Hæstiréttur íslands
Mál nr. 441/2003
Lykilorð
- Kynferðisbrot
|
|
Fimmtudaginn 29. apríl 2004. |
|
Nr. 441/2003. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn X (Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl.) |
Kynferðisbrot.
X var dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar fyrir að hafa haft samræði við tvær stúlkur þegar ástand þeirra var þannig að þær gátu ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. nóvember 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd. Jafnframt er krafist greiðslu 700.000 króna í miskabætur til hvors tjónþola um sig, auk vaxta og dráttarvaxta eins og í ákæru greinir.
Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim til löglegrar meðferðar, en til vara að hann verði sýknaður og bótakröfu vísað frá dómi. Til þrautavara krefst ákærði þess að refsing hans verði milduð og miskabætur lækkaðar.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur. Við ákvörðun refsingar er vísað til 1. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 16. gr. laga nr. 82/1998.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins fyrir Hæstarétti svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2003.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni 19. maí 2003 á hendur: ,,[X], [kt. og heimilisfang], fyrir kynferðisbrot með því að hafa að morgni laugardagsins 4. janúar 2003, á heimili sínu, haft samræði við tvær stúlkur, [Y] og [Z], gegn vilja þeirra, en ákærði notfærði sér það að stúlkurnar gátu ekki spornað við kynferðisbrotunum sökum ölvunar og svefndrunga. Brot gegn [Y] framdi ákærði í stofusófa en gegn [Z] í rúmi í svefnherbergi sínu.
Teljast brot ákærða varða við 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/1992.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
[Y] krefst miskabóta að fjárhæð kr. 700.000 auk vaxta og dráttarvaxta skv. lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og þóknunar vegna réttargæslu.
[Z] krefst miskabóta að fjárhæð kr. 700.000 auk vaxta og dráttarvaxta skv. lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og þóknunar vegna réttargæslu.”
Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu af refsikröfu ákæruvaldsins og að báðum miskabótakröfum verði vísað frá dómi. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og aðallega að skaðabótakröfum verði vísað frá dómi, en til vara að þær sæti verulegri lækkun. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.
Samkvæmt kæruskýrslu Y og Z, sem dags. eru 4 janúar sl., eru málavextir þessir í stuttu máli. Báðar greindu svo frá að þær hafi farið út að skemmta sér að kvöldi 3. janúar. Þær hafi farið á ýmsa staði í miðborginni og hitt ákærða og annan mann um kl. 03.00 um nóttina. Leiðir þeirra hafi skilið eftir það. Þær hafi hitt sömu menn aftur milli kl. 05.00 og 06.00 um morguninn. Þær hafi síðan haldið á heimili ákærða eftir að hafa komið við á matsölustað, en á leiðinni í leigubifreið heim til ákærða hafi A, kunningi ákærða, farið úr bílnum. Erindið heim til ákærða hafi verið það að fara í ,,eftirpartí“. Báðar lýstu stúlkurnar dvöl sinni á heimili ákærða og því að ákærði hafi þar misnotað þær kynferðislega á þann hátt, sem lýst er í ákærunni.
Í gögnum málsins er lýst komu stúlknanna á neyðarmóttöku að morgni 4. janúar og skoðun þeirra þar.
Ákærði greindi svo frá að hann hafi haft mök við stúlkurnar með þeirra samþykki.
Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi.
Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa haft samræði við Y og Z, en með vilja beggja. Hann kvaðst hafa farið að skemmta sér í miðbænum að kvöldi 3. janúar sl. ásamt A kunningja sínum. Þeir hafi hitt stúlkurnar á Laugaveginum um nóttina, en leiðir þeirra hafi skilið uns þeir hittu þær aftur síðar sömu nótt. Um kl. 04.00 hafi þau farið á matsölustað þar sem þau fengu sér að borða utan Z, sem ekki hafi borðað neitt. Eftir það hafi ákærði samþykkt að haldið yrði á heimili hans í partí, en það hafi verið að ósk stúlknanna. Á leiðinni heim til ákærða fór A, sem var með þeim, úr bifreiðinni en hann hafi ætlað heim til sín. Ákærði kvaðst hafa boðið stúlkunum að drekka eftir heimkomuna og kvaðst hann hafa fært þeim hvítvín. Þau hafi eftir það setið í sófa í stofunni og rætt saman og lýsti hann samræðum þeirra Z. Þá lýsti hann því er hann færði þeim eplasnafs og þau hafi skálað í honum, en Y hafi aðallega drukkið bjór sem hún hafði meðferðis. Hann kvað Z hafa spurt sig að því hvort hann hefði prófað að vera með tveimur stelpum í einu, en hann sagt að það hafi hann ekki reynt. Y hafi þá spurt hvort hann myndi gera það byðist honum tækifæri til þess. Hann hafi svarað því svo að það myndu allir strákar gera. Eftir þetta hafi hann byrjað að kyssa Z og Y hafi tekið að snerta hann. Hann lýsti því er stúlkurnar færðu sig úr fötum og kvað hann stúlkurnar þar báðar hafa tekið fullan þátt í því sem fram fór. Hann kvað þetta hafa endað þannig að hann hafði samfarir við báðar stúlkurnar í sófanum í stofunni og kvaðst hann hafa fellt sæði til Y. Y hafi verið vakandi og tekið fullan þátt í því sem fram fór. Eftir þetta hafi Y sofnað og hann breitt yfir hana teppi. Þau Z hafi ræðst við um stund uns þau fóru inn í svefnherbergið, þar sem þau höfðu samfarir og kvaðst ákærði hafa fellt sæði til hennar. Eftir það hafi þau bæði sofnað. Z hafi verið vakandi á meðan á þessu stóð og verið samþykk því sem fram fór. Hann kvaðst hafa vaknað um morguninn er dyrabjöllu var hringt. Y hafi verið þar í fylgd manns, sem hafi öskrað á sig. Eftir það hafi báðar stúlkurnar farið í fylgd þessa manns.
Ákærði kvaðst ekki hafa verið mikið ölvaður og taldi Y hafa verið álíka ölvaða. Hið sama hafi átt við um ástand Z. Hann hafi ekki séð mun á ölvunarástandi þeirra. Hann kvað ölvunarástand stúlknanna ekki hafa verið eins og lýst er í ákærunni þannig að þær hafi ekki getað spornað við því sem fram fór.
Vitnið, Y, kvað þær Z hafa hitt ákærða og kunningja hans tvisvar sinnum í miðbænum þessa nótt. Hún lýsti ferðinni á matsölustað og ferðinni heim til ákærða í leigubíl og því er A fór úr leigubílnum á leiðinni efnislega á sama veg og ákærði. Hún kvað þær Z hafa haldið áfram áfengisdrykkju á heimili ákærða uns Y kvaðst hafa sofnað í sófa í stofunni. Hún kvaðst hafa rankað við sér er breitt var yfir hana teppi. Eftir það hafi hún sofnað, en vaknað upp er ákærði lá ofan á henni hafandi við hana samfarir. Hún hafi þá aðeins verið klædd í sokka, bol og jakka, en verið ber að neðan. Hún hafi ekki afklæðst sjálf. Hún kvað sér hafa brugðið við þetta og orðið hrædd og ekkert hafa hreyft sig. Ákærði hafi eftir þetta lagst við hlið hennar í sófanum og sofnað. Enginn aðdragandi hafi verið að þessu. Ekkert kynferðislegt hafi borið á góma í samræðum þeirra um nóttina. Hún lýsti einkum samræðum Z og ákærða um nóttina, en sjálf hafi hún nánast ekkert rætt við ákærða. Þá kvaðst hún ekki hafa orðið vör við að neitt kynferðislegt samband væri á milli ákærða og Z. Eftir að ákærði sofnaði kvaðst hún hafa farið að huga að Z sem svaf inni í svefnherbergi. Þar hafi hún legið í hnipri klædd bol og sokkum. Ekki hafi tekist að vekja hana og hún virst mjög drukkin, en hún hafi drukkið eplasnafs hjá ákærða. Ákærði hafi þá komið inn í herbergið og kvaðst Y þá hafa lagst við hlið Z og þóst sofa. Er hún heyrði að ákærði var sofnaður kvaðst hún hafa sótt föt sín inn í stofu, klætt sig og komið sér út. Hún hafi fengið að hringja í B bróður sinn úr söluturni skammt frá og kom B skömmu síðar. Hún kvaðst að einhverju leyti hafa greint honum frá því sem gerst hafði, en ekki í smáatriðum. Eftir þetta hafi þau B farið á heimili ákærða. Enginn hafi svarað dyrabjöllunni. Hún kvaðst þá hafa hringt í GSM-síma Z og ákærði hafi svarað og hleypt þeim inn. Hún kvaðst þá hafa farið inn í herbergið og vakið Z, klætt hana og aðstoðað út úr húsinu. Eftir þetta héldu þær að heimili Y, þar sem þær hafi ætlað að leggja sig. Þær hafi ekki verið búnar að átta sig á því sem gerst hafði. Eftir að hafa rætt saman hafi þær farið saman á neyðarmóttöku.
