Hæstiréttur íslands
Mál nr. 443/1999
Lykilorð
- Líkamsárás
- Miskabætur
- Þjáningarbætur
- Áfrýjun
|
|
Fimmtudaginn 9. mars 2000. |
|
Nr. 443/1999. |
Rúnar Pálmarsson (Páll Arnór Pálsson hrl.) gegn Bjarka Þór Arnarsyni (Bjarni Þór Óskarsson hrl.) |
Líkamsárás. Miskabætur. Þjáningabætur. Áfrýjun.
R var sakfelldur fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa veitt B högg í andlitið með höfði sínu, en af því hlaut B þverbrot í miðjum rótum beggja framtanna í efri gómi. R undi ákvæði héraðsdóms um sakfellinguna, refsingu og sakarkostnað, en áfrýjaði niðurstöðu dómsins um einkaréttarkröfu B og krafðist þess að bætur hans vegna þjáninga, miska og lögmannskostnaðar yrðu lækkaðar verulega. Þótt í málinu nyti ekki við læknisfræðilegra gagna um að B hefði talist veikur í skilningi 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 var talið nægilega fram komið, að hann hefði mátt þola þjáningar svo að fullnægt væri skilyrðum 2. málsliðar 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga til að dæma honum þjáningabætur vegna samtals 23 daga, svo sem hann hefði verið veikur án þess að vera rúmliggjandi. R þótti hafa gerst sekur um ólögmæta meingerð gegn persónu B með fólskulegri og tilefnislausri árás og væri þannig fullnægt skilyrðum 26. gr. skaðabótalaga til að dæma hann til greiðslu miskabóta, sem ákveðnar voru með hliðsjón af dómvenju. Bætur til B vegna þjáninga og miska voru lækkaðar, en fallist á niðurstöðu héraðsdómara um fjárhæð bóta vegna lögmannskostnaðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. nóvember 1999. Hann krefst þess að bætur, sem honum var gert með héraðsdómi að greiða stefnda, verði lækkaðar verulega. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Með hinum áfrýjaða dómi, sem gekk í Héraðsdómi Reykjavíkur 25. maí 1999 í máli ákæruvaldsins gegn áfrýjanda, var hann sakfelldur fyrir að hafa brotið gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa veitt stefnda högg í andlitið 22. febrúar 1997 með höfði sínu, en af því hlaut stefndi þverbrot í miðjum rótum beggja miðframtanna í efri gómi. Refsing ákærða var ákveðin 6 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 2 ár. Áfrýjanda var og gert að greiða stefnda 783.094 krónur í bætur með dráttarvöxtum frá uppsögu dómsins og 50.000 krónur vegna kostnaðar af því að halda fram bótakröfu.
Áfrýjandi undi ákvæði héraðsdóms um sakfellingu, refsingu og sakarkostnað, en áfrýjar nú niðurstöðu dómsins um einkaréttarkröfu stefnda samkvæmt 2. mgr. 173. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
II.
Fyrir héraðsdómi krafðist stefndi annars vegar þjáningabóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 í 365 daga, svo sem hann hafi verið veikur þann tíma án þess að vera rúmliggjandi, 775,60 krónur fyrir hvern dag, eða alls 283.094 krónur. Hins vegar krafðist hann miskabóta samkvæmt 26. gr. sömu laga að fjárhæð 1.000.000 krónur. Þessu til viðbótar krafðist hann vaxta, svo og greiðslu á 107.175 krónum vegna þóknunar lögmanns. Krafa áfrýjanda lýtur einungis að fjárhæð bótanna.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga, eins og þau hljóðuðu þegar atvik málsins gerðust, getur tjónþoli krafist bóta fyrir þjáningar vegna líkamstjóns á tímabilinu frá því að tjónið varð og þar til ekki er að vænta frekari bata. Því skilyrði verður jafnframt að vera fullnægt að tjónþoli hafi verið veikur á umræddu tímaskeiði. Um það verður að taka mið af læknisfræðilegu mati á líkamlegu ástandi tjónþola, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í dómasafni 1998, bls. 1976. Frá þessum áskilnaði má þó víkja eftir 2. málslið 1. mgr. 3. gr laganna ef sérstaklega stendur á og dæma tjónþola þjáningabætur þótt hann hafi ekki verið veikur í þeim skilningi, sem hér um ræðir.
Í málinu nýtur ekki við læknisfræðilegra gagna um að stefndi geti hafa talist veikur í skilningi 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga í kjölfar árásar áfrýjanda. Hins vegar er nægilega fram komið að stefndi hafi mátt þola nokkrar þjáningar af meiðslum sínum, auk þess að hann var á tímabilinu 24. til 28. febrúar 1997 frá vinnu vegna áverka, sem hann hlaut við árásina. Þá liggur fyrir að hann þurfti að vera án framtanna í viku eftir atburðinn, svo og á síðari stigum í tvær vikur eftir ígræðslu tannplanta. Því til viðbótar bar tannlæknir, sem stefndi leitaði til, að gervitennur, sem var komið fyrir í stefnda til bráðabirgða, hafi tvívegis losnað til mikilla óþæginda fyrir hann og þurft hafi að festa þær á ný. Verður litið svo á að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga til að dæma stefnda þjáningabætur vegna samtals 23 daga, svo sem hann hefði verið veikur án þess að vera rúmliggjandi. Samkvæmt kröfugerð stefnda, sem hefur ekki sætt andmælum að þessu leyti, nema þjáningabætur fyrir það tímabil 17.839 krónum.
