Hæstiréttur íslands
Mál nr. 277/1999
Lykilorð
- Opinberir starfsmenn
- Uppsögn
- Valdþurrð
- Andmælaréttur
- Meðalhóf
- Skaðabætur
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 3. febrúar 2000. |
|
Nr. 277/1999. |
Háskóli Íslands(Gestur Jónsson hrl.) gegn Aitor Eyþóri Yraola (Helgi Birgisson hrl.) og gagnsök og Aitor Eyþór Yraola gegn íslenska ríkinu (Jón G. Tómasson hrl.) |
Opinberir starfsmenn. Uppsögn. Valdþurrð. Andmælaréttur. Meðalhóf. Skaðabætur. Sératkvæði.
A var ráðinn sem stundakennari við Háskóla Íslands (HÍ) 1981, en frá 1984 var hann settur af menntamálaráðherra í stöðu lektors til eins árs í senn. Á árinu 1989 sótti A um flutning úr lektorsstöðu í dósentsstöðu, en dómnefnd sem skipuð var til að fjalla um hæfi hans komst að þeirri niðurstöðu að hann væri ekki hæfur til að gegna dósentsstöðu. Árið 1991 var A ráðinn í stöðu lektors við HÍ, ótímabundið með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti. Á árinu 1995 var A sagt upp lektorsstarfi sínu með vísan til uppsagnarákvæðis ráðningarsamnings og var staða hans auglýst laus til umsóknar. A var, auk eins annars umsækjanda, metinn hæfur til að gegna stöðunni, en hlaut minnihluta atkvæða á deildarfundi og var ekki ráðinn. Höfðaði hann mál gegn HÍ og íslenska ríkinu (Í) og krafðist viðurkenningar á að ráðningarsamningur hans við HÍ væri enn í gildi, auk þess sem hann krafðist vangreiddra launa og skaðabóta. Talið var að ótímabundinn ráðningarsamningur sem gerður var við A 1991 hefði ekki verið í samræmi við 11. gr. laga nr. 131/1990 um Háskóla Íslands, þar sem segir að ráðherra skipi lektora. Þrátt fyrir að rangri aðferð hefði verið beitt við ráðninguna var talið að aðeins ráðherra hefði getað veitt A lausn frá störfum í samræmi við 7. og 10. gr. þágildandi laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Því var talið að A hefði verið sagt upp á ólögmætan hátt. Einnig var talið að brotið hefði verið gegn 12. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 1. mgr. 11. gr. laga nr. 38/1954 við uppsögn A. Með vísan til laga nr. 38/1954 var ekki talið að A ætti rétt til að fá starf sitt aftur. Var Í sýknað af kröfum A, en HÍ dæmdur til að greiða honum skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason.
Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 12. júlí 1999. Hann krefst aðallega sýknu af öllum kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess, að fjárkrafa gagnáfrýjanda verði lækkuð, dráttarvextir ekki reiknaðir fyrr en frá 25. júlí 1998 og málskostnaður felldur niður.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu gagnvart aðaláfrýjanda með stefnu 9. september 1999 og gagnvart stefnda með stefnu 20. september 1999. Hann krefst þess, að viðurkennt verði, að ráðningarsamningur sinn við aðaláfrýjanda frá 5. apríl 1991 sé enn í gildi og krefst vangreiddra launa samkvæmt honum að fjárhæð 3.473.768 krónur með nánar tilteknum dráttarvöxtum frá 1. nóvember 1995 til greiðsludags. Hann krefst einnig skaðabóta úr hendi aðaláfrýjanda, að fjárhæð 26.039.000 krónur með dráttarvöxtum frá 1. nóvember 1995 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi aðaláfrýjanda og stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Fyrir Hæstarétti féll gagnáfrýjandi frá þeirri kröfu, að viðurkenndur yrði forgangsréttur sinn til lektorsstöðu í spænsku, sem auglýst var laus til umsóknar 19. mars 1995.
I.
Gagnáfrýjandi var ráðinn stundakennari í spænsku við heimspekideild Háskóla Íslands haustið 1981. Hann var skipaður lektor af spænskum stjórnvöldum 1. janúar 1983. Frá 1. janúar 1984 til 1. janúar 1991 var hann settur af menntamálaráðherra í stöðu lektors til eins árs í senn, og greiddi spænska ríkið sem svaraði til 37,5% árslauna en 62,5% lektorslauna var greitt af stundakennslufé háskólans. Beiðni gagnáfrýjanda í október 1989 um að verða skipaður lektor í 62,5% stöðugildi á móti stöðugildi því, sem greitt var af spænska ríkinu, var hafnað. Í desember 1989 sótti hann um að verða ráðinn í ótímabundna lektorsstöðu í samræmi við bókun 6 í kjarasamningi frá 27. apríl 1989 milli Félags háskólakennara og fjármálaráðherra. Var beiðninni hafnað á þeirri forsendu, að það væri stefna heimspekideildar að skipa engan í ótímabundna stöðu án hæfnisdóms, og var staða hans framlengd um eitt ár að venju. Hinn 8. febrúar 1991 samþykkti ráðninganefnd ríkisins beiðni menntamálaráðuneytisins um að ráða gagnáfrýjanda lektor í spænsku ótímabundið frá 1. janúar 1991 með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti. Undirritaði hann ráðningarsamning við aðaláfrýjanda 5. apríl 1991, sem samþykktur var af menntamálaráðuneyti 15. apríl og fjármálaráðuneyti 8. maí sama ár.
Í janúar 1989 hafði gagnáfrýjandi sótt um flutning úr lektorsstöðu í dósentsstöðu í samræmi við reglur háskólans þar um. Var skipuð dómnefnd til að fjalla um hæfi hans til að gegna dósentsstöðu. Skilaði hún áliti 29. júlí 1991 og komst að þeirri niðurstöðu að hann væri ekki hæfur til að gegna því starfi, en tók ekki afstöðu til hæfni hans til að gegna lektorsstarfi. Gagnáfrýjandi hafði í febrúar 1991 lagt fram ritgerð til doktorsprófs við heimspekideild, en ritgerðin var ekki lögð fyrir dómnefndina.
Gagnáfrýjanda var sagt upp lektorsstarfi sínu með bréfi 6. febrúar 1995 miðað við starfslok 1. ágúst 1995. Engar ástæður voru færðar fyrir uppsögninni, en vísað var til uppsagnarákvæðis ráðningarsamningsins. Í bréfi deildarforseta 8. mars 1995 voru ástæður uppsagnarinnar tilgreindar þær, að með henni væri heimspekideild að fylgja eftir þeirri stefnu sinni, að kennarar skyldu keppa um stöður eftir að þær hefðu verið auglýstar og að enginn gæti setið í stöðu nema hann hefði hlotið hæfnisdóm. Aðaláfrýjandi auglýsti síðan lausa til umsóknar stöðu lektors í spænsku við heimspekideild til þriggja ára í mars 1995. Gagnáfrýjandi var einn sex umsækjenda um stöðuna. Dómnefnd skilaði áliti sínu um hæfni umsækjenda 18. júní 1995, og var hann metinn hæfur ásamt einum öðrum. Sá umsækjandi hlaut meirihluta atkvæða á fundi heimspekideildar 26. júní 1995 og var hann ráðinn í stöðuna.
II.
Samkvæmt 1. og 2. mgr. 10. gr. þágildandi laga nr. 131/1990 um Háskóla Íslands, sem hér reynir á, eru kennarar háskólans prófessorar, dósentar, lektorar, þar á meðal erlendir lektorar, aðjúnktar og stundakennarar, og skulu prófessorar, dósentar og lektorar vera þeir, sem hafa kennslu og rannsóknir við háskólann að aðalstarfi. Í 1. mgr. 11. gr. laganna er kveðið á um það, að forseti Íslands skipi prófessora, en menntamálaráðherra dósenta og lektora. Háskólaráð ræður aðjúnkta og erlenda lektora að fengnum tillögum háskóladeildar, en háskóladeild stundakennara og styrkþega. Samkvæmt 4. mgr. 11. gr. má engum veita prófessorsembætti, dósentsstarf eða lektorsstarf við Háskólann nema meirihluti dómnefndar, sem kveðið er á um í 3. mgr. 11. gr., telji hann hæfan og meirihluti viðstaddra á deildarfundi greiði honum atkvæði í embættið eða starfið.
Á þeim tíma, sem hér um ræðir, hafði orðið mikil fjölgun nemenda við Háskóla Íslands, en kennarastöðum hafði ekki fjölgað að sama skapi. Kjarasamningar leiddu til þess, að farið var að ráða menn sem stundakennara, sem gátu verið með fulla kennsluskyldu. Settar voru reglur um ráðningu fastra stundakennara í sérstakar tímabundnar lektorsstöður þar sem frá og með 1. ágúst 1989 var heimilt að bjóða þeim, sem fullnægt gátu skilyrðum um ráðningu sem fastir stundakennarar, eins til þriggja ára ráðningu í sérstakar tímabundnar lektorsstöður, enda teldust þeir hæfir til að gegna lektorsstöðu. Skyldu ráðningarkjör þeirra, skyldur og réttindi vera þau sömu og lektorar nutu. Reglur þessar voru í samræmi við bókun 8 með kjarasamningi fjármálaráðherra og Félags háskólakennara 27. apríl 1989. Þessir tímabundnu lektorar voru ráðnir með ráðningarsamningum, en áfram var haldið að skipa lektora þar sem stöðuheimildir voru fyrir hendi, en þeim fjölgaði lítið. Með bréfi menntamálaráðherra til rektors háskólans 13. febrúar 1991 var ákveðið, að vissir þættir varðandi starfsmannaráðningar flyttust úr ráðuneytinu til háskólans, þar á meðal ráðningar í stöður, aðrar en skipanir. Samkvæmt bókun 6 með fyrrgreindum kjarasamningi skyldi breyta tímabundinni ráðningu, sem varað hefði í tvö ár, í ráðningu með uppsagnarfresti.
Af framangreindu má sjá, að stöðumál við háskólann tóku miklum breytingum á þessum tíma og skapaðist óvissa í ráðningarmálum háskólans.
III.
Gagnáfrýjandi gegndi starfi lektors sem aðalstarfi frá 1. janúar 1984 þar til honum var sagt upp starfinu í febrúar 1995. Hann var settur af menntamálaráðherra til eins árs í senn þar til gerður var við hann ótímabundinn ráðningarsamningur í apríl 1991. Ekki er annað fram komið en að hann hafi gegnt hefðbundnu lektorsstarfi í skilningi 1. málsliðar 1. mgr. 11. gr. laga nr. 131/1990. Var það einnig álit lögskýringarnefndar háskólans 17. mars 1989 og á því byggt í úrskurði háskólaráðs 14. desember 1995. Samkvæmt skýru ákvæði 11. gr. skal ráðherra skipa lektora. Ráðningarsamningur sá, sem gerður var við gagnáfrýjanda var því ekki í samræmi við þetta og var jafnframt brot á þeim reglum, sem kváðu á um, að engan mætti fastráða sem lektor til háskólans nema dómnefnd hefði áður metið hann hæfan. Gagnáfrýjandi á aftur á móti ekki að gjalda þess, að ekki var gætt réttra aðferða við ráðningu hans og á að njóta sömu uppsagnarkjara og skipaðir lektorar. Samkvæmt 7. og 10. gr. þágildandi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 38/1954 á sá, sem á að skipa starfsmann í stöðu, einnig að veita lausn úr henni. Hvað sem líður rangri aðferð við ráðningu gagnáfrýjanda, hafði ráðherra lögum samkvæmt einn heimild til að veita honum lausn frá starfi. Gagnáfrýjanda var því sagt upp á ólögmætan hátt.
Lög nr. 38/1954 gera ekki ráð fyrir því, að starfsmaður, sem sagt er upp starfi á ólögmætan hátt, eigi rétt á að fá starf sitt aftur, en hann á rétt á bótum samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laganna. Er því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu aðaláfrýjanda af þeirri kröfu gagnáfrýjanda að viðurkennt verði að ráðningarsamningur hans frá 5. apríl 1991 sé í gildi og um vangreidd laun samkvæmt þeim samningi.
IV.
Bótakröfu sína byggir gagnáfrýjandi meðal annars á því, að hann hafi átt forgangsrétt að þeirri stöðu, sem auglýst var laus til umsóknar 19. mars 1995 samkvæmt 2. og 3. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1994. Ekki er unnt að líta svo á, að staða gagnáfrýjanda hafi verið lögð niður við uppsögn hans. Þáverandi deildarforseti og deildarráð litu svo á, að staða sú, sem auglýst var, væri sama staða og gagnáfrýjandi hafði gegnt. Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954 koma því ekki hér til álita.
Þá byggir gagnáfrýjandi á því, að andmælaréttur hafi verið á sér brotinn svo og að meðalhófs hafi eigi verið gætt, sbr. 12. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eins og að framan greinir rökstuddi aðaláfrýjandi ástæðu uppsagnar gagnáfrýjanda á þá leið, að það væri stefna heimspekideildar, að kennarar skyldu keppa um stöður eftir að þær hefðu verið auglýstar og að enginn gæti setið í stöðu nema hann hefði hlotið hæfnisdóm. Gagnáfrýjandi var ráðinn í ótímabundið starf 5. apríl 1991, án þess að hafa hlotið hæfnisdóm. Álit dómnefndar þess efnis, að hann væri vanhæfur til að gegna dósentsstöðu, lá fyrir 29. júlí 1991. Það er ekki fyrr en 6. febrúar 1995, sem honum er sagt upp starfinu. Eins og áður sagði hafði gagnáfrýjandi í febrúar 1991 lagt fram ritgerð til doktorsprófs við heimspekideild, en ritgerðin var endursend, þar sem ekki var talið unnt að skipa dómnefnd um hana. Ritgerð þessa varði gagnáfrýjandi við spænskan háskóla í febrúar 1992. Upplýsingar um doktorsritgerðina lágu ekki fyrir dómnefndinni. Fyrir liggur, að gagnáfrýjandi sótti um dósentsstöðu við háskólann í Osló vorið1994 gagngert, að eigin sögn, til þess að fá hæfnisdóm. Í nóvember 1995 lá fyrir álit norskrar dómnefndar, sem mat hann hæfan til að gegna dósentsstöðu. Upplýsingar um umsóknina og meðferð hennar hjá dómnefnd lágu ekki fyrir á fundi deildarráðs heimspekideildar, þegar ákvörðun var tekin um að auglýsa lausa til umsóknar stöðu þá, sem gagnáfrýjandi gegndi. Er tekið undir það með héraðsdómi, að önnur og vægari úrræði hefðu verið nærtækari en að segja gagnáfrýjanda upp og auglýsa stöðu hans og að verulegu máli hefði getað skipt, ef honum hefði verið gefinn kostur á að tala máli sínu áður en uppsögn var ákveðin. Var með þessu brotið gegn 12. og 13. gr. laga nr. 37/1993 svo og 1. mgr. 11. gr. laga nr. 38/1954. Þá er og fallist á það með héraðsdómi, að með uppsögninni hafi ekki verið brotið gegn 8. eða 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur var með lögum nr. 62/1994 eða jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 3. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995.
