Hæstiréttur íslands
Mál nr. 607/2012
Lykilorð
- Kynferðisbrot
|
|
Fimmtudaginn 14. mars 2013. |
|
Nr. 607/2012.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn X (Erlendur Þór Gunnarsson hrl.) |
Kynferðisbrot.
X var sýknaður af ákæru um kynferðisbrot sem þar var talið varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. september 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar héraðsdóm og þess að málinu verði vísað heim í hérað. Til vara krefst hann sýknu af kröfu ákæruvaldsins, en að því frágengnu að refsing verði milduð.
Ákærða er gefið að sök kynferðisbrot með því að hafa að kvöldi föstudagsins 8. júlí 2011 sært blygðunarsemi A, B og C er hann birtist utandyra við hús sitt að [...] í [...], í skyrtu einni fata þannig að sést hafi í kynfæri hans, tekið um þau og viðhaft samfarahreyfingar í nokkra stund. Þetta er talið varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir ofangreinda háttsemi og var sú niðurstaða reist á framburði þessara þriggja vitna.
Samkvæmt dagbók lögreglu á Suðunesjum hringdi ákærði þangað kl. 17.33 daginn eftir að ætlað brot hans var framið og óskaði eftir skjótri aðstoð lögreglu þar sem nágranni hans væri að reyna að komast inn til hans. Er lögregla kom á vettvang veifaði áðurnefndur A, sem bjó að [...] í [...], til hennar þar sem hann stóð við hús nr. [...] við sömu götu. Kvaðst hann vera þreyttur á ákærða og sakaði hann um kynferðislega tilburði gagnvart börnum í götunni kvöldið áður. Hafi ákærði komið út úr húsi sínu á nærbuxunum, gripið um kynfærin og bent í átt að börnunum sem hafi verið að leik þar í kring. Í viðtali við lögreglu neitaði ákærði þessu. Í skýrslu hjá lögreglu 11. júlí 2011 bar A fram kæru á hendur ákærða vegna ætlaðs kynferðisbrots. Kvaðst A hafa að kvöldi 8. sama mánaðar verið í heimsókn hjá nágrönnum sínum, hjónunum B og C að [...], en það hús er samkvæmt myndum af vettvangi skáhallt á móti heimili ákærða. Þau hafi setið við matarborð við glugga sem sneri að húsi ákærða. Börn A hafi verið úti á götunni að leik ásamt fleiri börnum. Hann hafi fylgst með þeim út um gluggann og þá séð ákærða úti á lóðinni við hús sitt. Hann hafi verið í fleginni skyrtu og haldið um kynfæri sín, hann hafi verið að „skaka sér“ eins og hann væri að hafa samfarir og lyft svo upp höndunum líkt og hann væri að fagna. A sagðist ekki vita hvort ákærði hafi verið í nærbuxum eða ber að neðan. Fyrir dómi bar A á svipaðan veg, en staðhæfði þó að ákærði hafi verið ber að neðan og kvaðst aldrei hafa sagt að svo kynni að vera að hann hafi verið í nærbuxum. Aðspurður um hvort hann hafi séð kynfæri á ákærða kvaðst A hafa séð „eitthvað í höndunum á honum sem hljóta að hafa verið kynfærin hans.“ Áðurnefndur B sagði í skýrslu hjá lögreglu 11. júlí 2011 að hann hafi umrætt sinn litið út um gluggann á heimili sínu ásamt A og konu sinni og séð ákærða í skyrtu en beran að neðan og hafi hann verið að „skaka sér út í loftið, eins og hann væri að ríða einhverjum, með báðar hendur veifandi fyrir ofan höfuð.“ Þetta hafi staðið yfir í 10 til 15 sekúndur og hafi hann séð kynfæri ákærða. Fyrir dómi bar vitnið á sama veg en kvaðst einnig hafa séð ákærða taka um „hreðjarnar“ á sér. Fyrrnefnd C kvaðst í lögregluskýrslu 13. júlí 2011 hafa séð ákærða á skyrtunni einni fata er hún leit um um gluggann og hafi hann ekki verið í nærfatnaði. Hann hafi tekið um kynfæri á sér með báðum höndum og „skakar sér líkt og hann sé að hafa samfarir.“ Hún hafi ekki séð kynfæri hans greinilega, því hún hafi ekki „einblínt á að horfa niður“. Í skýrslu fyrir dómi sagði C að ekki hafi farið milli mála að ákærði hafi verið ber að neðan, en hún hafi á hinn bóginn „ekkert verið að góna þarna niður“.
