Hæstiréttur íslands
Mál nr. 381/2007
Lykilorð
- Líkamsárás
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 29. nóvember 2007. |
|
Nr. 381/2007. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Líkamsárás. Miskabætur.
X var sakfelldur fyrir líkamsárás á Y fyrrum unnustu sína. Var talið að árásin hafi staðið yfir í að minnsta kosti hálfa klukkustund og falist meðal annars í því að X hefði sest ofan á bak Y, vafið sæng um höfuð hennar og þrýst að andliti hennar svo henni hafi legið við köfnun. Var brot hans talið meiriháttar líkamsárás sem varðaði við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og refsing ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Var X einnig dæmdur til að greiða Y miskabætur, skv. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, að fjárhæð 1.200.000 krónur. Var við ákvörðun bóta litið til þess að andlegar afleiðingar árásarinnar hafi háð Y mjög mikið og einnig að tjóninu var valdið með heiftúðugri og hættulegri líkamsárás, sem stóð yfir í að minnsta kosti hálfa klukkustund.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. júlí 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða, þyngingar á refsingu hans og að honum verði gert að greiða Y 2.500.000 krónur í miskabætur auk vaxta eins og í ákæru greinir.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar málsins, til vara að hann verði sýknaður en að því frágengnu að refsing hans verði milduð. Þá krefst ákærði þess aðallega að bótakröfu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hún verði lækkuð.
I.
Krafa ákærða um ómerkingu héraðsdóms er reist á því að héraðsdómur hafi átt að vera fjölskipaður samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þetta lagaákvæði felur í sér heimild til að ákveða að þrír héraðsdómarar skipi dóm í máli ef sýnt þykir að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Ekki hafa verið færð fram rök í málinu, sem veita líkur fyrir því að mat héraðsdómara á sönnunargildi munnlegs framburðar eða á öðrum sönnunargögnum kunni að vera rangt þannig að einhverju skipti um úrslit málsins. Ómerkingarkröfu ákærða er því hafnað.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu brots hans til refsiákvæðis. Auk þeirra atriða sem héraðsdómari tiltekur við mat á refsingu ákærða er rétt að hafa sérstaklega í huga að sannað er að árás ákærða stóð í nokkuð langan tíma, eða að minnsta kosti í hálfa klukkustund. Með þessari athugasemd og að gættu ákvæði 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða.
II.
Í máli þessu hefur Y gert kröfu um miskabætur samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Þar sem sannað er að hún hafi orðið fyrir líkamstjóni vegna líkamsárásar sem ákærði framdi af ásetningi eru uppfyllt skilyrði ákvæðisins til að dæma hann til að greiða henni slíkar bætur. Bætur samkvæmt greininni geta komið til viðbótar þjáningabótum samkvæmt 3. gr. og bótum fyrir varanlegan miska samkvæmt 4. gr. laganna, en í málinu er ekki gerð krafa á grundvelli síðastgreindra lagaákvæða. Skilin milli þessara ákvæða og ákvæða 26. gr. eru um sumt óljós. Bætur samkvæmt fyrrnefndu ákvæðunum eru staðlaðar. Í 3. gr. er miðað við tilgreindar fjárhæðir eftir því hvort viðkomandi tjónþoli er rúmliggjandi eða ekki fram til þess tíma þegar heilsufar hans er orðið stöðugt. Í 4. gr. laganna segir hins vegar að við ákvörðun um fjárhæð bóta fyrir varanlegan miska skuli litið til þess hvers eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns séu frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og til þeirra erfiðleika sem tjónið valdi í lífi tjónþola og eru bótafjárhæðir staðlaðar á grundvelli miskastigs. Hins vegar eru bótafjárhæðir samkvæmt 26. gr. laganna ekki bundnar með sama hætti við ákveðinn mælikvarða og þarf miski samkvæmt þeirri grein ekki að vera varanlegur. Dómstólum er þar látið eftir mat á hæfilegri fjárhæð miskabóta eftir því sem rétt þykir í hverju tilviki og eftir atvikum til viðbótar bótum samkvæmt 3. og 4. gr. laganna.
Í 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, eins og henni var breytt með 13. gr. laga nr. 37/1999 segir: „Heimilt er að láta þann sem: a. af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur líkamstjóni eða b. ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við.“ Í ákvæðinu eru ekki með skýrum hætti lögfest þau sjónarmið sem byggja skuli á við ákvörðun um fjárhæð bóta. Texti a. liðar gefur þó vísbendingu um að sakarstig hjá tjónvaldi eigi meðal annars að hafa áhrif í þessu efni, auk þess sem umfang tjóns hefur samkvæmt eðli málsins áhrif við slíka ákvörðun. Fær þetta stoð í athugasemdum við 13. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 37/1999 þar sem tekið er fram, að við ákvörðun bóta samkvæmt greininni skuli meðal annars hafa þessi sjónarmið í huga.
Í málinu liggur fyrir skýrsla sálfræðings, sem staðfest var fyrir dómi, þar sem fram kemur að tjónþoli þjáist af svokallaðri áfallastreituröskun og auknu þunglyndi í kjölfar líkamsárásarinnar, og að þetta hafi háð henni mjög mikið. Við ákvörðun bóta verður til þessa litið en einnig til þess að tjóninu var valdið með heiftúðlegri og hættulegri líkamsárás af ásetningi og stóð atlagan yfir í að minnsta kosti hálfa klukkustund. Þá verður haft í huga að tengsl ákærða við tjónþola eru til þess fallin að auka á miska hennar. Hún átti ekki neina sök sjálf sem áhrif getur haft á ákvörðun bóta. Að þessu sérstaklega virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms um afleiðingar árásar ákærða eru miskabætur samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga ákveðnar 1.200.000 krónur. Með vísan til 1. mgr. 8. gr. og 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu er ekki ástæða til að hreyfa við ákvörðun um upphaftíma vaxta og dráttarvaxta frá því sem greinir í niðurstöðum héraðsdóms.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, X.
