexti 25. september 2000 vegna inneignar, sem myndast hafi í öðrum opinberum gjöldum, en útskýringar hans verið óljósar. Heldur sóknaraðili fram að greiðslur inn á framangreind gjöld eftir 1995 séu til komnar vegna millifærslna varnaraðila á inneign hins fyrrnefnda vegna annarra opinberra gjalda, auk þess sem greiðslur, sem teknar voru af launum eiginkonu sóknaraðila sem starfaði hjá ríkisstofnun, hafi iðulega verið millifærðar inn á gjöld hans án nokkurs atbeina eða vitneskju hans sjálfs. Slíkum millifærslum hafi varnaraðili getað stýrt inn á gjöld sóknaraðila að vild til að koma í veg fyrir fyrningu. Greiðslur, sem séu þannig til komnar, feli ekki í sér viðurkenningu sóknaraðila á skuldum og hafi ekki rofið fyrningu.
Þegar aðfararbeiðni varnaraðila barst sýslumanni 8. mars 2000 hófst nýr fyrningarfrestur á kröfu hins fyrrnefnda. Hefur hann lagt fram í málinu útskrift úr bókhaldi sínu 15. október 1998, sem sýnir greiðslu upp í launaskattsskuld sóknaraðila að fjárhæð 1.680 krónur, þar sem áritunin „millif“ kemur fyrir. Sú greiðsla rauf því ekki fyrningu. Varnaraðili hefur einnig lagt fram aðra útskrift úr bókhaldi sínu 20. september 1996 upp í launaskattsskuldina. Hún ber ekki áritun um millifærslu, en á hana er ritað að 10.000 krónur komi fyrir dráttarvexti og jafn há fjárhæð fyrir kostnað. Að því er tryggingagjald varðar hefur varnaraðili einnig lagt fram útskriftir af nokkrum færslum úr tekjubókhaldi sínu, sem hann telur með sama hætti að sanni greiðslur sóknaraðila inn á þá skuld og um leið viðurkenningu hans, sem hafi rofið fyrningu. Tvær færslur um innborgun eru við fjárnám hjá sóknaraðila 17. janúar 1997 og 10. júlí sama árs, en aðrar færslur um innborgun á skuld vegna tryggingagjalds eru 4. júní 1997, 12. ágúst og 10. september sama árs og 26. febrúar 1999.
Þegar sýslumanni barst beiðni varnaraðila um fjárnám hjá sóknaraðila 8. mars 2000 var liðinn fyrningartími kröfu varnaraðila vegna launaskatts 1987 og 1988 og tryggingagjalds fyrir 1995, sbr. 3. töluliður 3. gr. laga nr. 14/1905. Varnaraðili hefur lagt fram áðurnefndar útskriftir um greiðslur á næstu fjórum árum á undan, en engar skýringar gefið umfram það, sem skjölin bera sjálf með sér. Í ljósi þess hvernig sóknaraðili hagar málatilbúnaði sínum um það hvernig þessar innborganir séu til komnar hafði varnaraðili þó fullt tilefni til að skýra nánar þá staðhæfingu sína að sóknaraðili hafi sjálfur innt greiðslurnar af hendi og með því viðurkennt skuldina. Var honum það unnt með því að leggja fram samrit kvittana eða önnur fylgigögn úr bókhaldi með umræddum færslum. Varnaraðili brást heldur ekki við á nokkurn hátt þótt sóknaraðili áréttaði sérstaklega í kæru til Hæstaréttar synjun fyrir að hafa sjálfur innt greiðslurnar af hendi og að sönnunarbyrði um það hvíldi á varnaraðila. Eins og málið liggur fyrir er ekki í ljós leitt að sóknaraðili hafi sjálfur hlutast til um áðurnefndar greiðslur og með því viðurkennt skuldina og rofið fyrningu. Verður varnaraðili að bera hallann af óljósum gögnum og skorti á sönnun um það. Krafa hans vegna launaskatts 1987 og 1988 og tryggingagjalds 1995 er því fyrnd.
Krafa varnaraðila vegna virðisaukaskatts er fyrir árin 1994 og 1995. Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila í héraði var álagningu virðisaukaskatts fyrir hluta ársins 1994 breytt 21. mars 1996 og skatturinn þá hækkaður um samtals 198.376 krónur. Greiðslustöðuyfirlit, sem fylgdi aðfararbeiðni varnaraðila, ber með sér að sá hluti fjárnámsskuldarinnar, sem er vegna virðisaukaskatts 1994, sé vegna þessarar hækkunar með áföllnum dráttarvöxtum og kostnaði. Heldur sóknaraðili fram að krafan sé engu að síður fyrnd þar eð skattbreytingin hafi ekki verið tilkynnt honum með formlegum hætti.
Samkvæmt 6. mgr. 110. gr. áðurgildandi laga nr. 75/1981 féll viðbótarskattur, sem ákveðinn er með hækkun eftir álagningu, í gjalddaga tíu dögum eftir að gjaldanda var tilkynnt um hækkun, sbr. einnig lokamálslið 25. gr. laga nr. 50/1988 eins og hún var þá. Eins og málið liggur fyrir verður ekki ráðið með vissu hvenær það tímamark var, en gögn þess bera með sér að sóknaraðila hafi innan skamms tíma orðið fullkunnugt um skuldastöðu sína hjá varnaraðila og þar með um þann hluta skattskuldarinnar, sem hér um ræðir. Verður fallist á með varnaraðila að krafan hafi verið fallin í gjalddaga og var hún ófyrnd 8. mars 2000. Á það eins við þótt sóknaraðila kunni að hafa verið tilkynnt um skattbreytinguna þegar hinn 21. mars 1996.
