Hæstiréttur íslands

Mál nr. 88/2015


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Ómerkingu héraðsdóms hafnað


                                     

Fimmtudaginn 21. janúar 2016.

Nr. 88/2015.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Guðbjarni Eggertsson hrl.)

 

Líkamsárás. Ómerkingu héraðsdóms hafnað.

X var ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa slegið A hnefahöggi í andlitið, hent henni utan í svefnherbergisskáp, hrint henni svo hún féll og lenti með öxlina á kommóðu, tekið í hendi hennar og sparkað, íklæddur skóm, í læri, kálfa og síðu hennar, tekið hana hálstaki með báðum höndum og ýtt á bringu hennar þannig að hún féll aftur fyrir sig og lenti á glerborði, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut rifbeinsbrot, sár og mar á olnboga og mar á öxl, læri og hné. Var X sakfelldur í héraði fyrir þá háttsemi sem lýst var í ákæru að því undanskildu að ekki þótti sannað að hann hefði tekið A hálstaki. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu X að öðru leyti en því að jafnframt var talið ósannað að X hefði hent A utan í svefnherbergisskáp og sparkað í síðu hennar. Var refsing X ákveðin fangelsi í fimm mánuði en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var X gert að greiða A samtals 519.694 krónur í skaða- og miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Karl Axelsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. janúar 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.

Brotaþoli hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti og verður því litið svo á að hún krefjist þess að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

I

Ákærði hefur krafist ómerkingar hins áfrýjaða dóms. Þá kröfu byggir hann í fyrsta lagi á þeim grundvelli að rökstuðningi fyrir sakfellingu sé ábótavant, í öðru lagi að héraðsdómara hafi borið að neyta heimildar 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um að þrír dómarar skipuðu dóm í málinu, og í þriðja lagi er um grundvöll kröfunnar byggt á því að mat dómsins á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi sé rangt, sbr. 3. mgr. 208. gr. sömu laga.

Hvað skort á rökstuðningi varðar vísar ákærði til þess að í forsendum héraðsdóms sé talið ósannað að ákærði hafi í umrætt sinn tekið brotaþola hálstaki en allt að einu sé hann sakfelldur í samræmi við þá háttsemi sem lýst sé í ákæru. Í forsendum hins áfrýjaða dóms kemur fram að á grundvelli framburðar brotaþola, læknisvottorða og nánar tilgreindra vitnaframburða telji „dómurinn fram komna lögfulla sönnun þess að ákærði hafi veist að brotaþola umrædda nótt með þeim afleiðingum sem lýst er í ákæru utan að hafa tekið hana hálstaki.“ Síðar í forsendum dómsins segir „Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er hún réttilega heimfærð til refsiákvæða.“ Enda þótt hinn áfrýjaði dómur sé ekki svo skýr sem skyldi um sakfellingu ákærða fyrir brot samkvæmt ákæru gegn 1. mgr. 218 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. f. lið 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008, verður að telja ljóst af fyrrgreindu orðalagi í niðurstöðukafla dómsins að ákærði var sakfelldur fyrir þá háttsemi sem nánar er lýst í ákæru að því undanskildu að ekki taldist sannað að hann hefði tekið brotaþola hálstaki. Er óumdeilt að ákæruvaldið unir því mati og kemur það því ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Að þessu virtu verður ekki fallist á með ákærða að ómerkja beri hinn áfrýjaða dóm á þeim grundvelli að ekki hafi verið tekin afstaða til sakargiftanna með rökstuddum hætti.

Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið svo á um að einn héraðsdómari skipi dóm í hverju máli nema svo standi á sem segir í 3. til 5. mgr. greinarinnar. Í 4. mgr. er mælt fyrir um að ef ákærði neiti sök og dómari telji sýnt að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi geti dómstjóri ákveðið að þrír héraðsdómarar skipi dóm í málinu. Tilvitnað ákvæði heimilar að hafa dóm fjölskipaðan við þær aðstæður sem þar er vísað til, en slíkt er ekki skylt. Eins og mál þetta er vaxið eru ekki efni til að fallast á kröfu ákærða um ómerkingu dómsins af þeirri ástæðu að einn héraðsdómari skipi dóm í málinu í samræmi við meginreglu 2. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008.

Loks er ekkert fram komið í málinu um að niðurstaða héraðsdóms um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi sé rangt svo einhverju skipti um úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 208. gr. laganna. Samkvæmt þessu er kröfu ákærða um ómerkingu héraðsdóms hafnað.

