Hæstiréttur íslands

Mál nr. 367/1999


Lykilorð

  • Fiskveiðar
  • Veiðarfæri
  • Refsinæmi


           

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000.

Nr. 367/1999.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

John Harald Östervold

(Gunnar Sólnes hrl.)

                                              

Fiskveiðar. Veiðarfæri. Refsinæmi.

J, skipstjóri á norsku skipi, var ákærður fyrir fiskveiðibrot með því að hafa verið á loðnuveiðum innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og notað við veiðarnar loðnunót með möskva undir lágmarksmöskvastærð. Var brotið talið varða við 11. og 12. gr., sbr. 4. mgr. 15. gr. laga nr. 22/1998 um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands og 13., sbr. 17. gr. reglugerðar nr. 367/1999 um loðnuveiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands á loðnuvertíðinni 1999/2000. Eftir uppkvaðningu héraðsdóms, þar sem J var sakfelldur, voru 2. og 3. mgr. 13. gr. umræddrar reglugerðar felldar úr gildi, auk þess sem felld var úr gildi reglugerð nr. 313/1994 um lágmarksmöskvastærð loðnunóta. Talið var að mælingar á möskvum nótar skips J hefðu verið framkvæmdar í samræmi við gildandi réttarheimildir og að sannað hefði verið að þannig mældir hefðu möskvarnir ekki staðist þágildandi reglur um lágmarksmöskvastærð í loðnunótum. Með vísan til 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 var hins vegar talið að dæma bæri málið eftir þeim reglum sem nú giltu og var það óhjákvæmilega talið leiða til sýknu J. Var J því sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins.  

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. september 1999 að ósk ákærða með vísan til a., b., c. og d. liða 147. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. lög nr. 37/1994, og krefst hann staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins.

Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt, sem vikið verður að síðar.

I.

Í héraðsdómi er greint frá málsatvikum og þeim laga- og reglugerðarákvæðum, sem ákæra málsins byggðist á. Með heimild í lögum nr. 22/1998 um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands gaf sjávarútvegsráðherra hinn 28. maí 1999  út reglugerð nr. 367/1999 um loðnuveiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands á loðnuvertíðinni 1999/2000. Í 2. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar sagði að möskvastærð í loðnunótum skyldi vera að minnsta kosti 19,6 mm ef um ferkantaða möskva væri að ræða, en möskvar í nót þeirri, sem mál þetta fjallar um, voru með því lagi. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar var skipum óheimilt að hafa um borð loðnunætur með annarri möskvastærð en um gat í 2. mgr.

Á grundvelli laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, áður laga nr. 81/1976, var í gildi reglugerð nr. 313/1994 um lágmarksmöskvastærðir loðnunóta. Í 1. tl. 1. gr. reglugerðarinnar var mælt fyrir um sömu lágmarksstærð möskva í nótum með ferköntuðum möskvum og í 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 367/1999. Í 2. gr. reglugerðarinnar var mælt fyrir um, hvernig möskvi skyldi mældur, og skyldi það vera innanmálsmæling, eins og nánar er lýst í héraðsdómi. Þar er einnig lýst ákvæðum reglugerðar nr. 24/1998 um möskvamæla og framkvæmd möskvamælinga.

II.

Eftir uppsögu héraðsdóms hefur sjávarútvegsráðuneytið gefið út þrjár reglugerðir, sem snerta sakarefni máls þessa. Hinn 20. september 1999 var gefin út reglugerð nr. 606/1999 um lágmarksmöskvastærðir í loðnunótum, en með henni var felld úr gildi reglugerð nr. 313/1994. Segir þar í 1. gr. að við mælingu möskvastærðar í loðnunótum skuli miðað við fjölda möskva á alin, sem teljist 62,7 cm. Hámarksfjöldi möskva á alin þegar möskvarnir séu ferhyrndir skuli vera 32.  Í 2. gr. segir að möskvinn skuli teygður horna á milli eftir lengd netsins þegar fjöldi möskva á alin sé mældur. Reglugerð nr. 24/1998 skuli gilda um mælingar, eftir því sem við eigi.

Með reglugerð nr. 28/2000, sem gefin var út 17. janúar síðastliðinn, var reglugerð nr. 606/1999 felld úr gildi, án þess að í stað hennar kæmu efnislegar reglur. Með reglugerð nr. 29/2000 frá 20. janúar síðastliðinn voru 2. og 3. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 367/1999, sem kváðu á um lágmarksmöskvastærð loðnunóta, felldar úr gildi.

III.

Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð nokkur bréf varðandi mál þetta, sem rituð voru í tilefni setningar reglugerðar nr. 606/1999. Með bréfi 11. október 1999 til sjávarútvegsráðuneytisins óskaði ríkissaksóknari umsagnar þess um tilefni og ástæður fyrir útgáfu reglugerðarinnar og hvort útgáfa hennar hafi með einum eða öðrum hætti staðið í tengslum við mál ákærða. Var þess getið að fyrirspurnin væri sett fram meðal annars með hliðsjón af ákvæðum 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og til þess vísað að málið væri í áfrýjun.

Í svarbréfi sjávarútvegsráðuneytisins 14. október 1999 segir að eftir dóm í máli ákærða hafi orðið nokkrar umræður meðal útgerðarmanna og netagerðarmanna um hver möskvastærð væri í þeim nótum, sem notaðar væru til veiða hér við land og hvernig að mælingum möskva skyldi standa. Ráðuneytinu hafi komið þessi umræða á óvart enda hefðu reglur um það, hvernig að mælingu möskva skyldi standa, verið óbreyttar frá 1978. Í því skyni að skýra málið hafi ráðuneytið falið Hafrannsóknarstofnuninni að kanna það og hafi það orðið niðurstaða hennar að gera tillögu um breytingu á reglugerð nr. 313/1994. Í bréfi Hafrannsóknarstofnunar 17. september 1999 til ráðuneytisins, sem fylgdi bréfi þess, segir að markmið með reglugerð nr. 313/1994 hafi verið að koma í veg fyrir veiðar á ókynþroska smáloðnu og minnka ánetjun á sumar- og haustvertíð. Ákvæði í reglugerðinni um 19,6 mm lágmarksstærð svari til 64 umferða (leggja) eða 32 möskva á alin, sem teljist vera 62,7 cm. Vinnuregla innflytjenda og netaverkstæða sem setji upp nætur sé að telja fjölda möskva eða leggja á lengdareiningu í strekktu neti í stað þess að mæla innanmál, sem erfitt sé að beita við svo smáan riðil. Ástæðan sé einnig sú að pokaendi nótanna og að hluta til skáinn, sem að honum liggur, séu hafðir úr sverara garni, enda þurfi þessir hlutar nótarinnar að vera miklu sterkari en aðalhlutinn. Sama gegni um 2-4 faðma af neti við kork- og blýjateinana. Möskvarnir séu því smærri að innanmáli í þessum hlutum nótarinnar þótt þeir séu jafnmargir miðað við lengdareiningu. Loðnunætur hafi alltaf verið byggðar upp á þennan hátt og virðist skilja smáloðnuna frá eins og til hafi verið ætlast. Til samræmingar og einföldunar lagði stofnunin því til að reglugerð nr. 313/1994 yrði felld úr gildi og ný reglugerð sett, sem kvæði á um að miðað skyldi við 32 möskva á alin á strekktu neti, þegar um ferhyrnda möskva væri að ræða. Segir og í bréfinu að með þessari aðferð gildi einu hvort mælt sé í aðalhluta nótar eða í þeim hlutum hennar, sem hafðir séu úr sterkara efni.

Með bréfi til Landhelgisgæslu Íslands 11. október 1999 óskaði ríkissaksóknari álits á því hvernig kæruefni í máli þessu horfi við með tilliti til hinna nýju reglna í reglugerð nr. 606/1999. Í svarbréfi lögfræðings landhelgisgæslunnar 21. október 1999 segir meðal annars, að það sé álit skipstjórnarmanna stofnunarinnar að möskvastærð í nót ákærða hefði ekki staðist reglur hinnar nýju reglugerðar og kærur hefðu allt að einu verið lagðar fram hefðu þessi ákvæði gilt. Til stuðnings því var bent á mælingu netagerðarmannsins Helga Sigfússonar, sem kom fyrir héraðsdóm sem vitni, eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi.

IV.

Fyrir héraðsdómi var tekist á um það, hvort við mælingar á möskvastærð loðnunóta skyldi miðað við innanmál möskva eða við fjölda möskva á alin. Í hinum áfrýjaða dómi er skýrt frá ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar til sjávarútvegs-ráðuneytisins á árinu 1994 áður en kom til útgáfu reglugerðar nr. 313/1994. Af framburði Hjálmars Vilhjálmssonar fyrir dómi þykir verða ráðið að í ráðgjöfinni hafi verið gert ráð fyrir 64 umferðum á alin, sem þýddi mælingu hnút í hnút en ekki innanmál. Í héraðsdómi er einnig gerð grein fyrir vætti manna, er starfað hafa lengi við netagerð, en þeir sögðust ekki þekkja aðra mæliaðferð við loðnunót en þá að miða við fjölda hnúta eða möskva á alin.

 Á hinn bóginn er ljóst að ákvæði 2. gr. reglugerðar nr. 313/1994 var skýrt um að miða skyldi við innanmál möskva, sbr. og ákvæði reglugerðar nr. 24/1998. Verður á það fallist með héraðsdómi að mælingar á möskvum nótar skips ákærða hafi verið framkvæmdar í samræmi við gildar réttarheimildir og að sannað hafi verið að þannig mældir hafi möskvarnir ekki staðist þágildandi reglur um lágmarksmöskvastærðir í loðnunótum, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 367/1999. Hins vegar liggur ekki óyggjandi fyrir í málinu hvort nótin fullnægði þeim ákvæðum, sem fram komu í reglugerð nr. 606/1999.

V.

Í 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga segir að hafi refsilöggjöf breyst frá því að verknaður var framinn til þess er dómur gengur, skuli dæma eftir nýrri lögunum, bæði um refsinæmi verknaðar og refsingu. Þar segir og að hafi refsiákvæði laga fallið úr gildi af ástæðum, sem ekki beri vitni um breytt mat löggjafans á refsinæmi verknaðar, skuli dæma eftir lögum þeim, sem í gildi voru, þegar brot var framið.

Ekki hafa orðið breytingar á refsiákvæðum laga nr. 22/1998 og 79/1997, sem vísað er til í ákæru málsins, frá því að ætlað brot ákærða var framið. Við mat á refsinæmi atferlis ákærða réðu hins vegar úrslitum ákvæði ofangreindra reglugerða um lágmarksmöskvastærð loðnunóta og aðferð við mælingu möskva, en þær voru settar með heimild í framangreindum lögum. Við munnlegan málflutning í Hæstarétti kom fram það álit ákæruvaldsins að eftir útgáfu þeirra nýju reglugerða, sem áður hefur verið gerð grein fyrir, gildi í raun engar reglur um möskvastærð loðnunóta erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands. Verður að telja líkur leiddar að því að til breytinga á umræddum reglum hafi komið meðal annars vegna máls þessa og vegna breytts mats þess stjórnvalds, sem samkvæmt lögum hefur heimild til að setja reglur um þessi efni, á því hvaða aðferðum skuli beitt við mælingar á möskvastærð umræddra veiðarfæra. Að þessu athuguðu þykir samkvæmt 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga bera að dæma málið eftir þeim reglum, sem nú gilda um þessi efni. Leiðir það óhjákvæmilega til þess að sýkna ber ákærða af öllum kröfum ákæruvaldsins í málinu.

Samkvæmt framansögðu skal allur kostnaður málsins í héraði og fyrir Hæstarétti greiðast úr ríkissjóði, eins og nánar segir í dómsorði.       

Dómsorð:

Ákærði, John Harald Östervold, skal vera sýkn af öllum kröfum ákæruvaldsins.

Sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Gunnars Sólnes hæstaréttarlögmanns, samtals 400.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 12. ágúst 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var 28. f.m., hefur sýslumaðurinn á Akureyri höfðað með tveimur ákæruskjölum, útgefnum á Akureyri 19. og 26. júlí s.l., á hendur John Harald Östervold, fæddum 22. júlí 1965, 5384 Torangsvåg, Noregi, skipstjóra á nótaskipinu Österbris H-127-AV, kallmerki LJME og útgerð skipsins, Havbraut AS, 5384 Torangsvåg, Noregi, en með heimild í 1. mgr. 23. gr. laga 19, 1991 um meðferð opinberra mála voru ákærurnar sameinaðar.