Útskrift úr bókhaldi varnaraðila ber með sér að 27. mars 1996 hefur verið greitt inn á virðisaukaskattskuld sóknaraðila. Áritun á skjalið ber með sér að um millifærslu hefur verið að ræða að hluta að minnsta kosti, en að öðru leyti verður ekki ráðið hvernig greiðslan var til komin. Á hér hið sama við og áður var rakið um færslur í bókhaldi varnaraðila varðandi greiðslu á launaskatti og tryggingagjaldi. Hinn 8. mars 2000 var liðinn fjögurra ára fyrningarfrestur kröfu varnaraðila vegna virðisaukaskatts 1995. Hefur hann ekki sýnt fram á að sóknaraðili hafi viðurkennt skuldina og rofið fyrningu. Er krafan því fyrnd.
Auk launaskatts, tryggingagjalds og virðisaukaskatts tók fjárnámið 29. janúar 2001 til bifreiðagjalda 1997 og annarra ótilgreindra opinberra gjalda 1996 og 1997 og áður var getið um. Ber sóknaraðili ekki fyrir sig að krafa vegna bifreiðagjalda og síðastnefndu gjaldanna hafi verið fallin niður fyrir fyrningu þegar sýslumaður tók við aðfararbeiðni varnaraðila 8. mars 2000.
Málsvörn sóknaraðila lýtur loks að því að varnaraðila hafi borið að ráðstafa inneign hins fyrrnefnda hjá gjaldheimtunni í Reykjavík upp í opinber gjöld, sem varnaraðili hafði til innheimtu, í stað þess að greiða sóknaraðila hana 18. apríl 1996. Ekki var á færi varnaraðila að ráðstafa inneign sóknaraðila hjá gjaldheimtunni. Sú inneign var auk þess ekki til komin vegna ofgreiðslu virðisaukaskatts og koma því ákvæði laga nr. 50/1988, sem sóknaraðili vísar til, þegar af þeirri ástæðu ekki til neinna álita. Gjaldheimtunni var óskylt að ráðstafa inneign sóknaraðila upp í gjöld, sem aðrir innheimtumenn kröfðu hann um, og breyta þau ákvæði laga nr. 75/1981, sem sóknaraðili vísar til, engu um það. Verður ekki fallist á að réttur hafi verið brotinn á sóknaraðila með því að greiða honum féð í stað þess að ráðstafa því upp í gjöld, sem hann taldi sér þó óskylt að greiða.
Samkvæmt öllu framanröktu verður niðurstaða málsins sú að fjárnám varnaraðila hjá sóknaraðila 29. janúar 2001 stendur óraskað fyrir hluta þeirra gjalda, sem aðfararbeiðni tók til. Þau gjöld sem um ræðir eru tryggingagjald 1996, samtals 170.953 krónur, virðisaukaskattur 1994, samtals 468.769 krónur, bifreiðagjöld 1997, samtals 15.739 krónur og önnur opinber gjöld 1996 og 1997, samtals 74.967 krónur. Eru áfallnir dráttarvextir og kostnaður til 3. mars 2000 innifalinn í þessum fjárhæðum, sem samtals nema 730.428 krónum. Verður fjárnám sýslumannsins í Kópavogi 29. janúar 2001 breytt þessu til samræmis á þann veg, sem í dómsorði greinir.
Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og fram kemur í dómsorði.
Dómsorð:
Fjárnám, sem sýslumaðurinn í Kópavogi gerði hjá sóknaraðila, Ólafi Magnússyni, 14. nóvember 2002 að kröfu varnaraðila, tollstjórans í Reykjavík, er fellt úr gildi.
Fjárnám, sem sýslumaðurinn í Kópavogi gerði 29. janúar 2001 að beiðni varnaraðila hjá sóknaraðila, er breytt á þann veg að það taki til skuldar að fjárhæð 730.428 krónur.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. nóvember 2003.
Mál þetta, sem lagt var fyrir dóminn með bréfi sóknaraðila dags. 2. júní 2003, var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi hinn 23. október sl. Er málið rekið á grundvelli 15. kafla laga nr. 90/1989 um aðför.
Sóknaraðili er Ólafur Magnússon, kt [...], Bræðratungu 13, Reykjavík.
Varnaraðili er Tollstjórinn í Reykjavík, kt. 650269-7649, Tryggvagötu 19, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að fjárnám er varnaraðili lét framkvæma hjá sóknaraðila hinn 14. nóvember 2002 og 29. janúar 2001 sæti frávísun frá sýslumanninum í Kópavogi. Til vara krefst hann þess að fjárnám varnaraðila á hendur sóknaraðila frá 14. nóvember 2002 og 29. janúar 2001 með atbeina sýslumannsins í Kópavogi verði ógild eða felld niður. Til þrautavara krefst hann þess að fjárnám varnaraðila á hendur sóknaraðila er gert var hjá sýslumanninum í Kópavogi hinn 14. nóvember 2002 sæti ógildingu og niðurfellingu. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði öllum kröfum sóknaraðila og að fjárnámsgerð sýslumannsins í Kópavogi nr. 037-2002-2617 sem fram fór að kröfu varnaraðila þann 14. nóvember 2002 verði staðfest fyrir 1.912.561 krónum auk áfallandi dráttarvaxta og annars kostnaðar frá 13. maí 2002 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að fjárnámið frá 29. janúar 2001 nr. 037-2000-00759 verði staðfest fyrir 1.466.428 krónum auk áfallandi dráttarvaxta og kostnaðar frá 3. mars 2000 til greiðsludags. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.
I.