Með vísan til forsendna héraðsdóms þykja bætur hæfilega ákveðnar 2.500.000 krónur. Vextir samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 dæmast af fjárhæðinni frá 1. nóvember 1995 til 25. júlí 1998, en dráttarvextir samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Staðfesta ber úrlausn héraðsdóms um miskabótakröfu gagnáfrýjanda.
Staðfest er niðurstaða héraðsdóms um sýknu íslenska ríkisins.
Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður að því er varðar stefnda íslenska ríkið.
Aðaláfrýjandi greiði 300.000 krónur í málskostnað, sem renni í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, 600.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
D ó m s o r ð :
Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af öllum kröfum gagnáfrýjanda Aitors Eyþórs Yraola. Málskostnaður þeirra í milli fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Aðaláfrýjandi, Háskóli Íslands, er sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda um, að viðurkennt verði, að ráðningarsamningur hans við aðaláfrýjanda frá 5. apríl 1991 sé í gildi og af kröfu um vangreidd laun samkvæmt þeim samningi.
Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjandi 2.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. nóvember 1995 til 25. júlí 1998 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest.
Aðaláfrýjandi greiði málskostnað fyrir Hæstarétti, 300.000 krónur, sem renni í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, 600.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Sératkvæði
Garðars Gíslasonar og Gunnlaugs Claessen
I.
Gagnáfrýjandi starfaði sem stundakennari í spænsku við heimspekideild Háskóla Íslands 1981 til 1983, en sem lektor frá 1984 til 1995. Var hann fyrstu árin settur í stöðu lektors til eins árs í senn, án þess að hún hafi í upphafi verið auglýst laus til umsóknar og án þess að dómnefnd fjallaði þá um hæfi hans til að gegna stöðunni. Breyting var gerð á þessu með samningi, sem dagsettur var 5. og 11. apríl 1991, milli heimspekideildar Háskóla Íslands og gagnáfrýjanda, er hann var ráðinn ótímabundið til starfa sem lektor. Í samningnum var tekið fram að gagnkvæmur uppsagnarfrestur væri þrír mánuðir. Á samninginn var rituð staðfesting menntamálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Með bréfi forseta heimspekideildar 6. febrúar 1995 var gagnáfrýjanda sagt upp störfum og tekið fram að starfslok yrðu 1. ágúst sama árs.
Meðal málsgagna eru svonefndar bókanir með kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Félags háskólakennara, sem undirritaður var 27. apríl 1989. Segir þar meðal annars, að aðilar séu sammála um að þegar um ráðningu í starf sé að ræða verði ráðning með uppsagnarfresti ríkjandi ráðningarform. Þegar tímabundin ráðning hafi varað í tvö ár verði henni breytt í ráðningu með uppsagnarfresti. Þá skuli heimilt frá og með haustmisseri 1989 að ráða stundakennara, sem uppfylli skilyrði um ráðningu á föstum launum samkvæmt bréfi menntamálaráðuneytis 13. september 1985, tímabundinni ráðningu sem lektora, enda hafi þeir hlotið hæfnisdóm. Samþykkti háskólaráð sérstakar reglur þar að lútandi í júní sama árs. Þá liggur fyrir bréf menntamálaráðuneytis til Háskóla Íslands 13. febrúar 1991, þar sem fram kemur að ráðuneytið hafi ákveðið að höfðu samráði við Háskóla Íslands að tilteknir þættir varðandi starfsmannaráðningar flytjist úr ráðuneytinu til Háskóla Íslands. Meðal þess skuli vera ráðningar í stöður, aðrar en skipanir. Annist háskólinn ráðningar að fenginni niðurstöðu af umfjöllun deilda og háskólaráðs, eftir því sem við eigi. Sé óskað skipunar eða fastráðningar sendist ráðuneytinu beiðni þar um og gefi ráðuneytið þá út skipunarbréf eða staðfesti ráðningarsamninga. Loks er meðal málsgagna bréf svonefndrar ráðningarnefndar ríkisins, sem starfaði á vegum fjármálaráðuneytis, 8. febrúar 1991 til menntamálaráðuneytis. Var þar samþykkt að ráðnir yrðu tveir lektorar við heimspekideild Háskóla Íslands með vísan til bókunar með kjarasamningi fjármálaráðherra og BHMR. Var tekið fram að gagnáfrýjandi væri annar þeirra.
Af hálfu aðaláfrýjanda er haldið fram að honum hafi fyllilega verið heimilt að gera samning þann við gagnáfrýjanda í apríl 1991, sem áður er getið. Hinn síðarnefndi hafi verið ráðinn til að gegna starfi lektors, en í því felist að kennsluskylda, launakjör og fleira hafi verið það, sem lektorsstöðu fylgi. Með því að gagnáfrýjandi hafi verið ráðinn með uppsagnarfesti en ekki skipaður í stöðu, hafi óhjákvæmilega leitt af því að hann hafi ekki notið sama starfsöryggis og hefði hann haft skipun í stöðu. Þetta hafi báðum málsaðilum verið ljóst, enda fylgt almennum reglum við ráðninguna, sem stoð hafi átt í kjarasamningi háskólakennara og ákveðnar voru af menntamálaráðuneyti.
II.
Skilja verður málatilbúnað gagnáfrýjanda á þá leið, að aðaláfrýjanda hafi ekki verið óheimilt að gera við hann ráðningarsamninginn 5. og 11. apríl 1991, enda er fyrsta krafa hans í málinu sú að viðurkennt verði að samningurinn sé enn í gildi og hann fái greidd laun til samræmis við það. Af hálfu aðaláfrýjanda er því sömuleiðis haldið fram, að honum hafi verið fyllilega heimilt að gera samninginn við gagnáfrýjanda í apríl 1991. Eins og sakarefnið er samkvæmt þessu lagt fyrir réttinn af hálfu beggja málsaðila felst í því sú ráðstöfun þess að aðaláfrýjanda hafi verið heimilt að gera umræddan ráðningarsamning við gagnáfrýjanda. Af þessum sökum kemur ekki til álita hvort þeir annmarkar hafi verið á tilurð samningsins, að hann beri að telja ógildan frá upphafi. Hins vegar leiðir það af meginreglum stjórnsýsluréttar, að ráðningarsamningur aðaláfrýjanda við gagnáfrýjanda gat aldrei haft þau réttaráhrif, að gagnáfrýjandi teldist skipaður í stöðu lektors, enda var slík skipun aðeins á færi menntamálaráðherra samkvæmt 1. mgr. 11. gr. þágildandi laga nr. 131/1990 um Háskóla Íslands.
Jafnframt því sem gagnáfrýjandi grundvallar málatilbúnað sinn á að aðaláfrýjandi hafi getað stofnað til gilds ráðningarsamnings við sig krefst hann skaðabóta, þar sem aðaláfrýjanda hafi brostið vald til þess að ljúka ráðningu hans með uppsögn. Hafi ráðherra einn haft vald til þess að segja samningnum upp, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 131/1990. Er þessu til stuðnings meðal annars vísað til dóms Hæstaréttar 1941, bls. 76 í dómasafni réttarins.
Með því að leggja verður til grundvallar að aðaláfrýjandi hafi haft heimild til þess að gera gildan ráðningarsamning við gagnáfrýjanda er óhjákvæmilegt að líta einnig svo á, að aðaláfrýjandi hafi verið til þess bær að binda endi á samningssamband aðilanna með uppsögn. Verður samkvæmt þessu ekki fallist á það með gagnáfrýjanda að formlega heimild hafi skort til að aðláfrýjandi mætti segja samningnum upp. Vísun hans til áðurnefnds dóms Hæstaréttar getur ekki átt hér við, en í því tilviki var um ræða að annar sagði samningi upp fyrir hönd vinnuveitanda en sá, sem gerði hann. Kemur þá til úrlausnar hvort uppsögn gagnáfrýjanda hafi verið óréttmæt þannig að varði aðaláfrýjanda bótaábyrgð samkvæmt meginreglu 3. mgr. 11. gr. þágildandi laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
III.
Í bréfi aðaláfrýjanda til gagnáfrýjanda 6. febrúar 1995 var ekki getið um ástæður uppsagnarinnar, en vísað til uppsagnarákvæðis í ráðningarsamningi. Með bréfi lögmanns hins síðarnefnda 23. sama mánaðar var krafist skýringa. Í svarbréfi aðaláfrýjanda 8. mars 1995 var tekið fram, að með því að nota rétt sinn væri heimspekideild að fylgja eftir þeirri stefnu sinni að kennarar skuli keppa um stöður eftir að þær hafi verið auglýstar og að enginn geti setið í stöðu nema hafa hlotið dóm um hæfi. Margar lektorsstöður hafi á síðustu árum verið auglýstar lausar til umsóknar, sem áður hafi verið ráðið í án auglýsinga. Hafi þá þeir, sem í þeim sátu, orðið að keppa um þær við aðra og fá hæfi sitt metið.
Af hálfu aðaláfrýjanda hefur sú skýring jafnframt verið gefin, að einungis í tilviki gagnáfrýjanda hafi lektor verið fastráðinn við heimspekideild án þess að hæfnisdómur lægi fyrir. Hafi það verið gert í þeirri trú að niðurstaða dómnefndar, sem þá var að störfum, yrði honum í hag. Þegar það brást hafi forsendur brostið fyrir ráðningunni. Af ýmsum ástæðum hafi hins vegar dregist að segja samningnum við gagnáfrýjanda upp. Gagnáfrýjandi mótmælir framangreindum skýringum aðaláfrýjanda og telur uppsögnina hafa verið ólögmæta að efni til. Vísar hann meðal annars til þess að með því að gera samning við sig eftir tíu ára starf án fyrirvara um formlegan hæfnisdóm sé fólgin viðurkenning á hæfi sínu.
Fallist verður á með gagnáfrýjanda að með því að gera samninginn hafi aðaláfrýjandi tekið áhættu af því að hæfi gagnáfrýjanda yrði ekki staðfest. Er því haldlaust fyrir aðaláfrýjanda að bera þessa ástæðu fyrir til réttlætingar uppsögn samningsins. Þá teljum við að með fyrirvaralausri uppsögn hafi andmælaréttur gagnáfrýjanda verið brotinn, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Samtímis því er aðaláfrýjandi gaf skýringar á ástæðu uppsagnarinnar auglýsti hann lausa til umsóknar stöðu lektors við heimspekideild í spönsku o.fl. Í skýrslu sinni fyrir dómi kvaðst forseti deildarinnar hafa litið svo á að um sömu stöðu væri að ræða og gagnáfrýjandi gegndi áður. Aðaláfrýjandi reisir sýknukröfu sína hins vegar einnig á því að staða gagnáfrýjanda hafi verið lögð niður, og að honum hafi verið greidd biðlaun til loka október 1995 í samræmi við það. Þessi skýring kom fyrst fram með bréfi háskólarektors til gagnáfrýjanda 25. ágúst 1995, eða rúmlega hálfu ári eftir uppsögnina. Varnarástæða þessi var ekki tilgreind í bréfi heimspekideildar til gagnáfrýjanda í mars 1995, þar sem skýringar voru gefnar á starfslokum hans eftir að þeirra hafði verið krafist. Við teljum að við úrlausn málsins beri að líta framhjá þessari varnarástæðu, sem í engu var getið í upphaflegum skýringum aðaláfrýjanda.
IV.
Samkvæmt öllu framanröktu teljum við að uppsögn aðaláfrýjanda á ráðningarsamningnum við gagnáfrýjanda hafi verið óréttmæt. Við ákvörðun skaðabóta handa hinum síðarnefnda verður hins vegar ekki komist hjá að líta til þess, að málsaðilar höfðu gagnkvæman uppsagnarrétt með nánar tilteknum fyrirvara. Mátti gagnáfrýjandi ekki treysta því að geta gegnt starfinu áfram hjá aðaláfrýjanda um ókominn tíma. Við teljum að með þeim launum, sem gagnáfrýjandi fékk greidd eftir uppsögnina, hafi honum verið bættur sá tekjumissir, sem af henni leiddi. Ekkert er fram komið um að sú aðferð, sem aðaláfrýjandi viðhafði er hann sagði upp samningnum, hafi valdið gagnáfrýjanda frekara tjóni, sem hinn fyrrnefndi beri af þeim sökum ábyrgð á gagnvart honum.
Ekki eru lagaskilyrði til að dæma miskabætur, svo sem gagnáfrýjandi krefst.
Samkvæmt öllu framanröktu teljum við að sýkna beri aðaláfrýjanda og stefnda, íslenska ríkið, af kröfum gagnáfrýjanda. Við erum sammála öðrum dómurum málsins um fjárhæð gjafsóknarlauna, en teljum að hver málsaðili eigi að bera sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. apríl 1999.
I
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi 25. mars. sl., var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu, birtri 23. júní 1998. Málið var þingfest 25. júní 1998.
Stefnandi er Aitor Eyþór Yraola, kt. 090653-7849, Tómasarhaga 49, Reykjavík.
Stefndu eru Háskóli Íslands, kt. 600169-2039 og íslenska ríkið og er menntamálaráðherra stefnt til fyrirsvars fyrir ríkið.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
Að viðurkennt verði að ráðningarsamningur stefnanda við Háskóla Íslands frá 5. apríl 1991 sé í gildi. Þá er krafist vangreiddra launa samkvæmt þeim samningi 3.473.768 króna, með dráttarvöxtum af 102.644 krónum frá 1. nóv. 1995 til 1. des. 1995, frá þeim degi af 205.288 krónum til 1. jan. 1996, frá þeim degi af 311.032 krónum til 1. feb. 1996, frá þeim degi af 416.776 krónum til l. mars 1996, frá þeim degi af 522.520 krónum til 1. apríl 1996, frá þeim degi af 628.264 krónum til 1. maí 1996, frá þeim degi af 734.008 krónum til 1. júní 1996, frá þeim degi af 839.752 krónum til 1. júlí 1996, frá þeim degi af 945.496 krónum til l. ágúst 1996, frá þeim degi af 1.051.240 krónum til 1. september 1996, frá þeim degi af 1.156.984 krónum til l. október 1996, frá þeim degi af 1.262.728 krónum til 1. nóv. 1996, frá þeim degi af 1.368.472 krónum til 1. des. 1996, frá þeim degi af 1.474.216 krónum til 1. jan. 1997, frá þeim degi af 1.579.960 krónum til 1. feb. 1997, frá þeim degi af 1.685.704 krónum til 1. mars 1997, frá þeim degi af 1.791.448 krónum til 1. apríl 1997, frá þeim degi af 1.897.192 krónum til 1. maí 1997, frá þeim degi af 2.007.906 krónum til 1. júní 1997, frá þeim degi af 2.118.620 krónum til 1. júlí 1997, frá þeim degi af 2.229.334 krónum til 1. ágúst 1997, frá þeim degi af 2.340.048 krónum til 1. sept. 1997, frá þeim degi af 2.450.762 krónum til 1. okt. 1997, frá þeim degi af 2.561.476 krónum til 1. nóv. 1997, frá þeim degi af 2.672.190 krónum til 1. des. 1997, frá þeim degi af 2.782.904 krónum til 1. jan. 1998, frá þeim degi af 2.898.048 krónum til 1. feb. 1998, frá þeim degi af 3.013.192 krónum til 1. mars 1998, frá þeim degi af 3.128.336 krónum til 1. apríl 1998, frá þeim degi af 3.243.480 krónum til 1. maí 1998, frá þeim degi af 3.358.624 krónum til 1. júní 1998, frá þeim degi af kr. 3.473.768 til greiðsludags.
