Hæstiréttur íslands

Mál nr. 441/2009


Lykilorð

  • Banki
  • Eftirlaun


                                                        

Fimmtudaginn 18. mars 2010.

Nr. 441/2009.

Axel Kristjánsson

(Anton B. Markússon hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Sigurður Gísli Gíslason hrl.)

Bankar. Eftirlaun.

A lét af störfum sem aðstoðarbankastjóri Ú í maí 1987. Á fundi bankaráðs Ú 2. apríl 1987 var ákveðið að A skyldi njóta eftirlauna sem næmu 70,5% af föstum launum bankastjóra. Þessi launakjör voru ákveðin einhliða af bankaráði Ú í samræmi við þágildandi lög um bankann. Ekki þótti sýnt fram á annað en að fjármálaráðuneytið hefði yfirtekið vald bankaráðsins til að ákvarða eftirlaun A þegar Ú var lagður niður. Í febrúar 1998 ákvað ráðuneytið að stofn til ákvörðunar eftirlauna skyldi miðaður við lokalaun bankastjóra L og skyldu eftirlaunin framvegis fylgja almennum launabreytingum bankastarfsmanna. A höfðaði síðar mál og krafðist þess að viðurkennt yrði að viðmiðunarfjárhæð lífeyrisgreiðslna hans eins og hún var 1. janúar 1998 skyldi fylgja vísitölu lífeyrisskuldbindinga fyrir opinbera starfsmenn, sem Hagstofa Íslands reiknar og birtir, og taka mánaðarlegum breytingum í samræmi við hana. Ekki var ágreiningur með aðilum um að viðmiðunarfjárhæð lífeyrisgreiðslna til A skyldi vera eins og hún var ákveðin 1. janúar 1998. Ágreiningur var hins vegar með aðilum um það hvað fælist í orðalaginu almennar launabreytingar. A taldi að túlka bæri hugtakið „almennar launabreytingar“ svo að þær tækju til allra launahækkana, sem yrðu á launum bankastarfsmanna á hverjum tíma, þar með taldar flokkatilfærslur og launaskrið. Það yrði eingöngu gert með því að styðjast við vísitölu lífeyrisskuldbindinga fyrir opinbera starfsmenn. Talið var að orðalagið „almennar launabreytingar bankastarfsmanna“ gæti aðeins vísað til almennra launahækkana sem ákveðnar væru í kjarasamningum, en einstaklingsbundnar launahækkanir, flokkatilfærslur og aðrar hækkanir, sem ekki væru almennar, gætu þar ekki komið til álita. Var Í sýknað af kröfu A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Garðar Gíslason og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. ágúst 2009. Hann krefst þess nú að viðurkennt verði að viðmiðunarfjárhæð lífeyrisgreiðslna hans eins og hún var 1. janúar 1998 skuli fylgja vísitölu lífeyrisskuldbindinga fyrir opinbera starfsmenn, sem Hagstofa Íslands reiknar og birtir, frá 1. janúar 1998 og framvegis meðan hann nýtur lífeyrisréttar sem fyrrverandi aðstoðarbankastjóri Útvegsbanka Íslands og taka mánaðarlegum breytingum í samræmi við hana. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ágreiningur málsaðila lýtur einkum að því hvað felist í orðunum „almennar launabreytingar bankastarfsmanna“ sem eftirlaun fyrrverandi bankastjóra og aðstoðarbankastjóra Útvegsbanka Íslands skyldu miðuð við samkvæmt bréfi fjármálaráðuneytisins til Seðlabanka Íslands 2. febrúar 1998. Í málflutningi sínum fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi lagt áherslu á, að túlka beri hugtakið „almennar launabreytingar“ svo að þær taki til allra launahækkana, sem verði á launum bankastarfsmanna á hverjum tíma, þar með taldar flokkatilfærslur og launaskrið. Það verði einungis gert með því að styðjast við vísitölu lífeyrisskuldbindinga fyrir opinbera starfsmenn, sem Hagstofa Íslands reiknar og gefur út.

Fallast verður á með héraðsdómi að orðalagið „almennar launabreytingar bankastarfsmanna“ geti aðeins vísað til almennra launahækkana sem ákveðnar séu í kjarasamningum, en einstaklingsbundnar launahækkanir, flokkatilfærslur og aðrar hækkanir, sem ekki séu almennar, geti þar ekki komið til álita. Að þessu athuguðu og með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um sýknu stefnda, íslenska ríkisins, af kröfu áfrýjanda, Axels Kristjánssonar.

Áfrýjandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2009.

                Mál þetta, sem dómtekið var 12. maí sl., er höfðað 23. maí 2008.

                Stefnandi er Axel Kristjánsson, Skeggjagötu 4, Reykjavík.

                Stefndi er íslenska ríkið.

Dómkröfur stefnanda

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur í aðalsök og framhaldssök:

Aðallega að viðurkennt verði með dómi að viðmiðunarfjárhæð lífeyrisgreiðslna stefnanda eins og hún var 1. janúar 1998 skuli fylgja vísitölu lífeyrisskuldbindinga fyrir opinbera starfsmenn, sem Hagstofa Íslands reiknar og birtir, frá 1. janúar 1998 til 1. nóvember 2008 en frá og með 1. nóvember 2008 skuli viðmiðunarfjárhæð lífeyrisgreiðslna stefnanda miðast við laun bankastjóra Nýja Landsbanka Íslands hf., eins og þau eru á hverjum tíma og taka breytingum í samræmi við þau.

Til vara að viðurkennt verði með dómi að viðmiðunarfjárhæð lífeyrisgreiðslna stefnanda eins og hún var 1. janúar 1998 skuli fylgja vísitölu lífeyrisskuldbindinga fyrir opinbera starfsmenn, sem Hagstofa Íslands reiknar og birtir, frá 1. janúar 1998 til 1. janúar 2008, og taka mánaðarlegum breytingum í samræmi við hana.

Í báðum tilvikum er þess krafist að stefndi greiði stefnanda málskostnað að skaðlausu auk virðisaukaskatts.

Dómkröfur stefnda

Stefndi krefst þess í aðalsök og framhaldssök að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Málavextir

Málsatvik eru þau að hinn 19. mars 1954 hóf stefnandi störf hjá Útvegsbanka Íslands, og var hann ráðinn til almennra lögfræðistarfa. Hinn 1. september 1967 var stefnandi ráðinn sem aðallögfræðingur bankans en því starfi gegndi hann allt til 1. júní 1984 er hann var ráðinn aðstoðarbankastjóri bankans. Gegndi hann starfi aðstoðarbankastjóra ásamt starfi aðallögfræðings bankans til 1. maí 1987 en þá hafði honum verið sagt upp störfum nokkru áður. Tekur stefnandi fram að þegar hann lét af störfum hafi hann verið 59 ára gamall og hafði starfað samfleytt hjá bankanum í 33 ár.

Samkvæmt þágildandi lögum um Útvegsbanka Íslands, ákvað bankaráð laun og kjör bankastjóra og aðstoðarbankastjóra, þ.m.t. eftirlaun. Áður en stefnandi sótti um starf aðstoðarbankastjóra, og var ráðinn í það starf, kveður hann bankaráðið margoft hafa ákveðið og bókað í fundargerðarbók sína að laun bankastjóra skyldu vera hin sömu og laun bankastjóra Landsbanka Íslands. Þá hafi bankaráðið og ákveðið að laun aðstoðarbankastjóra skyldu vera 80% af launum bankastjóra. Þessi kjör hafi því ekki verið ákveðin með samningum, heldur einhliða af bankaráði. Þegar stefnandi var ráðinn aðstoðarbankastjóri kveðst hann hafa tekið laun samkvæmt kjarasamningum bankamanna, en eftir það hafi hann tekið laun samkvæmt ákvörðun bankaráðs.

