Hæstiréttur íslands
Mál nr. 768/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Gagnsök
- Riftun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 24. janúar 2014. |
|
Nr. 768/2013.
|
Glitnir hf. (Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn Stoðum hf. (Tómas Hrafn Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Gagnsök. Riftun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi kröfu G hf. í gagnsök í máli S hf. á hendur G hf., um að rift yrði kaupsamningi málsaðila um nánar tilgreinda eignarhluti í tveimur eignarhaldsfélögum og að kröfu G hf. um endurgreiðslu samkvæmt kaupsamningnum, með skírskotun til þess að liðinn hefði verið málshöfðunarfrestur samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, er krafan var fyrst höfð uppi í greinargerð G hf. í héraði.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. nóvember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2013 þar sem aðalkröfu sóknaraðila í gagnsök í máli varnaraðila á hendur honum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og héraðsdómara verði gert að taka til efnismeðferðar aðalkröfu sóknaraðila í gagnsök um ,,að rift verði kaupsamningi aðila 28. maí 2008 um nánar greinda eignarhluti í Eikarhaldi ehf. og Fasteignafélagi Íslands og að [varnaraðila] verði gert að endurgreiða [sóknaraðila] kr. 6.870.696.065“ ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. apríl 2013 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að ákvæði héraðsdóms um frávísun verði staðfest. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Glitnir hf., greiði varnaraðila, Stoðum hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2013.
Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slit varnaraðila, var beint til dómsins með bréfi slitastjórnar varnaraðila 5. júní 2012. Um lagagrundvöll vísaði slitastjórn til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var þingfest 5. september 2012. Á dómþingi 25. október 2012 ákvað dómari að ósk aðila að skilja hluta sakarefnisins frá og taka það til meðferðar í öðru máli, sem rekið er samhliða þessu undir málsnúmerinu X-610/2012.
Sóknaraðili lagði fram greinargerð sína í málinu 18. janúar 2013. Hann gerir eftirfarandi dómkröfur.
Aðallega:
1. Að staðfest verði með dómi riftun sóknaraðila, Stoða hf., dags. 8. september 2008, á veðsetningu hlutabréfa hans í Eikarhaldi ehf. samtals að nafnvirði 2.014.053.000 krónur og Fasteignafélagi Íslands ehf. samtals að nafnvirði 570.449.378 krónur samkvæmt tveimur handveðsyfirlýsingum og lánssamningi dags. 11. apríl 2008.
2. Að staðfest verði með dómi riftun sóknaraðila Stoða hf. 8. september 2008 á ráðstöfun sóknaraðila á söluandvirði hlutabréfa í Eikarhaldi ehf. og Fasteignafélagi Íslands ehf. til varnaraðila 27. júní 2008 að fjárhæð 6.125.013.503 krónur.
3. Að varnaraðila verði með dómi gert að endurgreiða honum 6.125.013.503 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. október 2009 til greiðsludags og að krafan verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit varnaraðila.
Til vara:
1. Að staðfest verði með dómi riftun sóknaraðila Stoða hf., 8. september 2008 á veðsetningu hlutabréfa í Eikarhaldi ehf. samtals að nafnvirði 1.376.410.000 krónur samkvæmt handveðsyfirlýsingu og lánssamningi 11. apríl 2008.
2. Að staðfest verði með dómi riftun sóknaraðila Stoða hf., 8. september 2008, á ráðstöfun sóknaraðila á söluandvirði hlutabréfa í Eikarhaldi ehf. til varnaraðila 27. júní 2008 að fjárhæð 630.727.438 krónur.
3. Að varnaraðila verði með dómi gert að endurgreiða honum 630.727.438 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. október 2009 til greiðsludags og að krafan verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila.
Sóknaraðili krefst í báðum tilvikum málskostnaðar.
Varnaraðili lagði fram greinargerð af sinni hálfu 30. apríl 2013 og krafðist þess að kröfum sóknaraðila yrði hafnað.
Varnaraðili hafði einnig uppi gagnkröfur.
Krefst hann þess aðallega að kaupsamningi, 28. maí 2008, milli varnaraðila og sóknaraðila um 33,69% heildarhlutafjár í Fasteignafélagi Íslands ehf., kt. 430700-3590, fyrir 4.856.643.065 krónur og 71,7% hlutafjár í Eikarhaldi ehf., kt. 490307-0600, fyrir 2.014.053.000 krónur verði rift og að sóknaraðila verði gert að endurgreiða varnaraðila 6.870.696.065 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingu gagnkröfu, 30. apríl 2013, til greiðsludags.
