Hæstiréttur íslands

Mál nr. 187/2004


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Orlof


Fimmtudaginn 4

 

Fimmtudaginn 4. nóvember 2004.

Nr. 187/2004.

Kristinn Baldursson

(Erla S. Árnadóttir hrl.)

gegn

MT Højgaard Íslandi ehf.

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

 

Ráðningarsamningur. Orlof.

K, sem starfaði hjá verktakanum M ehf., var sagt upp störfum vegna verkefnaskorts. Lauk uppsagnarfresti 31. júlí 2002. Eftir að ráðningu K lauk leitaði M ehf. liðsinnis hans vegna fyrirhugaðrar málsóknar félagsins gegn nafngreindum verksala. Tók K að sér að vinna að kröfugerð M ehf. vegna hennar. Í máli sem K höfðaði á hendur M ehf. krafðist hann þess meðal annars að félagið greiddi sér orlof vegna tímabilsins frá 1. maí 2002 til 28. febrúar 2003 auk lífeyrissjóðsiðgjalda af því. Deildu aðilar um efni samkomulagsins sem gert var vegna vinnu K við undirbúning málsóknarinnar. Talið var að samkomulag hafi tekist um greiðslu fyrir undirbúning málsóknarinnar annars vegar og uppgjör vegna ráðningarsambands aðila sem lauk 31. júlí 2002 hins vegar. Hafi það falið í sér að M ehf. skyldi greiða K laun í samræmi við fyrri starfssamning aðila frá 31. júlí 2002 til 28. febrúar 2003. Samkvæmt starfssamningnum skyldi um greiðslu orlofs fara eftir „almennum kjarasamningum og áunnum réttindum.“ Var M ehf. því gert að greiða K orlof fyrir það sjö mánaða tímabil sem samkomulagið tók til. Á hinn bóginn var talið ósannað að K ætti óuppgert orlof vegna þeirrar ráðningar hans er lauk 31. júlí 2002.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. maí 2004. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 809.179 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2003 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Áfrýjandi, sem er byggingatæknifræðingur að mennt, réð sig til starfa hjá stefnda sem verkefnastjóri með starfssamningi 23. október 2000. Samkvæmt 5. gr. samningsins voru umsamin mánaðarlaun 500.000 krónur er taka skyldu breytingum eftir almennum kjarasamningum. Önnur laun svo sem vegna yfirvinnu skyldi ekki greiða sérstaklega, en miðað var að jafnaði við 35 yfirvinnustundir á mánuði. Ef vinnustundafjöldi samkvæmt mánaðarskýrslum yrði umfram það á hálfs árs tímabili skyldi áfrýjandi eiga rétt til lengingar orlofs til samræmis. Í 8. gr. samningsins var kveðið á um að „orlof, veikindi og önnur atriði er varða réttindi og skyldur fyrirtækisins og verkefnastjóra skulu fara eftir almennum kjarasamningum og áunnum réttindum.“ Í 11. gr. samningsins var kveðið á um gagnkvæman þriggja mánaða uppsagnarfrest. Áfrýjandi hélt skýrslur yfir vinnu sína og var yfirvinna hans samkvæmt þeim að jafnaði töluvert meiri en 35 stundir á mánuði. Gerðu aðilar af því tilefni samkomulag 5. maí 2001, en samkvæmt því skyldi greiða áfrýjanda eins mánaðar launaauka. Var jafnframt kveðið á um að áfrýjandi skyldi framvegis taka út „áunninn viðbótarfrítíma“ vegna yfirvinnu umfram vinnuskyldu innan hvers sex mánaða tímabils. Skyldi rétturinn ekki færast milli tímabila. Áfrýjandi hélt eftir þetta sem fyrr mánaðarlegar skýrslur um vinnu sína. Samkvæmt þeim var yfirvinna hans áfram að jafnaði töluvert umfram viðmiðunarmörk ráðningarsamningsins. Var kvittað fyrir móttöku þessara skýrslna frá og með skýrslu vegna janúar 2002 af hálfu starfsmanns stefnda. Stefndi sagði áfrýjanda munnlega upp starfi vegna verkefnaskorts 10. apríl 2002 og áréttaði uppsögnina bréflega 19. sama mánaðar. Er ekki ágreiningur um að uppsagnarfrestinum hafi lokið 31. júlí 2002 og að áfrýjandi hafi tekið sumarleyfi tvo síðustu mánuði ráðningartímans.