Að viðurkenndur verði forgangsréttur stefnanda til lektorsstöðu, í spænsku máli og/eða bókmenntum og/eða menningu spænskumælandi þjóða, sem auglýst var til umsóknar 20. mars 1995.
Þá er krafist skaðabóta úr hendi stefnda, Háskóla Íslands, að fjárhæð 26.039.000 krónur með dráttarvöxtum frá 1. nóvember 1995 til greiðsludags.
Jafnframt er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefndu og að hann verði tildæmdur stefnanda eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda Háskóla Íslands eru þær aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða málskostnað að mati dómsins Til vara er þess krafist að fjárkrafa stefnanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Dómkröfur stefnda íslenska ríkisins eru þær að það verði sýknað af kröfum stefnanda og hann dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins.
II
Óumdeild málsatvik
Stefnandi var spænskur ríkisborgari en sótti um og fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 1987. Hann hóf störf sem stundakennari við heimspekideild Háskóla Íslands haustið 1981. Stefnandi var skipaður lektor í spænsku af spænskum yfirvöldum í október 1983. Með bréfi menntamálaráðuneytisins 28. janúar 1984 var Háskóla Íslands heimilað að ráða stefnanda til kennslu í spænsku um eins árs skeið frá 1. janúar 1984 að telja á 62,5% lektorslauna sem greidd yrðu af stundakennslufé. Var stefnandi síðan settur af menntamálaráðherra í stöðu lektors í eitt ár í senn frá 1. janúar 1984 til 1991. Staðan var fjármögnuð að hluta með framlagi spænska ríkisins, sem greiddi Háskóla Íslands sem svaraði 37,5% af árslaunum lektors. Það sem á vantaði var greitt af stundakennslufé heimspekideildar. Spænska ríkið hætti greiðslum vegna lektorstöðunnar 15. september 1990. Stefnandi fékk framgang úr lektor I í lektor II samkvæmt framgangskerfi Háskóla Íslands á árinu 1987.
Með kjarasamningi fjármálaráðherra og Félags háskólakennara frá 27. apríl 1989 var gerð sérstök bókun nr. 6 þess efnis að aðilar væru sammála um að þegar um ráðningu í starf væri að ræða yrði ráðning með uppsagnarfresti ríkjandi ráðningarform og að þegar tímabundin ráðning hefði varað í tvö ár yrði henni breytt í ráðningu með uppsagnarfresti.
Með bréfi dags. 21. október 1989 fór stefnandi fram á við forseta heimspekideildar að deildarráð gerði það að tillögu sinni að hann yrði skipaður í stöðu lektors. Forseti heimspekideildar hafnaði beiðninni með bréfi dagsettu 5. desember 1989 með vísan til niðurstöðu deildarfundar. Þau rök voru m.a. fær fyrir synjuninni að ekki væri um eiginlega stöðu að ræða heldur starf sem greitt væri fyrir af stundakennslufé, skipanir í aðrar stöður væru framar á forgangslista deildarinnar og að ekki væri hægt að mæla með skipan manns í starf sem ekki hefði hlotið ótvíræðan hæfnisdóm dómnefndar í viðkomandi fræðigrein. Með bréfi stefnanda dags. 1. nóvember sama ár hafði hann hafnað hugmyndum deildarforseta um setningu í stöðuna til fimm ára.
Stefnandi ritaði heimspekideild og menntamálaráðuneytinu bréf 7. desember 1989 og fór þess á leit með vísan til þessarar bókunar að hann yrði ráðinn í ótímabundna lektorsstöðu frá 1. janúar 1990.
Deildarráð hafnaði afgreiðslu umsóknarinnar á fundi sínum 8. desember 1989 en ákvað að óska eftir að „ráðning" hans yrði framlengd til eins árs frá og með 1. janúar 1990. Stefnandi mótmælti afgreiðslunni með bréfi dags. 13. desember 1989.
Á fundi deildarráðs 12. janúar 1998 var eftirfarandi fært til bókar um þau mótmæli:
„Samþykkt samhljóða að fela deildarforseta að svara Aitor Yraola og ítreka að stefna deildarinnar sé sú að skipun eða setning án hæfnisdóms í ótímabundna stöðu komi ekki til greina, en framgangsnefnd vinni að því að skipa dómnefnd til að fjalla um umsókn hans um flutning í dósentsstöðu."
Í kjölfarið gekkst deildarforseti heimspekideildar fyrir því að skipuð yrði dómnefnd til að meta hæfni stefnanda. Í hæfnisnefndina voru skipaðir tveir prófessorar við spænskudeild King´s College í London, þeir B.W. Ife sem formaður og David Hook ásamt Ástvaldi Ástvaldssyni MA. Nefndinni var annars vegar falið að meta hæfni stefnanda til framgangs í dósentsstöðu og hins vegar stefnandi skyldi valinn að nýju til að gegna núverandi stöðu í ljósi þess að staðan hefði aldrei verið auglýst eða um hana keppt.
Stefnandi var í leyfi frá kennslustörfum á haustmisseri 1990 og dvaldi þá við Ohio State University í Bandaríkjunum. Með bréfi til forseta heimspekideildar 11. desember 1990 dró stefnandi til baka beiðni sína frá 28. október sama ár um ótímabundna ráðningu með þriggja mánaða uppsagnarfresti með þeim orðum að engin ástæða væri fyrir hann að sækja um rétt sem hann hefði þá þegar en ítrekaði jafnframt beiðni sína um áframhaldandi leyfi frá kennslu og stjórnun á vormisseri 1991.
Á fundi deildarráðs heimspekideildar 13. desember 1990 var fjallað um umsókn stefnanda um áframhaldandi leyfi og samþykkt tillaga deildarforseta um áframhaldandi leyfi svo framarlega sem hann fengi ótímabundna ráðningu sem lektor með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Í kjölfarið ritaði skrifstofustjóri heimspekideildar framkvæmdastjóra starfsmannasviðs stefnda Háskóla Íslands tilkynningu um samþykkt deildarráðs. Framkvæmdastjóri starfsmannasviðs ritaði líðan 18. desember 1990 bréf til menntamálaráðuneytisins þar sem fram kom að heimspekideild Háskóla Íslands hefði farið fram á ótímabundna ráðningu stefnanda í lektorsstöðu með þriggja mánaða uppsagnarfresti frá 1. janúar 1991. Vísað var til þess að hann hefði verið settur lektor allt frá 1. janúar 1984 og ennfremur til bókunar með kjarasamningi við aðildarfélög BHMR frá 1989. Af hálfu Háskóla Íslands var mælt með erindinu.
Með bréfi ráðningarnefndar ríkisins 8. febrúar 1991 var beiðni menntamálaráðuneytisins, frá 6. janúar sama ár, um heimild til ráðningar stefnanda sem lektors við heimspekideild frá 1. janúar það ár samþykkt.
Í bréfi menntamálaráðuneytisins til starfsmannasviðs stefnda Háskóla Íslands frá 14. febrúar 1991 var vísað til afgreiðslu ráðningarnefndar og óskað eftir að gerður yrði ráðningarsamningur við stefnanda og hann sendur ráðuneytinu til staðfestingar. Gerður var ótímabundinn ráðningarsamningur við stefnanda í apríl 1991 og var hann undirritaður f. h. stefnanda 5. apríl 1991 en af hálfu forseta heimspekideildar 11. apríl 1991. Menntamálaráðuneytið staðfesti samninginn 15. apríl en fjármálaráðuneytið 8. maí. Samningurinn var á stöðluðu formi og í honum kom fram að stefnandi væri ráðinn í stöðu lektors við heimspekideild Háskóla Íslands og að gagnkvæmur uppsagnarfrestur skyldi vera þrír mánuðir.
Stefnandi sendi 11. febrúar 1991 þáverandi forseta heimspekideildar, Þór Whitehead, beiðni um að fá að leggja fram ritgerð til doktorsvarnar við heimspekideild Háskóla Íslands, en hún bar heitið "La repercusión de la Guerra Civil espanola en Islandia, 1936-1939" og fjallar um sögu- og menningarleg tengsl Íslands og Spánar. Með bréfi deildarforsetans dags. 30. maí 1991 var því hafnað að stefnandi fengi að leggja ritgerðina fram við deildina. Í febrúar 1992 varði stefnandi doktorsritgerðina við Universidad Autónoma í Madrid og hlaut fyrir hana fyrstu einkunn; cum laude.
Niðurstaða dómnefndar sem skipuð var í ágúst 1990 til að meta hæfi stefnanda lá fyrir 29. júlí 1991 og taldi nefndin að stefnandi hefði ekki hæfni til að gegna stöðu dósents við Háskóla Íslands. Dómnefndin tók ekki skýra afstöðu til þess hvort stefnandi teldist hæfur til að gegna áfram stöðu lektors.
Með bréfi þáverandi forseta heimspekideildar Háskóla Íslands, Vésteins Ólasonar, frá 6. febrúar 1995 var stefnanda sagt upp starfi lektors, án þess að ástæður væru tilgreindar, með tilvísun til uppsagnarákvæðis í fyrrgreindum ráðningarsamningi. Jafnframt var stefnanda bent á að sérstök tímabundin lektorsstaða yrði auglýst við deildina og að hann ætti kost á að sækja um hana. Greint var frá ástæðum uppsagnarinnar í bréfi deildarforseta dagsettu 8. mars 1995.
Með bréfi til Sveinbjörns Björnssonar rektors Háskóla Íslands, dagsettu 30. júní 1995, mótmælti stefnandi uppsögninni og taldi hana lögleysu og óskaði eftir að fá að sinna áfram starfi sínu óhindrað.
Með bréfi til menntamálráðherra, dagsettu 20. júlí 1995, kærði stefnandi uppsögnina og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi. Þann ritaði Stefnandi ritaði annað bréf til háskólarektors 27. júlí og óskaði eftir því að ekki yrði ráðið í stöðu hans meðan stjórnsýslukæran væri til meðferðar hjá menntamálaráðherra. Háskólarektor ritaði stefnanda bréf 1. ágúst 1995 þar sem hann upplýsti að vænta mætti niðurstöðu yfirstjórnar háskólans í máli stefnanda. Sú niðurstaða lá fyrir 25. ágúst og var hún byggð á lögfræðiáliti lögmanns háskólans, sem taldi að löglega hefði verið staðið að uppsögn stefnanda, staða hans hefði verið lögð niður og því ætti hann rétt til biðlauna í sex mánuði, enda hafi hann ekki hafnað boði um sambærilega stöðu á vegum ríkisins.
Menntamálaráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu 18. september 1991 að vísa bæri kærunni frá þar sem málið heyrði undir stefnda Háskóla Íslands. Á grundvelli þeirrar niðurstöðu skaut stefnandi máli sínu til háskólaráðs sem með úrskurði 14. desember 1995 staðfesti ákvörðun heimspekideildar, að því er snerti uppsögn stefnanda úr starfi lektors.
Auglýsing um stöðu lektors í spænsku við heimspekideild Háskóla Íslands birtist í Lögbirtingarblaðinu 17. mars og í Morgunblaðinu 20. mars 1995. Í henni var tekið fram að miðað væri við að ráða í stöðuna til þriggja ára frá 1. ágúst 1995. Stefnandi sótti um stöðuna ásamt fimm öðrum.
Skipuð var þriggja manna nefnd 23. maí 1995 til að meta hæfni umsækjenda til að gegna stöðunni, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 131/1990 um Háskóla Íslands. Nefndin skilaði áliti sínu 18. júní sama ár og var stefnandi, ásamt öðrum umsækjanda Margréti Jónsdóttur, dæmdur hæfur til þess að gegna stöðunni. Stefnandi gerði athugasemdir við álitsgerðina í bréfi til forseta heimspekideildar dags. 23. júní 1995 og snertu þær hæfi og efnistök nefndarmanna. Á fundi heimspekideildar 26. júní 1995 var samþykkt að mæla með því að Margrét fengi stöðuna og var gerður við hana ráðningarsamningur 7. september 1995. Stefnandi kærði stöðuveitinguna til háskólaráðs 26. september 1995 sem staðfesti ákvörðun deildarfundar með fyrrnefndum úrskurði dagsettum 14. desember 1995.
III
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi kveður ágreiningur aðila lúta annars vegar að því hvort uppsögn stefnanda hafi verið lögmæt og réttmæt, bæði að formi og efni til og hins vegar hvort stefnandi hafi átt forgang til hinnar auglýstu stöðu. Hugsanlega komi til álita hvort staða stefnanda hafi verið lögð niður eða ekki en stefnandi telur það ekki skipta máli við úrlausn málsins þar sem hann eigi rétt til hennar samkvæmt 2. mgr. 14. gr. þágildandi starfsmannalaga. nr. 38/1954, hvort sem um sé að ræða sömu stöðuna eða nýja sambærilega stöðu. Jafnframt komi til álita hvort ákvæði jafnréttislaga hafi verið brotin við ráðningu í stöðuna, sem valdi bótaskyldu stefndu gagnvart stefnanda. Verði 1. kröfuliður tekinn til greina sé væntanlega ekki ágreiningur um ógreidd laun. Verði ekki fallist á 1. kröfuliðinn en þó talið að uppsögnin hafi verið ólögmæt telur stefnandi sig augljóslega eiga rétt á skaðabótum í samræmi við 3. kröfulið. Einnig telur stefnandi sig eiga rétt á miskabótum ef fallist verður á kröfu 1. Verði fallist á kröfu 2 telur stefnandi að hann eigi rétt á bótum samkvæmt 3. kröfulið.
Um 1. kröfulið
Stefnandi byggir kröfu sína á því að heimspekideild Háskóla Íslands hafi skort heimild til að segja upp ráðningarsamningnum frá 5. apríl 1991. Það hafi heyrt undir menntamálaráðherra og hann hafi ekki sagt stefnanda upp. Ákvörðun sem tekin sé af röngu stjórnvaldi sé ólögmæt. Í 7. og 10.gr. laga nr. 38/1954 sé gengið út frá því að sá sem sé að lögum bær til að veita starf, veiti jafnframt lausn frá því. Samkvæmt l. mgr. 11. gr. laga nr. 131/1990 sé ljóst að menntamálaráðherra sé einn bær til að leysa lektora frá störfum. Uppsögn heimspekideildar á ráðningarsamningnum sé því lögleysa sem engin réttaráhrif hafi. Ráðningarsamningurinn sé því enn í gildi og af því leiði að stefnandi eigi rétt á ógreiddum launum frá 1. nóvember 1995. Launakrafan byggi á samningsbundnum launum lektora við Hákskóla Íslands, þ.e. launum frá þeim tíma sem stefnandi hafi síðast fengið greidd laun.
Stefnandi byggir ennfremur á því að hvort sem fallist verði á að ráðningarsamningurinn sé í gildi eða ekki sé ljóst að uppsögnin sé ólögmæt og stefnandi eigi því rétt á skaðabótum samkvæmt 3. kröfulið.
Um 2. kröfulið
Stefnandi bendir á að samkvæmt rökstuðningi heimspekideildar Háskóla Íslands hafi ástæða fyrir uppsögn ráðningarsamningsins verið sú, að staðan hafi ekki verið auglýst og stefnandi ekki hlotið hæfnisdóm. Samkvæmt dómnefndaráliti vegna þessarar tímabundnu stöðu hafi stefnandi og einn annar umsækjandi verið talinn hæf til að gegna henni.