Eins og málið liggur fyrir hefur stefndi ekki leitað eftir mati á því hvort hann hafi hlotið varanlegan miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga af áverkunum, sem áfrýjandi veitti honum. Getur því ekki komið til álita að dæma honum miskabætur vegna líkamlegra afleiðinga þessa atviks. Til þess verður hins vegar að líta að áfrýjandi réðist fólskulega og að tilefnislausu á stefnda, sem sinnti þegar atvikið gerðist starfi sem dyravörður á veitingahúsi. Gerðist áfrýjandi með þessu sekur um ólögmæta meingerð gegn persónu stefnda. Er þannig fullnægt skilyrðum 26. gr. skaðabótalaga til að dæma áfrýjanda til að greiða stefnda miskabætur, sem með hliðsjón af dómvenju þykja hæfilega ákveðnar 200.000 krónur.
Engin efni eru til að verða við kröfu áfrýjanda um lækkun bóta með vísan til ákvæðis 24. gr. skaðabótalaga.
Með hinum áfrýjaða dómi var áfrýjanda sem áður segir gert að bæta stefnda kostnað af aðstoð lögmanns vegna málsins með 50.000 krónum. Með hliðsjón af því, sem liggur fyrir í málinu um vinnuframlag lögmanns, er þeirri fjárhæð í hóf stillt.
Samkvæmt framansögðu verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda alls 267.839 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Þá verður áfrýjandi og dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem segir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Rúnar Pálmarsson, greiði stefnda, Bjarka Þór Arnarsyni, 267.839 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25. maí 1999 til greiðsludags.
Áfrýjandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 1999.
Mál þetta sem dómtekið var 3. maí 1999 er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 2. mars 1999 á hendur ákærða, Rúnari Pálmarssyni, kennitala 170179-3319, Leirutanga 10, Mosfellsbæ, fyrir líkamsárás með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 22. febrúar 1997 í anddyri veitingastaðarins Feita dvergsins, Höfðabakka 1, Reykjavík, veitt Bjarka Þór Arnarsyni, kennitala 071078-5589, högg í andlitið með höfði sínu með þeim afleiðingum að Bjarki Þór hlaut þverbrot í miðjum rótum beggja miðframtanna í efri gómi og fjarlægja þurfti tennurnar, bæði krónu- og rótarhluta þeirra.
Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu Bjarka Þórs Arnarsonar er krafist þjáninga- og miskabóta auk vaxta, lögmannsþóknunar og virðisaukaskatts, samtals að fjárhæð krónur 1.439.155.
Af hálfu ákærða er þess krafist að hann verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins en til vara að honum verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Þess er krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi. Loks er krafist málsvarnarlauna samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Málavextir og sönnunargögn:
Laugardaginn 22. febrúar 1997 kl. 02.11 var lögregla boðuð að veitingastaðnum Feita dvergnum, Höfðabakka 1, þar sem ölvaður maður hafði skallað dyravörð, Bjarka Þór Arnarson, í andlitið með þeim afleiðingum að framtennur höfðu losnað. Maðurinn hafði farið í burtu án þess að til hans næðist. Honum var lýst sem skolhærðum, 180 cm á hæð, u.þ.b. tvítugum og í svörtum jakka. Þriðjudaginn 25. febrúar kom Bjarki Þór í rannsóknadeild lögreglunnar til að kæra ofangreinda líkamsárás. Hann kvaðst vera dyravörður á veitingahúsinu Feita dvergnum að Höfðabakka 1. Hann kvað strák hafa komið að dyrum veitingastaðarins, hafi hann verið í rifnum bol og einnig eitthvað blóðugur á höndum. Hann kveðst hafa spurt hann um skilríki og hafi hann sýnt nafnskírteini. Hann kvað hafa staðið á nafnskírteini mannsins að hann væri fæddur árið 1976. Þrátt fyrir að aldur virtist vera í lagi hafi hann ekki viljað hleypa honum inn vegna þess hve blóðugur hann var. Hafi maðurinn samt reynt að komast inn í húsið og verið þá vísað út. Í þessum svifum hafi maðurinn snúið sér við og skallað hann í andlitið og síðan hlaupið í burtu. Hann kvaðst myndu þekkja hann aftur ef hann sæi hann.
Hinn 13. apríl 1997 kvaddi kærandi, Bjarki Þór, lögreglu að Fógetanum í Aðalstræti. Kvað hann mann þann, sem skallað hefði sig í andlitið 21. febrúar sama ár, vera þarna inni á staðnum og benti hann lögreglunni á hann. Kvaðst hann ekki vera í neinum vafa um að þetta væri maðurinn. Lögreglan hafði tal af meintum aðila sem er ákærði í máli þessu. Hann sagði á sér heimildir og framvísaði persónuskilríkjum því til sönnunar og kom þá í ljós að hann var fæddur árið 1979. Hann kvaðst ekkert kannast við þetta líkamsárásarmál og var látinn laus að svo búnu.
Hinn 7. apríl 1998 kom kærandi, Bjarki Þór, enn til lögreglu að eigin frumkvæði vegna sama máls og kvaðst vilja upplýsa það að vinnufélagi hans hjá Húsasmiðjunni, Bjarni Ingvar Halldórsson, sem nú starfaði hjá Húsasmiðjunni í Keflavík, hefði sagt sér frá því, án þess að vita að hann ætti hlut að máli, að kunningi Bjarna, sem héti Rúnar og ætti heima í Mosfellsbæ í Langa- eða Arnartanga, hefði sagt sér frá því að í febrúar sl. ár hefði hann skallað dyravörð á Feita dvergnum og hefði sloppið alveg með það. Nokkru síðar kvaðst kærandi hafa verið á ferð með Bjarna og þeir hafi hitt þennan Rúnar. Kvaðst hann þá hafa kannast við manninn sem árásarmanninn og hafa spurt Bjarna um deili á honum. Hafi Bjarni þá sagt að þetta væri Rúnar sá sem hann hefði sagt honum frá.