Ákæruskjal, útgefið 19. júlí 1999:

„… fyrir loðnuveiðibrot framið innan fiskveiðilandhelgi Íslands, með því að hafa, árdegis sunnudaginn 18. júlí 1999, verið á loðnuveiðum á skipinu 54 sjómílur NNA af Kolbeinsey, um 42,5 sjómílur innan íslenskrar fiskveiðilögsögu á stað: 67°57’4N – 17°37’9V, og notað við veiðarnar loðnunót með möskva undir lágmarksmöskvastærð, en við mælingu, er mældir voru 20 möskvar í poka nótarinnar reyndist möskvastærð vera að meðaltali 16,6 mm., eða 15,3% undir lágmarksmöskvastærð, sem er 19,6 mm. og við endurtekna mælingu á pokanum, þar sem mældir voru 40 möskvar reyndist möskvastærð vera að meðaltali 17,8 mm. og 17,9 mm. og möskvastærð 60 mældra möskva í pokanum reyndist því vera 17,4 mm., eða 11,2% undir áskilinni lágmarksmöskvastærð, samkvæmt reglugerð um loðnuveiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands á loðnuvertíðinni 1999/2000.

Brot ákærða John Harald Östervald telst varða við 11. gr. og 12. gr. sbr. 4. mgr. 15. gr. laga um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 22, 1998 og 13. gr., sbr. 17. gr. áðurnefndrar reglugerðar nr. 367, 1999, sbr. lög nr. 79, 1997. Brot útgerðarinnar telst varða við sömu greinar og raktar eru hér að framan, sbr. og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 22, 1998.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til upptöku hinna ólöglegu veiðarfæra og þess afla sem aflað var á ólögmætan hátt, sbr. 14. gr. laga nr. 22, 1998.“

Með ákæruskjali útgefnu 26. júlí 1999:

 

„… fyrir loðnuveiðibrot framið innan fiskveiðilandhelgi Íslands, með því að hafa, frá fimmtudeginum 22. júlí til laugardagsins 24. júlí 1999, verið á loðnuveiðum á skipinu, innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og notað við veiðarnar loðnunót með möskva undir lámarksmöskvastærð, en við mælingar varðskipsmanna á varðskipinu Ægi, þann 24. júlí 1999, reyndust möskvar í poka nótarinnar vera 18,6 mm. við fyrstu mælingu, en við aðra mælingu 19,1 mm. og við þriðju mælingu 18,2 mm, eða að meðaltali 18,62 mm., eða 5,0% undir áskilinni lámarksmöskvastærð (19,6.), samkvæmt reglugerð um loðnuveiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands á loðnuvertíðinni 1999/2000. Afli skipsins í greindir veiðiferð reyndist var 90 tonn af loðnu, en aflinn fékkst á eftirtöldum stöðum innan íslenskrar fiskveiðilögsögu: 68°02N – 17°43V, 68°04N – 17°40V, 67°59N – 17°48V og 67°55N – 17°40V og skipið var statt 29 sjómílur innan íslenskrar lögsögu, um 97 sjómílur norður af Grímsey, þegar varðskipið kom að því og snéri því til hafnar á Akureyri.

Brot ákærða John Harald Östervold telst varða við 11. gr. og 12. gr. sbr. 4. mgr. 15. gr. laga um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 22, 1998 og 13. gr., sbr. 17. gr. áðurnefndrar reglugerðar nr. 367, 1999, sbr. lög nr. 79, 1997. Brot útgerðarinnar telst varða við sömu greinar og raktar eru hér að framan sbr. og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 22, 1998.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til upptöku hinna ólöglegu veiðarfæra og þess afla sem aflað var á ólögmætan hátt, sbr. 14. gr. laga nr. 22, 1998.“

I.

Málsatvik:

Samkvæmt kæru Einars H. Valssonar, skipherra á varðskipinu Óðni til sýslumannsins á Akureyri, dags. 19. júlí 1999 þá stóð varðskipið Óðinn norska nótaveiðiskipið Österbris H-127-AV cs LJME að meintum ólöglegum loðnuveiðum sunnudaginn 18. júlí 1999 um 54 sjómílur NNA af Kolbeinsey með loðnunót, sem ekki reyndist uppfylla ákvæði 13. gr. reglugerðar nr. 367/1999 um loðnuveiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands á loðnuvertíðinni 1999 til 2000 og ákvæðum 9. tl. í veiðileyfi fyrir norsk loðnuveiðiskip í fiskveiðilandhelgi Íslands á loðnuvertíðinni 1999 til 2000. Skipstjórinn er ákærði í máli þessu, John Harald Östervold, fæddur 22.júlí 1965, til heimilis að 5384 Torangsvåg, Noregi.

Nánari atvik voru eftirfarandi: Kl. 08:46 kom varðskipið að m/s Österbris með veiðarfæri í sjó á stað 67°57´4N - 17°37´9V eða um 42,5 sjómílur innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Skipið hafði lokið við að kasta nótinni og var að byrja að draga hana um borð aftur. Haft var samband við skipið á VHF rás 16/6 og skipstjóra sagt að menn yrðu sendir um borð frá varðskipinu til eftirlits. Kl.09:06 fóru Lúðvík Friðbergsson 2. stýrimaður og Stefán Pétursson 3. stýrimaður frá varðskipinu um borð í m/b Österbris. Skipið var þá að ljúka við að draga nótina um borð. Kl. 10:03 var gerð eftirfarandi staðarákvörðun á skipinu: 67°56´3N - 17°36´7V. Við athugun á veiðarfæri skipsins hafi komið í ljós að möskvar í poka nótarinnar mældust undir lágmarksmöskvastærð. Mældir voru 20 möskvar í pokanum og var möskvastærð að meðaltali 16,6 mm en það er 15,3% undir lágmarksmöskvastærð sem er 19,6 mm. Einnig voru mældir 20 möskvar í nótinni sjálfri og reyndist meðalmöskvastærð vera 20 mm. Gerðar voru frekari mælingar á poka nótarinnar. Mældir voru 40 möskvar til viðbótar í pokanum. Meðalstærð 60 mældra möskva í pokanum reyndist vera 17,4 mm eða 11,2% undir lágmarksmöskvastærð. Hafi skipstjórinn ekki mótmælt mælingunum. Kl. 10:55 hafi stjórnstöð Landhelgisgæslunnar verið sent skeyti um málið og kl. 13:03 hafi léttbátur farið frá varðskipinu með Jón Pál Ásgeirsson yfirstýrimann yfir í m/s Österbris og komið til baka með 3. stýrimann. Kl. 14:00 að höfðu samráði við yfirmann gæsluframkvæmda hafi skipstjóra verið gert að halda til hafnar á Akureyri þar sem mál hans yrði rannsakað frekar. Kl. 14:32 hafi m/s Österbris haldið af stað áleiðis til hafnar í fylgd varðskipsins og hafi yfirstýrimaður varðskipsins verið um borð í m/s Österbris á leið til hafnar. Kl. 01:25 hafi m/s Österbris lagt að Oddeyrarbryggju á Akureyri og varðskipinu lagt utan á það.

Samkvæmt skoðunarskýrslu varðskipsins á nót m/s Österbris, sem 2. og 3. stýrimaður undirrita og yfirstýrimaður áritar um að hann hafi yfirfarið mælingu þá er poki nótarinnar mældur á 3 stöðum með 20 mælingum á hverjum stað og er meðaltal 1. mælingar 16,6 mm og miðað við löglega stærð 19,6 mm er mismunurinn -15,3%. Samkvæmt 3. mælingu er meðaltal möskva 17,8 mm og -9,2% undir lögmæltri stærð og samkvæmt 4. mælingu 17,9 mm eða -8,7% undir löglegri stærð. Samkvæmt 2. mælingu er nótin mæld og er meðaltal úr þeirri mælingu 20,1 mm eða mismunur + 2,6%. Í skýrslunni segir að nótin sé 330 faðmar að lengd og 90 faðmar að dýpt og möskvar ferhyrndir. Afli skipsins var loðna 10 tonn.

Þann 19. f.m. var tekin lögregluskýrsla af ákærða John Harald Östervald. Hann kvaðst hafa verið skipstjóri frá árinu 1994, en á þessu skipi í 2 mánuði þar sem skipið væri nýtt. Hefðu þeir farið frá Noregi þan 10. f.m. og komið á Íslandsmið þann 17. Hafi þeir fyrst kastað um kl. 05:00 18. f.m. á þeim stað er varðskipið kom að þeim. Hafi þeir verið aðeins búnir að fá 10 tonn af loðnu. Hafi þetta verið þeirra annað kast á þessum stað en skipið hafi leyfi til að veiða í íslenskri lögsögu 450 tonn af loðnu. Hafi 30 norsk skip leyfi til að stunda veiðar í íslenskri lögsögu og veiðum þeirra stýri norska strandgæslan, þ.e. gefi skipunum leyfi og sjái um að réttur fjöldi skipa sé að veiðum í einu. Hann upplýsti að loðnunótin sem þeir notuðu væri ný, keypt hjá norska fyrirtækinu Refa a.s. í Finnsnes. Þetta séu sams konar veiðarfæri sem öll norsk skip noti svo og íslensk. Ekki hafi þeir sjálfir mælt möskvana er veiðarfærin hafi komið ný um borð því þeir treysti framleiðandanum. Engin norsk yfirvöld eða eftirlitsmenn hafi skoðað nót þeirra. Er varðskipsmenn hafi komið um borð og mælt nótina þá hafi þeir sagt að möskvar við enda hennar væru of litlir. Enginn í áhöfn hafi verið viðstaddur við upphaf mælingar en 1. stýrimaður, sem sé bróðir sinn og netasérfræðignur skipsins, hafi farið að athuga með mælinguna og þá séð hvað um var að vera. Sjálfur hafi hann síðan verið viðstaddur 3. og 4. mælingu. Hann hafi ekki vitað til þess að hann hafi verið með ólöglega nót og ef til séu einhverjar íslenskar reglur sem segi annað þá viti hann ekki um þær. Hann sagði að rétt mæling á möskvum sé sú að mæla milli hnúta, þ.e.a.s. mæla úr miðjum hnút í miðjan hnút. Það geri allir framleiðendur hvar sem þeir séu í heiminum og á landstíminu hafi hann sjálfur mælt möskvana og komist að þeirri niðurstðu að nótin væri fullkomlega lögleg. Þetta sé sams konar nót og bæði íslensk og norsk loðnuskip noti.

Tekin var löregluskýrsla af Olav O. Östervold, yfirstýrimanni, fæddum 27.06.1966 til heimilis að 5384 Torangsvåg í Noregi. Hann upplýsti að m/s Österbris væri í eigu Havbraut a.s. í Noregi og væri þetta fjölskyldufyrirtæki og heimilisfang þess það sama og hans sjálfs. Faðir hans Olav Östervold væri stjórnarformaður og ætti heima á sama stað. Skipið væri tveggja mánaða gamalt og hafi haldið til loðnuveiða 10. f.m. og sagði hann að íslenska sjávarútvegsráðuneytið hefði sent veiðiheimildir til þess norska, en veiðiheimildirnar hefðu ekki verið sendar frá norska ráðuneytinu til skipanna. Samkvæmt 7. gr. reglugerðar um loðnuveiðar erlendra skipa frá 28. maí 1999 hafi þeir tilkynnt sig til Landhelgisgæslunnar og upplýsti að reglugerð þessi væri um borð í skipinu. Veiðarfæri skipsins hafi verið keypt hjá framleiðandanum Refa a.s. í Finnsnesi. Nótin hafi verið keypt með tilliti til leyfilegrar möskvastærðar eða 19,6 mm. Hafi framleiðandinn gefið það upp að þetta net stæðist allar kröfur. Þetta væri viðurkennt loðnunet og séu sams konar loðnunet í notkun bæði á íslenskum og norskum loðnuveiðiskipum. Varðskipið Óðinn hafi komið að þeim á þeim stað sem getur í kæru skipherra Óðins. Hafi varðskipsmenn komið um borð og fengið að mæla möskvastærð í nótinni. Þá hafi komið í ljós að möskvarnir hafi verið of litlir miðað við reglugerð nr. 24, 1998 um möskvamæla og framkvæmd möskvamælinga. Hafi hann fylgst með mælingu stýrimanns varðskipsins og séð að hann fékk út þær tölur sem fram komu í skýrslu varðskipsmanna. Kvaðst hann ekki rengja niðurstöðu mælinganna, en ekki vera sammála þeirri aðferð sem við var höfð. Hafi hann verið sannfærður um að nótin væri lögleg og sagði að útgerð skipsins hefði ekki sent skipið á Íslandsmið með ólöglega nót. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð reglugerð um möskvamæla og framkvæmd möskvamælinga. Hafi reglugerð þessi ekki verið um borð og ekki kvaðst hann hafa vitað um efni hennar. Sé reglugerðin ekki í samræmi við norskar reglur, en samkvæmt þeim reglum sé ekki mælt inn í möskva heldur á miðjum hnút í miðjan hnút. Á leiðinni til hafnar á Akureyri hafi hann mælt netið eftir þeirri reglu og stærðin reynst rétt. Jafnframt sé langstærsti hluti nótarinnar löglegur samkvæmt íslenskum staðli, aðeins endinn eða pokinn þar sem garnið verði sverara þá minnki möskvinn að innanmáli, en standist eftir sem áður norskar mælingar þar sem mælt sé á miðjum hnút í miðjan hnút.

