Hæstiréttur íslands

Mál nr. 202/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárskipti
  • Opinber skipti


Mánudaginn 8

 

Mánudaginn 8. maí 2006.

Nr. 202/2006.

M

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

gegn

K

(Svala Thorlacius hrl.)

 

Kærumál. Fjárskipti. Opinber skipti.

Ekki var talið að M hefði sýnt fram á að skilyrði væru til þess, við opinber skipti til fjárslita milli hans og K, að víkja frá meginreglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 um helmingaskipti. Hjúskapur þeirra hafði staðið í 8 ár og þau ekki gert með sér kaupmála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. apríl 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. mars 2006, þar sem leyst var úr nánar tilgreindum ágreiningsefnum í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli aðilanna vegna hjónaskilnaðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Kröfugerð sóknaraðila hljóðar þannig: „Aðallega að viðurkennt verði að skáskiptareglur 104. gr. hjúskaparlaga skuli gilda um skiptin þannig: Að við opinber skipti til fjárslita milli aðila verði viðurkennt að sóknaraðili fái í sinn hlut 83% af heildarsöluverði fasteignarinnar að A, að frádregnum 63% af eftirstöðvum láns við Lífeyrissjóð verslunarmanna sem tekið var 1994 og að frádregnum 63% af eftirstöðvum þeirra húsnæðisstjórnarlána sem yfirtekin voru við kaup eignarinnar 1994 og að varnaraðili fái í sinn hlut 17% af heildarsöluverði sömu fasteignar að frádregnum 37% af eftirstöðvum láns við Lífeyrissjóð verslunarmanna sem tekið var 1994 og að frádregnum 37% af eftirstöðvum þeirra húsnæðisstjórnarlána sem yfirtekin voru við kaup eignarinnar 1994.

Til vara að viðurkennt verði að skáskiptareglur 104. gr. hjúskaparlaga skuli gilda við skiptin þannig: Að við opinber skipti til fjárslita milli aðila verði viðurkennt að sóknaraðili fái í sinn hlut 80% af heildarsöluverði fasteignarinnar að A, að frádregnum 50% af eftirstöðvum láns við Lífeyrissjóð verslunarmanna sem tekið var 1994 og að frádregnum 50% af eftirstöðvum þeirra húsnæðisstjórnarlána sem yfirtekin voru við kaup eignarinnar 1994 og að varnaraðili fái í sinn hlut 20% af heildarsöluverði sömu fasteignar að frádregnum 50% af eftirstöðvum láns við Lífeyrissjóð verslunarmanna sem tekið var 1994 og að frádregnum 50% af eftirstöðvum þeirra húsnæðisstjórnarlána sem yfirtekin voru við kaup eignarinnar 1994.

Til þrautavara að viðurkennt verði að skáskiptareglur 104. gr. hjúskaparlaga skuli gilda við skiptin þannig: Að við opinber skipti til fjárslita milli aðila verði viðurkennt að sóknaraðili fái í sinn hlut 70% af heildarsöluverði fasteignarinnar A, að frádregnum 50% af eftirstöðvum þeirra húsnæðisstjórnarlána sem yfirtekin voru við kaup eignarinnar 1994 og að varnaraðili fái í sinn hlut 30% af heildarsöluverði sömu fasteignar að frádregnum öllum eftirstöðvum láns við Lífeyrissjóð verslunarmanna sem tekið var 1994 og að frádregnum 50% af eftirstöðvum þeirra húsnæðisstjórnarlána sem yfirtekin voru við kaup eignarinnar 1994.

Til þrautaþrautavara að viðurkennt verði að skáskiptareglur 104. gr. hjúskapalaga skuli gilda við skiptin þannig að sóknaraðili fái í sinn hlut meira en 50% af heildarsöluverðmæti fasteignarinnar og að varnaraðili fái í sinn hlut minna en 50% af heildarsöluverðmæti fasteignarinnar skv. mati dómsins þó þannig að eftirstöðvar áhvílandi láns hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna sem tekið var 1994 dragist einvörðungu frá eignarhluta varnaraðila og að eftirstöðvar áhvílandi húsnæðisstjórnarlána sem yfirtekin voru við kaup eignarinnar 1994 skiptist að jöfnu milli aðila.

Til þrautaþrautaþrautavara að viðurkennt verði að skáskiptareglur 104. gr. hjúskapalaga skuli gilda við skiptin þannig að sóknaraðili fái í sinn hlut meira en 50% af heildarsöluverðmæti fasteignarinnar og að varnaraðili fái í sinn hlut minna en 50% af heildarsöluverðmæti fasteignarinnar skv. mati dómsins þó þannig að eftirstöðvar áhvílandi láns hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna sem tekið var 1994 og eftirstöðvar áhvílandi húsnæðisstjórnarlána sem yfirtekin voru við kaup eignarinnar 1994 skiptist að jöfnu milli aðila.

Í öllum tilvikum er þess jafnframt krafist að:

1.             Skuld sóknaraðila, að fjárhæð kr. 152.205, teljist hjúskaparskuld hans og dragist frá hjúskapareign hans.

2.             Aðrar áhvílandi skuldir á fasteigninni en þær sem til var stofnað árið 1994 í tengslum við kaup hennar skiptist að jöfnu milli aðila án tillits til niðurstöðu vegna krafna um skáskipti og dragist frá eignarhluta hvors um sig í búinu, hver sem hann verður.“

Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 200.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. mars 2006.