Ákærði var kallaður fyrir hjá lögreglu 5. maí 1997, kvaðst hann ekkert kannast við þessa líkamsárás og aldrei hafa stigið fæti inn á veitingastaðinn Feita dverginn. Hann var aftur kallaður fyrir hjá rannsóknalögreglu 26. maí 1998. Hann kvaðst þá aðspurður hafa farið á þorrablót hjá Vatnsveitu Reykjavíkur, sem haldið hafði verið í Félagsheimili Vatnsveitunnar í Heiðmörk, og muni þetta hafa verið í febrúar 1997. Eftir að þorrablótinu lauk kvaðst hann hafa farið með rútubifreið ásamt fleira fólki. Bifreiðin hafi fyrst farið niður í miðbæ Reykjavíkur en hann og nokkrir aðrir hafi farið úr henni skammt frá Feita dvergnum. Hann kvaðst síðan hafa gengið upp á Vesturlandsveg og farið þaðan á puttanum heim. Hann kvaðst hafa lent í áflogum í Félagsheimilinu á þorrablótinu. Hann kvaðst hafa verið í svörtum stutterma bol sem hefði rifnað og sá sem hann lenti í átökum við hafi fengið blóðnasir og því hafi verið blóð á bolnum. Hann kannaðist ekki við að hafa sagt Bjarna Ingvari Halldórssyni það sem kærandi hafði eftir honum.
Hinn 4. desember 1998 var ákærði enn kallaður fyrir hjá lögreglu og var honum þá kynnt niðurstaða myndsakbendingar og framkomin bótakrafa kæranda. Hann hafnaði bótakröfu og ítrekaði sakleysi sitt.
Hinn 12. maí 1998 var Baldur Brjánsson, eigandi veitingastaðarins Feita dvergsins, yfirheyrður af lögreglu. Hann kvaðst hafa komið að þar sem Bjarki Þór hafði mann í tökum í andyrinu og hafði maðurinn beðið Bjarka um að láta sig lausan og sagst myndi fara út með góðu. Hafi Bjarki þá losað tökin á manninum en um leið og hann var laus hafi maðurinn skallað Bjarka í andlitið og síðan farið út úr húsinu. Þegar ljóst varð að tvær framtennur í efri góm Bjarka voru lausar og að málið var alvarlegt hafi þeir leitað að manninum fyrir utan veitingastaðinn en ekki séð hann. Beðinn um að lýsa árásarmanninum kvað hann hann vera háan og grannan, stuttklipptan og líklega dökkhærður. Hann kvaðst ekki muna hvernig maðurinn var klæddur en taldi að hann myndi þekkja hann aftur.
Hinn 14. sama mánaðar var Bjarni Ingvar Halldórsson yfirheyrður hjá lögreglu. Var honum kynntur framburður Bjarka Þórs um samtal þeirra. Hann kvaðst hafa unnið með Bjarka í Húsasmiðjunni í Reykjavík. Kvaðst hann hafa verið að tala við hann um falskar tennur, sem Bjarki var með í efri góm, og hafa spurt hvernig hann hefði misst tennurnar. Hann hafi þá sagt sér að hann hefði verið að vinna á Feita dvergnum sem dyravörður og lent í átökum þar. Hafi hann sagt sér að strákur, sem héti Rúnar, hefði veitt sér þessa áverka en sá strákur ætti heima í Mosfellsbæ. Hafði hann þá spurt Bjarka nánar út í þetta þar sem hann kannaðist við strák sem héti Rúnar og byggi í Mosfellsbæ. Kvað hann Rúnar hafa komið á vinnustað þeirra nokkrum dögum síðar og hafi Bjarki þá spurt hann hver þetta hefði verið. Hann hafi sagt honum að þetta væri Rúnar kunningi hans sem byggi í Mosfellsbæ. Hafi Bjarki þá nefnt að þetta gæti verið árásarmaðurinn. Bjarki hafi síðan talað nokkrum sinnum við hann um að Rúnar gæti verið sá sem ráðist hefði á hann. Hann upplýsti að umrætt kvöld hefði hann verið ásamt Rúnari og fleira fólki á þorrablóti í húsnæði Vatnsveitunnar í Reykjavík í Heiðmörk. Eftir þorrablótið hafi allir farið í rútubifreið í bæinn og hafi sumir farið út við Feita dverginn. Hann kvað konu hafa hringt heim til sín daginn eftir (sem hafi verið í þessari ferð og hafi farið á Feita dverginn) hún hafi spurt hvað Rúnar væri gamall og sagt að honum hefði verið meinaður aðgangur í veitingahúsið og því hafi hann farið í burtu. Hann kvaðst hafa frétt hjá Rúnari nokkrum dögum eftir þorrablótið að hann hefði lent í átökum eða látum við Feita dverginn en hvort það hafi verið inni eða fyrir utan vissi hann ekki. Hann kvað Rúnar ekki hafa lýst þessu frekar fyrir sér og hann hafi ekki spurt út í það. Hann kvað þessa konu hafa búið í næsta húsi við sig en nú vissi hann ekki hvar hún byggi eða hvernig hægt væri að komast í samband við hana og kvaðst ekki muna hvað hún héti, hún hefði verið gestur á þessu þorrablóti. Hann kvaðst vera þess fullviss að hann hefði ekki sagt Bjarka frá þessu með Rúnar. Beðinn um að lýsa Rúnari kvað hann hann vera grannan um 180 cm á hæð með dökkt eða svart hár.