Þann 19. f.m. gaf skýrslu hjá lögreglunni á Akureyri Vincent John Newman, framkvæmdastjóri Nótastöðvarinnar Odda ehf., Akureyri. Hann kvaðst hafa starfað hjá nótastöðinni í 13 ár og sem framkvæmdastjóri sjái hann um öll innkaup á netum og garni og slíku. Þá um morguninn hafi verið hringt í sig frá norsku fyrirtæki, Refa a.s. og sá sem hringdi hafi beðið hann að skoða nótina í m/s Österbris ef skipstjóri þess bæði um það. Hafi skipstjórinn svo haft samband við sig og beðið um að skoða nótina. Hafi hann farið um borð og í framhaldi af því hafi verjandi skipstjórans beðið um að útvegaður yrði netagerðarmaður til að skoða nótina. Hafi Helgi Sigfússon komið og mælt og skoðað nótina. Vegna þessa máls hafi hann haft samband við aðra netaframleiðendur, á Neskaupstað og í Reykjavík. Hafandi talað við þá sagði hann að nótin um borð í m/s Österbris sé eins og þær sem íslensk skip noti, efnið sé eins og samsetning. Þá hafi hann útvegað sér reglugerð um lágmarksmöskvastærð vegna loðnuveiða. Þar séu leiðbeiningar um hvernig eigi að mæla möskvana. Sagði hann að enginn sem hann hefði talað við hefði séð reglugerð þessa þó svo hún hafi verið gefin út 1995 og ekki heldur hann sjálfur. Hann kvaðst ekki vita til þess að önnur reglugerð væri til. Ekki kvaðst hann vita af hverju enginn hefði séð reglugerð þessa.

Sama dag var tekin skýrsla hjá lögreglu af Helga Sigfússyni, netagerðarmanni á Nótastöðinni Odda ehf. Hann kvaðst hafa starfað við netagerð óslitið síðan 1957, áður hafi hann verið sjómaður og þá unnið með net. Þá um daginn hafi hann verið beðinn um að skoða nót um borð í m/s Österbris. Hafi hann skoðað og mælt nótina. Hafi hann mælt nótina eins og venjulega og hafi niðurstaðan verið sú að nótin sé eins og öll íslensk skip noti. Hafi hann fyrst mælt möskvastærðina með sérstökum kvarða, ekki með átaki. Hafi hann mælt 10-12 möskva og hafi stærð þeirra verið frá 18-20 mm. Hafi hann síðan mælt eina alin og talið hnútana og fengið út 65 hnúta og sagði það eðlilegt því þessi nót væri ný. Hafi hann fengið þær upplýsingar að henni hafi verið kastað 7 sinnum. Eftir nokkra notkun verði nót þessi eðlileg og mælist þá væntanlega 64 hnútar á alin eða minna. Hann sagði að sú mæling sem hafi verið notuð og sé notuð í dag sé að mæla á milli miðra hnúta á loðnunót en ekki innanmál möskva. Sagði hann að ef til væri einhver reglugerð sem segi til um aðrar mæliaðferðir viti hann ekki um hana. Þegar þeir setji upp nýjar nætur þá séu hafðir 64 hnútar á hverja alin. Aðrir framleiðendur á Íslandi geri eins.

II.

Með kæru dagsettri 24. júlí 1999 kærði Halldór B. Nellet, skipherra á varðskipinu Ægi meintar ólöglegar loðnuveiðar m/s Österbris H-127-AV kallmerki LJME. Þann sama dag hafi varðskipið staðið m/s Österbris að meintum ólöglegum loðnuveiðum um 97 sjómílur norður af Grímsey með loðnunót sem ekki reyndist uppfylla ákvæði 13. gr. reglugerðar nr. 367, 1999 um loðnuveiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi á loðnuvertíðinni 1999/2000. Stríði það einnig gegn ákvæðum í 9. tl. í veiðileyfi fyrir norsk loðnuveiðiskip í fiskveiðilandhelgi Íslands á loðnuvertíðinni 1999/2000. Skipstjóri sé ákærði í máli þessu John H. Östervold. Nánari atvikum er lýst þannig: Laugardaginn 24. júlí 1999 kl. 15:58 fóru frá varðskipinu Björn H. Pálsson, yfirstýrimaður, Magnús Ö. Einarsson, 3. stýrimaður, ásamt Rafni S. Sigurðssyni, háseta, yfir í norska loðnuskipið m/s Österbris á stað 68°10´N-017°50´V eða um 29 sjómílur innan íslenskrar lögsögu. Þegar varðskipsmenn fóru um borð var skipið ekki með loðnunótina í sjó, en skipstjórinn hafi viðurkennt að hafa notað nótina við veiðar síðan skipið fór frá Akureyri þann 22. f.m. og kastað alls 5 sinnum og fengið alls um 90 tonn af loðnu. Engin önnur loðnunót var um borð í skipinu en kolmunnatroll var geymt á tromlu. Við athugun á poka loðnunótar skipsins kom í ljós að meðaltal 60 mældra möskva var 18,62 mm eða 5% undir leyfilegri möskvastærð sem er 19,6 mm a.m.k. ef um ferkantaða möskva er að ræða. Skipstjórinn hafi ekki mótmælt niðurstöðu mælingar varðskipsmanna, en áréttað að mæliaðferðin væri önnur en framleiðendur noti. Kl. 17:43 að höfðu samráði við forstjóra Landhelgisgæslunnar var skipstjóranum gert að halda til Akureyrar þar sem mál hans yrði rannsakað frekar. Kl. 18:12 hafi m/s Österbris lagt af stað áleiðis til Akureyrar í fylgd varðskipsins og sunnudaginn 25. f.m. kl. 08:24 hafi skipin lagst að bryggju á Akureyri.

Samkvæmt skoðunarskýrslu varðskipsmanna á v/s Ægi fóru fram 3 mælingar á poka nótarinnar þar sem mældir voru 20 möskvar í hvert skipti og meðaltal reiknað. Samkvæmt 1. mælingu var meðaltal 18,6 mm, lögleg stærð á að vera 19,6, skv. 2. mælingu var meðaltal 19,1 mm og skv. 3. mælingu var meðaltal 18,2 mm, og meðaltal þannig fundið alls 1117 mm : 60 = 18,62 mm á móti 19,6 sem gefa -5% í mismun. Í athugasemd við skoðunarskýrsluna segir að skipstjóri mótmæli ekki niðurstöðu mælingar, en árétti að mæliaðferð sé önnur en framleiðendur noti og að áður en möskvamæling hófst var bleytt vel í nótinni. Undir mælinguna rita yfirstýrimaður og 3. stýrimaður og sem vottur Rafn Sigurðsson.

Fyrir lögreglu bar ákærði John Harald Östervold 26. f.m. að þeir hafi notað sömu nót og síðast, þ.e.a.s. þá sem var gerð athugasemd um í fyrra málinu og telji þeir hana í lagi. Nótin hafi ekki verið tekin af þeim vegna fyrra málsins og styrki það því mál þeirra að nótin sé lögleg. Hafi hann tekið ákvörðun um að hefja veiðar með nótinni sjálfur og stjórnað veiðum. Hafi þeir verið búnir að kasta 5 sinnum, í 4 köstum hafi þeir fengið samtals 90 tonn en einu sinni búmmað. Hann ítrekar að hann telji að nótin sé fyllilega lögleg.

Sama dag var tekin skýrsla hjá lögreglu af Olav O. Östervold, yfirstýrimanni á Österbris, sem er bróðir ákærða. Hann vísaði til skýrslu sinnar er hann gaf hjá lögreglu 19. f.m. Að lokinni málsmeðferð á fyrri kæru á hendur þeim hafi þeim verið leyft að halda úr höfn eftir að afli og veiðarfæri hafi verið metin. Hafi þeir farið út með sömu veiðarfæri og þeir höfðu, þar af leiðandi hafi þeir talið að þeir mættu halda áfram loðnuveiðum. Hafi þeir tilkynnt Landhelgisgæslunni að þeir ætluðu að hefja veiðar. Hafi þeir kastað fimm sinnum og hafi fengið u.þ.b. 100 tonn. Varðskipið Ægir hafi síðan komið á vettvang og varðskipsmenn óskað eftir að mæla hjá þeim möskvastærðina. Við mælingu þeirra Ægismanna hafi komið fram að mælingum þeirra og mælingum varðskipsins Óðins bar ekki saman þar sem nú var frávik meðalmöskvastærðar minna en í fyrra skiptið þegar möskvastærðin reyndist vera -11,2% en í síðara skiptið -5,0%. Kvaðst hann telja skýringuna á þessum mismun vera þá að strekkst hafi á nótinni og við það hafi möskvarnir teygst. Eins og fram hafi komið sé skipið aðeins tveggja mánaða gamalt og er þeir hafi komið inn íslensku fiskveiðilögsöguna í fyrra skiptið hafi nótin verð alveg ný og hún aldrei í sjó komið.

III.

Verða nú raktir framburðir ákærðu og vitna fyrir dómi svo og önnur gögn málsins eftir því sem tilefni þykir til.

Á dómþingi 20. f.m. neitaði ákærði John Harald Östervold að hann væri sekur samkvæmt ákæruskjali útgefu 19. f.m. Hann upplýsti að honum væri kunnugt um þær reglur sem giltu um loðnuveiðar í íslenskri landhelgi. Hafi verið keypt lögleg nót á alþjóðlegan mælikvarða sem var leyfileg á Grænlandsmiðum, við Noreg, Ísland og Færeyjar. Aðspurður hvort honum væri kunnug um með hvaða hætti möskvastærð vær mæld skv. íslenskum reglum þá svaraði hann því til að það stæði ekki í neinum pappírum hvernig eigi að mæla möskva í nótum. Þegar mæla eigi möskvastærð þá eigi að mæla frá miðjum hnút í miðjan hnút og nótin í skipinu standist íslenskar reglur, hún sé 19,6 mm. Nótin hafi verið alveg ný, aðeins veitt í hana 10 tonn. Sé það alvanalegt að ný nót sé aðeins þrengri en gömul nót. Hafi nótin verið keypt af Refa a.s. og hafi kostað í kringum 3 milljónir norskra króna. Nótin væri framleidd samkvæmt norskum reglum og væri viðurkennd þar. Aðspurður um reglur um mælingu kastnóta í Noregi þá sagði hann að möskvastærð væri mæld á miðjum hnút í miðjan hnút.