II

Svo sem nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi er ákærða gefin að sök líkamsárás með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 1. september 2013 ráðist með ofbeldi á þáverandi sambýliskonu sína. Er ætlaðri árás lýst svo að hann hafi slegið brotaþola hnefahöggi í andlitið, hent henni utan í svefnherbergisskáp, hrint henni svo hún féll og lenti með vinstri öxlina á kommóðu, tekið í hendi hennar og sparkað, íklæddur skóm, í vinstra læri, hægri kálfa og síðu hennar, tekið hana hálstaki með báðum höndum, hent henni utan í vegg og ýtt með höndunum á bringu hennar þannig að hún féll aftur fyrir sig og lenti á glerborði, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut brot á sjöunda og áttunda rifi hægra megin, sár og mar á hægri olnboga, mar á vinstri öxl, mar á utanvert vinstra læri og mar á utanvert hægra hné.

Svo sem fyrr segir sýknaði héraðsdómur ákærða af þeim sakargiftum að hafa tekið brotaþola hálstaki og unir ákæruvaldið við þá niðurstöðu. Þá er þess að gæta að fyrir héraðsdómi var brotaþoli ekki spurð út í þá þætti verknaðarlýsingar ákærunnar að ákærði hefði annars vegar „hent henni utan í svefnherbergisskáp“ og hins vegar sparkað í síðu hennar. Þar sem ákærði neitar sök verður hann sýknaður af þeirri háttsemi.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms að öðru leyti er staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga í samræmi við verknaðarlýsingu ákæru.

Staðfest verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um refsingu ákærða, sem og skaða- og miskabætur til handa brotaþola. Þá verður staðfest ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 658.682 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðbjarna Eggertssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. janúar 2015.

Mál þetta, sem þingfest var 2. október 2014 og dómtekið 17. desember sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 19. ágúst 2014, á hendur X, kt. [...], [...], [...],

„fyrir líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 1. september 2013, ráðist með ofbeldi á þáverandi sambýliskonu sína, A, á heimili þeirra að [...] í [...], slegið hana hnefahöggi í andlitið, hent henni utan í svefnherbergisskáp, hrint henni svo hún féll og lenti með vinstri öxlina á kommóðu, tók í hendi hennar og sparkaði, klæddur skóm, í vinstra læri hennar, sparkaði í hægri kálfa hennar og síðu, tók hana hálstaki með báðum höndum og henti henni utan í vegg og ýtti með höndunum á bringu hennar þannig að hún féll aftur fyrir sig og lenti á glerborði, allt með þeim afleiðingum að A hlaut brot á 7. og 8. rifi hægra megin, sár og mar á hægri olnboga, mar á vinstri öxl, mar á utanverðu vinstra læri og mar utanvert á hægra hné.

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.

Af hálfu Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., fyrir hönd A, kt. [...], er krafist greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 1.000.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 1. september 2013 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er birt til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða brotaþola atvinnutjón, útlagaðan sjúkrakostnað og þjáningarbætur skv. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/21993 en fjárhæð krafnanna liggur ekki fyrir að svo stöddu og er gerður áskilnaður um að leggja fram gögn og reikninga þeim til stuðnings allt fram að flutningi málsins í héraðsdómi. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

             Ákærði kom fyrir dóminn við þingfestingu málsins og neitaði sök. Þá hafnaði hann bótakröfunum. Hófst aðalmeðferð  þann 11. nóvember sl. og var framhaldið 3. og 17. desember sl. Var málið dómtekið að málflutningi loknum.

Málsatvik.

Aðdragandi málsins mun vera sá að aðilar, sem bjuggu saman, fóru á dansleik kvöldið áður. Drukku þau áfengi fyrr um daginn og mun áfengisneysla hafa verið fram eftir kvöldi. Bæði ákærði og brotaþoli saka hvort annað um að hafa haldið fram hjá á dansleiknum. Ákærði mun hafa farið fyrr heim, og látið þau orð falla að hann væri búinn að gefast upp á þessu, og var að taka saman föggur sínar þegar brotaþoli kom heim nokkru síðar. Í kjölfarið áttu þau einhver orðaskipti og í framhaldi  átti meint árás sér stað. Brotaþoli hringdi í dóttur sína og tvær vinkonur um nóttina og komu vinkona hennar og dóttir ásamt fjórum lögreglumönnum á heimili þeirra stuttu síðar. Var ákærða ekið til [...] af lögreglumönnum en dóttir og vinkona brotaþola urðu eftir á heimili hennar. Brotaþoli leitaði á bráðamóttöku um kvöldmatarleyti sama dag og árásin átti sér stað.

Skýrslur fyrir dómi.