Hinn 23. maí 1998 kom vitnið, Baldur Brjánsson, í myndsakbendingu til lögreglu. Hann skoðaði níu ljósmyndir í ljósmyndamöppu merktri myndbending nr. 1. Hann benti á myndir nr. 4 og 7 og kvað þær líkjast árásarmanninum en kvaðst ekki treysta sér að gera upp á milli þeirra. Aðili á mynd nr. 7 var ákærði í máli þessu.
Hinn 3. september 1998 kom kærandi Bjarki Þór Arnarson í myndsakbendingu til lögreglu. Benti hann strax á mynd nr. 4 sem var mynd af ákærða í máli þessu.
Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrir dómi ákærði, brotaþoli og vitnin Baldur Brjánsson, Bjarni Ingvar Halldórsson og Gunnar Guðni Leifsson tannlæknir.
Ákærði staðfesti að hann hefði verið á þorrablóti Vatnsveitunnar umrætt kvöld en neitaði því alfarið að hafa farið að veitingastaðnum Feita dvergnum. Hann sagði rétt að hann hefði lent í áflogum á þorrablótinu og það gæti verið að það hefði verið blóð á honum vegna þess að strákurinn sem hann var að slást við hafði fengið blóðnasir. Hann kvað bol, sem hann var í, hafa verið rifinn í hálsmálinu. Hann neitaði að hafa skallað dyravörð við Feita dverginn. Hann kannaðist ekki við að hafa sagt Bjarna Ingvari það sem eftir honum er haft. Hann kvaðst hafa verið drukkinn þetta kvöld en muna þokkalega eftir kvöldinu. Aðspurður kvað hann það hafa komið fyrir að hann gleymdi einhverju þegar hann væri drukkinn, en ekki mjög oft. Hann taldi að rútan hefði stoppað rétt fyrir ofan sandsöluna, í brekkunni ca. 2-300 metrum frá Feita dvergnum. Hann hefði farið upp á Vesturlandsveg í skíta kulda og húkkað sér bíl heim. Hann taldi að hann hefði verið kominn heim um klukkan hálf þrjú. Þegar myndsakbending var borin undir hann benti hann á að Bjarki Þór hefði verið búinn að sjá hann áður að minnsta kosti tvisvar sinnum og væri myndsakbending hans því ekki marktæk og hann benti á að Baldur hefði bent á annan aðila.
Kærandi, Bjarki Þór Arnarson, kvað mann hafa komið inn á Feita dverginn þar sem hann var dyravörður umrætt kvöld. Hafi hann verið rifinn og tættur og fötin blóðug og í teinóttum jakka yfir bolnum. Nánar aðspurður um hvernig bolur árásarmannsins hefði verið rifinn kvað hann hann hafa verið rifinn neðst og í hálsmálinu, eins og einhver hefði gripið í hann. Hann hafi spurt hann um skilríki og hafi skilríkin verið í lagi en hann hafi þrátt fyrir það ekki viljað hleypa honum inn vegna þess hvernig útgangurinn á honum var. Kvað hann manninn þá hafa æst sig upp og síðan hafi hann ætlað í hann, það hafi endað með því að hann tók manninn hálstaki. Þeir hafi verið að kljást smá stund en maðurinn síðan róast og þeir verið farnir að tala saman. Hann hafi þá sleppt manninum, sem hafi ætlað út. Allt í einu hafi maðurinn snúið sér við og skallað hann í andlitið. Síðan hafi hann hlaupið og út og dottið fyrir utan. Hann kvað manninn hafa komið inn með hópi fólks, sem hafi komið úr rútu eða strætó, og hafi einhverjir í hópnum verið að hvetja hann þegar þeir voru í stympingunum, aðallega einn. Rútuna kvað hann hafa stoppað hinum megin við götuna dálítið langt frá, 50 til 70 metra. Hann kvaðst ekki vita hvort allir í hópnum hefðu farið inn á Feita dvergin.
Hann kvaðst vera viss um það að ákærði væri árásarmaðurinn. Hann kvaðst ekki hafa séð hann fyrir umrætt kvöld. Aðspurður kvað hann lýsingu í frumskýrslu lögreglu um að manninum hafi verið vísað út af staðnum ekki vera rétta, hann hafi verið í dyrunum, hefði aldrei farið lengra en í anddyrið. Hann kvaðst lítið hafa getað talað við lögregluna á staðnum vegna meiðslanna. Aðspurður kvaðst hann vera viss um að á nafnskírteini mannsins hefði staðið ártalið 1976, hann kvaðst ekkert hafa séð athugavert við skírteinið en ekki rannsakað það. Hann tók fram að þetta hefði verið fyrsta kvöldið hans í dyravörslu. Hann kvaðst næst hafa séð manninn inni á Fógetanum þegar hann var þar að skemmta sér og síðan hafi hann margoft séð hann, m.a. á bíl merktum Vatsveitunni. Aðspurður um samtal sitt við Bjarna Ingvar, sem lýst er í lögregluskýrslum, kvað hann þá hafa unnið saman í Húsasmiðjunni. Hafi Bjarni Ingvar unnið í plötusölunni en hann í plötusmíði. Bjarni Ingvar hafi spurt hann um dyravörslu og hafi hann sagt honum að hann hefði lent í slæmum málum, verið skallaður og misst tennur og hafi síðan sagt honum frá því hvernig þetta gerðist. Hafi Bjarni Ingvar þá sagst þekkja strák sem byggi í Mosfellsbænum sem hafi verið að monta sig af þessu og að hafa komist upp með það. Hann kvaðst á þeim tíma ekki hafa vitað hvað ákærði hét, en hann kvaðst alveg muna eftir ákærða frá þessu kvöldi. Þegar honum var tjáð að Bjarni Ingvar kannaðist ekki við að hafa sagt honum að ákærði hefði gortað yfir þessu atviki, ítrekaði hann framburð sinn, sagði Bjarna Ingvar hafa sagt sér þetta, annars myndi hann ekki vita um þetta, hann þekkti ákærða ekkert.