Eins og fyrr segir var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða reist á framburði ofangreindra þriggja vitna. Framburður vitnisins A var ekki stöðugur um það hvort ákærði hafi verið í nærfatnaði. Vitnið B kvaðst hafa séð kynfæri ákærða og bætti við fyrir dómi að hann hafi séð ákærða halda um það, en um það hafði hann ekki borið áður. Vitnið C kvaðst ekki hafa séð kynfæri ákærða greinilega, enda hafi hún ekki litið „þarna niður“. Er framburður vitnanna þriggja því ýmist óstöðugur eða ber ekki saman um þau atriði sem ákæra lýtur að. Lögregla ljósmyndaði vettvang við rannsókn málsins og voru meðal annars teknar myndir innan frá glugganum, sem vitnin þrjú kváðust hafa staðið við umrætt sinn. Samkvæmt þeim sést úr glugganum yfir á lóð ákærða á þann stað sem vitnin hafa borið að hann hafi verið þegar hann framdi ætlað brot sitt. Í texta sem fylgir ljósmyndunum kemur fram að milli þess staðar og umrædds glugga séu um það bil 45 metrar og verður ekki komist hjá að taka tillit til þessarar fjarlægðar við mat á sönnun í málinu. Einnig verður líta til þess að samkvæmt gögnum málsins hafa ríkt nágrannaerjur milli þessara þriggja vitna og ákærða, auk þess sem vitnið A var dæmdur 27. september 2011 fyrir líkamsárás gegn ákærða 20. desember 2010. Að öllu þessu virtu er ekki unnt að líta svo á að ákæruvaldið hafi gegn neitun ákærða fullnægt þeirri sönnunarbyrði sem því ber að axla samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verður ákærði því sýknaður af þeirri háttsemi sem hann er ákærður fyrir.
Eftir þessum málsúrslitum verður allar sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða í héraði eins og þau voru ákveðin í hinum áfrýjaða dómi, svo og verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem greinir í dómorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfu ákæruvaldsins.
Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, eins og þau voru ákveðin í hinum áfrýjaða dómi, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Erlendar Þórs Gunnarssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. september 2012.
Mál þetta, sem var dómtekið 23. ágúst sl., er höfðað með ákæru útgefinni af Ríkissaksóknara 31. maí 2012 á hendur X, kt. [...], [...],[...] „fyrir kynferðisbrot, með því að hafa að kvöldi föstudagsins 8. júlí 2011, sært blygðunarsemi A, B og C er hann birtist utandyra við hús sitt að [...],[...], í skyrtu einni fata þannig að sást í kynfæri hans, tekið um kynfæri sín og viðhaft samfarahreyfingar í nokkra stund.“
Þetta er talið varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða þóknunar sér til handa fyrir vinnu meðan á rannsókn málsins stóð og fyrir dómi.
I
Mánudaginn 11. júlí 2011 kom A á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur ákærða vegna meints kynferðisbrots, nánar tiltekið blygðunarsemisbrots. Greindi A frá því að hann hefði í umrætt sinn verið heima hjá B og C að [...] í [...]. Á milli kl. 19.00 og 20.00 hafi ákærði birst utan við hús sitt að [...] í fleginni skyrtu. Hann hafi haldið um kynfæri sín og skekið sér eins og í samförum en síðan hlaupið inn í hús sitt aftur. Sagði A ákærða hafa verið klæddan í ljósa skyrtu en nakinn að neðan, þannig hafi það litið út. Kvaðst A ekki hafa séð hvort ákærði var í nærbuxum eða ekki. Athæfi ákærða hafi staðið yfir í smástund og hafi A kallað á B og C sem hafi litið út um gluggann og séð atvikið.
