Hæstiréttur íslands
Mál nr. 508/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
|
|
Þriðjudaginn 8. september 2009. |
|
Nr. 508/2009. |
Lögreglustjórinn á Selfossi(Jónína Guðmundsdóttir fulltrúi) gegn X (Einar Sigurjónsson hdl.) |
Kærumál. Nálgunarbann.
Úrskurður héraðsdóms um að hafna því að X skyldi gert að sæta nálgunarbanni var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. ágúst 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. september sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. ágúst 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta nálgunarbanni. Kæruheimild er í 5. mgr. 3. gr. laga nr. 122/2008 um nálgunarbann.
Sóknaraðili krefst þess fyrir Hæstarétti að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni í tólf mánuði þannig að lagt verði bann við því að hún komi á eða sé við Y, [...], þar sem A og B búa. Jafnframt verði henni bannað að veita eftirför, heimsækja, ónáða á almannafæri eða setja sig með öðru móti í samband við A og B.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hún kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Við úrlausn þessa máls er ekki þörf á að taka afstöðu til tilefnis kvartana varnaraðila til Persónuverndar og Landlæknisembættisins. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Úrskurðurinn var kærður daginn eftir að hann var kveðinn upp. Samkvæmt 1. mgr. 194. gr. laga nr. 88/2008 bar héraðsdómi þá þegar að senda kæruna til Hæstaréttar.
Allur kostnaður af kærumáli þessu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Allur kostnaður af kærumáli þessu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun Einars Sigurjónssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda varnaraðila, 124.500 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. ágúst 2009.
Með bréfi, dagsettu 30. júní 2009 hefur lögreglustjórinn á Selfossi farið fram á að X, kt. [...], heimilisfang [...], verði gert að sæta nálgunarbanni samkvæmt 1. gr. laga um nálgunarbann nr. 122/2008, í tólf mánuði þannig að lagt verði bann við því að varnaraðili komi á eða sé við Y, [...], þar sem A, kt. [...] og B, kt. [...], búi. Þess er krafist að svæðið afmarkist af lóð fyrrnefndrar fasteignar og séu bifreiðastæði meðtalin. Jafnframt verði varnaraðila bannað að veita eftirför, heimsækja, ónáða á almannafæri eða setja sig með öðru móti í samband við A og B.
Varnaraðili hefur krafist þess að synjað verði um framgang nálgunarbannsins. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Málsatvik og málsástæður sóknaraðila.
Í bréfi sóknaraðila segir að krafa um nálgunarbann sé sett fram vegna þess að rökstudd ástæða sé talin til að ætla að varnaraðili muni raska friði A og B. Varnaraðili hafi á liðnum mánuðum og árum ítrekað raskað friði þeirra beggja með kvörtunum og annars konar ónæði, m.a. í viðurvist vitna. Þá hafi verið hringt í heimasíma A og B að næturlagi úr símanúmeri sem skráð sé á varnaraðila og ítrekað skellt á. Varnaraðili hafi jafnframt margsinnis tekið myndir og myndbönd af A, B og börnum þeirra sem og gestum sem dvalist hafi hjá þeim, nú síðast þann 28. júní sl.
Á síðastliðnum tveimur árum hafi varnaraðili margsinnis tilkynnt lögreglu um ónæði og læti frá nágrönnum sínum, þeim A og B. Þá hafi varnaraðili einnig kvartað yfir A sem starfsmanni Heilbrigðisstofnunar Z við Landlæknisembættið sem og Persónuvernd.
Þar sem rökstuddur grunur leiki á um að varnaraðili muni raska friði A og B sé þess krafist að henni verði gert að sæta nálgunarbanni samkvæmt 1. gr. laga nr. 122/2008 í tólf mánuði þannig að lagt verði bann við að hún komi í eða sé við þá staði sem að framan greini. Jafnframt verði henni bannað að veita eftirför, heimsækja, ónáða á almannafæri eða setja sig með öðru móti í samband við A og B.
Málsatvik og málsástæður varnaraðila.
