Hæstiréttur íslands

Mál nr. 3/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
  • Sératkvæði


                                                         

Föstudaginn 15. júní 2012.

Nr. 3/2012.

Arion banki hf.

(Andri Árnason hrl.)

gegn

Hætti ehf.

(Ólafur Eiríksson hrl.

Heiðar Örn Stefánsson hdl.)

Kærumál. Lánssamningur. Gengistrygging. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi. Sératkvæði.

A hf. höfðaði mál gegn H ehf. til innheimtu eftirstöðva gjaldfallins lánssamnings. Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi vegna vanreifunar, þar sem málatilbúnaður A hf. hefði verið reistur á því eingöngu að um erlent lán væri að ræða en það væri ekki í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar í sambærilegum málum. Aðilar deildu um hvort lánið hefði verið í íslenskum krónum og bundið gengi erlendra mynta með ólögmætum hætti eða í erlendum myntum. Hæstiréttur féllst á með A hf. að lánið hefði verið í erlendum myntum einkum með vísan til heitis lánssamningsins, tilgreiningar lánsfjárhæðarinnar og vaxta auk tilhögunar útborgunar lánsfjárhæðarinnar og greiðslu afborgana og vaxta, enda var talið sýnt að samningsaðilar hefðu báðir efnt skyldur sínar með því að fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum skiptu um hendur. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. desember 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. janúar 2012. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið munnlega flutt 29. maí 2012.

I

Samkvæmt gögnum málsins gerðu Kaupþing banki hf. og varnaraðili samning 2. apríl 2007. Á forsíðu var tilgreint að hann væri „lánssamningur í erlendum myntum“ svo og heiti samningsaðila. Í 2. gr. voru ákvæði um lánsfjárhæð, útborgun lánsins og endurgreiðslu. Samkvæmt grein 2.1. tók varnaaðili að láni „jafnvirði íslenskar krónur 402.200.000 ... í eftirfarandi erlendum myntum: CHF 70% JPY 30%.“ Í greinum 2.2. og 2.3. sagði að lánið skyldi að uppfylltum tilteknum skilyrðum koma til útborgunar inn á tvo tilgreinda gjaldeyrisreikninga varnaraðila við bankann, annan fyrir svissneska franka og hinn japönsk yen. Þá var í grein 2.3. tekið fram að tilgangur lánsins væri kaup á fasteignum að Síðumúla 20 og 22 í Reykjavík og skuldbatt varnaraðili sig til að ráðstafa láninu til þess verkefnis. Samkvæmt grein 2.4. skyldi lánið endurgreitt með 36 afborgunum á mánaðar fresti, í fyrsta sinn 1. maí 2007, og skyldi hver afborgun fram að síðasta gjalddaga nema 1/240 hluta lánsins. Á síðasta gjalddaga skyldi varnaraðili greiða allar eftirstöðvar lánsins nema því yrði framlengt, en í 4. gr. samningsins var sérstök heimild til þess. Samkvæmt grein 2.5. var greiðslustaður lánsins hjá bankanum og heimilaði varnaraðili honum að skuldfæra áðurnefnda gjaldeyrisreikninga auk tilgreinds bankareiknings í íslenskum krónum fyrir greiðslum afborgana og vaxta. Varnaraðili skuldbatt sig jafnframt til að hafa ávallt innstæðu á reikningunum til greiðslu afborgana. Í grein 2.7. var tekið fram að lánið bæri að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstæði af, en greiddi varnaraðili afborganir, vexti, dráttarvexti eða annað í íslenskum krónum þá skyldi það gert samkvæmt sölugengi bankans.

Í grein 3.1. í samningnum var mælt fyrir um að lánið bæri vexti, sem yrðu breytilegir og jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni og teldist þetta vaxtagrunnur, auk 1,75% vaxtaálags. Í grein 3.6. kom fram að vanefndi varnaraðili skuldbindingu samkvæmt samningnum bæri honum að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni skuld, sem skyldu vera áðurgreindur vaxtagrunnur auk vaxtaálags, að viðbættum 10% dráttarvaxtaálagi. Ef bankinn kysi svo gæti hann þó einnig vegna vanefnda varnaraðila umreiknað skuld hans í íslenskar krónur miðað við sölugengi sitt á erlendu gjaldmiðlunum og krafist af þeirri fjárhæð dráttarvaxta samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Bankinn hefði um það val hvort krafist yrði dráttarvaxta af „fjárhæðinni í erlendri mynt eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur.“ Í 5. gr. samningsins sagði að væri lánið í skilum gæti varnaraðili óskað eftir „myntbreytingu“ á því með skriflegri beiðni til bankans, sem berast yrði í síðasta lagi tíu dögum fyrir gjalddaga afborgunar eða vaxta, og yrði þá „höfuðstóll lánsins umreiknaður til jafnvirðis í annarri mynt.“ Við umreikning vegna myntbreytingar skyldi nota sölugengi þess gjaldmiðils sem horfið væri frá og kaupgengi þess gjaldmiðils sem við tæki. Í 11. gr. samningsins var fyrirvari vegna endurfjármögnunar bankans, en þar sagði meðal annars að ætti bankinn ekki kost á endurfjármögnun við upphaf vaxtatímabils eða á þeim degi, sem vextirnir skyldu endurskoðaðir, á lánskjörum sem gerðu honum kleift að endurlána fjárhæðina í sama gjaldmiðli eða á sama vaxtareikningsgrundvelli og gengið hafi verið út frá við samningsgerðina skyldi bankinn tilkynna varnaraðila það með tíu daga fyrirvara og bjóða honum önnur lánskjör.