Ákærði kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið á dansleik um kvöldið. Bæði hafi þau drukkið áfengi frá því fyrr um daginn. Ákærði kvaðst hafa misst sjónar af brotaþola og við eftirgrennslan komið að henni með öðrum manni. Ákærði hafi ákveðið að fara heim og á leið sinni út hafi hann hitt kunningja sinn og sagt honum að öllu væri lokið á milli sín og brotaþola. Hann hafi byrjað að pakka dótinu sínu niður og þá hafi brotaþoli einnig komið heim. Hún hafi borið á ákærða að hann hafi verið að halda framhjá sér og slegið til ákærða með flötum lófa. Þau hafi staðið í svefnherbergisdyrunum og ákærði þá ýtt á brjóstkassa brotaþola. Hún hafi við það flogið yfir sófaborð og áfram í sófa í stofunni. Ákærði hafi þá haldið áfram að pakka og ekki orðið var við það hvort brotaþoli meiddi sig eða ekki. Minnti ákærða að brotaþoli hafi dottið á hlið á borðið og síðan í sófann. Neitaði ákærði því að hafa slegið brotaþola í andlit eða sparkað í hana. Ákærði hafi ekki tekið hana hálstaki. Þá kvað ákærði brotaþola fá marbletti mjög auðveldlega, hún vakni oft upp á morgnana með fullt af marblettum. Taldi ákærði um þrjú korter hafa liðið frá því að hann ýtti við brotaþola og þar til lögreglan kom. Kvað ákærði brotaþola oftar hafa borið framhjáhald upp á sig. Þá hafi þetta ekki verið í fyrsta sinn sem hún hafi slegið hann. Brotaþoli hafi verið mjög ölvuð umrætt sinn. Auk þess hafi brotaþoli áður haldið fram hjá sér. Ákærði kvaðst í kjölfar þessa hafa verið í miklum samskiptum við brotaþola í gegnum smáskilaboð auk þess sem þau hafi sofið saman viku eftir atvikið.

                A kom fyrir dóminn og lýsti atvikum svo að hún, ákærði og fleiri hafi farið saman á dansleik umrætt kvöld en þau hafi neytt áfengis fyrr um daginn og með mat. Brotaþoli kvaðst hafa farið á salerni og þegar hún hafi komið til baka hafi henni verið sagt að ákærði væri í uppnámi og hefði sagt við vin hennar að brotaþoli hafi verið að kyssa einhvern kall á dansgólfinu. Í framhaldi hafi brotaþoli leitað að ákærða og séð hann dansa við og kyssa konu. Brotaþoli hafi því ákveðið að láta það eiga sig og farið heim. Þar hafi þá ákærði verið kominn á undan henni og verið að pakka niður bókum og dóti frá sér og sagt að hann væri að fara vegna framhjáhalds hennar. Ákærði hafi í framhaldi ráðist á hana og barið hana, sparkað í hana og hent henni utan í vegg. Hann hafi hent henni á kommóðu þannig að blætt hafi úr öxl brotaþola. Hann hafi hrint höfði hennar í vegg og sparkað í fætur og læri hennar. Hann hafi einnig slegið hana í andlit þannig að hún hafi fengið glóðarauga. Þá hafi hún verið aum í hálsinum en ákærði hafi tekið um háls hennar. Þá hafi hann hrint henni þannig að hún hafi dottið í sófa og endað á  sófaborði með glerplötu. Árásin hafi ekki verið samfelld því að brotaþoli hafi farið út á svalir í millitíðinni til að reykja og hringja í dóttur sína og vinkonu. Þær hafi komið með lögreglunni. Aðspurð kvaðst brotaþoli eflaust hafa slegið til ákærða til að verja sig. Brotaþoli kvað sér hafa liðið mjög illa en henni hafi ekki dottið í hug að fara út af sínu eigin heimili og skilja ákærða þar eftir. Brotaþoli kvaðst halda að ákærði hafi verið meira drukkinn en brotaþoli en hún hafi gengið heim frá dansleiknum. Aðspurð kvaðst brotaþoli kannast við að þau hafi haft samband með smáskilaboðum en hún hafi oft beðið ákærða um að hætta að senda sér skilaboð.  Ákærði hafi til dæmis sagt í einum skilaboðunum að honum þætti leitt að hafa lagt á hana hendur. Þá kannaðist brotaþoli við þá háttsemi sína, sem ákærði lýsti í smáskilaboðum, að hafa slegið til ákærða og sagt honum að drulla sér út. Aðspurð um samskipti þeirra eftir atvikið, kvað brotaþoli þau hafa hist einu sinni heima hjá brotaþola en hann hafi viljað hitta hana oftar en brotaþoli ekki haft áhuga á því. Aðspurð um smáskilaboð aðfaranótt 22. september 2013 kvaðst brotaþoli ekki muna hver hafi átt upptökin að þeim samskiptum. Brotaþoli kannaðist við að hafa verið að skemmta sér þá nótt og að hafa sent ákærða þau skilaboð sem liggja fyrir í málinu. Kvað brotaþoli ákærða hafa ítrekað reynt að hringja í sig og sent sér smáskilaboð sem hún hafi reynt að fyrra sig af. Þá hafi brotaþoli leitað til Kvennaathvarfsins og leitað sér hjálpar hjá sálfræðingi.