Hann kvað afleiðingar höggsins hafa verið þær að báðar framtennur hafi brotnað. Hann hafi síðan átt í erfiðleikum með að borða og hafi tennurnar viljað losna þegar hann beit í eitthvað hart eins og brauð með skorpu. Hann kvaðst hafa farið upp á Slysavarðstofu strax og síðan til tannlæknis morguninn eftir. Hann kvaðst hafa verið frá vinnu alveg vikuna eftir atburðinn og einnig eftir aðgerðir þegar hann hafi þurft að vera tannlaus. Hann kvaðst hafa fengið veikindadaga borgaða hjá vinnuveitanda og því ekki misst tekjur af þessu. Hann kvaðst vera nú með bráðabirgðapart, en hann hafi verið með lausan góm í rúmt ár, hefði gómurinn einu sinni brotnað þegar hann var erlendis og hefði hann þá verið tannlaus í þrjár vikur, einnig hefði hann þurfta að vera tannlaus einhvern tíma eftir aðgerðir. Hann kvað lokafestingu á tönnunum eða límingu enn vera eftir en það ætti að gerast bráðlega. Hann kvaðst ekki geta borðað allt í dag og þurfa að fara varlega þegar hann borðaði eitthvað hart. Aðspurður um útlagðan kostnað kvaðst hann hafa fengið endurgreiddan allan kostnað, sem varðaði tennurnar, frá Tryggingastofnun ríkisins. Hann kvað föt sín hafa eyðilagst og skyrtu þar sem það hefði komið blóð í þau sem ekki náðist úr. Nánar aðspurður um þau óþægindi sem hann hefði haft, kvaðst hann hafa fundið til sársauka upp í góminn ef hann beit í eitthvað sem væri fast fyrir eins og brauð með skorpu, þar sem þetta hafi nuddast saman. Þetta hafi verið mikil óþægindi, ýmis búkhljóð hafi komið sem ekki áttu að vera vegna lofts sem kom inn fyrir ofan góminn. Hann kvaðst hafa verið á fljótandi fæði fyrsta mánuðinn.
Vitnið, Baldur Brjánsson, kvaðst hafa verið eigandi veitingastaðarins Feita dvergsins árið 1997 og hafa rekið hann þegar atburðurinn átti sér stað. Hann kvaðst muna eftir árásinni á Bjarka Þór. Hann hafi komið að þar sem hafi verið stympingar við dyrnar. Hafi Bjarki Þór haldið manni og hafi maðurinn beðið Bjarka að sleppa sér og sagt að hann skyldi vera góður, en þegar Bjarki var búinn að sleppa honum hafi hann rokið með höfðið í andlitið á Bjarka og síðan hlaupið út og þeir hafi misst af honum. Hafi höggið komið á nef og tennur. Hann kvaðst ekki lengur muna vel hvernig hann leit út nema að hann hafi verið grannur, hár drengur, dökkhærður og stuttklipptur. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð árásarmanninn fyrir þetta kvöld, eins og ranglega segi í frumskýrslu lögreglu, og hann hafi ekki séð hann aftur fyrir myndsakbendinguna.
Vitnið, Bjarni Ingvar Halldórsson, kvaðst hafa unnið með Bjarka Þór um tíma í Húsasmiðjunni í Reykjavík en síðar hafi hann sjálfur verið fluttur í Húsasmiðjuna í Keflavík. Hann kvaðst hafa forvitnast um það hjá Bjarka hvers vegna hann væri með falskar tennur og hafi Bjarki þá sagt sér að hann hefði lent í ryskingum við einhvern Rúnar í Mosó og kvaðst hann ekki hafa spurt nánar út í þetta, hann þekkti Rúnar og væri ákærði sá Rúnar sem væri kunningi hans í Mosfellsbæ. Hann kvaðst ekki minnast þess að Rúnar hefði sagt sér frá neinum átökum sem hann hefði lent í við dyravörð. Hann kvaðst hafa unnið hjá Vatnsveitunni í Reykjavík og hafa farið á þorrablót Vatnsveitunnar í febrúar 1997. Hann kvaðst hafa boðið tveimur félögum sínum á framangreint þorrablót og hafi öðrum þeirra verið í nöp við Rúnar og einhverjar ryskingar orðið á milli þeirra. Hann hafi ekki farið á Feita dverginn á eftir, hann hafði farið úr rútunni niðri í bæ. Hann kannaðist við að kona hefði hringt í sig daginn eftir og spurt hann um hver Rúnar væri og hvað Rúnar væri gamall. Hann kvaðst ekki vita hvers vegna hún hefði spurt um það og kvaðst ekki muna eftir að konan hefði sagt að Rúnari hefði verið meinaður aðgangur að veitingahúsinu Feita dverginum og því hefði hann farið í burtu eins og haft er eftir vitninu í lögregluskýrslu. Það væri orðið langt síðan en þetta hlyti að hafa verið svona. Hann kvaðst heldur ekki minnast þess að hafa sagt að hann hefði frétt hjá Rúnari að hann hafi lent í átökum eða látum við Feita dverginn. Hann kvaðst ekki vita önnur deili á konunni, sem hringdi, en að hún þekkti foreldra sína. Hann kvaðst ekki muna hvernig Bjarki hefði lýst því hvernig hann missti tennurnar. Hann rámaði þó í að það hefðu verið einhver læti þar inni á Feita dvergnum. Hann kvað þá Bjarka einu sinni hafa keyrt fram hjá Rúnari, eða hann hafi komið í Húsasmiðjuna, og hafi Bjarki þá spurt hvort þetta væri Rúnar félagi hans og hafi Bjarki haldið að þetta gæti verið árásarmaðurinn. Ítrekað spurður kvaðst hann halda það alveg örugglega að hann hefði ekki sagt við Bjarka að Rúnar hefði hreykt sér af því að hafa lent í ryskingum við dyravörð og komist upp með það. Hann var spurður af verjanda hvort að það væri mögulegt að hann hefði ruglað saman ryskingum þeim sem urðu á þorrablótinu og við Feita dverginn og kvað hann það geta verið hann hefði bara “spólað eitthvað til baka með einhverjar ryskingar, þetta var bara fest á blað”. Sjálfur kvaðst hann hafa verið talsvert ölvaður. Aðspurður um hvenær þeir Bjarki hefðu unnið saman kvaðst hann ekki muna það. Þegar hann hugsaði sig um taldi hann það hafa verið í þrjá til fjóra mánuði e.t.v. ágúst/september en mundi ekki hvaða ár en giskaði á 1997 eftir umhugsun. Enn spurður kvað hann það engan veginn standast að Rúnar hefði gortað af því að hafa skallað dyravörð og komist upp með það.