Samkvæmt gögnum málsins sótti varnaraðili um að stofna áðurnefnda gjaldeyrisreikninga hjá Kaupþingi banka hf. 28. mars 2007 og var lánið að frádregnum kostnaði greitt inn á þá 10. apríl sama ár, annars vegar 5.116.571,69 svissneskir frankar og hins vegar 213.801.354 japönsk yen. Varnaraðili fékk heimild 30. mars 2007 frá Esjuborg ehf., seljanda fasteignanna sem getið var í fyrrnefndri grein 2.3. í lánssamningnum, til að veðsetja þær með tryggingarbréfi fyrir fjárhæð allt að 450.000.000 krónum með því skilyrði að bankinn ábyrgðist að ráðstafa 400.000.000 krónum af andvirði lánsins inn á tiltekinn reikning Esjuborgar ehf. Hinn 10. apríl 2007 voru 5.114.794,52 svissneskir frankar og 213.727.062 japönsk yen tekin út af gjaldeyrisreikningum varnaraðila og 400.000.000 íslenskar krónur greiddar inn á reikning Esjuborgar ehf. af varnaraðila og annaðist bankinn þessa millifærslu. Eftir þetta var innstæða á gjaldeyrisreikningum varnaraðila 1.777,17 svissneskir frankar og 74.292 japönsk yen. Með viðauka við lánssamninginn, sem gerður var 15. maí 2007, var gjalddaga fyrstu afborgunar af láninu seinkað til 15. júní á því ári, en eftir það skyldu afborganir og vextir inntir af hendi 15. dag hvers mánaðar í 36 skipti.

Greiðsla afborgana og vaxta af láninu fór eftir þetta fram samkvæmt grein 2.5. í lánssamningnum með því að gjaldeyrisreikningar varnaraðila voru skuldfærðir hverju sinni allt þar til í nóvember 2008, þegar höft voru lögð á gjaldeyrisviðskipti. Fyrir liggur að varnaraðili sótti 14. nóvember 2008 um kaup á 38.500 svissneskum frönkum og 1.100.000 japönskum yenum „vegna láns á gjalddaga mánudaginn 17.11.08“ og áttu þessar fjárhæðir að leggjast inn á fyrrnefnda gjaldeyrisreikninga hans. Ekki liggur annað fyrir en að þetta hafi gengið eftir.

Fjármálaeftirlitið ákvað 9. október 2008 að neyta heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Kaupþingi banka hf., víkja stjórn félagsins frá og setja yfir það skilanefnd. Í framhaldi af því var tilteknum eignum og skuldbindingum félagsins ráðstafað til Nýja Kaupþings banka hf., sem nú ber heiti sóknaraðila, og er óumdeilt að þar á meðal hafi verið krafa á hendur varnaraðila samkvæmt áðurgreindum lánssamningi.

 Viðauki var aftur gerður við lánssamninginn 9. desember 2008, en með honum var næsta gjalddaga afborgunar og vaxta frestað til 15. júní 2009 og skyldu eftirstöðvar lánsins þá greiddar í tólf áföngum á eins mánaðar fresti. Þessi breyting var þó háð því skilyrði að varnaraðili legði 2.600.000 krónur inn á nánar tilgreindan reikning hjá sóknaraðila 15. dag hvers mánaðar frá og með desember 2008 svo lengi sem „á skilmálabreytingunni stendur“ og var sá reikningur settur að handveði fyrir endurgreiðslu lánsins. Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila hefur lánið verið í vanskilum frá gjalddaganum 15. júní 2009. Hann höfðaði mál þetta 16. júní 2010 til greiðslu á 4.869.865,58 svissneskum frönkum, 201.999.288 japönskum yenum og bankakostnaði, 1.500 krónum, með 11,94833% dráttarvöxtum á ári af fjárhæðinni í fyrstnefnda gjaldmiðlinum og 11,98625% dráttarvöxtum á ári af þeim, sem næst var nefndur, allt að frádregnum sjö nánar tilgreindum innborgunum, sem hafi verið inntar af hendi á tímabilinu frá 24. nóvember 2009 til 7. maí 2010.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði krafðist varnaraðili þess í héraði að málinu yrði vísað frá dómi. Þá kröfu studdi hann aðallega þeim rökum að lánið, sem samningur var gerður um 2. apríl 2007, hafi í raun verið í íslenskum krónum og bundið gengi þeirra erlendu gjaldmiðla, sem þar var getið. Samningurinn hafi þannig falið í sér verðtryggingu, sem óheimil væri samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Sóknaraðili hafi ekki reifað málið með tilliti til þess að skuld varnaraðila hafi frá öndverðu verið í íslenskum krónum og væri það fyrir vikið svo vanreifað að frávísun varði. Með hinum kærða úrskurði var fallist á þessa kröfu varnaraðila.