Ákærði greiði Y 1.200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. nóvember 2006 til 21. júní 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 352.888 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 20. júní sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 3. apríl 2007 á hendur X, [kt. og heimilsfang], fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa, að kvöldi þriðjudagsins 14. nóvember 2006, ráðist að fyrrum unnustu sinni, Y, á heimili móður hennar að A, 2. hæð, Reykjavík, slegið hana í andlitið, hrint henni í sófa í stofu, sest klofvega ofan á hana í sófanum, rifið í hár hennar, skellt höfði hennar í gólfið eftir að þau féllu úr sófanum, og tekið Y kverkataki svo hún átti erfitt um andardrátt, og fyrir að hafa skömmu síðar hrint henni niður á rúm í svefnherbergi, sest ofan á bak Y, vafið sæng um höfuð hennar og þrýst að andliti hennar svo henni lá við köfnun. Við þetta hlaut Y rispu framanvert á hálsi, roðabletti á kinnum, roðabletti á víð og dreif í hársverði, rispur og blóðmar á bringu, rispur á hægri upphandlegg, rispur og blóðmar á baki hægra megin og rispu á vinstri mjöðm.
Er þetta talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Y, kennitala [...], krefst miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2.500.000 krónur auk vaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. nóvember 2006 til greiðsludags.
Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að honum verði tildæmd hæfileg málsvarnarlaun.
Þriðjudaginn 14. nóvember 2006 kl. 23.33 fékk lögregla tilkynningu um að fara að A í Reykjavík en þaðan hafi kona hringt og virst vera í nauðum stödd. Tekið var fram að ekki hafi nákvæmlega verið vitað hvar konan væri í húsinu. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að á staðinn hafi lögreglumenn verið komnir kl. 23.41. Í skýrslunni er rakið að er lögreglumenn hafi komið á vettvang hafi ekki verið vitað hvar í húsinu konan væri. Er lögreglumenn hafi gengið inn gang að húsi nr. 3, en sameiginlegur inngangur sé fyrir A og [...] hafi lögreglumenn séð Y, B og C í anddyri hússins og hafi B og C verið að reyna að róa Y. Hafi Y verið hágrátandi og í miklu uppnámi. Hafi verið ákveðið að ræða við Y og fá frá henni upplýsingar. Hafi hún tjáð lögreglumönnum að fyrrverandi kærasti hennar, ákærði í máli þessu, væri í íbúð móður Y nr. [...] og að Y hafi komist út úr íbúðinni með hjálp B og C eftir að ákærði hafi reynt að kæfa hana með sæng. Fram kemur í skýrslunni að lögreglumenn hafi farið upp og knúið dyra á íbúð nr. [...]. Kallað hafi verið að lögregla væri á ferð en engu verið svarað. Á vettvang hafi komið útivarðstjóri og hafi verið tekin ákvörðun um að fá lásasmið á vettvang. Þá hafi sérsveit lögreglu einnig komið á vettvang. Eftir að lásasmiður hafi opnað hurðina hafi sérsveitarmenn farið inn og handtekið ákærða. Hafi ákærði þá setið í stól í eldhúsi og hafi hann ekki veitt viðnám við handtöku. Í frumskýrslu kemur fram að klaufhamar hafi verið á eldhúsborði vinstra megin við ákærða. Þá er tekið fram að steikarahnífur og steikaragaffall hafi fundist undir armi hægindastóls í stofu. Hafi Y tjáð lögreglu að umræddir hlutir hafi átt að vera í hnífaparaskúffu og hafi hún talið ákærða hafa komið þessum hlutum fyrir í stofunni. Hamarinn hafi átt að vera í geymslunni. Ákærði var handtekinn kl. 00.30 og fluttur á lögreglustöð. Y var flutt á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss. Tæknideild lögreglu var kvödd á vettvang. Fram kemur að á vettvangi hafi lögreglumenn rætt við B og C og fengið þeirra frásögn af atburðum.
Tekið var blóðsýni úr ákærða kl. 01.50 þessa nótt. Samkvæmt niðurstöðum Rannsóknarstofu í lyfja-og eiturefnafræði reyndist magn áfengis í blóði hans 1,20 o/oo.
Samkvæmt skýrslu tæknideildar frá 27. nóvember 2006 var íbúðin að A ljósmynduð og skoðuð af lögreglumanni aðfaranótt miðvikudagsins 15. nóvember 2006. Fram kemur að húsgögn í stofu hafi greinilega ekki verið á þeim stað sem þau hafi átt að vera á og sé ljóst að í stofunni hafi orðið einhver átök. Sömu sögu sé að segja úr svefnherbergi en á náttborði hafi borðlampi verið á hliðinni og munir á gólfi.
Í rannsóknargögnum málsins er hljóðritun af símtali úr síma Y 14. nóvember 2006 við Neyðarlínuna. Samkvæmt hljóðrituninni á Y stutt samtal við Neyðarlínuna og óskar eftir aðstoð að A. Í framhaldi verður talsverður hávaði þar sem greina má grátur og hróp Y. Því næst slitnar símtalið.
