Hæstiréttur íslands

Mál nr. 284/2002


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjá
  • Gjafsókn
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. nóvember 2002.

Nr. 284/2002.

K

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

gegn

M

(Sigurður Jónsson hrl.)

 

Börn. Forsjá. Gjafsókn. Sératkvæði.

K krafðist að sér yrði dæmd forsjá barnanna X, 10 ára, og Y, 7 ára, til átján ára aldurs þeirra en M hafði farið með forsjána í tæplega tvö ár samkvæmt samningi þeirra í milli sem gerður var vegna tímabundins vanda K. Tekið var fram að það væri mat þeirra sálfræðinga sem hefðu komið að málinu að báðir foreldrar væru hæfir til að fara með forsjá barnanna. Talið var að félagslegar aðstæður móður væru góðar en hún væri í hjúskap með manni sem börnunum virtist líka vel og byggi í sömu íbúð og börnin voru í áður en þau fluttu til föður. Þá væri hún heimavinnandi og hefði því nægan tíma til að hugsa um börnin. Félagslegar aðstæður föður væru hins vegar nokkuð ótryggar en sambúðarkona hans annaðist börnin að mestu leyti þar sem vinnudagur hans væri langur. Væru tengsl barnanna mun sterkari við móður en föður auk þess sem það væri eindreginn vilji telpunnar sem er 10 ára gömul að búa hjá móður. Þá væru tengsl systkinanna sterk og ekki ráðlegt að skilja þau að. Við flutning til móður myndu börnin fara á sitt gamla heimili í umhverfi sem þau þekktu vel og ættu þar vini og leikfélaga auk þess sem telpan myndi fara í sinn gamla skóla og væri engin ástæða til að ætla að hún myndi ekki fá þar þann stuðning sem hún þyrfti við námið. Enn fremur byggju foreldrar K í næsta nágrenni en þeir hefðu veitt K og börnunum mikinn og góðan stuðning. Þegar litið væri til alls þessa yrði að telja að þær breytingar hefðu orðið á aðstæðum móður að skilyrðum 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 20/1992 um breytingu á forsjá væri fullnægt og hagsmunum og þörfum barnanna væri best borgið með því að fela henni forsjá þeirra, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga. Hins vegar væri afar mikilvægt að börnunum yrði tryggður rúmur umgengnisréttur við föður sinn.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason. Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 18. júní 2002. Hún krefst þess, að sér verði dæmd forsjá barnanna X og Y til átján ára aldurs þeirra. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og ekki væri um gjafsóknarmál að ræða.

Ný skjöl hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.

I.

Eins og fram kemur í héraðsdómi bjuggu aðilar máls þessa saman frá byrjun árs 1992 þar til upp úr sambúð slitnaði líkast til á árinu 1999, en aðila greinir á um hvenær það var. Þau eignuðust tvö börn, X, f. 1992, og Y, f. 1995. Eftir sambúðarslit voru börnin í forsjá móður sinnar þar til þau fluttust til stefnda sumarið 2000. Ástæða þess var sú, að áfrýjandi, sem haldin er meðfæddum meltingarsjúkdómi og hafði frá unga aldri margsinnis þurft að gangast undir skurðaðgerðir og fengið sterk deyfilyf, var farin að misnota lyfin, en þar til í janúar 2000 segist hún aðeins hafa notað lyf samkvæmt læknisráði. Hún segist hafa hætt neyslu allra lyfja af sjálfsdáðum í júlí 2000, er hún fór í sumarfrí til X-lands til systur sinnar, sem þar býr, en þar var hún einnig frá september til nóvember sama ár. Þar kynntist hún [...] manni, sem hún er gift í dag. Í desember 2000 misnotaði hún lyf í tvær vikur og fór þá enn til X-lands, þar sem hún dvaldist þar til í febrúar 2001. Hún fór í vímuefnameðferð í 10 daga til SÁÁ [...] 2001. Því er ómótmælt, að hún hafi hvorki neytt lyfja frá læknum né ólöglegra vímugjafa frá því í desember 2000.

 Í desember 2000 undirrituðu aðilar samning þess efnis, að stefndi fengi forsjá barnanna og áfrýjandi skyldi greiða meðlag með þeim. Var samningur þessi staðfestur af sýslumanninum í Reykjavík 6. febrúar 2001. Áfrýjandi kom aldrei fyrir sýslumann og var henni ekki leiðbeint um réttaráhrif samningsins, svo sem skylt er samkvæmt 4. mgr. 33. gr. barnalaga nr. 20/1992. Hinn 29. mars 2001 fór áfrýjandi þess á leit við sýslumanninn í Reykjavík, að hann tæki forsjármálið upp að nýju. Sýslumaður ákvað 6. júlí sama ár, að forsjáin skyldi vera óbreytt hjá stefnda og staðfesti dómsmálaráðuneytið síðan ákvörðun sýslumanns 3. apríl 2002, þrátt fyrir verulega annmarka á henni. Mál þetta höfðaði áfrýjandi fyrir Héraðsdómi Suðurlands 16. maí 2001.

II.