Til vara krefst varnaraðili þess að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 6.870.696.065 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingu gagnkröfu, 30. apríl 2013 til greiðsludags.
Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar.
Í skriflegu svari sínu við gagnkröfu sem lagt var fram 1. júlí 2013 krafðist sóknaraðili aðallega frávísunar gagnkrafnanna en til vara sýknu. Þá krafðist hann málskostnaðar.
Málið var flutt og tekið til úrskurðar um framangreinda frávísunarkröfu sóknaraðila á gagnkröfu varnaraðila 18. október 2013. Varnaraðili krafðist þess að frávísunarkröfu yrði hrundið. Báðir aðilar krefjast málskostnaðar í þessum þætti málsins.
Hér er samkvæmt framansögðu aðeins til úrlausnar hvort fallast eigi á kröfu sóknaraðila um frávísun gagnkrafna í málinu.
Þrátt fyrir það að varnaraðili sé til sóknar í þessum þætti málsins og sóknaraðili til varnar þykir ekki ástæða til að víkja frá þeirri tilgreiningu aðila sem þeir hafa fengið í efnisþætti þess. Verður því í úrskurði þessum vísað til Stoða hf. sem sóknaraðila en Glitnis hf. sem varnaraðila.
I
Sóknaraðila málsins, sem áður hét FL Group hf., var veitt heimild til greiðslustöðvunar 29. september 2008. Í kjölfarið fékk félagið heimild til að leita nauðasamninga og var nauðasamningur þess staðfestur með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2009. Sóknaraðili lýsti kröfu við slitameðferð varnaraðila 14. september 2009, með vísan til 32. gr., sbr. XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafðist sóknaraðili þar riftunar nánar greindra veðsetninga, sbr. 137. gr. laga nr. 21/1991 og einnig riftunar ráðstöfunar tiltekinna greiðslna samkvæmt nánar greindum kaupsamningum með vísan til 134. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991. Þá krafðist sóknaraðili endurgreiðslu nánar tilgreindra fjárhæða, sbr. 142. gr. laganna.
Varnaraðili er fjármálafyrirtæki í slitameðferð, en samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í varnaraðila, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Varnaraðila var 24. nóvember 2008 veitt heimild til greiðslustöðvunar. Með lögum nr. 44/2009, sem breyttu nokkrum ákvæðum laga nr. 161/2002, var varnaraðili tekinn til slita og skyldi upphaf þeirra miðast við 22. apríl 2009 þegar lögin öðluðust gildi. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði 12. maí sama ár slitastjórn sem annast meðal annars meðferð krafna á hendur varnaraðila. Hún gaf út innköllun til skuldheimtumanna félagsins 26. maí 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 26. nóvember sama ár. Í samræmi við ákvæði 102. gr. laga nr. 161/2002 eins og greininni var breytt með lögum nr. 44/2009 fer um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki sem er til slitameðferðar eftir ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá kemur fram í 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 að ef ekki sé sýnt að eignir fjármálafyrirtækis nægi til að efna skuldbindingar þess að fullu megi krefjast riftunar eftir sömu reglum og gildi um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti. Gildi þá öll ákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991 við slitameðferðina en þó þannig að frestur til að höfða riftunarmál skv. 1. mgr. 148. gr. laganna skuli vera 30 mánuðir í stað sex mánaða. Varnaraðili vísar til síðastgreindrar lagaheimildar um gagnkröfur sínar en einnig til 177. gr., sbr. 2. tl. 173. gr. laga nr. 21/1991 og byggir einkum á að kaup varnaraðila á hlutum í tveimur einkahlutafélögum hafi falið í sér örlætisgerning og séu því riftanleg á grundvelli 131. gr. sömu laga, en að því frágengnu að sömu kaup séu riftanleg á grundvelli reglna 141. gr. sömu laga. Varnaraðili krefst endurgreiðslu nánar greindra fjármuna með vísan til framangreinds. Til vara krefst varnaraðili þess að sóknaraðili verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að tiltekinni fjárhæð auk nánar greindra dráttarvaxta.
