Hæstiréttur íslands

Mál nr. 395/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Opinber skipti
  • Óvígð sambúð


                                     

Fimmtudaginn 18. júní 2015.

Nr. 395/2015.

M

(Jón G. Briem hrl.)

gegn

K

(Ívar Pálsson hrl.)

Kærumál. Opinber skipti. Óvígð sambúð.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu M um opinber skipti til fjárslita milli hans og K. Höfðu þau gert með sér samkomulag um fjárskipti vegna sambúðarslita árið 2008 og kom fasteignin C meðal annars í hlut K. Var sú fasteign síðar seld og fékk K upp í greiðslu fyrir hana íbúðina D. Á grundvelli umboðs frá K afsalaði M íbúðinni í janúar 2011 til systur sinnar A sem síðar sama ár afsalaði henni til B, sambýliskonu M, án þess að endurgjald kæmi fyrir. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 554/2014 var komist að þeirri niðurstöðu að A og B skyldu greiða K skaðabætur vegna þessara ráðstafana á íbúðinni. Í kröfugerð M tilgreindi hann skaðabótakröfuna einu óskiptu eign aðila. Taldi Hæstiréttur að með framangreindum dómi hefði því verið slegið föstu að samkomulag aðila, sem í upphafi hefði verið málamyndagerningur, hefði við sambúðarslit þeirra árið 2010 orðið bindandi þrátt fyrir upphaflegan tilgang þess. Hefði með dóminum einnig verið komist að þeirri niðurstöðu að K hefði verið raunverulegur eigandi íbúðarinnar D áður en að henni hefði verið afsalað með framangreindum hætti. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. maí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. maí 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um opinber skipti til fjárslita milli hans og varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hún þess að sér „verði dæmdur málskostnaður fyrir héraðsdómi“ og kærumálskostnaður.

Skýra verður kröfu varnaraðila um málskostnað sér til handa í héraði á þann veg að hún krefjist þess að henni verði dæmdur hærri málskostnaðar en þar var ákveðinn. Þar sem varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti kemur þessi krafa hennar ekki til álita hér fyrir dómi.

Hinn 20. september 2008 gerðu málsaðilar með sér samkomulag um fjárskipti vegna sambúðarslita. Þar var meðal annars tekið fram að í hlut varnaraðila skyldi koma fasteignin C, [...]. Eins og greinir í dómi Hæstaréttar 12. mars 2015 í máli nr. 554/2014 var þetta einbýlishús selt 26. febrúar 2010 og fékk varnaraðili upp í greiðslu fyrir það íbúð D, [...]. Hinn 10. janúar 2011 fékk A afsal fyrir síðastgreindri íbúð og var afsalið undirritað af sóknaraðila á grundvelli umboðs frá varnaraðila. A sem er systir sóknaraðila afsalaði síðan íbúðinni 27. september sama ár til B sem mun vera núverandi sambýliskona hans. Samkvæmt dómi Hæstaréttar kom engin greiðsla fyrir íbúðina, hvorki af hálfu A né B. Með dóminum var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að þær skyldu greiða varnaraðila 21.257.591 krónu í skaðabætur með nánar greindum vöxtum.

Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir kröfu sóknaraðila 27. mars 2015 um opinber skipti til fjárslita milli hans og varnaraðila. Þar eru taldar upp sem „helstu eignir til skipta“ tilteknar fasteignir og bifreiðar. Allar þessar eignir hafi verið seldar eftir sambúðarslit málsaðila og aðeins standi eftir skaðabótakrafa samkvæmt áðurnefndum dómi Hæstaréttar í málinu nr. 554/2010. Í þeim dómi var því slegið föstu að fyrrgreint samkomulag aðila 20. september 2008, sem hafi í upphafi verið málamyndagerningur, hafi við sambúðarslit þeirra í september 2010 orðið bindandi þrátt fyrir upphaflegan tilgang þess. Einnig var komist að þeirri niðurstöðu í dóminum að varnaraðili hafi verið raunverulegur eigandi íbúðarinnar D áður en henni var afsalað til systur sóknaraðila fyrir atbeina hans og síðar til sambýliskonu hans. Þótt sóknaraðili hafi ekki verið aðili að þessu dómsmáli hefur dómur Hæstaréttar fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir þar til það gagnstæða er sannað, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þau gögn, sem stafa frá lögmanni varnaraðila frá því í september 2011 og síðar og sóknaraðili vísar til í málatilbúnaði sínum, benda ekki til annars en að varnaraðili hafi litið á umrætt samkomulag aðila um fjárskipti sín á milli sem skuldbindandi þar til því yrði breytt, annaðhvort með samningi þeirra á milli eða eftir atvikum úrlausn dómstóla.

Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. maí 2015.

Með kröfu, sem barst dóminum 27. mars 2015, krafðist sóknaraðili þess að opinber skipti færu fram til fjárslita milli hans og varnaraðila, fyrrum sambýliskonu hans.

Sóknaraðili er M, kt. [...], [...], [...].

Varnaraðili er K, kt. [...], [...], [...].

Við þingfestingu málsins þann 12. maí sl. komu fram mótmæli að hálfu varnaraðila við framkominni kröfu og var þá þingfest þetta ágreiningsmál og málinu úthlutað undirrituðum dómara. Munnlegur málflutningur fór fram þann 19. maí sl. og málið þá tekið til úrskurðar.

Báðir málsaðilar krefjast málskostnaðar.

I

Í framkominni kröfu sóknaraðila segir að krafan sé sett fram með stoð í 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Málsaðilar hafi verið í sambúð frá árinu 2000 til ársloka 2010 og eigi saman tvær dætur. Við sambúðarslit hafi verið nánar tilgreindar eigur í búi þeirra en þær hafi allar verið seldar eftir sambúðarslitin og andvirði þeirra gengið upp í áhvílandi veðskuldir og ekkert staðið eftir, nema skaðabótakrafa samkvæmt dómi Hæstaréttar nr. 554/2014 frá 12. mars 2015, vegna fasteignarinnar [...] í [...]. Fram kom að sóknaraðili hafi verið úrskurðaður gjaldþrota [...]. maí 2012 og skiptum á búi hans lokið [...]. janúar 2014 sem eignalausu búi. Málsaðilar hafi þann 20. september 2008 gert með sér samkomulag um fjárskipti og forræði barna vegna sambúðarslita en hafi þá ekki verið að slíta samvistum, heldur hafi verið um að ræða málamyndagerning sem aðeins hafi átt að hafa gildi út á við og sé það staðfest í Hæstaréttardómi nr. 554/2014. Sóknaraðili hafi ekki verið aðili að Hæstaréttarmálinu þó málið hafi upphaflega verið höfðað gegn honum þar sem fallið hafi verið frá kröfum á hendur honum vegna gjaldþrots hans og því ljóst sé að ekki sé verið að taka afstöðu til fjárskipta milli málsaðila í nefndum dómi Hæstaréttar. Þá sé ljóst af ýmsum bréfaskriftum og fundum á tímabilinu frá hausti 2011 og til ársins 2012 að verið sé að reyna að ná samkomulagi um fjárskipti á milli aðila og því hafi þeim ekki verið lokið þá. Sóknaraðili hafi talið nauðsynlegt að bíða með kröfu um opinber skipti þar til niðurstaða væri fengin í framangreindu Hæstaréttarmáli.

Lögmaður varnaraðila lagði fram bókun í málinu. Í henni kemur fram að skiptum á búi málsaðila sé lokið og ekkert bú sé til lengur. Hafi fjárskiptum lokið með samkomulagi aðila dags. 20. september 2008. Þessu samkomulagi hafi ekki verið hnekkt eða mótmælt svo sem við sambúðarslit aðila í september 2010. Hafi Hæstiréttur staðfest í dómi nr. 554/2014 að ekki síðar en í september 2010 hafi samkomulagið bundið aðila. Rangt sé hjá sóknaraðila að hann hafi ekki átt aðild að því máli þar sem honum hafi upphaflega verið stefnt en fallið frá kröfu vegna gjaldþrots hans. Viðræður varnaraðila um opinber skipti á búi þeirra á árinu 2011 hafi komið til vegna þess að þá hafi varnaraðili komist að því að sóknaraðili hafi án samþykkis varnaraðila ráðstafað eign hennar, fyrst til systur sóknaraðila en síðan til núverandi sambýliskonu hans, án þess að nokkur greiðsla kæmi fyrir. Í annan stað gæti sóknaraðili nú ekki sjö árum síðar eða tæpum 5 árum eftir sambandsslit krafist opinberra skipta og væri krafa hans fyrnd samkvæmt ákvæðum 3. gr. sbr. 24. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Þá væri til þess að líta að sóknaraðili hafi verið gerður gjaldþrota og væri því ekki réttur aðili til að hafa uppi kröfu þessa kröfu.