Í héraðsdómi er ítarleg grein gerð fyrir skýrslu Álfheiðar Steinþórsdóttur og Odda Erlingssonar sálfræðinga 21. desember 2001, sem könnuðu forsjárhæfni foreldranna og tengsl þeirra við börnin svo og aðstæður þeirra. Sálfræðingarnir komust að þeirri niðurstöðu, að báðir foreldrar væru hæfir til að fara með forsjá barnanna. Móðir var talin næmari en faðir á þarfir barnanna og atlæti, sem þau þurfa. Hafi hún hvatt föður til að hafa meiri umgengni við börnin, þegar hún hafði forsjá þeirra. Neikvæðir þættir í fari móður séu saga hennar um alvarlega misnotkun lyfja og aðeins eitt ár liðið frá því að henni var hætt, og stuttur tími sé liðinn frá stofnun hjúskapar með nýjum maka. Sterkar hliðar föður séu einkum þær, að hann hafi getað boðið börnunum ákveðið öryggi í tæp tvö ár og hafi aðstoðað dóttur sína í námi í samvinnu við kennara. Neikvæðir þættir séu fyrst og fremst tímaleysi hans sjálfs til að vera með börnum sínum vegna starfs síns, þannig að sambúðarkona hans sjái nær alveg um að sinna líkamlegum þörfum barnanna og atlæti á heimilinu. Að því er varðar aðstæður foreldra og barna búi móðir í eigin húsnæði í Reykjavík, þar sem börnin áttu heima áður en þau fluttust til föður, og þekki þau því vel allar aðstæður og eigi vini og leikfélaga þar. Þá búi foreldrar móður í næsta nágrenni og mikið samband sé við þá. Eiginmaður móður vinni fulla vinnu og hafi tengst börnunum ágætlega. Faðir hafi frá því í mars 2001 búið í sveit hjá frænda sambúðarkonu sinnar, en hún sé ráðskona á búi hans. Þar búi einnig tveggja ára sonur þeirra og tveir synir hennar, en faðir vinni utan búsins og sé vinnudagur hans langur. Óvissa sé um framtíðarbúsetu fjölskyldunnar og félagsleg einangrun nokkur vegna búsetunnar. Á fjölskyldutengslaprófi komi fram, að jákvæðar tilfinningar í garð móður séu afgerandi og ráðandi hjá telpunni og tengsl systkinanna séu náin og gagnkvæm. Telpunni líki vel í skóla og virðist njóta mikillar aðstoðar í námserfiðleikum í samvinnu sálfræðings, kennara og föður. Líklegt sé, að hún þurfi sérfræðingsaðstoð framvegis. Drengurinn laði sig ágætlega að umhverfi sínu og gangi vel í skóla. Hann sé bæði tengdur föður og sambúðarkonu hans en lýsi einnig þörf fyrir umhyggju móður og hafi mikinn áhuga á að tengjast manni hennar frekar.

Oddi Erlingsson lýsti því fyrir dómi, að áfrýjandi hafi fyrst farið að misnota lyf í janúar 2000, þótt hún hafi neytt mikilla lyfja á fimm ára tímabili þar áður, en það hafi verið samkvæmt læknisráði. Ekki sé rétt að tala um misnotkun fyrr en hún fari sjálf að stýra neyslunni og skammta sér lyfin. Það sé ekkert í hennar eðli, sem bendi til þess, að hún sé fíkill að upplagi heldur virðist notkunin fyrst og fremst vera vegna eða í tengslum við veikindi hennar.

Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, komst að þeirri niðurstöðu, að staða áfrýjanda væri enn ekki það traust, að rétt væri að breyta forsjá barnanna og að ekki hafi verið sýnt fram á að slíkar breytingar hafi orðið á aðstæðum aðila, að réttlætt gæti breytingu á forsjá.

III.

Eftir að héraðsdómur gekk fór áfrýjandi þess á leit, að dómkvaddur yrði matsmaður, sem legði mat að nýju á félagslegar aðstæður barnanna, andlega líðan þeirra, tengsl þeirra við foreldrana og hæfni þeirra sem uppalenda. Var Ragna Ólafsdóttir sálfræðingur dómkvödd til starfans og hefur matsgerð hennar 30. október 2002 verið lögð fyrir Hæstarétt svo og endurrit vitnamáls 11. nóvember sl., er sálfræðingurinn kom fyrir Héraðsdóm Suðurlands. Sálfræðingurinn vísaði um margt til þeirrar matsgerðar, sem fyrir lá í málinu og taldi ekki ástæðu til að endurtaka þau hefðbundnu próf, sem þar höfðu verið lögð fyrir, að öðru leyti en því, að nauðsynlegt þótti að endurtaka fjölskyldutengslapróf til að kanna hvort aðrar niðurstöður fengjust úr því, þar sem meiri reynsla væri komin á það hvernig börnin aðlagist því að búa hjá föður og hitta móður að jafnaði á hálfs mánaðar fresti frá föstudegi til sunnudags.