Málið á rætur að rekja til þess að áætluð voru opinber gjöld á sóknaraðila vegna álagningaráranna 1990 til og með 1995 þar sem dráttur varð á framtalsskilum á tímabilinu af hans hálfu. Ástæða þessa dráttar mun að sögn sóknaraðila hafa verið sú að framtalsgögn hafi misfarist hjá endurskoðanda hans. Við endurákvörðun opinberra gjalda á sóknaraðila á árinu 1996 myndaðist inneign hjá honum hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík sem á þeim tíma fór með innheimtu opinberra gjalda þ.e. tekjuskatts og útsvars. Þessi inneign að fjárhæð 590.952 krónur var greidd sóknaraðila 18. apríl 1996 enda þótt sóknaraðili skuldaði á sama tíma virðisaukaskatt, launaskatt og tryggingagjald hjá tollstjóranum í Reykjavík að fjárhæð 1.428.674 krónur.
Að sögn sóknaraðila var hann í góðri trú er hann tók við endurgreiðslunni og taldi sig hafa verið skuldlausan við hið opinbera eftir móttöku hennar því honum hefði verið ókunnugt um skuldastöðu sína hjá tollstjóranum í Reykjavík.
Sóknaraðili fór þess á leit við fjármálaráðuneytið með bréfi dags. 27. apríl 1999 að felldir yrðu niður allir dráttarvextir og kostnaður vegna skulda er voru til innheimtu hjá tollstjóranum í Reykjavík og vörðuðu virðisaukaskatt, launaskatt, tryggingagjald og önnur opinber gjöld. Með bréfi dags. 5. maí 1999 framsendi ráðuneytið tollstjóranum í Reykjavík erindi þetta til afgreiðslu. Af hálfu varnaraðila var kröfum sóknaraðila hafnað með bréfi dags. 27. desember 1999. Með bréfi dags. 4. febrúar 2000 óskaði Gunnar M. Erlingsson endurskoðandi eftir niðurstöðu í málinu fyrir hönd sóknaraðila. Varnaraðili svaraði þessu bréfi með bréfi dags. 15. febrúar 2000. Þar segir m.a. að erindi þessu hafi verið svarað með bréfi dags. 27. desember 1999 og að ekkert nýtt hafi komið fram í málinu sem breyti þeirri niðurstöðu sem þar hafi komið fram.
Varnaraðili afturkallaði ákvörðun sína frá 27. desember 1999 með úrskurði 25. september 2000 og ákvað að verða við fyrri málaleitan sóknaraðila og framkvæma leiðréttingu á dráttarvöxtum í virðisaukaskatti honum til hagsbóta. Voru dráttarvextir þannig bakfærðir og lækkaðir um 89.724 krónur. Á þeim tíma námu skuldir sóknaraðila við tollstjórann í Reykjavík um 1.800.000 krónur. Sóknaraðili var ekki sáttur við afgreiðslu málsins og með bréfi dags. 2. nóvember 2000 kærði hann úrskurð varnaraðila til fjármálaráðuneytisins. Með úrskurði 27. janúar 2001 hafnaði ráðuneytið öllum kröfum sóknaraðila.
Þann 29. janúar 2001 var fjárnám gert hjá sóknaraðila að kröfu varnaraðila. Gerðarbeiðandi krafðist fjárnáms fyrir kröfu að fjárhæð 1.466.428 krónur. Gert var fjárnám í eignarhluta gerðarþola í hesthúsi nr. 2, B-tröð 3, Víðidal, Reykjavík.
Þann 15. október 2002 var tekin fyrir hjá sýslumanninum í Kópavogi fjárnámsbeiðni að kröfu varnaraðila. Gerðarbeiðandi krafðist fjárnáms fyrir kröfu að fjárhæð 1.912.561 krónur. Lögmaður gerðarþola mótmælti því að gerðin næði fram að ganga og var þá samþykkt að fresta gerðinni til 17. sama mánaðar.
Þann 17. október 2002 var gerðinni fram haldið og enn var gerðinni frestað og nú til 24. sama mánaðar og bókað að sýslumaður myndi þá taka ákvörðun um hvort heimila ætti endurupptöku gerðarinnar.
Þann 24. október 2002 var gerðinni fram haldið og m.a. bókað:
Gerðinni er framhaldið frá 17.10.2002. Lögmaður gerðarþola lagði þá fram mótmæli, þar sem að hann mótmælti því að gerðin færi fram. Þann 08.03.2000 var móttekin aðfararbeiðni frá tollstjóranum í Reykjavík vegna Ólafs Magnússonar, kt. 010936-3499. Var beiðnin meðal annars vegna gjalda fyrir árin 1987-1988 og 1994-1996, óskaði ftr. sýslumanns eftir því við tollstjóra að sýnt yrði fram á að framangreind gjöld væru ekki fyrnd. Upplýsingar bárust frá tollstjóra um að greitt hefði verið inn á launaskatt gerðarþola þann 20.09.1996 og tryggingargjald þann 17.01.1997 og rufu þær greiðslur því fyrningu. Virðisaukaskattur gerðarþola var endurákvarðaður þann 21.03.1996 og fyrningarfrestur því ekki liðinn er fjárnámsbeiðnin barst frá tollstjóra þann 08.03.2000. Var gerðarþoli boðaður til fjárnámsfyrirtöku þann 10.04.2000, mætti hann við þá fyrirtöku og var bókaður frestur til 01.06.2000, mætti gerðarþoli ekki þá og var því lögregluboðaður til fyrirtöku 13.09.2000, mætti gerðarþoli þá og urðu aðilar þá sammála um að fresta aðfarargerðinni ótiltekið. Gerðarþoli var síðan boðaður aftur til fyrirtöku þann 02.11.2000 og urðu aðilar þá sammála um að fresta til 29.01.01, við þá fyrirtöku var að kröfu tollstjórans í Reykjavík gert fjárnám hjá gerðarþola í eignarhluta hans í hesthúsinu nr. 2, B-tröð 3, Víðidal, Reykjavík. Skv. framangreindu er því ljóst að gerðarþoli mætti við fyrirtökur á fjárnámsbeiðni frá tollstjóra, og hafði hann aldrei uppi nein mótmæli við því að krafa tollstjóra væri fyrnd að einhverju leyti.