II
Málsatvik eru í sem stystu máli á þá þá leið að 21. desember 2007 mun varnaraðili hafa lánað sóknaraðila 15.000.000.000 krónur til þriggja ára. Meðal veðtrygginga sem veittar voru í tengslum við umrætt lán voru handveðsetningar eignarhluta sóknaraðila í Eikarhaldi ehf. (að nafnvirði 637.643.000 krónur eða 22,7% af heildarhlutafé) og Fasteignafélagi Íslands ehf. (að nafnvirði 570.449.555 krónur eða 32,3% af heildarhlutafé). Var þetta gert með sérstökum handveðsyfirlýsingum dagsettum sama dag og lánasamningurinn. Varnaraðili gaf út tvær tilkynningar 30. apríl 2008 þar sem fyrrnefndar handveðsyfirlýsingar voru felldar niður. Sama dag var gerður lánasamningur milli aðila þar sem varnaraðili lánaði sóknaraðila 4.000.000.000 krónur og kemur fram í lánasamningi að aðilar hyggist setja eignarhlut í Eikarhaldi ehf. sem veðtryggingu fyrir láninu. Nýr lánasamningur var gerður 11. apríl 2008, samtals að fjárhæð 5.000.000.000 krónur. Sama dag gaf sóknaraðili út tvær handveðsyfirlýsingar þar sem varnaraðila var sett að veði eignarhluti í Eikarhaldi ehf. (71,7% hlutafjár) og eignarhluti í Fasteignafélagi Íslands ehf. (32,3% hlutafjár). Aðilar komust að samkomulagi 1. maí 2008 sem fól í sér að varnaraðili öðlaðist kauprétt á framangreindum eignarhlutum í umræddum félögum á nánar tilgreindu verði. Umræddur kaupréttur var nýttur 28. maí 2008 og var kaupverðið í samræmi við það sem ákveðið hafði verið í samkomulagi aðila. Fyrir ofangreindan eignarhlut í Fasteignafélagi Íslands ehf. voru því greiddar 4.856.643.065 krónur og fyrir eignarhlut í Eikarhaldi ehf. voru greiddar 2.014.053.000 krónur. Kaupverðinu var að mestu varið til að greiða nánar tilteknar skuldir sóknaraðila við varnaraðila. Var það í samræmi við ráðagerð í fyrrnefndu samkomulagi 28. maí 2008.
Krafa sú sem sóknaraðili lýsti í slitabú varnaraðila byggir á því að veðsetning umræddra eignarhluta í einkahlutafélögum sem átti sér stað 11. apríl 2008 teljist veðsetning sem riftanleg sé á grundvelli 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991. Veðsetningin hafi átt sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, sem er 29. september 2008, og með henni hafi verið veitt veðtrygging fyrir skuld sem ekki hafi verið stofnað til samhliða veðtryggingunni. Þá krefst sóknaraðili riftunar á þeim gerningi að ráðstafa söluverði eignarhluta í nefndum félögum til að greiða nánar greindar skuldir sóknaraðila við varnaraðila. Sé umrædd ráðstöfun á söluverðinu riftanleg aðallega á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991 en til vara á grundvelli 141. gr. sömu laga. Byggir hann og á að nánar tilgreind þóknun sem kveðið var á um í kaupsamningi hafi verið örlætisgerningur sem sé riftanlegur á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991. Telur sóknaraðili að þær skuldir sem þannig hafi verið gerðar upp hafi verið greiddar með óvenjulegum greiðslueyri og fyrr en eðlilegt var. Greiðslurnar verði einnig að telja ótilhlýðilegar. Á framangreindum grunni krefst hann endurgreiðslu umræddra fjármuna með vísan til 142. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili hafnar að skilyrði séu til að fallast á framangreindar röksemdir sóknaraðila. Kveður hann að stofnað hafi verið til veðsetningar í eignarhlutum í umræddum félögum um leið og sóknaraðila hafi verið veitt peningalán. Hafi veðsetningin aldrei rofnað með þeim hætti að varnaraðili teljist hafa gefið eftir veðréttindin. Riftun á grundvelli 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991 komi því ekki til greina. Með því að varnaraðili hafi haft umrædda eignarhluti veðsetta með lögmætum hætti komi heldur ekki til greina að telja að sú ráðstöfun sem falist hafi í því að verja söluverðmæti þeirra til greiðslu skulda sóknaraðila við varnaraðila geti talist riftanleg á grundvelli 134. gr. eða 141. gr. laga nr. 21/1991.