Y mætti á lögreglustöð miðvikudaginn 22. nóvember 2006 og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás. Greindi hún þannig frá atvikum að hún og ákærði hafi byrjað saman á árinu 2001. Á árinu 2004 hafi ákærði ,,fallið” en hann væri alkahólisti. Hafi Y gefist upp á að búa með honum og flutt frá honum í ágúst 2005. Hafi þau verið í einhverju sambandi eftir það því einhver mál þeirra á milli hafi verið ófrágengin. Hafi ákærði verið ósáttur við skilnaðinn, verið með þráhyggju gagnvart Y og oft elt hana uppi. Hafi Y stöðugt fundist hún eiga von á honum. Tvisvar sinnum fyrir atburðinn að A hafi ákærði lagt hendur á Y og einu sinni hafi hann ógnað henni með hníf. Í þau skipti sem ákærði hafi ráðist á hana hafi hann verið ölvaður og Y því ráðið við hann. Haustið 2006 hafi ákærði verið búinn að vera án áfengis í einhvern tíma og hafi þau hugsað sér að taka saman aftur. Hafi ákærði þá verið búinn að vera í meðferð á vegum SÁÁ. Á miðvikudeginum 8. nóvember 2006 hafi Y farið að fá ýmis sms símaskilaboð þar sem hún hafi verið spurð spurninga svo sem hvort hún væri í sambandi við einhvern mann og ýmislegt þess háttar. Ekki hafi Y vitað hver hafi verið að senda henni skilaboðin og því svarað spurningunum játandi og hætt að svara þeim síðan. Skilaboðin hafi komið úr símanúmerinu D sem sé óskráð númer. Síðan hafi nokkrum sinnum verið hringt úr númerinu og skellt á ef Y svaraði. Hafi Y farið að gruna að ekki væri allt með feldu og jafnvel talið að ákærði stæði að baki þessu og væri kominn í eitthvað ,,rugl.” Hafi hún farið á kaffihús á föstudagskvöldinu 10. nóvember 2006 en þá hafi aftur byrjað að koma sms símaskilaboð úr símanúmerinu þar sem sendandi hafi sagt að hann væri með nektarmyndir af Y sem hann ætlaði að setja á internetið. Einnig hafi viðkomandi kallað Y öllum illum nöfnum. Síðar um kvöldið hafi Y komið heim til móður sinnar að A, en þar hafi ákærði verið einhverjar nætur með Y. Hafi ákærði þá verið í íbúðinni. Hafi hún gengið að farsíma ákærða og skoðað skilaboð og hringingar úr símanum en allt verið farið út eins og búið hafi verið að taka símakortið úr símanum. Hafi hún gengið á ákærða með það hvort hann hafi verið að senda henni þessi skilaboð en hann neitað því. Eftir þetta hafi hún farið að fá minna af þessum skilaboðum.
Á þriðjudeginum 14. nóvember 2006 hafi Y lokið skóla og verið á leiðinni heim. Hafi hún hringt í ákærða og ætlað að bjóða honum í mat. Hafi henni fundist hann eitthvað skrítinn í símanum og hún ákveðið að tékka á honum. Hafi hún farið heim til hans að E. Hafi hún knúið dyra en ákærði ekki svarað. Hafi hún þá farið til leigusalans og fengið hjá honum lykil að íbúðinni. Er hún hafi farið inn í íbúðina hafi ákærði setið í sófa og verið með einhvern farsíma sem hún hafi ekki séð áður. Þá hafi tvær bjórdósir verið á borði. Hafi Y gengið að farsímanum og skoðað hann. Þá hafi hún séð að ákærði hafi verið að senda henni umrædd skilaboð. Er hún hafi séð það hafi hún hlaupið út og ekkert viljað ræða frekar við ákærða. Hafi ákærði elt Y út og náð að setjast inn í aftursæti bifreiðar er hún hafi verið á. Hafi hann náð að rífa kveikjuláslykla úr kveikjulás bifreiðarinnar og viljað fá að ræða hlutina við Y. Hafi það endað með því að Y hafi farið með honum inn aftur en þá hafi hún áttað sig á að hann hafi verið meira undir áhrifum áfengis en hana hafi grunað. Hafi hún ekki æst sig upp heldur reynt að halda friðinn. Hafi hún síðan farið út og heim til móður sinnar að A. Kvaðst Y þá hafa haft gætur á íbúð móður sinnar sem hafi verið í útlöndum. Kvaðst Y hafa farið snemma að sofa en hún hafi sennilega farið upp í rúm um kl. 22.00.
Um kl. 23.00 hafi dyrabjöllu verið hringt og ákærði verið þar kominn. Hafi Y hleypt honum inn þar sem hún hafi talið að hún gæti rætt við hann. Eins hafi hún talið að ef hún myndi ekki hleypa honum inn myndi hann gera eitthvað af sér eins og að brjóta rúðu. Hafi þau sest í sófa inni í íbúðinni en þá hafi Y áttað sig á því að ákærði var vel drukkinn en sterka lykt hafi lagt af honum. Hafi hún beðið hann um að fara og þau reynt að ræða eitthvað saman. Hafi hún síðan sagt við hann eitthvað á þá leið að hún vildi ekki tala við hann núna og að hún væri hætt að elska hann. Þá hafi ákærði staðið upp og slegið Y í andlitið með handarbaki. Hafi Y þá áttað sig á að hann væri sennilega líka búinn að taka inn örvandi efni. Hafi hún staðið upp og ætlað að reyna að komast fram þar sem henni hafi ekki litist á ákærða. Hafi ákærði alltaf fært sig fyrir Y. Hafi hún ýtt honum frá sér en þá hafi hún verið orðin virkilega hrædd. Þá hafi ákærði hent Y í sófann og rifið í hár hennar og farið ofan á hana. Hafi hún náð að spyrna í sófabakið þannig að þau hafi dottið á gólfið. Hafi ákærði náð að snúa Y undir sig, rifið í hár hennar og skellt höfði hennar í gólfið. Hafi hún náð að setja hönd fyrir þannig að hann hafi ekki náð að gera það aftur. Hafi þau oltið um gólfið en það næsta sem hún myndi hafi verið að ákærði hafi haldið með báðum höndum um háls Y og sagt ,,ég drep þig” og haldið henni þannig í nokkrar sekúndur þannig að hún hafi átt erfitt með að anda. Hafi hún óttast um líf sitt. Hafi hún síðan náð að losa takið og barist um en ákærði þá verið kominn