Mál þetta, sem er til komið vegna ágreinings við opinber skipti til fjárslita milli málsaðila vegna hjónaskilnaðar, var þingfest 7. október 2005 og tekið til úrskurðar 21. febrúar 2006.

Sóknaraðili er M, [heimilisfang].

Varnaraðili er K, [heimilisfang].

I.

Af hálfu sóknaraðila eru gerðar eftirfarandi dómkröfur.

Aðallega að viðurkennt verði að skáskiptareglur 104. gr. hjúskaparlaga skuli gilda um skiptin þannig:

Að við opinber skipti til fjárslita milli aðila verði viðurkennt að sóknaraðili fái í sinn hlut 83% af heildarsöluverði fasteignarinnar að A, að frádregnum 63% af eftirstöðvum láns við Lífeyrissjóð verslunarmanna sem tekið var 1994 og að frádregnum 63% af eftirstöðvum þeirra húsnæðisstjórnarlána sem yfirtekin voru við kaup eignarinnar 1994 og að varnaraðili fái í sinn hlut 17% af heildarsöluverði sömu fasteignar að frádregnum 37% af eftirstöðvum láns við Lífeyrissjóð verslunarmanna sem tekið var 1994 og að frádregnum 37% af eftirstöðvum þeirra húsnæðisstjórnarlána sem yfirtekin voru við kaup eignarinnar 1994.

Til vara að viðurkennt verði að skáskiptareglur 104. gr. hjúskaparlaga skuli gilda við skiptin þannig:

Að við opinber skipti til fjárslita milli aðila verði viðurkennt að sóknaraðili fái í sinn hlut 80% af heildarsöluverði fasteignarinnar að A, að frádregnum 50% af eftirstöðvum láns við Lífeyrissjóð verslunarmanna sem tekið var 1994 og að frádregnum 50% af eftirstöðvum þeirra húsnæðisstjórnarlána sem yfirtekin voru við kaup eignarinnar 1994 og að varnaraðili fái í sinn hlut 20% af heildarsöluverði sömu fasteignar að frádregnum 50% af eftirstöðvum láns við Lífeyrissjóð verslunarmanna sem tekið var 1994 og að frádregnum 50% af eftirstöðvum þeirra húsnæðisstjórnarlána sem yfirtekin voru við kaup eignarinnar 1994.

Til þrautavara að viðurkennt verði að skáskiptareglur 104. gr. hjúskaparlaga skuli gilda við skiptin þannig:

Að við opinber skipti til fjárslita milli aðila verði viðurkennt að sóknaraðili fái í sinn hlut 70% af heildarsöluverði fasteignarinnar að A, að frádregnum 50% af eftirstöðvum þeirra húsnæðisstjórnarlána sem yfirtekin voru við kaup eignarinnar 1994 og að varnaraðili fái í sinn hlut 30% af heildarsöluverði sömu fasteignar að frádregnum öllum eftirstöðvum láns við Lífeyrissjóð verslunarmanna sem tekið var 1994 og að frádregnum 50% af eftirstöðvum þeirra húsnæðisstjórnarlána sem yfirtekin voru við kaup eignarinnar 1994.

Til þrautaþrautavara að viðurkennt verði að skáskiptareglur 104. gr. hjúskapalaga skuli gilda við skiptin þannig að sóknaraðili fái í sinn hlut meira en 50% af heildarsöluverðmæti fasteignarinnar og að varnaraðili fái í sinn hlut minna en 50% af heildarsöluverðmæti fasteignarinnar skv. mati dómsins þó þannig að eftirstöðvar áhvílandi láns hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna sem tekið var 1994 dragist einvörðungu frá eignarhluta varnaraðila og að eftirstöðvar áhvílandi húsnæðisstjórnarlána sem yfirtekin voru við kaup eignarinnar 1994 skiptist að jöfnu milli aðila.

Til þrautaþrautaþrautavara að viðurkennt verði að skáskiptareglur 104. gr. hjúskapalaga skuli gilda við skiptin þannig að sóknaraðili fái í sinn hlut meira en 50% af heildarsöluverðmæti fasteignarinnar og að varnaraðili fái í sinn hlut minna en 50% af heildarsöluverðmæti fasteignarinnar skv. mati dómsins þó þannig að eftirstöðvar áhvílandi láns hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna sem tekið var 1994 og eftirstöðvar áhvílandi húsnæðisstjórnarlána sem yfirtekin voru við kaup eignarinnar 1994 skiptist að jöfnu milli aðila.

Í öllum tilvikum er þess jafnframt krafist að:

3.  Skuld sóknaraðila, að fjárhæð kr. 152.205, teljist hjúskaparskuld hans og dragist frá hjúskapareign hans.

4.  Aðrar áhvílandi skuldir á fasteigninni en þær sem til var stofnað árið 1994 í tengslum við kaup hennar skiptist að jöfnu milli aðila án tillits til niðurstöðu vegna krafna um skáskipti og dragist frá eignarhluta hvors um sig í búinu, hver sem hann verður.

Jafnframt gerir sóknaraðili kröfu um að varnaraðili greiði honum málskostnað með hliðsjón af síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættu álagi vegna 24,5% virðisaukaskatts.

Af hálfu varnaraðila eru gerðar eftirfarandi dómkröfur:

1.    Að um skipti aðila fari skv. meginreglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 um helmingaskipti á hreinum hjúskapareignum.