Stefnandi byggir þessa kröfu á því að þar sem hann hafi uppfyllt kröfur um hæfni eigi hann forgang til lektorsstöðu þeirrar í spænsku sem auglýst hafi verið laus til umsóknar 19. mars 1995, samkvæmt skýrum ákvæðum 2. og 3. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954.
Um 3. kröfulið
Líti dómurinn svo á að riftun ráðningarsamningsins sé gild telur stefnandi engu að síður að hún hafi verið ólögmæt sem leiði til bótaskyldu stefnda. Einnig taki bótakrafan til 2. kröfuliðar ef fallist verði á að stefnandi hafi átt forgangrétt til hinnar tímabundnu lektorsstöðu.
Stefnandi byggir á því að uppsögnin hafi verið til málamynda. Óþarfi hafi verið að segja honum upp ráðningarsamningi á grundvelli þess að hann hafi ekki fengið hæfni sína metna. Hæfni hans hafi verið hægt að meta án uppsagnar. Forsvarsmenn heimspekideildar hafi vitað að stefnandi var fullkomlega hæfur til að gegna stöðunni, enda með doktorsgráðu í grein sinni frá einum virtasta háskóla Spánar, sem eitt og sér hafi verið fullgildur hæfnisdómur. Um hafi verið að ræða stöðu sem hann hafði gegnt og heimspekideild sjálf treyst honum fyrir. Þá felist í samningi um fastráðningu eftir meira en 10 ára starf við Háskóla Íslands, án nokkurs fyrirvara um formlegan hæfnisdóm, viðurkenning stefnda á hæfni stefnanda. Framgangur stefnanda úr lektor I í lektor II feli einnig í sér staðfestingu á að hann hafi verið hæfur til að gegna stöðunni.
Í eftirfarandi rökstuðningi forseta heimspekideildar fyrir uppsögninni komi m.a. fram að nokkur hópur kennara við deildina hafi haft sams konar ráðningarform og stefnandi en að þeir hafi allir fengið staðfesta dósents- eða prófessorshæfni. Stefnandi mótmælir þessum rökstuðningi þar sem engum þessara kennara hafi verið sagt upp stöðum sínum áður en þeir fengu formlegan hæfnisdóm og það þótt þeir hefðu lægri prófgráðu en stefnandi. Heimspekideild hafi verið í lófa lagið að óska eftir formlegum hæfnisdómi um stefnanda án uppsagnar. Stefnandi telur mismunun þessa megi m.a. rekja til uppruna hans. Með þessari mismunun hafi verið brotin jafnræðisregla 65. gr. stjórnarskrár Íslands og ákvæði 8. og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 62/1994.
Stefnandi telur ástæðu til að ætla, með hliðsjón af aðdraganda og gögnum málsins, að verið sé að mismuna honum á grundvelli uppruna hans. Það brjóti í bága við mannréttindasáttmála þá sem Íslendingar hafi gerst aðilar að og lögfestir hafi verið hér á landi.
Stefnandi telur að sú ákvörðun að ráða tímabundið í stöðuna umsækjanda með minni menntun, starfsaldur og reynslu styðji það álit hans að ólögmæt sjónarmið hafi ráðið við uppsögn hans. Í þessu sambandi vísar stefnandi til þess að stjórnvald sem veiti stöðu hafi ekki frjálsar hendur um val á milli umsækjanda, jafnvel þegar svo standi á að fleiri en einn umsækjandi sé hæfur. Stefnandi telur það grundvallarreglu í íslenskum stjórnsýslurétti að þegar svo standi á beri að velja þann umsækjanda sem hæfastur sé talinn á grundvelli málefnalegra sjónarmiða um menntun, reynslu, skólagöngu og annarra eiginleika sem máli skipti.
Einnig telur stefnandi fyrrgreinda ráðningu í tímabundnu lektorsstöðuna brjóta í bága við ákvæði jafnréttislaga nr. 28/1991 sem eitt út af fyrir sig valdi bótaskyldu stefnda, Háskóla Íslands.
Stefnandi telur að sú óvanalega aðferð að segja honum upp án skýringar, meðan hann hafi verið í rannsóknarleyfi, bendi ótvírætt til þess að önnur sjónarmið en áhyggjur af hæfni hans hafið ráðið uppsögninni. Um ólögmæt sjónarmið hafi verið að ræða sem valdi bótaskyldu stefnda, Háskóla Íslands. Stefnandi telur að uppsagnarákvæði ráðningarsamningsins breyti engu í málinu enda slíkt ákvæði marklaust þar sem það eigi sér enga stoð í ákvæðum laga nr. 38/1954.
Skaðabótakrafan er jafnframt byggð á því að dómnefnd um hina auglýstu stöðu hafi ekki verið skipuð lögum samkvæmt og stöðuveitingin því ólögmæt. Stefnandi telur að ekki hafi verið uppfyllt almenn hæfisskilyrði 3. mgr. 11. gr. laga nr. 131/1990 við skipun formanns nefndarinnar, Jóns Skaptasonar, stundakennara við enskudeild Háskólans, þar sem hann hafi ekki lokið neinu prófi á viðeigandi fræðasviði né geti í raun talist viðurkenndur sérfræðingur á umræddu sviði.
Stefnandi telur uppsögnina hafa verið íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun. Er á því byggt að heimspekideild Háskóla Íslands hafi brotið stjórnsýslulög, sérstaklega ákvæði um andmælarétt og gegn meðalhófsreglunni. Stefnanda hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig áður en ákvörðun um uppsögnina hafi verið tekin en sköpum hefði skipt fyrir hann ef hann hefði fengið að neyta andmælaréttar. Við þeirri kröfu Háskólans, að kennarar skyldu hafa formlegan hæfnisdóm, hafi verið hægt að verða án þess að segja honum upp störfum auk þess sem dómnefnd við Óslóarháskóla hafi á sama tíma verið að vinna að hæfnisdómi um stefnanda vegna umsóknar um dósentsstöðu. Niðurstaða þeirrar dómnefndar, frá 22. nóvember 1995, hafi verið að stefnandi væri vel hæfur til að gegna þeirri stöðu. Stefnandi telur að brot á ofangreindum reglum 12. og 13. gr. stjórnsýslulaga valda ógildi ákvörðunarinnar.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að hann orðið fyrir miklu tjóni vegna uppsagnar á ráðningarsamningi, einkum þar sem engin sambærileg staða sé til hér á landi. Því sé honum nauðugur sá kostur að starfa erlendis hafi hann hug á að vinna í sínu fagi en því fylgi umtalsverður kostnaður. Eiginkona stefnanda gegni fastri kennarastöðu hér á landi og hafi takmarkaða möguleika á að gegna slíku starfi erlendis. Börn þeirra þrjú séu á skólaaldri en rask vegna flutninga til útlanda kæmi niður á þeirra högum. Með hinni ólögmætu uppsögn sé í raun verið að gera stefnanda útlægan frá eiginkonu og börnum. Því sé fjárhagslegt tjón vegna hinnar ólögmætu uppsagnar umtalsvert meira en í öðrum tilvikum þar sem reynt hafi á ólögmæti uppsagnar.
Stefnandi kveður aðalkröfu sína vera um viðurkenndu á því að ráðningarsamningur frá 5. apríl 1991 sé í gildi og að hann eigi þar með ógreidd laun frá 1. nóvember 1995. Verði ekki fallist á þá kröfu er gerð skaðabótakrafa vegna þess að uppsögnin hafi verið ólögmæt og að brotinn hafi verið réttur á stefnanda um forgang til stöðunnar.
Fjárhæð bótakröfunnar er byggð á útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingarfræðings á tjóni stefnanda og er krafan þannig sundurliðuð:
1. Launatap kr. 20.791.500
2. Tap lífeyrisréttinda kr. 1.247.500
3. Miskabætur kr. 4.000.000
Samtals kr. 26.039.000
Krafa um launatap og töpuð lífeyrisréttindi er fengin með útreikningi á höfuðstólsverðmæti framtíðartekna, miðað við að árlegar tekjur stefnanda hefðu verið eins og þær voru að meðaltali síðustu þrjú árin sem stefnandi vann hjá Háskóla Íslands sem lektor.
Stefnandi styður miskabótakröfuna við 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Hin ólögmæta uppsögn og önnur meðferð sem stefnandi hafi þurft að sæta af hálfu stefnda Háskóla Íslands hafi valdið honum sársauka og þjáningum og orðið honum til álitshnekkis. Einnig hafi hún orðið til þess að stefnandi og eiginkona hans geti ekki starfað í sama landi vilji þau bæði starfa við sitt fag.
Stefnandi kveður menntamálaráðherra f.h. ríkissjóðs aðeins vera stefnt í málinu vegna krafna samkvæmt 1. og 2. kröfulið þar sem menntamálaráðherra sé lögum samkvæmt sá aðili sem sé einn bær til að ráða lektora og leysa þá frá störfum. Háskóla Íslands sé hins vegar stefnt vegna allra kröfuliða.
Um lagarök vísar stefnandi auk áðurgreindra laga til meginreglna skaðabótaréttar og samninga- og kröfuréttar og laga nr. 131/1990 um Háskóla Íslands.
IV
Málsástæður og lagarök stefnda Háskóla Íslands
Af hálfu stefnda er rakinn aðdragandi að því að stefnandi var ráðinn í stöðu lektors 1993. Bent er á að með bréfi dags. 21. október 1989 hafi stefnandi farið þess á leit við deildarráð heimspekideildar að ráðið legði til við menntamálaráðherra að stefnandi yrði skipaður lektor í spænsku í 62,5% stöðugildi. Þáverandi forseti heimspekideildar hafi gert stefnanda grein fyrir því í bréfi 5. desember 1989 að ráðið treysti sér ekki til að mæla með því. Ástæða þess hafi í fyrsta lagi verið sú að ekki hafi verið mögulegt að skipa mann til að fara með starf stefnanda til frambúðar þar sem ekki hafi verið um að ræða eiginlega stöðu heldur starf sem greitt hafi verið fyrir af stundakennslufé. Í öðru lagi hafi verið ljóst að ósk um stofnun sérstakrar hlutastöðu í spænsku þyrfti að bera undir deildarfund. Deildin hafði þá samþykkt forgangslista um stöðubeiðnir, sem einkum hafi verið saminn með tilliti til hlutfalls nemenda og kennara í einstökum greinum og verið ætlað að tryggja að samræmis væri gætt í stöðubeiðnum. Auðsætt hafi verið að beiðni um hlutastöðu í spænsku yrði ekki réttlætt með vísan til hlutfalls kennara og nemenda í greininni og næsta útilokað að aðrar og fjölmennari greinar deildarinnar gætu samþykkt að veita slíkri stöðu forgang. Einnig hafi verið ljóst að ósk um stofnun og skipun í hlutastöðu í spænsku kæmi ekki til álita þegar af þeirri ástæðu að heimspekideild gæti ekki mælt með skipun manns í stöðu nema hann hefði hlotið ótvíræðan hæfnisdóm dómnefndar í viðkomandi fræðigrein.
Með bréfi, dags. 7. desember 1989, til þáverandi forseta heimspekideildar, hafi stefnandi óskað eftir ráðningu í ótímabundna lektorsstöðu með vísan til bókunar 6 í kjarasamningi Félags háskólakennara og fjármálaráðherra frá 27. apríl 1989. Á fundi deildarráðs 8. desember 1989 hafi verið ákveðið að fresta afgreiðslu umsóknarinnar en jafnframt mælt með því að ráðning stefnanda yrði framlengd til eins árs frá 1. janúar 1990. Í bréfi deildarforseta, dags. 16. janúar 1990, hafi stefnanda verið gerð grein fyrir því að ekki kæmi til álita að ráða kennara ótímabundinni ráðningu án þess að dómnefnd hefði metið þá hæfa til starfa. Í bréfinu var einnig upplýst að sótt hefði verið um stöðuheimild fyrir stefnanda og nokkra aðra kennara til að gegna ótímabundnum stöðum. Lagt var til að dómnefnd yrði skipuð til að meta hæfi stefnanda til að gegna lektorsstöðu auk þess að fjalla um umsókn stefnanda um flutning í dósentsstöðu.
Deildarráð heimspekideildar hafi á fundi 13. desember 1990 samþykkt að veita stefnanda launalaust leyfi frá störfum á vormisseri 1991. Í bréfi framkvæmdastjóra starfsmannasviðs, dagsettu sama dag, hafi verið tekið fram að ákvörðun deildarinnar væri háð því skilyrði að stefnandi fengi ótímabundna ráðningu sem lektor með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Bréfinu virðist af hálfu fjármálaráðuneytisins hafa verið tekið sem beiðni heimspekideildar um fastráðningu stefnanda og þeirri beiðni komið á framfæri við menntamálaráðuneytið. Ráðninganefnd ríkisins hafi samþykkt erindi menntamálaráðuneytisins og starfsmannasvið stefnda gengið frá ráðningarsamningi við stefnanda í kjölfarið. Af hálfu stefnda er tekið fram að ráðning stefnanda hafi verið í skýrri andstöðu við stefnu deildarráðs en frá henni gengið af tillitssemi við stefnanda og í ljósi þess að vonir hafi staðið til þess að hann hlyti hæfnisdóm innan tíðar.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að ástæða þess að doktorsritgerð stefnanda hafi verið hafnað til varnar hafi verið sú að ekki hafi reynst unnt að finna einstaklinga sem bjuggu yfir þeirri þekkingu sem til þurfti til að meta hvort ritgerðin fullnægði kröfum sem gerðar eru til doktorsritgerða.
Niðurstaða dómnefndar sem skipuð var í ágúst 1990 til að meta hæfi stefnanda hafi legið fyrir 29. júlí 1991 og hafi nefndin ekki talið stefnanda hæfan til að gegna stöðu dósents við Háskóla Íslands. Því er haldið fram af hálfu stefnda að stefnanda hafi sjálfum borið að senda dómnefnd öll gögn sem hann vildi að lægju til grundvallar mati dómnefndar enda einungis á hans færi að velja rit til mats. Í beiðni stefnanda um að fá að þreyta doktorspróf hafi þess ekki verið getið að hann óskaði eftir að ritgerðin yrði send til dómnefndar. Heimspekideild hafi verið send ritgerðin í einu eintaki og stefnanda mátt vera ljóst að deildarforseti hygðist ekki senda hana óumbeðinn til dómnefndar. Í ljósi dómnefndarálitsins hafi framgangsnefnd ekki treyst sér til að mæla með umsókn stefnanda um framgang í dósentsstöðu.
Í ljósi þess að greiðslur spænska ríkisins til Háskóla Íslands vegna starfs stefnanda höfðu fallið niður 15. september 1990 hafi ráðninganefnd heimspekideildar talið eðlilegt að kannað yrði hvort þörf væri fyrir stöðuna og að hún yrði þá auglýst sem tímabundin staða og með hana farið eins og aðrar tímabundnar stöður við deildina.
Stefnandi telur að uppsögn stefnanda, sem honum hafi verið kynnt með bréfi Vésteins Ólason deildarforseta, dags. 6. febrúar 1995, hafi verið í samræmi við þá stefnu heimspekideildar til margra ára að kennarar deildarinnar sætu ekki í ótímabundnum stöðum við deildina án þess að hafa áður hlotið ótvíræðan hæfnisdóm dómnefndar í viðkomandi fræðigrein., Að beiðni þáverandi lögmanns stefnanda hafi ákvörðunin verið rökstudd með bréfi deildarforseta frá 8. mars 1995.