aftur fyrir Y og sett hendi um háls hennar og sagt henni að vera róleg. Hafi hún náð að slaka aðeins á og hugsað að hún yrði að gera það til að róa hann niður. Þau hafi verið hálf komin inn í svefnherbergi íbúðarinnar þegar þar var komið en ákærði þá skriðið fram í stofu og farið að segja eitthvað eins og að hann myndi aldrei tíma að drepa Y. Farsími Y hafi verið á náttborði í herberginu og hafi hún teygt sig í hann og hringt í 112. Þá hafi ákærði komið inn en Y náð að fela símann á bak við stól en kveikt hafi verið á honum. Hafi hún beðið ákærða um að fara fram og ná í vatn og hafi ákærði orðið við því. Kvaðst Y halda að hún hafi aftur hringt í 112 en ekki náð að tala í símann þar sem ákærði hafi aftur verið kominn inn í herbergið. Hafi hún reynt að komast inn á baðherbergi íbúðarinnar en þá hafi ákærði komið eins og ,,naut” vaðandi á móti Y. Hafi hann skipað henni að setjast á rúmið. Hafi hún beðið hann um að fara fram og ná í kók að drekka og kvaðst Y telja að þá hafi verið hringt til baka í farsímann sem hafi verið stilltur á þögn. Hafi hún séð símann blikka. Hafi hún svarað en viðmælandinn sagt að hann væri frá 112. Hafi hún náð að segja heimilisfangið í símann. Ákærði hafi þá komið inn og séð að ákærða var í símanum og spurt hana hvort svo væri. Síminn hafi endað á gólfinu og ákærði spurt hvort hún hafi verið að hringja á lögregluna. Hafi hún svarað því neitandi. Hafi hann sennilega áttað sig á því að svo var þar sem hann hafi sagt ,,ætlar þú að siga á mig lögreglunni”. Hafi Y reynt að gera lítið úr því og staðið upp úr rúminu. Hafi ákærði hent henni í rúmið þannig að Y hafi legið á maganum. Hafi hann vafið sæng um höfuð hennar og sest ofan á bak hennar. Hafi hún reynt að berjast um en þá hafi hann þrýst sænginni alltaf meira og meira að henni. Hafi hún óttast um líf sitt og ekki getað andað. Hafi hún sagt við ákærða að hann væri að drepa hana. Ákærði hafi setið ofan á Y og hún verið alveg föst og kvaðst hún telja að þetta hafi staðið í eina til tvær mínútur. Það næsta er Y myndi hafi verið að hún hafi heyrt eitthvað öskur sem hún hafi síðan áttað sig á að hafi komið frá henni sjálfri en þá hafi sængin ekki lengur verið utan um andlit hennar. Kvaðst hún telja að hún hafi misst meðvitund á þessu tímabili. Hafi hún haldið að ákærði myndi reyna að kyrkja hana aftur og hafi hún öskrað á hjálp. Hafi hún fengið algjört móðursýkiskast þar sem hún hafi talið að ákærði myndi drepa hana. Myndi hún ekki mikið meira fyrr en hún hafi náð að opna hurð að íbúðinni og hlaupa fram. Þar hafi tvær konur gripið hana og náð að draga hana frá ákærða. Hafi ákærði reynt að toga Y aftur inn og loka hurðinni. Skömmu síðar hafi lögregla komið og Y farið á slysadeild.
Y kvað ákærða mikið hafa reynt að ná sambandi við hana eftir þessa atburði. Hafi hún ekki svarað honum en í einhverjum sms símaskilaboðum hafi hann spurt hana hvort hún hafi fundið bíllyklana hans. Hafi hún svarað honum um að hún hafi ekki fundið þá. Hafi hún rætt við ákærða tvisvar sinnum í síma eftir atburðinn og hann sagt henni að hann væri á leið í meðferð.
Ása Elísa Einarsdóttir sérfræðingur á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss hefur 13. desember 2006 ritað læknisvottorð vegna komu Y á deildina 15. nóvember 2006 kl. 01.03. Í vottorðinu er lýst frásögn Y af atburðum. Er rakið að Y hafi greinilega verið í mikilli geðshræringu og með tár í augum. Hafi hún gefið mjög góða sögu en ekki hafi verið að merkja að hún hafi verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Hafi hún verið með roða í kinnum sem geti verið eftir högg eða þar sem hún hafi verið að gráta. Hafi hún verið með um 5 cm langa rispu hægra megin á hálsi framanvert. Þar hafi hún verð aum, auk þess sem hún hafi verið aum hægra megin í neðri kjálka. Eymsli hafi verið aftan í hálsi. Hafi hún fundið fyrir óþægindum við að beygja höfuð fram en getað gert allar hreyfingar um háls. Roðablettir hafi verið á víð og dreif í hársverði. Hafi hún verið aum framanvert og aðeins hliðlægt á vinstri öxl. Hafi hún fundið fyrir eymslum við hreyfingar en það sé engin hindrun. Ekki hafi verið að merkja eymsli annars staðar, en hún hafi ekki verið bankaum yfir hryggjartindum en það séu rispur og blóðmar á bringu á víð og dreif. Einnig hafi verið blóðmar aftan á herðum vinstra megin um 1x2 cm og rispa aftan á hægri mjöðm um 6x1 cm. Hafi Y lýst atburðum sem vel samrýmist því sem finnist við skoðun. Samkvæmt sögu hafi verið um lífshættulega árás að ræða þar sem maðurinn á tímabili hafi verið við að kæfa hana.
Ákærði gaf skýrslu vegna málsins hjá lögreglu miðvikudaginn 15. nóvember 2006. Ákærði kvað einhverjar ryskingar hafa átt sér stað á milli hans og Y að kvöldi þriðjudagsins 14. nóvember 2006. Kvaðst ákærði muna mjög lítið eftir atvikum þar sem hann hafi verið ölvaður, auk þess sem hann hafi tekið inn amfetamín og rivotril allan daginn. Kvaðst ákærði muna síðast eftir sér í Kópavogi um hádegisbilið á þriðjudeginum. Er undir ákærða var borin lýsing Y á atvikum í kæruskýrslu kvaðst ákærði eftir sem áður ekkert muna eftir atvikum. Kvaðst ákærði ekki efast um að lýsing hennar á atvikum væri rétt og að hann hefði enga trú á að hún væri að ljúga upp á hann.
