Hæstiréttur íslands

Mál nr. 458/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Gögn


Föstudaginn 14

 

Föstudaginn 14. ágúst 2009.

Nr. 458/2009.

Sýslumaðurinn á Akureyri

(Eyþór Þorbergsson, fulltrúi)

gegn

X

(Ólafur Rúnar Ólafsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Gögn.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur. Þá var jafnframt staðfest niðurstaða héraðsdóms um að S væri heimilt að synja verjanda X um aðgang að rannsóknarskýrslum í málinu. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. ágúst 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 12. ágúst 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta  gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 18. ágúst 2009 klukkan 13 og sæta einangrun meðan á því stendur. Þá var verjanda varnaraðila synjað um aðgang að rannsóknarskýrslum í máli þessu, en þó eigi lengur en til mánudagsins 31. ágúst 2009 klukkan 18. Kæruheimild er í c. og l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og honum ekki gert að sæta einangrun á gæsluvarðhaldstíma. Þá er þess krafist að verjanda varnaraðila verði afhent öll gögn málsins, en til vara að heimild lögreglu til að synja um aðgang að gögnunum verði markaður skemmri tími en greinir í hinum kærða úrskurði.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um gæsluvarðhald varnaraðila og að sóknaraðila sé heimilt að synja verjanda varnaraðila um aðgang að rannsóknarskýrslum í máli þessu. 

Dómsorð:

         Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra miðvikudaginn 12. ágúst 2009.

Mál þetta, barst dóminum 11. ágúst sl., kl. 12:05 með bréfi sýslumannsins á Akureyri dagsettu þann dag.  Að lokinni skýrslutöku þann dag sem hófst kl. 13:45 var málið tekið til úrskurðar.

Krafa sýslumannsins á Akureyri er sú að kærði X, kt. [...], [...], Akureyri, verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 18. ágúst 2009 á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.  Þá er þess krafist að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvistinni stendur skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga.  Loks er þess krafist að lögreglu sé heimilt að synja verjanda ákærða um aðgang að rannsóknargögnum lögreglu. 

Kærði krefst þess aðallega að gæsluvarðhaldskröfu verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.  Þá andmælir kærði þeirri kröfu að hann verði látinn sæta einangrun svo og að verjanda hans verði synjað um aðgang að öllum gögnum málsins. 

Í greinargerð sýslumanns er því lýst, að sunnudagskvöldið 9. ágúst sl. hefði ung stúlka komið á heimili A, sem fæddur er 1988, og foreldra hans hér í bæ.  Hefði A farið með stúlkunni í leigubifreið eftir skamma stund.  Að morgni mánudagsins 10. ágúst s.l. hefði A hringt í móður sína og beðið hana um að útvega fjármuni, allt að einni milljón króna, því hann þyrfti að borga skuldir sínar, en ella yrði hann fyrir frekari barsmíðum.  Var lögreglu þegar gert viðvart og vegna tiltekinna upplýsinga var þegar farið að dvalarstað kærða hér í bæ.  Þar á vettvangi hittu lögreglumenn fyrir piltinn A og kærða einnig meðkærðu C og unnustu hans.  Vegna mikilla áverka í andliti A var hann færður á Sjúkrahúsið á Akureyri, en kærði ásamt nefndum aðilum handtekin, kl. 09:00, og voru þau færð á lögreglustöð. 

Í greinargerð sýslumanns er að nokkru rakin frásögn piltsins A af ætluðum atvikum við skýrslugjöf 10. ágúst sl., þ.á m. að hann hefði farið ásamt ókunnugri stúlku og kærða C og heimilis þess síðarnefnda.  Þar á heimilinu hefði hann vegna minniháttar peningaskuldar mátt sæta ítrekuðum og langvinnum barsmíðum og öðru ofbeldi að hálfu kærða X og meðkærðu.  Hefðu þau margoft sparkað í hann og barið með barefli, en að auki hefði unnusta C veist að honum með barsmíð.  Hann hefði og mátt þola aðrar svívirðingar og hótanir og verið haldi nauðugum þarna á heimilinu í um 13 klukkustundir, allt vegna ætlaðrar peningaskuldar.

Í greinargerð, líkt og áréttað var fyrir dómi, er til þess vísað að kærði X hefði fyrst verið yfirheyrður um kæruefnið að morgni 11. ágúst sl., í skamman tíma.  Er staðhæft að ekki hefði verið unnt að yfirheyra kærða fyrr, ekki frekar en meðkærðu, þar sem hann hefði ekki verið í skýrsluhæfu ástandi. 

Af hálfu sýslumanns er um rökstuðning fyrir gæsluvarðhaldskröfu vísað til þess að rannsókn málsins sé á algjöru frumstigi.  Er á það bent að m.a. eigi enn eftir að handtaka tvo grunaða aðila og yfirheyra vitni, en rökstuddur grunur sé um refsiverð brot, sem m.a. geti varðað við 2. mgr. 218. gr. og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.  Að öðru leyti er um rökstuðning fyrir kröfunni vísað til fyrrnefndra ákvæða laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008, a-lið 1. mgr. 95. gr. og b-lið 99. gr. en einnig 1. mgr. 37. gr.

Niðurstaða.

Fyrir dóminn hafa verið lagðar lögregluskýrslur og önnur gögn, þ.á.m. vettvangsskýrslur, ljósmyndir og áverkavottorð, þar sem lýst er sýnilegum áverkum á piltinum A.

Kærði hefur neitað sakargiftum.

Framlögð rannsóknargögn lögreglu eru að áliti dómsins í samræmi við lýsingu sýslumanns í greinargerð. 

Verður að ofangreindu virtu á það fallist að rannsókn málsins sé á byrjunarstigi og að efni séu til að fallast á röksemdir sýslumanns að úrskurða beri kærða í gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna.  Þykir með vísan til þessa og röksemda sýslumanns að öðru leyti rétt að fallast á kröfu hans sbr. a-lið 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.  Verður kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 18. ágúst n.k. kl. 13:00.  Þá er fallist á þá kröfu sýslumanns, að meðan á gæsluvarðhaldsvist kærða stendur skuli hann látinn vera í einrúmi, sbr. b-lið 99. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála. 

Með vísan til þess sem að fram er komið um atvik máls og framvindu rannsóknar þykja ekki vera efni til annars en að fallast á kröfu sýslumanns varðandi gagnaafhendingu líkt og hún sett fram, þ.e. að verjandi hans fái ekki aðgang að þeim frumrannsóknargögnum sem nú liggja fyrir sbr. dskj. nr. 1-2, sbr. heimildarákvæði 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88, 2008, en þó ekki lengur en til 31. ágúst n.k.  kl. 18:00. 

Eins og hér að framan hefur verið rakið dróst í rúman sólarhring frá handtöku kærða að hann yrði leiddur fyrir dóm.  Þessi dráttur er sem slíkur í andstöðu 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 5. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97, 1995.

Úrskurð þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð :

Kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 18. ágúst n.k. kl. 13:00.  Skal vistin vera í einrúmi, sbr. b-lið 99. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.

Lögreglunni er heimilt að synja verjanda kærða um aðgang að rannsóknarskýrslum í máli þessu, sbr. dsk. nr. 1 og 2 en þó ekki lengur en til mánudagsins 31. ágúst n.k. kl. 18:00.