Samkvæmt Bene-Anthony fjölskyldutengslaprófi, sem lagt var fyrir telpuna koma fram mjög sterk jákvæð tengsl við móður. Hún fær nánast öll jákvæðu skilaboðin, sem endurspegla mikla ást og væntumþykju til móður. Heildartengsl við föður eru lítil. Hann fær örfá jákvæð skilaboð og nokkur neikvæð. Sterk tengsl, aðallega jákvæð, koma fram gagnvart eiginmanni móður. Heildartengsl við sambúðarkonu föður eru þó nokkur, en aðallega er um neikvæð skilaboð að ræða. Samkvæmt viðtölum við kennara og skólastjóra hefur telpan náð miklum framförum frá því að hún byrjaði í skólanum og fær hún 5 sérkennslutíma á viku og nýtur mikils aðhalds í kennslustundum. Samskipti skólans við föður hafi verið ágæt og sé hann mjög vakandi fyrir því, sem hún sé að gera í skólanum.

Niðurstöður fjölskyldutengslaprófs, sem lagt var fyrir drenginn, leiða í ljós mjög sterk jákvæð tengsl við móður og fær hún mörg jákvæð skilaboð. Faðirinn fær örfá skilaboð og þau eru jákvæð, en heildartengsl við hann eru mjög lítil. Tengslin við sambúðarkonu föður eru jákvæð og sama gildir um eiginmann móður. Tengslin við systurina eru sterk. Samkvæmt viðtali við kennara drengsins gengur honum vel að læra og er í góðu sambandi við skólasystkini sín.

Í samantekt sinni tekur sálfræðingurinn fram, að báðir foreldrar séu hæfir til að fara með forsjá barnanna. Móðirin búi enn í húsnæði því, sem börnin bjuggu í áður en þau fluttust til föður. Samband móður og eiginmanns hennar hafi nú varað í rúm tvö ár og lifi þau venjulegu, reglusömu heimilislífi. Eiginmaðurinn hafi aðlagast íslenskum aðstæðum vel og tengist vinnufélögum ágætlega og sé í góðum tilfinningatengslum við börnin. Móðirin sé heimavinnandi og hafi tekið lyfjamisnotkun sína föstum tökum og sæki stuðningsfundi einu sinni í viku. Hún hafi nú verið án lyfja í tvö ár og því komin nokkuð góð reynsla á getu hennar til að vera án þeirra. Bæði börnin séu afar tengd henni tilfinningalega.

Í samantektinni segir ennfremur, að faðir búi enn ásamt sambúðarkonu og syni þeirra í sveit hjá frænda sambúðarkonunnar. Hún sjái að mestu um daglegar þarfir barnanna. Henni sé augljóslega annt um börnin, þó að það virðist koma frekar fram í boðum og bönnum en í tilfinningalegri nálægð. Föðurnum sé mjög umhugað um velferð barnanna og leggi sig fram um að aðstoða dótturina við heimanámið. Börnin virðist bæði vera í góðu jafnvægi og sé vel hugsað um þau á báðum heimilunum. Tilfinningatengsl þeirra séu þó mun sterkari við móður en föður samkvæmt fjölskyldutengslaprófi. Ljóst sé, að telpan þurfi áfram aðhald og stuðning í námi. Telpan taki það skýrt fram, að hún vilji frekar búa hjá móður sinni en föður, en drengurinn sé hins vegar á báðum áttum og virðist vilja gera öllum til hæfis.

Sálfræðingurinn staðfesti matsgerð sína fyrir dómi. Hún tók þar fram, að það kæmi mjög skýrt fram hjá telpunni, að hún vildi búa hjá móður og taldi það vera einlægan vilja hennar. Hún taldi börnin myndu síður en svo bera skaða af því, að forsjá yrði fengin móður. Ljóst væri, að þau væru mjög tengd móður sinni tilfinningaböndum og móðirin hefði verið reglusöm í tvö ár. Aðaláhyggjuefnið, sem hún sæi fyrir sér, væri  sá stuðningur, sem telpan fengi í skólanum í sveitinni, en væntanlega væri líka fyrir hendi stuðningskerfi í Reykjavík.

IV.

Eins og að framan greinir er það mat þeirra sálfræðinga, sem að málinu hafa komið, að báðir foreldrar séu hæfir til að fara með forsjá barnanna. Börnin voru í umsjá móður frá fæðingu og fór hún með forsjá þeirra eftir samvistaslit aðila, þar til þau fluttust til föður um mitt ár 2000. Samningur foreldra um forsjána í desember 2000 var gerður vegna tímabundins vanda áfrýjanda. Ekkert liggur fyrir um það í málinu, að lyfjamisnotkun áfrýjanda hafi staðið lengur en um það bil átta mánuði, og er því ómótmælt, að hún hafi verið án vímuefna frá því í desember 2000. Er ekkert, sem gefur til kynna, að hún hafi ekki náð tökum á vanda sínum. Félagslegar aðstæður móður eru góðar. Hún er í hjúskap með manni, sem börnunum virðist líka vel og býr í sömu íbúð og börnin voru í áður en þau fluttu til föður. Móðirin er heimavinnandi og hefur því nægan tíma til að hugsa um börnin. Félagslegar aðstæður föður eru nokkuð ótryggar. Sambúðarkona hans annast börnin að mestu leyti, þar sem vinnudagur hans er langur. Samkvæmt skýrslum sálfræðinganna eru tengsl barnanna mun sterkari við móður en föður. Það er eindreginn vilji telpunnar, sem er 10 ára gömul, að búa hjá móður. Tengsl systkinanna eru sterk og ekki ráðlegt að skilja þau að. Við flutning til móður myndu börnin fara á sitt gamla heimili í umhverfi, sem þau þekkja vel og eiga þar vini og leikfélaga. Þá búa foreldrar áfrýjanda í næsta nágrenni, en þeir hafa veitt áfrýjanda og börnunum mikinn og góðan stuðning. Telpan myndi fara í sinn gamla skóla og er engin ástæða til að ætla, að hún muni þar ekki fá þann stuðning, sem hún þarf við námið.