Eftir að ráðningu áfrýjanda lauk samkvæmt framansögðu reis ágreiningur milli stefnda og nafngreinds verksala um uppgjör vegna byggingar sem stefndi hafði reist og áfrýjandi starfað við. Leitaði stefndi liðsinnis áfrýjanda til að undirbúa af sinni hálfu málarekstur vegna þessa ágreinings. Jafnframt hélt áfrýjandi til streitu kröfu sinni um greiðslu vegna ógreiddrar yfirvinnu umfram fyrrgreind viðmiðunarmörk, sem hann hafði hreyft fyrir starfslok sín. Ritaði áfrýjandi stefnda tölvubréf 28. ágúst 2002 þar sem hann fjallaði bæði um væntanleg verkefni sín vegna ágreinings stefnda við fyrrnefndan verksala og kröfur sínar vegna yfirvinnu fyrir lok ráðningarsamningsins. Fylgdi nefndu tölvubréfi yfirlit áfrýjanda um yfirvinnu sem hann taldi sýna að stefndi ætti ógreidd sem svaraði 6,74 mánaðarlaunum af þessum sökum. Átti áfrýjandi fund með fyrirsvarsmanni stefnda í Kaupmannhöfn 20. september 2002 og símtal í framhaldi af honum þar sem bæði þessi mál voru til umræðu. Eru aðilar ekki sammála um hver orðið hafi niðurstaða þessara samtala.

Þann 26. september 2002 sendi forsvarsmaður stefnda áfrýjanda tölvubréf. Fylgdu því drög að samkomulagi á ensku, sem áfrýjandi var beðinn að taka afstöðu til. Var í drögunum bæði vísað til fyrrgreinds ráðningarsamnings aðila og uppsagnarbréfs. Skyldi stefndi greiða áfrýjanda grunnlaun hans (basis salary) 530.420 krónur frá því að starfi hans lauk 31. júlí 2002 til 28. febrúar 2003. Var tekið fram að áfrýjandi ætti engar frekari kröfur á stefnda þar á meðal ekki kröfur vegna greiðslu fyrir yfirvinnu eða ótekið orlof. Jafnframt var tekið fram að áfrýjandi tæki að sér til febrúar 2003 að vinna að kröfugerð stefnda vegna tveggja tilgreindra verkefna og skyldi hann enga greiðslu fá fyrir þau störf umfram það sem að framan væri rakið.

Þann 30. september svaraði áfrýjandi fyrrgreindu tölvubréfi stefnda. Kvaðst hann geta samþykkt samningsdrögin með einni minniháttar breytingu. Fylgdi tölvubréfi þessu framangreindur texti samkomulagdraganna með þeirri breytingu einni að auk grunnlauna skyldi stefndi greiða lífeyrisiðgjald (pension fund fee as specified). Daginn eftir sendi áfrýjandi stefnda enn tölvubréf. Tók hann fram að eftir að hafa lesið tillögu stefnda aftur væri hann ekki viss um að hann skilji hvað felist í grunnlaunum (basis salary). Væri sinn skilningur að hann skyldi fá laun samkvæmt fyrrgreindum starfssamningi aðila til 28. febrúar 2003. Til að koma í veg fyrir misskilning hafi hann breytt texta samkomulagsins sem sendist hjálagður. Spurði hann hvort stefndi gæti fallist á þetta. Fylgdi tölvubréfi þessu texti samningsdraganna orðréttur eins og hann hafði fylgt tölvubréfi áfrýjanda daginn áður þó þannig að strikað var yfir málsgreinina þar sem fjallað var um greiðslu grunnlauna auk lífeyrisiðgjalda en þess í stað bætt við málsgrein þess efnis að áfrýjandi skyldi á umræddu tímabili fá greitt í samræmi við starfssamning hans. Ekki verður séð að stefndi hafi svarað þessu tölvubréfi. Ítrekaði áfrýjandi með tölvubréfi 27. október 2002 þann skilning sinn að hann skyldi halda fullum launum samkvæmt starfssamningnum til febrúarloka 2003.

