Hæstiréttur íslands

Mál nr. 17/2014


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Fjársvik
  • Einkaréttarkrafa
  • Skilorð


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 15. maí  2014.

Nr. 17/2014.

 

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

Luigi Árelíusi Gala

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

 

Líkamsárás. Fjársvik. Einkaréttarkrafa. Skilorð.

L var ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, fjársvik og eignaspjöll með því að hafa blekkt leigubílstjóra til þess að aka sér á tiltekinn stað án þess að greiða fyrir farið og slegið bílstjórann síðan í andlitið með glerflösku með þeim afleiðingum meðal annars að sprunga kom á framrúðu bifreiðarinnar. L var fundinn sekur um brot gegn 2. mgr. 218. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hann var á hinn bóginn sýknaður af ákæru varðandi eignaspjöll. L var gert að sæta fangelsi í sjö mánuði en fullnustu sex mánaða refsingarinnar var frestað vegna óútskýrðs dráttar sem varð á útgáfu ákæru í málinu. Þá var L gert að greiða leigubílstjóranum 305.000 krónur í skaðabætur.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari, Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari og Árni Kolbeinsson fyrrverandi hæstaréttardómari.  

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. nóvember 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd og hann dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.

Brotaþoli hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Verður því litið svo á að hann krefjist þess að staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Samkvæmt vottorði læknis og framburði hans fyrir héraðsdómi samrýmast áverkar brotaþola frásögn hans um atlögu ákærða. Að þessu gættu verður niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða og heimfærslu háttsemi hans til refsiákvæða staðfest með vísan til forsendna dómsins.    

Eins og greinir í héraðsdómi hlaut ákærði í febrúar 2008 fjögurra mánaða fangelsisdóm fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og var dómurinn bundinn skilorði til þriggja ára, sem ákærði stóðst. Árás ákærða var tilefnislaus með öllu. Að þessu virtu og með vísan til 2. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða, sem rétt er að skilorðsbinda að hluta á þann hátt sem þar var gert vegna þess óútskýrða dráttar sem varð á útgáfu ákæru í málinu.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins í héraði, eins og hann var ákveðinn í hinum áfrýjaða dómi, svo og áfrýjunarkostnað þess, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en sakarkostnað.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði, 470.300 krónur, svo og áfrýjunarkostnað þess, 271.585 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 22. nóvember 2013.

Mál þetta, sem þingfest var 12. september sl. og dómtekið 12. nóvember sl., var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 12. júlí 2013, á hendur Luigi Árelíus Gala, [...], „fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, fjársvik og eignaspjöll, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 19. desember 2011, blekkt leigubifreiðastjórann A til þess að aka sér með leigubifreiðinni [...] frá miðborg Reykjavíkur að [...] og er þangað var komið, stigið út úr bifreiðinni án þess að greiða fyrir aksturinn og er A skrúfaði niður hliðarrúðuna þar eð hann taldi ákærða ætla að reiða fram greiðslu, slegið A í andlitið með glerflösku og slóst flaskan einnig í framrúðu bifreiðarinnar. Afleiðingar þessa urðu þær að A hlaut 3 sm langan skurð framan á nefið og sprunga kom á framrúðu bifreiðarinnar.

                Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr., 248. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Í málinu gerir skipaður réttargæslumaður, fyrir hönd A, þá kröfu að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur, að fjárhæð 1.005.000 krónur með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. desember 2011 og dráttarvexti skv. 6. gr., sbr. 5. gr., sömu laga að mánuði liðnum frá birtingu bótakröfunnar til greiðsludags. Þá er krafist réttargæsluþóknunar að skaðlausu.

Ákærði kom fyrir dóminn við þingfestingu málsins og kvaðst ekki muna eftir atvikinu og neitaði sök. Þá mótmælti hann bótakröfunni.

Aðalmeðferð málsins fór fram 12. nóvember sl. og var málið dómtekið að málflutningi loknum. Krafðist ákærði sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.