II

Í málum nr. 92/2010 og 153/2010, sem Hæstiréttur felldi dóma á 16. júní 2010, var uppi ágreiningur um lán, sem veitt voru til bifreiðakaupa og tengd gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða lán í íslenskum krónum og að slík gengistrygging höfuðstóls skuldanna væri ólögmæt þar sem hún stríddi gegn ófrávíkjanlegum ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001. Þá var í dómum Hæstaréttar 14. febrúar 2011 í málum nr. 603/2010 og 604/2010 skorið úr ágreiningi um hvort hliðstæðar skuldbindingar samkvæmt skuldabréfum með fasteignaveði teldust vera í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum. Enn var með dómi Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 skorið úr hliðstæðum ágreiningi um lánssamning, sem gerður var um „fjölmyntalán til 5 ára að jafnvirði kr. 150.000.000“ eins og sagði í fyrirsögn hans. Sá samningur var í ýmsum atriðum sambærilegur þeim, sem deilt er um í máli þessu. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að hann væri um lán í íslenskum krónum, meðal annars með tilliti til þess að fjárhæð hafi ekki verið tilgreind í öðrum gjaldmiðli, lánsféð hafi verið greitt út í honum og afborganir átti jafnframt að inna þannig af hendi, auk þess sem litið var til ákvæðis í samningnum um myntbreytingu. Málflutningur aðilanna í þessu máli hefur einkum snúist um það hvort atvik séu hér með svo áþekkum hætti og í máli nr. 155/2011 að dómur í því hafi hér fordæmisgildi.

Úrlausn ágreinings aðilanna ræðst öðru fremur af skýringu á texta lánssamningsins 2. apríl 2007, þar sem lýst var þeirri skuldbindingu, sem varnaraðili tókst á hendur. Við skýringuna ber að hafa í huga meginreglu íslensks réttar um frelsi manna til að bindast skuldbindingum með samningum, sem telja verði gilda nema sýnt sé fram á að þeir fari í bága við ófrávíkjanlegar reglur í settum lögum.

Samningurinn, sem mál þetta varðar, er í nokkrum veigamiklum atriðum frábrugðinn þeim, sem fjallað var um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 155/2011. Á forsíðu er hann nefndur „Lánssamningur í erlendum myntum“, en svo var ekki í fyrra málinu. Á hinn bóginn er í báðum tilvikum um að ræða lán „að jafnvirði íslenskar krónur“ með tiltekinni fjárhæð, sem er eina tilgreiningin á fjárhæð lánsins, en hvergi getið um hana í erlendum gjaldmiðlum, heldur aðeins hlutföll þeirra og miðun við virði íslensku krónunnar á tilteknum degi. Líta verður svo á að í dómi í máli nr. 155/2011 hafi sú vísun til erlendra gjaldmiðla ein og sér ekki verið talin nægileg til þess að lánið teldist vera í þeim og yrði því á að gæta að því hvernig skyldur samningsaðila voru efndar. Þar háttaði svo til að efndir beggja aðila voru með greiðslum í íslenskum krónum.

Í máli þessu var lánsfjárhæðin við útborgun lögð inn á gjaldeyrisreikninga varnaraðila hjá Kaupþingi banka hf. í þeim erlendu gjaldmiðlum sem lánssamningur þeirra kvað á um. Greiðsla afborgana og vaxta fór hér einnig fram með því að gjaldeyrisreikningar varnaraðila voru skuldfærðir fyrir viðkomandi fjárhæðum hverju sinni, allt þar til síðast var staðið skil á þeim 15. nóvember 2008, eftir að höft höfðu verið lögð á gjaldeyrisviðskipti. Þegar afborgun var innt af hendi þann dag var sem fyrr segir að auki staðið þannig að verki að varnaraðili sótti um kaup á erlendum gjaldeyri til að geta greitt hana. Samningsaðilarnir efndu því báðir skyldur sínar með því að fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum skiptu um hendur. Framangreint ákvæði um myntbreytingu í lánssamningnum, sem mál þetta varðar, er einnig með nokkuð öðrum hætti en í hinu fyrra máli. Þessu til samræmis og með vísan til röksemda, sem fram hafa komið í fyrrgreindum dómum Hæstaréttar, verður að líta svo á að hér hafi verið um að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum og skiptir þá engu í hvaða tilgangi varnaraðili tók það. Svo sem meðal annars kom fram í dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 falla lán í erlendum gjaldmiðlum ekki undir reglur um heimildir til verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum í VI. kafla laga nr. 38/2001. Verður því ekki fallist á með varnaraðila að málið sé vanreifað af hendi sóknaraðila.

Varnaraðili hefur krafist þess sérstaklega að dráttarvaxtakröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi. Hún er í samræmi við grein 3.6. í fyrrgreindum lánssamningi og er skýrlega tilgreind í héraðsdómsstefnu. Eru því ekki efni til að vísa þeirri kröfu frá dómi.

Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Ákvörðun málskostnaðar í héraði vegna þessa þáttar málsins bíður efnisdóms. Rétt er að hvor aðila beri sinn kærumálskostnað.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur út gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Sératkvæði

Árna Kolbeinssonar

Ingibjargar Benediktsdóttur og

Viðars Más Matthíassonar

Samkvæmt VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu gildir sú meginregla að bannað er að semja um annan grundvöll verðtryggingar sparifjár og lánsfjár en sérstaklega er heimilaður í lögunum, en reglur þessa kafla þeirra eru ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. þeirra. Kveðið er á um með tæmandi hætti í 14., sbr. 13. gr., laganna hvernig heimilt sé að verðtryggja sparifé og lánsfé. Samkvæmt tilgreindum ákvæðum er ekki heimilt að binda lánsfé í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Á hinn bóginn hefur því verið slegið föstu í dómum Hæstaréttar að skuldbinding í erlendum gjaldmiðli einum eða fleirum fari ekki í bága við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.

Álitaefni þessa máls, eins og margra fleiri sem getið er í atkvæði meirihluta Hæstaréttar í málinu, snýst um það hvort um sé að ræða lán í íslenskum krónum sem bundið sé gengi erlendra gjaldmiðla eða hvort um sé að ræða lán í erlendum gjaldmiðli einum eða fleirum. Hvorki í ákvæðum VI. kafla laga nr. 38/2001 né í lögskýringargögnum með lögunum er að finna ótvíræðar vísbendingar um til hvaða atriða helst beri að líta þegar vafi leikur á um í hvorn framangreindra flokka lán eigi að falla. Við úrlausn þess álitaefnis hvort lánssamningur sá sem varnaraðili gerði við Kaupþing banka hf. sé ,,um lánsfé í íslenskum krónum“, sbr. orðalag 13. gr. laga nr. 38/2001, eða ekki skiptir orðalag samningsins mestu máli, en önnur atriði geta einnig haft þýðingu.

Yfirskrift lánssamnings varnaraðila og Kaupþings banka hf., sem mál þetta er risið af, er að sönnu eftirfarandi: ,,Lánssamningur í erlendum myntum.“ Lánsfjárhæðin er á hinn bóginn einungis tilgreind í íslenskum krónum þannig: ,,Lántaki lofar að taka að láni og bankinn lofar að lána að jafnvirði íslenskar krónur 402.200.000,- segi og skrifa krónur fjögurhundruðogtværmilljónirogtvöhundruðþúsund 00/100 í eftirfarandi erlendum myndum: CHF 70% JPY 30%.“ Við teljum að framangreind tilgreining lánsins feli í sér að um sé að ræða ,,lánsfjárhæð í íslenskum krónum“. Það er í samræmi við þær upplýsingar sem fyrir liggja í málinu um aðdraganda að gerð lánssamningsins sem var að varnaraðili sótti um lán til Kaupþings banka hf. til að greiða hluta kaupverðs fasteignar að Síðumúla 20-22 í Reykjavík. Kaupverð fasteignarinnar mun hafa verið 532.000.000 krónur. Samþykktu lánanefndir bankans að veita lán til kaupanna sem næmi ,,allt að ISK 400 mkr.“ sem var um 75% af kaupverðinu. Lánsfjárhæðin var síðar hækkuð í 402.200.000 krónur til þess að varnaraðili fengi, að frádregnum ýmsum kostnaði hans við lántökuna, greiddar 400.000.000 krónur frá bankanum. Beiðni varnaraðila um útborgun lánsins samkvæmt lánssamningnum miðaði við ,,jafnvirði íslenskar krónur 402.200.000 í CHF og JPY“.

Niðurstaða okkar er sú, sbr. dóm Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011, að um sé að ræða samning um lánsfé í íslenskum krónum, sem bundið sé gengi erlendra gjaldmiðla.

Í atkvæði meirihluta dómenda í máli þessu eru rakin ýmis ákvæði skilmála lánsins og atriði sem lúta að framkvæmd á greiðslu þess og greiðslum afborgana. Við teljum að þessi atriði breyti ekki framangreindu eðli lánsins að það hafi verið í íslenskum krónum, en bendi til þess að málsaðilar hafi komið sér saman um að klæða lánið í búning erlends láns enda voru lánskjör slíkra lána hagstæðari en lána í íslenskum krónum á þeim tíma sem samningurinn var gerður.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar teljum við að hann beri að staðfesta. Við teljum einnig að dæma eigi sóknaraðila til greiðslu kærumálskostnaðar.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2011.

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda hinn 20. október sl. er höfðað með stefnu birtri 16. júní 2010.

Við dómsuppsögu er gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnandi er Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík.