II

Í máli sóknaraðila við munnlegan málflutning kom fram að uppfyllt væru ákvæði 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Ekki væri hægt á þessu stigi máls að taka afstöðu til þess hvaða eignir komi til skipta eða hvernig þær komi til með að skiptast á milli aðila og þá væru engin ákvæði í nefndri 100. gr. um tímamörk eða að krafa um fjárskipti fyrndist og var í því sambandi vísað til Hæstaréttardóms nr. 621/2006. Samkomulag það sem gert hafi verið milli málsaðila þann 20. september 2008 gæti ekki haft gildi í málinu, enda komið fram í Hæstaréttardómi nr. 554/2014 að umrætt samkomulag hafi verið málamyndagerningur. Hafi það verið afstaða beggja málsaðila að um málamyndagerning hafi verið að ræða og eftirfarandi athafnir varnaraðila staðfesti það. Þannig hafi engar efndir samkomulagsins átt sér stað og framlögð bréf og tölvupóstar í málinu eftir sambúðarslitin, væru á skjön við þá túlkun að samkomulagið frá 2008 hafi átt að hafa eitthvað gildi. Einnig væri til þess að líta að ekki væri um sömu eignir að ræða og fram komi samkomulaginu frá 2008 og hafi síðar verið til staðar við sambúðarslit. Tómlæti ætti ekki við í málinu þar sem gögn málsins sýndu að viðræður aðila hafi átt sér stað allt til ársins 2013 en þá hafi tekið við málarekstur sem hafi endað með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 554/2014. Sóknaraðili væri réttur aðili að þessu máli, enda hafi skipti á búi hans lokið í janúar 2014.

Í máli varnaraðila kom fram að málsatvik væru reifuð í Hæstaréttardómi nr. 554/2014 og héraðsdómsmálinu E-3398/2012. Samkomulag hafi verið gert um fjárskipti aðila og forræði barna þann 20. september 2008. Aðilar hafi búið saman til ársins 2010 en eftir það hafi sóknaraðili búið áfram í íbúð í eigu varnaraðila, að [...] í [...] en sú íbúð hafði komið í stað þeirrar íbúðar sem var gerð að eign hennar samkvæmt framangreindu samkomulagi. Ekki hafi verið gerður nýr skiptasamningur við sambúðarslit þeirra árið 2010. Sóknaraðili hafi hins vegar krafist opinberra skipta eftir að ljóst var að honum tókst ekki að gefa systur sinni og síðan núverandi sambýliskonu sinni, eign varnaraðila. Sóknaraðili hafi með ólögmætum hætti gefið íbúð varnaraðila og ætli nú að freista þess að fá opinber skipti um þá fjárkröfu sem varnaraðila hafi verið dæmd í Hæstarétti vegna ólögmæts athæfis hans sjálfs. Fjárskiptum hafi lokið með samkomulagi því sem gert var á árinu 2008 og þeim fjárskiptum hafi ekki verið hnekkt og því væri engin eign og ekkert bú til staðar. Þetta hafi Hæstiréttur staðfest með dómi sínum nr. 554/2014 á þá leið að ekki seinna en við sambúðarslit aðila í september 2010 hafi samkomulagið skuldbundið aðila. Hvað sem öðru líði geti sóknaraðili ekki sett fram slíka kröfu 7 árum eftir gerð samningsins og tæpum 5 árum eftir samvistarslit. Þetta eigi ekki síst við þar sem um var að ræða séreign varnaraðila og samkvæmt orðalagi 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., skal krafan koma fram þegar við slit á óvígðri sambúð eins og orðalag þeirrar greinar sé nú eftir breytingu á lögunum árið 2010. Þá sé einnig ljóst að hafi sóknaraðili átt einhverja kröfu á hendur varnaraðili hafi sú krafa átt að ganga til þrotabús sóknaraðila en telja verði að í öllu falli sé krafan fallin niður fyrir fyrningu skv. 3. gr. sbr. 24. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, enda liðin meira en fjögur ár frá sambúðarslitum og fram að því að krafan um opinber skipti kom fram.

III

Krafan um opinber skipti til slita á fjárfélagi milli aðila málsins er sett fram með vísan til 100. gr. laga nr. 20/1991 um slit á dánarbúum o.fl.  Ákvæðið er í XIV. kafla laganna sem fjallar meðal annars um opinber skipti til fjárslita milli aðila í óvígðri sambúð. Í 100. gr. segir að við slit á óvígðri sambúð geti annar sambúðarmaka eða báðir krafist opinberra skipta til fjárslita milli þeirra. Ágreiningslaust er að aðilar þessa máls voru í óvígðri sambúð. Í 104. gr. laganna er að finna skilgreiningu á því hvaða eignir geti fallið undir fjárslitin. Þar kemur fram, að ef ekki verða sammæli um annað komi aðeins til skipta þær eignir og þau réttindi aðilanna sem tilheyrðu þeim þegar óvígðri sambúð var slitið. Í framkominni beiðni kom fram að allar eigur þeirra hafi verið seldar eftir sambúðarslitin, aðeins standi eftir skaðabótakrafa sú sem varnaraðili eigi á hendur systur sóknaraðila og núverandi sambúðarkonu hans. Óumdeilt er í málinu að sambúðarslitin voru í september 2010. Af gögnum málsins má sjá að varnaraðili hafði undir höndum umboð dags. 11. nóvember 2010 til þess að selja eign varnaraðila að [...] í [...]. Sóknaraðili afsalar fasteign varnaraðila til systur sinnar í janúar 2011 og systir sóknaraðila afsalar síðan eigninni til núverandi sambýliskonu sóknaraðila 27. september 2011 í báðum tilfellum án greiðslu til varnaraðila. Varnaraðili stefnir sóknaraðila, systur hans og núverandi sambýliskonu hans til greiðslu skaðabóta með stefnu sem lögð var fram í héraðsdómi þann 16. október 2012. Af framangreindu má ráða að kröfuréttindi þau sem fólgin eru í skaðabótakröfu varnaraðila á hendur systur sóknaraðila og núverandi sambýliskonu og staðfest eru í dómi Hæstaréttar í máli nr. 554/2014 voru ekki til við sambúðarslit þeirra í september 2010. Sóknaraðili óskar nú fjárslita milli hans og varnaraðila vegna tjóns sem hann olli varnaraðila með athæfi sínu eftir sambúðarslitin. Skaðabótakrafa sú sem sóknaraðili tilgreinir sem einu óskiptu eign aðila, tilheyrði ekki varnaraðila þegar sambúðarslit hennar og sóknaraðila fóru fram í september 2010 og getur því ekki samkvæmt 104. gr. laga nr. 20/1991 verið andlag fjárskipta milli aðila.

Það er mat dómsins að jafnvel þó svo að fallist yrði á að skaðabótakrafan hafi komið í stað fasteignarinnar [...] í [...], þá verður dómur Hæstaréttar í málinu nr. 554/2014 ekki skilinn á annan hátt en að við sambúðarslit aðila í september 2010 hafi samkomulag aðila frá 20. september 2008 orðið bindandi þrátt fyrir upphaflegan tilgang þess. Hafi varnaraðili þá orðið raunverulegur eigandi fasteignarinnar [...] í [...] og fjárslitum milli aðila lokið í september 2010, meðal annars með því að fasteignin [...] í [...] féll í hlut varnaraðila. Ekki hefur verið upplýst um neinar aðrar eignir sem óskiptar eru úr óvígðri sambúð aðila. Er kröfu sóknaraðila um opinber skipti til fjárslita milli hans og varnaraðila þegar hafnað af framangreindum ástæðum.

Eftir úrslitum málsins og atvikum öllum virtum þykir rétt að sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.

Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, M, um opinber skipti til fjárslita milli hans og varnaraðila, K.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 200.000 krónur í málskostnað.