Lögmaður gerðarþola fer fram á að eftirfarandi komi fram:
1. Gerðarþoli telur að gjöldin séu öll fyrnd.
2. Krefst framlagningu úrskurðar skattayfirvalda vegna hverrar álagningar virðisaukaskatts fyrir sig.
3. Mótmælt er vaxtaútreikningi gerðarbeiðanda, vanti frá hvaða tíma vextir eru reiknaðir og vaxtafót vantar.
4. Vegna launaskatts frá 1987 og 1988 og tryggingargjalds frá 1995 og 1996 telur gerðarþoli ósannað að hann hafi greitt sjálfur inn á skuldina.
5. Gerðarþoli telur að skuldin sé þegar tryggð með fjárnámi í hesthúsi er eign gerðarþola og að gerðarbeiðandi hafi sætt sig við það á sínum tíma og að hann krefjist þess að fram fari mat á verðmæti andlagsins.
Lögmaður gerðarbeiðanda mótmælir öllum fullyrðingum talsmanns gerðarþola sem röngum og ósönnuðum.
Ftr. sýslumanns telur að fjárnám sem gert var þann 29.01.01 hafi ekki verið ólögmætt og sé því heimilt að endurupptaka gerðina nú.
Lögmaður gerðarþola áskilur sér rétt til að skjóta ákvörðun ftr. sýslumanns til héraðsdóms.
Gerðarbeiðandi fer fram virðingu á eignum Ólafs Magnússonar sem eru hesthús nr. 2, B-tröð 3, Víðidal, Reykjavík, sumarbústaður Vatnsendablettur 50A, Kópavogi og bifreiðarnar KV-672 og NO-625. Gerðinni er frestað til 14. nóvember 2002 kl. 13:30. Mættum er kynnt efni þessarar bókunar, sem engar athugasemdir eru gerðar við.
Gerðinni er þannig lokið.
Þann 14. nóvember 2002 var gerðinni síðan fram haldið og m.a. bókað:
Gerðinni er fram haldið síðan 24.10.2002 þá tók ftr. sýslumanns þá ákvörðun að krafa gerðarbeiðanda væri ekki fyrnd. Gerðarbeiðandi fór fram á að ftr. sýslumanns myndi meta eignir gerðarþola. Lögmaður gerðarþola ítrekar þau andmæli sem komu fram við síðustu fyrirtöku þann 24.10.2002. Lögmaður gerðarþola kemur með upplýsingar um að lán sem er áhvílandi á hesthúsi gerðarþola B-tröð nr. 3 hafi verið að fullu greitt og verði aflétt af eigninni. Ftr. sýslumanns telur hesthúsið þar af leiðandi duga til tryggingar kröfu gerðarbeiðanda. Að ábendingu gerðarbeiðanda, er því hér með gert fjárnám fyrir kröfum gerðarbeiðanda í: Hesthúsi í Víðidal, B-tröð nr. 3, fnr. 205-3778, Reykjavík. Lögmaður gerðarþola upplýsir að hann muni skjóta ákvörðun ftr. sýslumanns til héraðsdóms og krefjast ógildingar hennar. Mættum er kynnt efni þessarar bókunar, sem engar athugasemdir eru gerðar við.
Gerðinni er þannig lokið.
Þuríður Halldórsdóttir kom fyrir dóm. Hún vann í innheimtudeild varnaraðila á þessum tíma sem síðar varð lögfræðideild. Hún sá ekki hvað var að gerast hjá Gjaldheimtunni t.d. inneign í opinberum gjöldum en rætt hafði verið um það á fundum að millifæra ef inneign var til staðar en hún vann ekki við það. Hún sá heldur ekki skuldalista frá Ríkisbókhaldi, það hafði frekar verið í gjaldadeild. Ef hún sá inneign benti hún hinsvegar á það. Hún hafði ekki heimild til að fella niður dráttarvexti og kostnað. Á þessum tíma hafi verið heimilt að skuldajafna en það hafi ekki verið skylda. Hún man ekki hvort þetta var orðin vinnuregla á þessum tíma. Hún man hinsvegar eftir máli Ólafs og að hann hefði fengið endurgreiðslu frá Gjaldheimtunni. Ólafur kom með bankabók með endurgreiðslunni en hún benti honum á að hann skuldaði ennþá launaskatt en hann fékk alltaf frest til að greiða hann. Hún sagði honum að hann mætti ekki nota endurgreiðsluna því hann skuldaði ennþá launaskatt. Hún vakti athygli manna í fjármálaráðuneytinu á þessu og að hann hefði fengið endurgreiðslu þrátt fyrir að hann skuldaði ennþá launaskatt.
Guðjón Ásbjörn Ríkharðsson kom fyrir dóm. Honum var ekki kunnugt um að bein fyrirmæli hafi verið gefin um millifærslur á þessum tíma. Kerfið var á þessum tíma flóknara en það er í dag. Embættunum voru sendir skuldalistar. Þau fengu lista um inneignir sem voru til staðar hjá viðkomandi embætti. Embættin millifærðu stundum á milli sín en engin bein fyrirmæli voru gefin um það á þessum tíma. Við álagningu 1. ágúst ár hvert var inneign í þinggjöldum skuldajafnað upp í virðisaukaskatt af Ríkisbókhaldi. Við einstaka skattbreytingar var almennt reynt að kanna stöðuna og skuldajafna en það var erfitt vegna tækninnar á þessum tíma og sérstaklega átti það við um Gjaldheimtuna. Gjaldheimtan sat við annað borð, hún sá ekki stöðuna t.d. í virðisaukaskatti.