Y kveðst telja að þær Z hafi drukkið nánast sama áfengismagn um kvöldið og um nóttina. Þær hafi byrjað á því að fá sér bjór. Þá hafi þær farið út að borða, þar sem þær drukku bjór. Eftir það hafi þær farið heim til Y þar sem þær hafi drukkið nokkur glös af blöndu með sterku áfengi. Eftir það hafi þær farið út og haldið áfram að drekka og lýsti hún nokkrum ,,skotum“ og fleiru. Hún kvaðst hafa haft með sér bjór á heimili ákærða, en ekki hafa drukkið annað þar, en mundi eftir eplasnafsinum, sem hún hafi ekki drukkið. Hún kvað þær Z hafa byrjað að drekka um níuleytið kvöldið áður. Þær hafi komið heim til ákærða á milli kl. 06.00 og 06.30 morguninn eftir. Þá hafi hún verið bæði þreytt og drukkin. Þótt hún hafi ekki verið undir verulegum áfengisáhrifum hafi hún verið búin að vaka í tæpan sólarhring.
Y lýsti áhrifum þessa atburðar á sig, en þetta hafi komið niður á námi hennar. Hún hafi aukið áfengisdrykkju og haft martraðir. Hún hafi leitað sér aðstoðar, en hún kvaðst áður hafa orðið fyrir kynferðisbroti er hún var 15 eða 16 ára gömul.
Vitnið, Z, lýsti ferðum þeirra Y efnislega á sama veg og Y gerði uns þær komu á heimili ákærða, þar sem ákveðið hafi verið að fara í eftirpartí og taldi hún þá hugmynd frá þeim Y komna. Hún lýsti því er A fór úr leigubílnum á leiðinni heim til ákærða. Er þangað kom um kl. 06.00, að því er hún taldi, hafi þær Y rætt við ákærða, sem bauð þeim í glas. Z kvaðst hafa verið sú eina sem drakk, en hún hafi drukkið tvö staup og hafi það verið of mikið fyrir hana og leitt til þess að hún sofnaði. Hún lýsti því að Y hafi sofnað í sófa í stofunni og ákærði hafi sótt ábreiðu og breitt yfir hana. Þau ákærði hafi rætt eitthvað saman eftir þetta og lýsti hún því um hvað þær samræður þeirra snerust, en það varðaði það að ákærði væri vinafár hér á landi og að hann væri vel liðinn á vinnustað sínum. Að öðru leyti mundi hún ekki eftir samræðum þeirra. Hún kvaðst hafa verið orðin mjög ölvuð er ákærði reyndi að kyssa hana. Hún hafi sagt nei við þessu og reynt að víkja sér undan en hún hafi síðan lognast út af sökum ölvunar. Þá hafi hún setið í sófanum í stofunni. Hún hafi fyrst rankað við sér inni í svefnherbergi og kvaðst hún muna eftir andliti ákærða og að hann hafi verið að reyna að kyssa hana. Næst mundi hún eftir sér er Y og bróðir hennar komu. Hún hafi heyrt öskur í B, en Y hafi hjálpað sér í fötin og stutt sig út úr húsinu. Hún kvaðst telja sig hafa verið í nærbol er hún vaknaði, en bera að neðan. Hún mundi eftir sér inni í herberginu klæddri jakka sem renndur hafi verið upp í háls. Hún mundi ekki eftir því að ákærði hafi haft við hana samfarir, en hún kvaðst muna eftir ákærða ofan á sér inni í svefnherberginu. Hún kvað kynlíf ekki hafa borið á góma og hafi það ekki komið til greina af hennar hálfu.