Ágreiningur reis með aðilum. Höfðaði áfrýjandi mál þetta í héraði með stefnu 22. apríl 2003. Var aðalkrafa hans, auk málskostnaðarkröfu, þríþætt. Í fyrsta lagi að stefndi yrði dæmdur til að greiða sér orlof vegna tímabilsins frá 1. maí 2002 til febrúarloka 2003 auk lífeyrissjóðsgreiðsla af því, samtals 809.179 krónur. Í öðru lagi krafðist hann greiðslu á reikningi vegna ráðgjafarvinnu í ágúst til desember 2002 að fjárhæð 3.513.171 króna vegna undirbúnings málsóknar á hendur fyrrgreindum verkkaupa. Í þriðja lagi krafðist hann að viðurkennt yrði að stefnda bæri að halda sér skaðlausum af kröfum sem á hann kynnu að falla vegna byggingastjórnar á tilteknu verkefni. Sýknaði héraðsdómur stefnda af öllum kröfum áfrýjanda.

II.

Fyrir Hæstarétti krefst áfrýjandi orlofs á sama hátt og hann gerði í héraði en unir að öðru leyti við niðurstöðu héraðsdóms. Eins og að framan er rakið fjölluðu aðilar í samskiptum sínum haustið 2002 annars vegar um væntanlega vinnu áfrýjanda fyrir stefnda við undirbúning málsóknar á hendur tilgreindum verkkaupa og endurgjald fyrir hana og hins vegar um uppgjör vegna ráðningarsambands aðila sem lauk 31. júlí 2002. Eru að framan meðal annars rakin tölvubréfasamskipti aðila á tímabilinu 26. september 2002 til 1. október sama árs. Verður að telja að um greiðslu fyrir framangreinda tvo þætti hafi komist á með aðilum samningur með efni þeirra samningsdraga er fylgdu síðara bréfi áfrýjanda 1. október 2002. Verður ekki séð að stefndi hafi gert athugasemdir við þann skilning áfrýjanda sem skýrlega var orðaður bæði í tölvubréfinu þann dag og samningsdrögunum er því fylgdu. Samkvæmt því skyldi stefndi greiða áfrýjanda laun í samræmi við starfssamning aðila frá 31. júlí 2002 til 28. febrúar 2003. Samkvæmt 8. gr. starfssamningsins skyldi um greiðslu orlofs fara eftir „almennum kjarasamningum og áunnum réttindum.” Ber stefnda samkvæmt því að greiða áfrýjanda orlof fyrir það sjö mánaða tímabil, sem þetta samkomulag tekur til. Ekki verður á hinn bóginn talið að áfrýjanda hafi tekist að sanna að stefndi eigi óuppgert orlof vegna þeirrar ráðningar hans er lauk 31. júlí 2002. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti andmælti stefndi tölulegum forsendum fyrir útreikningi orlofskröfu  áfrýjanda. Verður að fallast á með áfrýjanda að þau mótmæli séu allt of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með síðari breytingum. Verður orlofskrafa áfrýjanda því tekin til greina vegna framangreinds tímabils og stefndi dæmdur til að greiða honum 566.446 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Eftir atvikum verður málskostnaður í héraði felldur niður en stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, MT Højgaard Íslandi ehf., greiði áfrýjanda, Kristni Baldurssyni, 566.446 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2003 til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði fellur niður.

Stefndi greiði áfrýjanda 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2004.

I

Málið var þingfest 8. maí  2003 og dómtekið 26. janúar sl.

Stefnandi er  Kristinn Baldursson, Lindarbergi 8, Hafnarfirði.

Stefndi er  M T Höjgaard Íslandi ehf., Vegmúla 3, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 809.179 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu frá 1. mars 2003 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi þess að stefndi greiði sér 3.513.171 krónu ásamt dráttarvöxtum frá 2. janúar 2003 til greiðsludags.  Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefnda beri að halda sér skað­laus­um af sérhverri hugsanlegri kröfu er kynni að falla á hann sem byggingarstjóra fast­eignarinnar fraktmiðstöð Flugleiða á Keflavíkurflugvelli.  Þá er krafist máls­kostn­aðar.  Til vara krefst stefnandi þess að stefndi greiði sér 4.540.891 krónu ásamt drátt­ar­vöxtum frá 1. janúar 2003 til greiðsludags.  Í öðru lagi er gerð sama krafa varðandi störf stefnanda við byggingarstjórn framangreindrar fasteignar.  Þá er krafist máls­kostnaðar.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