Sama dag kom fyrir dóminn Einar Heiðar Valsson, skipherra á v/s Óðni, kt. 160765-3809. Hann sagði varðskipið hafa verið á venjubundnu eftirlit á loðnumiðunum norður af landinu. Þar hafi þeir komið að m/s Österbris þar sem það var með nót í sjó að veiðum og haft samband við skipið um að þeir myndu senda menn um borð til reglulegs eftirlits. Í framhaldi hafi veiðarfæri verið mæld og þá komið í ljós að möskvar í poka nótarinnar voru undir máli. Hann sagði mælinguna fara þannig fram að notuð væri löggilt mælistika til að mæla innan mál möskva og samkvæmt reglugerð væru valdir 20 möskvar til mælingar og reiknað út meðaltal af þeim, er kveði þá á um möskvastærð viðkomandi nets. Aðspurður hvort það væri nýtilkomið að innanmál möskvans væri mælt svaraði hann því til að þetta hefði verið gert frá því hann byrjaði sem skipstjórnarmaður hjá Landhelgisgæslunni 1986. Hafi skipið farið frá Reykjavík 12. f.m. og hafi þetta verið fyrsta loðnuskipið sem möskvar nótarinnar voru mældir hjá. Vitnið kvaðst hann hafa verið viðstaddur þegar mælingar hafi farið fram á nótum norskra loðnuveiðiskipa og aðspurður hvort Norðmönnum hafi komið á óvart mæliaðferð íslensku Landhelgisgæslunnar þá vissi hann ekki til þess. Frá því hann hóf störf sem yfirmaður í Landhelgisgæslunni 1986 þá hafi þeir alltaf mælt innanmál möskva og hafi það verið athugasemdalaust, þ.e.a.s. aðferðafræðin hafi ekki sætt gagnrýni heldur niðurstöður einstakra mælinga. Hann sagði mæla þá sem Landhelgisgæslan notaði við mælingar vera prófaða af Löggildingarstofu einu sinni á ári, en mælistikur haf verið löggiltar í upphafi þegar þær voru teknar í notkun og væru mælistikurnar úr málmi. Hann sagði að aflmælir væri ekki notaður við mælingun nema skipstjóri mótmælti mælingum. Samkvæmt reglugerðinni frá 15. janúar 1998 eigi ekki að mæla með lóði eða aflmæli nema skipstjóri mótmæli niðurstöðu mælingar og það sé þeirra reynsla að ef mælt er með lóði eða aflmæli þá sé það ekki viðkomandi í hag. Við mælingar væri farið eftir ákvæðum reglugerðarinnar. Aðspurður taldi hann óheimilt að nota aflmælingu á nótinni úr því að skipstjóri hafi ekki mótmælt mæliniðurstöðu, en skipstjóra hafi verið kynntur réttur hans til endurmælingar, þ.e. sá stýrimaður sem annaðist mælinguna hafi átt að kynna honum rétt hans, en skipstjóri hafi ekki véfengt niðurstöðu mælingar. Aðspurður segir hann að ákærði hafi talað um að það væri mælt úr miðjum hnút í miðjan hnút við uppsetningu veiðarfærisins en ekki að það væri þannig mælt af t.d. norsku strandgæslunni. Aðspurður hvort slegið hafi verið máli á mælistaðina frá miðjum hnút í miðjan hnút þá svaraði hann því neitandi, þeir hafi ekki tæki til að mæla þannig.

Sama dag kom fyrir dóminn Lúðvík Sigurbjörn Friðbergsson, 2. stýrimaður á v/s Óðni, kt. 160168-3239. Aðspurður um mælinguna á nót skipsins þá hafi þeir farið eftir venjubundnum starfsreglum Landhelgisgæslunnar þannig að teknir eru 20 möskvar og mældir og tekið meðaltal, þ.e. mælt innanmál möskvans með löggiltri stiku. Netið væri strengt og stikunni stungið inn með tveggja kílóa átaki eða hérum bil. Viðstaddur mælinguna hafi verið 1. stýrimaður á m/s Österbris. Hann segir að þetta hafi gengið þannig fyrir sig að þeir stýrimennirnir hafi farið niður og mælt í poka nótarinnar og fái þá þennan smáa riðil sem mælingin segi. Síðan hafi þeir farið í annað net og mælt það líka og eftir þær niðurstöður þá tali þeir við skipherra varðskipsins og óski hann eftir frekari mælingum á þeim stað sem þeir fengu smámöskvamælinguna og þá hafi hann óskað eftir manni frá þeim á m/s Österbris og þá hafi 1. stýrimaður tekið á móti honum við netið og hafi verið á móti honum við mælinguna og 3. stýrimaður á v/s Óðni hafi skráð niður. Aðspurður sagði hann að mæliaðferð Landhelgisgæslunnar hafi ekki virst koma 1. stýrmimanni á m/s Österbris á óvart. Hann kveðst hafa starfað hjá Landhelgisgæslunni síðan í febrúar 1997 og hafa mælt þetta venjubundið í hverri eftirlitsferð. Aðspurður kvaðst hann hafa mælt í norskum skipum og aldrei hafi verið gerð athugasemd um það að möskvar væru mældir innanmáls en ekki úr miðjum hnút í miðjan hnút. Skipstjórinn hafi ekki verið viðstaddur mælinguna, en yfirstýrimaður varðskipsins hafi komið yfir til að yfirfara mælinguna og þá hafi skipstjórinn komið að og ekki gert neinar athugasemdir við mælinguna. Aðspurður kvaðst hann aldrei hafa mælt, hvorki loðnu- eða síldarnót, sem ekki hafi staðist mál og ekkert hafi verið sérstakt við þessa nót að athuga. Aðspurður um hvort til væru sérstakar starfsreglur hjá Landhelgisgæslunni um hvernig staðið skyldi að svona mælingu þá sagði vitnið að það væri eingöngu reglugerðin um framkvæmd möskvamælinga, sem farið væri eftir. Hafi skipstjóra og yfirstýrimanni verið kynnt að mælingin gæti verið endurtekin með aflmæli en þeir ekki óskað þess. Þegar yfirstýrimaður hafi komið yfir í m/s Österbris hafi hann haft meðferðis aflmælinn og skipstjóra m/s Österbris boðið að nótin yrði mæld með honum, en hann afþakkað. Aðspurður sagði hann að samkvæmt reynslu sinni þá fái menn minni mælingu með aflmæli en handafli. Aðspurður um það sem skráð var í skoðunarskýrslu að skipinu hafi verið vísað til Akureyrar til frekari athugunar á veiðarfæri hvort slík athugun hafi farið fram þá kvað hann nei við. Aðspurður kvaðst hann ekki kannast við að beðið hafi verið um nýja mælingu á nótinni eftir að skipið kom til hafnar.

Sama dag kom fyrir dóm sem vitni Stefán Pétursson, 3. stýrimaður á v/s Óðni, kt. 230167-4519. Hann sagði að yfirmenn á m/s Österbris hafi ekki gert athugasemdir við mælingar fyrr en þeir voru komnir til hafnar. Aðspurður hvort hann hafi staðið lengi í svona mælingu þá svaraði hann því neitandi og sagðist vera í þriðja túr hjá Landhelgisgæslunni og vera nýkominn út úr skóla. Hann sagði að 2. stýrimaður hefði haft yfirumsjón með mælingunni. Aðspurður sagði hann mælistaðina í nótinni ekki hafa verið sérstaklega merkta þannig að ekki væri hægt að ganga að þessum stöðum og mæla aftur. Aðspurður um hvað fælist í því að yfirstýrimaður hafi yfirfarið mælinguna þá kvaðst hann ekki geta svarað því, því hann hafi verið farinn frá borði þá.

Sama dag kom fyrir dóminn vitnið Jón Páll Ásgeirsson, kt. 020750-4729, yfirstýrimaður á varðskipinu Óðni. Aðspurður um afskipti sín af mælingu á nótinni kvaðst hann ekki hafa mælt neitt af þessu og eftir að 2. og 3. stýrimaður voru búnir að mæla hafi hann verið sendur yfir í m/s Österbris og látinn skoða hvað þeir hefðu gert. Hann kvaðst hafa skoðað mælingarnar á mælingablaðinu sem þeir höfðu skrifað niður og hafi svo farið með norska stýrimanninum og prófað að stinga sjálfur í þetta með mælistikunni og hafi fengið mjög svipaða útkomu. Hann kvaðst vera mjög vanur svona mælingum og hann kvaðst vera lærður netamaður. Hann kvaðst hafa hafið störf hjá Landhelgisgæslunni 1975 og þá starfað í tæp 5 ár og síðan byrjað aftur árið 1990 eða 1991. Hann kvaðst ekki hafa mælt mjög oft loðnunætur, en það hafi komið fyrir að hann hafi mælt þær. Hafi yfirstýrimaður og skipstjóri á m/s Österbris sæst á mælinguna og hafi þeim verið boðið upp á að þetta yrði mælt með átaksmæli. Hafi hann sýnt stýrimanninum mismuninn á því að gera þetta með handafli og síðan með átaksmæli og það hafi komið mun verr út að gera þetta með átaksmælinum. Hafi hann sýnt honum stikkprufu af því. Átakið eigi að vera 2 kíló og eins og sé í svona smáum möskva þá sé 2 kg eiginlega ekki neitt átak ef maður prófi það og maður sé alltaf með meira átak með hinni aðferðinni. Aðspurður kannaðist hann við það að óskað hafi verið eftir því að Landhelgisgæslan hafi verið beðin um að endurtaka mælingu á nót Österbris eftir að skipið hafði verið fært til hafnar, en því hafi verið hafnað af gæslunni. Aðspurður um ástæðuna fyrir því sagði hann að það væri skipherrann sem ákvæði það, þeir hafi náttúrulega verið búnir að gera sínar mælingar og búnir að skrifa undir það og samkvæmt mælingareglugerðum þá eigi þeir ekki að mæla neitt meira en reglugerðin segi til um. Aðspurður sagðist vitnið vera með sveinspróf sem netagerðarmaður. Hann var spurður hvað fælist í því að hann hafi farið yfir mælinguna. Þá sagði vitnið að hann hafi ekki getað farið nákvæmlega yfir mælingar sem gerðar hefðu verið en hann hefði farið og skoðað það sem þeir hefðu mælt og hann hefði prófað að stinga mælistikunni í og fengið sömu niðurstöður. Aðspurður hvernig hann hafi getað fengið sömu niðurstöðu ef hann hafi ekki endurtekið nákvæmlega sömu mælinguna þá svaraði vitnið því til: Ég sting bara í og les á mælinn það eru sömu tölur. Mælistaðirnir hafi ekki verið merktir en mælingamenn hafi bent honum á að þar sem þeir hefðu farið í nótina, þetta hafi nú aðallega verið gert til að sýna yfirstýrimanninum mismuninn á milli handmælingar og aflmælingar. Nánar aðspurður hvort það væri rétt að hann hafi þá ekki mælt þessa sömu mælingu þá svaraði vitnið því til að það hafi verið búið að gera þessa mælingu þegar hann kom um borð þannig að hann endurtaki hana ekki heldur skoði bara niðurstöður. Aðspurður segist hann sjálfur hafa tekið stikkprufur á sama eða svipuðu svæði og mælt hafði verið og þetta hafi verið aðallega gert til að sýna yfirstýrimanninum hver munur væri á milli handmælingar og aflmælingar. Aðspurður um útkomuna með aflmælinum þá hafi þeir fengið 16 mm út úr pokanum í stað hinna talnanna og hafi þá verið mælt með þriggja kílóa þunga í staðinn fyrir tveggja kílóa en ekki hafi verið mælt með tveggja kílóa þunga. Vitninu var sýnd formúlan á skoðunarskýrslunni og kannaðist hann ekki við hana. Hann kannaðist við að hafa heyrt um mælieininguna þar sem talað er um 64 möskva á alin en hjá gæslunni sé ekki um aðrar mælingar að ræða en að mæla innanmál.

Sama dag kom fyrir dóminn sem vitni Olav O. Östervold, yfirstýrimaður á m/s Österbris, f. 26. júní 1966. Hann kvaðst hafa verið viðstaddur þegar mælingin var gerð en ekki sammála því hvernig að henni var staðið. Það standi ekkert í þeirri reglugerð sem þeir hafi að það eigi að mæla netið innanmáli. Þeir hafi haldið að ætti að mæla frá miðjum hnút í miðjan hnút sem alltaf hafi verið gert. Aðspurður um skjal nr. 9 á dskj. nr. 3 sem heitir Måleiningar segir vitnið að þetta séu leiðbeiningar um hvernig möskvastærð sé mæld, það sé ekki norsk uppfinning heldur alþjóðleg. Ákærandi bað vitnið að lesa fyrstu setningarnar í kafla 3 á bls. 2. Ákærandi spyr hvort rétt sé skilið að þá standi þar að norska reglan sé að maður skuli mæla stærðina að innanverðu og svarar vitnið því játandi. Aðspurður sagðist vitnið ekki hafa aðrar athugasemdir við mælinguna heldur en með hvaða hætti mælt var. Aðspurður sagði hann að yfirstýrimaður varðskipsins hefði ekki mælt nótina með aflmæli. Hann kvaðst hafa skoðað nót núna í dag um borð í m/s Súlunni og væri um nákvæmlega sömu gerð nótar að ræða og í m/s Österbris. Aðspurður sagði vitnið að yfirstýrimaður varðskipsins hefði sýnt með hvaða hætti mælt væri með aflmælinum en hann hefði ekki framkvæmt mælingu með honum. Hafi hann fullyrt að óhagstæðara væri að mæla með aflmæli heldur en handmælingu.