Eftir að komið var heim til Y hafi Y spurt sig að því hvað hefði gerst. Hún kvaðst enn hafa verið hálf rugluð er hér var komið sögu. Þær hafi ætlað að fara að sofa, en eftir að þær áttuðu sig á því sem gerst hefði hafi þær ákveðið að fara á neyðarmóttöku, því hvorug þeirra hafi viljað það sem gerðist að hennar sögn. Hún kvaðst hafa verið búin að vaka tæpan sólarhring er þessi atburður átti sér stað.
Z lýsti afleiðingum þessa atburðar fyrir sig. Hún hafi átt í erfiðleikum með að byrja skóla og lýsti hún ýmiss konar tilfinningalegum erfiðleikum af þessum sökum.
Vitnið, Arnar Hauksson, sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp, staðfesti og skýrði skýrslur sem hann ritaði eftir læknisskoðun á Y og Z hinn 4. janúar sl.
Vitnið, Heiðdís Sigurðardóttir sálfræðingur, staðfesti og skýrði vottorð sem hún ritaði vegna Y, sem komið hafi í sextán viðtöl hjá henni. Hún lýsti einkennum í fari Y sem samræmast því að hún hafi lent í alvarlegu áfalli og skýrði Heiðdís þetta nánar.
Vitnið, Guðbjörg Ragna Ragnarsdóttir sálfræðingur, staðfesti og skýrði vottorð sem hún ritaði um viðtöl sín við Z. Hún lýsti streitueinkennum í fari hennar, sem hún taldi tengjast atburði þeim sem í ákæru greinir.
Vitnið, Ingólfur Bruun rannsóknarlögreglumaður, lýsti því er hann ræddi við Y á neyðarmóttökunni. Hann greindi frá frásögn Y og að önnur stúlkan hafi vaknað er ákærði var að hafa við hana samfarir. Hann staðfesti skýrslu sem hann ritaði um þetta, en vitnisburður hans verður ekki rakinn frekar.
Vitnið, B, kvaðst hafa vaknað að morgni 4. janúar sl. er Y systir hans hringdi í hann og bað um að verða sótt þangað sem hún var stödd í söluturni við [...]. Y hafi grátið í símann svo hann hafi gert sér grein fyrir því að ,,þetta væri slæmt“. Hann kvaðst hafa farið í söluturninn. Þar hafi Y greint sér frá því að hún héldi sig hafa orðið fyrir kynferðisbroti, en hún hafi vaknað nakin við hlið ákærða og forðað sér út. Áfengisþef hafi lagt frá Y, en hann hafi ekki merkt að hún hafi verið mikið ölvuð. Þau Y hafi farið saman á heimili ákærða, þar sem Z var enn. Ákærði hafi hleypt þeim inn og kvaðst hann hafa haldið ákærða frá á meðan Y aðstoðaði Z, en hann kvaðst hafa séð að hún var hálfnakin í rúminu. Hún hafi aðeins verið klædd bol og sokkum. Y hafi þurft að toga Z upp úr rúminu og aðstoða hana við að klæðast. Þau Y hafi stutt Z út í bíl.
Vitnið, C kaupmaður, kvaðst hafa verið nýbúinn að opna söluturn sinn við [...] að morgni 4. janúar sl. er Y kom þar útgrátin og í miklu uppnámi og bað um að fá að hringja. Hann kvað henni sýnilega hafa liðið mjög illa. Hann kvaðst hafa boðið henni að hringja, sem hún gerði. Bróðir hennar hafi komið skömmu síðar og sótt hana. Hann kvað Y ekki hafa greint sér frá því hvað hefði gerst, en hann kvaðst hafa séð að ,,eitthvað mikið hefði skeð“.