                Vitnið B kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið með aðilum umrætt kvöld á dansleik. Um fjögurleytið um nóttina hafi brotaþoli hringt í vitnið og hafi brotaþoli þá sagt að ákærði væri að leggja hendur á sig og beðið vitnið að koma strax. Heimili brotaþola var rétt hjá staðnum þar sem dansleikurinn var haldinn. Þær C hafi hlaupið út á plan og séð lögreglubifreið, farið til lögreglunnar og hún ekið þeim heim til aðila. C hafi verið með lykla að íbúðinni, opnað og þau öll farið inn. Þar hafi brotaþoli setið í sófa inni í stofu. Hafi vitnið séð um nóttina að brotaþoli hafi verið bláleit í andliti og með mar á fæti. Vitnið kvaðst hafa gist hjá brotaþola um nóttina en þær vinni saman. Hafi brotaþoli átt erfitt í vinnu á eftir og þurft mikla hjálp en síðar hafi komið í ljós að hún var rifbeinsbrotin. Vitnið kvaðst hafa hlustað á brotaþola segja lögreglunni að ákærði hafi borið á brotaþola að hafa haldið framhjá ákærða. Brotaþoli hafi lýst árásinni þannig að ákærði hafi hrint henni utan í dyrakarm og sparkað í hana þar sem hún lá á gólfinu. Vitnið hafi verið heima hjá brotaþola dagana á eftir og reynt hafi verið að ná sambandi við ákærða til að fá hann til að sækja dótið sitt. Vitnið kvað ákærða hafa verið frekar rólegan eftir að lögreglan hafði afskipti af honum. Vitnið taldi brotaþola ekki hafa verið áberandi ölvaða.

                Vitnið C kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið að skemmta sér með aðilum umrætt kvöld. Undir lok dansleiksins hafi móðir þess, brotaþoli, hringt í vinkonu sína og beðið þær um að koma strax heim til hennar þar sem ákærði væri að ráðast á brotaþola. Þær hafi hlaupið út og séð lögreglubifreið og beðið lögregluna um að koma með sér og hafi þau komið fljótlega heim til brotaþola. Vitnið mundi ekki hvar brotaþoli hafi verið í stofunni þegar það kom inn en brotaþoli hafi titrað öll og blætt úr öxlinni á henni. Mar hafi byrjað að myndast morguninn eftir. Brotaþoli hafi lýst árásinni þannig fyrir vitninu að ákærði hafi hent brotaþola í sófann í stofunni og hent henni á hluti. Vitnið kvaðst ekki hafa heyrt nein læti eða átök frá íbúðinni þegar þau komu þangað.

                Vitnið D kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið með aðilum umrætt kvöld og síðan á dansleik seinna um kvöldið. Vitnið hafi ekki orðið vitni að aðdraganda árásarinnar eða árásinni sjálfri. Vitnið hafi heyrt í brotaþola morguninn eftir og brotaþoli sagt sér að ákærði hafi farið reiður heim af ballinu og ásakað brotaþola um að hafa kysst annan mann á ballinu. Brotaþoli hafi farið heim til sín og þar hafi ákærði verið og haldið áfram að ásaka hana um framhjáhald. Brotaþoli hafi lýst því þannig að ákærði hafi fyrst grýtt flösku og síðan gengið í skrokk á brotaþola þannig að hafa hent henni á kommóðu og í sófa. Brotaþoli hafi verið hrædd á eftir og beðið vitnið og kærasta þess um að vera hjá sér þegar von var á ákærða til að sækja dótið sitt.

                Vitnið E kom fyrir dóminn og kvaðst hafa frétt af málinu eftir á. Vitnið hafi verið með aðilum í mat um kvöldið, allir verið hressir. Seinna um kvöldið fari þau á dansleik. Þar hafi vitnið hitt ákærða síðar um kvöldið. Ákærði hafi sagt við sig að hann hafi séð brotaþola með öðrum manni og kyssa hann. Vitnið hafi reynt að tala um fyrir ákærða en það ekki gengið. Vitnið hafi síðan heyrt um atvikið frá kærustu sinni. Þá hafi brotaþoli beðið sig um að koma heim til brotaþola og vera á meðan ákærði kæmi til að sækja dótið sitt. Ákærði hafi ekki komið þá.