    2. Að hafnað verði að skuld sóknaraðila, að fjárhæð kr. 152.205,-, teljist hjúskaparskuld hans og dragist frá hjúskapareign hans.

Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi sóknaraðila, að viðbættri fjárhæð sem nemur virðisaukaskatti.

II.

Aðilar máls þessa hófu sambúð á árinu 1990 og gengu í hjónaband [...] 1997. Fæddist þeim einn sonur á árinu 1991. Slitu þau samvistum í lok ársins 2004.

Í máli þessu deila aðilar annars vegar um hvort beita eigi helmingaskiptareglu eða skáskiptareglum hjúskaparlaga nr. 31/1993 við skipti á búi þeirra og hins vegar um hvort skuld sóknaraðila að fjárhæð152.205 krónur teljist hjúskaparskuld hans og skuli dragast frá hjúskapareign hans.

Með úrskurði héraðsdóms Reykjaness þann 28. júní 2005 var að beiðni sóknaraðila kveðinn upp úrskurður um að fram skildu fara opinber skipti til slita á fjárfélagi aðila og var Steinunn Guðbjartsdóttir, hrl., skipuð skiptastjóri. Sættir voru reyndar af hálfu skiptastjóra en án árangurs og var málefninu þá beint til héraðsdóms Reykjaness, sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991, með bréfi skiptastjóra þann 12. september 2005.

III.

Málavextir horfa þannig við sóknaraðila að hann hafi keypt fasteignina B í mars 1987 en varnaraðili hafi flust til hans í upphafi sambúðar aðila. Heldur sóknaraðili því fram að hann hafi einn komið að fjármögnun framkvæmda við B. Í september 1994 hafi sóknaraðili keypt lóð við C en kaupin hafi hann fjármagnað sjálfur með eigin fé og lánsfé frá foreldrum sínum. Lóðina að C hafi sóknaraðili svo selt þegar hann hafi keypt lóðina að A en kaupsamningur vegna eignarinnar hafi verið gerður 1. mars 1994. Kaupverð A hafi verið 18.500.000 krónur. Seljandi hafi tekið fasteign sóknaraðila að B upp í kaupin á 14.000.000 krónur en nettósöluandvirði eignar sóknaraðila 10.496.902 hafi runnið beint til kaupanna að A. Til viðbótar hafi sóknaraðili lagt fram 1.600.00 krónur en auk þessa hafi kaupin verið fjármögnuð með lántökum. Kaupsamningur hafi verið skráður á báða málsaðila í eignarhlutföllunum 70% í eigu sóknaraðila og 30% í eigu varnaraðila og hafi sömu eignarhlutföll verið tilgreind í afsali. Þessi tilgreining á eignarhlutum hafi komið þannig til að frá því að kauptilboð hafi verið gert og þar til kaupsamningur hafi verið gerður hafi aðilar ákveðið hvort þeirra teldist hafa lagt hvað til fjármögnunar á húsinu.

Varnaraðili hafi ákveðið að selja íbúð þá sem hún átti að 82,67% hluta og hafi verið fyrirhugað að hún myndi greiða með sínum hluta í andvirði þeirrar íbúðar til kaupanna að A. Að beiðni varnaraðila hafi sóknaraðili fallist á að láta eignarhlutföll enda í 70:30 þó reiknuð hlutföll hefðu verið heldur hærri hjá sóknaraðila og lægri hjá varnaraðila. Ekki hafi tekist að selja íbúð varnaraðila fyrr en í apríl 1996.

Heldur sóknaraðili því fram að fyrst eftir að aðilar hafi ákveðið að slíta samvistum hafi verið samkomulag um að virða þinglýst eignarhlutföll, enda um það talað alla tíð milli aðila að þau myndu gilda þrátt fyrir hjúskaparstofnunina. Varnaraðili hafi síðan ákveðið að krefjast helmingaskipta. Aðilar hafi gert með sér samkomulag þann 23. mars 2005 sem falið hafi í sér að vegna sölu fasteignarinnar kæmu 50% nettósöluandvirðis í hlut sóknaraðila, 30% í hlut varnaraðila en 20% skyldu greiðast inn á biðreikning meðan ágreiningur aðila yrði til lykta leiddur.

IV.

Sóknaraðili byggir kröfur sínar aðallega á því að helmingaskipti í samræmi við 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 væru honum bersýnilega ósanngjörn í skilningi 1. mgr. 104. gr. sömu laga. Til vara byggir sóknaraðili kröfur sínar á því að víkja eigi frá helmingaskiptum á grundvelli 2. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga. Telur sóknaraðili að skilyrði fyrir beitingu skáskiptareglna á grundvelli annað hvort 1. eða 2. mgr. 104. gr. hjúskaparlega séu skýrlega uppfyllt.

Sóknaraðili byggir á því að samkvæmt 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 megi víkja frá reglum um helmingaskipti ef skipti yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna. Til nánari skýringar sé tilgreint í ákvæðinu að þetta eigi einkum við þegar tekið sé tillit til fjárhags hjónanna og lengdar hjúskapar. Til viðbótar segi svo að þetta geti einnig átt við ef annað hjóna hafi flutt í búið verulega miklu meira en hitt við hjúskaparstofnun. Telur sóknaraðili að með þessum skýringum sé löggjafinn að benda á hvað skuli horfa á við beitingu sanngirnismælikvarðans.