Með setningu laga nr. 7/1987, um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands, sem tóku gildi 19. mars sama ár, var ríkisbankinn Útvegsbanki Íslands lagður niður og við réttindum og skyldum hans tók nýtt hlutafélag í eigu ríkissjóðs. Með tilkomu laganna var öllu starfsfólki ríkisbankans sagt upp störfum og það síðan allt endurráðið til hins nýja banka, að fjórum einstaklingum undanskildum, þ.e.a.s. bankastjórunum þremur og stefnanda. Um ástæður þess að þeir voru ekki endurráðnir kveður stefnandi ekki þurfa að fjölyrða, en þær komi skýrt fram í bréfi þáverandi ráðherra bankamála, dags. 15. desember 1991. Í niðurlagi bréfsins segi orðrétt:

„Tveimur dögum eftir að hlutafélagsbankinn var formlega stofnaður, en stofnfundur hans var 4. apríl 1987, var gefin út ákæra á hendur fyrrnefndum mönnum [þ.e. bankastjórunum auk stefnanda] vegna Hafskips/Útvegsbankamálsins, og taldi ég mér ekki fært vegna ákærunnar að óska eftir því að þeir yrðu endurráðnir eins og raun varð á um nánast allt annað starfsfólk ríkisbankans“. [innskot stefnanda]

Ekki hafi verið gefnar neinar opinberar skýringar á því hvers vegna fjórmenningarnir voru ekki endurráðnir eins og annað starfsfólk bankans aðrar en þær, sem koma fram í ofangreindu bréfi ráðherrans. Kveður stefnandi raunverulega orsök þess hafa verið það moldviðri sem var þyrlað upp í kjölfar svokallaðs „Hafskipsmáls“. Rannsókn málsins hafi leitt til þess að allir bankastjórarnir og stefnandi voru ákærðir fyrir þeirra þátt í málinu, en þeir hafi að lokum allir verið sýknaðir af meintum sakargiftum með dómi Sakadóms Reykjavíkur uppkveðnum 5. júlí 1990.

Stefnandi kveður uppsögn sína hafa tekið gildi 1. maí 1987 og var uppsagnarfrestur eitt ár. Hafi hann því notið fullra launa til loka apríl 1988 og hafi, í kjölfarið, hafið töku eftirlauna, nánar tiltekið 1. desember 1988.

Bankaráð ákvað laun og eftirlaun Útvegsbanka Íslands samkvæmt lögum nr. 12/1961, um Útvegsbanka Íslands. Hinn 2. apríl 1987, þegar til stóð að breyta bankanum í hlutafélagsbanka í eigu ríkisins, kveður stefnandi bankaráð hafa áréttað samþykkt frá 27. apríl 1967 um eftirlaun bankastjóra og hafi sett „Reglur um eftirlaun aðstoðarbankastjóra bankans.“ Í lið IV. þeirra segi orðrétt:

„Eftirlaunin greiðast sem þannig ákveðinn hundraðshluti af öllum launum aðstoðarbankastjóra og greiðir bankinn það sem á vantar, að greiðsla Eftirlaunasjóðs nái þeirri fjárhæð.“

Á fundi ráðsins hafi verið ákveðið að stefnandi skyldi njóta eftirlauna sem næmu 70,5% af föstum launum aðstoðarbankastjóra auk þóknunar fyrir setu á bankaráðsfundum.

Stefnandi kveður skýrt koma fram í þessum ákvörðunum bankaráðsins um eftirlaun bankastjóranna að átt hafi verið við svonefnda eftirmannsreglu, þ.e. að þeir nytu ákveðins hundraðshluta af launum bankastjóra og aðstoðarbankastjóra viðskiptabanka í eigu ríkisins eins og þau eru á hverjum tíma. Þetta kveður stefnandi hafa gengið eftir þann tíma sem Landsbanki Íslands starfaði sem ríkisviðskiptabanki og komi m.a. fram í bréfi Seðlabanka Íslands í umboði fjármálaráðuneytis frá 30. ágúst 1996. Eftir að Landsbanka Íslands var breytt í hlutafélagsbanka hafi þessari framkvæmd verið breytt.

Í bréfi ráðuneytisins dags. 8. janúar 2002 segi svo orðrétt: „Fram hefur komið að í nóvember 1997 hafi bankaráð Landsbanka Íslands ákveðið að mánaðarleg viðmiðunarfjárhæð lífeyris bankastjóra bankans skyldi miðast við kr. 550.000- Ráðuneytið hefur kynnt sér sérstaklega einstakar ákvarðanir bankaráðs Útvegsbankans um starfskjör bankastjóra bankans allt frá árinu 1953 og þar til bankinn var lagður niður 1. maí 1987. Þegar til þeirra er litið og þeirra reglna sem bankaráð bankans setti á sínum tíma um eftirlaun bankastjóra bankans er það niðurstaða ráðuneytisins að rétt sé að miða viðmiðunarfjárhæð eftirlauna bankastjóra Útvegsbanka Íslands við sömu fjárhæð og gildir fyrir fyrrverandi bankastjóra Landsbanka Íslands. Eftirlaunaviðmiðunin verður því miðuð við 1. janúar 1998 kr. 550.000 og fylgir almennum launabreytingum bankastarfsmanna frá sama tíma.“

Nokkrum árum eftir að stefnandi hóf töku eftirlauna kveðst hann hafa orðið þess áskynja, eftir að hafa kynnt sér efni greinargerðar sem Ríkisendurskoðun sendi frá sér í janúar 1994 um laun og önnur starfskjör helstu yfirmanna ríkisbanka og sjóða, að eftirlaun hans voru vanreiknuð. Í kjölfarið hafi vegferð hans hafist í því skyni að fá leiðréttingu sinna mála. Vegferðin hafi formlega hafist árið 1996 og hafi staðið yfir síðan, eða í hartnær 12 ár og enn sjái ekki fyrir endann á henni.

Baráttu sína fyrir leiðréttingu eftirlauna kveður stefnandi ekki hafa reynst alveg árangurslausa. Með bréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 8. ágúst 1996, hafi verið lagt fyrir Seðlabanka Íslands, sem annist útborgun eftirlauna stefnanda, bankastjóranna þriggja og hins aðstoðarbankastjórans, að eftirlaunagreiðslur þeirra allra skyldu leiðréttar fyrir tímabilið desember 1993 til og með ágúst 1996. Athygli sé vakin á því að langur vegur sé frá því að það hafi gengið átakalaust fyrir stefnanda að ná leiðréttingunni fram, enda þurfti hótun um málssókn til. Með bréfi, dags. 13. september 1996, lýsti stefnandi yfir þeirri skoðun sinni að hann tæki við þeirri fjárhæð sem ráðuneytið ákvæði einhliða. Hann hafi þó gert athugasemdir við uppgjörið í bréfinu með nánari tilgreindum rökstuðningi og hafi lýst því yfir að hann teldi máli sínu ekki lokið. Auk þess hafi stefnandi fengið leiðréttingu á lífeyrisgreiðslum í september 1997 og febrúar 1998. Síðari leiðréttingin sé tilkomin vegna þess að nauðsynlegt þótti að taka ákvörðun ráðuneytisins frá 1996 til endurskoðunar með hliðsjón af því að Landsbanki Íslands hafði verið lagður niður. Loks hafi stefnandi fengið leiðréttingu eftirlauna með ákvörðun fjármálaráðuneytisins 8. janúar 2002. Taldi ráðuneytið, eins og áður hafi komið fram, rétt að miða viðmiðunarfjárhæð eftirlauna bankastjóra Útvegsbanka Íslands við sömu fjárhæð og gilti fyrir fyrrverandi bankastjóra Landsbanka Íslands. Við þá ráðstöfun eina hafi viðmiðunarlaun stefnanda hækkað úr  498.045 krónum á mánuði í 550.000 krónur eða um 18%.

Stefnandi kveðst, allt frá árinu 2000, m.a. með bréfaskrifum og viðræðum við fjármálaráðuneytið, hafa leitað eftir frekari leiðréttingu eftirlauna sinna í þá veru að viðmiðunarfjárhæð lífeyris skuli fylgja almennum launabreytingum bankamanna. Hingað til hafi stefnandi talað fyrir daufum eyrum æðstu embættismanna ráðuneytisins, þ. á m. þáverandi og núverandi ráðuneytisstjóra.