Stefndi er Háttur ehf., Kringlunni 5, Reykjavík, fyrirsvarsmaður Karl Emil Wernersson, kt. 241062-3769, Engihlíð 9, 105 Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 4.869.865,58 svissneskir frankar, 201.999.288 japönsk jen og bankakostnað 1.500 kr. ásamt dráttarvöxtum sem eru 11,94833% af 4.869.865,58 svissneskum frönkum frá 15.06.2009 til greiðsludags og 11,98625% af 201.999.288 japönskum jenum frá 15.06.2009 til greiðsludags, allt að frádregnum eftirfarandi innborgunum:

Dags. 24.11.2009 að upphæð 101.430,82 svissneskir frankar og 4.183.494 japönsk jen, dags. 31.01.2010 að upphæð 3.834,25 svissneskir frankar og 157.489 japönsk jen, dags. 31.01.2010 að upphæð 6.584,59 svissneskir frankar og 270.457 japönsk jen, dags. 15.03.2010 að upphæð 10.067,48 svissneskir frankar og 413.711 japönsk jen, dags. 13.04.2010 að upphæð 5.282,26 svissneskir frankar og 216.877 japönsk jen, dags. 23.04.2010 að upphæð 3.227,58 svissneskir frankar og 132.475 japönsk jen, dags. 07.05.2010 að upphæð 2.174,44 svissneskir frankar og 89.210 japönsk jen.

Þá er krafist málskostnaðar.

Af hálfu stefnda er þess aðallega krafist, að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að stefnufjárhæð verði lækkuð verulega.

Í báðum tilvikum krefst stefndi greiðslu málskostnaðar.

Krafa stefnda um frávísun er til úrlausnar hér.

Stefnandi mótmælir kröfu stefnda um frávísun máls þessa. Hann kveðst byggja kröfu sína á lánssamningi nr. 4917 milli stefnda, Háttar ehf., sem lántaka og Kaupþings banka hf., (nú Arion banki hf.) sem lánveitanda. Með lánssamningnum, dagsettum 2. apríl 2007, sem frammi liggi í málinu hafi lánveitandi lánað stefnda jafnvirði 402.200.000 króna í eftirfarandi myntum og hlutföllum: 70% í svissneskum frönkum og 30% í japönskum jenum.

Samkvæmt 2. gr. lánssamningsins skyldi lántaki endurgreiða lánið með 36 greiðslum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn hinn 1. maí 2007. Hinn 15. maí 2007 hafi verið gerður viðauki við lánssamninginn þar sem afborgun fyrsta gjalddaga lánsins hafi verið frestað til 15. júní 2007. Hinn 9. desember 2008 hafi verið gerður viðauki við lánssamninginn þar sem afborgunum höfuðstóls og vaxta hafi verið frestað í sex mánuði. Skyldi lántaki þá endurgreiða eftirstöðvar lánsins með 12 greiðslum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn hinn 15. júní 2009.

Samkvæmt 1. lið 3. gr. lánssamningsins skyldu lánshlutar lánsins, í öðrum myntum en evrum, bera breytilega vexti sem skyldu vera LIBOR vextir eins og þeir ákvarðist fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni fyrir viðkomandi vaxtatímabil, tveimur virkum bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils að viðbættu 1,75% vaxtaálagi.

Vextir skyldu reiknast þannig að á ársgrundvelli er margfaldað með raunverulegum fjölda daga og deilt í með 360. Vextir skyldu reiknast frá útborgunardegi lánsins og greiðast eftir á, á gjalddögum þess. Hvert vaxtatímabil skyldi vera einn mánuður.

Samkvæmt 6. lið 3. gr. lánasamningsins ber stefnda að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð, í erlendum myntum, frá gjalddaga til greiðsludags. Dráttarvextir lánsins skulu vera vaxtagrunnur, auk 1,75% vaxtaálags sbr. gr. 3.1., að viðbættu dráttarvaxtarálagi sem skal vera 10%. Vaxtagrunnur eru LIBOR vextir eins og þeir ákvarðast fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni fyrir viðkomandi vaxtatímabil, tveimur bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils. Tveimur bankadögum fyrir gjalddaga lánsins voru LIBOR vextir fyrir japönsk jen 0,23625% og 0,19833% fyrir svissneska franka sbr. dskj. nr. 15. Vaxtagrunnur auk vaxtaálags að viðbættu dráttarvaxtaálagi er 11,98625% fyrir japönsk jen og 11,94833% fyrir svissneska franka.

Gjalddagi lánsins hinn 15. júní 2009 hafi ekki verið greiddur. Skuld samkvæmt lánasamningnum hinn 15. júní 2009 hafi verið 4.869.865,58 svissneskir frankar og 201.999.288 japönsk jen og bankakostnaður 1.500 krónur. Inn á skuldina hafi verið greiddar þessar innborganir:

Dags. 24. nóvember 2009 101.430,82 svissneskir frankar og 4.183.494 og japönsk jen, dags 31. janúar 2010 3.834,25 svissneskir frankar og 157.489 japönsk jen, dags 31. janúar 2010 6.584,59 svissneskir frankar og 270.457 japönsk jen, dags. 15. mars 2010 10.067,48 svissneskir frankar og 413.711 japönsk jen, dags. 13. apríl 2010 5.282,26 svissneskir frankar og 216.877 japönsk jen, dags. 23. apríl 2010 að 3.227,58 svissneskir frankar og 132.475 japönsk jen, dags. 7. maí 2010 2.174,44 svissneskir frankar og 89.210 japönsk jen og kveður stefnandi tillit verða tekið til þessa við uppgjör kröfunnar.