Sóknaraðili telur sig með þeim tölulegu staðreyndum sem hann hefur rakið í greinargerð og í málflutningi hafa sýnt fram á að varnaraðili geti aldrei talist hafa lagt meira fram en 30% til fjármögnunar A. Með því eignarhlutfalli sé meira að segja gengið út frá forsendu sem standist ekki, þ.e. að varnaraðili hafi ein greitt þau veðlán sem mynduðu þennan eignarhluta. Sóknaraðili telji sig þannig hafa sýnt fram á að hann hafi flutt í búið verulega meira en varnaraðili við hjúskaparstofnunina og því beri að beita skáskiptum þar sem annað sé honum bersýnilega ósanngjarnt, sbr. 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga. Til frekari rökstuðnings bendi sóknaraðili á að í skýringum með ákvæðinu sé sérstaklega tekið fram að skáskipti á grundvelli þess að annað hjóna hafi flutt í búið við hjúskaparstofnun verðmæti sem séu verulega miklu meiri en þau er frá hinu stafa séu ekki einskorðuð við að hjúskapur hafi verið skammvinnur. Vegna kröfu hans um skáskipti eigi því ekki að horfa á það þótt hjúskapur aðila hafi staðið frá 1997 heldur eigi að horfa á það hver eignarstaða aðila hafi verið við upphaf hjúskapar og hvernig hún yrði ef meginreglu um helmingaskipti yrði beitt.

Með þeim tölulegu staðreyndum sem sóknaraðili hefur reifað telur hann sig hafa sýnt fram á að varnaraðili hafi í raun enga fjármuni látið af hendi rakna vegna kaupa á A aðra en 1.148.391 krónur (á verðlagi 1998) á sama tíma og sóknaraðili hafi látið af hendi rakna 12.096.902 krónur (á verðlagi 1994). Helmingaskipti leiði til þess að fjárframlag sóknaraðila næði því varla að hafa tvöfaldast á þessum tíma, að teknu tilliti til þeirra skulda sem til hafi verið stofnað eða yfirteknar hafi verið við kaupin 1994. Helmingaskipti leiði á hinn bóginn til þess að fjárframlag varnaraðila hafi liðlega átjánfaldast að teknu tilliti til þeirra skulda sem til hafi verið stofnað eða yfirteknar hafi verið við kaupin 1994. Þessi munur sem helmingaskiptareglan leiði af sér sé sóknaraðila svo bersýnilega ósanngjarn að víkja verði henni til hliðar og beita heimild 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga um skáskipti.

Til vara byggir sóknaraðili á ákvæðum 2. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga. Þar sé gert ráð fyrir að frávik frá helmingaskiptum geti komið til þegar annað hjóna hafi stuðlað verulega að aukningu á þeirri fjáreign sem falla ætti hinu hjónanna í skaut. Rök fyrir því að þessu ákvæði verði beitt séu í raun þau sömu og fyrir beitingu 1. mgr. 104. gr., þ.e. að helmingshlutdeild varnaraðila sé í raun og veru að mestu til komin vegna greiðslna frá sóknaraðila.

Til viðbótar byggir sóknaraðili kröfu sína um skáskipti á því að ef ekki verði fallist á þau þá leiði helmingaskipti til þess að varnaraðili hafi í raun auðgast úr hófi á hjúskapnum miðað við þau fjárframlög sem hún hafi lagt af mörkum til eignamyndunarinnar. Tilgangur helmingaskiptareglu sé ekki sá og undanþágureglur um skáskipti séu einmitt til þess að tryggja að óeðlilegur hagnaður myndist ekki hjá öðru hjóna sem verulega minna hafi lagt fram af eignum við hjúskaparstofnun.

Lagarök fyrir einstökum kröfuliðum séu öll þau sömu, þ.e. að skáskiptum eigi að beita þar sem skilyrðum 1. eða 2. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga sé fullnægt. Allar kröfur sóknaraðila byggi á því að viðurkennt verði að skáskiptareglur 104. gr. hjúskaparlaga skuli gilda um skiptin. Einnig byggir sóknaraðili allar kröfur á því að áhvílandi lán á fasteigninni, önnur en þau sem yfirtekin hafi verið eða tekin við kaupin 1994 teljist sameiginleg hjúskaparlán aðila og skiptist að jöfnu milli þeirra, ekki þó af brúttóandvirði fasteignarinnar heldur af endanlegum eignarhluta hvors um sig.

Aðalkrafa miðist við það að sóknaraðili fái í sinn hlut 83% af söluverðmæti eignarinnar. Sé það í samræmi við upphaflegt fjárframlag sóknaraðila og hans raunverulega hlut í afborgunum lána sem tekin hafi verið og yfirtekin hafi verið við kaupin 1994. Sóknaraðili geri þannig til samræmis einnig kröfu um að hann verði talinn bera ábyrgð á 63% af eftirstöðvum láns við Lífeyrissjóð verslunarmanna sem tekið hafi verið 1994 og 63% af eftirstöðvum þeirra húsnæðisstjórnarlána sem yfirtekin hafi verið við kaup eignarinnar 1994. Af aðalkröfunni leiði, verði fallist á hana, að varnaraðili fái í sinn hlut 17% af heildarsöluverði sömu fasteignar að frádregnum 37% af eftirstöðvum þeirra lána sem tekin hafi verið og yfirtekin við kaupin 1994.