Vitnið, D, sambýliskona ákærða, lýsti því er hann kom á þáverandi heimili hennar um hádegisbilið 4. janúar sl. í því skyni að gæta sonar þeirra. Hún lýsti ferðum sínum og samskiptum við ákærða og kvað ekkert óeðlilegt hafa séð í fari hans. Hún kvað ákærða síðan hafa komið að máli við hana á þriðjudagskvöldið eftir, þar sem hann greindi henni frá kærunni á hendur sér, sem hann hafi talið ranga. Hann hafi þá verið niðurbrotinn og mjög miður sín.
Vitnið, A, kvaðst hafa verið samferða ákærða, Y og Z í leigubílnum um kvöldið uns hann fór úr bílnum. Hann lýsti því er þeir ákærði hittu stúlkurnar tvívegis um nóttina og fóru með þeim á matsölustað áður en haldið var heim á leið í leigubifreið. Hann kvað ekkert kynferðislegt hafa verið í gangi í leigubílnum á meðan hann var þar. Hann vissi ekkert um atburði á heimili ákærða um nóttina.
Niðurstaða
Sannað er með játningu ákærða, sem fær stoð í öðrum gögnum málsins, að hann hafði samræði við báðar stúlkurnar á þeim tíma sem í ákæru greinir. Hann neitar sök og kvað stúlkurnar hafa tekið þátt í því sem fram fór af fúsum og frjálsum vilja.
Y og Z fóru báðar í skoðun á neyðarmóttöku 4. janúar sl. Í skýrslu Arnars Haukssonar læknis um skoðun á Y segir meðal annars að hún hafi verið í losti og óraunveruleikakennd og fengið grátköst. Í skýrslu sama læknis um skoðun á Z kemur meðal annars fram að hún hafi verið í losti og óraunveruleikakennd. Þá hafi hjartsláttur gefið til kynna kreppuviðbrögð.
Tekið var blóð- og þvagsýni úr báðum stúlkunum við skoðun á neyðarmóttöku.
Í matsgerð rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði af blóð- og þvagsýni sem tekið var úr Y segir svo: ,,Etanól í blóði var 0,31 og 0,93 í þvagi. Styrkur etanóls í blóði er mjög lágur og bendir ekki til þess að hlutaðeigandi einstaklingur hafi verið undir áhrifum áfengis þegar blóðsýnið var tekið. Styrkur etanóls í þvagi gefur vísbendingu um að hann hafi verið undir vægum áhrifum áfengis nokkru áður, en ekki er hægt að tímasetja það með neinni nákvæmni.“
Í matsgerð rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði af blóð- og þvagsýni, sem tekið var úr Z segir svo: ,,Etanól í blóði var 1,00 og 1,45 í þvagi. Styrkur etanóls í blóði bendir til þess að hlutaðeigandi hafi verið undir áhrifum áfengis þegar sýnið var tekið. Styrkur etanóls í þvagi bendir til þess að hann hafi verið undir verulegum áhrifum áfengis (meira en 1,2 í blóði) nokkru áður. Ekki er hægt að tímasetja það nákvæmlega, en líklegt er að það hafi verið 1 2 klst. fyrr.“
Báðar hafa stúlkurnar leitað sér sálfræðiaðstoðar eftir atburðinn sem í ákæru greinir. Fyrir liggur vottorð tveggja sálfræðinga, sem þeir skýrðu og staðfestu fyrir dómi. Hjá báðum kom fram að einkenni hafi greinst í fari stúlknanna, sem tengdust atburði þeim sem í ákæru greinir.