Með bréfi, dags. 31. janúar sl., til fjármálaráðuneytisins, hafi stefnandi, ásamt fyrrverandi bankastjórum Útvegsbanka Íslands, þeim Halldóri Guðbjarnasyni, Lárusi Jónssyni og hinum aðstoðarbankastjóranum, Reyni Jónassyni, gert úrslitatilraun til að ná fram leiðréttingu sinna mála. Í bréfinu hafi ráðuneytið auk þess verið krafið nánari skýringa á einstökum álitaefnum. Svarbréf ráðuneytisins hafi ekki borist fyrr en rúmum tveimur mánuðum síðar, en af efni þess verði ráðið að það sé enn við sama heygarðshornið í afstöðu sinni til málefna stefnanda og ætli augljóslega ekki að leiðrétta eftirlaun hans. Sé stefnanda því nauðugur sá einn kostur að skjóta ágreiningnum til úrlausnar hinna almennu dómstóla.

Stuttu eftir að mál þetta var þingfest hafi ótrúleg atburðarás hafist, svo vægt sé til orða tekið, sem enn sjái ekki fyrir endann á, er Alþingi Íslendinga greip til þeirrar neyðarráðstöfunar að setja lög sem gerðu Fjármálaeftirlitinu kleift að grípa til sérstakra ráðstafana í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Sem kunnugt sé, hafi Fjármálaeftirlitið ákveðið, á grundvelli heimildarinnar, að yfirtaka þrjá stærstu banka landsins, þ.e. Landsbanka Íslands hf., Glitni banka hf. og Kaupþing banka hf. Skipaðar hafi verið skilanefndir til að fara með málefni bankanna og nýir bankar stofnaðir á grunni þeirra í formi hlutafélaga með ríkið sem eina eigandann. Þá hafi nýjar stjórnir verið skipaðar í öllum bönkunum til bráðabirgða og nýir bankastjórar ráðnir. Samkvæmt upplýsingum sem gerðar hafi verið opinberar varðandi launakjör bankastjóra nýju ríkisbankanna nemi mánaðarlaun bankastjóra Nýja Glitnis banka hf. og Nýja Kaupþings banka 1.750.000 krónum á mánuði. Mánaðarlaun bankastjóra Nýja Landsbankans hf. séu á hinn bóginn 1.500.000 krónur á mánuði.

Stefnandi telur að á grundvelli þeirra upplýsinga sem nú liggi fyrir um launakjör einstakra bankastjóra ríkisbankanna hafi verið nauðsynlegt að höfða framhaldssök í málinu.

Málsástæður og lagarök stefnanda í aðalsök og framhaldssök

Stefnandi kveður það meginmálsástæðu sína að hann eigi rétt á að eftirlaun hans breytist í samræmi við allar almennar breytingar á launum bankastarfsmanna frá 1. janúar 1998, sbr. framangreint bréf fjármálaráðuneytisins frá 8. janúar 2002, sem byggist á samningi bankastjóra Landsbankans við bankaráð hans frá því í nóvember 1987 og á þann veg verði komist næst því að markmiði ákvarðana bankaráðs Útvegsbankans verði náð. Túlkun fjármálaráðuneytisins, sbr. bréf þess dags. 10. mars s.l., á því að „almennar launabreytingar bankastarfsmanna“ nái einungis til beinna launahækkana sé röng.

Nánar sé á því byggt að túlka beri hugtakið „almennar launabreytingar“ þannig að í því felist réttur til breytinga á viðmiði eftirlauna samkvæmt launavísitölu sem geri stefnanda jafnsettan réttindalega séð og ef ákvörðun bankaráðs Útvegsbanka Íslands, frá 27. apríl 1967, um eftirlaun bankastjóra hefði verið framfylgt. Þannig skuli eftirlaunagreiðslur fylgja vísitölu lífeyrisskuldbindinga opinberra starfsmanna frá 1. janúar 1998 til 1. janúar 2008 sem Hagstofa Íslands gefi út, og breytist mánaðarlega í samræmi við hana.

Í bréfi, dags. 31. janúar 2008, til fjármálaráðuneytisins hafi verið óskað eftir afstöðu þess til nokkurra álitaefna. Það atriði sem mestu máli skipti fyrir þessa umfjöllun sé eftirfarandi spurning sem beint hafi verið til ráðuneytisins:

„Í ákvörðun fjármálaráðuneytisins um viðmið eftirlauna, frá 8. janúar 2002, sagði að eftirlaunaviðmið skyldi fylgja almennum launabreytingum bankastarfsmanna frá sama tíma. Túlkun fjármálaráðuneytisins á þessum hluta ákvörðunar hefur verið sú að eftirlaunaviðmið skuli taka hækkunum sem samsvari grunnkaupshækkunum á launatöflu samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra bankamanna en aðrar launabreytingar, eins og t.d. launaflokkatilfærslur og launaskrið, falli ekki þar undir.  Þess er óskað að fjármálaráðuneytið rökstyðji framangreinda túlkun og upplýsi á hvaða forsendum hún byggi.“

Svar ráðuneytisins við ofangreindri spurningu, eins og það birtist í svarbréfi þess 10. mars sl., sé orðrétt svohljóðandi:

„Leiðrétting eftirlauna, frá 8. janúar 2002, tók mið af fyrirkomulagi eftirlaunagreiðslna til fyrirverandi (sic!) bankastjóra Landsbanka Íslands sem skyldi fylgja almennum launabreytingum bankastarfsmanna frá 1. janúar 1998. Samkvæmt því fyrirkomulagi er gert ráð fyrir því að eftirlaun taki ekki öðrum breytingum en samkvæmt almennum launabreytingum bankastarfsmanna og með almennum launabreytingum er vísað til almennra launahækkana, sem ákveðnar eru í kjarasamningum bankamanna.“

Í bréfinu komi ennfremur fram frekari afstaða ráðuneytisins til þess hvað felist í hugtakinu. Þar segi:

„… Telur ráðuneytið að með þessu orðalagi sé átt við beinar launahækkanir bankamanna samkvæmt kjarasamningum en aðrar hækkanir, t.d. flokkatilfærslur, falli hér ekki undir.“

Stefnandi lýsi sig alfarið ósammála þeim skilningi sem fjármálaráðuneytið leggi í hugtakið almennar launabreytingar og leggi áherslu á að fari svo, gegn væntingum hans, að fallist verði á það með ráðuneytinu að eftirlaunagreiðslur skuli ekki taka öðrum breytingum en áfangahækkunum sem ákvarðaðar séu í kjarasamningum, sé í raun verið að viðurkenna rétt stefnda til að skerða einhliða lífeyrisréttindi bæði stefnanda og fjölda annarra einstaklinga sem eins er ástatt um. Það sé ljóst að sú niðurstaða brjóti gróflega stjórnarskrárvarinn rétt launþega og gangi þvert gegn þeirri aðlaðandi mynd sem stjórnvöld hafi óspart dregið upp af íslenska lífeyrissjóðakerfinu í gegnum árin.

Fjármálaráðuneytið hafi falið Seðlabanka Íslands framkvæmd á greiðslu eftirlauna í samræmi við hugtakið „almennar launabreytingar“ frá 1. janúar 1998. Hér á eftir fari tafla sem sýni hvernig Seðlabankinn framkvæmdi þessar breytingar.

Dags.