Dómkvaddir voru sem matsmenn til að meta afla og veiðarfæri m/s Österbris þeir Jóhann Pétur Andersen, framkvæmdastjóri, og Kári Páll Jónasson, netagerðarmeistari. Mátu þeir loðnunótina 334 x 92 faðma á kr. 26.250.000, snurpuvír á kr. 450.000, snurpuhringi á kr. 600.000, fallhlíf, brjóstlínu o.fl. kr. 130.000 eða samtals kr. 27.430.000, afli ca 10 tonn af loðnu kr. 40.000. Af verðmæti loðnunótarinnar skv. framanrituðu var það þeirra mat að pokinn væri að verðmæti kr. 3.500.000. Þá komu matsmenn báðir fyrir dóminn og staðfestu matsgerð sína.

Aðspurður bar vitnið Kári Páll Jónasson, netagerðarmeistari, kt. 040763-3179, um verðmæti pokans á nótinni að ástæðan fyrir verðmæti hans væri sú að þarna væri sverasta garnið og mesta þyngdin í garninu pr. fermeter. Þá væru líka græjur þarna til að herpa hana saman. Aðspurður nánar um sverleika á garninu í pokanum þá sagði hann að sér sýndist það heldur grennra en við notum hér á landi. Varðandi möskvastærðina kvaðst hann ekki geta séð að þetta væri minna heldur en við notuðum, en tók það fram að hann hefði ekki mælt það. Aðspurður hvernig fagmenn mældu möskva í loðnunótum þá svaraði hann því til að þeir mældu það yfirleitt ekki því þeir treystu því sem þeir fengju og væri efnið aðallega keypt frá Noregi. Hann kannaðist við framleiðandann Refa a.s. en fagmenn treystu því yfirleitt að þeir fengju efni sem stæðist mál. Aðspurður sagði hann að það væri erfitt að mæla í nýju pokaneti í loðnunót vegna þess að möskvar væru litlir og garnið þurrt, það væri miklu auðveldara að mæla þetta þegar búið væri að nota þetta blautt og komin fita í það. Þá gengi flaskamálið miklu auðveldar inn í það en þegar nótin væri ný þá væri efnið stíft og hart. Aðspurður kvaðst hann kannast við formúluna sem skráð væri í skoðunarskýrslu varðskipsins Óðins, þ.e. 64 x prósentutala x 2 ÷ 0,6266 = möskvar á fermeter. Þetta væru umferðir á alin og samkvæmt þessari formúlu væri reiknað með hnútum en ekki með innanmáli nótar.

Þann 21. f.m. kom fyrir dóminn sem vitni Vincent John Newman, framkvæmdastjóri Nótastöðvarinnar Odda h.f., kt. 031155-7389. Aðspurður um efnið í nótinni þá sagði hann efnið það sama og notað væri í nót sem þeir væru að setja upp. Efnið sem þeir kaupi sé allt frá Mörenot í Noregi. Einnig hefðu þeir notað efni frá Refa a.s. og aldrei verið neitt athugavert við það.

Sama dag kom fyrir dóm Helgi Sigfússon, netagerðarmaður, kt. 181131-7569, starfsmaður Nótastövarinnar Odda h.f. Aðspurður kvaðst hann hafa verið beðinn um að fara um borð í m/s Österbris og mæla nótina og hafi mælt hana eftir því sem allir netamenn gera eftir alinmáli og hafi hann talið 65 hnúta á alin. Taldi hann það vera eðlilegt á nýrri nót. Nótin væri ekkert frábrugðin öðrum nótum. Vitnið hafði meðferðis mælistiku og kvaðst hafa rekið hana einum 10 sinnum inn í möskvana, en vitnið tók fram að hann myndi aldrei eftir að þetta hafi verið notað við mælingu á loðnuneti, þ.e. stikan, heldur væri loðnunet alltaf mælt alinmáli. Hann skýrði frá að mælingin færi þannig fram að tekinn sé strengdur möskvinn og talin hlutföllin á milli. Þannig væri það gert hér á landi, það væru tekin 2 fet, 24 tommur, og hnútarnir lagðir við og mælt og taldir hnútarnir, taldar umferðirnar. Nánar um mælingu á pokanum þá kvaðst hann hafa mælt 65 hnúta á alin, á 24 tommum. Tveir séu við að mæla þetta, annar heldur í og hinn heldur í endann á stokknum og svo sé netið teygt og umferðirnar taldar, þ.e. hnútarnir taldir milli þessara tveggja punkta. Hann kvað þetta hafa verið þá aðferð sem hann væri búinn að nota í 42 ár, bæði á síldarnót og loðnunót, það væri aldrei talað um innanmál hvorki á síldarnót né loðnunót. Aðspurður hvernig aðrir mældu þá sagðist hann halda að allir notuðu þessa aðferð, enginn mældi innanmálið. Þetta væri alltaf pantað þannig frá verksmiðjum. Nánar aðspurður um þýðingu orðsins omfar eða umferð þá sagði hann hálfan möskva vera eina umferð og þurfi tvær umferðir til að búa til einn möskva. Hann kvaðst vera búinn að vera með í að setja upp margar nætur, að vísu sé orðið langt síðan hann hafi sett upp heilnót eða árið 1979, en þeir væru að setja inn hluta af nót á hverju ári. Aðspurður kvaðst hann ekki kannast við reglur um að möskvastærð skuli mæld að innanmáli. Nánar aðspurður kvaðst hann aldrei hafa fengið reglugerðir um að mæla möskvana að innan og ekki kvaðst hann vita um neinn netagerðarmann sem kannaðist við þetta innanmál. Aðspurður sagði hann að við uppsetningu nóta væri ekki gert ráð fyrir neinum stuðli varðandi teygju á efni. Nánar aðspurður um fagmenntun þá upplýsti vitnð að hann væri með ráðherrabréf upp á réttindi sín sem netagerðarmaður. Aðspurður um ástand nótarinnar er hann mældi hana þá hafi hún verið farin að þorna en nótin hafi verið glæný og það átti eftir að þvost úr henni íburður, en efnið vær glerhart þegar menn fengju þetta í hendurnar og svo ætti hugsanlega eftir að strekkjast á hnútum.

Sama dag kom aftur fyrir dóminn Olav Olavsson Östervold, yfirstýrimaður, og skýrði nánar þau gögn sem höfðu verið lögð fram á norsku. Nánar aðspurður um hvort nótin hafi á einhvern hátt verið merkt þar sem hún var mæld af Landhelgisgæslunni þá sagði hann svo ekki hafa verið.

Sama dag kom fyrir dóminn sem vitni Hjálmar Vilhjálmsson, fiskifræðingur á Hafrannsóknarstofnun kt. 250937-4079. Vitninu var sýnt bréf Hafrannsóknarstofnunar, dags. 01.06.1994, undirritað af vitninu til Sjávarútvegsráðuneytisins. Vitnið staðfesti efni bréfsins, en í því semir m.a.: „Varðandi bréf ráðuneytisins um möskvastærð í loðnunótum vill undirritaður taka fram eftirfarandi: Eins og kunnugt er eru ákvæði um lágmarksstærð möskva í loðnunótum til þess að koma í veg fyrir smáloðnudráp og gera það að því er varðar 1 árs fisk. Hinn ókynþroska hluti 2 ára loðnunnar smýgur hins vegar aðeins að hluta og ánetjast talsvert. Þetta gerist stundum einnig varðandi smærri hluta kynþroska loðnunnar. Ánetjun er til mikilla vandræða við nótaveiðar og getur skemmt veiðarfæri þegar notaður er 21 mm ferhyrndur möskvi (60 umferðir á alin). Ánetjun myndi væntanlega minnka mikið ef möskvi væri smækkaður í 19,6 mm (64 umferðir á alin) og ársgamla loðnan sleppa eftir sem áður. Þær loðnunætur sem Norðmenn nota í Barentshafi eru með 19,6 mm möskva og hefur ekki verið amast við þeim á Íslands-Grænlands-Jan Mayen svæðinu. Því er lagt til að reglugerðinni frá 20. febrúar 1985 um lágmarksstærð möskva í loðnunótum verði breytt á þann veg að sé möskvi ferhyrndur megi stærðin vera 19,6 mm. Reglugerðin verði að öðru leyti óbreytt.” Vitnið bar að tilgangurinn með bréfi þessu hafi verið að samræma reglur Íslendinga við reglur annarra landa, Norðmanna og Færeyinga. Þegar loðnuveiðar hafi verið komnar á það stig að mönnum var orðið heimilt að fiska innan lögsögu hvers annars þá hafi þurft að vera einhvers konar samræmi í reglugerð um veiðarfæri og annað og bréf þetta hafi verið skrifað í þeim tilgangi að samræma þessa hluti. Ástæðan fyrir þessu kannski hafi verið sú að við Íslendingar vorum upphaflega með svolítið stærri möskva heldur en þarna væri tekið fram. Vitað var að í Noregi þá var möskvi við loðnuveiðar í Barentshafi 19,6 mm, þ.e. eins og standi í bréfinu 64 umferðir á alin, og minnti vitnið á þessum tíma að það hafi líklega verið 70-80 skip eða útgerðir eða eitthvað þess háttar sem hugsanlega gæti komið að þessum veiðum og það væri náttúrulega meira en að segja það að skipta um þessi veiðarfæri, þannig að eftir nokkra umhugsun og vangaveltur þá hafi niðurstaða þeirra verið sú að minnka möskvann þannig að hann samræmdist þeim reglum sem giltu fyrir Barentshafsveiðar, enda hafi þeim sýnst að þó að það væri gert, þ.e.a.s. möskvinn smækkaður, þá myndu næturnar sigta frá þann fisk sem sérstaklega var verið að vernda með því að vera með möskvastærðarákvæði yfirleitt og þá væri hann að tala um ókynþroska eins árs loðnu. Aðspurður hvort ætlunin að möskvastærðin yrði þá 19,6 mm mælt frá hnút í hnút eða 64 umferðir á alin svaraði vitnið því: „Á alin já”. Aðspurður hvort honum hafi verið kynnt sú reglugerð sem sett var í framhaldi af þessu bréfi þá sagði vitnið, að honum hefði eflaust verið kynnt hún, en hann kvaðst ekki vera veiðarfærafróður og verða að játa að hann hefði ekki í sjálfu sér lesið hana nákvæmlega þannig, að ef hún væri öðru vísi en þarna stæði þá væru það hans mistök að hafa ekki mótmælt henni eða bent á það. Vitninu var sýnd reglugerð nr. 24, 1998. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa kynnt sér þessa reglugerð sérstaklega eða innihald hennar. Aðspurður um hvort það kæmi til með að hafa einhver áhrif á veiðar ef möskvastærð færi niður úr 19,6 mm að innanmáli niður í möskvastærð allt að 16 mm innanmáli þá svaraði vitnið: "„Nei tæplega, sko það sem hangir á þessari spýtu er nú kannski sitt af hverju, en aðallega þrennt. Í fyrsta lagi þá er náttúrulega verið að reyna að vernda yngsta hluta stofnsins, en það er þannig með nótaveiðar á loðnu að þær eru, þ.e.a.s. loðnunótaveiðar eru þær einu veiðar, nótaveiðar, sem ég þekki, þar sem möskvastærð yfirleitt virkar sem sía á smáfisk og þetta kemur til af því að þangað til loðnan er komin á þriðja aldlursár þá er hún mjög mjó og fer ekki að fá fisklag fyrr en á þriðja ári þannig að svona möskvi og jafnvel smærri hann mundi sía frá, hann síar frá eins árs fisk mjög auðveldlega. Í öðru lagi er hluti af þeirri loðnu sem er tveggja ára hún verður ekki kynþroska til að hrygna árið eftir þ.e.a.s. þriggja ára gömul heldur bíður eitt ár enn og sú loðna, sumt af henni smýgur svona möskva en mikið af henni vill festast í honum og varðandi þá loðnu er umdeilanlegt hvað möskvinn í sjálfu sér á að vera stór, hún smýgur kannski fyrst framan af sumri í gegn, allavega hluti af þessum fiski, en mikið af honum ánetjast og því meira sem möskvinn er stærri eins og stendur í þessu bréfi hérna að þá var það talinn kostur á þeim tíma að færa möskvastærðina niður til þess að létta mönnum lífið varðandi ánetjun. Þegar menn lenda í svoleiðis aðstæðum þá verður venjulega uppi fótur og fit og þá er Landhelgisgæslan send af stað og eftirlitsmenn og jafnvel við og svæðum lokað. Svona gengur þetta fyrir sig en varðandi aðaltilganginn þ.e.a.s. að koma í veg fyrir að mikið af eins árs fiski komi inn á dekk eða þá að menn séu að kasta mikið inn á þá skiptir ekki öllu máli hvort möskvinn er aðeins eða er lítillega eða öðru hvoru megin við þessa stærð sem nú er í lögunum.” Aspurður hvort vitnið væri að tala um 1-2 mm þá svaraði vitnið: „Eitthvað svoleiðis. Ég er hins vegar slæmur með eins og fleiri félagar mínir, biologar, að við eigum voða erfitt með að hugsa í tommum og sentimetrum eða millimetrum.” Nánar aðspurður um breytinguna á möskvastærð úr 21 mm í 19,6 þá sagði vitnið að það sem sóst var eftir hafi fyrst og fremst verið að samræma reglur fyrir alla aðila. Vitanlega skipti máli hvort garn sé mjög svert eða ekki varðandi innanmálið. Nánar aðspurður hvort hann hafi verið að leggja til að möskvinn yrði 19,6 mm mældur frá miðjum hnút í miðjan hnút eða að innanmáli strekktu 19,6 mm sagði vitnið að það væri skýrt nákvæmlega í bréfinu að það sé gert ráð fyrir 64 umferðum á alin og það sem þeir höfðu í huga á þessum tíma hafi verið mæling skv. þessu gamla systemi, sem sagt umferðir, omfar, á alin, sem mundi þá þýða hnút í hnút væntanlega. Aðspurður hver væri helsti sérfræðingur Hafrannsóknarstofnunar í veiðarfæragerð eftir að Guðni Þorsteinsson féll frá þá taldi hann Jakob Jakobsson, fyrrverandi forstjóra Hafrannsóknarstofnunar, vera manna fróðastan en þegar bréf þetta hafi verið ritað hafi Jakob verið forstjóri Hafrannsóknarstofnunar.