Málsatvik.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu kom brotaþoli á lögreglustöðina við Flatahraun 11 í Hafnarfirði, aðfaranótt mánudagsins 19. desember 2011, og var talsvert blóðugur í andliti. Kvaðst hann hafa skömmu áður ekið þremur farþegum úr miðborg Reykjavíkur. Hann hafi skilað tveimur mönnum til síns heima og ekið þeim þriðja, sem eftir var í leigubifreiðinni, að [...]. Farþeginn hafi farið út úr leigubifreiðinni um vinstri afturhurð og gengið síðan að hægri framhurð bifreiðarinnar þar sem brotaþoli hafi skrúfað niður rúðuna þar sem hann hélt að farþeginn hafi ætlað að greiða fargjaldið, 3.000 krónur. Í stað þess hafi farþeginn slegið brotaþola með bjórflösku í andlitið. Hafi höggið komið á nefið á brotaþola þannig að sprakk fyrir og fossblæddi úr. Farþeginn hafi hlaupið í burtu án þess að greiða fargjaldið. Í framhaldi hafi brotaþoli hringt í Neyðarlínuna og því næst ekið á lögreglustöðina og kært atvikið. Í kjölfar hafi brotaþoli farið á slysadeildina. Gaf brotaþoli upp nafnið á ákærða en hann hafi heyrt samferðamenn hans ræða við hann undir því nafni.

                Þá liggur fyrir upplýsingaskýrsla lögreglu þar sem kemur fram að lögregla hafi leitað ákærða þegar tilkynning hafi komið um átök á [...]. Þar hafi lögreglan hitt ákærða fyrir og kannast við lýsinguna sem hún hafði fengið af honum. Var ákærði handtekinn í framhaldi og farið með hann á lögreglustöð.

                Daginn eftir kom brotaþoli á lögreglustöðina og lýsti því að hann hefði tekið upp þrjá pilta í Lækjargötu í Reykjavík og hann fyrst ekið að [...] þar sem fyrsti farþeginn fór úr bifreiðinni. Næst hafi hann stansað við [...] og síðast við [...]. Þar hafi pilturinn farið út úr bifreiðinni og gengið að ökumannshurðinni eins og hann hafi ætlað sér að greiða fyrir aksturinn. Brotaþoli hafi skrúfað niður rúðuna og viðkomandi þá slegið hann með flösku í andlitið með þeim afleiðingum að flaskan lenti á nefi hans svo að hann hafi fengið miklar blóðnasir. Við höggið hafi hann misst sjónar á manninum en maðurinn hafi auk þess rifið í föt hans eftir að hann var búinn að slá hann með flöskunni. Lýsti brotaþoli því að flaskan hafi síðan farið í framrúðu bifreiðarinnar að innanverðu og hafi komið sprunga í rúðuna. Lýsti brotaþoli manninum sem dökkhærðum, með brún augu og eins og hann væri með ör á enninu. Þeir sem með honum voru hafi nefnt hann Luigi en hinir verið kallaðir B og C. Þá kvað brotaþoli ákærða hafa nefnt það í bílnum að hann ætlaði sér að borga leigubílinn einn þar sem hann ætti nóg af peningum. Kvað brotaþoli upphæðina vera 4.880 krónur. Lagði hann fram kvittun vegna fargjaldsins. Að auki hafi brotaþoli þurft að greiða 5.000 krónur vegna komu á slysadeildina. Krafðist brotaþoli þess að ákærði yrði dæmdur að lögum og fór fram á að fá aksturinn greiddan og útlagðan kostnað og áskildi sér rétt til að koma að bótakröfu síðar.

                Þann 21. desember 2011 kom D á lögreglustöð og kvaðst vera eigandi bifreiðarinnar [...] og hafi brotaþoli verið að vinna fyrir sig aðfaranótt 19. desember sl. Kvaðst D hafa látið gera við framrúðu bifreiðarinnar og hafi þurft að greiða 13.238 krónur vegna sjálfsábyrgðar á framrúðutjóninu og samkvæmt tryggingafélagi hans þá sé atvinnumissir í einn sólarhring sagður vera 13.505 krónur. Krafðist D þess að ákærði yrði dæmdur lögum samkvæmt vegna eignaspjallanna og annars tjóns. Lagði hann fram reikning frá Réttingaverkstæði Þórarins sf. vegna framrúðuskipta á bifreiðinni.