Með framangreindri umfjöllun er aðeins tæpt á helstu málsástæðum sem aðilar byggja á í aðalsök málsins. Ekki er um tæmandi talningu að ræða, hvorki að því er varðar lýsingu aðila á málsatvikum eða tilvísun til málsástæðna sem þeir byggja kröfur sínar á.
III
Í málinu hefur varnaraðili uppi gagnkröfu á grundvelli 4. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. tl. 173. gr. sömu laga. Þá vísar hann til 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009, um heimild til að krefjast riftunar á ráðstöfunum varnaraðila eftir sömu reglum og gildi um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti. Þá vísar varnaraðili til þess að vegna ákvæðis 2. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 eigi regla 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um 30 mánaða frest til að höfða riftunarmál ekki við.
Byggir varnaraðili einkum á því að eignarhlutir í Eikarhaldi ehf. og Fasteignafélagi Íslands ehf. sem varnaraðili keypti af sóknaraðila og hafi greitt fyrir samtals 6.870.696.065 krónur samkvæmt samningi 28. maí 2008 hafi verið verðlausir. Gerningurinn hafi því verið gjöf í skilningi 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 og hafi afhending farið fram innan sex mánaða frá frestdegi sem sé 15. nóvember 2008. Þá telur varnaraðili að umrædd ráðstöfun hafi einnig verið ótilhlýðileg í skilningi 141. gr. sömu laga m.a. með hliðsjón af því að með henni hafi verið færð fjárhagsleg réttindi frá varnaraðila til sóknaraðila án þess að nokkurt endurgjald hafi komið fyrir. Byggir hann og á því að stjórnendur sóknaraðila hafi á þeim tíma sem hér skiptir máli vitað eða mátt vita að kaupverð eignarhluta í umræddum félögum hafi verið umfram verðmæti þeirra. Hafi falist í sölunni saknæm og ólögmæt háttsemi stjórnenda sóknaraðila sem valdið hafi varnaraðila tjóni sem sóknaraðili beri skaðabótaábyrgð á.
IV
Í skriflegu svari sóknaraðila í tilefni af gagnkröfum sem varnaraðila setti fram í greinargerð sinni krefst sóknaraðili þess aðallega að gagnkröfunum verði vísað frá dómi. Byggir hann þá kröfu sína í fyrsta lagi á því að varnaraðili hafi skuldbundið sig með bindandi hætti til þess að höfða ekki mál á hendur sóknaraðila. Komi þetta fram í yfirlýsingum sem gefnar hafi verið fyrir hönd varnaraðila í september 2010 í tilefni af því að varnaraðili hafi óskað eftir að sóknaraðili legði honum í té nánar tilgreind gögn. Nánar verður gerð grein fyrir umræddum gögnum hér síðar. Einnig byggir sóknaraðili á því að með samþykki varnaraðila og annarra helstu veðkröfuhafa sóknaraðila á svokölluðum „Master agreement“ frá því í maí 2009 og útgáfa varnaraðila á svokölluðu „Release letter“ hafi hann einnig ráðstafað sakarefni málsins þannig að hann geti ekki að réttu haft uppi gagnkröfu sína í málinu. Vísar sóknaraðili um framangreint til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 og byggir á því að varnaraðili hafi með samningi undanskilið sakarefnið lögsögu dómstóla og sé við það bundinn. Því beri að vísa kröfu hans frá dómi.
Í öðru lagi byggir sóknaraðili á því að málatilbúnaður varnaraðila sé vanreifaður og uppfylli ekki skilyrði d., e. og f. liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um skýran og ljósan málatilbúnað. Vísar sóknaraðili einkum til þess að krafa varnaraðila sé um riftun á kaupsamningi sem sé kröfuréttarlegt úrræði en málatilbúnaður hans fjalli að mestu um riftun á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991. Sé efni kröfunnar þannig ekki í samræmi við tilvísun til lagaákvæða og sé sóknaraðila því nánast ómögulegt að verjast kröfunni þar sem grundvöllur hennar sé af þessum sökum óljós. Sömu röksemdir eigi að leiða til þess að kröfu varnaraðila um endurgreiðslu auðgunar á grundvelli 142. gr. laga nr. 21/1991 skuli vísa frá dómi.