Þegar litið er til þess, sem að framan er rakið, verður að telja að þær breytingar hafi orðið á aðstæðum móður, að skilyrðum 1. mgr. 35. gr. barnalaga um breytingu á forsjá sé fullnægt og hagsmunum og þörfum barnanna sé best borgið með því að fela henni forsjá þeirra, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga. Afar mikilvægt er, að börnunum verði tryggður rúmur umgengnisréttur við föður sinn.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað er staðfest.

Rétt er, að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður beggja málsaðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, K, skal fara með forsjá barna málsaðila, X og Y.

Ákvæði héraðsdóms um máls-  og gjafsóknarkostnað eru staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun talsmanns hennar, 350.000 krónur.

Gjafsóknarkostnaður stefnda, M, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun talsmanns hans, 350.000 krónur.


Sératkvæði

Hrafns Bragasonar

Ég er sammála köflum I. og II. í atkvæði meirihluta dómara. Hins vegar tel ég að kaflar III. og IV. eigi að vera með eftirfarandi hætti:

III.

Lögmaður áfrýjanda óskaði eftir því við Héraðsdóm Suðurlands eftir uppkvaðningu héraðsdóms að lagt yrði að nýju mat á félagslegar aðstæður barnanna, andlega líðan þeirra, tengsl þeirra við foreldra sína og hæfni foreldranna sem uppalenda. Lögmaður stefnda kvaðst telja nýja matsgerð hafa verið óþarfa en hann hafi ekki mótmælt dómkvaðningunni. Endurrit dómkvaðningar hefur ekki verið lagt fyrir Hæstarétt. Hins vegar hefur lögmaður áfrýjanda lagt fyrir réttinn mat Rögnu Ólafsdóttur sálfræðings og endurrit staðfestingar hennar fyrir héraðsdómi á matsgjörðinni. Ekki hafa verið lögð fram gögn um reynslu sálfræðingsins á sviði forsjármála.

Málflutningur þessi er í andstöðu við 60. gr. barnalaga, sbr. IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hefði lögmaður áfrýjanda talið að einhverjar breytingar hefðu orðið á högum aðila eftir uppkvaðningu héraðsdóms 2. maí síðastliðinn hefði honum verið rétt að óska eftir því að sömu matsmenn og áður gæfu álit þar um. Hefði hann hins vegar fundið eitthvað að matsgerð þeirra átti hann að æskja yfirmats samkvæmt 64. gr. laga um meðferð einkamála. Héraðsdómur sem skipaður var héraðsdómara ásamt tveimur sérfróðum meðdómsmönnum, reyndum á sviði forsjármála, hefur ekki haft tækifæri til að tjá sig um þetta síðbúna sálfræðiálit. Verður ekki á því byggt.

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. barnalaga verður krafa um breytingu á forsjá því aðeins tekin til greina að breyting þyki réttmæt vegna breyttra aðstæðna og með tilliti til hags og þarfa barns. Aðstæður þurfa því að vera breyttar frá því sem var þegar ákvörðun var tekin um forræði og hagur og þarfir barnanna að krefjast breytinga. Ákvæðið er á því reist að varlega verði að fara í breytingar og raska ekki tilveru barna nema það sé augljós hagur þeirra, sbr. og 2. mgr. 34. gr. sömu laga.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að áfrýjandi hafi ráðið bót á vanda sínum. Þar kemur einnig fram að stúlkan sé fremur tengd móður sinni en föður og vilji heldur búa hjá henni. Drengurinn gerir hins vegar ekki upp á milli foreldra sinna. Aðilar virðast á einu máli um að börnin eigi að vera saman. Að áliti héraðsdóms, sem skipaður var meðdómendum reyndum á sviði forsjármála og studdist við álit matsmanna, fer vel um börnin þar sem þau eru og virðist kominn nokkur stöðugleiki á líf þeirra sem áður var erfitt, einkum stúlkunnar. Virðist hún búa við þá aðstoð við skólagöngu, sem henni er brýn þörf á, og líða vel í skólanum. Verður ekki annað séð en börnin njóti góðs atlætis, eins og nú hagar til, þeim séu sett þau mörk, sem eru nauðsynleg uppeldi þeirra, og hafi rúma og skipulega umgengni við móður. Eru því ekki lagaskilyrði fyrir því að breyta forræði þeirra. Ber með þessum athugasemdum en annars með skírskotun til röksemda héraðsdóms að telja óbreytt ástand börnunum fyrir bestu. Ég tel því að staðfesta eigi héraðsdóm.