                Í gögnum málsins liggur fyrir læknisvottorð E, dagsett 6. janúar 2012. Kemur þar fram að brotaþoli hafi leitað á bráðamóttöku í Fossvogi 19. desember 2011 kl. 03.24 og skýrt frá því að viðskiptavinur hafi ekki greitt fyrir farið og slegið brotaþola einu höggi með glerflösku á nefið. Hafi brotaþoli fengið blóðnasir og skurð á nefið. Við skoðun sé ekki merki um nefbrot en blóð hafi verið í báðum nösum. Þá sé þriggja cm langur skurður þvert yfir nefið sem sé aðeins tættur en ekki djúpur.

                Við rannsókn á bjórflösku, sem brotaþoli framvísaði til lögreglu, kom fram að engin nothæf fingraför hafi fundist á flöskunni.

Skýrslur fyrir lögreglu og dómi.

Ákærði kvaðst hjá lögreglu ekki muna eftir atvikinu. Ákærði kvaðst hafa verið að skemmta sér umrætt kvöld á skemmtistað í Reykjavík og muni hann eftir því að hafa tekið leigubíl ásamt vinnufélaga sínum B en hvort einhverjir aðrir voru í bifreiðinni muni hann ekki. Þá muni hann ekki eftir því hvort hann hafi greitt fyrir fargjaldið en ef svo væri ekki  þá væri hann fús til að greiða fyrir farið. Hafi hann lamið leigubílstjórann þá hafi það verið gert í einhverju rugli og ekki hafi verið vilji hans að meiða nokkurn mann. Hann hafi hins vegar verið mjög ölvaður þegar hann fór heim og muni ekki vel hvað hafi gerst. Hann vildi auk þess biðja leigubílstjórann fyrirgefningar ef hann hafi lamið hann. Að auki var ákærði tilbúinn að greiða viðgerðarkostnað vegna ísetningar rúðu en ekki fyrir vinnutap.

                Ákærði kom fyrir dóminn og kvaðst ekki muna eftir atvikinu. Kvaðst hann hafa verið að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur þetta kvöld og hann og félagar hans tekið leigubifreið saman. Það hafi verið B og C.

                Brotaþoli kom fyrir dóminn og kvaðst hafa tekið þrjá menn upp í bifreiðina í miðbæ Reykjavíkur þetta kvöld og ekið með þann fyrsta í [...], B hafi farið út við [...] og ákærði hafi verið síðastur til að láta aka sér heim. Kvað brotaþoli farþegana hafa rætt saman á leiðinni og hann heyrt ákærða nefndan Luigi og annan B. Þegar hann kom með ákærða að [...] hafi ákærði farið út úr bifreiðinni, gengið aftur fyrir hana og að bílstjórahurðinni. Brotaþoli hafi því skrúfað rúðuna niður, þar sem hann bjóst við að ákærði myndi rétta fram greiðslu, en í þess stað hafi hann fengið flösku í andlitið. Flaskan hafi skotist af sér í framrúðuna og gat hafi komið í hana og rúðan í framhaldi sprungið út frá því. Bjórflaskan hafi orðið eftir í bifreiðinni og hann afhent lögreglunni hana strax. Brotaþoli kvaðst vera með ör á nefinu eftir þetta sem yrði sýnilegt alla ævi. Brotaþoli kvaðst hafa verið með gleraugu þegar þetta átti sér stað en þau hafi ekki brotnað heldur svignað undan flöskunni þar sem umgjörðin væri úr titanium. Brotaþoli lýsti ákærða þannig að hann væri með spænskt yfirbragð og meðalmaður á hæð.

                Vitnið C kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið að skemmta sér umrætt kvöld með ákærða og fleirum. Þeir hafi tekið leigubíl saman og vitninu verið skutlað fyrst heim. Þá hafi ákærði og B verið eftir í bifreiðinni. Meira vissi vitnið ekki um atvikið.