                F lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið að málinu þannig að tvær stúlkur hafi komið hlaupandi að lögreglubifreiðinni umrætt kvöld og beðið lögregluna um að fara heim til brotaþola. Þegar þau komu á vettvang hafi lögreglan farið inn en dóttir brotaþola hafi verið með lykil að íbúðinni sem hafi verið í næsta nágrenni. Brotaþoli hafi setið grátandi á stofugólfinu þegar lögreglan kom inn en allir hafi verið vel í glasi. Ákærði hafi þá verið rólegur. 

Vitnið G lögreglumaður kvaðst hafa farið að beiðni annarra lögreglumanna með þeim heim til ákærða og brotaþola. Þegar þau komi inn í íbúðina hafi maður og kona verið þar fyrir og hafi vitnið ekið ákærða til vinar síns í [...]. Vitnið kvaðst örugglega hafa rætt við ákærða um það hvað hafi gerst á heimilinu en vitnið mundi ekki hvað það var. Vitnið kvaðst ekki hafa tekið eftir því hvort brotaþoli hafi verið með áverka.

Vitnið H lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið staddur í [...] ásamt vitninu G. Þeir hafi fengið beiðni um að koma ásamt öðrum lögreglumönnum að [...] vegna heimilisofbeldis. Allt hafi verið með kyrrum kjörum þegar lögreglan kom og vitnið hafi ekið ákærða til vinar síns. Mundi vitnið eftir því að brotaþoli hafi verið grátandi þegar lögreglan kom inn. Ákærði hafi ekki rætt neitt annað við lögregluna en að konan hafi kysst annan mann á ballinu.

                Vitnið I læknir gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst ekki minnast þess að hafa hitt brotaþola sjálfur en vottorðið væri skrifað upp úr sjúkraskrám. Þegar brotaþoli hafi komið á bráðamóttöku 1. september hafi verið áverkar á hægri olnboga, grunnt sár og mar á olnboga, sár á vinstri öxl, lófastórt mar á vinstra læri og mar hægra megin á hné að utanverðu. Viku síðar hafi brotaþoli komið aftur og verið aum í brjóstkassa. Röntgenmyndir hafi verið teknar af brotaþola og hafi brot á tveimur rifbeinum komið í ljós. Kvað vitnið mjög algengt að rifbrot greindust ekki strax, jafnvel ekki fyrr en fjórum til sjö dögum eftir að brotin verði til. Vitnið kvað áverka á brotaþola vel geta samrýmst frásögn hennar um að hafa verið hent til og slegin. Áverkar eins og á brotaþola verði til af höggum og áverkar á síðunni séu þar sem áverkinn á olnboganum sé. Hún gæti þess vegna hafa fengið olnbogann í síðuna og brotið rif  við það án þess að hafa fengið högg beint á síðuna. Aðspurt kvað vitnið maráverkana á brotaþola ekki bera með sér að vera sérstaklega gamlir og geti samrýmst því að hafa orðið til um sólarhring áður þótt erfitt sé að tímasetja það. Varðandi rifbrotið þá hafi það ekki verið gamalt þar sem það hafi ekki verið byrjað að gróa en það sjáist tveimur til þremur vikum eftir áverka. Rifbrotin á brotaþola gætu hafa orðið til rétt áður en myndatakan fór fram en væru ekki eldri en þriggja vikna. Aðspurt um það hvort áverkar og rifbrot brotaþola geti samrýmst þeirri frásögn ákærða að brotaþola hafi verið ýtt þannig að hún hafi dottið á sófa og síðan glerborð, kvað vitnið það vel geta verið. Við það að detta og fá mikið högg á olnbogann, sem þrýstist fast að brjóstkassanum við höggið, þá geti bæði olnboginn marist og hugsanlegt að brotið komi við höggið frá olnboganum eða hendinni. Staðsetningin passi við það.  

Vitnið J læknir gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa lesið úr röntgenmyndum sem teknar voru af brotaþola 7. september 2012. Kvaðst vitnið hafa séð tvö rifbrot á myndunum, á 7. og 8. rifi hægra megin hliðlægt fyrir miðjum brjóstkassanum. Brotið sjáist en ekki hafi verið mikil tilfærsla á þeim. Vitnið kvaðst aldrei hafa hitt sjúklinginn sjálfan. Aðspurt kvað vitnið ómögulegt að segja til um það hversu gamalt brotið var, það væri ekki hægt fyrr en brotið væri farið að gróa og það taki meira en tvær vikur. Kvað hann fólk geta verið rifbrotið þótt það sjáist ekki á myndum.