Varakrafa miðist við það að sóknaraðili fái í sinn hlut 80% af söluverðmæti eignarinnar. Sé það í samræmi við upphaflegt fjárframlag sóknaraðila og að hann hafi greitt helming í afborgunum lána sem tekin hafi verið og yfirtekin hafi verið við kaupin 1994. Sóknaraðili geri þannig til samræmis einnig kröfu um að hann verði talin bera ábyrgð á helmingi af eftirstöðvum láns sem tekin hafi verið og yfirtekin hafi verið kaupin 1995. Af varakröfunni leiði, verði fallist á hana, að varnaraðili fái í sinn hlut 20% af heildarsöluverði sömu fasteignar að frádregnum helmingi eftirstöðva þeirra lána sem tekin hafi verið og yfirtekin hafi verið við kaupin 1994.

Þrautavarakrafa miðist við það að sóknaraðili fái í sinn hlut 70% af söluverðmæti eignarinnar. Sé það í samræmi við þinglýst eignarhlutföll. Í ljósi forsendna þinglýstra eignarhlutfalla krefjist sóknaraðili þess jafnframt að hann beri eingöngu ábyrgð á 50% eftirstöðva þeirra húsnæðislána sem yfirtekin hafi verið við kaup eignarinnar 1994. Af þrautavarakröfu leiði, verði fallist á hana, að varnaraðili fái í sinn hlut 30% af heildarsöluverði sömu fasteignar að frádregnum öllum eftirstöðvum láns við Lífeyrissjóð verslunarmanna sem tekið hafi verið 1994 og að frádregnum 50% af eftirstöðvum þeirra húsnæðisstjórnarlána sem yfirtekin hafi verið við kaup eignarinnar 1994. Þetta hafi verið forsendur þinglýstra eignahlutfalla og sóknaraðili telji að við þær verði að miða.

Þrautaþrautavarakröfu byggir sóknaraðili á því að dómurinn ákveði hvaða eignarhlutfall umfram 50% sóknaraðili skuli fá í sinn hlut en þó þannig að viðurkennt verði að frá þeim eignarhluta sem dómurinn ákveði sóknaraðila dragist einvörðungu helmingur eftirstöðva áhvílandi yfirtekinna húsnæðisstjórnarlána frá árinu 1994. Með sama hætti dragist frá þeim hlut sem dómurinn ákveði varnaraðila (lægri en 50%) bæði helmingur af eftirstöðvum yfirtekinna húsnæðisstjórnarlána frá árinu 1994 og allar eftirstöðvar áhvílandi láns hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna.

Þrautaþrautaþrautavarakrafan sé hin sama og þrautaþrautavarakrafan að öðru leyti en því að þar sé þess jafnframt krafist að allar eftirstöðvar lána sem tekin hafi verið og yfirtekin hafi verið við kaupin 1994 dragist að jöfnu frá auknum helmingshlut sóknaraðila og skertum helmingshlut varnaraðila.

Í öllum tilvikum sé þess jafnframt krafist að skuld sóknaraðila, að fjárhæð 152.205 krónur, teljist hjúskaparskuld hans og dragist frá hjúskapareign hans, sbr. 100. gr. hjúskaparlaga. Skuldin sé vegna sektar sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði hafi gert sóknaraðila að greiða sökum ölvunaraksturs hans þann 11. nóvember 2004.  Þar sem skuldin hafi verið orðin til fyrir viðmiðunardag skipta, 11. janúar 2005, telji sóknaraðili eðlilegt og réttmætt að draga sektarfjárhæðina frá hjúskapareign hans, sbr. 1. mgr. 101. gr. hjúskaparlaga.

Kröfu um málskostnað byggir sóknaraðili á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. Kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988.

V.

Málavextir horfa þannig við varnaraðila að við upphaf sambúðar hafi hún átt fyrir 86.77% hlut í tveggja herbergja íbúð að D og nýlega bifreið. Hús sóknaraðila að B hafi ekki verið fullbúið þegar varnaraðili hafi flutt inn til hans og hún tekið þátt í að innrétta húsið og staðið með honum að eignamyndun með því að leggja fjármuni fram til þess.

Fjárhagur aðila hafi frá upphafi verið sameiginlegur og allar tekjur aðila runnið til greiðslu útgjalda heimilisins án tillits til þess um hvorn aðila átti í hlut. Sama hafi gilt um afborganir á lánum og greiðslur vegna framkvæmda. Varnaraðili hafi alla tíð unnið utan heimilis og aflað tekna og oft verið í fleiri en einu starfi samtímis. Þá hafi hún fengið leigutekjur af íbúð sinni að D allt til ársins 1996 og allur ágóði runnið til heimilisins, m.a. til framkvæmda að B. Þá hafi varnaraðili notið meðlagsgreiðslna, mæðralauna og barnabóta nær allan hjúskapartímann. Byggir varnaraðili á því að hún hafi haft hærri tekjur en sóknaraðili að undanskyldum tekjuárunum 2003 til 2004.

Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðili hafi einn staðið að kaupunum á lóð við C, en aðilar hafi í sameiningu endurgreitt 400.000 króna lán sem móðir sóknaraðila hafi látið í té til kaupanna. Auk þessa hafi varnaraðili greitt af 1.045.015 króna skuldabréfi sem hafi verið hluti af greiðslu á kaupverði lóðarinnar.