                Vitnið D, eigandi leigubifreiðarinnar, gaf símaskýrslu og kvað brotaþola, sem vinni fyrir vitnið, hafa skýrt rúðubrotið þannig að flösku hafi verið kastað í andlit hans sem síðan hafi skotist í mælaborðið á bifreiðinni og síðan í rúðuna. Hafi komið sprunga í rúðuna í framhaldi og þess vegna hafi þurft að skipta um rúðu. Kvaðst vitnið  hafa orðið fyrir vinnutapi á meðan bifreiðin var á verkstæði.

                F lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið að líta eftir þeim sem sló leigubílstjórann á [...] þegar þau fengu tilkynningu um átök að [...]. Hafi hún ásamt öðrum lögreglumanni farið þangað og haft afskipti af íbúum. Þar hafi maður verið fyrir með ólæti. Á meðan lögreglan var þar á staðnum hafi komið lýsing á þeim sem sló leigubílstjórann og hafi sú lýsing átt við einn á staðnum sem hafi verið handtekinn. Hafi það verið ákærði.

                E læknir gaf símaskýrslu og kvaðst hafa tekið á móti brotaþola umrætt kvöld. Kvað hann áverkana á brotaþola samsvara frásögn hans á árásinni. Aðspurður um það hvort áverkinn gæti ekki hafa komið vegna gleraugna, sem brotaþoli var með, kvað hann það vel geta verið.

Forsendur og niðurstöður.

Óumdeilt er að ákærði fór með leigubifreið umrædda nótt frá miðbæ Reykjavíkur til Hafnarfjarðar og með ákærða hafi verið vitnin B og C. Vitninu C og brotaþola ber báðum saman um að B og ákærði hafi verið farþegar umrætt sinn. Ekkert vitni var að atvikinu sjálfu og ákærði kveðst ekki muna eftir því. Af öllum atvikum í framhaldi af því, ásamt framburði brotaþola um að ákærði hafi slegið hann með bjórflösku í andlitið og því að brotaþoli kom beint á lögreglustöðina í Hafnarfirði alblóðugur og að hann fór þaðan beint á slysadeild, þar sem gert var að sárum hans, telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að atvik hafi verið eins og brotaþoli lýsti þeim, enda framvísaði hann strax bjórflösku sem hann kvaðst hafa fengið í andlitið. Eru engin efni til að draga þessa frásögn hans í efa.

                Brotaþoli lýsti ákærða fyrir lögreglu sem útlendingslegum og fyrir dóminum sagði brotaþoli að gerandinn væri með spænskt yfirbragð. Þá gat brotaþoli gefið lögreglu upp nafn hans og annars manns sem var í bifreiðinni. Er hafið yfir allan vafa að það hafi verið ákærði sem var í bifreið brotaþola umrætt sinn, enda fær það stoð í framburði vitnisins C. Lögreglan hafði afskipti af ákærða fljótlega eftir atvikið í [...] þar sem ákærði var drukkinn. Ákærði kom fyrir dóminn og er tekið undir það með brotaþola að ákærði ber með sér að vera ættaður frá Suður-Evrópu en verjandi ákærða upplýsti að hann væri af ítölskum ættum. Með vísan til þessa telur dómurinn lögfulla sönnun hafa verið færða fram um að það hafi verið ákærði sem braut gegn brotaþola umrætt sinn. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi og verður honum gerð refsing fyrir. Er háttsemin réttilega heimfærð til 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga þar sem um hættulega atlögu ákærða var að ræða og beindist að höfði brotaþola. Var árásin með öllu tilefnislaus.

                Ákærði er einnig ákærður fyrir fjársvik, með því að hafa blekkt brotaþola til að aka sér frá miðborg Reykjavíkur að Álfaskeiði 88 í Hafnarfirði án þess að greiða fyrir aksturinn. Ákærði hefur ekki neitað því að hafa ekki greitt fyrir aksturinn en kveðst ekki muna eftir því. Þá hefur hann ítrekað boðist til þess hjá lögreglu að greiða fyrir aksturinn og fyrir dóminum kvaðst hann hafa gert það til að losna undan veseni.