II.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um að fjárnám frá 14. nóvember 2002 og fjárnám frá 29. janúar 2001 er gerð voru hjá sóknaraðila sæti frávísun sýslumannsins í Kópavogi vegna res judicata. Ekki verði annað talið en að fjárnám frá 14. nóvember 2002 hafi verið óþarft með öllu þar sem varnaraðili hafði þegar gert fjárnám í sömu eign hinn 29. janúar 2001. Eldri aðfarargerðin hafi því res judicata bindandi áhrif. Aðför hafði þegar farið fram í sömu eign og hafi sama andlag í raun verið tvítekið fjárnámi þann 14. nóvember 2002 vegna sömu gjalda og í fyrra skiptið. Varnaraðili hafi beðið um endurupptöku á gömlu aðfarargerðinni með beiðni 13. maí 2002. Með nýju beiðninni verði að telja að hann hafi fallið frá eldra fjárnámi sem gert var 29. janúar 2001 og réttaráhrif þess jafnframt fallið niður. Það sé grundvallarregla að sama efni verður ekki borið undir hliðsett stjórnvald að nýju og ber því að vísa endurtekinni aðfarargerð vegna sömu gjalda og sama andlags frá sýslumanni.
Sóknaraðili byggir einnig á því að sýslumanni hefði borið að framkvæma lausnargerð um eldra fjárnámið um leið og endurupptökugerðin var tekin fyrir þar sem um var að ræða sjálfstæða gerð en ekki framhaldsfjárnám. Það hafi sýslumaður ekki gert sem aftur hafi orðið til þess að ætla megi að eldra fjárnámið standi áfram sem sé ólögmætt.
Sóknaraðili byggir varakröfur sínar um að fjárnámin frá 14. nóvember 2002 og 29. janúar 2001 verði ógild og felld niður í fyrsta lagi á því að öll opinber gjöld sóknaraðila eldri en frá 1996 séu fyrnd. Launaskattur frá 1987 og 1988 hafi verið fyrndur þegar beiðni um fjárnám var lögð inn til sýslumannsins í Kópavogi hinn 8. mars 2000 sem síðar lauk með aðför hinn 29. janúar 2001. Um hafi verið að ræða eftirstöðvar launaskatts frá 1987 sem fyrndist á árinu 1991 og launaskatt frá árinu 1988 sem var fyrndur 1992. Þá hafi tryggingagjald fyrir árið 1995 verið fyrnt þar sem engin viðurkenning liggur fyrir um greiðslu af hálfu sóknaraðila. Það sé með öllu ósannað að sóknaraðili hafi sjálfur greitt inn á skuld hinn 29. janúar 2000 og beri varnaraðila að sanna það. Varnaraðila hefði borið að leggja fram hjá sýslumanni viðurkenningu sóknaraðila fyrir því að hann gerði sér grein fyrir því að hann væri að greiða fyrnda skuld sem hefði þá lögverkan að hún vaknaði til lífsins við greiðslu hennar. Þetta hafi varnaraðili ekki gert og því hafi engin viðurkenning átt sér stað af hálfu sóknaraðila. Ekki verði séð af gögnum varnaraðila að sóknaraðili hafi innt þær greiðslur af hendi sem hafi slitið fyrningu kröfu um launaskatt og tryggingagjald. Þá heldur sóknaraðili því fram að varnaraðili hafi hugsanlega sjálfur stýrt einhverri inneign sóknaraðila eða eiginkonu hans inn á elstu gjöld til að halda þeim til haga og koma með einhliða hætti í veg fyrir fyrningu launaskatts og tryggingagjalds. Innheimtumaður ríkissjóðs hafi nýtt sér yfirburðastöðu sína og þvingað greiðslur frá sóknaraðila t.d. með einhliða millifærslum frá honum og eiginkonu hans með því að greiða inn á elstu skuld án þess að gera þeim grein fyrir því að ekki væri skylt að greiða inn á fyrndar kröfur. Slíkt beri vott um misneytingu samkvæmt 31. gr. samningalaga nr. 7/1936 og brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og stjórnarskrá
Sóknaraðili byggir einnig á því að krafa varnaraðila um virðisaukaskatt sé fyrnd skv. 3. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905. Um sé að tefla virðisaukaskatt samkvæmt hækkun skattstofu eftir á. Þannig komi til hækkanir löngu eftir almenna virðisaukaskattsálagningu 1994 sem sé færð inn í innheimtuskrá varnaraðila þann 21. mars 1996. Þessi hækkun nemi samtals 198.376 krónur.
Þá byggir sóknaraðili á því að varnaraðila hafi borið að tilkynna með formlegum hætti um framangreindar hækkanir en það hafi hann ekki gert. Það liggi fyrir að aðfararbeiðni var lögð fram í Kópavogi hinn 8. mars 2000. Hinsvegar miðist hækkanir við 21. mars 1996 og vanti þá 13 daga til viðbótar til að fyrningu verði slitið. Þá liggi ekki fyrir úrskurður skattyfirvalda með tilheyrandi birtingu eða móttöku ábyrgðarbréfs sem sönnun þess að hækkanir hafi komið til vitundar sóknaraðila áður en nýr fyrningarfrestur hafi byrjað að líða. Sóknaraðili heldur því fram að framangreind skuld hafi verið fyrnd þann 8. mars 2000 er beiðni tollstjóra var móttekin hjá sýslumanni. Sömu andmæli eiga við um virðisaukaskattsskuld sóknaraðila vegna ársins 1995 sem nemur að höfuðstól 197.981 krónur.