Hækkun í %

Ástæða hækkunar

1. jan. 1998

4,00

Hækkað eftir athugasemdir í samræmi við framkvæmd hjá Landsbanka

1. jan. 1999

3,35

Hækkun samkvæmt túlkun Seðlabanka Íslands

1. júlí 1999

0,30

Sama

1. jan. 2000

3,50

Sama

1. jan. 2001

6,90

Sama

1. jan. 2002

3,00

Sama

1. jan. 2003

3,00

Sama

1. jan. 2003

3,90

Tilfærslur milli flokka. Leiðrétt eftir bréfaskriftir og framkvæmd hjá Landsbanka

1. jan. 2004

3,00

Hækkun samkvæmt túlkun Seðlabanka Íslands

1. okt. 2004

5,25

Sama

1. jan. 2006

3,75

Sama

1. júlí 2006

1,75

Sama

1. jan. 2007

3,65

Sama

1. jan. 2008

2,25%

Sama

Uppsafnað samtals

   59,46%

Viðmiðunarlaun 1.1 1998 kr. 550.000 hækkað í kr. 877.061 hinn 1.1.2008

Eins og taflan sýni, hafi áfangahækkanir á launatöflu samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra bankamanna (SÍB) hækkað á tímabilinu 1. janúar 1998 til og með 1. janúar 2008, um 59,46%. Um sé að ræða lágmarks launahækkanir sem allir félagsmenn SÍB hafi notið umrætt tímabil.

Á því er byggt að umsamdar áfangahækkanir gefi ekki rétta mynd af launaþróun meðal bankstarfsmanna. Raunar fari því víðsfjarri. Staðreyndin sé nefnilega sú að laun þeirra hafi hækkað mun meira en verði lesið beint úr áfangahækkunum kjarasamnings. Fyrir því séu nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi hafi, á því tímabili sem hér um ræði, m.a. verið samið um sérstakar hækkanir launa til handa þeim hópi sem lægri launin hafi. Í annan stað hafi orðið verulegt launskrið hjá þeim hópum bankamanna sem hærri launin hafa, s.s. sérfræðingum og stjórnendum. Launaskriðið sé tilkomið vegna samningsbundinnar aldursálagshækkunar og flokkatilfærslna og ekki síður fyrir þær sakir að gríðarleg samkeppni hafi myndast á vinnumarkaði um hæft starfsfólk. Ljóst megi vera að starfsemi bankanna hafi ekki farið varhluta af þeirri þróun.

Að þessu athuguðu haldi stefnandi því staðfastlega fram að við skýringu og framkvæmd hugtaksins „almennar launabreytingar“ skuli stuðst við vísitölubindingu lífeyrisskuldbindinga, en einungis með því móti verði tryggt að allar launahækkanir, sem orðið hafa á launum bankastarfsmanna frá 1. janúar 1998, hvort heldur um er að ræða kjarasamningsbundnar áfangahækkanir, flokkatilfærslur eða hækkanir sem rekja má til launaskriðs, skili sér til stefnanda í formi lífeyrisgreiðslna.

Ástæða sé til að geta þess að krafa stefnanda um að eftirlaun hans skuli fylgja vísitölu lífeyrisskuldbindinga feli ekki í sér setningu nýrrar reglu er varðar framkvæmd greiðslu eftirlauna. Þvert á móti sé stuðst við þetta fyrirkomulag í dag. Sem dæmi megi nefna að fjölmargir fyrrverandi starfsmenn Útvegsbanka Íslands, núverandi starfsmenn Glitnis banka hf., hafi við töku lífeyris kosið að láta eftirlaunin fylgja umræddri vísitölu. Slík ráðstöfun sé fullkomlega skiljanleg enda sé með því móti betur tryggð fylgni við almenna launaþróun í þjóðfélaginu, ekki eingöngu áfangahækkanir.

Þá sé óhjákvæmilegt að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að stefnandi sé ekki einn um að leggja framangreindan skilning í hugtakið almennar launabreytingar. Sama skilning leggi t.a.m. kjararáð í það. Sem kunnugt er starfi kjararáð samkvæmt lögum nr. 47/2006, en meðal verkefna þess sé að ákvarða laun þeirra sem ákvörðunarvald ráðsins nær til. Í úrskurði ráðsins, dags. 19. desember 2006, fjalli það sérstaklega í forsendum sínum um þau viðmið sem ráðinu beri að taka mið af við endurskoðun launa. Orðrétt segi í úrskurði þess:

„Rétt er að hafa í huga að þau viðmið sem kjararáði er skylt að gæta fara ekki öll með sama hraða á sama tíma. Getur kjararáði því verið nauðsyn að fara bil tveggja eða fleiri viðmiða í hverjum einstökum almennum úrskurði sínum. Ákvarðanir kjararáðs sem leiða af hækkunum sem ekki verða beint lesnar úr kjarasamningum, svo sem hækkanir um launaflokka og launaskrið af öðrum ástæðum, koma ætíð eftirá og stafa af breytingum sem þegar hafa verið gerðar annars staðar.“

Framangreindu til viðbótar er á því byggt að fjármálaráðneytið hafi þegar túlkað hugtakið víðtækara en svo að undir það falli eingöngu beinar launahækkanir samkvæmt kjarasamningum. Um það atriði vísist til minnisblaðs Ingvars A. Sigfússonar, rekstrarstjóra Seðlabankans, til Birgis Ísleifs Gunnarssonar, þáverandi seðlabankastjóra, dags. 22. desember 2003. Í bréfinu komi m.a. fram, að starfsmannahald Landsbankans hafi fengið fyrirmæli um að eftirlaun bankastjóra skyldu vera 550.000 krónur í nóvember 1997, og skyldu þau laun hækka um 4% frá og með 1. janúar 1998. Þessa hækkun hafi stefnandi ekki fengið fyrr en síðar þar sem í bréfi fjármálaráðuneytisins segi að laun skuli vera 550.000 frá 1. janúar 1998.

Í bréfinu segi síðan orðrétt:

„Starfsmannahald Landbankans hækkaði laun fyrrum bankastjóra um 3,9% í stað flokkahækkunar sem koma átti í síðasta lagi 1. janúar 2003 samkvæmt samningi SÍB og bankanna en eftirlaun fyrrum starfsmanna Útvegsbanka hafa ekki hækkað samsvarandi.

Ég tel að Seðlabankinn þyrfti að fá heimild ráðuneytisins til að framkvæma leiðréttingu sem tæki til þessara tveggja atriða“.

Fjármálaráðuneytið hafi samþykkt leiðréttinguna og hafi staðfesting þess efnis verið handskrifuð af Baldri Guðlaugssyni ráðuneytisstjóra f.h. ráðuneytisins á minnisblaðið.

Að mati stefnanda verði ekki unnt að skilja afstöðu ráðuneytisins, sem fram komi í samþykki, þess öðruvísi en þannig að leiðrétting eftirlauna skuli ekki einskorðast við áfangahækkanir samkvæmt kjarasamningi heldur skuli þvert á móti litið til fleiri þátta í þeim efnum, s.s. flokkatilfærslna. Það að leiðréttingin skyldi hafa komið til framkvæmda renni enn frekari stoðum undir þetta sjónarmið.

Vegna túlkunar ráðuneytisins að öðru leyti á hugtakinu almennar launabreytingar skuli bent á þá sögulegu staðreynd að hugtakið sé runnið undan rifjum bankaráðs Landsbanka Íslands og bankastjóra þess banka. Fram komi í bréfi ráðuneytisins, dags. 10 mars sl., að orðalagið „almennar launabreytingar bankastarfsmanna í fyrrnefndu bréfi fjármálaráðuneytis frá 8. janúar 2002 sé úr þeim samningi og í samræmi við hann. Það skuli upplýst að samkvæmt eftirlaunasamningi sem fyrrverandi bankastjórar Landsbankans hafi gert í nóvember 1997, hafi þeir haft tvo kosti við val á viðmiðunarfjárhæð eftirlauna. Annars vegar að eftirlaunin fylgdu vísitölu neysluverðs, hins vegar að launin tækju mið af almennum launabreytingum bankastarfsmanna. Hafi síðara viðmiðið komið í stað hinnar svokölluðu eftirmannsreglu þar sem ekki hafi lengur verið neinir bankastjórar til að miða við. Skemmst sé frá því að segja að allir bankastjórarnir völdu síðarnefnda viðmiðið, enda hafi legið fyrir að með því móti yrðu þeir líkast settir réttindalega séð, og ef eftirlaunin hefðu fylgt eftirmannsreglu. Öllum ætti að vera ljóst hversu ótrúverðugt er, sérstaklega þegar horft er til þeirra gríðarlegu hækkana sem orðið hafa á launum bankastjóra síðastliðin ár, að halda því fram, líkt og ráðuneytið geri í málatilbúnaði sínum og ætlast til að hinir almennu dómstólar trúi, að með hugtakinu almennar launahækkanir sé eingöngu átt við einn hluta af launahækkunum, ekki þá alla og jafnframt að halda því fram að það orðlag sé best til þess fallið „að ná þeim markmiðum sem bankaráð Útvegsbanka Íslands keppti að“ eins og komist sé að orði í bréfi ráðuneytisins 10. mars sl.