Ákærði lýsti því hvernig stúkurnar hafi fært sig úr fötunum eftir að ákærði fór að kyssa þær. Þá kvað hann hafa komið til tals samfarir þriggja aðila. Stúlkurnar báru báðar að Y hafi sofnað í sófa í stofunni og að sótt hafi verið teppi og breytt yfir hana. Y kvaðst muna eftir þessu. Þessi vitnisburður stúlknanna er ekki í samræmi við framburð ákærða um aðdraganda samfaranna. Þá bera stúlkurnar staðfastlega að ekkert kynferðislegt hafi borið á góma í samræðum þeirra við ákærða þessa nótt. Er það mat dómsins að framburður ákærða um það hvað honum og stúlkunum fór á milli sé ótrúverðugur og fær hann enga stoð í vitnisburði stúlknanna eins og rakið hefur verið. Framburður ákærða um að samfarirnar hafi átt sér stað með samþykki stúlknanna er á sama hátt ótrúverðugur og ekkert í málinu sem styður hann.
Vitnið, C, kvað Y hafa verið útgrátna og í miklu uppnámi er hún fékk að hringja. Eftir það hélt Y á heimili ákærða í fylgd bróður síns. Ráða má af vitnisburði Y að hún hafi komið aftur á heimili ákærða skömmu eftir að hún fór þaðan til að hringja. Er hún kom aftur þurfti hún að vekja Z og aðstoða hana í fötin og styðja út úr húsinu. Vísað er til vitnisburðar Y og B um þetta. Þá liggur fyrir niðurstaða úr rannsókn af þvag- og blóðsýni sem gefur til kynna að Z hefur verið mjög ölvuð er þessir atburðir áttu sér stað. Þótt minna áfengismagn hafi mælst í Y er ljóst af rannsóknarniðurstöðum, sem raktar voru, að hún var ölvuð þótt það hafi ekki verið í sama mæli og Z. Þá er þess að geta að blóðsýni var ekki tekið af henni fyrr en laust fyrir kl. 14.00 framangreindan dag. Að auki er á það að líta að stúlkurnar höfðu vakað tæpan sólarhring er þær komu á heimili ákærða undir morgun 4. janúar sl.
Dómurinn telur sannað á þann hátt sem nú hefur verið rakið og með gögnum sem rakin hafa verið að stúlkurnar hafi báðar verið þannig á sig komnar á þeim tíma sem í ákæru greinir að þær hafi ekki sökum ölvunar og svefndrunga getað spornað við því er ákærði hafði við þær samræði.
Fram er komið í málinu að stúlkurnar þekktu báðar ákærða og báru fullt traust til hans. Hvorug stúlknanna hefur borið að neitt kynferðislegt hafi vakað fyrir þeim er þær fóru á heimili ákærða og ekkert slíkt hafi þar átt sér stað með þeirra samþykki. Vitnisburður þeirra beggja er stöðugur, trúverðugur og í góðu innbyrðis samræmi. Verður hann lagður til grundvallar um að það sem fram fór hafi ekki gerst með samþykki þeirra. Styðst þessi niðurstaða dómsins við það sem fram kom við læknisskoðun beggja stúlknanna og að hluta með sálfræðivottorðum beggja.
Af öllu ofanrituðu virtu er sannað gegn neitun ákærða að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis.
Ákærði hefur ekki áður gerst brotlegur við almenn hegningarlög. Hann braut gróflega gegn stúlkunum eftir að þær lögðust til svefns á heimili hans. Þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 2 ár.
Y og Z eiga hvor um sig rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja bæturnar til hvorrar um sig hæfilega ákvarðaðar 500.000 krónur auk dráttarvaxta frá 23. mars 2003 að telja og til greiðsludags, en þá var mánuður liðinn frá birtingu krafnanna.
Ákærði greiði 120.000 krónur í réttargæsluþóknun til Helgu Leifsdóttur, skipaðs réttargæslumanns Y og Z.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 250.000 krónur í málsvarnarlaun til Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns.
Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson, sem dómsformaður, Helgi I. Jónsson dómstjóri og Valtýr Sigurðsson.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 ár.
Ákærði greiði Y og Z hvorri um sig 500.000 krónur í miskabætur auk dráttarvaxta frá 23. mars 2003 að telja og til greiðsludags.
Ákærði greiði 120.000 krónur í réttargæsluþóknun til Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Y og Z.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 250.000 krónur í málsvarnarlaun til Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns.