Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-101

Íslenska ríkið (Ólafur Helgi Árnason lögmaður)
gegn
Ásbirni Ólafssyni ehf. (Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Tollur
  • Skattur
  • Stjórnarskrá
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 12. apríl 2021 leitar íslenska ríkið eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 19. mars sama ár í máli nr. 739/2019: Ásbjörn Ólafsson ehf. gegn íslenska ríkinu, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

Gagnaðili höfðaði mál þetta til endurgreiðslu á fjármunum sem hann hafði innt af hendi til gagnaðila 14. maí og 27. desember 2018 fyrir tollkvóta, vegna innflutnings á landbúnaðarafurðum frá ríkjum Evrópusambandsins, sem ráðherra úthlutaði á grundvelli 3. mgr. 65. gr. búvörulaga nr. 99/1993, sbr. 65. gr. B sömu laga og 5. mgr. 12. gr. tollalaga nr. 88/2005. Reisti hann kröfur sínar fyrir Landsrétti á því að fjárhæð gjaldsins hefði ekki verið ákveðin í lögum með nægilega skýrum hætti og lagaheimildir til gjaldtökunnar væru ófullnægjandi samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Þá fæli taka gjalds fyrir tollkvóta í sér að innlendum og innfluttum framleiðsluvörum væri mismunað í andstöðu við 5. gr. tollalaga og bryti gegn þjóðréttarlegum skuldbindingum leyfisbeiðanda. 

Landsréttur féllst á kröfur gagnaðila á þeim grunni að skattlagningarheimild 3. mgr. 65. gr., sbr. 65. gr. B búvörulaga, eins og hún hljóðaði á þeim tíma sem atvik málsins gerðust, samrýmdist ekki ákvæðum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Álagning gjaldanna styddist því ekki við lögmæta skattlagningarheimild og væri ógild.

Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi og varði mikilvæga hagsmuni. Þá telur hann að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni. Hann vísar til þess að samkvæmt þágildandi 3. mgr. 65. gr., sbr. 65. gr. B búvörulaga, skyldi ráðherra, bærust umsóknir um meiri innflutning en sem næmi tollkvóta vöru, leita tilboða í heimildir til innflutnings samkvæmt tollkvótum og andvirðið renna í ríkissjóð. Þrátt fyrir að fjárhæðir vegna tollkvóta væru því ekki beinlínis ákveðnar í lögum hefði verið mælt fyrir um hvaða aðferð skyldi viðhafa við ákvörðun fjárhæðar og skattlagningin því ekki valkvæð. Reglugerðir nr. 318/2018 og 1045/2015 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á landbúnaðarvörum frá ríkjum Evrópusambandsins, hafi mælt fyrir um að hæstbjóðandi skyldi leysa til sín úthlutaðan tollkvóta með greiðslu andvirðis hans innan sjö daga frá dagsetningu tilkynningar um niðurstöðu útboðs. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að niðurstaða Landsréttar sé byggð á málsástæðu sem ekki hafi verið hreyft í gögnum málsins. Þá kveður hann tíu sambærileg dómsmál bíða niðurstöðu málsins og kröfufjárhæðir vegna tollkvóta áranna 2017 til 2018 nemi á annan milljarð króna.

Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um hvort viðhlítandi heimild hafi verið fyrir hendi til skattheimtu. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því tekin til greina.