Þá sé túlkun ráðuneytisins á hugtakinu almennar launabreytingar, eins og hún birtist í bréfi ráðuneytisins 10. mars sl., því marki brennd að vera þversagnarkennd. Skuli það nú útskýrt. Í fyrrnefndu bréfi sé löngu máli eytt í að rökstyðja að með orðalaginu almennar launabreytingar sé einungs átt við beinar launahækkanir samkvæmt kjarasamningi, þ.e. áfangahækkanir. Athygli sé vakin á því að í sama bréfi segi orðrétt:

„Í ákvörðun ráðuneytisins frá 2. febrúar 1998 er byggt á því að stofn til eftirlauna sé hinn sami og áður, miðað við 1. janúar 1998, og hann taki breytingum í samræmi við almennar breytingar bankastarfsmanna. Að mati ráðuneytisins er þessi niðurstaða best til þess fallin að ná þeim markmiðum sem ákvörðun bankaráðs Útvegsbanka Íslands um eftirlaun keppti að og því mat ráðuneytisins að ákvörðunin geti ekki talist ómálefnaleg eða andstæð lögum“.

Komi þá til skoðunar hvaða markmiðum ákvörðun bankaráðs Útvegsbanka Íslands var ætlað að ná. Í samþykkt bankaráðs Útvegsbanka Íslands á fundi þess 27. apríl 1967 segi í I. lið:

„Þegar bankastjóri hefur náð 60 ára aldri, á hann rétt til eftirlauna eftir starfstíma hans í bankanum. Fyrir 10 ára starf greiðist í eftirlaun 70% af fastakaupi bankastjóra, eins og það er á hverjum tíma …“

Að mati stefnanda blasi við að ætlun bankaráðsins hafi allar götur síðan árið 1967 verið sú að eftirlaun bankastjóra myndu fylgja eftirmannsreglu. Sú staðreynd sé ótvíræð vísbending um að eftirlaunin tækju breytingum í samræmi við allar launahækkanir sem urðu á launum bankastjóranna á hverjum tíma, hvaða nafni sem þær kunnu að nefnast, en ekki eingöngu áfangahækkana, líkt og ráðuneytið haldi fram. Augljóst sé þegar framangreint er haft í huga að túlkun ráðuneytisins á hugtakinu „almennar launabreytingar“ fái ekki staðist.

Sem frekari rök gegn því að túlkun ráðuneytisins á hugtakinu „almennar launahækkanir“ verði lögð til grundvallar í málinu og hún eingöngu látin ná til áfangahækkana, þá verði að hafa það hugfast að við gerð kjarasamninga séu launbreytingar að jafnaði útfærðar á tvennan hátt, annars vegar með tilgreindum áfangahækkunum og hins vegar með launaflokkatilfærslum, þ.e. hópar starfsmanna séu hækkaðir um tiltekinn fjölda launaflokka á samningstíma. Þessar breytingar, þ.e. áfangahækkanir og launaflokkatilfærslur, leiði til niðurstöðu um kostnaðarauka sem stéttarfélag og vinnuveitandi hafi samið um. Kjarasamningar kveði á um lágmarkskjör þeirra sem taki laun samkvæmt hlutaðeigandi samningi og á íslenskum vinnumarkaði sé það svo að umsamdar áfangahækkanir samkvæmt kjarasamningum nemi einungis hluta launabreytinga því til viðbótar þeim komi launabreytingar sem byggist á sameiginlegum ákvörðunum vinnuveitanda og starfsmanna.

Samkvæmt framansögðu telur stefnandi að túlka beri hugtakið „almennar launabreytingar“ svo að það taki til allra launahækkana sem verði á launum bankastarfsmanna á hverjum tíma. Það verði einungis gert með því að styðjast við þær forsendur sem vísitala, sem Hagstofa Íslands reikni og gefi út, byggist á.

Frá því í febrúar 1997 hafi Hagstofa Íslands reiknað og birt vísitölu fyrir lífeyrisskuldbindingar opinbera starfsmanna. Vísitalan sé birt samkvæmt lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 1/1997 og lögum um lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga nr. 2/1997. Samkvæmt lögunum skal Hagstofa Íslands reikna meðalbreytingar á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu. Taki dómkrafa stefnanda mið af framansögðu. Geri stefnandi þá kröfu að viðmiðunarfjárhæð eftirlauna eins og hún var 1. janúar 1998 skuli fylgja vísitölu lífeyrisskuldbindinga opinberra starfsmanna sem Hagstofa Íslands gefi út frá 1. janúar 1998 til 1. desember 2008 og taka mánaðarlegum breytingum í samræmi við hana.

Með stofnun hinna nýju banka, þ.e. Nýja Landsbanka Íslands hf. Nýja Glitnis banka hf. og Nýja Kaupþings banka hf. sé ríkið á nýjan leik orðið aðaleigandi bankanna. Með öðrum orðum séu orðnir til nýir ríkisbankar. Hafi stjórnir bankanna ráðið sér bankastjóra. Séu mánaðalaun þeirra sem hér segi:

1.        Elín Sigfúsdóttir, bankastjóri Nýja Landsbanka Íslands hf.1.500.000 krónur.

2.        Birna Einarsdóttir, bankastjóri Nýja Glitnis banka hf. 1.750.000 krónur.

3.        Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Nýja Kaupþings banka 1.750.000 krónur.

Af hálfu stefnanda sé byggt á því að með ákvörðun launa til handa bankastjórum ríkisbankanna hafi á nýjan leik stofnast grundvöllur til útreiknings  viðmiðunarfjárhæðar eftirlauna hans.

Nánar sé á því byggt að frá og með 1. nóvember 2008, skuli viðmiðunarfjárhæð lífeyrisgreiðslna stefnanda miðast við laun bankastjóra Nýja Landsbanka Íslands hf., eins og þau eru á hverjum tíma og taka breytingum í samræmi við þau.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna kröfu- og samningsréttar. Þá vísast til laga nr. 12/1961, um Útvegsbanka Íslands. Til eignarréttarákvæðis stjórnarskrár lýðveldisins, nr. 33/1944, sbr. 72. gr. Um grundvöll vísitölu vísast til laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sbr. 24. gr. og laga nr. 2/1997, um lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga nr. 2/1997, sbr. 8. gr. laganna. Krafa um málskostnað styðst við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt byggist á ákvæðum laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Stefnandi byggir heimild sína til framhaldsstefnu á 29. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, enda eru kröfur í framhaldssök samkynja kröfum í stefnu, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991. Ekki verði það metið stefnanda til vanrækslu að hafa ekki í stefnu haldið fram kröfum sem fram komi í framhaldsstefnu, þar sem ekki hafi legið fyrir hrun bankanna þriggja og endurreisn þeirra í formi ríkisbanka, er stefna var gefin.

Málsástæður stefnda og lagarök í aðalsök og framhaldsök.

Sýknukröfu sína styður stefndi þeim rökum að með lögum nr. 50/1997, um stofnun hlutafélags um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, hafi verið ákveðið að Landsbanki Íslands hf. tæki við rekstri og starfsemi Landsbanka Íslands 1. janúar 1998 og frá og með sama tíma skyldi Landsbanki Íslands lagður niður.