Þar sem heimspekideild hafi talið þörf á stöðu þeirri sem stefnandi hafði gegnt, þótt ekki væri heimild fyrir ótímabundinni stöðu, hafi verið brugðið á það ráð að auglýsa hana sem tímabundna lektorsstöðu, sbr. reglur um ráðningu fastra stundakennara í sérstakar tímabundnar lektorsstöður. Stefnandi og fimm aðrir hafi sótt um stöðuna.
Í umsögn dómnefndar sem skipuð hafi verið til að meta hæfi umsækjenda hafi stefnandi og Margrét Jónsdóttir verið talin hæf til að gegna stöðunni. Á fundi skorar rómanskra og slavneskra mála 22. júní 1995 hafi verið samþykkt með fjórum atkvæðum að mæla með Margréti í stöðuna en tveir setið hjá. Í atkvæðagreiðsla á deildarfundi hafi hún hlotið 26 atkvæði og hann 12 en 7 seðlar verið auðir.
Stefndi kveður bótakröfu í 3. kröfulið vera reista á því að málsmeðferðarreglna hafi ekki verið gætt við uppsögn ráðningarsamnings. Ef fallist verði á kröfulið 1 sé ljóst að ráðningarvaldið hafi verið hjá ráðherra. Veitingarvaldshafa beri að gæta þess að réttra málsmeðferðarreglna sé gætt við ákvarðanatöku og sé því ekki unnt að beina bótakröfu að Háskóla Íslands í þessu tilviki. Það sama gildi um málsmeðferð við ráðningu í sérstaka tímabundna lektorsstöðu. Verði fallist á þau sjónarmið sem kröfuliður 1 er reistur á brýtur það fyrirkomulag að háskólaráð ráði í slíkar stöður gegn ákvæðum 11. gr. laga nr. 131/1990. Veitingarvaldshafi hafi samkvæmt því verið menntamálaráðherra og bótakröfu ranglega beint að stefnda Háskóla Íslands.
Um kröfu 1.
Stefndi heldur því fram að samkvæmt ráðningarsamningi, á stöðluðu eyðublaði frá launaskrifstofu ríkisins, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 97/1974 um eftirlit með ráðningu starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana, hafi samningsaðilar verið stefnandi og heimspekideild stefnda. Í samræmi við 2. mgr. laga nr. 97/1974 hafi samningurinn verið staðfestur af fjármálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti. Stéttarfélag stefnanda hafi verið Félag háskólakennara og starfsheiti stefnanda samkvæmt kjarasamningi verið tilgreint lektor.
Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 131/1990 um Háskóla Íslands sé mælt fyrir um að menntamálaráðherra skipi dósenta og lektora. Áður en til slíkrar skipunar komi þurfi að afla stöðuheimildar, auglýsa stöðuna opinberlega og umsækjendur að undirgangast mat sérskipaðrar dómnefndar á hæfni þeirra til að gegna stöðunni. Að fengnu dómnefndaráliti sé leitað álits skorar og kosið á milli hæfra umsækjenda á deildarfundi. Launagreiðslur til þeirra sem njóti skipunar í starf komi beint frá fjármálaráðuneyti en ekki stefnda.
Stefndi byggir á því að gengið hafi verið frá ráðningarsamningi við stefnanda á grundvelli ákvæða kjarasamnings Félags háskólakennara við fjármálaráðherra, f. h. ríkissjóðs, frá 27. apríl 1989. Ráðning stefnanda hafi ekki byggst á ákvæðum háskólalaga enda ekki fylgt reglum þeirra laga og stefnandi hafi ekki uppfyllt skilyrði til að gegna lektorsstöðu. Staðfesting menntamálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis á ráðningarsamningi hafi eingöngu verið til þess gerð að formreglum laga nr. 97/1974 væri fullnægt en verði ekki jafnað til þeirrar einhliða stjórnvaldsákvörðunar sem fólgin sé í skipun í stöðu skv. 11. gr. háskólalaga. Ráðning stefnanda hafi alfarið verið á forræði stefnda eftir að heimild hafi fengist frá ráðninganefnd ríkisins. Stefndi hafi greitt stefnanda laun og þær greiðslur komið af stundakennslufé heimspekideildar.
Af ráðningarsamningnum sjálfum sjáist að Háskóli Íslands, heimspekideild, sé aðili samningsins en sú meginregla gildi í stjórnsýslunni að það stjórnvald sem veiti starf veiti jafnframt lausn frá því. Stefndi Háskóli Íslands hafi því einn verið bær til að segja stefnanda upp störfum.
Verði fallist á kröfur stefnanda samkvæmt þessum kröfulið er þess krafist að launatekjur stefnanda á því tímabili sem krafan tekur til komi til frádráttar dómkröfum.
Stefndi telur að ef talið verður að stefndi hafi ekki verið bær til að segja stefnanda upp störfum geti hann eingöngu átt rétt til bóta vegna ólögmætrar uppsagnar.
Um kröfu 2.
Stefndi kveður stöðu þá sem auglýst hafi verið laus til umsóknar hafa verið sérstaka tímabundna lektorsstöðu en um slíkar stöður hafi á þessum tíma gilt reglur um ráðningu í sérstakar kennarastöður við Háskóla Íslands sem samþykktar hafi verið í háskólaráði 13. febrúar 1992 og breytt með samþykkt háskólaráðs frá 6. janúar 1994. Stefnandi hafi áður verið ráðinn ótímabundið en ráðning í sérstöku tímabundnu lektorsstöðuna hafi verið til þriggja ára. Þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að starf stefnanda hafi í reynd verið lagt niður enda ljóst að slíkar breytingar á ráðningarformi geri það að verkum að störfin geti ekki talist sambærileg í skilningi 1. mgr. 14.gr. laga nr. 38/1954. Því hafi stefnandi fengið greidd biðlaun í sex mánuði frá því að starf hans taldist hafa verið lagt niður. Minna þurfi til að starf teljist ekki sambærilegt öðru starfi en til þess að það teljist ekki vera það sama. Því sé ljóst að áskilnaði 2. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954 hafi ekki verið fullnægt.
Stefndi telur að ráðið verði af orðalagi 3. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954 að það feli ekki í sér skyldu veitingarvaldshafa til að ráða umsækjanda sem ákvæðið tekur til. Veitingarvaldshafi ákveði á hvaða sjónarmiðum hann byggi ákvörðun sína um val á umsækjanda enda séu þau sjónarmið málefnaleg og lögmæt. Veitingarvaldshafi ákveði með sama hætti hvert vægi einstök sjónarmið hafi.
Samkvæmt 2. gr. fyrrnefndra reglna skuli meðferð umsókna um sérstakar tímabundnar lektorsstöður vera sú sama og um fastar kennarastöður, sbr. 11. gr. laga nr. 130/1991. Í samræmi við 3. mgr. nefndrar lagagreinar hafi verið skipuð dómnefnd til að meta hæfi umsækjenda stöðuna. Leitað hafi verið álits skorar rómanskra og slavneskra mála og atkvæði greidd um hæfa umsækjendur á deildarfundi, sbr. 4. mgr. 11. gr. sömu laga. Samkvæmt 3. gr. reglnanna er það háskólaráð sem ræður í sérstakar kennarastöður. Skilja verði tilvísun í 2. gr. reglnanna til 11. gr. laga nr. 130/1991 svo að háskólaráð komi í reynd í stað menntamálaráðherra sem skipi lektora í ótímabundnar stöður. Háskólaráð hafi því verið bundið af ákvörðun deildarfundar um val á umsækjendum en þó átt þann kost að auglýsa stöðuna að nýju.
Atkvæðagreiðsla á deildarfundi hafi verið leynileg og af þeim sökum ógerningur að segja til um hvað ráðið hafi vali einstakra fundarmanna á umsækjanda til starfsins. Ljóst sé hins vegar að reglum um auglýsingu og ráðningu í starfið hafi verið fylgt að öllu leyti og ekki verið sýnt fram á að ólögmæt sjónarmið hafi ráðið vali einstakra deildarfundarmanna eða að umsækjendum hafi á nokkurn hátt verið mismunað.
Stefndi mótmælir þeim fullyrðingum stefnanda að hann hafi augljóslega verið hæfari til starfsins en sú sem varð fyrir valinu. Rannsóknir ráði mestu við mat á hæfi umsækjenda og telur stefndi að niðurstaða dómnefndar sem mat hæfi stefnanda á árinu 1991 hafi borið þess merki að rannsóknarkunnátta stefnanda hafi verið ófullnægjandi og verulega skorti á að fræðileg vinnubrögð hafi verið viðunandi við samningu þeirra rita sem lögð hafi verið fram til mats. Að mati nefndarinnar hafi Margrét Jónsdóttir verið talin líklegri til afreka í fræðilegum rannsóknum en stefnandi.
Að virtum þeim áherslum sem lagðar hafi verið á hæfni til rannsókna í auglýsingu og reglum um nýráðningar háskólakennara og umfjöllun dómnefndar telur stefndi að einstökum deildarfundarmönnum hafi verið stætt á því að velja Margréti Jónsdóttur til starfsins án þess að með því væru brotin ákvæði jafnréttislaga eða laga nr. 38/1954.
Um kröfu 3.
Stefndi byggir á því að ótímabundinn ráðningarsamningur hafi verið gerður við stefnanda í trausti þess að dómnefnd, sem þá hafi tekið til starfa, mæti hann hæfan til starfans. Þrátt fyrir að stefna heimspekideildar væri sú að fastráða eingöngu þá kennara sem hlotið höfðu hæfnisdóm hafi verið vikið frá því skilyrði í tilviki stefnanda. Þess finnist engin dæmi innan heimspekideildar að kennari hafi fengið og haldið slíku starfi án þess að hljóta hæfnisdóm. Niðurstaða dómnefndar, sem skilaði áliti sínu 29. júlí 1991, hafi verið sú að stefnandi teldist ekki hæfur til framgangs í stöðu dósents og ritverk stefnanda hafi almennt verið talin hafa lítið fræðilegt gildi. Stefnda hafi hvorki borið skylda til né verið heimilt að líta á síðar fengna doktorsgráðu frá spænskum háskóla sem fullgildan hæfnisdóm.
Stefndi telur fara fjarri, að sú framkvæmd að setja stefnanda til að gegna stöðu lektors frá ári til árs í nokkur ár, jafngildi hæfnisdómi samkvæmt reglum. Þá sé ljóst að framgangur stefnanda úr stöðu lektors I í lektor II hafi ekki falið í sér slíka viðurkenningu enda hafi stefnandi öðlast slíkan rétt á grundvelli kjarasamnings eftir eins árs starfsreynslu án þess að dómnefndarálits væri þörf.
Stefndi heldur því fram að ef frá sé talið tilvik stefnanda finnist þess ekki dæmi innan heimspekideildar að kennari hafi verið fastráðinn án hæfnisdóms. Fjöldi kennara, sem gegnt hafi lektorsstöðum án auglýsingar, hafi þurft að sæta því að stöður þeirra væru auglýstar og það þótt þeir hefðu ótvíræða hæfnisdóma. Því sé enginn fótur fyrir þeim fullyrðingum stefnanda að honum hafi verið mismunað á grundvelli uppruna síns. Öllum erindum stefnanda til heimspekideildar, rektors og háskólaráðs hafi verið sinnt og svör unnin á grundvelli þeirra reglna sem háskólanum beri að starfa eftir. Stefnandi hafi þurft að hlíta sömu reglum og aðrir kennarar háskólans og ekki verði annað séð en að jafnræðis hafi verið gætt í öllum tilvikum ef frá er talin fastráðning stefnanda sem hann hafi fengið umfram aðra. Þar hafi verið farið á svig við þær reglur sem heimspekideild starfaði eftir í þeirri von að ráðningarmál stefnanda hlytu farsælan endi. Þegar álit dómnefndar hafi legið fyrir 29. júlí 1991 hafi forsendur fyrir ráðningu stefnanda verið brostnar og ljóst að segja þyrfti honum upp störfum. Framkvæmd uppsagnarinnar hafi dregist, m.a. vegna mótmæla stefnanda og lögmanns hans gegn dómnefndarálitinu og af tilliti til hans. Þá telur stefndi að hvergi í gögnum málsins sé að finna upplýsingar sem gefi tilefni til að draga vandvirkni og óhlutdrægni deildarforseta í efa.
Stefndi bendir á að enda þótt ekki sé gert ráð fyrir því í lögum nr. 38/1954 að ríkisstarfsmenn séu ráðnir til starfa með uppsagnarfresti sé heimilt að semja um slíkan uppsagnarfrest sbr. t.d. Hrd. 1974:1170. Hvor aðili ráðningarsamningsins hafi því getað sagt honum upp án sérstakra skýringa, að virtum uppsagnarfresti.
Stefndi vísar til þess að í 3. mgr. 11. gr. laga um Háskóla Íslands nr. 131/1990 hafi verið að finna reglur um skipan nefndar til að dæma um hæfni umsækjenda um starf lektors, dósents eða prófessors við Háskóla Íslands. Þar segi m.a.: "Í nefnd þessa má skipa þá eina, er lokið hafa háskólaprófi á hlutaðeigandi fræðasviði, eða eru að öðru leyti viðurkenndir sérfræðingar á því sviði." Hugtakið fræðasvið hafi, m.a. af hagkvæmnisástæðum, verið túlkað mjög rúmt og þess séu fjölmörg dæmi að dómnefndir hafi verið skipaðar einstaklingum sem lokið hafi háskólamenntun í annarri grein en þeirri sem áskilið er að umsækjendur hafi sérhæft sig í. Við val á fulltrúum í dómnefndir hafi verið reynt að tryggja að í það minnsta einn nefndarmanna hefði lokið háskólaprófi í sama fagi og umsækjendur eða sé viðurkenndur sérfræðingur í þeirri grein fræðanna. Stefndi telur að skipan dómnefndarinnar vera í fullu samræmi við ákvæði háskólalaga. Annar og þrengri skilningur á umræddu ákvæði leiddi til þess að ómögulegt gæti reynst í mörgum tilvikum að setja saman dómnefndir.
Stefndi telur ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um andmælarétt ekki hafa verið brotin við uppsögn ráðningarsamnings stefnanda. Augljóslega hafi verið óþarft að gefa stefnanda kost á andmælum þar sem hann hafi engu getað breytt um þær staðreyndir að staða hans hafði ekki verið auglýst og hann ekki hlotið hæfnisdóm. Jafnvel þótt dómnefndarálit Oslóarháskóla, um hæfni stefnanda til að gegna dósentsstöðu, hefði legið fyrir þegar segja átti honum upp störfum, hefði stefnda ekki verið skylt og sennilega óheimilt, að leggja það dómnefndarálit til grundvallar við mat á hæfni stefnanda til að gegna starfi við Háskóla Íslands. Það hefði auk þess engu breytt um þá staðreynd að stefnandi gegndi starfi sem aldrei hafði verið auglýst.