Í mars 1994 hafi fasteignin að B verið seld og aðilar keypt einbýlishús að A. Þá hafi húsið verið ófrágengið. Varnaraðili hafi verið þinglýstur eigandi að 30% en sóknaraðili 70% eignarhluta í A. Þegar kaupin hafi átt sér stað hafi varnaraðili enn verið eigandi íbúðar að D og hafi það verið samkomulag aðila að þinglýsa eignarhlutföllum í A með þeirri skiptingu en þegar varnaraðili hafi selt íbúð sína yrðu eignarhlutföllin jöfn. Í apríl 1996 hafi varnaraðili selt íbúð sína að D og söluandvirði hennar gengið upp í greiðslur vegna hússins að A. Mótmælir varnaraðili fullyrðingum sóknaraðila um að andvirði íbúðarinnar hafi ekki gengið til kaupanna og bendir á að leigutekjur íbúðarinnar hafi ávallt runnið til reksturs heimilisins, þ.m.t. greiðslna vegna kaupanna á A og afborgana á lánum hússins. Varnaraðili mótmælir því einnig að söluandvirði íbúðarinnar hafi runnið til kaupa á bifreið en aðilar hafi keypt bifreið á sambúðartímanum sem hafi ávallt verið á nafni sóknaraðila. Sóknaraðili hafi ávallt stjórnað fjármálum heimilisins og tekið flestar ákvarðanir þar um.

Aðilar hafi ekkert rætt um að tilteknar eignir yrðu séreignir við hjónabandsstofnunina, heldur hafi verið gengið út frá því að eignir búsins væru sameiginlegar. Mótmælir varnaraðili því að samkomulag hafi verið milli aðila að þinglýst eignarhlutföll skyldu standa þrátt fyrir hjúskapinn heldur hafi það verið skilningur aðila að fasteignin væri í helmings eigu hvors um sig.

VI.

Varnaraðili byggir á því að um skipti aðila skuli fara eftir meginreglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, eða hinni svokölluðu helmingaskiptareglu. Samkvæmt ákvæðinu skuli hvor maki um sig eiga tilkall til helmings úr skírri hjónabandseign hins nema annað leiði af ákvæðum laga.

Varnaraðili byggir á því að 104. gr. hjúskaparlaga feli í sér undantekningarreglu frá meginreglu 103. gr. laganna sem samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum beri að túlka þröngri skýringu. Vísar varnaraðili í því sambandi til dómvenju um mjög þrönga túlkun ákvæðisins og telur eingöngu heimilt að beita því í algerum undantekningatilvikum við mjög sérstakar aðstæður. Slíkar aðstæður séu ekki fyrir hendi í þessu máli.

Ákvæði 104. gr. hjúskaparlaga geri ráð fyrir að heimilt sé að víkja frá meginreglu 103. gr. hjúskaparlaga ef skipti samkvæmt meginreglunni teljist bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna. Varnaraðili hafni því algerlega að sýnt hafi verið fram á slíkt og bendi á að sóknaraðili beri alfarið sönnunarbyrði fyrir þeim fullyrðingum sínum og með hliðsjón af þröngri skýringu ákvæðisins verði að gera ríkar sönnunarkröfur í því sambandi.

Samkvæmt dómvenju um skýringu á 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga beri að leggja heildstætt mat á aðstæður hverju sinni og hvort helmingaskipti skv. meginreglu 103. gr. hjúskaparlaga séu bersýnilega ósanngjörn hverju sinni. Í því sambandi beri sérstaklega að líta til vísireglna 1. mgr. 104. gr. um lengd hjúskapar, fjárhag hjóna og hvort annar aðili hafi lagt mun meira til búsins við hjúskaparstofnun.

Ljóst sé að aðilar máls þessa hafi verið lengi í samvistum eða í 15 ár og þar af á áttunda ár í hjúskap. Í málinu sé jafnframt óumdeilt að fjárhagur þeirra hafi frá upphafi verið sameiginlegur og fjárhagsleg samstaða allan sambúðartímann. Hafi varnaraðili því greitt til jafns við sóknaraðila af áhvílandi lánum, sem og fyrir aðra útgjaldaliði heimilisins, óháð því hver hafi til þeirra stofnað. Verði því ekki á nokkurn hátt séð að það geti talist ósanngjarnt miðað við lengd hjúskapar og lengd fjárhagslegrar samstöðu að eignir skiptist að jöfnu. Þvert á móti myndi önnur niðurstaða teljast ósanngjörn fyrir varnaraðila.

Varnar- og sóknaraðili hafi allan tímann bæði unnið úti sem og hafi leigugreiðslur af íbúð varnaraðila runnið til heimilisins meðan þeirra naut við. Í greinargerð sóknaraðila sé sett fram yfirlit yfir tekjur aðila. Samkvæmt henni hafi tekjur varnaraðila verið að meðaltali á bilinu 35 – 46% af tekjum heimilisins. Í umræddri samantekt sé hins vegar ekki gerð grein fyrir leigutekjum af íbúð varnaraðila að D. Þá sé látið hjá líða að minnast á meðlags- og mæðralaunagreiðslur sem varnaraðili hafi fengið greiddar vegna eldri dóttur sinnar sem og barnabætur vegna hennar. Sé því ekki óvarlegt að ætla að varnaraðili hafi lagt jafn mikið til heimilisins og sóknaraðili fram til ársins 1996, m.a. á því tímabili þegar að kaupin á A hafi átt sér stað. Í þessu sambandi sé vísað til þess að í bréfi lögmanns sóknaraðila til dómsmálaráðuneytisins, dags. 18. maí 2005, komi fram að að undanskyldum tekjuárunum 2003 til 2004 hafi varnaraðili haft hærri tekjur en sóknaraðili. Með hliðsjón af þessum fullyrðingum sóknaraðila verði því að telja algerlega ósannað að hann hafi verið tekjuhærri en varnaraðili á sambúðar- og hjúskaparárum aðila.