Þegar Landsbanki Íslands var lagður niður 1. janúar 1998, hafi því brostið  grundvöll til þess að framkvæma áfram reglur bankaráðs Útvegsbanka Íslands um eftirlaun banka- og aðstoðarbankastjóra. Ákvörðun stefnda frá 8. ágúst 1996 hafi því verið endurskoðuð og Seðlabanka Íslands tilkynnt um breytingu á fyrri ákvörðun með bréfi, 2. febrúar 1998, og vísað til þess að nauðsynlegt hafi verið að taka ákvörðun stefnda til endurskoðunar með hliðsjón af því að Landsbanki Íslands hafði verið lagður niður. Hafi breytingin tekið gildi 1. janúar 1998. Í endurákvörðun stefnda sé byggt á því að stofn til eftirlauna sé hinn sami og áður, miðað við 1. janúar 1998, og hann taki breytingum í samræmi við almennar launabreytingar bankastarfsmanna.

Stefndi telur sig með ákvörðun sinni í ágúst 1996 hafa fylgt þeim reglum sem bankaráð Útvegsbanka Íslands setti um eftirlaun banka- og aðstoðarbankastjóra. Þegar Landsbanki Íslands lauk starfsemi sinni 1. janúar 1998 hafi grundvöllur brostið til þess að framkvæma áfram reglur bankaráðs Útvegsbanka Íslands um eftirlaun. Í ákvörðun stefnda frá 2. febrúar 1998 sé byggt á því að stofn til eftirlauna sé hinn sami og áður, miðað við 1. janúar 1998, og hann taki breytingum í samræmi við almennar launabreytingar bankastarfsmanna. Að mati stefnda sé þessi niðurstaða best til þess fallin að ná þeim markmiðum sem ákvörðun bankaráðs Útvegsbanka Íslands um eftirlaun keppti að og sé það mat stefnda að ákvörðunin geti ekki talist ómálefnaleg eða andstæð lögum. Enda hafi verið um að ræða sama viðmið og gilda átti um bankastjóra Landsbanka Íslands frá 1. janúar 1998. Leiðrétting á viðmiðunarfjárhæð þann 8. janúar 2002, afturvirkt frá 1. janúar 1998, hafi verið framkvæmd þar sem fram hafi komið að bankaráð Landsbanka Íslands hafði í nóvember 1997 ákveðið að mánaðarleg viðmiðunarfjárhæð lífeyris bankastjóra bankans skyldi miðast við  550.000 krónur en samkvæmt ákvörðun stefnda 2. febrúar 1998 hafi  viðmiðunarfjárhæðin verið 498.045 krónur.

Stefndi sé ekki sammála túlkun stefnanda á því hvað felist í orðalaginu „almennar launabreytingar“. Stefndi telur að með þessu orðalagi sé einungis átt við beinar launahækkanir bankamanna samkvæmt kjarasamningum en aðrar hækkanir, t.d. flokkatilfærslur, falli hér ekki undir.

Þá vilji stefndi mótmæla því mati stefnanda á afstöðu stefnda sem fram komi í stefnu á bls. 6 að ekki sé unnt að skilja afstöðu stefnda, sem fram komi í samþykki fjármálaráðuneytisins á minnisblaði Seðlabanka Íslands, dags. 22. desember 2003, öðruvísi en þannig að leiðrétting eftirlauna skuli ekki einskorðast við áfangahækkanir samkvæmt kjarasamningi heldur skuli þvert á móti litið til fleiri þátta í þeim efnum, s.s. flokkatilfærslna.

Leiðrétting eftirlauna, frá 8. janúar 2002, hafi tekið mið af fyrirkomulagi eftirlaunagreiðslna til fyrirverandi bankastjóra Landsbanka Íslands sem skyldi fylgja almennum launabreytingum bankastarfsmanna frá 1. janúar 1998. Samkvæmt því fyrirkomulagi sé gert ráð fyrir því að eftirlaun taki ekki öðrum breytingum en samkvæmt almennum launabreytingum bankastarfsmanna og með almennum launabreytingum sé vísað til almennra launahækkana, sem ákveðnar séu í kjarasamningum bankamanna.

Nokkur dæmi séu um að stjórnendur stofnana ríkisins hafi eftirlaunatengingu við eftirlaun fyrrverandi bankastjóra Landsbanka Íslands. Megi hér nefna fyrrverandi þjóðhagsstofustjóra og fyrrum forstjóra Lánasýslu ríkisins. Taki þeir eftirlaun sem fylgi sömu viðmiðunum.

Í stefnu segi að gerð sé krafa um að viðurkennt verði að viðmiðunarfjárhæð lífeyrisgreiðslna stefnanda eins og hún var 1. janúar 1998 skuli fylgja vísitölu lífeyrisskuldbindinga fyrir opinbera starfsmenn sem Hagstofa Íslands reiknar og birtir frá 1. janúar til 1. janúar 2008 og taki mánaðarlegum breytingum í samræmi við hana, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 1, 1997, um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og 3. mgr. 8. gr. laga nr. 2, 1997, um lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.

Stefndi mótmælir kröfu stefnanda. Eftirlaun fyrrverandi banka- og aðstoðarbankastjóra Útvegsbanka Íslands fylgi nákvæmlega sömu viðmiðunum og eftirlaun fyrrverandi bankastjóra Landsbanka Íslands, þ.e. fylgja almennum launabreytingum bankastarfsmanna. Seðlabanki Íslands annist framkvæmdina fyrir báða hópana og tryggi þar með samræmda framkvæmd.

Af 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1987, um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands, leiði að ríkisjóður beri ábyrgð á öllum skuldbindingum, sem stofnað hafi verið til áður en bankinn var lagður niður 1. maí 1987. Í reglum um eftirlaun bankastjóra og aðstoðarbankastjóra frá 2. apríl 1987 sé vísað til þess að í framhaldi af samþykkt bankaráðs frá 20 mars 1987, þar sem ákveðið hafi verið að segja upp bankastjórum og aðstoðarbankastjórum, hafi bankaráðið ákveðið eftirlaun þeirra. Laun bankastjóra tóku mið af launakjörum bankastjóra Landsbanka Íslands, þ. á m. eftirlaun. Laun aðstoðarbankastjóra voru 80% af launum bankastjóra, þ.m.t. þóknun fyrir bankaráðsfundi. Í reglum Útvegsbanka Íslands frá 2. apríl 1987 komi fram að eftirlaun stefnanda skyldu vera 70,5% af aðstoðarbankastjóralaunum.

Á árinu 1996 hafi stefnandi leitað til stefnda út af framkvæmd á greiðslu eftirlauna til hans. Hafi stefnandi talið að hún væri ekki í samræmi við reglur bankaráðs Útvegsbanka Íslands. Með bréfi, dags. 8. ágúst 1996, hafi stefndi lagt fyrir Seðlabanka Íslands, sem annast hafi útborgun eftirlaunanna, að leiðréttar yrðu greiðslur til eftirlaunaþega fyrir tímabilið desember 1993 til og með ágúst 1996. Ákvörðun þessi gilti jafnframt um eftirlaunagreiðslur frá 1. september 1996. Með bréfi, dags. 13. september 1996, hafi stefnandi gert athugasemdir við uppgjörið.

Með 3. gr. laga nr. 50/1997, um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, var ákveðið að Landsbanki Íslands hf. tæki við rekstri og starfsemi Landsbanka Íslands 1. janúar 1998 og að frá sama tíma skyldi Landsbanki Íslands lagður niður. Í bréfi til Seðlabanka Íslands, 2. febrúar 1998, sé vísað til þess að Landsbanki Íslands hafi verið lagður niður og að nauðsynlegt sé að taka ákvörðun ráðuneytisins frá 8. ágúst 1996 til endurskoðunar. Í bréfi stefnda frá 2. febrúar 1998 segi síðan:

„Ráðuneytið hefur kannað lokalaun bankastjóra Landsbanka Íslands. Föst laun í desember 1997 voru kr. 411.000 og bankaráðsþóknun kr. 48.000. Launin hafa ekki fylgt kjaradómshækkun.