Brotaþoli lagði fram hjá lögreglu kvittun frá Hreyfli þar sem kemur fram að ferðin hafi hafist kl. 02:20 þann 19. desember 2011 og lokið kl. 03.08 sömu nótt. Var fjárhæðin samtals 4.480 krónur. Í skýrslu lögreglu kemur fram að brotaþoli hafi komið á lögreglustöðina í Hafnarfirði kl. 02:50 aðfaranótt 19. desember 2011. Í læknisvottorðinu kemur fram að hann hafi komið á bráðamóttöku kl. 03.24 aðfaranótt 19. desember 2011. Telur dómurinn því engum vafa undirorpið að ákærði hafi ekki greitt fyrir aksturinn og verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi eins og henni er lýst í ákæru.

Ákærði er einnig ákærður fyrir eignaspjöll þannig að flaska sem hann barði brotaþola með hafi einnig slegist í framrúðu bifreiðarinnar. Í gögnum málsins liggur fyrir reikningur frá Réttingaverkstæði Þórarins sf., dagsettur 21. desember 2011. Ekkert kemur fram um að greitt hafi verið fyrir rúðuskiptingu né hvað var gert við bifreiðina yfirleitt. Eingöngu segir: „1. Sjálfábyrgð 13.238.“  Engar ljósmyndir eða önnur gögn hafa verið lögð fram í dóminum um skemmdir á bílrúðunni. Gegn neitun ákærða telur dómurinn lögfulla sönnun þess, að ákærði hafi brotið framrúðu bifreiðarinnar í umrætt sinn, ekki fram komna og ber því að sýkna ákærða af þessari háttsemi.

Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann dæmdur í febrúar 2008 í fjögurra mánaða fangelsi skilorðsbundið til þriggja ára fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga en ákærði var sextán ára þegar hann framdi það brot og hefur sá dómur því ekki ítrekunaráhrif skv. 1. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga. Þá gekkst ákærði undir sátt í janúar 2011 fyrir brot gegn lögreglusamþykkt. Hefur það brot ekki áhrif við ákvörðun refsingar nú.

Þykir refsing ákærða nú hæfilega ákveðin fangelsi í sjö mánuði. Brot ákærða var framið 19. desember 2011 og er ekki annað að sjá af gögnum málsins en að rannsókn málsins hafi verið lokið í janúar 2012. Ákæra var ekki gefin út fyrr en í júlí 2013 og verður ekki séð að sá dráttur sé ákærða um að kenna. Af þessum sökum þykir rétt að skilorðsbinda sex mánuði refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum þremur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.  

Í málinu gerir A kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða honum 1.005.000 krónur í miska- og skaðabætur ásamt nánar tilgreindum vöxtum. Með vísan til þess að ákærði hefur verið sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás telur dómurinn skilyrði 26. gr. skaðabótalaga uppfyllt og ber ákærði skaðabótaábyrgð vegna hennar. Er miskabótakrafan að fjárhæð 1.000.000 króna og skaðabótakrafan 5.000 krónur vegna komugjalds á bráðamóttöku. Lagði brotaþoli fram kvittun fyrir komugjaldinu. Ekki verður séð að ákærða hafi verið kynnt bótakrafan fyrr en við birtingu fyrirkalls þann 30. júlí sl. Verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola 300.000 krónur í miskabætur og 5.000 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. desember 2011 til 30. ágúst 2013 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Að þessum niðurstöðum fengnum og með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008, ber að dæma ákærða til greiðslu 90% alls sakarkostnaðar en 10% sakarkostnaðar skal greiddur úr ríkissjóði. Er sakarkostnaður samkvæmt yfirliti 31.050 krónur vegna læknisvottorðs, málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., sem eru ákveðin 313.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jóns Bjarna Kristjánssonar hdl., 125.500 krónur.  

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð.

Ákærði, Luigi Árelíus Gala, skal sæta fangelsi í sjö mánuði, en fresta skal fullnustu sex mánaða refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum þremur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Ákærði greiði 90% af heildarsakarkostnaði, sem er samtals 470.300 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 313.750 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns, Jóns Bjarna Kristjánssonar hdl., 125.500 krónur, hvorutveggja að meðtöldum virðisaukaskatti en 10% sakarkostnaðar skal greiddur úr ríkissjóði.

Ákærði greiði A 305.000 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. desember 2011 til 30. ágúst 2013 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.