Varnaraðili hafi jafnframt lagt talsverðar eignir inn í búið. Hafi hún lagt talsverða fjármuni í innréttingar og frágang að utan og innan vegna fasteignarinnar B. Hafi stofnast við það eignarhluti í fasteigninni. Einnig hafi varnaraðila borið hlutdeild í hækkun á verðmæti fasteignarinnar á þeim tíma sem hún hafi verið í eigu aðila. Varnaraðili hafi jafnframt tekið verulegan þátt í fjármögnun hinnar umdeildu fasteignar að A, m.a. að því leyti að söluandvirði íbúðar hennar að D, samtals kr. 1.440.969 krónur, hafi runnið til kaupanna. Þá hafi söluandvirði lóðar aðila að C runnið til kaupanna á húsinu að A en eins og áður hafi verið rakið hafi varnaraðili einnig lagt fjármuni í kaup hennar. Auk alls þessa hafi hún greitt af áhvílandi lánum og tekið verulegan þátt í frágangi á fasteigninni A, þ.m.t. baðherbergi og lóð og lagt fjármuni til þeirra framkvæmda.

Fullyrðingum sóknaraðila um fjármögnun kaupanna sé hins vegar mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Í því sambandi sé á það bent að samkvæmt töflu 1. í greinargerð sóknaraðila sé t.d. algerlega litið fram hjá eignarhluta varnaraðila í B sem stofnast hafi með framlagi hennar til framkvæmda við húsið, sem og afborgunum af lánum. Jafnframt sé algerlega litið framhjá hlutdeild hennar í fyrrnefndri lóð að C og þeirrar staðreyndar að söluandvirði D hafi runnið til kaupanna. Umræddir útreikningar sóknaraðila séu því að engu hafandi.

Með hliðsjón að framangreindu verði því ekki með nokkru móti séð að sýnt hafi verið fram á að sóknaraðili hafi lagt mun meiri hreina eign við upphaf hjúskapar, heldur en varnaraðili, enda eignarstaða óvefengjanlega mjög samofin eftir langa fjárhagslega samstöðu og vaxandi eignarmyndun á þeim tíma.

Til frekari stuðnings kröfu varnaraðila sé á það bent að ekki hafi verið gerður kaupmáli um eignarhald á fasteignum við stofnun hjúskapar, sem bendi eindregið til þess að aðilar hafi litið svo á að eignir búsins væri sameiginlegar. Verði að telja að sóknaraðila hafi verið í lófa lagið að fara fram á slíkt teldi hann að eignarhald á eignum búsins ætti ekki að skiptast til helminga, eða samkvæmt meginreglu hjúskapalaga. Bendi því ekkert til þess að umræddum eignum hafi verið ætlað að standa utan fjárfélags aðila.

Að öllu þessu virtu sé því ljóst að engin skilyrði séu til þess að beita ákvæðum 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga um skipti aðila og beri því að skipta heinum söluhagnaði fasteignarinnar A, eftir meginreglu 103. gr. laganna um helmingaskipti.

Mótmælt sé málsástæðu sóknaraðila um að beita eigi skáskiptum á grundvelli 2. mgr. 104. gr. hjúskapalaga, með vísan til þess sem hér hafi verið rakið.

Forsendum aðal-, vara- og þrautavarakrafna sóknaraðila um prósentuskiptingu söluandvirðisins sé harðlega mótmælt. Vísist hvað það varði til framangreindra forsendna. Í því sambandi sé einnig á það bent að aðal- og varakrafa sé í andstöðu við samkomulag sem sóknaraðili hafi sjálfur undirritað þann 23. mars 2005 um tímabundna ráðstöfun á söluandvirði fasteignarinnar A. Verði að telja sóknaraðila í öllu falli bundinn við ákvæði umrædds samkomulags.

Varðandi kröfur sóknaraðila um helmingaskipti á lánum, teknum fyrir 1994, telji varnaraðili það óskiljanlegt hvernig það megi vera að varnaraðili beri að greiða helming áhvílandi lána en ekki teljast helmings eigandi þeirrar fasteignar sem þau hvíla á og fjármögnuð hafi verið með töku þeirra. Byggir varnaraðili á að hlutdeild í áhvílandi lánum á fasteigninni A verði að byggja á eignarhlutföllum.

Varnaraðili hafni kröfu sóknaraðila um að skuld vegna ölvunaraksturs sóknaraðila, að fjárhæð 152.205 krónur, teljist hjúskaparskuld með vísan til 2. mgr. 106. gr. hjúskaparlaga. Samkvæmt umræddu ákvæði skuli skuldir sem annað hjóna hafi bakað sér með vanhirðu eða með annarri óhæfilegri aðferð, því aðeins koma til frádráttar sem hjúskaparskuld að önnur efni maka hrökkvi ekki til greiðslu þeirra.

Byggi varnaraðili á því að sóknaraðili hafi bakað sér umrædda skuld með óhæfilegri aðferð í skilningi ákvæðisins. Ljóst sé að skuldin sé tilkomin vegna alvarlegs refsilagabrots sóknaraðila, sem teljist óhæfileg aðferð í skilningi ákvæðisins.