                Ráðuneytið hefur af þeim sökum ákveðið að stofn til ákvörðunar eftirlauna skuli vera kr. 411.000 að viðbættri bankaráðsþóknun kr. 48.000. Ráðuneytið hefur nú ákveðið að á föstu launin skuli reikna 9,5% sem er jafngildi hækkun kjaradóms frá því í september 1995. Framvegis skulu eftirlaunin fylgja almennum launabreytingum bankastarfsmanna. Eftirlaunaviðmiðunin verður því miðuð við 1. janúar alls kr. 498.045.

                Ákvörðun þessi gildir frá 1. janúar 1998 þar til annað verður ákveðið.

                Óskað er eftir því að Seðlabankinn tilkynni hlutaðeigandi um þessa ákvörðun. Um önnur atriði, en að framan greinir vísast til bréfsins frá 8. ágúst 1996.“

Stefndi telur ljóst að með ákvörðun sinni þann 8. ágúst 1996 hafi verið fylgt þeim reglum, sem bankaráð Útvegsbanka Íslands setti um eftirlaun aðstoðarbankastjóra. Þá verði ennfremur að telja ljóst að þegar Landsbanki Íslands lauk starfsemi sinni 1. janúar 1998, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1997, hafi brostið grundvöll til þess að framkvæma áfram áðurnefndar reglur bankaráðs Útvegsbanka Íslands um eftirlaun aðstoðarbankastjóra. Í ákvörðun stefnda frá 2. febrúar 1998 sé byggt á því að stofn til eftirlauna aðstoðarbankastjóra sé hinn sami og áður, miðað við 1. janúar 1998, og að hann taki breytingum í samræmi við almennar launabreytingar bankastarfsmanna. Að mati stefnda geti niðurstaða þessi ekki talist ómálefnaleg eða andstæð lögum. Til samanburðar séu sambærilegar aðferðir viðhafðar við verðtryggingu lífeyrisréttinda, samkvæmt. 5. mgr. 7. gr. í I. viðauka reglugerðar nr. 495/1997, um Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands, 3. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og 3. mgr. 8. gr. laga nr. 2/1997, um lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.

Sú atburðarás sem hófst eftir að þetta dómsmál var þingfest breyti ekki því mati stefnda að þessi niðurstaða sé best til þess fallin að ná þeim markmiðum sem ákvörðun bankaráðs Útvegsbanka Íslands um eftirlaun miðaði að og telur stefndi að ákvörðunin sé hvorki gegn lögum né ómálefnaleg.  Sé um að ræða sama viðmið og gilda átti um bankastjóra Landsbanka Íslands frá 1. janúar 1998 og gildi jafnframt um fyrrverandi forstjóra Þjóðhagsstofnunar og Lánasýslu ríkisins.

Þó að hinir nýju bankar séu nú hlutafélög í eigu ríkisins sé það mat stefnda að sömu sjónarmið gildi enn varðandi viðmiðunarfjárhæð lífeyrisgreiðslna stefnanda.  Engu breyti í því sambandi að mati stefnda að íslenska ríkið sé orðið eigandi Nýja Landsbankans hf.  Megi í þessu sambandi vísa til þeirra breytinga sem urðu þegar Landsbanka Íslands var breytt í Landsbanka Íslands hf., sbr. ákvörðun ráðuneytisins 2. febrúar 1998 um viðmiðunarfjárhæð frá 1. janúar 1998 þegar Landsbanki Íslands var lagður niður með lögum nr. 50/1997 og Landsbanki Íslands hf., sem var alfarið í ríkiseigu, tók við starfsemi Landsbanka Íslands.

Niðurstaða

Eins og áður er rakið var stefnandi ráðinn aðstoðarbankastjóri Útvegsbanka Íslands 1. júní 1984 og gegndi hann því starfi þar til hann lét af störfum 1. maí 1987. Í kjölfar þess hóf hann töku eftirlauna eða 1. desember 1988.

Samkvæmt þágildandi lögum um Útvegsbanka Íslands ákvað bankaráð launakjör bankastjóra og aðstoðarbankastjóra. Samkvæmt samþykkt bankaráðs Útvegsbanka Íslands frá 27. apríl 1967, og áður er getið, skyldu eftirlaun bankastjóra nema  ákveðnum hundraðshluta af fastakaupi  bankastjóra eins og það væri á hverjum tíma. Var þessi samþykkt bankaráðsins áréttuð 2. apríl 1987 þegar til stóð að breyta bankanum í hlutafélag í eigu ríkissjóðs. Á þessum fundi bankaráðs var ákveðið að stefnandi skyldi njóta eftirlauna sem næmu 70,5% af föstum launum bankastjóra. Þessi launakjör voru því ekki ákveðin með samningum heldur einhliða af bankaráði Útvegsbanka Íslands.

Með lögum nr. 7/1987 um stofnun hlutafélagabanka um Útvegsbanka Íslands var ríkisbankinn Útvegsbanki Íslands lagður niður og við réttindum hans og skyldum tók nýtt hlutafélag í eigu ríkissjóðs. Hefur ekki verið sýnt fram á annað en fjármálaráðuneytið hafi við það yfirtekið vald bankaráðsins til að ákvarða eftirlaunakjör stefnanda.

Í bréfi fjármálaráðuneytisins til Seðlabanka Íslands, dags. 8. ágúst 1996 segir að ráðuneytið hafi ákveðið að stofn til ákvörðunar eftirlauna fyrrverandi bankastjóra Útvegsbankans eða maka þeirra skuli vera föst laun bankastjóra Landsbanka Íslands eins og þau eru á hverjum tíma. Eftirlaun fyrrverandi aðstoðarbankastjóra skuli með sama hætti vera 80% af föstum launum bankastjóra Landsbanka Íslands.

Fyrir liggur að frá 1. janúar 1998 tók Landsbanki Íslands hf. við rekstri Landsbanka Íslands, sbr. 3. gr. laga nr. 50/1997. Frá sama tíma var Landsbanki Íslands lagður niður.

Um þetta segir í bréfi fjármálaráðuneytisins til Seðlabanka Íslands, dags. 2. febrúar 1998, að eftirlaun fyrrverandi bankastjóra og aðstoðarbankastjóra Útvegsbanka Íslands hf. hafi tekið mið af launum bankastjóra Landsbanka Íslands. Með hliðsjón af því að bankinn hafi verið lagður niður sé nauðsynlegt að taka ákvörðun ráðuneytisins frá 8. ágúst 1996 um eftirlaunaviðmiðun fyrir fyrrverandi bankastjóra og aðstoðarbankastjóra Útvegsbanka Íslands og maka þeirra til endurskoðunar.

Ráðuneytið hafi kannað lokalaun bankastjóra Landsbanka Íslands. Föst laun í desember 1997 hafi verið 411.000 krónur og bankaráðsþóknun 48.000 krónur

Þá segir að ráðuneytið hafi af þeim sökum ákveðið að stofn til ákvörðunar eftirlauna skuli vera 411.000 krónur að viðbættri bankaráðsþóknun 48.000 krónur. Ráðuneytið hafi ákveðið að á föstu launin skuli reikna 9,5% sem jafngildi hækkun kjaradóms frá því í september 1995. Þá segir að framvegis skuli eftirlaunin fylgja almennum launabreytingum bankastarfsmanna. Eftirlaunaviðmiðunin verði því miðuð við 1. janúar alls 498.045 krónur.

Í bréfi ráðuneytisins til Seðlabanka Íslands, dags. 8. janúar 2002, segir að vegna ábendinga og athugasemda hafi ráðuneytið ákveðið að endurskoða ákvörðun sína frá 2. febrúar 1998. Var talið rétt að miða eftirlaun til bankastjóra Útvegsbankans við sömu fjárhæð og gilti fyrir fyrrverandi bankastjóra Landsbanka Íslands. Eftirlaunin skyldu því miðuð við 1. janúar 1998,  550.000 krónur, og fylgja almennum launabreytingum bankastarfsmanna frá sama tíma.