Af síðastgreindum ástæðum telur stefndi að meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið brotin. Hugmyndin að baki reglum um auglýsingu starfa og áskilnaði um hæfnisdóm sé meðal annars sú að tryggt verði að sem hæfastir einstaklingar ráðist til þeirra mikilvægu starfa sem kennarar við Háskóla Íslands gegni. Ákvæði 12. og 13. gr. stjórnsýslulaga eigi eingöngu við í tilvikum þar sem stjórnvöld taki matskenndar ákvarðanir. Ekki verði séð að heimspekideild stefnda hafi átt önnur og vægari úrræði en þau sem gripið hafi verið til.
Um fjárhæð aðal- og varakröfu.
Stefndi mótmælir forsendum fyrir útreikningi krafna stefnanda. Stefnandi hafi verið ráðinn til starfa með þriggja mánaða uppsagnarfresti og hafi ekki getað vænst þess að halda starfi sínu til loka starfsævi sinnar. Einkum sé þetta skýrt þar sem staða stefnanda hafði ekki verið auglýst og hann ekki hlotið hæfnisdóm. Stefndi telur því að stefnandi geti ekki átt rétt til bóta nema sem svari þrennum mánaðarlaunum en hann hafi þegar fengið greidda ríflega þá fjárhæð. Kröfur stefnanda fari fjarri dómafordæmum um bætur vegna ólögmætrar uppsagnar. Þá er þess krafist að biðlaunagreiðslur til stefnanda á árinu 1995 komi til frádráttar bótakröfu.
Stefndi telur skilyrði miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 ekki vera fyrir hendi. Með uppsögn stefnanda hafi stefndi eingöngu verið að framfylgja reglum háskólalaga og heimspekideildar. Engar slíkar hvatir eða ástæður hafi legið að baki uppsögninni að hún geti talist ólögmæt meingerð gegn stefnanda. Þá er fjárhæð miskabótakröfunnar mótmælt sem of hárri og í engu samræmi við dómafordæmi.
Upphafstíma dráttarvaxta í aðal- og varakröfu er mótmælt og þess krafist að hann miðist við dómsuppsögu.
V
Málsástæður og lagarök stefnda íslenska ríkisins
Af hálfu stefnda íslenska ríkisins er um aðdraganda máls þessa og rökstuðning fyrir sýknukröfu af þeim kröfuliðum sem gegn honum er beint í flestum atriðum vísað til sömu málsástæðna og lagaraka og haldið er fram af hálfu meðstefnda.
Krafa stefnda um sýknu af 1. kröfulið er einkum byggð á þeim rökum, að hann hafi ekki verið aðili að ráðningarsamningi stefnanda og Háskóla Íslands og sé kröfunni því ranglega beint gegn honum. Stefnandi hafi ekki fengið skipun menntamálaráðherra í stöðu lektors. Starfið hafi ekki verið auglýst laust til umsóknar og ekki verið skipuð dómnefnd til að meta hæfni stefnanda til lektorsstöðu. Gerð ráðningarsamnings hafi ekki verið samkvæmt ákvæðum 11. gr. laga nr. 131/1990, en í 1. mgr. greinarinnar sé kveðið á um að menntamálaráðherra skipi dósenta og lektora við Háskóla Íslands.
Ekki sé hægt að finna réttarheimild fyrir því að veitingarvald menntamálaráðherra um stöður dósenta eða lektora sé framselt til annarra stjórnvalda. Ráðningarsamningurinn hafi því ekki verið um lektorsstöðu í skilningi 10. gr. laganna.
Allur ráðningarferill stefnanda frá því að hann hafi verið skipaður í starf lektors af spænska ríkinu og hluti launa hans verið greiddur af stundakennslufé heimspekideildar og síðan aðdragandi þess að hann var ráðinn í ótímabundið starf lektors á árinu 1991, renni stoðum undir þessa niðurstöðu. Starfsheitið lektor í ráðningarsamningnum vísi til kjaraákvörðunar, enda sé í honum vísað til kjarasamnings en ekki 10. eða 11. gr. laga nr. 131/1990. Afskipti menntamálaráðherra hafi verið þau ein að samþykkja ráðningarsamning sem heimspekideild Háskóla Íslands hafði gert.
Stefndi telur að krafa stefnanda um að ráðningarsamningur hans við Háskóla Íslands sé enn í gildi undirstriki að stefnandi hafi ekki verið og sé ekki þeirrar skoðunar sjálfur, að ráðning hans samkvæmt ráðningarsamningnum sé ígildi skipunar í starf samkvæmt 11. gr. laga nr. 131/1990. Hann geri ekki kröfu um að ráðning eða skipun menntamálaráðherra sé í gildi. Þessi framsetning kröfunnar undirstriki það, að stefnandi hafi verið þess meðvitandi að ekki væri farið að reglum laga nr. 131/1990 um skipun í lektorsstarf. Í þess stað hafi verið gerður ráðningarsamningur með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti.
Ráðningarsamningurinn hafi verið gerður milli stefnanda sem starfsmanns og Háskóla Íslands - heimspekideildar sem stofnunar/vinnuveitanda. Heimspekideildin, vinnuveitandi stefnanda, hafi því verið uppsagnaraðili samkvæmt því ákvæði samningsins, að gagnkvæmur uppsagnarfrestur skyldi vera þrír mánuðir. Sé það í samræmi við grundvallarreglu íslenskrar stjórnskipunar og vinnuréttar, að sami aðili og ráði í stöðu veiti lausn úr henni eða segi upp ráðningarsamningi.
Í ráðningarsamningnum sé kveðið á um gagnkvæman uppsagnarfrest. Þar sé einnig vísað til þess, að ákvæði um uppsagnarfrest gildi ekki um þá starfsmenn ríkisins, sem hófu störf fyrir 1. janúar 1975. Sú undantekningin eigi ekki við um stefnanda, sem ráðinn hafi verið af heimspekideild Háskóla Íslands með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Í gildistíð laga nr. 38/1954 hafi lektorar verið skipaðir af ráðherra án ákvæðis um uppsagnarfrest.
Bent er á að menntamálaráðuneytið hafi enga athugasemd gert við uppsögn heimspekideildar á ráðningarsamningnum og starfslokum stefnanda, sbr. úrskurð ráðuneytisins frá 18. september 1995 og niðurlag í svari ráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis frá 4. júlí 1996, þar sem ráðuneytið vísar til starfsloka stefnanda samkvæmt eyðublaði um starfsokin 27. september 1995 og til ráðningarsamnings við annan aðila í starf lektors í spænsku við heimspekideild Háskóla Íslands.
Varðandi kröfu stefnanda um greiðslu vangreiddra launa vísar stefndi til þess að laun stefnanda hafi verið greidd af fjárveitingum til Háskóla Íslands. Ekki sé í stefnu skýrt af hverju þessum kröfuþætti sé beint gegn menntamálaráðherra, sem ekki hafi verið launagreiðandi stefnanda. Ekki sé heldur í stefnu skilgreint hvort stefndu eigi að bera ábyrgð á þessum launagreiðslum að hluta eða sameiginlega. Þessi þáttur stefnukröfunnar sé þannig bæði óljós og vanreifaður gagnvart umbjóðanda mínum og er bent á að hann kunni að eiga að sæta frávísun án kröfu.
Stefndi telur að hvoru tveggja sé, staðið hafi verið með lögmætum hætti af réttum aðila að uppsögn á ráðningarsamningi stefnanda og að viðurkenningarkröfunni og launakröfunni sé ranglega beint gegn stefnda og beri einnig af þeirri ástæðu að sýkna hann af þessum kröfulið, sbr. 16. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála.
Því er ennfremur haldið fram af hálfu stefnda að ráðningarsamningurinn sem stefnandi gerði við heimspekideild Háskóla Íslands 5. apríl 1991 hafi ekki verið um eiginlega lektorsstöðu í skilningi 10., sbr. 11. gr., laga nr. 131/1990, en í stöðu lektors skipi menntamálaráðherra að undangenginni auglýsingu og að fengnu mati þriggja manna nefndar um hæfi umsækjenda.
Stefndi telur engum vafa undirorpið, að starf stefnanda hafi ekki verið lektorsstaða í skilningi laga nr. 131/1990. Stefnanda hafi verið þetta ljóst, enda ósk hans frá 21. október 1989 um skipun í stöðu lektors synjað m.a. á þeirri forsendu, að ekki væri um að ræða eiginlega stöðu, heldur starf sem greitt væri fyrir af stundakennslufé og ekki kostur á að skipa í til frambúðar. Þá hafi heldur ekki legið fyrir samþykki deildarinnar um að stofna sérstaka hlutastöðu í spænskukennslu, en aðrar stöður verið á forgangslista, auk þess sem ljóst hafi verið að ekki væri unnt að mæla með skipun manns í slíka stöðu, nema hann hefði áður hlotið hæfnisdóm dómnefndar, sbr. ákvæði 3. og 4. mgr. 11. gr. laga nr. 31/1990. Hafi þetta verið rakið í bréfi forseta heimspekideildar til stefnanda. Í framhaldinu hafi stefnandi sótt um ráðningu í "ótímabundna lektorsstöðu" í samræmi við bókun 6 í kjarasamningnum. Samningsaðili að slíkri ótímabundinni ráðningu hafi verið Háskóli Íslands, samanber umsókn stefnanda á frá 7. desember 1989 og bréf launaskrifstofu ríkisins frá 12. desember 1989. Stefnanda hafi þannig verið kunnugt um að skipun í lektorsstöðu samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga 131/1990 kæmi ekki til álita af framangreindum ástæðum og að gerð ráðningarsamningsins geti ekki skapað honum meiri rétt en lög hafi heimilað.
Stefndi telur að samkvæmt framangreindu séu engar forsendur að lögum til þess að stefnandi eigi forgangsrétt til umræddrar tímabundinnar lektorsstöðu.
VI
Niðurstaða
Um 1. kröfulið
Þegar þau atvik sem mál þetta er grundvallað á gerðust voru í gildi lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 38/1954 og verður mál þetta dæmt á grundvelli þeirra laga. Lög nr. 70/1996 hafa nú leyst þau af hólmi. Í 2. gr. eldri laganna voru svofelld ákvæði um hver skipaði, setti eða réði í starf:
„Það fer eftir ákvæðum laga um hverja starfsgrein, hver veita skuli, setja í eða ráða í stöður. Nú er eigi um það mælt í lögum og skal þá svo meta sem sá ráðherra, er starfinn lýtur, geri þá ráðstöfun, en geti þó veitt forstjóra viðkomandi starfsgreinar heimild til að gera það, ef ráðstafa skal hinum vandaminni og ábyrgðarminni stöðum í grein hans . "
Í 1. mgr. og 2. mgr. 10. gr. laga um Háskóla Íslands nr. 131/1990 eru svohljóðandi ákvæði um háskólakennara:
„Kennarar háskólans eru prófessorar, dósentar, lektorar, þ. á m. erlendir lektorar, aðjúnktar og stundakennarar.
Prófessorar, dósentar og lektorar skulu vera þeir, sem hafa kennslu og rannsóknir við háskólann að aðalstarfi."
Í 11. gr. síðastgreindra laga er fjallað um veitingu kennarastarfa við skólann. Greinin hefur tekið ýmsum breytingum en þegar ótímabundinn ráðningarsamningur var gerður við stefnanda var 1. mgr. 11. gr. svohljóðandi:
„Forseti Íslands skipar prófessora, en menntamálaráðherra dósenta og lektora. Eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum ræður háskólaráð aðjúnkta og erlenda lektora að fengnum tillögum háskóladeildar, en háskóladeild stundakennara og styrkþega."
Í 4. mgr. 11. gr. sagði m. a. að skipa skyldi hverju sinni þriggja manna nefnd til að dæma um hæfi umsækjenda og nánar mælt fyrir um skipan nefndarinnar. Var þar átt við prófessorsembætti, dósentsstörf og lektorsstörf, samanber 2. mgr. Þá sagði í 4. mgr. að engum mætti veita prófessorsembætti, dósentsstarf eða lektorsstarf við háskóla nema meiri hluti dómnefndar teldi hann hæfan og meiri hluti viðstaddra á deildarfundi greiddi honum atkvæði í embættið eða starfið.
Í máli þessu hefur verið lagt fram bréf menntamálaráðuneytisins dags. 13. febrúar 1991 til rektors Háskóla Íslands þar sem segir að ráðuneytið hafi ákveðið að tilteknir þættir varðandi starfsmannaráðningar flyttust úr ráðuneytinu til háskólans, þ.á.m. ráðningar í stöður, aðrar en skipanir. Í bréfinu segir ennfremur að stefnt sé að því að starfsmenn verði ráðnir til starfa með ráðningarsamningum nema um sé að ræða skipun í starf eða sérsök ástæða sé til annars ráðningarforms.
Ekki er að finna í sérlögum, reglugerðum, framangreindu bréfi eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum heimild til þess að Háskóli Íslands skipi eða setji aðra lektora en erlenda lektora.
Af hálfu stefndu hefur því verið haldið fram að fyrrgreind lagaákvæði tækju ekki af skarið um það hver væri bær til að ráða í stöðu lektora og þar sem ráðherra væri ekki veitt heimild til þess kæmi enginn annar til greina en Háskóli Íslands. Ekki verður fallist á þessa málsástæðu. Framangreind lagaákvæði verða ekki skýrð með öðrum hætti en þeim að þeir að lektorar sem hafa kennslu og rannsóknir að aðalstarfi yrði ekki veitt starf með öðrum hætti en með skipun menntamálaráðherra eða eftir atvikum setningu en um ráðningu yrði ekki að ræða. Í 1. mgr. 11. gr. var sérstaklega kveðið á um að háskólaráð skyldi ráða aðjúnkta og erlenda lektora sem rennir stoðum undir að Háskólanum hafi ekki verið ætlað að ráða aðra háskólakennara.
Fyrir liggur að stefndi var ráðinn sem stundakennari við Háskólann til að kenna spænsku haustið 1981. Hann var skipaður lektor í spænsku af spænskum yfirvöldum í október 1983. Svo virðist sem ætlunin hafi verið að stefndi hefði stöðu erlends sendikennara við Háskóla Íslands og náðist samkomulag milli háskólans og menntamálaráðuneytisins um að á móti framlagi spænsku ríkisstjórnarinnar til háskólans vegna kennarastöðunnar kæmi framlag af stundakennslufé heimspekideildar sem næmi 62,5% af lektorslaunum. Þegar til kom var staða stefnanda þó ekki skilgreind sem sendikennarastaða heldur setti menntamálaráðherra hann í lektorsstarf til eins árs frá 1. janúar 1984 að telja. Var sú setning framlengd árlega þar til ótímabundinn ráðningarsamningur var gerður við stefnanda í apríl 1995.
Ekki liggur annað fyrir í málinu en að stefnandi hafi haft kennslu og rannsóknir við Háskóla Íslands að aðalstarfi. Lögskýringanefnd háskólans komst að þeirri niðurstöðu 17. mars 1989 að að stefnandi hefði gegnt lektorsstöðu en ekki stöðu erlends sendikennara og má fallast á þá niðurstöðu. Ljóst er því að þegar gengið var frá ráðningarsamningi við stefnanda hafði hann gegnt lektorsstöðu í rúm sjö ár.