II

Í stefnu er svo skýrt frá málavöxtum, að stefnandi hafi verið ráðinn sem verk­efna­stjóri til stefnda frá 1. október 2000 að telja.  Verkefni stefnanda til að byrja með hafi verið tilboðsgerð og ráðgjöf en í lok október 2000 hafi hann tekið að sér að vera bygg­ingarstjóri við byggingu fraktmiðstöðvar Flugleiða á Keflavíkurflugvelli.  Sam­kvæmt ákvæði í starfssamningi stefnanda átti ekki að greiða honum sérstök laun fyrir yfir­vinnu í allt að 35 stundir á mánuði en yfirvinna umfram þann tímafjölda skyldi greidd með lengingu orlofs.  Vegna mikils vinnuálags sömdu aðilar um launaauka 5. maí 2001 þar sem kveðið var á um að stefndi greiddi stefnanda í peningum 1 mánuð af yfir­­vinnu, er stefnandi hafði unnið umfram umsaminn stundafjölda.  Að öðru leyti átti að vera óbreytt tilhögun varðandi greiðslu fyrir yfirvinnu umfram 35 stundir á mánuði.

Eftir að fraktmiðstöðin hafði verið afhent hafi stefnanda verið falin verkefni í Svíþjóð en hann hafi unnið að uppgjöri vegna fraktmiðstöðvarinnar að hluta til sam­hliða þessum verkefnum.  Í apríl 2002  var haldinn verkfundur vegna verkefna í Svíþjóð og að honum loknum tilkynnti framkvæmdastjóri stefnda stefnanda að segja þyrfti honum upp vegna verkefnaskorts.   Uppsagnarfresturinn var 3 mánuðir og lauk starfi stefnanda hjá stefnda því 31. júlí 2002.  

Stefnandi kveður sér aldrei hafa borist formlegt uppsagnarbréf frá stefnda en hann hafi sent framkvæmdastjóranum tölvupóst í maí 2002 og óskað eftir því að gengið yrði frá uppgjöri vegna starfslokanna og bent á rétt sinn til greiðslu vegna yfir­vinnu.  Í maí og júní þetta ár vann stefnandi að síðasta verkinu í Svíþjóð og vann að verk­efnum hér á landi, svo sem varðandi byggingu fraktmiðstöðvarinnar.  Í júní og júlí tók hann sér síðan sumarfrí.

Í ágúst 2002 hafi komið í ljós að mikill ágreiningur var á milli stefnda og Flug­leiða hf.  um uppgjör vegna byggingarinnar og að frekari vinnu væri þörf til að undir­búa kröfugerð stefnda á hendur Flugleiðum hf.  Þar sem stefnanda hafði ekki borist svar við erindi sínu frá því í maí, skrifaði hann stefnda bréf 28. ágúst og óskaði svara við því hvort stefndi óskaði eftir aðstoð sinni varðandi framangreinda vinnu.  Hann kynnti einnig stefnda kröfu sína um greiðslu 910 yfirvinnutíma sem jafngiltu greiðslu 6,74 mán­aðarlauna. 

Stefnandi kveður að í framhaldi af þessu hafi sér verið falið að sinna málum varðandi uppgjörið við Flugleiðir hf. í sam­vinnu við lögmann og starfsmann stefnda.  Var í upphafi áætlað að vinnu stefnanda yrði lokið í nóvember.

Í september 2002 kveðst stefnandi hafa hitt fulltrúa stefnda á fundi  og gert honum ljóst að forsenda fyrir því að hann mundi veita stefnda aðstoð vegna upp­gjörs­ins og undirbúnings kröfugerðar á hendur Flugleiðum hf., væri að stefndi gerði upp við hann vegna starfsloka.  Í símtali í framhaldi af fundinum hafi svo verið umsamið að stefndi greiddi stefnanda laun út febrúarmánuð í samræmi við það er áður greinir um óút­tekið orlof.  Í framhaldi af fundinum áttu sér stað tölvupóstsamskipti á milli aðila og svo virtist sem stefndi hefði ekki í hyggju að stefnandi héldi óbreyttum kjör­um út febrúar­mánuð heldur fengi einungis greidd föst laun.  Í október gerði stefnandi stefnda grein fyrir því að hann treysti sér ekki til að halda áfram vinnunni við grein­ar­gerð­ina, sem hann hafi tekið að sér að vinna í framhaldi af samkomulaginu um starfs­lok, fyrr en uppgjör vegna starfslokanna væri að fullu frágengið.  Stefnandi kveður stefnda hafa greitt sér full laun út febrúarmánuð 2003 og hafi hann þannig uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samkomulaginu frá 2002 að öðru leyti en því að ógreitt sé orlof ásamt lífeyrissjóðsgjaldi.  Krefur stefnandi stefnda um greiðslu þess og sundurliðar kröfu sína svo:

 

Kr. 546.384 x 10 x 13,65%                                             kr.           745.787

Lífeyrissjóður 6%                                                         kr.             44.747

Viðbótarlífeyrisframlag 2,5%                                      kr.             18.645

                                    Samtals                                      kr.           809.179

 

Stefnandi skýrir svo frá að hann hafi haldið áfram að vinna að greinargerðinni vegna upp­gjörsins við Flugleiðir hf. en hún hafi reynst umfangsmeiri en áætlað var í fyrstu.  Hann hafi gert stefnda reikning í janúar 2003 vegna vinnu sinnar en stefndi hafi mót­mælt greiðsluskyldu og virtist telja að stefnandi hafi tekið að sér þessa vinnu án sérstakrar greiðslu.  Stefnandi kveður að slíkt hafi aldrei verið ætlun sín enda hafi hann átt inni greiðslur hjá stefnda er hafi numið nærri sjö mánaðarlaunum.  Stefnandi hefur lagt fram reikning að fjárhæð 3.513.171 króna sem hann krefst greiðslu á.

Í varakröfunni krefur stefnandi stefnda um greiðslu vegna eldri yfirvinnu í 6,74 mán­uði, sbr. það sem rakið var hér að framan, og sundurliðar kröfu sína svo:

 

Greiðsla vegna eldri yfirvinnu

kr. 546.364 x 6,74                                                        kr.           3.682.493

orlof kr. 3.682.493 x 13,65%                                      kr.              502.660

                                  Samtals                                     kr.           4.185.153

Lífeyrissjóður 6%                                                      kr.              251.109

Viðbótarlífeyrisframlag 2,5%                                   kr.              104.629

                                   Samtals                                    kr.           4.540.891

 

Í greinargerð stefnda kemur fram að ekki er ágreiningur með aðilum um að upp­sagn­­arfresti stefnanda lauk 31. júlí 2002.  Eftir sumarleyfi stefnanda í júní og júlí það ár hafi hann unnið við undirbúning kröfumála og úttektir á byggingu frakt­mið­stöðvar­innar.  Í lok ágúst hafi stefnandi sent stefnda bréf þar sem hann hafi fyrst kynnt þá yfir­vinnu sem hann kvaðst hafa unnið og vildi fá uppgerða.  Þá óskaði hann enn fremur eftir afstöðu stefnda til þess hvort vinnu hans væri óskað áfram við þau sér­verk­efni sem talað var um og vinna var hafin við.  Á fundi stefnanda og for­svars­manns stefnda í lok september 2002 hafi stefnanda verið tjáð að ekki væri fallist á tíma­skráningu hans á yfirvinnu og að vinnuskýrslur hafi ekki verið kynntar yfir­mönn­um stefnda.   Þessi yfirvinna hafi því aldrei verið samþykkt.  Eftir fundinn  hafi aðilar átt með sér fund þar sem stefndi hafi boðið stefnanda, í þeim tilgangi að leysa málið, að hann fengi laun til loka febrúar 2003 og að stefnandi ætti að vinna þá vinnu fyrir stefnda, sem nauðsynleg væri, vegna kröfumála í sambandi við framangreint verk­efni.  Öll nauðsynleg vinna stefnanda við þessi verkefni átti að vera innifalin í sam­komu­laginu.  Á þetta hafi stefnandi fallist og mál þeirra til lausnar á upp­gjörs­málum vegna launa stefnanda og vinnuskyldu hans hafi þar með verið til lykta leidd.

Haustið 2002 hafi aðilar síðan átt í tölvupóstsamskiptum, sem hafi staðfest í einu og öllu framangreint samkomulag að teknu tilliti til breytingatillagna stefnanda, sem stefndi kveðst hafa fallist á.