Vitnið K læknir gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa hitt brotaþola við endurkomu á slysadeild 7. september 2013. Kvað vitnið brotaþola hafa verið bókaða hjá vitninu á endurkomudeild vegna verkja hægra megin í brjóstkassa og baki. Brotaþoli hafi verið aum yfir 9. og 10. rifi eins og þau væru brákuð eða brotin en það væri það sama. Brotaþoli hafi verið mynduð og hafi bak og lungnamyndir ekki sýnt neitt athugavert. Vitnið kvað sitt mat hafa verið að brotaþoli hafi verið rifbeinsbrotin. Aðspurt um það hvort eitthvað óeðlilegt hafi verið við það að brotið hafi ekki verið greint strax í upphafi, hvað vitnið það ekki vera. Ef fólk væri með brot þar sem brotaendar væru hliðraðir þá greindist það strax en ef engin hliðrun sé þá fái fólk verki eftir sjö til níu daga þegar það fer að vera meira á ferðinni. Það gæti hafa átt sér stað hjá brotaþola. Vitnið kvaðst ekki hafa skráð hjá sér ástæðu fyrir áverkanum utan að brotaþoli hafi reynt að vinna en ekki getað það lengur vegna verkja. Hins vegar kvaðst vitnið hafa skoðað forsögu brotaþola áður en hún kom í tímann og því vitað ástæðu upphaflegrar komu en mundi ekki hvort hann hafi rætt það sérstaklega við brotaþola. Vitnið kvaðst ekki geta fullyrt um það hversu langt væri frá því að brotið átti sér stað, það gæti hafa átt sér stað fyrir 1. september en einnig síðar.

Önnur sýnileg sönnunargögn.

Vottorð I læknis, dagsett 19. september 2013, liggur fyrir í málinu. Segir í vottorðinu að brotaþoli hafi leitað á bráðadeild kl. 19:10 þann 1. september 2013. Er haft eftir brotaþola í vottorðinu að hún hafi verið að skemmta sér kvöldið áður með kærasta sínum þegar einhver ágreiningur hafi komið upp. Þegar þau hafi síðan komið heim hafi aftur komið upp ágreiningur og ákærði slegið hana í andlitið og hent henni til og hún lent á dyrakarmi. Þá hafi ákærði sparkað í læri hennar.  Við skoðun sé sár á hægri olnboga og mar í kringum það. Einnig sé lítill marblettur á vinstri öxl. Yfir utanverðu neðanverðu vinstra læri sé um það bil lófastór marblettur. Einnig sjáist mar hægra megin á hné utanvert. Aðrir áverkar greinist ekki við skoðun. Þá segir að sár og mar þarfnist ekki sérstakrar meðferðar. Brotaþoli kom aftur á bráðadeild 7. september 2013 vegna óþæginda hægra megin í brjóstkassa eftir líkamsárás 1. september 2013. Lýsti hún því að geta illa hvílst á nóttunni og kvartaði yfir óþægindum í baki og brjósthryggjarsvæði auk öndunarerfiðleika. Við skoðun hafi lungnahlustun verið eðlileg en hún verið aum yfir mið og neðri hluta rifja í holhandarlínu hægra megin á brjóstkassa. Eymsli hafi einnig verið við bank yfir neðri hluta brjósthryggjar. Voru röntgenmyndir teknar af brjósthrygg og lungum. Engir áverkar hafi sést á brjósthrygg né lungum en merki voru um lítið tilfærð brot á 7. og 8. rifi hægra megin.

                Ljósmyndir af áverkum brotaþola liggja fyrir í málinu og einnig af íbúð hennar þar sem árásin átti sér stað.

                Nokkurt magn smáskilaboða liggur fyrir í málinu þar sem ýmist brotaþoli eða ákærði eru að senda skilaboð vegna atviksins. Að auki liggur fyrir yfirlit yfir fjölda símasamskipta aðila eftir 1. september 2013.

                Staðfesting liggur fyrir frá [...] um að brotaþoli hafi verið frá vinnu vegna líkamsárásar frá 7. september til og með 22. september 2013. Hafi hún fengið greidd veikindalaun fyrir tímabilið.

                Vottorð frá Kvennaathvarfinu liggur fyrir vegna viðtala sem brotaþoli hefur átt þar eftir atvikið.

                Læknabréf frá Heilsugæslunni í [...], dagsett 1. september 2013, liggur fyrir þar sem brotaþoli lýsir árásinni þannig að ákærði hafi verið að pakka niður í tösku þegar hún kom heim af dansleiknum. Einhver ágreiningur hafi orðið og hann kýlt hana í andlitið og hent henni til og frá í dyrakarminn og  sparkað í læri hennar. Brotaþoli hafi fengið áfallahjálp.

