Hæstiréttur íslands

Mál nr. 363/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Þinghald
  • Sératkvæði


Föstudaginn 18. júní 2010.

Nr. 363/2010.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) 

Kærumál. Þinghald. Sératkvæði.

Ríkissaksóknari höfðaði mál gegn X fyrir kynferðisbrot með því að hafa keypt vændi, sbr. 1. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga. Héraðsdómari ákvað að öll þinghöld í málinu skyldu vera lokuð. H krafðist, sem borgari, blaðamaður og talskona Femínistafélags Íslands, úrskurðar um lokun þinghalds, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008. Í Hæstarétti var talið að samkvæmt almennum reglum réttarfars yrði sá sem krefst úrskurðar samkvæmt framangreindu lagaákvæði að eiga lögvarða hagsmuni af sakarefni málsins. Yrði lýsing H ekki skilin á annan hátt en þann að hún léti sig málið varða sem almennur borgari sem áhuga hefði á að fylgjast með rekstri málsins. Samkvæmt nefndri meginreglu réttarfars geti slíkt ekki talist fullnægjandi til aðildar að kröfu samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga  nr. 88/2008 og þá heldur ekki til að kæra til Hæstaréttar úrskurð um lokun þinghalda í máli. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Halla Gunnarsdóttir, Flókagötu 16, Reykjavík, skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2010, þar sem þinghöldum í málinu nr. S-396/2010 var lokað. Um kæruheimild vísar kærandi til b. liðar 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Hún krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að þinghöld í málinu verði opin, en til vara að lokun þinghalda nái aðeins til skýrslugjafar vitna í málinu.

Sóknar- og varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði ákvað héraðsdómari við útgáfu fyrirkalls í málinu, sbr. 1. mgr. 155. gr. laga nr. 88/2008, að þinghald til þingfestingar þess yrði lokað. Í því þinghaldi 2. júní 2010 var bókað með vísan til a. og d. liða 1. mgr. 10. gr. sömu laga, að þinghaldið skyldi vera lokað svo og öll þinghöld í málinu eftir það. Við þingfestinguna voru lögð fram ýmis skjöl, meðal annars ákæra og skjalaskrá ásamt fylgigögnum. Þá var lagt fram bréf kæranda 28. maí 2010 þar sem hún krafðist þess að ,,formlegur úrskurður verði kveðinn upp um lokað þinghald í réttarhöldum yfir grunuðum vændiskaupanda í máli nr. S-396/2010, svo hægt sé að láta reyna á réttmæti þeirrar ákvörðunar fyrir æðra dómstigi. Setur undirrituð fyrrgreinda kröfu fram sem borgari, blaðamaður og talskona Femínistafélags Íslands...“

Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp eftir að sóknar- og varnaraðilar höfðu tjáð sig um kröfu kæranda. Í kæru til Hæstaréttar kveðst kærandi byggja aðild sína á 2. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2010 og gerir hún í greinargerð til Hæstaréttar grein fyrir henni með sama hætti og í framangreindu bréfi til héraðsdóms.

Í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um heimild dómara til að ákveða að þinghöld í máli skuli vera lokuð. Segir þar að sá sem ekki sætti sig við ákvörðun dómara geti krafist þess að hann kveði upp úrskurð um hvort þinghöld eða einstakt þinghald skuli háð fyrir luktum dyrum.

Talið verður samkvæmt almennum reglum réttarfars að sá sem krefst úrskurðar dómara samkvæmt framangreindu lagaákvæði verði að eiga lögvarða hagsmuni af sakarefni málsins. Kærandi hefur látið við það sitja að lýsa hagsmunum sínum af málinu með þeirri almennu lýsingu á sjálfri sér sem að framan greinir. Verður þetta ekki skilið á annan hátt en þann að hún láti sig málið varða sem almennur borgari sem áhuga hefur á að fylgjast með rekstri málsins. Samkvæmt nefndri meginreglu réttarfars getur slíkt ekki talist fullnægjandi til aðildar að kröfu samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga  nr. 88/2008 og þá heldur ekki til að kæra til Hæstaréttar úrskurð um lokun þinghalda í máli samkvæmt b. lið 1. mgr. 192. gr. sömu laga. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

                                               