III

Kröfu sína um greiðslu orlofs byggir stefnandi á því að stefndi hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samningi aðila frá september 2002 að öðru leyti en því að ógreitt sé orlof fyrir það orlofsár ásamt lífeyrissjóðsgjaldi af því.  Kröfu sinni til stuðn­ings vísar stefnandi til laga um orlof nr. 30/1987.  Kröfu um greiðslu líf­eyr­is­sjóðs­fram­lags byggir hann á samningi aðila og lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu líf­eyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Kröfuna um skaðleysisyfirlýsinguna byggir stefnandi á því að hann hafi tekið að sér þetta starf hjá stefnda sem starfsmaður hans, en stefndi beri alla ábyrgð á verkinu gagnvart sér.

Kröfu sína um greiðslu reiknings fyrir ráðgjafarvinnu byggir stefnandi á því að hann hafi með samningi við stefnda tekið að sér sem verktaki að gera greinargerðina og beri sér greiðsla fyrir þá vinnu.  Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til megin­reglna samningaréttarins.

Varakröfu sína byggir stefnandi á því, verði ekki fallist á kröfu hans um greiðslu samkvæmt reikningi, að líta verði svo á að vinnan hafi verið unnin í ráðn­ing­ar­sam­bandi aðila og sé ljóst að stefndi hafi því framlengt ráðningarsamning hans.  Þeim samn­ingi hafi ekki verið sagt upp með lögmætum hætti og eigi því stefnandi kröfu til greiðslu samkvæmt honum, í það minnsta kröfu til greiðslu vegna yfir­vinn­unnar.

 

Stefndi byggir á því að hann hafi greitt stefnda umsamin laun til loka febrúar 2003 og eigi stefnandi því engar frekari kröfur á hann.  Inni í þessum launagreiðslum hafi verið falin vinna stefnanda við kröfugerð vegna Flugleiða hf. og annars.  Þessi vinna hafi verið skilgreind í viðræðum og á fundum aðila.  Í samkomulagi þeirra komi skýrt fram að umfram launagreiðslurnar eigi stefnandi engar frekari kröfur á hendur stefnda, hverju nafni sem þær nefnist, svo sem kröfur um greiðslu fyrir yfirvinnu eða kröfur vegna ótekins orlofs.  Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnandi hafi staðfest sam­­komulag þeirra og eftir það þegið greiðslur mánaðarlega frá stefnda án at­huga­semda og ekki sett fram neinar kröfur um frekari greiðslur.  Það hafi ekki verið fyrr en 9. janúar 2003 sem stefnda hafi borist reikningur frá stefnanda vegna þeirrar vinnu sem samið hafði verið um að greidd yrði með áðurnefndum launagreiðslum til loka febrúar 2003.

Sýknukröfu sína varðandi þá kröfu stefnanda að honum verði haldið skaðlausum vegna byggingarstjóraábyrgðar hans byggir stefndi á því, að stefnandi hafi fengið greitt fyrir þessa vinnu og hafi þar með tekist á hendur þá ábyrgð sem að lögum fylgi því starfi.  Þá liggi ekkert fyrir um kröfur vegna byggingarinnar og sé krafa stefnanda því vart dómtæk.

Í þinghaldi 11. september sl. lét lögmaður stefnanda bóka eftirfarandi: "Í tilefni af máls­­ástæðum í greinargerð stefnda tekur stefnandi fram að kæmist dómurinn af ein­hverjum ástæðum að þeirri niðurstöðu að á hefði komist samningur milli aðila um starfs­­lok og að stefnda hefði ekki borið að greiða sérstaklega fyrir vinnu þá sem stefn­andi krefst greiðslu á með framlögðum reikningi, væri sá samningur óskuld­bindandi fyrir stefnanda með vísun til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.  Bæri því dóm­inum að víkja honum til hliðar í heild eða að hluta."

Lögmaður stefnda óskaði þá bókað að hann mótmælti þessarri nýju málsástæðu og hún væri of seint fram komin.

IV

Aðila greinir ekki á um að stefndi hafi sagt stefnanda upp störfum í apríl 2002 og samkvæmt því hafi hann lokið störfum hjá stefnda 31. júlí það ár.  Það er enn fremur ágreiningslaust að stefnandi var áfram við störf hjá stefnda, eins og lýst var.  Í september 2002 sömdu aðilar munnlega um starfslok stefnanda og greiddi stefndi honum laun til febrúarloka 2003 samkvæmt samningnum og taldi sig þar með lausan allra mála gagnvart stefnanda.  Launin hafi átt að vera fyrir vinnu stefnanda á tíma­bil­inu frá 1. ágúst og til febrúarloka.  Stefnandi heldur því hins vegar fram að með þess­um launagreiðslum hafi stefndi verið að gera upp við sig orlof, er stefnandi hafi átt inni hjá honum og hafi samsvarað nær 7 mánaða launum. 