                Göngudeildarnóta frá LHS, dags. 7. september 2013, liggur fyrir. Kemur þar fram að greining sé rifbrot. Brotaþoli hafi komið vegna óþæginda hægra megin. Hafi hún sagst vera að reyna að vinna sem „stjóri“ á [...]. Hún geti það ekki lengur vegna verkja í hliðinni. Hún hvílist ekki á nóttunni og sé einnig með óþægindi í brjósthrygg.

                Afrit kvittana vegna komu á göngudeild, röntgenmynda og afrita af gögnum, samtals að fjárhæð 19.694 krónur, liggja fyrir.

Forsendur og niðurstöður.

Ákærði neitar sök í máli þessu en viðurkennir að hafa ýtt við brotaþola þannig að hún hafi fallið á sófaborð og sófa. Ber aðilum ekki saman um aðdragandann en bæði saka hvort annað um framhjáhald umrætt kvöld. Fyrir liggur, samkvæmt framburði vitnanna C, D og lögreglumannanna F, G og H, að vitnin komu hlaupandi að lögreglubifreiðinni og báðu þá um aðstoð þar sem verið væri að ráðast á móður C á heimili móður hennar þar rétt hjá. Fór lögreglan beint á vettvang ásamt tveimur öðrum lögreglumönnum. Var brotaþoli þar fyrir grátandi og ákærði rólegur að sögn. Engu breytir fyrir úrslit málsins þótt vitnum hafi ekki borið saman um það hver fór fyrstur inn í íbúðina og hvort brotaþoli sat í sófa eða á gólfinu, en innkoma þeirra mun hafa gerst nokkuð hratt.

Brotaþoli lýsti árás ákærða á sig. Í læknisvottorði, sem staðfest var af vitninu I, segir að brotaþoli hafi komið eðlilega fyrir og segi skýrt frá. Við skoðun sé hún með grunnt sár á hægri olnboga og mar í kringum það. Það sé einnig lítill marblettur á vinstri öxl. Yfir utanverðu neðanverðu vinstra læri sé um það bil lófastór marblettur. Einnig sjáist mar hægra megin á hné utanverðu. Aðrir áverkar greinist ekki við skoðun. Í endurkomu komu í ljós tvö rifbeinsbrot.

Ákærði heldur því fram að þau hafi verið í dyragættinni inn í svefnherbergi þeirra og hann einungis ýtt með höndunum á bringu brotaþola og við það hafi hún dottið aftur fyrir sig og á sófaborðið. Hann viti ekki hvort hún hafi meitt sig við það.

Í ákæru er háttseminni lýst þannig að ákærði hafi slegið brotaþola hnefahöggi í andlitið, hent henni utan í svefnherbergisskáp, hrint henni svo að hún hafi fallið og lent með vinstri öxlina á kommóðu, tekið í hönd hennar og sparkað, klæddur skóm, í vinstra læri hennar, sparkað í hægri kálfa hennar og síðu, tekið hana hálstaki með báðum höndum og hent henni utan í vegg og ýtt með höndunum á bringu hennar þannig að hún féll aftur fyrir sig og lenti á glerborði. Samrýmist þessi verknaðarlýsing þeim áverkum, sem voru á brotaþola og lýst er í áverkavottorði rúmlega hálfum sólahring eftir árásina, utan að ekkert kemur fram um að brotaþoli hafi kennt sér meins í hálsi eftir hálstak.

Af ljósmyndum af heimili brotaþola, sem liggja fyrir í málinu, má sjá að nokkuð löng leið er frá dyrum svefnherbergisins að hornsófa og sófaborði í stofunni. Til að geta lent á sófaborðinu við það eitt að ýtt hafi verið á brotaþola á bringuna í svefnherbergisdyrunum, eins og ákærði heldur fram, þurfti brotaþoli að kastast yfir gang, nánast fyrir horn í stofunni og yfir sófaarm og á glersófaborð, sem var fyrir framan sófann. Til að slíkt sé mögulegt hefur höggið þurft að vera mjög þungt eða nánast að brotaþola hafi verið kastað þangað af miklu afli. Er frásögn ákærða að þessu leyti mjög ótrúverðug og að engu hafandi. Þá er skýring ákærða á að brotaþoli fái marbletti mjög auðveldlega og að hún vakni oft upp á morgnana með fullt af marblettum einnig að engu hafandi, enda engin gögn sem styðja slíka frásögn.