Vitnið, Gunnar Guðni Leifsson tannlæknir, kvaðst hafa annast Bjarka Þór Arnarson. Hann hefði komið til sín á neyðarvakt 22. febrúar 1997 eftir að hafa fengið áverka um nóttina. Við skoðun hefðu miðframtennur hans í efrigóm vísað inn í munninn og röntgenmynd hafi sýnt að þær voru báðar brotnar á miðjum rótum og hafi hann fjarlægt tannkrónurnar og síðan hafi hann sent Bjarka til munn- og kjálkaskurðlæknis til að fjarlægja tannræturnar. Meðferðin sem hann hlaut hafi síðan verið þannig að hann hafi fengið bráðabirgðapart, sérfræðingur í munn- og kjálkaskurðlækningum hafi sett tannplanta upp í góminn í stað tannanna sem töpuðust, tannplantar séu títaníumskrúfur sem skrúfaðar séu upp í beinið, síðan hafi verið settar krónur ofan á þessa tannplanta, þessi meðferð hafi tekið rétt rúmlega eitt ár, 13 eða 14 mánuði. Hann kvað Bjarka Þór hafa þurft að vera tannlausan um tíma, og enn eigi eftir að líma tennurnar endanlega, en ekki verði meira gert til að bæta hans útlit. Aðspurður um óþægindi fyrir sjúklinginn, kvað hann bráðabirgðalausnina vera tannpart, sem væri laus uppi í manninum, festur með krókum og tvisvar sinnum á þessu ári hafi plasttennurnar í partinum losnað og hafi þurft að endurfesta þær. Fylgi þessu mjög mikil óþægindi fyrir sjúkling, einkum á framtannasvæði efrigóms. Hann geti ekki rifið í sig mat eins og með eigin tönnum, en flestan mat eigi hann að geta borðað. Eftir ísetningu tannplantanna séu tvær til þrjár vikur sem hann þurfi að vera tannlaus. Það sé eðlilegt að bráðabirgðatennurnar brotni eða losni á meðferðartímanum þarna sem sé ekki um sterkbyggðan hlut að ræða og álagið á þetta svæði sé mikið. Hann kvað þetta vera þá aðferð sem bæri bestan árangur í dag og væri fljótlegust. Það sé hægt að gera þetta á styttri tíma með því að setja brú í bilið en þá hefði þurfti að fórna tveimur tönnum til viðbótar, sem ekki sé æskilegt. Hann kvað fræðin segja að sjúklingur eigi að geta notað þessar tennur eins og eigin tennur en þetta séu og verði alltaf gervitennur, sem sé aðskotahlutur í líkamanum og verði aldrei það sama og eigin tennur.
Niðurstaða:
Upplýst er í máli þessu að brotaþoli, Bjarki Þór, varð fyrir verulegu tjóni aðfaranótt laugardagsins 22. febrúar 1997 þegar hann við starf sitt sem dyravörður á veitingastaðnum Feita dvergnum var skallaður í andlitið af ungum manni sem flýði af vettvangi. Lýsing sú sem lögreglu var gefin af árásarmanninum getur átt við ákærða Rúnar. Ákærði játar að hafa komið með rútu, með fleira fólki af þorrablóti, sem stöðvaði nálægt veitingastaðnum. Hann var því á vettvangi á þeim tíma sem atburðurinn átti sér stað. Er upplýst að margt fólk úr rútunni fór inn á staðinn. Ákærði kannast við að hafa lent í áflogum á þorrablótinu og að hafa af þeim sökum verið blóðugur og að bolur hans hafi rifnað í hálsmáli. Árásarmanninum var meinuð innganga á veitingastaðinn vegna þess hvernig hann var útlítandi, blóðugur og í rifnum bol, sagði Bjarki Þór að bolur árásarmannsins hefði verið rifinn neðst og í hálsmálinu, eins og einhver hefði gripið í hann. Við myndsakbendingu sem fram fór þriðjudaginn 9. júní 1998, samkvæmt rannsóknarbeiðni frá 26. maí sama ár benti vitnið Baldur Brjánsson á mynd af tveimur mönnum sem líka árásarmanninum, annar þeirra var ákærði. Þessi myndsakbending fór fram rúmu ári eftir árásina.