Í þriðja lagi byggir sóknaraðili á því að frestir varnaraðila til að hafi í frammi gagnkröfu sína í málinu séu liðnir. Vísar hann í fyrsta lagi til þess að skilyrði fyrir kröfu um sjálfstæða úrlausn á grundvelli 4. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991, sbr. m.a. 2. tl. 173. gr. sömu laga, séu háð því að almennum skilyrðum til höfðunar gagnsakar samkvæmt 28. gr. laga nr. 91/1991 sé fullnægt. Sé þar kveðið á um að gagnsök skuli höfða innan mánaðar frá þingfestingu aðalsakar. Hafi sá frestur verið liðinn þegar varnaraðili hafi lagt fram greinargerð sína. Þá hafi einnig liðið lengri tími en mánuður frá því að sóknaraðili málsins lagði fram greinargerð þar til varnaraðili lagði fram greinargerð af sinni hálfu þar sem gagnkrafa hans hafi fyrst verið höfð uppi. Einnig byggir sóknaraðili á því að tímafrestur til höfðunar máls til riftunar á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991 sem mælt er fyrir um í 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 með síðari breytingum hafi verið liðinn þegar varnaraðili hafði uppi kröfu sína. Leiði þetta einnig til frávísunar málsins.
Af hálfu varnaraðila var ofangreindum sjónarmiðum og röksemdum mótmælt við munnlegan flutning málsins. Vísaði varnaraðili og til þess að ekki stæðu lagaskilyrði til að vísa frá dómi kröfum í málum af því tagi sem hér væru til úrlausnar og byggði á því að kröfum ætti að hafna. Byggði varnaraðili og á því að þær yfirlýsingar sem gefnar hefðu verið fyrir hönd varnaraðila yrðu með engu móti túlkaðar á þann hátt að honum hefði verið óheimilt vegna þeirra að hafa uppi gagnkröfur sínar í málinu. Einnig hafnaði hann því að undirritun hans á þá samninga sem að framan er getið fæli í sér ráðstöfun sakarefnis með þeim hætti sem sóknaraðili byggi á.
Varnaraðili hafnar því einnig að málatilbúnaður hans geti á einhvern hátt talist vanreifaður. Um sé að ræða riftunarkröfu á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991 og valdi það engum vafa. Hafi kröfugerð eins og sú sem varnaraðili hafi uppi í málinu verið látin átölulaus í dómum Hæstaréttar í sambærilegum málum. Megi einnig sjá á málsvörnum sóknaraðila að honum sé fulljóst hvers eðlis krafan er og á hvaða grundvelli hún sé byggð.
Varðandi málshöfðunarfresti vísaði varnaraðili til þess að með hliðsjón af dómi Hæstaréttar þriðjudaginn 14. febrúar 2013 í máli nr. 30/2013 verði talið einsýnt að mánaðarfrestur sá til höfðunar gagnsakar sem tilgreindur er í 28. gr. laga nr. 91/1991 eigi ekki við í ágreiningsmálum af því tagi sem hér er til úrlausnar. Var og vísað til þess að í 4. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991 væri vísað um heimild til að hafa uppi gagnkröfu til XXIII kafla sömu laga, sbr. þó 2. tl. 173. gr. laganna. Ekki væri þar vísað til XX. kafla laganna sem fjallaði um riftunarkröfur. Var byggt á því að hálfu varnaraðila að með samanburði á efni umræddra lagaákvæða væri ljóst að heimild til að hafa uppi gagnkröfu takmarkaðist því ekki af 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991. Í greinargerð vísaði varnaraðili um þetta atriði til þess að umræddur tímafrestur stæði kröfugerð hans ekki í vegi vegna ákvæðis 2. mgr. 148. gr. sömu laga.
Varnaraðili mótmælti því að einhverjir þeir ágallar væru á skaðabótakröfu hans sem varðað gæti frávísun hennar.
V
Sóknaraðili byggir í fyrsta lagi á því að varnaraðili hafi skuldbundið sig til að höfða ekki mál á hendur honum og sé hann við það bundinn, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 þar sem kveðið er á um að dómstólar hafi vald til að dæma um hvert það sakarefni sem lög og landsréttur nái til nema það sé skilið undan lögsögu þeirra samkvæmt lögum, samningi, venju eða eðli sínu.