Vitnið B kvað brotaþola hafa lýst því strax á vettvangi að ákærði hafi hrint henni utan í dyrakarm og sparkað í hana þar sem hún lá á gólfinu. Vitnið C kvað brotaþola hafa titrað og blætt hafi úr öxlinni á henni þegar hún kom að henni. Mar hafi byrjað að myndast morguninn eftir. Brotaþoli hafi lýst árásinni þannig fyrir vitninu að ákærði hafi hent brotaþola í sófann í stofunni og hent henni á hluti. Vitnið D kvað brotaþola hafa sagt sér morguninn eftir að ákærði hafi fyrst grýtt flösku í hana og síðan gengið í skrokk á brotaþola þannig að hann hafi hent henni á kommóðu og í sófa. Brotaþoli hafi verið hrædd á eftir og beðið vitnið og kærasta þess um að vera hjá sér þegar von var á ákærða til að sækja dótið sitt.

Þrátt fyrir framburð ákærða um að brotaþoli hafi veist að sér og slegið til sín, er atlaga ákærða langtum meiri og grófari en brotaþoli hefur gefið tilefni til en ekkert hefur komið fram um að ákærði hafi verið með áverka. Verður málsástæðu ákærða að um neyðarvörn hafi verið að ræða, og til vara að háttsemin eigi undir 217. gr. almennra hegningarlaga og beita eigi 3. mgr. 218. gr. b laganna varðandi refsingu, því hafnað.

                Með framburði brotaþola, sem samrýmist áverkavottorði sem fengið var rúmum hálfum sólahring eftir atvikið og aftur viku síðar vegna brotinna rifja, ásamt framburði vitnanna B, C og D, telur dómurinn fram komna lögfulla sönnun þess að ákærði hafi veist að brotaþola umrædda nótt með þeim afleiðingum sem lýst er í ákæru utan að hafa tekið hana hálstaki. Þrátt fyrir tengsl þessara þriggja vitna við brotaþola, telur dómurinn framburð þeirra trúverðugan, enda samrýmist hann öðrum gögnum málsins. Þá hefur ekkert komið fram um að brotaþoli hafi kennt sér meins í brjóstkassa fyrr um daginn eða á dansleiknum um kvöldið. Samkvæmt framburði vitnanna I og K er algengt að verkir vegna rifbrota komi fram sjö til tíu dögum eftir áverkann. Þá liggur fyrir að brotaþoli gafst upp á að vinna vegna verkja í brjóstkassa eftir atvikið og áður en hún leitaði aftur á bráðamóttöku. Telur dómurinn ofangreint staðfesta að brotaþoli hafi fengið þá áverka við árásina. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er hún réttilega heimfærð til refsiákvæða. Á ákærði sér engar málsbætur. Við ákvörðun refsingar verður litið til 3. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 til þyngingar.

Ákærða hefur ekki verið gerð refsing áður. Er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum, haldi ákærði almennt skilorð  57. gr. almennra hegningarlaga.

Að þessum niðurstöðum fengnum verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, sem er samkvæmt yfirliti 34.200 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðbjarna Eggertssonar hrl., á rannsóknarstigi og fyrir dóminum, 508.275 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Þá verður ákærði dæmdur til að greiða þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., samtals 399.280 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Einkaréttarkrafa.

Í málinu krefst brotaþoli þess að ákærði verið dæmdur til að greiða sér 1.000.000 króna í miskabætur ásamt tilgreindum vöxtum frá 1. september 2013, útlagðan kostnað, samtals 19.694 krónur, en ekki var krafist þjáningabóta eins og í ákæru. Bótakrafan var birt ákærða 4. október 2013. Byggir brotaþoli á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ákærði krefst þess að bótakröfunni verið vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af henni og til þrautavara að hún verði lækkuð.  

                Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru með þeim afleiðingum sem þar greinir. Í broti ákærða felst ólögmæt meingerð gegn brotaþola og var hún til þess fallin að valda henni sálrænum erfiðleikum auk annars tjóns. Var brotið gegn brotaþola á heimili hennar. Á brotaþoli rétt á miskabótum á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga og þykja þær hæfilega ákveðnar 500.000 krónur ásamt vöxtum eins og greinir í dómsorði. Þá verður ákærði einnig dæmdur til að greiða brotaþola útlagðan kostnað vegna brotsins, samtals 19.694 krónur.

 Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði, X, sæti fangelsi í fimm mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, 502.920 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðbjarna Eggertssonar hrl., 468.720 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði greiði þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 399.280 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði greiði A, kt. [...], 19.694 krónur í skaðabætur og 500.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. september 2013 til 4. nóvember 2013, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.