Í skýrslu sem B gaf á lögreglustöð sama dag lýsti hann atvikinu á svipaðan hátt og A. Hafi B séð ákærða í hvítri skyrtu að ofan en beran að neðan fyrir utan hús sitt að [...]. Ákærði hafi veifað báðum höndum fyrir ofan höfuð og skekið sér eins og hann væri að hafa samfarir. Hafi þetta athæfi ákærða beinst að þeim sem voru inni í húsinu en ekki að öðrum en þeim sem voru við eldhúsgluggann að [...]. Sagði B ákærða hafa verið allsberan að neðan og kvaðst hafa séð kynfæri hans. Hafi ákærði hegðað sér á framangreindan hátt í 10-15 sekúndur og svo farið aftur inn í hús sitt.
C gaf skýrslu hjá lögreglu 12. júlí 2011 og bar á sama veg. Hún kvaðst hafa verið með matarboð á heimili sínu að [...]. Hún hafi setið við eldhúsborðið ásamt B og gesti þeirra, A. Þau hafi séð hvar ákærði hafi staðið út í garði við hús sitt á skyrtunni einni fata með hendur á lofti og „gefið puttann“ með báðum höndum. C sagði skyrtu ákærða hafa verið ljós drappaða eða hvíta að lit, og frá hneppta alla leið niður. Ákærði hefði ekki verið í nærfötum. Þá hefði ákærði tekið um kynfæri sín með báðum höndum og skekið sér líkt og hann væri að hafa samfarir. C sagðist ekki hafa séð kynfærin á ákærða greinilega enda hefði hún ekki eingöngu verið að horfa niður. Hún væri þó viss um að ákærði hefði verið nakinn að neðan. Þá sagði C að ákærði hefði greinilega hegðað sér með þessum hætti til að einhver myndi sjá til hans. Einnig að hann hefði beint athæfi sínu að þeirra húsi.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 2. ágúst 2011. Ákærði neitaði sök og bar að hann hefði verið inn í húsi sínu á fyrrgreindum tíma. Hann hefði farið inn um kl. 18.00, eldað sér mat og horft á sjónvarp. Umræddan dag kvaðst ákærði hafa verið klæddur í gallabuxur og grænan göngujakka. Þá sé hann alltaf í langermabol, með kaskeiti og hanska. Hann eigi hvíta skyrtu en hún hafi verið inn í skáp þegar þetta hafi verið. Þá kvaðst ákærði ekki kunna neinar samfarahreyfingar.
Í skýrslu lögreglu kemur fram að langvarandi deilur hafi verið á milli ákærða annars vegar og nágranna hans hins vegar, þeirra A, kæranda í málinu og B og C. Hafi fjölmörg útköll lögreglu verið vegna þessara deilna.
II
Við meðferð málsins fyrir dómi lýsti ákærði því að hann hefði ekki farið út umrætt kvöld. Um klæðnað sinn sagði ákærði að hann hefði verið í göngubuxum, skyrtu eða peysu renndri upp í háls, grænni úlpu og með húfu og vettlinga. Ákærði kvaðst ekki hafa verið í ljósri skyrtu. Þá neitaði ákærði því að hafa farið út ber að neðan.
A lýsti því að hann hefði verið í matarboði hjá nágrönnum sínum, þeim B og C að [...] um kvöldmatarleytið 8. júlí 2011. Hann hefði setið við glugga á ská á móti heimili ákærða. Hann hafi fylgst með dóttur sinni og syni C út um gluggann. Þá hafi hann heyrt hljóð og litið út um gluggann og séð ákærða koma út í ljósri skyrtu einni fata. Ákærði hafi haldið um kynfærin á sér og gefið frá sér hljóð og viðhaft kynferðislegar hreyfingar. Að því loknu hljóp ákærði til baka, setti hendurnar upp og fagnaði. A sagði þau öll þrjú sem sátu við borðið hafa séð til ákærða. Börnin hefðu ekki séð til ákærða en munu hafa heyrt hljóð frá honum. Brýnt hefði verið fyrir börnunum að forðast ákærða.