Í fyrsta lagi vísar sóknaraðili til þess að fyrirsvarsmenn varnaraðila hafi, í tengslum við samninga um afhendingu gagna, gefið yfirlýsingu um að varnaraðili myndi ekki höfða mál á hendur sóknaraðila. Þær yfirlýsingar sem um er rætt liggja fyrir í málinu.
Er í fyrsta lagi um að ræða „Skaðleysis- og ábyrgðaryfirlýsingu Glitnis banka hf.“ sem dagsett er 21. september 2010 og er gerð vegna beiðni varnaraðila um að sóknaraðili léti honum í té nánar tilgreind gögn. Kemur meðal annars fram í yfirlýsingunni að skilanefnd/slitastjórn varnaraðila muni hvorki rifta gerningum á milli félaganna né höfða dómsmál á hendur sóknaraðila, komi til afhendingar gagna, að því marki sem möguleg dómsmál byggist á þeim gögnum sem afhent verði. Með bréfi 27. september 2010 sem sóknaraðili sendi varnaraðila kom m.a. fram að skilningur sóknaraðila væri sá að sökum þess hve víðfeðm beiðnin sé og til að taka af allan vafa um að félagið muni ekki bera skaða af afhendingu gagna að varnaraðila skuldbindi sig til að nýta ekki upplýsingar sem fram komi í afhentum gögnum til varnar í fyrirliggjandi riftunarmálum og jafnframt að varnaraðili höfði ekki nein frekari mál á hendur sóknaraðila. Með tölvubréfi lögmanns varnaraðila 28. september 2010 var fallist á skilning sóknaraðila sem fram kom í nefndu bréfi með athugasemdum sem ekki þykja skipta máli hér.
Það er mat dómsins að þegar tilvitnaðar yfirlýsingar eru lesnar í samhengi verði þær ekki taldar fela í sér það víðtæka afsal á rétti til málshöfðunar sem sóknaraðili byggir á. Verður ekki séð að með framangreindum samskiptum hafi verið gefið loforð sem gæti talist víðtækara en svo að varnaraðili hygðist ekki höfða mál á grundvelli þeirra gagna sem afhent yrðu á grundvelli samkomulagsins. Óumdeilt er að engin gögn sem sóknaraðili afhenti varnaraðila á grundvelli framangreinds samkomulags hafi verið lögð fram í máli þessu. Verður þegar af þeirri ástæðu hafnað röksemdum sóknaraðila um að gagnkrafa varnaraðila í málinu fari gegn því loforði sem sóknaraðili byggir á að felist í ofangreindum samskiptum málsaðila. Þá er ekki unnt að fallast á með sóknaraðila að varnaraðili hafi ráðstafað sakarefni málsins, þannig að vísa eigi gagnkröfum hans frá dómi, með gerð „master agreement“ í lok maí 2009 og útgáfu „release letter“ í febrúar 2010. Þegar af þeim ástæðum sem að framan eru raktar verður ekki talið að sóknaraðili hafi sýnt fram á það með fullnægjandi hætti að varnaraðili hafi með yfirlýsingum sínum eða samningum afsalað sér rétti til að hafa uppi gagnkröfur sínar í máli þessu, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991.
Verður þá næst að líta til þess hvort frestir til höfðunar gagnsakar í málinu hafi verið liðnir þegar gagnkröfur voru fyrst hafðar uppi í greinargerð varnaraðila 30. apríl 2013. Fallist er á með varnaraðila, með vísan til forsendna dóms Hæstaréttar 14. febrúar 2013 í máli nr. 30/2013, að mánaðarfrestur sá sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 eigi ekki við um gagnkröfur í ágreiningsmálum á grundvelli laga nr. 21/1991. Verður ekki annað séð en að umræddur dómur hafi fullt fordæmisgildi varðandi úrlausn þess máls sem hér er til meðferðar. Er því ekki unnt að fallast á frávísunarkröfu sóknaraðila á þessum grunni.