Þá byggi varnaraðili einnig á því að efni sóknaraðila hrökkvi ótvírætt til greiðslu umræddrar skuldar en samkvæmt skattframtali hafi laun sóknaraðila árið 2004 verið samtals 4.592.200 krónur.

Að öllu þessu virtu telji varnaraðili að ölvunarakstursskuld sóknaraðila falli ótvírætt undir 2. mgr. 106. gr. hjúskaparlaga og því verði hún ekki dregin frá hjúskapareignum sóknaraðila, sbr. 1. mgr. 106. gr. hjúskaparlaga.

Að öðru leyti vísar varnaraðili til ákvæða laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og ákvæða 103., 104. og 106. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Hvað varði málskostnað sé byggt á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr., sbr. 84. gr. laga nr. 90/1989.

V.

Sóknaraðili og varnaraðili gáfu bæði skýrslu fyrir dómi. Aðilar deila aðeins um hvernig beri að skipta fasteigninni að A við fjárskipti aðila og hvort draga skul skuld vegna ölvunaraksturs sóknaraðila frá hjúskapareign aður en skipt er. Meginregla íslenskra hjúskaparlaga við fjárskipti til skilnaðar er hin svokallaða helmingaskiptaregla, sbr. 4. mgr. 109. gr. skiptalaga nr. 21/1991 og 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Frá helmingaskiptareglu er þó heimiluð undantekning leiði beiting hennar til ósanngjarnrar niðurstöðu fyrir annað hjóna. Samkvæmt viðurkenndum lögskýringarsjónarmiðum ber að skýra undantekningarreglu hjúskaparlaga þröngri skýringu sem frávik frá meginreglu og þá ber að líta til þess að í samræmi við dómvenju ber sóknaraðili sönnunarbyrði þess að skilyrði skáskipta séu fyrir hendi við fjárslit aðila máls þessa.

Í máli þessu heldur sóknaraðili því fram að beiting helmingaskiptareglu við skipti til fjárslita milli hans og varnaraðila yrðu honum bersýnilega ósanngjörn eins og hann hefur rakið að framan. Við mat á því hvort víkja beri frá helmingaskiptareglunni með skáskiptum ber einkum að líta til fjárhags hjóna og lengdar hjúskapar, hvort annar makinn hafi við upphaf hjúskapar átt verulega miklu meira en hinn og hvort annar makinn hafi með vinnu sinni eða á annan hátt stuðlað verulega að aukningu á þeirri fjáreign sem falla myndi hinum í skaut eða hefur átt hlut að því að bæta fjáreign hans að öðru leyti. Niðurstaða um hvort víkja beri frá helmingaskiptareglu ræðst þó af heildarmati dómara á þessum atriðum og fleirum.

Lengd hjúskaps aðila voru tæp átta ár, en áður höfðu aðilar verið í sambúð í sjö ár. Hefur komið fram fyrir dóminum að aðilar greiddu báðir af þeim lánum sem notuð voru til að fjármagna kaupin á lóðinni að C sem og seinna vegna fasteignarinnar að A. Varnaraðili sá að mestu um heimilishald á meðan á sambúð og hjónabandi stóð. Af þeim gögnum sem fyrir liggja sem og skýrslum aðila er ljóst að veruleg fjárhagsleg samstaða hafði skapast með aðilum málsins á sambúðar- og giftingartíma. Þá hefur ekki verið sýnt fram á af hálfu sóknaraðila að sameiginlegur skilningur aðila hafi verið að þinglýst eignarhlutföll hefðu átt að halda þrátt fyrir hjúskaparstofnunina en aðilum var í lófa lagið að gera með sér kaupmála um eignarhlutföll í fasteigninni að A hefðu þeir eigi viljað láta meginreglu íslenskra laga um skipti eigna milli hjóna við skilnað gilda um hana.

Samkvæmt því sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að ekki verði fallist á að skáskiptareglur hjúskaparlaga skv. 104. gr. laganna skuli gilda við fjárskipti aðila. Ber því að fylgja meginreglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, enda ekki talið að með því verði að telja skiptin bersýnilega ósanngjörn fyrir sóknaraðila.

Hvað varðar skuld sóknaraðila vegna ölvunaraksturs ber til þess að líta að hvert hjóna um sig ber aðeins ábyrgð á eigin skuldum, hvort sem þær stofnast fyrir eða eftir stofnun hjúskapar, sbr. 4. gr. og 67. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Umrædd meginregla gildir, með þeim undantekningum sem mælt er fyrir um í lögunum, án tillits til þess hvernig til skuldarinnar hefur stofnast og gildir m.a. um sektarrefsingar. Verður að líta svo á að tilurð þessarar skuldar hafi verið með þeim hætti að sóknaraðili hafi með óhæfilegri aðferð stofnað til hennar og gildi því um hana 2. mgr. 106. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.  Verður því hafnað þeirri kröfu sóknaraðila að umrædda skuld teljist hjúskaparskuld hans og dragist frá hjúskapareign hans.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Við opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila, M, og varnaraðila, K, skal fara samkvæmt meginreglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 um helmingaskipti á hreinum hjúskapareignum.

Því er hafnað að skuld sóknaraðila að fjárhæð kr. 152.205 dragist frá hjúskapareign.

Málskostnaður fellur niður