Í skýrslugjöf fyrir dómi kvaðst ákærði hafa búið með Y í um 5 ár. Hafi þau slitið samvistir á árinu 2006 og verið að reyna aftur á þeim tíma er þeir atburðir hafi átt sér stað er væru sakarefni málsins. Hafi þau verið saman dagana á undan. Kvaðst ákærði ekkert muna eftir atvikum þriðjudagsins 14. nóvember 2006, eða næstu tvær vikur þar á eftir. Hafi hann þennan dag verið í neyslu en hann hafi drukkið áfengi, notað amfetamín, kókaín og rivotril. Hafi ákærði verið á efnum í einhverjar vikur fyrir atburðinn, en hann hafi tekið efni daglega. Kvaðst ákærði stórlega efast um að lýsing Y á atvikum væri röng. Ætti hann ekki von á að hún byggi hlutina til. Kvaðst ákærði hafa heyrt tvisvar sinnum í Y í síma eftir atburðinn. Þá kvað hann vel geta staðist að hann hafi sent henni einhver sms símaskilaboð. Ákærði kvaðst í nóvember 2006 hafa sótt um meðferð vegna áfengis- og fíkniefnavandamála sinna. Hafi hann komist inn á Krýsuvík 10. janúar 2007 og verið þar síðan. Ætti hann von á að vera þar fram í miðjan júlí 2007. Meðferðin hafi gengið vel.
Fyrir dómi greindi Y þannig frá atvikum að hún hafi verið í sambandi með ákærða frá árinu 2001. Á árinu 2005 hafi þau slitið sambandi sínu og Y flutt til bróður síns. Y og ákærði hafi verið í einhverju sambandi fram á árið 2006 og hafi því lokið það vor. Í október og nóvember 2006 hafi þau verið að ræða um að taka saman aftur og hafi hlutirnir ekki verið komnir á hreint. Kvaðst Y hafa farið að fá sms símaskilaboð í síma sinn sem hún hafi ekki þekkt. Viðkomandi hafi verið að spyrja Y um hagi hennar á óviðeigandi hátt. Jafnframt hafi viðkomandi hringt en skellt á er Y hafi svarað. Einnig hafi viðkomandi hótað að birta nektarmyndir af Y á internetinu. Skilaboðin hafi versnað eftir því sem á leið. Y hafi þekkt ákærða vel og farið að gruna að skilaboðin kæmu frá honum. Hafi hún gengið á hann með það. Hafi hún komið að honum með síma sem hún hafi ekki kannast við. Á þeim tíma hafi ákærði ekki búist við Y. Hafi hún gengið að símanum og lesið af honum skilaboð. Hafi þá komið í ljós að skilaboð þau sem hún hafi fengið hafi verið úr þeim síma. Þetta hafi verið 5 dögum fyrir þann atburðina í A. Kvaðst Y hafa hringt á lögreglustöð vegna skilaboðanna.
Þriðjudaginn 14. nóvember 2006 hafi Y komið heim til ákærða. Hafi hún þá séð tvær dósir af bjór á borði hjá honum. Hafi hún fengið sjokk er hún hafi séð það. Hafi henni fundist ákærði nokkuð æstur en hún hafi leyft honum að tjá sig. Hafi þau skilið í góðu og hún farið að A þar sem hún hafi dvalið. Hafi hún verið að fara að sofa um kvöldið er ákærði hafi knúið dyra. Hafi hann viljað ræða hlutina og sagt að hann væri miður sín. Hafi hún hleypt honum inn. Klukkan hafi verið um 23.00 um kvöldið. Eftir að ákærði hafi verið komin inn hafi hún séð að hann hafi verið meira drukkinn en fyrr um daginn. Hafi hún reynt að vera róleg og þau rætt hlutina. Ákærði hafi spurt hana út í mögulegt samband þeirra og hún þá sagt að til þess kæmi ekki. Ákærði hafi þá spurt hana hvort hún elskaði hann og hún svarað því neitandi. Hafi ákærði þá staðið á fætur og slegið Y með hnefa og höggið komið á hökuna. Hafi hún staðið á fætur og ætlað að reyna að komast út úr íbúðinni. Ákærði hafi þá staðið fyrir henni. Hafi hún ýtt við ákærða en ákærði þá hent henni í sófa í stofunni. Hafi hún lent á maganum og ákærði hent sér ofan á hana. Hafi hann rifið í hár hennar en hún náð að komast úr sófanum. Á gólfinu hafi hún lent ofan á ákærða. Þau hafi oltið um og ákærði komist ofan á Y. Hafi hann tekið hana hálstaki, rifið í hár hennar og skellt höfði hennar í gólfið. Í framhaldi hafi hann tekið hana kverkataki með báðum höndum og haldið takinu. Hafi hún ekki náð að anda. Hafi hún skriðið inn í svefnherbergi og ákærði komið á eftir henni og tekið hana aftur hálstaki. Y hafi barist um en ákærði hert takið og sagt henni að slaka á. Í framhaldi hafi ákærði losað takið og Y þá ætlað að reyna að komast út úr íbúðinni. Ákærði hafi ýtt henni upp í rúm og sæng lent ofan á henni sem ákærði hafi notað til að halda henni fastri niðri. Hafi hún reynt að ræða við ákærða til að róa hann. Hafi það tekist. Hafi hún beðið hann um að ná í drykk fyrir sig. Sími hennar hafi verið á náttborðinu og hún hringt úr honum í 112. Hafi ákærði komið til baka með vatn og hún lagt símann frá sér. Hafi hún í framhaldi beðið ákærða um annan drykk og hún þá sagt heimilisfangið í símann. Ákærði hafi heyrt þetta og misst stjórn á sér. Hafi hann hent Y á magann í rúmið, tekið sængina og pakkað Y inn í sængina og hafi sængin farið yfir andlit hennar. Síðan hafi hann sest ofan á Y. Hafi ákærði verið rólegur og spurt hana hvort hún hafi ætlað að siga lögreglu á sig. Hafi Y ekki getað hreyft sig og fundið að súrefnið hafi minnkað. Myndi hún næst eftir öskri og hafi hún þá verið komin fram á gólf án þess að vita hvernig það hafi atvikast. Hafi hún misst stjórn á sér og ráfað um móðursjúk. Kvaðst Y hafa öskrað mjög mikið á hjálp á meðan á atlögunni hafi staðið. Kvaðst hún minnast þess að hafa öskrað að ákærði væri að drepa hana. Hafi hún náð að opna hurð fram á gang íbúðarinnar en hann reynt að loka hurðinni. Hún hafi engu að síður komist fram og hitt þar tvær konur sem hafi togað hana út úr íbúðinni. Þær hafi farið með hana fram á stigagang húseignarinnar þar sem Y hafi sigið saman. Lögregla hafi komið tveim til þrem mínútum síðar.