Í öðru lagi byggir sóknaraðili á því að tölur séu vanreifaðar í aðfararbeiðni. Ekki komi fram hver sé vaxtafótur og frá hvaða tíma dráttarvextir séu reiknaðir. Sóknaraðili heldur því fram að vaxtareikningur sé rangur og þeir séu fyrndir samkvæmt 3. gr. laga nr. 14/1905. Varnaraðila sé ekki heimilt að reikna vexti lengur en 4 ár aftur í tímann en ekki verður annað ráðið en að vextir séu helmingi hærri en höfuðstóll kröfunnar. Í 10. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 komi hins vegar fram skýlaus regla um að sundurliða skuli fjárhæðir svo sem kostur er. Verði ekki annað ráðið en að vextir séu reiknaðir allar götur frá 1995 til 2002 eða í 7 ár sem sé í bága við 3. gr. fyrningarlaga. Varnaraðili hafi viðurkennt mistök sín í bréfi sínu til sóknaraðila 25. september 2000. Leiðrétting sem nam 89.724 krónum jafngildi viðurkenningu á því að alvarleg mistök hefðu átt sér stað vegna áætlana frá 1990-1995. Varnaraðila hafi borið að fara rækilega yfir lækkanir sóknaraðila frá framangreindum tíma og sjá til þess að ekki yrði gengið á rétt sóknaraðila með því að bakreikna dráttarvexti til samræmis við aðrar skattalækkanir hans hjá Gjaldheimtunni. Hafi það verið niðurstaðan að sóknaraðili hafi skuldað þá hafi varnaraðila borið að millifæra inneign hans skv. 111. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988. Þess hafi hann hins vegar ekki gætt og hafi hann sýnt verulegt tómlæti sem leitt hafi til þess að kröfur hans fyrndust enda hafi hann viðurkennt með bréfum sínum að þær voru umdeildar og óskýrar alla tíð.
III.
Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili geti ekki krafist frávísunar á hinum kærðu fjárnámum sökum res judicata enda eigi slíkt eingöngu við um dæmdar kröfur, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Síðara fjárnámið, dags. 14. nóvember 2002 sé endurupptaka þess fyrra sem gert var þann 29. janúar 2001 eins og heimild sé til skv. aðfararlögum nr. 90/1989. Endurupptökubeiðnin sé byggð á 3. tl. 1. mgr. 66. gr. laganna.
Ástæða þess að farið hafi verið fram á endurupptöku af hálfu varnaraðila hafi verið sú að vegna mistaka eða misskilnings af hálfu fulltrúa sýslumanns hafi eingöngu verið gert fjárnám í tiltekinni eign sóknaraðila en ekki jafnframt árangurslaust fjárnám að hluta eins og varnaraðili hafði gefið honum fyrirmæli um. Þegar fjárnámið hafi verið gert í janúar 2001 hafi eignir sóknaraðila ekki dugað til að tryggja kröfur varnaraðila og því hafi fjárnámið ekki gefið rétta mynd af fjárhag sóknaraðila og hafi þannig verið rangt og þurft leiðréttingar við. Sýslumanni hafi borið að kröfu gerðarbeiðanda að meta eignir sóknaraðila en það hafi hann ekki gert og því hafi það verið lögmæt krafa að fá kröfuna endurupptekna og leiðrétta. Við bókun fjárnámsins þann 14. nóvember 2002 hafi legið frammi að tilstuðlan sóknaraðila yfirlýsing frá Byko, dags 5. nóvember 2002 um að veðskuld er hvíldi skv. veðbókarvottorði á eigninni væri uppgreidd. Að fengnum þessum upplýsingum hafi eignin verið látin duga til tryggingar kröfu varnaraðila og af þeim sökum hafi niðurstaða þessa síðara fjárnáms í raun verið sú sama og í fyrra fjárnáminu, þ.e. fjárnám í sömu eign en á grundvelli nýrra gagna og forsendna. Það megi hins vegar færa að því rök að eignin dugi ekki sem trygging fyrir kröfum varnaraðila komi til þess að eignin verði seld nauðungarsölu en engin greiðsla hafi borist inn á skuldir sóknaraðila frá því í febrúar 1999.
Af hálfu varnaraðila er mótmælt að Gjaldheimtunni í Reykjavík hafi borið skylda að lögum til að millifæra eða skuldajafna inneign á opinberum gjöldum sóknaraðila upp í aðra skatta sem hann var þá í vanskilum með og voru til innheimtu hjá tollstjóranum í Reykjavík enda um tvo aðskilda innheimtuaðila að ræða. Þvert á móti sé skýrt kveðið á um það í 1. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 ( áður 1. mgr. 111. gr. laga nr. 75/1981 ) að sé skattur lækkaður eða felldur niður skuli endurgreiðsla þegar fara fram. Sömu fyrirmæli sé að finna í 1. gr. laga um endurgreiðslu oftekinna skatta nr. 29/1995. Það sem hér skipti máli sé að um áramótin 1997 og 1998 hafi Gjaldheimtan í Reykjavík og tollstjóraembættið sameinast en áður hafi verið um tvær sjálfstæðar stofnanir að ræða, Gjaldheimtan í Reykjavík sem var rekin af Reykjavíkurborg og ríki og tollstjórinn í Reykjavík á vegum ríkisins. Þannig hafi verið um tvö aðgreind tölvukerfi að ræða sitt hvora skrána og ekki aðgengi á milli. Þegar skuldajafnað hafi verið inneign í virðisaukaskatti yfir í opinber gjöld eins og lög kveða á um hafi embætti tollstjóra orðið að kalla eftir upplýsingum sérstaklega þar um frá Gjaldheimtunni í Reykjavík. Skuldajöfnuður í þeirri mynd sem hann er viðhafður í dag þekktist ekki fyrr en við sameininguna. Tölvukerfi var þá sameinað og nýtt kerfi tekið í notkun haustið 1999 og fyrst þá sem hægt hefði verið að fá heildaryfirlit fyrir hvern gjaldanda í tölvukerfi varnaraðila.
Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðili hafi ekki haft vitneskju um skuldastöðu sína hjá varnaraðila þegar honum var greidd út inneign sín hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík. Jafnframt mótmælir varnaraðili því að það hafi sönnunargildi í málinu hvort sóknaraðili var í góðri trú eða ekki er hann móttók greiðsluna þar sem engin lagaskylda hvíli á varnaraðila að skuldajafna henni upp í ógreiddan virðisaukaskatt eða önnur opinber gjöld. Varnaraðili hafi tekið það skýrt fram í úrskurði sínum frá 25. september 2000 að með því að afturkalla fyrri ákvörðun sína og fallast á leiðréttingu dráttarvaxta vegna þeirrar inneignar sem myndaðist í opinberum gjöldum fælist ekki viðurkenning á að honum hafi verið skylt að skuldajafna hinni útgreiddu inneign upp í gjöld tollstjóra.
Þá mótmælir varnaraðili því að 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 eigi við hér enda sé ekkert sambærilegt positivt ákvæði um skuldajöfnuð í lögum nr. 90/2003 ( áður l. nr. 75/1981 ). Þá mótmælir varnaraðili því einnig að kröfur hans hafi fyrnst fyrir tómlæti svo sem haldið hefur verið fram af hálfu sóknaraðila. Því er mótmælt að kröfur varnaraðila séu óskýrar sérstaklega að því er varðar bakfærslu dráttarvaxta. Nákvæm sundurliðun fylgdi úrskurðinum til sóknaraðila. Þá hafi sóknaraðila verið afhent hreyfingaryfirlit þar sem fram koma m.a. allar færslur á dráttarvöxtum, greiðslum frá sóknaraðila og skattbreytingar skattstjóra. Dráttarvaxtaútreikningurinn þ.e. niðurfærslan sé einnig útlistaður skýrlega í úrskurði varnaraðila frá 25. september 2000. Útreikningurinn miðist eðlilega við hvenær inneign verður til þ.e. þegar endurákvörðun og skattalækkun skattstjóra lá fyrir. Þá hafi inneign á hverjum tíma verið færð inn eins og greiðsla hefði átt sér stað og dráttarvextir þannig lækkaðir. Varnaraðili mótmælir því að þessi útreikningur sé á einhvern hátt rangur. Fjármálaráðuneytið hafi bent á það í bréfi sínu til sóknaraðila 27. janúar 2001 að vikið sé frá þeirri almennu reglu til hagsbóta fyrir sóknaraðila sem fram kemur í 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta að endurgreiða beri inneignir með inneignarvöxtum en ekki dráttarvöxtum eins og gert var í tilfelli sóknaraðila.
Þá mótmælir varnaraðili því einnig að öll opinber gjöld sóknaraðila eldri en frá 1996 séu fyrnd. Í fyrsta lagi hafi sóknaraðili greitt inn á allar kröfurnar nokkrum sinnum eins og dskj. nr. 27 beri með sér, nú síðast þann 26. febrúar 1999 vegna tryggingargjalds. Það ásamt skattbreytingum skattstjóra rjúfi fyrningu, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 346/2000 sem uppkveðinn var þann 22. september 2000. Þá hafi fjárnámsbeiðnin frá 8. mars 2000 einnig rofið fyrningu. Það hafi fyrst verið 15. október 2002 að sóknaraðili hreyfði mótmælum í þessa átt. Þá er vísað til þess að margir munnlegir greiðslusamningar hafi verið gerðir við sóknaraðila sem einnig feli í sér viðurkenningu hans á kröfunum og rjúfa fyrningu þeirra en á þeim grundvelli hafi beiðnin um gjaldþrotaskipti hjá sóknaraðila verið afturkölluð í júní 1999.
Varnaraðili hafi þannig rofið fyrningu á gjöldum sóknaraðila og verið heimilt að innheimta þau lögum samkvæmt ásamt dráttarvöxtum og kostnaði. Því er mótmælt að varnaraðili hafi þvingað fram greiðslu með ólögmætum hætti svo sem sóknaraðili heldur fram. Einnig er því mótmælt sem órökstuddu að á sóknaraðila hafi verið brotin jafnræðisregla stjórnsýslulaga eða stjórnarskrárvarin réttindi hans. Þá vísar varnaraðili öllum ásökunum um ranga skattlagningu á bug sem röngum og ósönnuðum. Varðandi tilkynningar vegna skatthækkanna á virðisaukaskatti sem framkvæmdar voru að beiðni sóknaraðila með innsendri leiðréttingarskýrslu hans vegna virðisaukaskatts er ekki skylt að lögum og voru ekki birtar honum í ábyrgðarbréfi heldur almennum pósti.
Niðurstaða
Mál þetta er rekið í þeim tilgangi að leita úrlausnar á ágreiningi eftir lok aðfarargerðar. Eiga því reglur 15. kafla laga nr. 90/1989 um aðför við um meðferð málsins. Í 95. gr. laganna segir að úrskurður dómara skuli kveða á um hvort aðfarargerð skuli staðfest, hún ógilt eða henni breytt. Geta þannig kröfur málsaðila í slíkum málum varðað hvert það atriði sem að gerðinni lýtur eða efnisrétt kröfu gerðarbeiðanda, hafi dómstóll ekki tekið afstöðu til málefnisins.
Við endurákvörðun opinberra gjalda á sóknaraðila á árinu 1996 myndaðist inneign hjá honum hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík sem á þeim tíma fór með innheimtu opinberra gjalda þ.e. tekjuskatts og útsvars. Þessi inneign að fjárhæð 590.952 krónur var greidd sóknaraðila 18. apríl 1996 enda þótt hann skuldaði á sama tíma virðisaukaskatt, launaskatt og tryggingagjald hjá varnaraðila að fjárhæð 1.428.674 krónur. Sóknaraðili taldi sig hafa verið skuldlausan við hið opinbera eftir móttöku hennar því honum hefði verið ókunnugt um skuldastöðu sína hjá varnaraðila. Varnaraðili taldi hinsvegar að sóknaraðila hefði verið kunnugt um skuldastöðu sína hjá embættinu á þeim tíma því tilteknar innheimtuaðgerðir hafi verið í gangi vegna skulda sóknaraðila hjá varnaraðila.