Í greinargerð varnaraðila segir að varnaraðili hafi búið að Ý [...], í um 30 ár, nú síðustu árin ein. Hún hafi átt við nokkra vanheilsu að stríða og hafi verið úrskurðuð óvinnufær og sé á örorkubótum.
Fyrir um tveimur árum hafi hjónin A og B ásamt börnum þeirra flutt í húsið nr. [...] við [...]. Fljótlega eftir að þau hjónin hafi flutt að Y hafi kærandinn B haldið áfram atvinnurekstri sínum mitt í íbúðabyggð, en hann leigi smágröfur o.fl. og geri við vélar. Hann hafi einnig verið með vörubifreið af gerðinni Dodge við hús sitt og látið hana ganga í lausagangi. Yfir þessu hafi varnaraðili kvartað við skipulags- og heilbrigðisyfirvöld. Af gögnum málsins verði ekki ráðið að lögmætar kvartanir varnaraðila hafi sætt rannsókn lögreglu eða annarra þar til bærra yfirvalda.
Varnaraðili byggir á því að lagaskilyrði skorti fyrir kröfu sóknaraðila. Hún hafi í engu brotið gegn lögum með hótunum um líkamstjón eða eignaspjöll, en eitt af skilyrðum 1. gr. laga nr. 122/2008 sé að hætta sé á að maður muni fremja afbrot eða raska friði með þeim hætti sem ákvæðið greini.
Kærendur hafi um tveggja ára skeið stundað ólögmæta atvinnustarfsemi í íbúðarhverfi. Þurft hafi að fjarlægja dekkjastafla o.fl. að kröfu heilbrigðisyfirvalda. Hljóðmengun og óþefur fylgi þeirri starfsemi sem fram hafi farið í húsnæði kærenda að Y. Þá hafi kærandinn B notað fjórhjól sín við hús sitt sem sé einnig brot á lögum og reglum um umferð í þéttbýli.
Varnaraðili hafi ekki sætt sig við þessa framkomu í sinn garð og kvartað við lögreglu ítrekað. Nú sé sú staðreynd að hún hafi kvartað undan hávaða og mengun við hús sitt orðin að ástæðu til að hún sæti nálgunarbanni. Samkvæmt gögnum málsins hafi lögregla ekki brugðist við lögmætum kvörtunum varnaraðila. Ábyrgð lögreglu sé því mikil í máli þessu, þar sem með aðgerðarleysi hennar hafi magnast upp ágreiningur milli aðila sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir.
Kærandinn B hafi haft í hótunum við varnaraðila og hótað að kæra hana til lögreglu vegna kvartana hennar. Kærandi virðist hafa haft árangur sem erfiði þar sem varnaraðili hafi ekki náð eyrum lögreglu, þrátt fyrir að hafa sýnt fram á augljós brot kærenda á lögreglusamþykkt fyrir Sveitarfélagið Árborg, nr. 53/2004, einkum 4. gr., 20. gr. og 21. gr. Varnaraðili vísar einnig til skipulags- og heilbrigðisreglugerðar fyrir sama svæði, fundargerðar bæjarráðs Árborgar frá 31. ágúst 2006 og reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða, einkum 8. gr.
Lýsing á samskiptum aðila sé úr lagi færð og varnaraðili telji að vegið hafi verið að friðhelgi heimilis hennar með þeirri framkomu kærenda að reka verktakastarfsemi inni í miðju íbúðahverfi.
Kærendur hafi dregið inn í mál þetta atriði sem varnaraðili telji varða sitt einkalíf og eigi að lúta þagnarskyldu. Kærandinn A telji að varnaraðili hafi kvartað undan henni sem starfsmanni Heilbrigðisstofnunar Z varðandi upplýsingar um heilsufar varnaraðila, sbr. bréf Landlæknisembættisins. Varnaraðili hafi sent fyrirspurn til Landlæknisembættisins þegar hún hafi verið yfirheyrð af lögreglu um það hvort hún hafi neitað að fara í blóðrannsókn hjá kærandanum A hjá Heilbrigðisstofnun Z
Rannsókn lögreglu í máli þessu sé allsérstök. Varnaraðila hafi verið neitað um talsmann við yfirheyrslur hjá lögreglu, hún hafi verið spurð hvort hún hafi kært kærendur til barnaverndaryfirvalda og hvort hún hafi kvartað yfir kærandanum A sem starfsmanni Heilbrigðisstofnunar Z. Síðan hafi varnaraðili verið spurð um greiðslu skaðabóta sem hafi tengst uppsetningu girðingar á lóðarmörkum.