Fyrir dóm kom vitnið Jón Einar Marteinsson, framkvæmdastjóri Netagerðar Friðriks Vilhjálmssonar h.f., Neskaupstað, kt. 030164-3939, en vitnið er netagerðarmeistari og sjávarútvegsfræðingur frá háskólanum í Tromsö. Aðspurður sagði hann fyrirtæki sitt hafa verið í viðskiptum við Refa a.s. varðandi efniskaup. Aðspurður hvort net frá þeim hefðu reynst í fullkomnu lagi við mælingu sagði vitnið að það hafi náttúrulega komið upp eins og hjá öðrum að net hafi ekki verið í lagi, en það hafi verið fyrir löngu síðan. Aðspurður um efni loðnunætur og loðnupoka sem notaðir eru á Íslandi þá komi efnið annað hvort frá Taiwan eða frá Noregi og þá aðallega þremur verksmiðjum, Mörenot, Refa og Hildre, það séu þær norsku verksmiðjur sem Íslendingar hafi aðallega skipti við. Aðspurður hvort honum væri kunnugt um þær mælireglur sem væru í gildi varðandi mælingar á loðnunótum svaraði vitnið að eins og hefð væri fyrir og skilningur alltaf verið eftir því sem hann best viti og við höfum mælt möskva í loðnunót og þá sé möskvinn mældur sem heilmöskvi, sem þýðir að það er mældur möskvi plús hálfur hnútur hvou megin eða sem sagt möskvi og þá plús heill hnútur. Þannig höfum við alltaf mælt og aldrei mælt loðnunót öðruvísi og um það hafi verið sameiginlegur skilningur bæði milli notendanna, þ.e. sjómannanna og verkstæða og framleiðenda. Á trollum sé möskvinn aftur á móti mældur sem innanmál með því að stinga plötu eða öðru verkfæri, sem hægt er að nota til að mæla innanmál möskva, en á nótum sé möskvinn mældur sem heilmöskvi og þá sé netið mælt með því að strekkja það og mældur ákveðinn fjöldi möskva. Oftast sé mælt á legg sem kallað sé þannig að farið sé á skáann sem kallað er, en þar sé mældur ákveðinn fjöldi leggja eða möskva. Megi segja að það sé sami hluturinn og deila svo bara í með fjöldanum til að finna möskvastærðina og möskvastærðin er þá einn möskvi sem kallað sé. Aðspurður um reglugerð um möskvamælingu nr. 24, 1998, hvort hann hefði séð hana fyrr en nú. Vitnið kvaðst eiga reglugerð þessa en ekki hafa lesið hana nákvæmlega en sagði að sér sýndist þetta mál ganga út á að þarna væri á ferðinni misskilningur um það hvernig eigi að mæla möskva í loðnunótum og trollum. Í trollum sé mælt innanmál og í reglugerðinni frá 1998 standi innanmál, en vitnið vildi leyfa sér að álíta að þar hafi verið misskilningur á ferð af því að þegar reglugerðin var samin, þá hafi átt að vera heilmöskvi, en akkúrat sem gert var þarna haldið að það ætti að vera innanmál eins og í trollum og álit sitt byggir hann á bréfi sem hann hafði fengið sent frá Sjávarútvegsráðuneytinu þar sem Hafrannsókn fer fram á að það sé minnkuð möskvastærðin úr 21 mm í 19,6 sem var gert 1. júní 1994 og þar sem í bréfinu sé rætt um 64 umferðir á alin, þá geti innanmál möskvans ekki verið 19,6 mm heldur sé það heilmöskvinn sem sé 19,6 mm. Aðspurður hvort honum væri kunnugt um með hvaða hætti reglugerð frá 1985 mælti fyrir um mælingu möskva, þ.e.a.s. að innanmáli, var vitninu ekki kunnugt um ákvæði hennar. Í framhaldi af því var vitnið spurt hvort að allt regluverk íslenskra fiskveiða varðandi nætur væri á misskilningi byggt, þá taldi vitnið svo vera út frá þeim hefðum og reglum, sem gilt hafa í netagerðarfaginu. Aðspurður hvort að gert væri ráð fyrir ákveðinni teygju við uppsetningu nóta, þá kvað vitnið nei við því, heldur væri netstykkið reiknað út frá heilmöskva. Hins vegar væru til staðlar yfir nælonefni hvað þau teygist en það væri þá frekar að spyrja framleiðendur um slíka staðla.

IV.

Varðandi síðari ákæruna kom fyrir dóminn 26. f.m. ákærði, John Harald Östervold og staðfesti skýrslu sína gefna fyrir lögreglu, svo og vitnið Olav Olavsson Östervold, yfirstýrimaður á m/s Österbris. Í réttinum var einnig mættur Olav Harald Östervold fæddur 4. desember 1943 í Östervoldkommune, 5384, Thoransvåg, Noregi, en hann er stjórnarformaður og framkvæmdastjóri, Havbraut AS, ákærða í þessu máli. Taldi hann ekki ástæðu til að gefa skýrslu hér fyrir dómi, en upplýsti að hann væri faðir ákærða John Harald Östervold og vitnisins Olavs Olavsson Östervold.

Fyrir dóminn kom sem vitni Halldór Benóný Nellet, kt. 140256-5019, skipherra á v/s Ægi. Hann sagði varðskipið hafa verið við venjuleg eftirlitsstörf á svæðinu og hafa verið búið að mæla í einum færeyskum bát og síðan í tveimur norskum áður en var farið um borð í m/s Österbris. Hafi nætur reynst löglegar nema í mælingu í m/s Österbris.

Aðspurður hvort einhverjar reglur væru um skekkjumörk þegar verið væri að mæla möskvastærðir, þá lýsti vitnið að það væri innanhúsregla hjá þeim að þeir væru með upp á 3% og ef viðkomandi mæling væri innan við skekkjumörk þá væri viðkomandi gefinn kostur á að slá pokanum undan og málið ekki kært. Aðspurður hvaðan þessi 3% skekkjumörk væru komin þá kvaðst vitnið í rauninni ekki geta svarða því. Aðspurður hvort að þetta væri skrifleg regla, þá svaraði hann því til að þetta væru fyrirmæli til þeirra.

Nánar aðspurður hvenær þessi skekkjumörk urðu til þá kvaðst hann ekki vera klár á ártalinu en það væru einhver örfá ár síðan. Nánar aðspurður upplýsti hann að þessi skekkjumörk væru vegna mælinga á öllum veiðarfærum þ.e.a.s. bæði þorskanet, loðnunætur, síldarnætur, bæði kastnætur og troll. Eingöngu hafi verið framkvæmd mæling á poka nótarinnar í m/s Österbris.

 Aðspurður kvað hann sér hafa verið kunnugt um mælingu á sama nótarpoka vikuna áður og hafa heyrt um þau vikmörk sem komu fram í þeirri mælingu og síðari mælingunni. Aðspurður hvort hann gæti skýrt dóminum mismuninn á þessum tveimur mælingum þá sagði hann að honum dytti helst í hug að þeir hefðu ekki farið á nákvæmlega sama stað í pokanum, það gæti skýrt þetta að hluta. Hélt hann að það væri kannski aðalástæðan. Síðan var ekki notaður Utzonmælir sem væri reyndar nákvæmasta mælingin að hans mati og að menn noti kannski svona misjafna mælingu og síðan þriðja atriðið að líklega hefði tognað eitthvað á nótinni síðan síðast, en það hafi ekki verið mælt örugglega á nákvæmlega sama stað og fyrri mæling. Aðspurður hvernig staðið hefði verið að mælingunni, þá sagði hann að það hefði verið notuð löggilt mælistika en ekki hefði verið notaður aflmælir og aðspurður hvers vegna svo ekki hefði verið, þá sagði vitnið að þeir mættu ekki nota aflmæli fyrr eftir reglugerð sem segi að fyrst skuli mæla 20 möskva og ef það reynist undir eða stenst ekki mál þá eigi þeir að mæla 2 X 20 möskva í viðbót og síðan sé meðaltalið reiknað af þessum 60 möskvum og ef að það standist ekki mál þá sé það borið undir skipstjóra og ef hann mótmæli niðurstöðunni, þá megi þeir fyrst nota aflmæli en ekki fyrr. Aðspurður hvort gæslan noti ekki þennan staðlaða aflmæli fyrr en mótmæli koma fram, svaraði vitnið því til að þeir ynnu bara eftir reglugerðinni akkúrat eins og hún segi. Hann upplýsti að m/s Österbris hafi ekki verið að veiðum þegar möskvinn var mældur og nótin hafi verið bleytt góða stund áður en hún var mæld.

Hann kvaðst hafa leyst af sem skipherra frá júlí 1992, en fastur skipherra síðan í september 1996 og hafið störf hjá Landhelgisgæslunni 16 ára 1972 og starfað nær óslitið síðan fyrir utan 3 ár hjá Eimskip og síðan í Stýrimannaskólanum.

Fyrir dóminn kom sem vitni, Björn Haukur Pálsson, kt. 250750-4639, yfirstýrimaður á v/s Ægi. Hann staðfesti skoðunarskýrslu sína um borð í m/s Österbris. Aðspurður hvort hann væri vanur að framkvæma slíkar mælingar, þá sagðist hann telja svo vera. Hann hafi starfað há Landhelgisgæslunni í 14 mánuði sem stýrimaður og vissi ekki hversu margar mælingar hann hefði framkvæmt á því tímabili en þær væru þó nokkrar.

Aðspurður hvort hann hefði oft mælt loðnunætur sem ekki hefðu staðist mál, þá svaraði hann því neitandi. Hvort hann hefði oft mælt loðnunætur, þá svaraði hann því einnig neitandi og upplýsti að þetta væri hans fyrsta mæling á loðnunót.