Stefnda hafi verið tilkynnt um vanskilin með innheimtubréfi dagsettu 3. mars 2010. Eftirstöðvar skuldarinnar hafi ekki fengist greiddar þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

Samkvæmt almennum reglum kröfuréttarins og meginreglu samningsréttarins um skuldbindingagildi loforða og skyldu til að efna samninga beri stefnda að greiða kröfuna. Varðandi varnarþing vísast í I. lið 17. gr. lánssamningsins.

Með heimild í lögum nr. 125/2008 hafi Fjármálaeftirlitið ákveðið að taka yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka hf., kt. 560882-0419, og víkja stjórn bankans og skipa skilanefnd yfir hann. Ákvörðun þessi sé dagsett 9. október 2008. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins dagsettri 22. október 2008 hafi ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings banka hf. til Arion banka hf., verið ákveðin.

Vísað er til almennra reglna kröfuréttarins og meginreglna samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar fá m.a. stoð í lögum nr. 7/1936. Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við 3. gr. í samningi aðila, sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Um aðild vísast til 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins. Varðandi varnarþing vísast til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991.  

Stefndi lýsir málavöxtum svo að í desember 2006 hafi hann sótt um lán frá stefnanda til greiðslu kaupverðs fasteignarinnar að Síðumúla 20-22, Reykjavík. Hinn 21. desember 2006 hafi verið samþykkt í lánanefnd forvera stefnanda, Kaupþings banka hf., að veita stefnda lán að fjárhæð 400.000.000 króna tengt myntkörfunni japönsk jen 30% og svissneskir frankar 70%. Samþykkt hafi verið að lánið skyldi bera vexti sem jafngiltu REIBOR eða LIBOR vöxtum auk 1,75% vaxtaálags.

Stefnandi hafi tilkynnt stefnda um lánssamþykkið með tölvupósti hinn 16. mars 2007.

Stefndi hafi á þessum tíma fengið afhent frá stefnanda greiðsluáætlun sem sýnt hafi fram á áætlaðar greiðslur á láninu í íslenskum krónum

Hinn 30. mars 2007 hafi fengist samþykki fyrir því að lánsfjárhæðin yrði hækkuð í 402.200.000 krónur í þeim tilgangi að útreidd fjárhæð yrði 400.000.000 króna líkt og stefnda hafi verið nauðsynlegt vegna kaupa sinna á fasteigninni að Síðumúla 20-22, Reykjavík.

Hinn 30. mars 2007 hafi stefndi fengið útgefið skilyrt veðleyfi frá seljanda fasteignarinnar að Síðumúla 20-22, Reykjavík, Esjuborg ehf., þar sem stefnda hafi verið heimilað að veðsetja eignina sem kaupa hafi átt gegn staðfestingu stefnanda á því að 400.000.000 króna yrði ráðstafað beint inn á bankareikning Esjuborgar ehf.

Hinn 2. apríl 2007 hafi stefndi og stefnandi gert með sér lánssamning þann sem stefnandi geri kröfur um greiðslur samkvæmt máli þessu. Hinn 10. apríl 2007 hafi lánsfjárhæðin að frádregnum lántökukostnaði, það er 400.000.000 króna, verið greidd af stefnanda inn á reikning Esjuborgar ehf. í samræmi við ákvæði hins skilyrta veðleyfis.

Samkvæmt ákvæðum lánssamningsins skyldi stefndi endurgreiða lánið með 36 greiðslum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 1. maí 2007, og skyldi hver greiðsla nema 1/240 hluta lánsins. Á síðasta gjalddaga, sem þá hafi átt að vera 1. maí 2010, skyldi stefndi greiða eftirstöðvar lánsins nema heimild hefði fengist til framlengingar þess.

Með skilmálabreytingu, dags. 15. maí 2007, hafi endurgreiðsluskilmálum lánssamningsins verið breytt þannig að fyrstu afborgun hafi verið frestað til 15. júní 2007 og aðrir gjalddagar breyst til samræmis við það.

Með skilmálabreytingu, dags. 9. desember 2008, hafi endurgreiðsluskilmálum verið breytt á ný þannig að endurgreiða ætti lánið með 12 greiðslum á eins mánaðar fresti, þeirri fyrstu 15. júní 2009, og skyldi hver greiðsla nema 1/240 hluta lánsins. Á síðasta gjalddaga sem þá hafi átt að vera 15. júní 2010 skyldi stefndi greiða eftirstöðvar lánsins nema heimild hefði fengist til framlengingar þess.

Stefndi hafi síðan greitt þær afborganir sem tilteknar séu í stefnu, hinn 9. desember 2008, alls 7 gjalddaga af 12. Stefnandi hafi ekki veitt heimild til framlengingar lánsins og hafi nú stefnt stefnda til endurgreiðslu þess að fullu í erlendum myntum.