Þótt starfslokasamningur stefnanda hafi ekki verið gerður skriflega liggja fyrir gögn, er gengu á milli aðila og þeir eru sammála um að varði aðdraganda samn­ings­gerð­arinnar.  Í bréfi stefnanda til stefnda í lok ágúst 2002 kemur fram að hann telur sig eiga inni framangreint orlof.  Í bréfum, sem gengu á milli aðila eftir þann tíma, þ.e. í september og október, kemur hins vegar fram að stefndi samþykkir að greiða stefn­anda laun til loka febrúar 2003 og eftir þann tíma eigi stefnandi engar kröfur á hendur stefnda, hverju nafni sem þær nefnist.  Enn fremur kemur fram í þessum gögnum að stefnandi muni vinna að tveimur verkefnum fyrir stefnda hér á landi og er annað þeirra tengt byggingu fraktmiðstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli.  Í þessum síðari gögnum kemur hvergi fram að með starfslokasamningnum sé verið að gera upp við stefnanda vegna orlofsins, enda er því haldið fram af hálfu stefnda að hann hafi aldrei samþykkt þá kröfu stefnanda.  Þá hafa engin gögn verið lögð fram, sem sýna að stefnandi hafi mót­mælt þeim skilningi stefnda að með launagreiðslum til hans fram til febrúarloka hafi honum verið greitt fyrir störf sín við framangreind verkefni. 

Það er stefnanda að sanna þá málsástæðu sína að með greiðslum samkvæmt starfs­lokasamningi hans hafi stefndi verið að greiða honum fyrir framangreint orlof.  Til stuðnings henni hefur hann ekki fært annað fram en eigin framburð og gögn, sem stafa frá honum einum.  Önnur gögn málsins bera hins vegar með sér að með starfs­loka­samningnum hafi að fullu átt að gera upp við stefnanda, þar með talið líf­eyr­is­sjóðs­iðgjald með orlofi, svo og fyrir þá vinnu, sem hann átti að vinna á tímabilinu, sem starfslokasamningurinn náði til.  Það er því niðurstaða dómsins að stefnandi hafi ekki sannað að honum beri frekari greiðslur úr hendi stefnda og er öllum fjárkröfum hans því hafnað.

Stefnandi bar fyrst fram í þinghaldi 11. september sl. þá málsástæðu að víkja bæri samn­ingi aðila til hliðar með vísun til 36. gr. samningalaganna.  Stefndi mótmælti því að þessi nýja málsástæða kæmist að.  Með vísun til 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála getur þessi málsástæða stefnanda því ekki komið til álita við úr­lausn málsins.

Stefnandi var í starfi sínu hjá stefnda byggingarstjóri fraktmiðstöðvar Flugleiða hf. á Keflavíkurflugvelli.  Um byggingarstjóra, störf þeirra og ábyrgð er fjallað í 51. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Í 3. mgr. segir að byggingarstjóri sé fram­kvæmdastjóri byggingarframkvæmda og þar er einnig kveðið á um að hann skuli hafa ábyrgðartryggingu, er gildi í a.m.k. fimm ár frá lokum framkvæmda.  Síðan segir að um ábyrgð byggingarstjóra fari eftir samningi hans og eiganda bygg­ing­ar­fram­kvæmda.  Eigandinn hér er væntanlega Flugleiðir hf. og ber stefnanda því að beina kröf­um sínum að félaginu.  Lagaskilyrði skortir því til að verða við kröfu stefnanda um að stefndi haldi honum "skað­laus­um af sérhverri hugsanlegri kröfu er kynni að falla á hann sem byggingarstjóra fast­eignarinnar fraktmiðstöð Flugleiða á Kefla­vík­ur­flug­velli" og er stefndi sýknaður af henni.

Samkvæmt framangreindum málsúrslitum skal stefnandi greiða stefnda 200.000 krónur í málskostnað.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð

Stefndi, MT Höjgaard Íslandi ehf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Kristins Baldurs­sonar, og skal stefnandi greiða stefnda 200.000 krónur í málskostnað.