Ég er sammála atkvæði meiri hluta dómara um máls- og gjafsóknarkostnað.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 2. maí 2002.

Mál þetta, sem dómtekið var 4. apríl sl., er höfðað 16. maí 2001.

Stefnandi er K.

Stefndi er M.

Stefnandi krefst þess að henni verði dæmd forsjá barna aðila, þeirra X og Y. Fallist dómurinn á þá kröfu er þess krafist að dómurinn mæli svo fyrir um að áfrýjun dómsins fresti ekki aðför. Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og málið sé eigi gjafsóknarmál.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda eins og málið sé eigi gjafsóknarmál.

 Málsatvik.

Kynni málsaðila hófust árið 1991 og voru þau í sambúð til ársins 1999. Á sambúðartímanum eignuðust þau tvö börn, X og Y. Á árinu 1999 flutti stefndi af heimilinu og bjuggu þá börn aðila hjá móður sinni að Q í um eitt ár. Í september 2000 gerðu málsaðilar með sér samkomulag um að börnin flyttu til stefnda,  en þá átti stefnandi við vanda að etja vegna misnotkunar lyfja, en neysla hennar hafði þá staðið í um 5 ár. Börnin fluttu þá til stefnda, sem bjó með unnustu sinni Z. Í desember 2000 gerðu málsaðilar með sér samkomulag sem m.a. fól í sér að stefnandi lánaði stefnda íbúð sína að Q, Reykjavík. Þá gerðu málsaðilar samning í desember 2000 um forsjá barnanna og meðlagsgreiðslur sem staðfestur var af sýslumanninum í Reykjavík 6. febrúar 2001. Stefnandi krafðist endurupptöku á ákvörðun sýslumannsins um staðfestingu samningsins, á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þeirri kröfu hafnaði sýslumaðurinn í Reykjavík með ákvörðun 6. júlí 2001, en þá ákvörðun kærði stefnandi til Dómsmálaráðuneytisins 19. júlí 2001. Dómsmálaráðuneytið hélt að sér höndum með afgreiðslu kærunnar, þar sem stefnandi gerði í upphafi þá dómkröfu í máli þessu að staðfesting sýslumanns á samkomulagi um forsjá yrði dæmd ógild. Hún féll síðar frá þeirri kröfu fyrir dómi og kvað Dómsmálaráðuneytið upp úrskurð um kröfuna 3. apríl 2002. Í niðurstöðu úrskurðar ráðuneytisins kemur fram að þrátt fyrir verulega annmarka á ákvörðun sýslumanns, teljist hún ekki ógildanleg og skilyrði afturköllunar sýslumanns ex officio á ákvörðun sinni því ekki fyrir hendi á grundvelli 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga. Hin kærða ákvörðun var því staðfest með úrskurði Dómsmálaráðuneytisins.

Í mars 2001 fluttu stefndi og börnin að bænum Þ og búa þau þar nú hjá honum og sambýliskonu hans Z, en hún er þar ráðskona hjá fullorðnum einhleypum frænda sínum.  Á bænum býr einnig tvítugur sonur hennar. Stefndi á fyrir tvö uppkomin börn úr fyrri sambúð og tæplega tveggja ára barn með Z. 

 Stefnandi dvaldi í X-landi frá því um sumarið 2000 þar til í byrjun september sama ár. Þá fór hún aftur út 19. desember 2000 og kom heim í mars 2001. Hún býr nú í íbúð sinni að Q ásamt [...] eiginmanni sínum.

   Í þinghaldi 24. október 2001 voru sálfræðingarnir Oddi Erlingsson og Álfheiður Steinþórsdóttir dómkvaddir til þess að kanna aðstæður aðila og barna þeirra og til að meta forsjárhæfni aðila og tengsl þeirra við börnin.

Hinir dómkvöddu matsmenn skiluðu matsgerð, dags. 21. desember 2001. Í matsgerðinni kemur fram að matsmenn telja greind beggja aðila innan eðlilegra marka og engin geðræn vandamál fyrir hendi hjá þeim samkvæmt persónuleikaprófum.  Báðir foreldrar séu hæfir til að fara með forsjá barnanna. Þau mældust bæði innan eðlilegra marka á forsjárhæfniprófi, en stefnandi ívið hærri vegna meiri getu til að sjá um tilfinningalegar þarfir barnanna og líkamlegt atlæti. Stefndi er hærri á þeim þætti sem metur verndun barnanna, bæði vegna sögu móður um misnotkun lyfja um langa hríð meðan börnin voru ung og þess að hún getur ekki stillt sig um að tjá neikvæðni í garð stefnda og fjölskyldu hans.  

Matsmenn lögðu fyrir eldra barnið, X, EPQ persónuleikapróf og Bene-Anthony fjölskyldutengslapróf  og fyrir yngra barnið, Y, Bene- Anthony fjölskyldutengslapróf.