Í þessari ferð varðskipsins sagðist hann telja að þetta hafi verið fjórði báturinn sem búið var að mæla nætur hjá, áður hjá tveimur norskum og einum færeyskum. Hafi hann farið um borð í færeyska bátinn en ekki stungið í nót hans. Aðspurður sagði hann að þeir hefðu farið fram á við áhöfn m/s Österbris að þeir bleyttu nótina áður en hún var mæld og hafi þeir sprautað sjó á hana áður. Aðspurður hvernig staðið hefði verið að mælingu þá hafi hún verið mæld á venjubundin hátt með Utzonstiku þar sem stikunni var stungið í möskvann og farið eftir reglugerðum um mælingar. Aðspurður um skekkjumörk í sambandi við mælingar á nót þá upplýsti vitnið að það hefði verið vinnuregla að ef mæling er innan við 3% þá hafi það verið látið kyrrt liggja, þ.e.a.s 3% skekkjumörk þeim í hag sem mælt væri hjá. Nánar aðspurður um þessa reglu, sagði hann þetta vinnureglu sem þeim hafi verið sagt að nota. Mælingar væru þannig framkvæmdar að þeir læsu þessar tölur yfir í varðskipið og þar væri reiknað út úr þeim þannig að þeir mælingamennirnir raunverulega mældu bara og birtu þessar tölur. Viðstaddir hafi verið fjórir, þrír frá varðskipinu og yfirstýrimaður m/s Österbris. Mælingin fór þannig fram að stungið var í möskvana. Sá sem stingi lesi upp niðurstöðu mælingarinnar og annar skrái það niður jöfnum höndum á blað og síðan eftir að búið er að mæla 20 möskva þá eru tölurnar lesnar yfir í varðskipið í gegnum talstöð. Í þessu tilfelli hafi það verið hann sem stakk í nótina. Frá varðskipinu hafi verið vitnið 3. stýrimaður og síðan háseti og minnti hann að 3. stýrimaður hafi skráð skoðunarskýrsluna. Öll skoðunarskýrslan hafi verið skráð um borð í m/s Österbris.

Fyrir dóminn kom sem vitni Magnús Örn Einarsson, kt. 100865-5999, 3. stýrimaður á v/s Ægi. Vitninu var sýnd skoðunarskýrsla dags. 24. f.m. Kvaðst hann hafa skráð skýrsluna, en yfirstýrimaður hafi mælt nótina, hann skrifað niður tölur. Hann upplýsti að nót skipsins hefði verið bleytt vel áður en hún var mæld. Aðspurður um reynslu af mælingum, þá kvaðst hann hafa mælt en hafa hafið störf hjá Landhelgisgæslunni í vor sem stýrimaður og í sambandi við erlend skip þá fari alltaf tveir stýrimenn um borð í þau. Upplýsti hann að áður hafði varðskipið mælt í einu færeysku og þremur norskum skipum og þau öll staðist lágmarks möskvastærð.

Aðspurður hvað hann hafi skráð á skoðunarskýrslunni þá hafi hann eingöngu skrifað niður tölur úr mælingunni og undirritað skýrsluna en yfirstýrimaður hafi skráð allt annað. Aðspurður um útreikning á mælitölum á skýrslunni, þá upplýsti hann að það hafi verið gert bæði um borð í varðskipinu og yfirstýrimaður hafi líka reiknað út þessar tölur og hafi yfirstýrimaður skráð útreikninginn á mælingunni. Aðspurður um skekkjumörk við mælingar, sagði vitnið að það væri óskráð vinnuregla hjá gæslunni að það væru 3% skekkjumörk. Vitnið kveðst hafa klárað stýrimannaskólann síðasta vetur og hafi honum verið sögð þessi vinnuregla þegar hann hóf störf hjá gæslunni.

Þann 28. f.m. kom aftur fyrir dóm sem vitni, Vincent John Newman, framkvæmdastjóri Nótastöðvarinnar Odda h.f. Hann upplýsti að íslensk netaverkstæði gætu ekki afhent loðnunætur skv. mælingum landhelgisgæslunnar þ.e.a.s. ekkert efni væri til í landinu í pokanet, sem væri með sverara garni, sem að innanmáli væri 19,6 mm. Allt efni sem pantað væri í loðnunætur væri 64 umför á alin, sem gæfi þá möskva 19,6 mm, heilmöskva. Ein alin væri 1/3 úr faðmi sem væri 188 cm.

Sama dag kom fyrir dóminn sem vitni Thor Jensen, verksmiðjustjóri Refa a.s. fæddur 22. maí 1949. Hann sagði að nót skipsins væri framleidd samkvæmt aðþjóðlegum staðli og væri venjuleg loðnunót sett upp sem 64 umför á alin sem gæfi 19,6 mm heilmöskva, en hvert umfar væri 9,8 mm og 2 umför þyrfti í möskvann sem gæfu þá 19,6 mm heilmöskva. Væri nótin gerð úr garnsverleika nr. 6 upp í nr. 18, þar sem nr. 6 væri það grennsta en nr. 18 það sverasta. Mestur partur nótarinnar væri gerður úr nr. 6, en hlutar hennar nr. 8, 10, 12, 14 og nótapokinn nr. 18. Sýndi vitnið garnsverleika í nótinni á teikningu sem lá frammi í réttinum. Hann upplýsti að þar sem stæði á teikningunni ekn stæði fyrir enkelt knut eða einfaldur hnútur og væri einfaldur hnútur notaður í allri nótinni og heilmöskvinn í allri nótinni væri 19,6 mm burtséð frá þykkt garnsins. Sl. 5 ár hefðu þeir eingöngu framleitt loðnunætur með 19,6 mm heilmöskva en þeir væru stórframleiðendur nóta bæði fyrir íslenska og norksa loðnuflotann. Kaupendur á Íslandi pöntuðu ævinlega nætur með heilmöskva 19,6 mm og 64 umför á alin.

Vitninu var sýnt dskj. nr. 8 í fyrra málinu, og sagði hann að innan möskva mælingin ætti eingöngu við troll þar sem væri notaður tvöfaldur hútur og trollgarnið mun sverara heldur en garnið í nótum. Á trollgarni væri oft tvöfaldur hnútur og því sé eðlilegt að mæla þar innanmálið. Sé alin 62,7 cm og sé 1/3 af norskum faðmi sem sé 188 cm. Hafi þeir selt sams konar nótaefni og er í m/s Österbris fyrir milljónir króna norskra til Íslands. Hann sagði þá Refa menn hafa mælt nótina daginn áður um borð í m/s Österbris, um 20 mælingar, og hafi nótin verið 63, 64 og upp í 65 umför á alin sem væri alveg eðlilegt. Þar sem nótin væri því sem næst ný ætti hún eftir að teygjast og taldi að hún ætti eftir að teygjast um 1-2% í viðbót. Hann sýndi í réttinum hvernig umför væru talin í loðnunót og lagði fram sýnishorn af samskonar garni og er um borð í m/s Österbris þ.e.a.s. nótabúta með garnsverleikanum nr. 6, nr. 10 og nr. 18.

Fyrir dóminn kom sem vitni Frank Are Larsen, verkfræðingur og yfirmaður hönnunar og samsetningu nóta hjá Refa a.s., fæddur 10. mars 1968. Hann sagði nótina í m/s Österbris vera samskonar og í öðrum loðnuveiðiskipum. Þeir hefðu mælt nótina og nótin hafi staðist mælingu þeirra, verið að meðaltali 64 umferð á alin. Hann kveðst hafa hannað nótina í m/s Österbris og lagði fram teikningu af henni. Hann hafi haft yfirumsjón með samsetningu hennar. Við samsetningu svona nótar fari um 2500-3000 vinnustundir, auk tímans við að framleiða garnið í nótina og riða það í vélum. Öll nótin væri 64 umför á alin burtséð frá þykkt garnsins. Til þess að setja saman slíka nót þurfi umförin að vera þau sömu þannig að nótin verði jöfn. Hann sagði loðnunót vera teygjanlega um nokkur prósent, en það færi eftir álagi á hana. Hann sagði að veiðarfærin þ.e.a.s næturnar yrðu öflugri eftir því sem skipin yrðu stærri, en venjulegur sverleiki á garni í poka síðustu 4-5 árin væri nr. 18.

Olav Östervold, fæddur 4. desember 1943, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri ákærða Havbraut a.s. gaf sama dag skýrslu fyrir dóminum. Sagði hann að um borð í m/s Österbris væri venjuleg loðnunót þ.e.a.s. standard nót. Félagið gerði út tvö önnur loðnuskip og væri garnið í pokanót annars þeirra nr. 20, þ.e.a.s. sverara en í nót m/s Österbris. Framkoma íslensku Landhelgisgæslunnar hafi vakið ugg í brjóstum norskra útvegsmanna sem gerðu út á loðnu á Íslandsmið, einkum þeirra skipa sem hefðu nýlegar nætur. Í leyfisbréfi Fiskistofu standi að bannað sé að nota minni möskva en 19,6 mm og hafi Hjálmar Vilhjálmsson staðfest að möskvastærðin væri 64 umför á alin en hvergi væri minnst á innanmál möskva.

V.

Í máli þessu telur ákærandi sök ákærðu að fullu sannaða með mælingum Landhelgisgæslunnar. Telur hann að mismunur á mælingum renni stoðum undir þá staðhæfingu ákærðu að hér sé um að ræða nýja nót sem eigi eftir að teygjast. Telur hann engin efni til annars en miða eigi möskvastærð nótarinnar við möskvamál innan máls. Telur hann hæfilegt að ákærðu verði dæmdir í allt að kr. 1.000.000 í sekt og aflaverðmæti gert upptækt og andvirði veiðarfæra þ.e.a.s. andvirði nótapokans samkvæmt mati kr. 3.500.000 að frádregnum lögmætum búnaði hans sbr. framburð vitnisins Kára Páls Jónassonar, netagerðameistara. Hann krefst að ákærðu greiði sakarkostnað.

Ákærðu krefjast sýknu og tildæmur málskostnaður úr hendi ákæranda. Byggja þeir sýknukröfuna á því að hér sé ekki um brot að ræða. Nótin hafi verið fullkomlega lögmæt. Hafi Hafrannsóknarstofnun lagt til að möskvastærð yrði minnkuð þann 1. júní 1994 sbr. áðurnefnt bréf Hjálmars Vilhjálmssonar og að ætlunin hafi verið að hafa möskvaregluna 64 umferðir á alin og þá mælt hnút í hnút og miða við 19,6 mm. Miða eigi við þær forsendur sbr. það sem fram hafi komið hjá vitnunum Vincent John Newman, Helga Sigfússyni, Hjálmari Vilhjálmssyni og Jóni Einari Marteinssyni. Fram komi að allir fagmenn mæli hnút í hnút og allt nótaefni sem flutt er til landsins sé keypt inn samkvæmt þessum staðli þ.e.a.s. 64 umför á alin. Í leyfi fyrir loðnuveiðar til handa erlendum skipum sé tilgreindur möskvi 19,6 mm án nánari skilgreiningar sbr. ISO 1107 sem mæli fyrir um tilgreiningar og staðla á nótum. Reglugerð nr. 24, 1998 virðist eingöngu gerð fyrir starfsmenn landhelgisgæslunnar varðandi mælingar. Ákærðu veiði með sömu veiðarfæri og íslenski og norski flotin noti átölulaust. Verði ákærðu sakfelldir þá verði refsing í algjöru lágmarki og ákvörðun um refsingu frestað, samanber 3. lið 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 þar sem ákærðu hafi verið í góðri trú. Ákærandi hafnar skilningi verjanda á reglugerð nr. 24, 1998. Þetta væru almennar relgur er gildi um möskvastærð. Samkvæmt þeirri reglu eða a.m.k. allt frá 1985 sé mælt fyrir um það að möskvar skuli mældir innanmáls. Málsbót ákærða væri sú að nótin ætti eftir hugsanlega að teygjast og verði þá lögleg.

Verjandi telur að þó svo að reglugerð nr. 24, 1998 kveði á um mælingar sé ekki í reglugerðinni kveðið á um möskvastærð.

VI.

Niðurstaða dómsins.

 Lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 79, 1997 er aðalréttarheimildin um veiðar í landhelginni eins og nafn þeirra vísar til. Samkvæmt 14. gr. laganna setur ráðherra reglur um framkvæmd laganna. Getur hann m.a. sett allar reglur um útbúnað, gerð og frágang veiðarfæra og takmarkað notkun þeirra. Þá getur ráðherra sett reglur um lágmarksstærðir sjávardýra sem heimilt er að veiða og leyfilegan veiðitíma. Núgildandi lög um veiðar í fiskveiðilandhelginni tóku gildi 1. janúar 1998 og um leið féllu niður lög nr. 81, 1976 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, en í 12. gr. þeirra laga var sambærilegt ákvæði og í 14. gr. núgildandi laga. Á grundvelli þessarar lagaheimildar hefur ráðherra sett reglugerð nr. 313 frá 1. júní 1994 um lágmarksmöskvastærðir loðnunóta. Í 1. gr. hennar segir að lágmarksstærð möskva í loðnunót, sem heimilt er að nota til loðnuveiða skuli vera eftirfarandi: 1. séu möskvar loðnunótarinnar ferhyrndir er lágmarksmöskvastærðin 19,6 mm. 2. séu möskvar loðnunótarinnar sexhyrndir er lágmarksmöskvastærðin 16,0 mm. 2. gr. reglugerðarinnar segir: „Þegar möskvi er mældur skal hann teygður horna á milli eftir lengd netsins. Skal þá flöt mælistika, jafnbreið leyfilegri lágmarksmöskvastærð og 2 mm þykk komast auðveldlega í gegnum möskvann. Netið skal mælt vott.“ Með reglugerð þessari var felld úr gildi reglugerð nr. 106 frá 20. febrúar 1985 um lágmarksstærðir loðnunóta, en samkvæmt 1. gr. þeirrar reglugerðar var lágmarksmöskvastærðin 21,0 mm væri möskvinn ferhyrndur og í poka nótarinnar sem miðast við 50 m á korkteini var heimilt að nota riðil með lágmarksmöskvastærðinni 19,6 mm. Þrátt fyrir ofangreint ákvæði var heimilt að nota til loðnuveiða loðnunætur með lágmarksmöskvastærðinni 19,6 mm, enda hefðu þær verið teknar í notkun fyrir 1. júlí 1981. Lágmarksmöskvastærð loðnunótar með sexhyrndum möskva var 16,0 mm. Í 2. grein reglugerðarinnar var samhljóða ákvæði og í 2. gr. núgildandi reglugerðar um mælingu möskvans. Á grundvelli laga nr. 79, 1997 setti sjávarútvegsráðherra 15. janúar 1998 reglugerð um möskvamæla og framkvæmd möskvamælinga. Er reglugerð þessi nr. 24, 1998 og tók gildi 1. mars 1998. Segir í 1. gr. reglugerðarinnar að hún taki til mælinga starfsmanna Landhelgisgæslu Íslands og veiðieftirlitsmanna Fiskistofu á möskvum veiðarfæra íslenskra og erlendra skipa, sem leyfi íslenskra stjórnvalda hafa til veiða innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi. 2. gr. segir að við mælingu möskva í veiðarfæri skuli nota möskvamæla sem þannig eru gerðir: A. Hlutar möskvamælis eru: Mælistika, aflmælir fyrir 0-6 kg átak og lóð með tveggja og fimm kílóa massa. B. Mælistikan skal vera 2 mm þykk úr traustu efni og þannig gerð, að hún aflagist ekki. Stikan skal mjókka fram á við í hlutfallinu 1 á móti 8 hvoru megin. Breidd stikunnar skal merkt á 1 mm bili. Á efri enda stikunnar skal vera gat nægilega stórt til að notast sem handfang og á neðri enda skal vera gat til að hengja í lóð. Á efri enda skal ennfremur vera gat til að festa aflmæli við stikuna. 3. gr. mælir fyrir hvernig mælistiku skuli beitt við mælingu. Segir að netið skuli strekkt svo möskvar teygist eftir lengdarlínu þess og mjórri enda á stiku skal stungið í möskvann hornrétt á netið og stikunni skal stungið inn í möskvann annaðhvort með handafli eða með því að nota lóð eða aflmæli þar til mælirinn stöðvast á skásettu hliðunum vegna viðnáms frá möskvanum. 4. gr. mælir fyrir um val á möskvum til mælingar. Þeir möskvar sem mæla á skulu mynda röð af 20 samliggjandi möskvum, sem velja skal eftir lengdarási netsins. Ekki skal mæla möskva sé hann viðgerður, slitinn eða eitthvað fest í hann. Reynist vandkvæði á að mæla 20 samliggjandi möskva er heimilt að mæla tvær raðir 10 samliggjandi möskva. Möskva skal ekki mæla nær leisum, burðarlínum, kolllínu eða teinum en 4 möskvum. Eingöngu skal mæla net þegar þau eru blaut og ófrosin. 5. gr. segir að stærð hvers möskva skuli vera breidd mælistikunnar þar sem hún stöðvast þegar henni er beitt. 6. gr. segir að þegar möskvastærð netsins sem mælt er skuli vera meðaltal mælinga einstakra möskva gefið upp með 0,1 mm nákvæmni. 7. gr. mælir fyrir að mæla skuli eina röð af 20 möskvum sem valdir eru og skal stinga mælinum inn í möskvann með handafli án þess að nota lóð eða aflmæli. Síðan skal möskvastærðin reiknuð út samkvæmt 5. og 6. gr. Sýni útreikningar á möskvastærð að möskvar séu undir leyfilegri lágmarks möskvastærð skal velja 2 raðir af 20 möskvum til viðbótar og þeir mældir. Þá skal reikna möskvastærð aftur og taka með í útreikninginn þá 60 möskva sem þegar hafa verið mældir og skal þessi útreikningur skera úr um möskvastærð netsins. Mótmæli skipstjórinn niðurstöðu mælingar samkvæmt þessu skal netið mælt að nýju. Við þá mælingu skal nota lóð eða aflmæli festan við stikuna og ræður eftirlitsmaður hvort notað er. Lóðið skal festa við gatið á mjórri enda stikunnar með króki. Aflmælinn skal festa við efri enda stikunnar. Mæla skal þannig eina röð með 20 möskvum á ofangreindan hátt og skal meðaltalið gilda sem endanleg möskvastærð viðkomandi nets. Við mælingu á vörpum sem hafa möskvastærðina 45 mm eða minna skal nota 19,61 newtona afl sem svarar til 2ja kg þyngdar, en á aðrar vörpur skal nota 49,03 newtona afl sem svarar til 5 kg þyngdar.

Í lögum nr. 22 frá 8. apríl 1998 um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands segir í 5. gr. að um veiðar erlendra skipa í fískveiðilandhelginni skuli, ef ekki er um annað samið í milliríkjasamningum, gilda ákvæði laga og reglugerða sem gilda um veiðar íslenskra skipa í fiskveiðilandhelginni varðandi veiðarfæri, friðun og veiðitíma, sbr. 8. - 14. gr. laga nr. 79, 1997 um veiðar í fískveiðilandhelgi Íslands. Samkvæmt 6. gr. laganna gefur Fiskistofa tímabundin leyfi til erlendra skipa í samræmi við ákvarðanir Sjávarútvegsráðuneytisins þar að lútandi. Samkvæmt 7. gr. er eftirlit með framkvæmd laganna í höndum Landhelgisgæslunnar, Fiskistofu og eftirlitsmanna í hennar þjónustu. Á grundvelli laga þessara hefur sjávarútvegsráðherra gefið út reglugerð 28. maí 1999 nr. 367, 1999 um loðnuveiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands á loðnuvertíðinni 1999/2000. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar tekur hún til loðnuveiða grænlenskra, norskra og færeyskra skipa í fislveiðilandhelgi Íslands á loðnuvertíðinni 1999/2000. Eru þar nákvæm fyrirmæli um framkvæmd veiðanna. Í 13. gr. reglugerðarinnar segir svo: „Óheimilt er að stunda veiðar með öðrum veiðarfærum en nót. Möskvastærð í loðnunótum skal vera a.m.k. 19,6 mm ef um ferkantaða möskva er að ræða, en a.m.k. 16 mm ef um sexkantaða möskva er að ræða. Skipum er óheimilt að hafa um borð loðnunætur með annarri möskvastærð.“

Í máli þessu er ekki deilt um niðurstöðu mælingar Landhelgisgæslunnar á nót m/s Österbris heldur eingöngu um mæliaðferðina þ.e.a.s. að mæla innanmál möskvans í stað heilmöskvans, þ.e.a.s. frá miðjum hnút í miðjan hnút. Í veiðileyfi skipsins er kveðið á um lágmarksmöskvastærð skv. 13. gr. reglugerðar nr. 367, 1999, 19,6 mm án frekari skilgreiningar.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 22, 1998 um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands segir að brot gegn ákvæðum laganna og reglum settum samkvæmt þeim varði sektum hvort sem þau séu framin af ásetningi eða gáleysi.

Dómurinn fellst ekki á það sjónarmið ákærðu að leggja beri til grundvallar stærð heilmöskvans 19,6 mm heldur verður að miða við innanmál möskvans samkvæmt skýru ákvæði 2. gr. reglugerðar nr. 313, 1994 sem hefur fulla stoð í gildandi lögum.

Samkvæmt 13. gr. laga nr. 22, 1998 má gera sektir jafnt lögaðila sem einstaklingi. Ákvarða má sekt þó sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmann lögaðila, starfsmann hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða hafi getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Með sama skilorði má einnig gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn, starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa hafa gerst sekir um brot.

Samkvæmt framburði Hjálmars Vilhjálmssonar, fiskifræðings, sem rakinn er hér að framan, er alls ósannað að útgerðarmaður skipsins m/s Österbris, Havbraut A/S, hafi hagnast á veiðum skipsins þrátt fyrir stærð möskvans í poka nótarinnar og er því félagið sýknað af refsikröfu ákæruvaldsins í málinu.

Að því er varðar sök ákærða John Harald Östervold, skipstjóra m/s Österbris, verður að telja að hún sé fullsönnuð og rétt færð til refsiákvæða í ákæruskjölunum. Við ákvörðun refsingar hans ber að líta til 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Þykir ljóst að brot ákærða stafar a.m.k. að nokkru leyti af því að hér er um nýja nót að ræða, sem greinilega hefur þó teygst á við notkun, sbr. mismun á milli fyrri og síðari mælingar Landhelgisgæslunnar á poka nótarinnar og jafnframt er rétt að líta til þess að möskvastærðin í sjálfri nótinni er yfir 19,6 mm að innanmáli samkvæmt fyrri mælingu Landhelgisgæslunnar. Með vísan til framburðar Hjálmars Vilhjálmssonar, fiskifræðings, má nokkuð víst telja að loðna sú sem lágmarksmöskvastærð í loðnunótum er ætlað að vernda hefur sloppið þrátt fyrir möskvastærð nótapokans. Þegar litið er til þess og að nótapokinn er aðeins lítill hluti nótarinnar telur dómurinn að skoða verði brot ákærða John Harald Östervold í ljósi þess. Samkvæmt 12. gr. laga nr. 22, 1998 er lágmarks sekt samkvæmt lögunum kr. 400.000 og hámarks sekt eigi hærri en kr. 4.000.000 eftir eðli og umfangi brots. Þykir refsing ákærða með hliðsjón af 1. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 vera eftir atvikum hæfilega ákveðin sekt að fjárhæð kr. 600.000, sem renna skal í Landhelgissjóð Íslands. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 22, 1998 ber að gera upptækan afla sem fengist hefur á ólögmætan hátt. Er því verðmæti loðnuafla m/s Österbris sem landað var í Krossanesi hf., 150.349 kg af loðnu að andvirði kr. 595.382.-, gerð upptæk til Landhelgissjóðs Íslands, sbr. 19. gr. laga nr. 79, 1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sbr. 5. gr. laga nr. 22, 1998.

Með vísan til sömu lagaákvæða er andvirði poka loðnunótar m/s Österbris, sem matsmenn meta að verðmæti kr. 3.500.000, gert upptækt til Landhelgissjóðs Íslands. Verði sekt dómfellda, John Harald Östervold, ekki greidd innan 4 vikna frá lögbirtingu dóms þessa skal hann sæta fangelsisrefsingu í 60 daga. Ákærði John Harald Östervold greiði sakarkostnað að undanskildum kostnaði við mat veiðarfæra, þ.m.t. þóknun til skipaðs verjanda síns, Gunnars Sólnes, hrl., kr. 200.000.-.

Með vísan til framangreindra málsúrslita ber að fella málskostnað lögaðilans Havbraut A/S á ríkissjóð, þ.á.m. málsvarnarlaun ofannefnds verjanda, sem þykja hæfilega ákveðin kr. 100.000.

Dóm þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari.

Dómsorð:

Ákærði, Havbraut A/S, er sýkn af refsikröfu ákæruvaldsins í máli þessu.

Ákærði, John Harald Östervold, greiði kr. 600.000 í sekt til Landhelgissjóðs Íslands innan 4 vikna frá lögbirtingu dóms þessa að telja, ella sæti hann fangelsi í 60 daga.

Verðmæti nótapoka m/s Österbris að fjárhæð kr. 3.500.000 er gert upptækt í Landhelgissjóð Íslands svo og verðmæti loðnuafla að fjárhæð kr. 595.382.

Dómfelldi, John Harald Östervold, greiði sakarkostnað að undanskildum kostnaði við mat veiðarfæra og skipuðum verjanda sínum Gunnari Sólnes, hrl., kr. 200.000 í málsvarnarlaun.

Málskostnaður ákærða, Havbraut A/S, fellur á ríkissjóð, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Gunnars Sólnes, hrl., kr. 100.000.