Y kvaðst telja að ekki hafi liðið meira en 5 mínútur frá því ákærði hafi komið inn í íbúðina þar til hann hafi ráðist á hana. Kvaðst Y hafa óttast mjög um líf sitt í íbúðinni þetta kvöld. Hafi hún yfirleitt séð undankomuleið í atlögunni en er ákærði hafi sett sængina yfir höfuð hennar hafi hún haldið að hún myndi deyja. Hún hafi einnig óttast um líf sitt er ákærði hafi tekið hana kverkataki. Y kvað atburðina hafa haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir sig. Hafi hún á þessum tíma verið í námi við F. Sökum ástands hafi hún ekki náð að taka próf við skólann og ekki náð að útskrifast vorið á eftir. Kvaðst Y vera mjög kvíðin eftir þessa atburði. Ætti hún erfitt með að vera í kringum fólk og ætti mjög erfitt félagslega. Kvaðst hún óttast að ákærði myndi reyna að hafa upp á henni þegar hann væri í slæmu ástandi en á slíkum tímum óttaðist hún hann mjög. Y kvaðst hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu ákærða þrisvar sinnum á meðan þau hafi verið saman. Hafi það alltaf verið eftir að hann byrjaði að drekka áfengi. Hafi ákærði ógnað henni einu sinni með hnífi. Kvaðst Y hafa farið í mörg viðtöl til Margrétar Blöndal geðhjúkrunarfræðings og myndi hún halda því áfram. Þá hafi hún farið til Berglindar Guðmundsdóttur sálfræðings í mat á afleiðingum verknaðar ákærða.
C kvaðst hafa verið að horfa á sjónvarp heima hjá sér að kvöldi þriðjudagsins 14. nóvember 2006. Hafi hún heyrt eitthvað þrusk í húsinu eins og verið væri að færa til húsgögn. Hafi henni fundist þetta einkennilegt þar sem enginn væri að færa til húsgögn á þessum tíma sólarhringsins í húsinu, sem væri fyrir eldri borgara. Hafi hún farið að leita hvaðan hávaðinn kæmi og farið fram á gang húsnæðisins. Ekki hafi hún fundið út úr því og farið aftur inn í íbúðina. Fljótlega hafi hún heyrt öskur, garg og grátur og kvenmannsrödd hrópa ,,ekki drepa mig, ekki drepa mig”. Síðan hafi verið hrópað ,,ekki kyrkja mig, ekki kyrkja mig”. Ekki hafi hún heyrt í karlmanni. Hafi C farið út á svalir og heyrt að hávaðinn kom af annarri hæðinni skáhallt á móti íbúð C en hún hafi séð að dyr út á svalir á þeirri íbúð hafi verið opnar. Hafi verið mjög óhugnanlegt að heyra þetta og greinilegt að eitthvað alvarlegt var að gerast. Hafi C kallað til stúlkunnar og sagt henni að koma út á svalir en stúlkan ekki komið út. Hafi hún ætlað að hringja á lögreglu en ávallt slegið inn rangt símanúmer. Hafi hún hlaupið fram á gang og ætlað að hlaupa að íbúðinni en hitt þá B sem einnig hafi búið í húsinu. Hafi þær tvær farið að þeirri íbúð er hljóðin hafi komið úr. Hafi B opnað hurð inn í íbúðina með því að sparka í hana og kallað inn hvort ekki væri allt í lagi. Stúlka hafi komið út móð og másandi og hafi hún átt erfitt með andardrátt og ekki getað talað. Hafi stúlkan verið ,,hysterísk” en strákur reynt að teygja sig út um hurðina til að ná í stúlkuna. B hafi gengið fram með stúlkuna og lögregla komið á vettvang skömmu síðar. Kvaðst C telja að atburðir hafi sennilega staðið yfir í um 30 til 40 mínútur frá því hún hafi heyrt fyrstu hljóðin þar til lögregla hafi komið.
B kvaðst hafa verið inni í íbúð sinni að horfa á sjónvarp er C hafi komið. Hafi C verið hrædd, mikið niðri fyrir og sagt að einhver væri að öskra í húsinu og að hún héldi að það væri verið að drepa einhvern. Hafi þær farið saman fram og niður á næstu hæð fyrir neðan og gengið á hljóðið. Hafi B heyrt öskur og grátur úr íbúð. Hafi hún opnað hurð inn í íbúðina og á sama andartaki séð stúlku sitja við hurðina. Hafi B spurt hvað væri um að vera, teygt sig í stúlkuna og sagt henni að koma með sér. Hafi B séð aðeins í andlit á manni í myrkrinu í íbúðinni en hann ekkert sagt. Hafi stúlkan átt erfitt með að anda og hafi B reynt að sinna henni og reyna að fá hana til að jafna sig. Hafi hún reynt að róa stúlkuna niður því stúlkan hafi verið frávita og alveg stíf af hræðslu. Hafi hún sagst vera hrædd og grátið mikið. Hafi B hlúð að stúlkunni þar til lögregla hafi komið.