Samkvæmt prófunum á eldra barnið í námsörðugleikum og virðist hafa búið við skort á örvun og uppfræðslu frá  bernsku. Að áliti matsmanna kemur hún til með að þurfa markvissa hjálp og örvun utan sem innan skóla. Hún var afgerandi tengdari móður sinni þegar athugun matsmanna fór fram. Í matsgerðinni  segir að yngra barnið tengist sínu fólki á opinn og einlægan hátt. Honum finnist spennandi og heillandi að fara til móður sinnar og eiginmaður hennar hafi mikið aðdráttarafl fyrir hann. Hann lýsi hlýju í garð föður og stjúpmóður, en kvartar undan því að þau séu strangari. Báðum börnum líði vel í skóla, en kvarta undan að þau vanti vini til að leika við.

Um forsjárhæfni móður segir í matsgerðinni að hún virðist vera næmari á þarfir barnanna og atlæti sem þau þurfa en faðirinn. Neikvæðir þættir í fari hennar eru saga hennar um alvarlega misnotkun lyfja, en aðeins er um eitt ár liðið frá því að meðferð lauk. K hefur misnotað verkjalyf, svefnlyf, og önnur róandi lyf. Í [...] 2001 fór hún í 10 daga vímuefnameðferð til SÁA og hafði þá að eigin sögn verið þrjá mánuði án vímuefna. Þá segir í matsgerðinni að hjónaband móður sé aðeins rúmlega hálfs árs gamalt og því ekki komin reynsla á getu hjónanna til að ráða saman við álag eins og uppeldi tveggja barna er. Eftir að faðir hafi fengið forsjá hafi hún ekki fylgst með skólagöngu og námi barnanna eða verið í tengslum við kennara sem þjálfa og athuga X. Viss vafi komi fram um frumkvæði móður í uppeldi og úthaldi og þolgæði hennar að fylgja málum eftir hvað þau varði. Samkvæmt sálfræðiprófum virðist hún treysta mjög á aðra og vera ef til vill of háð öðrum. Einnig komi fram að hún eigi erfitt með setja börnum mörk og gefi svolítið óskýr boð til þeirra um hvað megi og hvað ekki. Þá beri börnin þess merki að hafa skynjað skýrt neikvæðni í garð föður og fóstru og hafi einnig sýnt með hegðun sinni að vera um of meðvituð um ósætti móður við föður.

Um foreldrahæfni föður segir að hann mælist með eðlilega foreldrahæfni og hafi verið til staðar fyrir börnin frá fæðingu þeirra án þess að tengslin hafi verið rofin um lengri tíma. Sterkar hliðar föður séu einkum þær að hann hafi getað boðið þeim ákveðið öryggi í tæp tvö ár þar sem hann hafi reynt að skapa ramma utan um daglegt líf þeirra. Hann hafi tekið fullan þátt í einstaklingsnámskrá dóttur í samvinnu við kennara og barnið sýni töluverðar framfarir hjá honum, en hún hafi verið illa stödd við komu í skóla og þurfi mikla hjálp. Þannig sé skólaganga nú í góðum farvegi og sérfræðiaðstoð fyrir dóttur virk. Faðir virðist gera sér grein fyrir nauðsyn þess að vernda börnin fyrir neikvæðu tali í garð hins foreldrisins. Neikvæðir þættir séu fyrst og fremst tímaleysi hans sjálfs að vera með börnunum vegna starfs síns. Sambýliskona hans sjái nær alfarið um að sinna líkamlegum þörfum barnanna og atlæti á heimilinu. Nokkurt tengslaleysi virðist vera milli föður og sambýliskonu hans, samskipti þeirra virðist lítil og ekki náin.

Um aðstæður foreldra og barnanna segir í matsgerðinni að móðir búi í eigin húsnæði í Reykjavík, þar sem börnin hafi áður átt heima og eigi þau þar vini og leikfélaga. Börnin þekki því vel allar aðstæður. Börnin deili með sér herbergi. Í nágrenninu búi einnig foreldrar móður og mikið samband sé milli fjölskyldnanna og börnin mjög tengd móðurafa og móðurömmu.   Móðir hafi verið gift Bandaríkjamanni í rúmt hálft ár og hafi þau ekki áform um að flytja af landinu. Eiginmaður hennar virðist gera sér grein fyrir hlutverki sínu og hafi tengst börnunum ágætlega á þeim stutta tíma sem þau hafi þekkst, einkum Y. Eiginmaður vinni fulla vinnu og móðir sé í hlutastarfi.