Verjandi hefur bent á að dagsetningar á lögregluskýrslum sem fylgja myndsakbendingargögnum eru misvísandi. Þannig er skýrsla á lögregluskjali V.3, sem skráð er síðar um myndsakbendinguna frá 9. júní, dagsett 23. maí og Baldur fyrst skráður mættur kl. 14:16 en síðan sýnd mappan kl. 11:18:20 (sic) og víkur frá kl. 11:30, þá ber ljósmyndamappan dagsetninguna 10. júní 1998. Þrátt fyrir þessi flausturslegu vinnubrögð þykir ljóst að vitnið Baldur benti á ákærða og annan mann í myndsakbendingu hinn 9. júní 1998, hefur hann staðfest þetta fyrir dóminum og að hann hafi ekki séð árásarmanninn frá því atburðurinn átti sér stað og þar til myndsakbendingin fór fram. Eðlilegt hefði verið að láta sakbendinu þessa fara fram í apríl 1997 þegar Bjarki Þór benti á ákærða sem árásarmanninn, þar sem hann var á veitingahúsinu Fógetanum. Þrátt fyrir greindar athugasemdir þykir mega byggja á þessu sönnunargagni í málinu. Myndsakbendin Bjarka Þórs þykir ekki hafa þýðingu þar sem hann hafði þegar bent á ákærða.
Framburður Bjarka Þórs hefur verið staðfastur og skýr, er ekki fallist á það með verjanda að leggja beri til grundvallar það sem haft er eftir honum í frumskýrslu lögreglu. Framburður vitnisins Bjarna Ingvars var talsvert óskýr og minni hans ekki gott. Hann neitaði þó staðfastlega að hann hefði sagt að ákærði hefði gortað sig af því að hafa skallað dyravörð í febrúar 1997 og komist upp með það, við þetta kannaðist hann ekki heldur þegar lögregluskýrsla var tekin af honum og verður ekki byggt á fullyrðingu Bjarka Þórs um þessi ummæli. Vitnið Bjarni Ingvar sagði þegar lögregluskýrsla var tekin af honum að ákærði hefði sagst hafa lent í einhverjum átökum eða látum við Feita dverginn eftir þorrablótið, en minntist þessa ekki er hann kom fyrir dóminn. Hann staðfesti hins vegar frásögn sína af því að kona hefði hringt í hann daginn eftir og spurt um aldur ákærða, en kvaðst ekki minnast þess að hún hefði sagt að honum hefði verið meinaður aðgangur að veitingahúsinu Feita dvergnum. Aðspurður virtist hann þó telja að hann hlyti að hafa sagt rétt frá hjá lögreglu. Ekki hafðist upp á konunni. Ekki er fallist á að það fríi ákærða sök þótt brotaþoli upplýsi að árásarmaðurinn hafi framvísað persónuskilríkum með fæðingarári 1976, alkunna er að fólk undir lögaldri freistast oft til að framvísa röngum skilríkjum. Ákærði er fæddur árið 1979 og hafði því ekki aldur til að fara inn á veitingastað. Svo virðist sem unnt hefði átt að vera að finna fleiri vitni að atburðinum og ferðum ákærða en gögn málsins bera ekki með sér að það hafi verið reynt.
Þrátt fyrir að ákærði hafi staðfastlega neitað sök í máli þessu og rannsókn þess sé í nokkru ábótavant, þykja vera fram komin sönnunargögn sem eindregið benda til þess að hann hafi verið árásarmaðurinn. Er þar vísað til almennrar lýsingar á árásarmanninum og sérstakrar lýsingar sem er klæðnaður, að hann var blóðugur og að bolur hans var rifinn í hálsmáli ásamt því að hann var í för með fólki sem fór á veitingastaðinn og fór þar úr rútunni á þeim tíma sem árásin átti sér stað. Einnig það að brotaþolinn benti á hann tæpum tveimur mánuðum eftir atburðinn og vitnið Baldur benti á hann við myndsakbendingu sem líkan árásarmanninum rúmu ári síðar. Þá hefur þessi niðurstaða nokkurn stuðning í framburði vitnisins Bjarna Ingvars hjá lögreglu og fyrir dómi. Ákærði er því sakfelldur fyrir brot það sem í ákæru greinir og er brotið þar rétt heimfært til refsiákvæðis.
Ákærði er fæddur árið 1979. Hann hefur tvisvar gengist undir sátt vegna ölvunaraksturs og aksturs án réttinda árin 1995 og 1997. Í fyrra skiptið var hann ekki orðinn 18 ára. Hinn 19. september 1997 hlaut hann dóm fyrir þjófnað, fjögurra mánaða fangelsi skilorðsbundið í tvö ár og 13. október 1997 fékk hann dóm vegna hraðaaksturs og var sviptur ökurétti í fjóra mánuði. Refsing í því máli var ákveðin sem hegningarauki.
Brot það sem hann er hér sakfelldur fyrir er framið aðfaranótt 22. febrúar 1997 eða áður en hann hlýtur dóma 19. september 1997 og 13. október 1997. Refsing nú er því ákvörðuð sem hegningarauki og ekki er um skilorðsrof að ræða. Skilorðsdómurinn frá 19. september 1997 er tekinn upp og er refsing ákveðin í einu lagi, skv. 60. gr. sbr. 78. gr. alm. hgl. og sbr. 7. gr. laga nr. 22/1955. Hann hefur ekki áður verið dæmdur fyrir líkamsárás. Við ákvörðun refsingar skal litið til ungs aldurs ákærða og þess að rúm tvö ár eru liðin frá brotinu en bent var á ákærða sem árásarmann á öðrum mánuði eftir atburðinn. Heildarrefsing þykir hæfileg sex mánaða fangelsi. Haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. alm. hgl., sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955 skal refsing hans falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms.