Eins og fram er komið er ekki ágreiningur með aðilum um að viðmiðunarfjárhæð lífeyrisgreiðslna til stefnanda skuli vera eins og hún var ákveðin 1. janúar 1998. Ágreiningur er hins vegar með aðilum um það hvað felist í orðalaginu almennar launabreytingar.

Stefnandi byggir á því að viðmiðunarfjárhæð lífeyrisgreiðslna til hans, eins og hún var 1. janúar 1998, skuli fylgja vísitölu lífeyrisskuldbindinga fyrir opinbera starfsmenn og taka mánaðarlegum breytingum í samræmi við hana. Með því telur hann að hann verði jafnt settur, réttindalega séð, og ef ákvörðun bankaráðs Útvegsbanka Íslands frá 27. apríl 1967 um eftirlaun bankastjóra hefði verið framfylgt.

Stefndi mótmælir því og byggir á því að með því að stofn eftirlauna taki breytingum í samræmi við almennar launabreytingar bankastarfsmanna, eins og ákveðið var af stefnda, sé best náð þeim markmiðum sem ákvarðanir bankaráðs Útvegsbanka Íslands lutu að. Byggir stefndi á því að með orðalaginu almennar launabreytingar sé átt við almennar launahækkanir sem ákveðnar séu í kjarasamningum bankamanna, en aðrar hækkanir, svo sem flokkatilfærslur falli ekki þar undir.

Stefnandi byggir hins vegar á því að ekki sé nægilegt að taka einvörðungu mið af áfangahækkunum samkvæmt kjarasamningi heldur beri einnig að taka mið af launaflokkatilfærslum og launaskriði.

Til stuðnings þessari fullyrðingu sinni bendir stefnandi á að verulegt launaskrið hafi orðið hjá þeim hópum bankamanna sem hærri launin hafa, svo sem sérfræðingum og stjórnendum. Launaskriðið sé til komið vegna samningsbundinnar aldursálagshækkunar og flokkatilfærslna og ekki síður vegna samkeppni sem myndast hafi á vinnumarkaði um hæft starfsfólk.

Þá fullyrðir stefnandi að það að eftirlaun hans skuli fylgja vísitölu lífeyrisskuldbindinga feli ekki í sér setningu nýrrar reglu er varðar framkvæmd greiðslu eftirlauna. Fullyrðir stefnandi að fjölmargir fyrrverandi starfsmenn Útvegsbanka Íslands, núverandi starfsmenn Glitnis banka hf., hafi við töku lífeyris kosið að láta eftirlaunin fylgja umræddri vísitölu.

Bendir stefnandi þá á úrskurð kjararáðs frá 19. desember 2006 um túlkun þess á hugtakinu almennar launabreytingar.

Loks byggir stefnandi á því að fjármálaráðuneytið hafi þegar túlkað hugtakið almennar launabreytingar víðtækar en svo að undir það falli eingöngu beinar launahækkanir. Er þessari fullyrðingu mótmælt af hálfu stefnda. Vísar stefnandi í þessu sambandi til  minnisblaðs Ingvar A. Sigfússonar rekstrarstjóra Seðlabankans til Birgis Ísleifs Gunnarssonar, þáverandi seðlabankastjóra, dags. 22. desember 2003.

Eins og áður segir hefur ekki verið sýnt fram á annað í máli þessu en að  fjármálaráðuneytið hafi með lögum nr. 7/1987 yfirtekið vald bankaráðsins til að ákvarða eftirlaunakjör stefnanda. Launakjör voru ákveðin einhliða af bankaráði og er engum samningum um eftirlaunakjör stefnanda fyrir að fara. Túlkun stefnda á orðalaginu almennar launabreytingar liggur fyrir.

Stefnandi vísar máli sínu til stuðnings til laga nr. 1/1997 og nr. 2/1997. Í III. kafla laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins er fjallað um þá sjóðsfélaga sem fá greitt samkvæmt ákvæðum um B-deild lífeyrissjóðsins. Er þar í 3. mgr. 24. gr. ráð fyrir gert að eftir að taka lífeyris hefst skuli breytingar á lífeyrisgreiðslum ákveðnar til samræmis við meðalbreytingar sem verði á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, sbr. 2. mgr., og skal Hagstofa Íslands reikna þær mánaðarlega. Er þar um ræða svonefnda vísitölu lífeyrisskuldbindinga. Hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi áunnið sér réttindi til töku lífeyris samkvæmt þessum lögum eða lögum nr. 2/1997.

Sú málsástæða stefnanda að fjölmargir fyrrverandi starfsmenn Útvegsbanka Íslands, núverandi starfsmenn Glitnis banka hf., hafi við töku lífeyris kosið að láta eftirlaunin fylgja umræddri vísitölu, þykir ekki hafa þýðingu í málinu, enda verður ekki annað ráðið af málatilbúnaði stefnanda en að slíkur kostur hafi verið í boði í samningum þeirra við viðsemjendur sína.  Þá hafa engin gögn verið lögð fram í málinu til stuðnings þessum fullyrðingum.

Stefnandi bendir á úrskurð kjararáðs frá 19. desember 2006 um túlkun þess á  hugtakinu almennar launabreytingar.  Samkvæmt 1. gr. laga nr. 47/2006 um kjararáð er hlutverk þess að ákveða laun og starfskjör tiltekinna manna sem svo er háttað um að þau geti ekki ráðist með samningum á venjulega hátt vegna eðlis starfans eða samningsstöðu. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 47/2006 um kjararáð skal kjararáð gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeirra sem það ákveður. Við ákvarðanir sínar ber kjararáði að fara eftir fyrirmælum laganna. Laun stefnanda hafa ekki verið ákvörðuð af kjararáði og verður ekki séð að tiltekin úrlausn ráðsins feli í sér almenna skilgreiningu á hugtakinu almennar launabreytingar.

Þeirri staðhæfingu stefnanda, að fjármálaráðuneytið hafi þegar túlkað hugtakið almennar launabreytingar víðtakar en svo að undir það falli eingöngu beinar launahækkanir, er mótmælt af hálfu stefnda. Af umræddu minnisblaði, sem stefnandi vísar til, verður ekki annað ráðið en Seðlabanki Íslands hafi verið að leita eftir heimild fjármálaráðuneytisins til þess að hækka eftirlaunagreiðslur fyrrverandi starfsmanna Útvegsbanka Íslands til samræmis við það sem gilti um fyrrverandi starfsmenn Landsbanka Íslands.

Í framhaldssök byggir stefnandi á því að eftir 1. nóvember 2008, eftir að bankarnir Nýi Landsbanki Íslands hf., Nýi Glitnir banki hf. og Nýi Kaupþing banki hf. komust í eigu ríkisins, skuli viðmiðunarfjárhæð lífeyrisgreiðslna stefnanda miðast við laun bankastjóra Nýja Landsbanka Íslands hf., eins og þau eru á hverjum tíma og taka breytingum í samræmi við þau.

Fallist er á það með stefnda að þó að hinir nýju bankar séu nú hlutafélög í eigu ríkisins gildi áfram sömu sjónarmið varðandi viðmiðunarfjárhæð lífeyrisgreiðslna stefnanda.

Stefnandi hefur sönnunarbyrðina fyrir því að honum beri réttur til lífeyris í samræmi við kröfugerð sína. Gegn andmælum stefnda hefur hann ekki fært rök að því að honum beri þau réttindi sem um er krafið. Styðjast kröfur hans hvorki við samninga né ákvæði laga eða reglna. Hefur ekki verið sýnt fram á annað en að eftirlaun hans sæti sömu viðmiðum og annarra sem svipað eru settir, svo sem eftirlaun fyrrverandi bankastjóra Landsbanka Íslands, eins og að var stefnt af hálfu stefnda. Er ekki fallist á að ákvarðanir stefnda varðandi eftirlaun stefnanda, sem um er þrætt í máli þessu, hafi verið ómálefnalegar eða andstæðar lögum eða stjórnarskrá.

Ber því samkvæmt framansögðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda, bæði í aðalsök og framhaldssök.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

                                                               D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Axels Kristjánssonar, í aðalsök og framhaldssök.

Málskostnaður fellur niður.