Hæstiréttur íslands

Mál nr. 457/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður


Föstudaginn 5

 

Föstudaginn 5. desember 2003.

Nr. 457/2003.

Pétur Þórir Pétursson

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

gegn

Lyst ehf.

(Pétur Guðmundarson hrl.)

 

Kærumál. Málskostnaður.

Máli L ehf. á hendur P var fellt niður að kröfu þess fyrrnefnda eftir að P hafði lagt fram greinargerð í málinu. P krafðist þess að L ehf. yrði gert að greiða sér hærri málskostnað en í úrskurði héraðsdóms. Í Hæstarétti var með vísan til aðstöðunnar í málinu í heild sinni, umfangs þess og hagsmunanna, sem um var deilt, talið hæfilegt að L ehf. greiddi P 200.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. nóvember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2003, þar sem mál varnaraðila gegn sóknaraðila var fellt niður og varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 100.000 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða sér 404.625 krónur í málskostnað í samræmi við framlagðan reikning en til vara að varnaraðila verði gert að greiða honum aðra hærri fjárhæð en greinir í hinum kærða úrskurði. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

            Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður.

I.

Samkvæmt gögnum málsins á það rætur að rekja til þess að sóknaraðili hóf störf hjá varnaraðila samkvæmt ráðningarsamningi 19. febrúar 1993. Aðilar gerðu á ný með sér ráðningarsamning 20. febrúar 1997. Í 6. gr. síðarnefnda samningsins var svofellt ákvæði: „Láti Pétur Þórir af starfi hjá Lyst ehf. skuldbindur hann sig til þess að taka ekki við starfi, hvorki beint né óbeint, hjá fyrirtækjum í samkeppnisstöðu eða öðrum samkeppnisaðilum, hefja eða tengjast slíkri starfsemi í a.m.k. 3 ár starfslokum. Brot á þessu ákvæði um samkeppnisbann varðar févíti kr. 10.000 á dag.” Sóknaraðili mun hafa hætt störfum hjá varnaraðila í janúar 2002 og hafið störf hjá veitingastaðnum Popeye’s. Í aprílmánuði 2002 krafðist varnaraðili, með vísan til fyrrnefnds ákvæðis ráðningarsamningsins, að sóknaraðili léti af störfum hjá veitingastaðnum. Þar sem sóknaraðili mun ekki hafa orðið við þessari kröfu varnaraðila höfðaði varnaraðili mál á hendur sóknaraðila með stefnu 3. júlí 2002 þar sem hann krafðist þess að viðurkennt yrði að samkeppnisbann samkvæmt 6. gr. ráðningarsamnings milli hans og sóknaraðila héldi gildi sínu eftir starfslok sóknaraðila. Þá var þess ennfremur krafist að kveðið yrði á um að sóknaraðila væri óheimilt að starfa í þágu veitingastaðarins Poeye’s í þrjú ár frá starfslokum hjá varnaraðila. Jafnframt var þess krafist að sóknaraðili yrði dæmdur til að greiða varnaraðila dagsektir að fjárhæð 10.000 krónur á dag frá og með 26. apríl 2002 til þess dags er hann léti af störfum hjá veitingastaðnum, þó ekki lengur en til 5. febrúar 2005. Sóknaraðili tók til varna í málinu og lagði fram greinargerð. Á dómþingi 6. nóvember síðastliðinn óskaði varnaraðili hins vegar eftir því að málið yrði fellt niður. Gerði sóknaraðili þá kröfu um að sér yrði úrskurðaður málskostnaður úr hendi varnaraðila. Gekk hinn kærði úrskurður í framhaldi af því.

II.

Krafa sóknaraðila er reist á því að dæma beri honum málskostnað í samræmi við málskostnaðarreikning, er lagður var fram í þinghaldi 6. nóvember síðastliðinn. Hefur einnig verið lagt fram yfirlit frá lögmanni hans þar sem fram kemur að þóknun hans sé 325.000 krónur, en þar er miðað við vinnu í 26 klukkustundir og 12.500 krónur fyrir hverja klukkustund, auk virðisaukaskatts. Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 skal stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað ef máli er vísað frá dómi eða það er fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efni þá skyldu, sem hann er krafinn um í máli. Er aðila rétt að krefjast greiðslu málskostnaðar úr hendi gagnaðila síns eftir mati dómsins eða samkvæmt sundurliðuðum reikningi sem er lagður fram ekki síðar en við aðalmeðferð máls, sbr. 3. mgr. 129. gr. laganna. Þegar aðstaðan í máli þessu er virt í heild sinni, umfang málsins og þeir hagsmunir, sem um var deilt, er hæfilegt að varnaraðili greiði sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Varnaraðili, Lyst ehf., greiði sóknaraðila, Pétri Þóri Péturssyni, 200.000 krónur í málskostnað í héraði.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2003.

          Með stefnu birtri 3. október 2002 höfðaði Lyst ehf. mál á hendur Pétri Þór Péturssyni, Grænuhlíð 18, Reykjavík þar sem þess er krafist að viðurkennt verði með dómi að samkeppnisbann samkvæmt ráðningarsamningi aðila haldi gildi sínu til starfsloks stefnda.  Enn fremur var kveðið á um að stefnda sé óheimilt að starfa í þágu veitingastaðarins Poppeye´s í þrjú ár frá starfslokum stefnanda.  Þá er gerð krafa um greiðslu dagsekta og loks gerð krafa um greiðslu málskostnaðar.

          Af hálfu stefnda er krafist sýknu og málskostnaðar.

          Í þinghaldi nú í dag óskaði lögmaður stefnanda eftir því að mál þetta yrði fellt niður og lögmaður stefnda gerir kröfu um að honum verði úrskurðaður málskostnaður úr hendi stefnanda.

          Málskostnaður ákvarðast 100.000 krónur og málið er fellt niður.

          Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð.

          Mál þetta er fellt niður.  Stefnandi Lyst ehf. greiði stefnda Pétri Þóri Péturssyni 100.000 krónur í málskostnað.