Af hálfu stefnda er á það bent að lánsfjárhæð samningsins sé einungis tilgreind í íslenskum krónum, en í tilteknu hlutfalli í erlendum myntum. Fjárhæð myntanna sé ekki frekar tilgreind í samningnum. Í lánssamningnum komi fram að skuldfæra skuli þrjá reikninga stefnda, nr. 0301-38-60833 (svissneskir frankar), nr. 301-38-678333 (japönsk jen) og nr. 0301-26-7108 (íslenskar krónur). Hins vegar beri greiðslukvittanir vegna lánssamningsins með sér, að íslenskir reikningar stefnda hafi verið skuldfærðir fyrir afborgunum. Því virðist fyrrgreint ákvæði lánssamningsins einungis hafa verið til málamynda. Stefndi kannist síðan ekki við að hafa óskað eftir stofnun bankareikninga í japönskum jenum og svissneskum frönkum.

Afborganir hafi verið skuldfærðar án beiðni stefnda af reikningi hans í íslenskum krónum. Eftir þá skuldfærslu virðist sem stefnandi hafi, án beiðni stefnda, látið fara fram meint gjaldmiðlaviðskipti og fært andvirði þeirrar fjárhæðar inn á reikninga stefnda nr. 0301-38-608333 og nr. 301-38-678333. Stefndi hafi aldrei fengið neinar upplýsingar um umrædd meint gjaldmiðlaviðskipti og virðist því eingöngu hafa verið um málamyndafærslu að ræða en ekki raunveruleg gjaldmiðlaviðskipti. Stefnandi beri að minnsta kosti sönnunarbyrðina fyrir öðru.

Að auki megi benda á að önnur gögn málsins, svo sem greiðsluáætlun, tölvuskeyti og lánssamþykki beri með sér að tilgangur aðila hafi verið sá að lána fjárhæð í íslenskum krónum.

Ljóst sé að lánsfjárhæðinni hafi verið varið til kaupa á fasteign þar sem kaupverðið hafi verið í íslenskum krónum. Þá liggi einnig fyrir að þrátt fyrir ákvæði lánssamningsins um að leggja ætti lánsfjárhæðina inn á tiltekna gjaldeyrisreikninga hafi lánsfjárhæðin verið millifærð af stefnanda í íslenskum krónum á bankareikning Esjuborgar ehf. skv. ákvæðum skilyrts veðleyfis.

Því er alfarið mótmælt að kvittanir frá bankanum og málamyndafærsla gjaldmiðla inn á reikninga stefnda sýni fram á að gjaldeyrisviðskipti hafi farið fram. Stefndi telur einsýnt að þar sé um tölvufærslur að ræða án tengingar við nokkur gjaldmiðlaviðskipti. Stefndi telur einsýnt að engin eiginleg gjaldeyrisviðskipti hafi farið fram.

Stefndi telur það sama eiga við um allar þær kvittanir sem stefnandi hafi lagt fram varðandi innborganir á skuldina.

Af framangreindu leiði að hér sé ekki um að ræða lán í erlendri mynt, heldur í raun lán í íslenskum krónum hvers höfuðstóll breytist miðað við gengi erlendra gjaldmiðla sem tilgreindir séu, enda hafi það verið greitt út í íslenskum krónum og íslenskir bankareikningar skuldfærðir fyrir greiðslu vaxta og afborgana. Lánssamningurinn feli þannig í sér óheimila verðtryggingu sem brjóti í bága við ákvæði 13. og 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001

Af hálfu stefnda er byggt á því að krafa stefnanda sé því ekki reifuð með tilliti til þess að um sé að ræða lánsfé í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Sé krafa stefnanda svo vanreifuð að ekki sé unnt að fella dóm í málinu í núverandi búningi. Í stefnu komi fram að gjalddagi láns stefnda frá 15. júní 2009 sé ógreiddur og fullyrt að þann dag hafi öll skuld stefnda verið fallin á gjalddaga.

Þrátt fyrir þetta liggi fyrir að eftir 15. júní 2009 hafi umtalsverðar fjárhæðir verið greiddar inn á lánið með sjö innborgunum, í fyrsta skipti hinn 24. nóvember 2009. Auk þess liggi fyrir að lokagjalddagi lánsins hafi ekki verið 15. júní 2009 heldur 15. júní 2010. Þetta sé meðal annars staðfest í stefnu þar sem segi:

,,Þann 09.12.2008 var gerður viðauki við lánssamninginn þar sem afborgunum höfuðstóls og vaxta var frestað í sex mánuði. Skyldi lántaki þá endurgreiða eftirstöðvar lánsins með 12 greiðslum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn þann 15.06.2009.“

Það sé því verulegt innra ósamræmi í málatilbúnaði stefnanda. Við lestur þeirra skjala sem stefnandi lagði fram við þingfestingu málsins fæst engin útskýring á því hvers vegna stefnandi miðar dómkröfu sína við að skuld stefnda hafi verið gjaldfallin þann 15. júní 2009.

