Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-43
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Matsgerð
- Fasteignakaup
- Galli
- Sprangkrafa
- Fasteign
- Gjafsókn
- Dráttur á dómsuppsögu
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 19. mars 2024 leita dánarbú Jóhannesar Reynissonar, Ásdís Runólfsdóttir og Sólveig Þóra Jóhannesdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 8. sama mánaðar í máli nr. 767/2022: Jóhann Kristján Arnarson, Berglind Kristjánsdóttir og Reykjanesbær gegn dánarbúi Jóhannesar Reynissonar, Ásdísi Runólfsdóttur og Sólveigu Þóru Jóhannesdóttur. Gagnaðilar Jóhann Kristján Arnarson og Berglind Kristjánsdóttir taka ekki afstöðu til beiðninnar. Gagnaðili Reykjanesbær leggst gegn henni.
3. Ágreiningur málsins varðar óskipta kröfu leyfisbeiðenda á hendur gagnaðilum um skaðabætur vegna ýmissa galla á fasteign að Vallarási 15 í Reykjanesbæ. Fjárhæð kröfu er reist á matsgerð dómkvadds matsmanns. Krafa leyfisbeiðenda á hendur gagnaðilum Jóhanni Kristjáni og Berglindi er sprangkrafa sem er reist á því að þau byggðu fasteignina. Krafa leyfisbeiðenda á hendur Reykjanesbæ er byggð á saknæmum og ólægmætum aðgerðum eða aðgerðaleysi starfsmanna sveitarfélagsins.
4. Með dómi héraðsdóms var fallist á kröfur leyfisbeiðenda á hendur Kristvinu Magnúsdóttur og Guðmundi Pétri Meekosha, sem seldu leyfisbeiðendum fasteignina, og gagnaðilum Jóhanni Kristjáni, Berglindi og Reykjanesbæ. Framangreindum aðilum var með dóminum gert að greiða leyfisbeiðendum óskipt 40.807.690 krónur auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Gagnaðilar áfrýjuðu málinu til Landsréttar en Kristvina og Guðmundur ekki. Með dómi Landsréttar var Reykjanesbær sýknaður af öllum kröfum leyfisbeiðenda og málskostnaður þeirra á milli felldur niður en Landsréttur taldi kröfu á hendur sveitarfélaginu fyrnda. Þá lækkaði Landsréttur þann hluta skaðabótanna sem gagnaðilum Jóhanni Kristjáni og Berglindi var gert að greiða í 10.817.523 krónur þar sem þau bæru aðeins ábyrgð á hluta af göllum fasteignarinnar.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi meðal annars um athafnaskyldu og áhrif saknæmrar og ólögmætrar háttsemi sveitarfélags auk ábyrgðar þess á rangri opinberri skráningu um byggingarstig. Þá vanti umfjöllun Hæstaréttar um upphafstímamark fyrningarfrests. Leyfisbeiðendur byggja einnig á því að málsmeðferð hafi verið stórlega ábótavant og að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni. Með dóminum hafi Landsréttur ekki dæmt kröfur leyfisbeiðenda um gjafsóknarkostnað og farið fram úr lögbundnum fresti við uppkvaðningu dóms en af efnistökum hans megi ráða að raunveruleg þörf hafi verið á endurflutningi. Þá hafi Landsréttur ekki tekið afstöðu til allra málsástæða leyfisbeiðenda og beitt ótækri lögskýringu. Leyfisbeiðendur byggja að endingu á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína og það raski högum þeirra verulega standi niðurstaða Landsréttar óröskuð.
6. Í 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 segir að við mat á því hvort fallist verði á beiðni um áfrýjunarleyfi skuli líta til þess hvort úrslit máls hafi verulegt almennt gildi eða varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þess sem leitar leyfis. Þá getur Hæstiréttur veitt slíkt leyfi ef ástæða er til að ætla að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi eða efni.
7. Dómur Hæstaréttar í máli þessu hefði ekki verulegt almennt gildi. Ekki verður heldur talið að leyfisbeiðendur hafi sérstaklega mikla hagsmuni af því að fá heimild til að áfrýja málinu vegna þess að niðurstaða Landsréttar raski högum þeirra verulega. Þá var málsmeðferð í héraði ekki stórlega ábótavant. Hvort heimild til að áfrýja dóminum verði veitt veltur á því hvort hann sé bersýnilega rangur eða hvort málsmeðferð í Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant.
8. Mál þetta var dómtekið í Landsrétti að loknum munnlegum málflutningi 29. janúar 2024 og var kveðinn upp dómur í því 8. mars sama ár. Dómurinn var því kveðinn upp þegar meira en fjórar vikur voru liðnar frá því að málið var dómtekið öndvert áskilnaði 1. málsliðar 1. mgr. 165. gr. laga nr. 91/1991. Í þingbók Landsréttar 8. mars 2024 við dómsuppsögu í málinu segir það eitt að gætt hafi verið ákvæðis 1. mgr. 165. gr. laga nr. 91/1991 við uppkvaðningu dómsins. Í 2. málslið sömu málsgreinar segir að verði því ekki komið við að dómur í munnlega fluttu máli sé kveðinn upp innan fjögurra vikna frá dómtöku skuli endurtaka málflutning, en Landsrétti falið að meta að hvaða leyti það er nauðsynlegt. Í samræmi við þetta bar að réttu að endurtaka málflutning í málinu. Samkvæmt þessu kann málsmeðferð Landsréttar að hafa verið stórlega ábótavant. Áfrýjunarleyfi verður því veitt í því skyni að fjalla um hvort ómerkja beri hann.