Að mati dómsins eru engin efni til að fallast á með sóknaraðila að riftunar- og endurgreiðslukröfur varnaraðila séu vanreifaðar svo frávísun varði. Veldur ekki teljandi vafa að varnaraðili byggir í þessum efnum á riftunarreglum laga nr. 21/1991 og að sambærileg kröfugerð hefur átölulaust verið samþykkt í úrlausnum dómstóla. Í 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, með síðari breytingum, er mælt fyrir um að beita megi reglum XX. kafla laga nr. 21/1991 um riftun ráðstafana þrotamanns við slitameðferð fjármálafyrirtækis. Tekið er fram að frestur til að höfða mál samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laganna skuli vera 30 mánuðir. Í síðastnefndri lagagrein, sem er lokaákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991 segir að ef höfða þurfi dómsmál til að koma fram riftun skuli það gert áður en sex mánuðir eru liðnir frá því skiptastjóri hafi átt þess kost að gera riftunarkröfuna. Fresturinn byrji þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Í máli þessu hefur engum röksemdum verið teflt fram sem leitt gætu til þess að talið yrði að miða eigi við eitthvað annað upphafstímamark varðandi umræddan frest en lok kröfulýsingarfrests 26. nóvember 2009. Frestur til höfðunar riftunarmála vegna slitameðferðar varnaraðila stóð því til 26. maí 2012 og var því runninn út þegar gagnsök varnaraðila var þingfest 30. apríl 2013. Verður ekki talið að heimild til að hafa uppi gagnkröfu til riftunar og endurgreiðslu verði sótt í 2. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 eins og hér stendur á. Verður hér að leggja til grundvallar að kröfur um riftun umræddra kaupa og endurgreiðsla kaupverðsins feli í sér sjálfstæðar kröfur á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991 sem ekki geti talist einvörðungu fela í sér mótmæli gegn þeim kröfum sem sóknaraðili lýsti í slitabú varnaraðila. Engin efni eru til þess að fallast á með varnaraðila að gagnkröfur á grundvelli 4. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991 verði hafðar uppi án tillits til frests til höfðunar riftunarmáls á grundvelli 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991. Þegar af þeim ástæðum sem að framan eru raktar verður fallist á með sóknaraðila að gagnkröfur varnaraðila um riftun og endurgreiðslu séu of seint fram komnar og beri því að vísa þeim frá dómi. Er með þessari niðurstöðu hafnað sjónarmiðum varnaraðila sem hann hafði uppi við munnlegan málflutning um að í ágreiningsmálum af því tagi sem hér um ræðir beri skilyrðislaust að hafna kröfum í stað þess að vísa þeim frá dómi. Telur dómurinn að skilja verði ákvæði 3. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991 þannig að til greina komi að vísa kröfum frá dómi í samræmi við reglum laga nr. 91/1991 og standa engin rök til þess að telja að annað eigi við um gagnkröfu sem höfð er uppi í máli á grundvelli 4. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991.
Í greinargerð varnaraðila er byggt á því til stuðnings varakröfu hans um skaðabætur að stjórnendur sóknaraðila hafi sýnt af sér nánar tilgreinda saknæma háttsemi við sölu á umræddum eignarhlutum einkahlutafélaga til varnaraðila. Ber varnaraðili eftir almennum sönnunarreglum sönnunarbyrði fyrir því að tiltekin háttsemi sé saknæm og ólögmæt og hafi leitt til tjóns sem geti talist sennileg afleiðing þeirrar háttsemi. Telst það ekki vanreifun af hans hálfu þó það sé mat sóknaraðila að sönnunargögn skorti til að renna fullnægjandi stoðum undir fullyrðingar varnaraðila í þessa veru, enda sönnunarfærslu í málinu ekki lokið. Leiðir skortur á sönnun til sýknu en ekki frávísunar. Þegar af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar eru ekki efni til að fallast á með sóknaraðila að skaðabótakrafa varnaraðila teljist vanreifuð þannig að frávísun varði.
Ekki þykir ástæða til að úrskurða sérstaklega um greiðslu málskostnaðar nú en ákvörðun hans látin bíða efnislegrar úrlausnar málsins.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Lúðvík Bergvinsson hdl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Jón Þór Ólason hdl. fyrir hönd Hróbjarts Jónatanssonar hrl.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Vísað er frá dómi aðalkröfum varnaraðila, Glitnis hf., í gagnsök um að rift verði kaupsamningi aðila 28. maí 2008 um nánar greinda eignarhluti í Eikarhaldi ehf. og Fasteignafélagi Íslands ehf. og að sóknaraðila, Stoðum hf., verði gert að endurgreiða varnaraðila 6.870.696.065 krónur ásamt nánar greindum dráttarvöxtum.
Að öðru leyti er frávísunarkröfu sóknaraðila hafnað.
Ákvörðun málskostnaðar bíður efnislegar úrlausnar málsins.