Í fyrrnefnd bókun nr. 6 með kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Félags háskólakennara frá 27. apríl 1989 segir m.a. svo:
„Aðilar eru sammála um að þegar um ráðningu í starf er að ræða verði ráðning með uppsagnarfresti ríkjandi ráðningarform. Séu verkefnislok fyrirfram ákveðin eða um afleysingar að ræða, verði ráðning þó tímabundin. þegar tímabundin ráðning hefur varað í 2 ár verði henni breytt í ráðningu með uppsagnarfresti."
Þar sem stefnandi var á þeim tíma sem hér um ræðir settur í stöðu lektors tók bókunin samkvæmt orðanna hljóðan ekki til hans.
Sem fyrr segir ritaði stefnandi deildarforseta heimspekideildar bréf 21. október 1989 og óskaði eftir að deildarráð gerði það að tillögu sinni að menntamálaráðherra skipaði hann í 62,5% lektorsstöðu. Þeirri beiðni var hafnað af deildarráði. Eftir að hafa hafnað hugmyndum deildarforseta um að mælt yrði með setningu hans í lektorsstarf til fimm ára ritaði stefnandi deildarforseta bréf 7. desember 1989 og óskaði eftir ótímabundinni ráðningu í starf lektors með vísan til framangreindrar bókunar 6. Ekki er fyllilega ljóst hvort stefnandi sem er ólöglærður og af erlendu bergi brotinn hafi áttað sig á muninum á réttarstöðu og ráðningarfestu skipaðra, settra og ráðinna, enda var orðalag bókunarinnar ekki til þess fallið að skýra muninn. Má því ætla stefnandi hafi talið að ótímabundin ráðning væri til þess fallin að treysta starfsöryggi sitt.
Deildarráð hafnaði afgreiðslu umsóknarinnar á fundi sínum 8. desember 1989 en mælti með því að „ráðning" hans yrði framlengd til eins árs frá og með 1. janúar 1990.
Í bókun frá fundi deildarráðs 12. janúar 1990 kemur fram sú skýra stefna heimspekideildar að skipun eða setning án hæfnisdóms í ótímabundna stöðu komi ekki til greina. Hins vegar kom þar fram vilji til þess að stefnandi gengist undir hæfnisdóm vegna framgangs í dósentsstöðu. Í bréfi sem stefnandi ritaði deildarforseta frá Bandaríkjunum 11. desember 1990 kemur fram að hann var horfinn frá því að óska eftir ótímabundnum ráðningarsamningi. Þótt ekki verði beinlínis ráðið af bókun frá deildarráðsfundi 13. desember 1990 að deildarráð hafi skipt um skoðun varðandi ótímabundna ráðningu stefnanda í starf lektors varð bókunin til þess að koma af stað atburðarrás sem leiddi til þess að gengið var frá framangreindum ráðningarsamningi við stefnanda í apríl 1991.
Af hálfu stefndu er því haldið fram að ekki hafi verið um að ræða raunverulega lektorsstöðu enda ekki farið að ákvæðum háskólalaga við ráðningu í starfið. Í ráðningarsamningi komi einungis fram að starfsheiti samkvæmt kjarasamningi hafi verið lektor.
Fyrir liggur að ekki var heimild til að stofna til fastrar kennarastöðu í spænsku enda fram komið í málinu að á þessum árum var skipað í fá ný kennslustörf við háskólann og þessi staða ekki framarlega á forgangslista heimspekideildar. Þá hafði áður komið fram skýr afstaða deildarfundar heimspekideildar um að stefnandi fengi ekki skipun í lektorsstöðu án hæfnisdóms hæfnisnefndar. Einnig er ljóst að við ráðninguna var ekki farið að fyrirmælum háskólalaga um skipun í stöðu lektors.
Svo sem að framan greinir skorti Háskóla Íslands heimild að lögum til að ráða í lektorsstöður. Þá er ekki í lögum um Háskóla eða í öðrum réttarheimildum getið um annað form á samningum við lektora en skipun eða setningu og hafði menntamálaráðherra því heldur ekki heimild til ráðningar lektora.
Þrátt fyrir þennan heimildarskort mælti framkvæmdastjóri starfsmannasviðs háskólans með því við menntamálaráðherra að orðið yrði við beiðni heimspekideildar um ótímabundna ráðningu stefnanda í lektorsstöðu með þriggja mánaða uppsagnarfresti.
Stefnandi er aldrei nefndur annað en lektor í fjölmörgum skjölum sem fram hafa verið lögð í málinu og verður ekki annað ráðið en að á honum hafi hvílt starfsskyldur lektors. Engin haldgóð rök hafa verið færð fram því til stuðnings að stefnandi hafi gegnt annarri tegund lektorsstarfs en mælt er fyrir um í lögum um Háskóla Íslands nr. 131/1990, enda engir fyrirvarar gerðir um slíkt gagnvart stefnanda.
Á atvinnurekanda hvíla ríkar skyldur hvað varðar skýrleika þeirra samninga sem þeir gera við starfsmenn. Óljósir samningar varðandi starfsheiti, réttindi og skyldur verða því að jafnaði skýrðir atvinnurekanda í óhag og geta þannig skapað starfsmanni ríkari rétt en að var stefnt.
Með vísan til þess að stefndi hafði verið settur til að gegna stöðu lektors við heimspekideild frá ári til árs í rúmlega sjö ár, fyrrnefnds bréfs framkvæmdastjóra starfsmannasviðs til menntamálaráðherra, afgreiðslu ráðningarnefndar frá 8. febrúar 1991 og tilvísun til heitisins lektor í ráðningarsamningi verður að líta svo á að hann hafi verið falið að gegna starfi lektors eins og það er skilgreint í lögum nr. 131/1990.
Enda þótt lagaheimild hafi skort fyrir því að Háskóli Íslands veitti stöðu lektors með ráðningarsamningi og ekki hafi verið farið að fyrirmælum 3. og 4. mgr. 11. gr. laga nr. 131/1991 þykir stefnandi ekki eiga að bera hallann af því enda var það hlutverk stefnda en ekki stefnanda að sjá um að farið væri að lögum við veitingu stöðunnar. Vitneskja stefnanda um fyrri afstöðu deildarráðs til skipunar hans í stöðuna getur ekki skapað honum aðra réttarstöðu en að framan greinir, enda mátti hann líta svo á að í bókun frá deildarfundi frá 13. desember 1990 fælist nokkur afstöðubreyting þar sem deildarráð hafði áður neitað honum um ótímabundinn ráðningarsamning. Eftir tíu ára kennsluferil við Háskóla Íslands mátti stefnandi þannig með réttu búast við að ráðningarfesta hans yrði betur tryggð en áður.
Þess má einnig geta að hæfnisnefnd sú sem tók til starfa á árinu var fyrst og fremst falið að meta hæfni stefnanda til framgangs í dósentsstöðu. Stefnandi mátti líta svo á að spurningunni um hæfni stefnanda til að gegna lektorsstöðunni áfram hefði heimspekideild svarað sjálf með því að mæla með setningu stefnandi í stafið frá ári til árs í sjö ár og síðan með því að ganga frá ótímabundnum ráðningarsamningi við hann. Mátti stefnandi því ætla að heimspekideild hefði fallið frá kröfu um sértakan hæfnisdóm.
Samkvæmt framansögðu þykir stefnandi á grundvelli ofangreinds ótímabundins ráðningarsamning, sem staðfestur var af menntamálaráðherra, hafa öðlast réttarstöðu lektors samkvæmt lögum nr. 131/1990 hvað ráðningarfestu varðaði. Þar sem menntamálaráðherra var einn bær til að veita stöðu lektors gat hann einn veitt stefnanda lausn frá stöðunni og einungis með þeim hætti sem þágildandi starfsmannalög nr. 38/1954 mæltu fyrir um. Samkvæmt því var stefnandi ekki bundinn af ákvæði ráðningarsamningsins um þriggja mánaða uppsagnarfrest enda hafði hann lengi barist fyrir því að honum yrði tryggð ríkari ráðningarfesta. Því verður að líta svo á að forseti heimspekideildar hafi ekki verið til þess bær að segja stefnanda upp starfi lektors frá 1. ágúst 1995. Með sömu rökum var hann heldur ekki bær til að leggja starf stefnanda niður.
Krafa stefnanda þykir jafngilda kröfu um að hann verði dæmdur inn í starfið aftur. Enda þótt sú ákvörðun forseta heimspekideildar að segja stefnanda upp störfum hafi samkvæmt framansögðu verið ólögmæt leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að fallist verði á þá kröfu stefnanda að ráðningarsamningurinn sé í gildi. Ef í ljós er leitt að stjórnvaldsákvörðun brýtur í bága við fyrirmæli laga getur það haft ýmiss konar afleiðingar í för með sér, svo sem ógildingu ákvörðunar sem leiða kann til þess að stjórnvald verður að taka nýja lögmæta ákvörðun, eða til bótaskyldu.
Samkvæmt 3. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 getur forseti vikið þeim frá embætti er hann hefur veitt það. Engu skiptir varðandi formlegt gildi frávikningarinnar hvort um sakir er að ræða hjá viðkomandi embættismanni eða ekki. Af þessari heimild verður leidd sú almenna regla að önnur stjórnvöld hafi einnig frávikningarheimild varðandi þau embætti sem þau veita og að lausnin sé endanleg, hverjar sem ástæður hennar eru, enda sé sjálfri frávikningunni hvorki áfátt að gerð né formi. Þessi regla hefur með óbeinum hætti stoð í 61. gr. stjórnarskrárinnar þar sem mælt er fyrir um að dómendum sem ekki hafa umboðsstörf á hendi verði ekki vikið úr starfi nema með dómi. Enda þótt telja verði að ákvörðun um uppsögn stefnanda hafi verið tekin af stjórnvaldi sem ekki var til þess bært verður að líta til þess að stefnandi gerði ráðningarsamning við heimspekideild Háskóla Íslands og var því að formi til sagt upp störfum af sama stjórnvaldi og réði hann til starfa.
Í þágildandi starfsmannalögum nr 38/1954 var hvergi gert ráð fyrir að starfsmenn ríkisins gætu fengið störf sín aftur þótt þeim væri vikið úr starfi án saka. Samkvæmt 3. mgr. gr. laganna var þeim hins vegar tryggður bótaréttur vegna ólögmætrar brottvikningar úr starfi. Samkvæmt framansögðu og með hliðsjón af almennum reglum vinnuréttar verður að líta svo á að ákvörðun um starfslok stefnanda hafi verið endanleg og verður ekki fallist á kröfu stefnanda um viðurkenningu á því að ráðningarsamningur hans sé í gildi.
Af framangreindu leiðir að krafa stefnanda um laun frá 1. ágúst 1993 verður heldur ekki tekin til greina.
Fyrir liggur að menntamálaráðherra tók ekki ákvörðun um að segja stefnanda upp störfum. Er kröfu viðurkenningar og bótakröfu samkvæmt þessum kröfulið ranglega beint að íslenska ríkinu og ber að sýkna það af kröfunni á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 19/1991.
Um 2. kröfulið.
Fyrir liggur að menntamálaráðherra tók ekki ákvörðun um að stofna til tímabundinnar lektorsstöðu í spænsku og kom ekki við sögu ráðningar í stöðuna að öðru leyti en því að staðfesta ráðningarsamninginn. Á íslenska ríkið því ekki aðild að kröfu samkvæmt þessum kröfulið og ber að sýkna það af kröfunni á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 19/1991.
Engin rök voru færð fyrir uppsögn stefnanda í uppsagnarbréfi til hans og í bréfi deildarforseta til stefnanda þar sem uppsögnin var rökstudd var ekki vikið að því að verið væri að leggja starf hans niður. Þau sjónarmið komu fyrst fram í bréfi háskólarektors til stefnanda dags. 25. ágúst 1995 en þar var vitnað til þess mats lögmanns háskólans að staða stefnanda hafi verið lögð niður og að fyrir hendi væri réttur til biðlauna.
Fyrir liggur að heimspekideild taldi að áfram væri þörf fyrir þá stöðu sem stefnandi gegndi. Áður en stefnanda var sagt upp störfum hafði deildarráð heimspekideildar samþykkt tillögu deildarforseta um að auglýst yrði laus til umsóknar sérstök tímabundin lektorsstaða í spænsku. Í bókun frá fundinum segir síðan orðrétt: „Um er að ræða stöðu þá sem Aitor Yraola gegnir nú, en hann hefur ekki fengið hæfnisdóm í lektorsstöðu. Hann situr í óheimilaðri stöðu og er ráðinn ótímabundið með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti.”
Hvorki auglýsing um stöðuna né annað það sem fram er komið í málinu rennir stoðum undir það að hin tímabundna lektorsstaða sem Margrét Jónsdóttir var ráðinn til að gegna hafi verið frábrugðin þeirri lektorsstöðu sem stefnandi hafði gegnt frá 1984. Ljóst er því að eingöngu var um að ræða breytingar á ráðningar- eða veitingarformi en það eitt og sér getur með engu móti talist fela í sér að staða sé lögð niður. Verður því að hafna þeim röksemdum stefnda sem fram komu eftir starfslok stefnanda að staða hans hafi verið lögð niður enda gerði stefnandi skýran fyrirvara um að hann teldi laun þau sem hann fékk eftir 1. ágúst ekki vera biðlaun.
Eins og fyrr segir hefur af hálfu stefnda Háskóla Íslands verið byggt á því að staða stefnanda hafi verið lögð niður. Með hliðsjón af því og þar sem ekki var staðið að uppsögn stefnanda með réttum hætti bar stefnda að líta til ákvæða 2. mgr. 14. gr. þágildandi starfsmannalaga nr. 38/1954 við ráðningu í hina tímabundnu lektorsstöðu.Í 1. mgr. 14. gr. framangreindra laga var ákvæði um biðlaunarétt og var það skilyrði m.a. sett fyrir honum að starfsmaður hefði ekki hafnað sambærilegri stöðu á vegum ríkisins. Niðurlagsákvæði 1. mgr. var íþyngjandi fyrir ríkisstarfsmenn gagnvart ríkinu og hafa dómstólar því skýrt hugtakið „sambærileg staða" rúmt ríkisstarfsmönnum í hag. Önnur sjónarmið hljóta að gilda um skýringar á orðalaginu sama staða í 2. mgr. 14. gr. Verður því ekki fallist á með stefnda að það að stöður teljist ekki hafa verið sambærilegar í skilningi 1. mgr. 14. gr. komi í veg fyrir að um sömu stöðu teldist vera um að ræða í skilningi 2. mgr. greinarinnar.
Sérstök hæfnisnefnd taldi stefnanda og annan umsækjanda hæf til að gegna stöðunni. Þegar litið er til þeirra sjónarmiða sem teflt hefur verið fram af hálfu stefnda Háskóla Íslands um skipan hæfnisnefndarinnar og upplýsinga sem fram hafa komið um menntun og störf Jóns Skaptasonar verður ekki fallist á með stefnanda að dómnefndin hafi ekki verið skipuð í samræmi við ákvæði 3. mgr. 11. gr. laga nr. 131/1990. Með hliðsjón af orðalagi auglýsingar um stöðuna og farmlagðri niðurstöðu dómnefndar um hæfni umsækjenda verður ekki ráðið að sú sem ráðinn var hafi verið betur að stöðunni komin en stefnandi. Fyrir liggur hins vegar að meirihluti fundarmanna á deildarfundi greiddi öðrum en stefnanda atkvæði sitt og varð það til þess að hann var ekki ráðinn í stöðuna. Telja verður að forgangsréttur manna til stöðu á grundvelli 2. mgr. 14. gr. starfsmannalaga geti ekki oltið á því hvaða aðferð hefur verið lögbundin í sérlögum varðandi val á umsækjendum ef niðurstaðan er sú að gengið er framhjá manni sem telst jafn hæfur og aðrir umsækjendur og gegnt hefur sömu stöðu. Samkvæmt því þykir stefndi Háskóli Íslands ekki hafa sýnt fram á neitt það sem réttlætt getur að hann var ekki ráðinn í hina auglýstu stöðu.