Af varnaraðila stafi engin hætta, hvorki að hún raski einkalífi kærenda eða eigum þeirra. Kærendur viðurkenni að þau hafi rekið starfsemi sem ekki samrýmist starfsemi í íbúðarbyggð í húsi sínu við Y.
Varnaraðili hafi kvartað yfir því að hennar kvörtunum hafi ekki verið sinnt. Hún telji sig hafa sætt ónæði eftir að mál þetta hafi komið upp, sérstaklega af hálfu kærandans A. Kærandinn B hafi haft í frammi hótanir í garð varnaraðila um m.a. líkamsmeiðingar, kallað hana öllum illum nöfnum og reynt að aka hana niður. Vegna ætlaðra truflana í síma kveðst varnaraðili hafa hringt einu sinni vegna þess að vörubifreið kærandans B hafi verið látin ganga í lausagangi um miðja nótt.
Ekki verði annað ráðið af gögnum málsins en að ekki sé virtur réttur varnaraðila til þess lífs og umgengni sem búast megi við í íbúðarhverfum. Rökstuðningur fyrir nálgunarbanni sé að varnaraðili hafi kvartað oft til lögreglu og að hún hafi kvartað undan því að kærandinn A hafi upplýst lögreglu um heilsufar hennar. Sýslumaður bregðist við kvörtun varnaraðila til landlæknis vegna ætlaðs brots kærandans A á þagnarskyldu um heilbrigðisupplýsingar með því að rökstyðja kröfu um nálgunarbann með þessari kvörtun. Með sama hætti sé lögmæt kvörtun varnaraðila til Barnaverndarstofu um hættulegt athæfi kærandans B notuð til rökstuðnings fyrir kröfu um nálgunarbann.
Af framangreindu sé ljóst að lagaskilyrði séu ekki uppfyllt til að beita reglum um nálgunarbann í máli þessu. Af varnaraðila stafi engin hætta. Hún hafi ekki orðið uppvís að lögbroti og ekki sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að hún muni fremja afbrot eða raska einkalífi kærenda með þeim hætti sem lög um nálgunarbann geri ráð fyrir eða dómaframkvæmd sýni. Hér sé um deilu nágranna að ræða. Varnaraðili búi í næsta húsi við kærendur og muni halda því áfram. Framkoma kærenda og lögreglu hafi beint og óbeint leitt til þess að deila þessi sé komin á það stig sem hún sé nú á. Ekki sé tekið tillit til lögmætra kvartana varnaraðila. Hver ætlist til þess að kærendur séu ánægðir með kvartanir varnaraðila? Upplýst sé í málinu að kærendur hafi gerst sekir um lögbrot.
Önnur úrræði séu nauðsynleg til að leysa þann vanda sem sambúð kærenda og varnaraðila sé komin í, s.s. úrræði skipulagsyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda eða sveitarstjórnar Árborgar.
Niðurstaða.
Ákvæði laga um nálgunarbann nr. 122/2008 heimila dómara að leggja bann við því, að kröfu lögreglu, að maður komi á tiltekinn stað eða svæði, veiti eftirför, heimsæki eða setji sig með öðru móti í samband við annan mann. Skilyrði þessa úrræðis eru þau að ástæða sé til að ætla að hann muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði þess manns sem í hlut á. Nálgunarbann er í eðli sínu íþyngjandi fyrir þann sem því sætir og verður því að gera strangar kröfur til þess að sýnt sé fram á að skilyrði þess séu uppfyllt. Sönnunarbyrði um það hvílir á sóknaraðila.
Í bréfi sóknaraðila er því lýst að varnaraðili hafi á liðnum mánuðum og árum ítrekað raskað friði kærenda, A og B, með kvörtunum og annars konar ónæði. Þessu er nánar lýst þannig að á síðustu tveimur árum hafi varnaraðili margsinnis tilkynnt lögreglu um ónæði og læti hjá kærendum. Þá hafi varnaraðili kvartað yfir kærandanum A sem starfsmanni Heilbrigðisstofnunar Z við Landlækni og Persónuvernd. Þá hafi verið hringt í heimasíma kærenda að næturlagi úr símanúmeri sem skráð sá á varnaraðila og ítrekað skellt á. Loks hafi varnaraðili margsinnis tekið myndir og myndbönd af kærendum, börnum þeirra og gestum, síðast 28. júní sl.
Málsatvik eru umdeild. Kærandinn A fullyrðir í lögregluskýrslu að varnaraðili hafi árið 2006 farið að kvarta yfir því að kærandinn B legði vörubifreið sinni við heimili þeirra og að varnaraðili hafi sagst ætla að kæra hann. Varnaraðili hafi síðar krafist þess að kærandinn B fjarlægði Dodge bifreið sem væri ólögleg. Þá hafi varnaraðili kvartað yfir því að kærandinn B gangsetti fjórhjól. Varnaraðili hafi á tímabili öskrað á kærandann B í hvert skipti sem hann hafi farið heim eða í vinnuna. Varnaraðili hafi á tímabili kvartað til lögreglu yfir því að kærandinn B færi of snemma af stað á morgnana og væri alveg jafn ,,brjáluð“ yfir því að hann komi seint heim á kvöldin. Varnaraðili taki myndir af kærandanum B þegar hann sé úti. Þá sé varnaraðili með myndbandsupptökuvél inni hjá sér og taki myndir með henni úr húsi sínu. Eitt kvöld fyrir einum til tveimur mánuðum hafi kærandinn B komið heim um kl. 01:00, en eftir það hafi síminn hringt fjórum sinnum hjá kærendum en varnaraðili hafi skellt á þegar kærandinn A hafi svarað. Þá hafi varnaraðili hótað að siga barnaverndaryfirvöldum á kærandann B. Varnaraðili hafi eitt sinn hringt í lögreglu og tilkynnt um yfirgefin börn í húsinu, en þá hafi kærandinn A verið heima með tvö börn. Um daginn hafi varnaraðili hringt í vinnustað kærandans A, Heilbrigðisstofnun Z, og sagt yfirmanni hennar að hún væri óhæf persóna, vinnustaðurinn væri óhæfur og það ætti að reka hana. Hún gæti því ekki komið þangað í blóðprufu. Kærandinn B segir svo frá í lögregluskýrslu að varnaraðili hafi um vorið 2006 komið inn til kærenda og heimtað að gestir þeirra færðu strax bifreið sem hefði verið lagt þannig að hann hafi aðeins farið inn á lóð varnaraðila. Þetta hafi endurtekið sig síðar. Kærandinn hafi eitt sinn lagt vörubifreið í garðinum heima hjá þeim og farið inn í kaffi og þá hafi varnaraðili krafist þess að hann færði bifreiðina því þetta væri ólöglegt. Síðan þá hafi kærendur orðið að gæta sín á að vera ekki með neinn hávaða. Varnaraðili taki oft ljósmyndir og taki einnig upp á myndbandstökuvél. Hún fylgist einnig með inn um glugga ef ekki sé dregið fyrir þá. Kærandinn eigi aldrei að koma með ökutæki sín inn á lóðina en þá öskri varnaraðili að hún skuli sjá til þess að hann vinni aldrei aftur við þessa vinnu sína aftur og við kærandann A að hún skuli aldrei vinna í heilsugeiranum aftur. Kærandinn hafi ,,þrumað“ yfir varnaraðila nokkrum sinnum. Hann hafi ekki hótað henni, en reynt að reka hana inn til sín með orðum. Á tímabili, fram á seinni part sumars 2008, hafi varnaraðili opnað gluggann og ,,hraunað“ yfir kærandann þegar hann hafi komið heim, sama á hvaða tíma sólarhringsins það hafi verið. Hún hafi sagt að kærandinn ætti ekki að vera á þessari bifreið því bifreiðin væri ólögleg.
Varnaraðili kvaðst við skýrslutöku hjá lögreglu ekkert kannast við sakarefnið en hún hafi ekkert rætt við kærandann A, nema í eitt skipti. Varnaraðili hafi tekið myndir af því þegar kærandinn B hafi dregið son sinn á snjósleða á fjórhjóli. Kærendur hafi verið með ónæði. Bæði sé drasl á bifreiðaplani þeirra og gestkomandi hafi lagt þannig að hún komist ekki að eða frá heimili sínu. Kærendur hafi einnig verið með vörubifreiðir og gröfur á þessu svæði sem sé deiliskipulagt íbúðarsvæði en ekki iðnaðarsvæði. Varnaraðili sagði það ekki rétt að hún hafi öskrað á kærandann B, en hafi séð ástæðu til þess á nóttunni og snemma á morgnana að kvarta við lögreglu vegna hávaðamengunar. Varnaraðili hafi beðið kærandann B að færa bifreið vegna hávaða og þá hafi hann hótað henni. Varnaraðili kvaðst hafa byrjað að taka myndir eftir að kærandinn B hafi hótað henni. Þá hafi kærandinn B ekið á varnaraðila. Varnaraðili kvaðst ekki hafa hótað að kæra kærendur til barnaverndaryfirvalda, en hafi afhent barnavernd í Þ myndir af kærandanum B að draga son sinn á fjórhjóli. Aðspurð kvaðst varnaraðili hafa hringt í lögreglu og tilkynnt um yfirgefin börn heima hjá kærendum, en hún hafi ekki séð betur. Varnaraðili sagðist ekki hafa hringt í yfirmann kærandans A og kvartað undan henni. Varnaraðili hafi rætt við yfirmann kærandans A því varnaraðili hafi viljað fara í blóðprufu á öðrum stað til að eiga það ekki á hættu að hún ynni með hennar persónulegu gögn.
Eins og ljóst er af framangreindu er framburður kærenda og varnaraðila í veigamiklum atriðum ósamrýmanlegir. Af framburði kærenda og varnaraðila verður ekki ráðið að kvartanir varnaraðila til lögreglu hafi verið tilefnislausar með öllu. Varnaraðili útskýrir kvartanir sínar á þann hátt að hún hafi verið að kvarta yfir því hvernig gestir kærenda hafi lagt bifreiðum sínum og yfir hávaða frá kærendum, en sá framburður varnaraðila fær nokkra stoð í framburði kærenda. Ekki verður krafa um nálgunarbann byggð á því að varnaraðili hafi kvartað til Persónuverndar og Landlæknis. Eins og rakið er að framan kom fram við skýrslutöku af kærandanum A að varnaraðili hafi komið í blóðprufu hjá vinnustað hennar. Verður því ekki séð að kvartanir varnaraðila til Persónuverndar og Landlæknis hafi augljóslega verið án tilefnis. Fram kemur í gögnum málsins að fjórum sinnum hafi verið hringt aðfaranótt 25. júlí 2008 í heimasíma kærenda úr símanúmeri sem varnaraðili er skráð fyrir. Um ár er liðið frá þessum símhringingum og verður krafa um nálgunarbann því ekki byggð á þeim. Varnaraðili hefur gengist við því að taka myndir af kærendum, en eitt og sér þykir það ekki næg ástæða til að leggja nálgunarbann á varnaraðila. Verður því ekki talið eins og mál þetta er vaxið að uppfyllt séu þau skilyrði sem sett eru í 1. gr. laga nr. 122/2008 um nálgunarbann og verður kröfu lögreglustjórans á Selfossi um nálgunarbann því hafnað.
Í samræmi við 4. mgr. 3. gr. laga nr. 122/2008 um nálgunarbann skal sakarkostnaður málsins greiðast úr ríkissjóði, en það er þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Einars Sigurjónssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 75.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri, kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð :
Kröfu sóknaraðila, lögreglustjórans á Selfossi, um að varnaraðili, X, sæti nálgunarbanni, er hafnað.
Sakarkostnaður málsins, sem er þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Einars Sigurjónssonar hdl., 75.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.