B sagðist hafa séð ákærða við hús hans. Hann hefði verið ber að neðan í fráhnepptri skyrtu, haldið um kynfæri sín og skekið sér upp í loftið. Hefði þetta staðið yfir í um 40 sekúndur. B sagði ákærða hafa ætlast til þess að hann sæi ákærða.
C sagðist hafa setið við eldhúsborðið á heimili sínu. Borðið væri við stóran glugga. C sá ákærða standa úti í garði við þvottasnúrur, beran að neðan. Ákærði hafi sveiflað höndunum og gefið frá sér ógeðfelldan hlátur. C sagði son sinn ekki hafa orðið varan við ákærða umrætt kvöld, en taldi að háttsemi ákærða hefði átt að beinast gegn B.
Sveinbjörn Halldórsson lögreglufulltrúi kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslu sem hann vann með ljósmyndum af vettvangi. Þar kemur meðal annars fram að 45 metrar eru á milli eldhúsgluggans að [...] og að þvottasnúru í garði við [...] þar sem ákærði er talinn hafa birst klæðalaus að neðan.
III
Ákærði neitar sök og kannast ekki við að hafa farið út eftir kl. 18.00 föstudagskvöldið 8. júlí 2011. Ákærði hefur lýst því að hann hafi komið heim til sín að [...] um það leyti í umrætt sinn og eldað sér mat og horft á sjónvarp.
Vitnin A, B og C hafa á hinn boginn borið að ákærði hafi komið út úr húsi sínu milli kl. 19.00 og 20.00, líklega þó nær kl. 20.00, umrætt kvöld klæddur fráhnepptri skyrtu einni klæða og viðhaft samfarahreyfingar þannig að ákærði hafi í fyrstu haldið með báðum höndum um kynfæri sín, hlegið tryllingslega og skekið sér en síðan sleppt báðum höndunum, haldið þeim ofan við höfuðið, hlaupið fagnandi til baka og horfið inn í hús sitt. Lýstu vitnin því að þeim hefði verið misboðið með þessu háttarlagi ákærða.
Framburður vitna er að mestu samhljóða um atvik málsins, en þau hafa öll borið að hafa séð ákærða klæðalausan að neðan, handleika kynfæri sín og viðhafa samfarahreyfingar.
Í 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingu með 15. gr. laga nr. 40/2002, segir að hver sem með lostugu athæfi særi blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis skuli sæta fangelsi eða sektum ef brot er smávægilegt. Í athugasemdum með 15. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 40/2002 um breytingu á almennum hegningarlögum segir að undir 209. gr. almennra hegningarlaga falli fyrst og fremst ýmis konar háttsemi önnur en káf og þukl á líkama, t.d. gægjur á glugga, berháttun og önnur strípihneigð og klúrt orðbragð í síma.
Framangreind háttsemi ákærða var til þess falin að særa blygðunarsemi þeirra sem fyrir urðu en fram kom hjá áðurgreindum þremur vitnum að þeim hefði verið misboðið vegna háttsemi ákærða. Þykir nægilega sannað með framburði vitna svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi viðhaft það atferli sem lýst er, þ.e. komið út úr húsi sínu nakinn á neðanverðum líkamanum, handleikið kynfæri sín og viðhaft samfarahreyfingar í nokkra stund. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefið að sök í ákæruskjali ríkissaksóknara og telst háttsemi ákærða varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur ákærði ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði, en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þá verður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnars Kormáks Friðrikssonar héraðsdómslögmanns, sem teljast hæfilega ákveðin 440.000 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.
Hulda María Stefánsdóttir saksóknari flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Finnboga H. Alexanderssyni og Gunnari Aðalsteinssyni héraðsdómurum.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 4 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnars Kormáks Friðrikssonar héraðsdómslögmanns, 440.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.