Hæstiréttur íslands

Mál nr. 109/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


Föstudaginn 2

 

Föstudaginn 2. apríl 2004.

Nr. 109/2004.

Kaupþing Búnaðarbanki hf.

(Helgi Sigurðsson hrl.)

gegn

Bernhard ehf.

(enginn)

 

Kærumál. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Heimild brast til kæru KB hf. á tilteknum atriðum héraðsdóms sem komu til eftir að aðalmeðferð málsins var hafin. Var málinu því vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. febrúar 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. mars sama árs. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 17. febrúar 2004, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Skúli J. Pálmason héraðsdómari viki sæti í máli, sem varnaraðili hefur höfðað gegn sóknaraðila. Jafnframt er kærður „úrskurður“ héraðsdómarans sama dag að varnaraðila sé heimilt að bera fyrir sig tiltekna málsástæðu í máli aðilanna. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til a. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hin kærða ákvörðun og hinn kærði „úrskurður“ verði felldur úr gildi.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka, en héraðsdómarinn hefur sent Hæstarétti athugasemdir sínar um kæruefnið.

         Þau atriði, sem sóknaraðili hefur kært til Hæstaréttar, komu til eftir að aðalmeðferð málsins var hafin. Af framlögðu endurriti úr þingbók verður hvorki séð að málflutningur hafi farið fram um kröfu sóknaraðila að héraðsdómari viki sæti í málinu, né að úrskurður um hana hafi verið kveðinn upp í samræmi við ákvæði 3. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt ótvíræðu orðalagi 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 eru það einvörðungu úrskurðir héraðsdómara um nánar tiltekin efni, sem sæta kæru til Hæstaréttar, en ekki annars konar yfirlýsingar hans um þau. Þá eru heimildir til kæru þrengri eftir að aðalmeðferð máls er hafin samkvæmt 2. mgr. 143. gr. laganna. Sama hvernig á málið er litið brestur heimild fyrir kæru sóknaraðila vegna þeirra atriða sem um er deilt. Kemur þá ekki til þess að skera sérstaklega úr um það með hvaða heimild héraðsdómari varð við þeirri kröfu að kveða upp úrskurð vegna fram kominnar málsástæðu varnaraðila í stað þess að taka afstöðu til hennar við efnisúrlausn málsins. Samkvæmt öllu framanröktu verður málinu vísað frá Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.