Í málinu þykir ósannað, að á þeim tíma, er sóknaraðili fékk árið 1996 endugreiddan tekjuskatt og útsvar, hafi verið við líði regla um að slík inneign sem myndaðist hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík kæmi til skuldajafnaðar við skattaskuldir og gjöld, sem voru til innheimtu hjá Tollstjóranum í Reykjavík, þó að það kæmi fyrir að slíkt væri gert ef starfsmaður Gjaldheimtunnar fékk vitneskju um slíka skuld. Þegar virtur er framburður Þuríðar Halldórssdóttur og Guðjóns Ásbjörns Ríkharðssonar, sem rakið er úr hér að framan, er ljóst að vegna tækninnar á þessum tíma voru vandkvæði við það að skuldajafna inneign hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík við skuldir hjá öðrum embættum og engin bein fyrirmæli voru um skuldajöfnun. Þá kom fram hjá Þuríði að sóknaraðili hafi sýnt henni bók með endurgreiðslunni og hún þá sem starfsmaður varnaraðila bent honum á að hann mætti ekki ráðstafa inneigninni þar sem hann skuldaði enn launaskatt hjá embættinu. Það er því mat réttarins að sóknaraðili hafi ekki haft gilda ástæðu til að ætla að eldri skattskuldir hans hefðu verið þurrkaðar út vegna skattaleiðréttinga, enda hlaut honum að vera kunnugt um leiðréttingarnar og til hvers þær gátu leitt m.v. skattstöðu hans.
Hinn 29. janúar 2001 var fjárnám gert hjá sóknaraðila að kröfu varnaraðila í hesthúsi nr. 2, B tröð 3, Víðidal, Reykjavík en aðfararbeiðnin var móttekin hjá sýslumanninum í Kópavogi þann 8. mars 2000. Hinn 14. nóvember 2002 var síðan aftur gert fjárnám hjá sóknaraðila að kröfu varnaraðila í sömu eign og var aðfararbeiðnin móttekin hjá sýslumanninum í Kópavogi þann 13. maí 2002
Í málinu krefst sóknaraðili þess aðallega að fjárnám frá 14. nóvember 2002 og 29. janúar 2001 er gerð voru hjá honum að kröfu varnaraðila sæti frávísun sýslumannsins í Kópavogi á grundvelli þess að fjárnámið 14. nóvember 2002 hafi verið gert í sömu eign og vegna sömu gjalda og fjárnámið 29. janúar 2001. Sama andlag hafi þannig í raun verið tvítekið fjárnámi. Endurtekinni aðfarargerð vegna sömu gjalda og í sömu eign ber að vísa frá sýslumanninum í Kópavogi. Af hálfu varnaraðila er hvað þetta varðar byggt á ákvæðum 3. tl. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 90/1989 um endurupptöku og talið að efni ákvæða 116. gr. laga nr. 91/1991 eigi aðeins við um dæmdar kröfur en eigi ekki við um stjórnvaldsákvarðanir.
Ekki verður fallist á það með sóknaraðila að fjárnámin frá 14. nóvember og 29. janúar 2001 sæti frávísun sýslumannsins í Kópavogi. Síðara fjárnámið frá 14. nóvember 2002 er endurupptaka fjárnámsins sem gert var 29. janúar 2001 eins og heimilt er samkvæmt lögum nr. 90/1989 um aðför. Efni ákvæða 116. gr. laga nr. 91/1991 verður aðeins talið eiga við um dæmdar kröfur.
Sóknaraðili byggir kröfu um niðurfellingu og ógildingu á fjárnámunum í fyrsta lagi á því að öll opinber gjöld hans eldri en frá árinu 1996 séu fyrnd en í öðru lagi á því að tölur séu vanreifaðar í aðfararbeiðni. Ekki komi fram hver sé vaxtafótur og frá hvaða tíma dráttarvextir séu reiknaðir. Vaxtaútreikningur sé þannig rangur og vextir fyrndir.
Ekki verður fallist á það með sóknaraðila að öll opinber gjöld hans eldri en frá árinu 1996 séu fyrnd. Samkvæmt gögnum málsins hefur fyrning verið rofin með ýmsu móti sem ekki hefur verið hnekkt af sóknaraðila. Þá tók sýslumaðurinn í Kópavogi á móti aðfararbeiðni er varðar þau opinberu gjöld sem hér um ræðir þann 8. mars 2000.
Með aðfararbeiðnunum fylgdu greiðslustöðuyfirlit sóknaraðila hjá varnaraðila þar sem fram koma gjaldfallnar skuldir ásamt áföllnum dráttarvöxtum og kostnaði. Þannig verður ekki fallist á það með sóknaraðila að krafa varnaraðila sem hér um ræðir til fullnustu peningagreiðslu hafi ekki verið sundurliðuð svo sem þá var kostur samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 90/1989.
Samkvæmt þessu verður fallist á kröfu varnaraðila og fjárnámsgerð sýslumannsins í Kópavogi nr. 037-2002-2617 sem fram fór að kröfu varnaraðila þann 14. nóvember 2002 staðfest fyrir 1.912.561 krónur auk áfallandi dráttarvaxta og annars kostnaðar frá 13. maí 2002 til greiðsludags.
Sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað sem ákveðst 150.000 krónur.
Guðmundur L. Jóhannesson, héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Frávísunarkröfu sóknaraðila er hrundið.
Fjárnámsgerð sýslumannsins í Kópavogi frá 14. nóvember 2002 í eign sóknaraðila, hesthúsi nr. 2 B tröð í Víðidal í Reykjavík er að kröfu varnaraðila staðfest.
Sóknaraðili, Ólafur Magnússon greiði varnaraðila Tollstjóranum í Reykjavík 150.000 krónur í málskostnað.