Í matsgerð segir að faðirinn hafi frá miðjum síðasta vetri búið í sveit hjá frænda sambýliskonu sinnar. Þau eigi saman tæplega tveggja ára gamlan son. Sambýliskonan er ráðskona á búi frænda síns, en hún eigi fyrir tvo syni. Faðirinn vinnur utan búsins og er vinnudagur hans langur. Fjárhagslega komist þau sæmilega af. Húsnæðið sé mjög stórt og skepnur á bænum. Börnin hafi ekki sér aðstöðu en deili herbergjum með föður, stjúpu og hálfbróður. Skólabíll sæki börnin daglega og sérþörfum dótturinnar hafi verið vel sinnt frá skólanum. Stjúpu barnanna þyki greinilega vænt um þau og hún tengist þeim ágætlega, en eftir að forsjárdeilan hófst hafi börnin verið henni erfiðari. Mjög sé óvisst um framtíðarbúsetu fjölskyldunnar og félagsleg einangrun nokkur í dag.

Um persónulega líðan barnanna og tengsl við foreldra segir í matsgerðinni að tengsl barnanna við hvort annað séu náin og gagnkvæm, enda hafi þau alltaf verið saman. Þarfir X fyrir umhyggju séu einkum tengdar móður en faðir og sambýliskona hans séu frekar fulltrúar aga og aðhalds. X virðist ekki hafa hlotið þekkingarlega örvun og uppfræðslu í bernsku eins og börn á hennar reki. Henni líki nú vel í skóla og virðist njóta mikillar aðstoðar í námserfiðleikum sem unnið er með í samvinnu sálfræðings á [...], kennara og föður.  X fari vel fram í námi, en líklegt sé að hún þurfi sérfræðingsaðstoð framvegis. Um Y segir í matsgerðinni að hann sé líflegur og ræðinn og geti ágætlega tjáð sig. Hann aðlagi sig ágætlega í umhverfi sínu, njóti margs í sveitinni og þyki vænt um dýrin. Í skóla gangi honum vel að mati kennara og sjálfur sé hann stoltur yfir getu sinni að læra að lesa. Í teikningum og á fjölskyldutengslaprófi komi fram að hann tilheyri fjölskyldu sinni, þar sem hann hafi alist upp síðustu árin og sé bæði tengdur föður og Z sem hafi annast hann. Hann lýsi einnig þörf fyrir umhyggju móður sinnar og hafi mikinn áhuga á að tengjast manni hennar frekar. Hann beri greinileg merki um kvíða vegna togstreitunnar sem ríki vegna átaka foreldra um börnin. Y hafi áhyggjur af þessu og reyni að gera báðum foreldrum til hæfis, en finni vanmátt sinn. Fyrst og fremst þarfnist hann staðfestu, marka og öryggis í lífi sínu.

 Í málinu liggur fyrir bráðabirgðasamkomulag, dags. 9. nóvember 2001,  þess efnis að regluleg umgengni móður og barna verði aðra hvora helgi frá kl. 18.00 á föstudegi til kl. 18.00 á sunnudegi. 

Aðilar fengu báðir gjafsókn í málinu með leyfi Dómsmálaráðuneytisins, stefnandi með leyfi útgefnu 8. janúar 2002 og stefndi með leyfi útgefnu 23. apríl 2002.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrir dómi aðilar málsins og hinir dómkvöddu matsmenn, Oddi Erlingsson sálfræðingur og Álfheiður Steindórsdóttir sálfræðingur, sambýliskona stefnda Z, Æ, félagsmálastjóri [...] og móðir stefnanda, Ö.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir kröfu sína um forsjá barnanna á því að það sé börnum hennar fyrir bestu að hún fari með forsjá þeirra. Börnin hafi alist upp hjá sér þar til á síðari hluta ársins 2000 er þau fluttu til stefnda. Þá  hafi þau sterk og náin tengsl við foreldra stefnanda sem hafi annast þau mikið og veitt þeim skjól á liðnum árum. Þeim lyndi hins vegar illa við stjúpmóður sína og nýja fjölskyldu stefnda. Börnin hafi flutt til stefnda vegna lyfjamisnotkunar stefnanda og hafi hún um tíma ekki verið hæf til að annast börnin, en nú séu aðstæður hennar breyttar.  Stefnandi telur breyttar aðstæður sínar frá því að ákveðið var að börnin flyttu til stefnda gera það að verkum að nú sé börnunum fyrir bestu að hún hafi forsjá þeirra. Á Þ þar sem börnin búi núna séu allar aðstæður hörmulegar og lítið um þau hugsað og sæki börnin til stefnanda og þess umhverfis sem þau þekki best. 

Stefnandi byggir kröfur sínar á ákvæðum barnalaga, nr. 20/1992, aðallega 1. mgr. 35. gr. laganna.  

Málsástæður og lagarök stefnda.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi sé ekki fær um að fara varanlega með umsjón og forsjá barnanna vegna lyfjaneyslu sinnar, þrátt fyrir að það komi tímabil þar sem hún er lyfjalaus og sæti einhvers konar meðferð. Hagsmunum barnanna sé best borgið með því að stefndi hafi forsjá þeirra eins og verið hafi og sé engin ástæða til að breyta henni. Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 20/1992 megi aðeins breyta samningi um forsjá barns ef það þyki réttmætt vegna breyttra aðstæðna með tilliti til hagsmuna og þarfa barns. Um það sé ekki að ræða í máli þessu.  Stefndi hafi verið jákvæður við stefnanda um umgengnisrétt hennar við börnin og hafi stefndi lagt sig fram um að tengsl þeirra við stefnanda og foreldra hennar héldust.