Ingibjörg Pétursdóttir lögreglumaður kvaðst hafa sinnt útkalli lögreglu þessa nótt. Ekki hafi lögreglu borist tilkynning um hvar í húsinu stúlka væri í neyð. Eftir að inn í stigagang hússins kom hafi lögreglumenn skipt með sér svæðum að fara á. Hafi þeir séð Y á gangi hússins og með henni tvær eldri konur. Hafi Y verið æst og grátandi. Hafi hún sagt lögreglu að ákærði hafi ráðist á hana og reynt að kæfa hana með sæng. Hafi Ingibjörg verið hjá Y á meðan lögreglumenn hafi farið að íbúð móður stúlkunnar. Hafi þurft lásasmið til að opna hurðina og sérsveit lögreglu til að handtaka ákærða. Kvaðst Ingibjörg hafa farið með Y á slysadeild þar sem hugað hafi verið að henni. Á slysadeild hafi Y sagt Ingibjörgu og lækni frá atburðum kvöldsins í heildstæðri frásögn, en hún hafi fyrst þá verið í standi til að lýsa atburðum. Hafi Ingibjörg tekið niður lýsingu á atvikum sem hún hafi í framhaldi fært inn í frumskýrslu lögreglu. Kvaðst Ingibjörg telja að læknir hafi gert það sama til að færa í læknisvottorð. Það sem fært sé í frumskýrslu um kverkatak ákærða á Y hafi verið haft orðrétt eftir Y. Y hafi verið í mjög miklu uppnámi. Hafi hún verið með klórför í hársverði, á brjóstum og á baki. Hafi hún jafnframt greint frá því að klaufhamar sem lögregla hafi fundið í íbúðinni hafi átt að vera í geymslu. Steikarahnífur og steikaragaffall hafi átt að vera í skúffu.
Margrét Blöndal geðhjúkrunarfræðingur kvaðst starfa á Landspítala háskólasjúkrahúsi í svokallaðri Áfallamiðstöð og væri tilgangur með starfi að styðja þá sem leituðu á slysadeild í fyrstu skrefum eftir áföll. Hafi Y komið til hennar. Y hafi lýst mikilli lífshættu sem hún hafi lent í. Hafi þær leitt til truflana hjá Y varðandi öndun. Y hafi strax sýnt mikil líkamleg einkenni sem mikið hafi truflað hana varðandi hennar daglega líf. Um hafi verið að ræða einkenni áfallastreituröskunar. Y hafi á þeim tíma er atburðir hafi átt sér stað verið í námi í F. Hafi hún að eigin sögn aldrei haft vandamál varðandi einbeitingu. Einbeitingaskortur og líkamleg einkenni hafi hins vegar komið fram sem hafi leitt til þess að hún hafi ekki getað sinnt námi. Kvaðst Margrét hafa útskrifast sem geðhjúkrunarfræðingur á árinu 1988 og aldrei á sínum starfsferli hafa séð jafnsterk einkenni áfallastreituröskunar hjá nokkrum einstaklingi. Mest sláandi hafi verið hvernig Y hafi stundum ekki getað tjáð sig. Kvaðst Margrét hafa hitt Y sjö sinnum á tímabili fram í apríl 2007. Standi henni til boða frekari meðferð. Eigi hún langt í land með að ná bata og þurfi langtímameðferð og jafnvel lyfjameðferð. Útlitið sé því svart um þessar mundir.
Berglind Guðmundsdóttir sálfræðingur staðfesti skýrslu sína frá 19. maí 2007 vegna mats á Y. Gerði hún grein fyrir einstökum atriðum í mati sínu. Kvað hún öll þau einkenni er Y hafi greinst með eiga rætur að rekja til atburðanna 14. nóvember 2006. Notaðir væru fjölþættir mælikvarðar til að greina einkenni. Hafi Y greinst með áfallastreituröskun. Í ljósi hinna fjölþættu mælikvarða væri nánast útilokað fyrir einstakling að gera sér upp áfallastreituröskun. Bæði væri stuðst við munnlega frásögn einstaklinga sem og sýnileg einkenni. Hafi Y lýst því hvernig hún hafi verið vafin inn í sæng. Hafi hún lýst miklum ótta við að upplifa ákærða yfirvegaðan við verknaðinn. Hafi hún ekki getað varist og væri það kjarninn í líðan hennar. Hafi hún upplifað algert bjargarleysi. Erfitt væri að segja til um batahorfur. Meðferð miði við að viðkomandi einstaklingar læri að lifa með þeim atburði er þeir hafi gengið í gegnum. Kvaðst Berglind vera doktor í klínískri sálfræði með sérmenntun í áfallastreituröskun.
Ása Elísa Einarsdóttir læknir staðfesti læknisvottorð sitt í rannsóknargögnum málsins. Kvaðst Ása muna sérstaklega eftir tilviki Y en hún hafi á sínum starfsferli sjaldan séð einstakling í viðlíka geðshræringu. Kvaðst Ása hafa skráð niður atvik eftir Y þegar hún hafi greint henni og lögreglumanni frá atburðum kvöldsins. Hafi hún sagt frá kverkataki sem hafi varað stutt. Atburðurinn með sængina hafi valdið Y einna mestum ótta. Við viðlíka aðstæður og Y hafi greint frá geti safnast saman koltvísýringur í líkamanum sem leiði til þess að viðkomandi einstaklingur geti farið í svokallað ,,blackout”.
Niðurstaða:
Á grundvelli símtals við Neyðarlínuna var lögregla send að A í Reykjavík að kvöldi þriðjudagsins 14. nóvember 2006 vegna gruns um að kona væri þar í nauðum stödd. Er lögreglumenn komu inn í húsnæðið hitti hún fyrir Y, ásamt B og C. Frumskýrslur lögreglu bera með sér að Y hafi verið illa á sig komin. Y hefur bæði hjá lögreglu, sem og hér fyrir dómi, greint frá atvikum þetta kvöld. Hefur hún lýst því hvernig ákærði hafi veist að henni með því að slá hana með hnefa í andlitið. Hafi hann í framhaldi hent Y í sófa í stofu og lagst ofan á hana. Hafi hún náð að komast úr sófanum en á gólfi hafi ákærði rifið í hár hennar og skellt höfði hennar í gólfið. Þá hafi ákærði tekið hana kverkataki þannig að hún hafi ekki náð að draga andann. Inni í svefnherbergi hafi ákærði hrint henni í rúm og vafið sæng um höfuð hennar og líkama þannig að hún gat sig hvergi hreyft. Hafi ákærði þrýst sænginni að höfði hennar þannig að henni hafi legið við köfnun. Hafi hún óttast mjög um líf sitt eftir að ákærði hafi vafið sænginni um höfuð hennar, auk þess sem hún hafi einnig óttast um líf sitt þegar ákærði hafi tekið hana kverkataki.