Ráðið var í umrædda lektorsstöðu frá 7. september 1995 til þriggja ára og er sá ráðningartími nú liðinn. Stefnandi þykir því ekki lengur hafa lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um viðurkenningu á forgangsrétti sínum til lektorsstöðunnar. Verður viðurkenningarkröfunni því vísað frá dómi án kröfu hvað varðar stefnda Háskóla Íslands, með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 19/1991. Hins vegar má fallast á þá málsástæðu stefnanda að hann hafi átt forgangsrétt til stöðunnar á grundvelli 2. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954 og verður litið til þess við úrlausn um bótakröfu stefnanda.
Um 3. kröfulið
Af hálfu stefnanda er byggt á því að verði ráðningarsamningurinn við hann ekki talinn í gildi beri honum skaðabætur og miskabætur vegna ólögmætrar uppsagnar hans.
Samkvæmt framansögðu hefur þegar verið komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun um uppsögn stefnanda hafi verið tekið af stjórnvaldi sem ekki var bært til að taka slíka ákvörðun og uppsögnin af þeim sökum verið ólögmæt. Rétt þykir þó að líta á önnur atriði varðandi lögmæti ákvörðunarinnar.
Af bókunum frá fundum deildarráðs heimspekideildar og rökstuðningi deildarforseta í bréfi til stefnanda 8. mars 1995 er ljóst að ástæður uppsagnarinnar voru fyrst og fremst þær að heimspekideild var að fylgja eftir þeirri stefnu sinni að kennarar skyldu keppa um stöður eftir að þær hefðu verið auglýstar og að enginn gæti setið í stöðu sinni nema hann hefði hlotið hæfnisdóm. Þessari stefnu virðist þó hafa verið fylgt eftir með ýmsum hætti hvað varðar aðrar kennarastöður við deildina sem ekki var varanleg heimild fyrir.
Stefnandi hafði starfað sem kennari við Háskóla íslands í 10 ár þegar gerður var við hann ótímabundinn ráðningarsamningur og þar af verið settur lektor frá ári til árs í rúm sjö ár. Á þeim tíma hafði Háskóli Íslands ekki séð ástæðu til að láta stefnanda undirgangast hæfnisdóm fyrr en dómnefnd var sett á stofn í upphafi árs 1990 til að fjalla um umsókn stefnanda um flutning í dósentsstöðu. Niðurstaða þeirrar dómnefndar lá ekki fyrir fyrr en í júlí 1991 eftir að ótímabundinn ráðningarsamningur hafði verið gerður við stefnanda. Niðurstaða dómnefndarinnar var afdráttarlaus um það að stefnandi hefði ekki hæfni til að gegna dósentsstöðu í spænsku. Dómnefndarvinnan dróst úr hófi fram og hafði stefnandi áður en starfi nefndarinnar lauk sent heimspekideild doktorsritgerð á spænsku með ósk um að fá að verja hana við deildina. Þeirri beiðni var hafnað á þeim grundvelli að ekki fyndust hæfir menn til að fjalla um hana. Framangreind ritgerð var ekki send dómnefndinni. Í niðurstöðu framangreindrar dómnefndar var ekki tekið af skarið um hæfni stefnanda til að gegna lektorsstöðu. Heimspekideild bar að taka niðurstöðu dómnefndarinnar með þeim fyrirvara að doktorsritgerð stefnanda hafði ekki legið til grundvallar hæfnisdóminum.
Af hálfu heimspekideildar var ekki aðhafst frekar til að fá dóm um hæfni stefnanda til að gegna lektorsstöðu heldur ákveðið að auglýsa starfið laust til umsóknar. Niðurstaða dómnefndar um hæfni umsækjenda um stöðuna leiddi síðan í ljós hæfni stefnanda til að gegna lektorsstöðu auk þess sem dómnefnd við Háskólann í Osló mat stefnanda hæfan til að gegna stöðu dósents við spænskudeild skólans.
Svo virðist sem ráðningarmál Háskóla Íslands hafi verið með talsverðum losarabrag á þeim tíma sem gerður var ráðningarsamningur við stefnanda. Fram er komið að nemendum við skólann hafði fjölgað mjög og námsframboð aukist án þess að heimildir hafi fengist til þess að fjölga föstum kennarastöðum að sama skapi. Brugðist var við þessu m.a. með fjölgun stundakennara og tímabundnum setningum í stöður lektora. Framangreind bókun 6 með kjarasamningi Félags háskólakennara virðist hafa reynt enn frekar á þetta fyrirkomulag.
Aðilar hafa deilt um hvort heimspekideild hafi farið eins að varðandi aðrar stöður við deildina sem ekki var gegnt af skipuðum kennurum. Fyrir liggur að þeir tveir kennarar sem gegndu stöðum með sama ráðningarformi og stefnandi hafa fengið hæfnisdóma vegna umsókna um aðrar stöður og hafa haldið stöðum án þess að þær væru auglýstar. Þær stöður sem auglýstar hafa verið hafa áður verið setnar af kennurum með setningar eða tímabundna ráðningarsamninga. Fyrir liggur að stefnandi hafði þá sérstöðu að hann hafði ekki hlotið skýran hæfnisdóm sem lektor en hafði hins vegar undirritað ótímabundinn ráðningarsamning. Stefnandi hafði því nokkra sérstöðu og verður ekki fullyrt að heimspekideild hafi ekki gætt jafnræðis þegar ákveðið var að auglýsa stöðu hans. Verður því ekki talið að stefnandi hafi brotið gegn 8. eða 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur var með lögum nr. 62/1994 eða jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar eins og henni var breytt með lögum nr. 97/1995 sem tóku gildi 5. júlí 1995.
Þá þykir stefnandi ekki hafa leitt neinar líkur að því að lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 28/1991 eigi við í máli þessu.
Stefnandi hafði gegnt stöðu lektors í spænsku í 14 ár án ávirðinga að því er séð verður og gerður hafði verið við hann ótímabundinn ráðningarsamningur. Þá hafði stefnandi varið doktorsritgerð frá spænskum háskóla 1992 og var því fyllsta ástæða til að ætla að hann yrði dæmdur hæfur til að gegna stöðu lektors eins og síðar var í ljós leitt. Verður að fallast á með stefnanda að önnur og vægari úrræði hafi verið nærtækari en það að segja stefnanda upp störfum og auglýsa stöðuna eins og t.d. að ganga úr skugga um hæfni hans til lektorsstarfa í spænsku með því að skipa hæfnisnefnd. Þess í stað var honum sagt upp störfum og annar ráðinn til að gegna starfanum þrátt fyrir að þá lægi fyrir niðurstaða um hæfni hans til að gegna lektorsstarfinu.
Á grundvelli heildstæðs mats á framangreindum vinnubrögðum heimspekideildar verður að líta svo á að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu 12. greinar stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með uppsögn stefnanda og ráðningu annars umsækjanda í stöðuna. Ekki skiptir í því sambandi máli þótt ráðið hafi verið í stöðuna í samræmi við niðurstöðu atkvæðagreiðslu á deildarfundi heimspekideildar.
Samkvæmt framansögðu bar að fara að fyrirmælum 1. mgr. 11. gr. starfsmannalaga nr. 38/1954 ef veita átti stefnanda lausn frá lektorsstörfum. Fullvíst má telja að verulegu máli hefði skipt fyrir stefnanda og framhald málsins ef honum hefði verið gefinn kostur á að tala máli sínu áður en endanleg ákvörðun um starfslok hans var tekin. Nægur tími gafst til þess þar sem uppsögnin var ákveðin á deildarfundi í byrjun febrúar 1995 en uppsögnin tók ekki gildi fyrr en 1. ágúst það ár. Með því að leita ekki eftir sjónarmiðum stefnanda var brotið gegn 1. mgr. 11. gr. starfsmannalaga og andmælarétti stefnanda samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Af hálfu stefnda Háskóla Íslands hefur því verið haldið fram að starf stefnanda hafi verið lagt niður. Hafi stefnanda verið greidd biðlaun í sex mánuði og eigi því ekki rétt til frekari bóta. Stefnanda var sem fyrr segir sagt upp störfum 6. febrúar 1995 miðað við starfslok 1. ágúst sama ár. Óumdeilt er að stefnandi fékk greidd laun út október það ár. Stefnandi gerði þann fyrirvara við móttöku launanna að hann liti ekki á þau sem biðlaun. Þeirri málsástæðu stefnda, að lektorsstaða stefnanda hafi verið lögð niður, hefur verið hafnað og verður því ekki fallist á með stefnda að stefnandi hafi tæmt bótarétt sinn með töku biðlauna.
Þar sem ákvörðun um uppsögn stefnanda var tekin af stjórnvaldi sem ekki var til þess bært og vegna þeirra alvarlegu annmarka sem voru á undirbúningi hennar telst uppsögnin hafa verið ólögmæt. Samkvæmt því telst vera um óréttmætan stöðumissi að ræða og á stefnandi því rétt til bóta úr hendi stefnda Háskóla Íslands á grundvelli 3. mgr. 11. gr. laga nr. 38/1954, sem raunar er efnislega samhljóða 2. mgr. 32. gr. núgildandi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996.
Þeir útreikningar sem stefnandi byggir kröfu sína á verða ekki lagðir til grundvallar fjárhæð skaðabóta heldur þau sjónarmið sem fram koma í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 38/1954 og eins verður horft til dómaframkvæmdar.
Enda þótt komist hafi verið að þeirri niðurstöðu samkvæmt framansögðu að ákvörðun um starfslok stefnanda hafi verið ólögmæt verður til þess að líta við ákvörðun bóta að ekki hafði verið stofnað til fastrar kennslustöðu í spænsku samkvæmt þeim lögum og reglum sem um slíkar stöður hafa verið settar. Þá hafði stefnandi var ráðinn sem lektor með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti án þess staðan væri auglýst og án þess að gangast undir hæfnisdóm. Stefnanda var því veitt starfið með þeim hætti að hann mátti vart treysta því að halda því til loka starfsæfi sinnar. Á hitt ber þó að líta að Háskóli Íslands lét fram hjá sér fara tækifæri til að rétta hlut stefnanda með því að ráða hann í hina tímabundna lektorsstöðu til þriggja ára.
Stefnandi var 42 ára þegar honum var sagt upp störfum. Stefnandi hefur góða menntun og ætti að hafa allgóða tekjuöflunarmöguleika hér á landi og erlendis. Stefndi er fæddur og uppalinn á Spáni og má fallast á með stefnanda að hér á landi séu tiltölulega fá störf sem falli vel að menntun hans og starfsreynslu. Stefnandi hefur búið hér á landi frá því fyrir 1981 ásamt eiginkonu sinni sem er kennari. Þau eiga þrjú börn á skólaaldri. Líklegt þykir að stefnandi þurfi annað tveggja að sætta sig við lakar launað starf hér á landi en lektorsstarfið eða að sækja atvinnu til útlanda með tilheyrandi röskun á högum fjölskyldu, takmarkaðri atvinnumöguleikum eiginkonu og e.t.v. kostnaði við að reka tvö heimili. Verður að líta til þessa við ákvörðun bóta.
Við ákvörðun bóta er ennfremur litið til þess að stefnanda var sagt upp störfum frá 1. ágúst 1995 að telja en fékk greidd laun út október 1995. Einnig verður litið til þess að samkvæmt framlögðum upplýsingum frá Skattstjóranum í Reykjavík voru laun stefnanda 1.422.238 krónur á árinu 1993, 1.552.253 krónur á árinu 1994 en laun ásamt atvinnuleysisbótum 1.346.079 krónur á árinu 1995. Á árinu 1996 voru laun stefnanda 118.575 krónur og atvinnuleysisbætur 450.080 krónur. Stefnandi virðist ekki hafa þegið laun hér á landi á árinu 1997. Fyrir liggur að laun stefnanda voru greidd af Háskóla Íslands og þar sem framangreindar ólögmætar ákvarðanir voru allar teknar af starfsmönnum Háskóla Íslands þykir bótakröfunni réttilega beint að honum.
Samkvæmt framansögðu þykja bætur til stefnanda hæfilega ákveðnar 4.000.000 krónur. Fallist er á kröfu stefnanda um að bótafjárhæðin beri dráttarvexti frá 1. nóvember 1995 til greiðsludags, eins og nánar greinir í dómsorði.
Með hliðsjón af því sem að framan er rakið þykir stefnandi þó ekki hafa sýnt fram á að í stjórnvaldsákvörðunum starfsmanna stefnda felist ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda, samanber 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Lagaheimild þykir því skorta til að dæma stefnanda miskabætur úr hendi stefnda.
Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir rétt að stefndi Háskóli Íslands greiði málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 500.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til áhrifa virðisaukaskatts á málskostnaðarfjárhæð. Málskostnaðurinn renni í ríkissjóð.
Rétt þykir með hliðsjón af atvikum öllum að stefndi íslenska ríkið beri sinn kostnað af málinu.
Stefnandi fékk gjafsókn í málinu með gjafsóknarleyfi dómsmálaráðherra 28. janúar 1998. Af hálfu stefnanda hefur verið lagður fram málskostnaðarreikningur þar sem fram kemur að lögmaður stefnanda hafi unnið í 289 klst. að málinu en ekki er tilgreindur neinn útlagður kostnaður af málshöfðuninni. Til gjafsóknarkostnaðar stefnanda telst því eingöngu málflutningsþóknun lögmanns hans Brynjars Níelssonar hrl. sem með hliðsjón af umfangi málsins og framlögðum málskostnaðarreikningi þykir hæfilega ákveðin 950.000 krónur.
Lögmaður stefnda Háskóla Íslands var Hörður Felix Harðarson hdl. en lögmaður íslenska ríkisins Jón G. Tómasson hrl.
Sigurður T. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð
Stefnda, íslenska ríkið, er sýknað af öllum kröfum stefnanda, Aitors Eyþórs Yraola, en málskostnaður fellur niður.
Stefndi, Háskóli Íslands, er sýknaður af kröfu stefnanda um að viðurkennt verði að ráðningarsamningur hans við Háskóla Íslands frá 5. apríl 1991 sé í gildi og af kröfu um vangreidd laun samkvæmt þeim samningi.
Kröfu stefnanda, um viðurkenningu á forgangsrétti hans til lektorsstöðu í spænsku við Háskóla Íslands, sem auglýst var laus til umsóknar 19. mars 1995, er vísað frá dómi án kröfu hvað varðar Háskóla Íslands.
Stefndi, Háskóli Íslands, greiði stefnanda 4.000.000 króna, með dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 1. nóvember 1995 til greiðsludags.
Stefndi Háskóli Íslands greiði 500.000 krónur í málskostnað sem renni í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er tildæmd málflutningsþóknun lögmanns hans, Brynjars Níelssonar hrl., 950.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.