Stefndi vísar máli sínu til stuðnings til ákvæða barnalaga, nr. 20/1992, aðallega 1. mgr. 35. gr. laganna. 

Niðurstaða

Stefndi fer með forsjá barna málsaðila en við rannsókn málsins hefur komið fram að báðir foreldrar eru hæfir forsjáraðilar.

Við úrlausn þessa máls þykir verða að líta til þess að börnin hafa búið hjá stefnda, föður sínum, frá því um sumarið 2000 og notið forsjár hans samkvæmt staðfestingu sýslumannsins í Reykjavík frá 6. febrúar 2001 á samningi aðila um forsjá barnanna og meðlagsgreiðslur. Þegar samningurinn var gerður var móðir mjög illa stödd vegna lyfjamisnotkunar og hefur hún lýst því fyrir dómi að á þeim tíma hafi hún lítið getað sinnt börnunum, a.m.k. andlega.  

Fyrir liggur í málinu að börnin hafa hjá stefnda búið við öryggi og viðeigandi aðhald  í uppeldi og sýnt eðlilegar framfarir. Telpan, sem var illa stödd námslega við komu til stefnda og reyndist í þörf fyrir sérstaka örvun og sérfræðiaðstoð, hefur sýnt verulegar framfarir í skólanámi og nýtur viðeigandi aðstoðar í skólanum. Í bekkjardeild hennar eru aðeins 8 nemendur og möguleikar góðir að sinna sérþörfum hennar.  Stefndi hefur undanfarin ár verið í sambúð með konu og á með henni barn sem nú er á öðru ári. Sambýliskonan hefur tekið virkan þátt í umönnun barna stefnda, hefur reynst þeim vel og sýnist vera traust manneskja. Sameiginlega hafa þau stuðlað að því að börnin njóti eðlilegrar umgengni við móður sína. Við þessar aðstæður er kominn stöðugleiki í umhverfi föður sem börnin njóta góðs af.

Fram kemur að málsaðilar höfða hvort með sínu móti til barna sinna og svara þörfum þeirra með nokkuð ólíkum hætti. Meðal annars uppfylla stefndi og sambýliskona hans vel þarfir barnanna fyrir aðhald og vitsmunalega örvun á meðan stefnandi er umhyggjusamari í huga systkinanna, einkum stúlkunnar. Þannig kemur fram vilji hjá henni til að vera í nánara sambandi við stefnanda en verið hefur. Meira jafnvægi er á viðhorfum drengsins til foreldranna en systkinin eru mjög tengd innbyrðis.

Óumdeilt er að stefnandi átti við lyfjamisnotkun að stríða en nokkuð óljóst er  hversu lengi sú stóð misnotkun stóð og er ekki  langur tími liðinn frá því að stefnandi hætti neyslu.  Þótt aðstæður stefnanda hafi vissulega breyst til batnaðar frá því að hún lét forsjá barnanna af hendi er ekki hægt að líta fram hjá því að um alvarlegt ástand hennar var þá að ræða sem kom mjög niður á börnunum.  Að mati dómsins er staða stefnanda enn sem komið er, ekki það traust að rétt sé að breyta forsjá barnanna, enda verður ekki betur séð en að vel fari um þau hjá stefnda og þau eigi þess kost að rækta áfram samband sitt við stefnanda og hennar fólk.

Að þessu virtu er það niðurstaða dómsins að ekki hafi verið sýnt  fram að slíkar breytingar hafi orðið á aðstæðum málsaðila, að réttlætt geti breytingu á forsjá. Það er álit dómsins að börnunum sé fyrir bestu að forsjá þeirra skuli standa óbreytt, en afar mikilvægt er að þau njóti áfram eðlilegrar umgengni við móður. Ber samkvæmt framangreindu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

 Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Aðilar fengu báðir gjafsókn í málinu.

Málskostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hennar og þykir hæfilega ákveðinn 650.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.

Málskostnaður stefnda, sem er þóknun lögmanns hans og þykir hæfilega ákveðinn 400.000  krónur greiðist úr ríkissjóði.

Með vísan til 3. mgr. 60. gr. barnalaga nr. 20/1992, skal kostnaður vegna matsgerðar sálfræðinganna Odda Erlingssonar og Álfheiðar Steinþórsdóttur, samtals 417.636 krónur, greiðast úr ríkissjóði.

Dóm þennan kveða upp Ingveldur Einarsdóttir, héraðdsómari, Aðalsteinn Sigfússon sálfræðingur og Þorgeir Magnússon sálfræðingur.

D ó m s o r ð:

Stefndi, M skal fara með forsjá barna málsaðila,  X og Y.

Málskostnaður fellur niður.

Málskostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hennar, 650.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.

Málskostnaður stefnda, sem er þóknun lögmanns hans, 400.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.

Kostnaður vegna matsgerðar sálfræðinganna Odda Erlingssonar og Álfheiðar Steinþórsdóttur, samtals  417.636 krónur greiðist úr ríkissjóði.