Í stefnu segir að stefnda hafi verið tilkynnt um vanskil sín með innheimtubréfi dags. 3 mars 2010. Í umræddu innheimtubréfi er stefnda tilkynnt hver heildarskuld hans við stefnanda sé og fullyrt að lánið hafi verið í vanskilum síðan 15. júní 2009 og að af þeim sökum hafi stefnandi gjaldfellt lánið í heild sinni. Ekkert kemur fram um það í umræddu innheimtubréfi, frekar en í stefnu þessa máls, hvaða gjalddagi sé í vanskilum né hvernig það geti samrýmst þeirri staðreynd að stefnandi hefur greitt alls 7 innborganir inn á lánið síðan 15. júní 2009 að það hafi verið í vanskilum síðan þá. Hvergi í málinu er samtímatilkynning um gjaldfellingu þann 15. júní 2009. Er því mótmælt að lánið hafi verið gjaldfellt á þeim degi.

Að lokum er byggt á því að þar sem ekki liggi frammi útreikningur fyrir kröfu stefnanda í íslenskum krónum þá sé ómögulegt fyrir réttinn að átta sig á því hver fjárkrafa stefnanda sé í raun og veru.

Stefnandi telur framangreint fela í sér að stefna í máli þessu uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 80. gr. einkamálalaga, þá sérstaklega d- og e-liðar, enda er gjalddagi dómkröfu stefnanda á reiki og málsástæður óljósar og ósamrýmanlegar innbyrðis.

NIÐURSTAÐA

Á forsíðu lánssamnings aðila segir: „Lánssamningur í erlendum myntum milli Kaupþings Banka hf. sem lánveitanda og Háttar ehf. sem lántaka.“

Í 2. gr. samningsins segir að lántaki lofi að taka að láni og lánveitandi að lána „að jafnvirði íslenskar krónur 402.200.000,- […] í eftirfarandi erlendum myntum: CHF 70% JPY 30%“. Í fylgiskjali við lánssamning þar sem fram kemur beiðni um útborgun samkvæmt lánssamningi er vísað til lánssamnings að jafnvirði 402.200.000 íslenskar krónur, í svissneskum frönkum og japönskum jenum. Þá segir í umboði forsvarsmanns lántaka til Gunnars Gunnarssonar, sem undirritaði lánssamninginn, að Gunnari sé veitt „ótakmarkað umboð til að undirrita kaupsamning vegna fasteignar að Síðumúla 20-22, Reykjavík og lánasamning við Kaupthing Banka hf. vegna sömu fasteignar að fjárhæð 400.000.000 kr. auk lántökukostnaðar“. Í viðauka við lánssamning frá 15. maí 2007 er vísað til lánssamnings að „jafnvirði kr. 402.200.000 í erlendum myntum“. og sama orðalag kemur fram í viðauka við lánssamning frá 9. desember 2007. Þá kemur fram í síðastgreindum viðauka að skilmálabreyting sem fram kemur í viðaukanum sé háð því skilyrði að lántaki greiði mánaðarlega 2.600.000 krónur inn á handveðsettan reikning lántaka hjá bankanum. Af tölvupósti frá 30. mars 2007 sem liggur frammi í málinu verður ráðið að lánsupphæð til stefnda var hækkuð um 2,2 milljónir króna þannig að þeir fengju um 400 milljónir greiddar. Fram kemur á kvittun fyrir innborgun dagsettri 10. apríl 2007 að stefndi greiðir 400.000.000 krónur inn á reikning Esjuborgar ehf. skv. skilyrtu veðleyfi. Hinn 30. mars 2007 veitti Esjuborg ehf. stefnda heimild til að veðsetja eignirnar Síðumúla 20 og 22 fyrir tryggingarbréfi allt að fjárhæð 450.000.000 króna, sem samkvæmt gr. 6.1. í lánssamningi aðila skyldi til tryggingar láninu, með því skilyrði að Kaupþing banki hf. ábyrgðist að ráðstafa 400.000.000 kr. af andvirði lánsins inn á reikning Esjuborgar ehf.

Af framaröktu má sjá að hvorki í lánssamningi aðila né viðaukum við hann eru fjárhæðir tilgreindar í erlendri mynt heldur notað orðalagið „að jafnvirði“. Þá er ljóst af gögnum málsins að tilgangur lántöku stefnda var sá að fjármagna kaup á tilteknum fasteignum hér í borg og greiða seljanda þeirra 400.000.000 króna . Þannig greiddi forveri stefnanda lánsfjárhæðina í íslenskum krónum inn á reikning Esjuborgar ehf. hinn 10. apríl 2007.

Þegar til þess er litið að einu fjárhæðirnar sem tilgreindar eru í lánssamningi aðila og viðauka við hann eru í íslenskum krónum og litið til ráðstöfunar lánsfjárhæðarinnar inn á reikning Esjuborgar ehf. svo og hver tilgangur stefnda var með lántöku sinni þykir verða á því að byggja að lántaka stefnda hafi í reynd verið í íslenskum krónum en höfuðstóll lánsins skyldi breytast miðað við gengi erlendra gjaldmiðla. Þykja færslur forvera stefnanda um gjaldeyrisreikninga stefnda ekki hagga þessari staðreynd. Málið er hins vegar ekki reifað af hálfu stefnanda með tilliti til þessa og þykir það slíkur annmarki á málatilbúnaði hans að þegar af þeirri ástæðu verður ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi svo sem krafist hefur verið af stefnda.

Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda 500.000 krónur í málskostnað.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

ÚRSKURÐARORÐ

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.