Sératkvæði

Hjördísar Hákonardóttur hæstaréttardómara

Ég er ósammála túlkun meirihluta dómenda á þeim lagarökum sem varða aðild kæranda að máli þessu. Í 3. málslið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála segir: „Sá sem sættir sig ekki við ákvörðun dómara getur krafist þess að hann kveði upp úrskurð um það hvort þinghöld eða einstakt þinghald skuli háð fyrir luktum dyrum.“ Efnislega verður ákvæði þetta rakið til laga nr. 36/1999 þar sem breytt var 8. gr. þágildandi laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Miðuðu breytingar þær sem þá voru gerðar einkum að því að bæta réttarstöðu brotaþola. Í athugasemdum við 10. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 88/2008 er vísað til þessarar breytingar og tekið fram að sá möguleiki að krefjast úrskurðar dómara um ákvörðun varðandi það hvort þinghald skuli háð fyrir luktum dyrum, og eftir atvikum að kæra slíkan úrskurð, hafi ekki aðeins nýst brotaþola, heldur einnig öðrum svo sem fréttamönnum, sbr. dóm Hæstaréttar frá 13. nóvember 2000 í máli nr. 407/2000. Skýra verður þetta fordæmi Hæstaréttar þannig, að réttindin einskorðist ekki við ákæruvald, ákærða eða þolendur við rekstur sakamáls og er það í samræmi við orðalag ákvæðisins „sá sem sættir sig ekki við“. Í íslenskum rétti hefur á hinn bóginn ekki verið viðurkennd sú regla að almenningur geti átt aðild að dómsmálum og er orðalag þetta ekki svo afdráttarlaust að talið verið að með því hafi sú veigamikla breyting verið gerð að innleiða almenna aðild að dómsmálum.

Það er grundvallarregla að þinghöld í dómsmálum séu opin, en lög leyfa undantekningar þar frá. Kærandi máls þessa krafðist formlegs úrskurðar um ákvörðun dómara um að loka þinghaldi með vísan til 2. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008 og vísaði til framangreinds fordæmis Hæstaréttar þar sem kæra blaðamanns um sambærilegt ágreiningsefni fékk efnislega umfjöllun. Setur kærandi kröfu sína fram sem „borgari, blaðamaður og talskona Femínistafélags Íslands“. Eins og að framan greinir verður ekki fallist á það að almennur borgari sem slíkur geti átt aðild að kröfunni, á hinn bóginn getur blaðamaður átt það í krafti þeirrar skyldu sinnar að upplýsa almenning um meðferð og framgang dómsmála. Með svipuðum rökum tel ég að ef efni máls varðar samfélagslega hagsmuni sem tilgreindir hópar eða félagasamtök láta sérstaklega til sín taka, þá séu þeir ekki síður en hinn almenni blaðamaður í þeirri stöðu að þeir eigi að hafa möguleika á að fá úr því skorið hvort þinghald í máli sem snýst um slíka hagsmuni verði lokað. Leiði ég þetta af hinu víða orðalagi lagaákvæðisins og tilgangi löggjafans sem birtist í framagreindum athugasemdum. Femínistafélag Íslands hlýtur að teljast hagmunaaðili í þessum skilningi þegar um er að ræða dómsmál um vændiskaup. Leggja verður til grundvallar að kærandi sé blaðamaður þó að hún tilgreini ekki sérstakan fréttamiðil og að hún sé talskona Femínistafélags Íslands. Ég tel að sem slík geti hún átt aðild að máli þessu og að kæra hennar eigi að fá efnislega umfjöllun hjá réttinum. Þar sem meirihluti dómsins hefur vísað málinu frá Hæstarétti er hins vegar ekki tilefni til að fjalla um efnisþátt þess.

                                                                        

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2010.

Í málinu er ákærða gefið að sök kynferðisbrot með því að hafa keypt vændi og er það talið varða við 1. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga.  Við útgáfu fyrirkalls ákvað dómarinn að þinghald til þingfestingar málsins yrði lokað.  Hann byggði þá ákvörðun á a og d liðum 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008.  Í upphafi nefndrar lagagreinar kemur fram  að þinghöld skuli háð í heyranda hljóði, en í greininni eru undantekningar frá meginreglunni sem miða að því að vernda sakborninga, brotaþola, vandamenn þeirra, vitni eða aðra sem málið varða.

 Halla Gunnarsdóttir, sem krafist hefur þess að þinghaldið verði opið, byggir kröfu sína á því að framangreindar undantekningar eigi ekki við í þessu máli fremur en öðrum og nefnir sem dæmi líkamsárásamál og fíkniefnamál.  Telur hún að kaupendur vændis eigi ekki að njóta meiri friðhelgi en aðrir meintir brotamenn. 

Í þessu máli er fjallað um viðkvæm málefni ákærða og stúlkunnar sem hann er sakaður um að hafa keypt vændi af og eiga því nefndar undantekningar í 10. gr. sakamálalaganna við í málinu.  Kröfu Höllu Gunnarsdóttur er því hafnað og skulu þinghöld í málinu vera lokuð, sbr. 2. mgr. 10. gr. sakamálalaganna.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Þinghöld í málinu nr. S-396/2010 skulu vera lokuð.