Ákærði hefur sjálfur ekkert getað borið um atvik. Kveðst hann ekki rengja frásögn Y af atburðum. Mörg sönnunargögn í málinu styðja framburð Y. Í málinu liggur fyrir staðfesting þess efnis að hringt hafi verið úr síma hennar í Neyðarlínuna þetta kvöld. Við hlustun á símtalið má heyra mikinn ótta í málrómi Y og síðan öskur. Því næst slitnar símtalið. Hefur Y greint frá þessu með sambærilegum hætti. Þá liggur fyrir það álit lögreglu að átök hafi átt sér stað í íbúðinni þetta kvöld. C kom fyrir dóminn og lýsti því hvernig hróp og öskur hafi heyrst úr íbúðinni og kona hrópað ,,ekki drepa mig” og ,,ekki kyrkja mig”. Samrýmist þetta framburði Y. Þá lýsti B því að hún hafi heyrt hróp og öskur úr íbúð er hún og C hafi verið að reyna að finna þá íbúð er hljóðin kæmu úr. Báðar lýstu þær ástandi Y þannig að hún hafi verð ákaflega hrædd og átt mjög erfitt með öndun. Y hefur verið staðföst í framburði sínum og sjálfri sér samkvæm um öll atriði er máli skipta. Var augljóst við aðalmeðferð málsins að hún hefur gengið í gegnum erfiða lífsreynslu umrætt sinn. Hefur hún alla tíð greint frá því að atburðurinn með sængina og það þegar ákærði hafi tekið hana kverkataki hafi valdið henni hvað mestum ótta. Berglind Guðmundsdóttir sálfræðingur hefur greint Y með áfallastreituröskun og rekur líðan hennar alfarið til atburðarins 14. nóvember 2006. Þá hefur Margrét Blöndal geðhjúkrunarfræðingur einnig greint frá hinu sama og kveður ótta hennar við sængina hafa ráðið einna mestu um líðan Y. Þegar þessi atriði eru virt í heild sinni, litið er til trúverðugs framburður Y og mið tekið af því að líkamlegir áverkar samkvæmt læknisvottorði samrýmast frásögn hennar, er að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi framið þau brot sem honum eru gefin að sök. Sú háttsemi hans að bregða sæng yfir höfuð Y og þrengja að þannig að henni lá við köfnun var stórhættuleg og hefði getað leitt hana til dauða. Þá var sú háttsemi hans að taka hana kverkataki og þrengja að einnig stórhættuleg. Verður ákærði því sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás samkvæmt ákæru. Er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði er fæddur í nóvember 1976. Á hann að baki nokkurn sakaferil allt frá árinu 1995, en flest tengjast málin brotum á umferðarlögum. Ákærði var 15. desember 2006 dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára fyrir þjófnað og brot gegn umferðarlögum. Þá var hann dæmdur 31. janúar 2007 fyrir ölvunar- og réttindaleysisakstur. Loks gekkst hann undir sátt 1. mars 2007 fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Brot ákærða í þessu máli er framið áður en ákærði var dæmdur 15. desember 2006 og allar refsiákvarðanir eftir það. Ber því að tiltaka refsingu eftir 78. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 77. gr. Taka verður 30 daga fangelsi ákærða frá í dómi 15. desember og fella þá refsingu inn í þá refsingu er ákærða verður hér gerð. Sú líkamsárás sem ákærði hefur í þessu máli verið sakfelldur fyrir var að áliti dómsins heiftúðleg, stórhættuleg og hrottaleg. Þykir það auka á grófleika verknaðarins hve nákominn ákærði var Y, en þau höfðu verið í sambúð fyrir þetta og voru með til skoðunar að taka saman aftur. Þá var brotið framið inni á heimili móður Y. Á ákærði sér engar málsbætur. Með hliðsjón af þessu, sakaferli hans, sbr. og 1., 3., 6. og 7. tl. 1. mgr. og 3. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940, er refsing hans ákveðin fangelsi í 18 mánuði.
Y hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2.500.000 krónur, auk vaxta. Er vísað til þess að atburðurinn hafi haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir Y. Fyrst eftir atburðinn hafi hún upplifað ofsafengna hræðslu og kvíða þannig að hún hafi ekki treyst sér út fyrir hússins dyr og ekki þorað að vera innan um annað fólk. Líkur séu fyrir því að verknaðurinn muni hafa mikil áhrif á andlega heilsu Y um ókomna framtíð. Sé því krafist bóta fyrir brot sem muni hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér um ókomna tíð. Um lagarök er vísað til 26. gr. laga nr. 50/1993.
Í vottorði Berglindar Guðmundsdóttur sálfræðings er lagt mat á sálræn einkenni og líðan Y. Í samantekt kemur fram að allt viðmót Y bendi til að hún hafi upplifað mikla ógn, ofsaótta og niðurlægingu í kjölfar ætlaðrar líkamsárásar. Niðurstöður greiningar bendi til að Y þjáist af áfallastreituröskun og verulegu þunglyndi í kjölfar árásarinnar 14. nóvember 2006. Sálræn einkenni hennar í kjölfar atburða samsvari einkennum sem séu þekkt hjá fólki sem hafi upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir. Með vísan til þess er hér að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða hafi valdið Y miska. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 800.000 krónur. Sú fjárhæð ber vexti eins og í dómsorði greinir.
Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað að fjárhæð 229.312 krónur. Þá greiði ákærði tildæmd málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns brotaþola, hvorutveggja að viðbættum virðisaukaskatti, sem í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, X, sæti fangelsi 18 mánuði.
Ákærði greiði Y, 800.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. nóvember 2006 til 21. júní 2007, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 591.856 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 207.168 krónur, og þóknun til réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur héraðsdómslögmanns, 155.376 krónur.