Brotaþoli, Bjarki Þór Arnarson, gerir kröfu í málinu um þjáninga- og miskabætur auk vaxta, lögmannsþóknunar og virðisaukaskatts, samtals að fjárhæð 1.439.155 krónur. Krafan er studd fjórum læknisvottorðum. Eitt er um komu kæranda á slysa- og bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur 22. febrúar 1997 klukkan 02.24. Hin þrjú eru gefin út af vitninu Gunnari Guðna Leifssyni tannlækni og eru dagsett 8. ágúst 1997, 25. nóvember 1998 og 3. febrúar 1999. Lýsing á meiðslum brotaþola er einnig ítarleg í framburði Gunnars Guðna Leifssonar fyrir dómi og eins og rakið hefur verið hér að framan.
Bótakrafan sundurliðast þannig:
|
Þjáningabætur 775,60 kr. í 365 daga |
kr.283.094 |
|
Miskabætur |
kr.1.000.000 |
|
Vextir til 25.11.98 |
kr.48.886 |
|
Lögmannsþóknun |
kr.86.108 |
|
Virðisaukaskattur |
kr.21.067 |
|
Samtals |
kr.1.439.155 |
Byggist krafan um þjáningabætur á því að Bjarki Þór hafi verið veikur í eitt ár eftir árásina, án þess að vera rúmliggjandi, hann hafi m.a. þurft að notast við lausan góm í heilt ár, sem hafi valdið honum sársauka, hann hafi átt í erfiðleikum með að borða og á tímabilum þurft að vera á fjótandi fæði, önnur óþægindi hafi verið ýmis aukahljóð sem hafi myndast vegna gómsins og hann hafi átt í erfiðleikum með að tjá sig. Hann hafi þurft að gangast undir nokkrar aðgerðir. Krafa um þjáningarbætur er studd við 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og miskabótakrafan við 26. gr. sömu laga.
Verjandi telur bótakröfuna ekki nægilega rökstudda og ekki nægilega studda gögnum og krefst frávísunar en til vara lækkunar. Er því haldið fram að brotaþoli hafi verið veikur í mesta lagi í 5 daga og ekki sé gerð fullnægjandi grein fyrir sundurliðun þjáningarbóta. Engin gögn liggi fyrir um útreikning þeirra. Miskabótakrafan sé einnig vanreifuð, engin gögn styðji kröfuna og ekkert mat hafi farið fram. Ekki sé sýnt fram á það að ekki hefði verið hægt að setja tennur fyrr í. Verði ekki sýknað af refsikröfu sé farið fram á mat.
Tjón brotaþola, Bjarka Þórs Arnarsonar, er vel upplýst með gögnum málsins. Ekki verður séð að mat muni leggja betri grunn að bótakröfu en þegar er fyrir hendi. Þykir því ekki rétt að tefja framgang bótakröfunnar og verður tekin afstaða til hennar í þessu máli.
Bjarki Þór þurfti samkvæmt fyrirliggjandi vottorði að ganga með bráðabirgðapart frá slysinu 22. febrúar 1997 til 24. mars 1998. Þetta olli honum verulegum óþægindum eins og lýst hefur verið og hann varð að vera tannlaus í um viku eftir atburðinn og í tvær vikur eftir ígræðslu tannplanta og í þrjár vikur þegar bráðabirgðaparturinn brotnaði þar sem hann var staddur erlendis. Því hefur verið lýst af sérfræðingi að sú meðferðarleið sem var valin sé sú besta sem kostur sé á. Hugsanlegt hefði verið að velja þá leið að byggja brú í bilið og hefði sú meðferð tekið styttri tíma, en þá hefði einnig þurft að fjarlæga tvær aðrar framtennur. Þegar um tjón af þessu tagi er að ræða þykir eðlilegt að farin sé sú leið til bæta það sem bestan árangur gefur á hverjum tíma. Er fallist á kröfu brotaþola um greiðslu þjáningabóta án þess að vera rúmliggjandi í 365 daga 775,60 krónur á dag samtals 283.094 krónur með vísan til 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Það er mikill miski fyrir ungan mann að missa tvær framtennur í efri gómi. Bæði útlitslega en þó sérstaklega vegna þess að gervitennur geta aldrei komið alveg í stað eigin tanna. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir þá háttsemi er tjónið hlaust af. Miskabætur þykja að mati dómara hæfilega ákvarðaðar 500.000 krónur.
Greiða skal dráttarvexti af tildæmdum bótum frá dómsuppsögudegi samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til greiðsludags. Vaxtakrafa í ákæru er ekki gerð frá tilteknum degi. Kostnaður við að halda fram bótakröfunni ákvarðast 50.000 krónur.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipað verjanda, Ástríðar Grímsdóttur héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Elínu Vigdísi Hallvarðsdóttur fulltrúa lögreglustjóra í Reykjavík.
Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp dóminn
D ó m s o r ð
Ákærði, Rúnar Pálmarsson, skal sæta fangelsi í sex mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar í tvö ár frá uppsögu dóms þessa að telja og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. alm. hgl.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipað verjanda, Ástríðar Grímsdóttur héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur.
Ákærði skal greiða Bjarka Þór Arnarsyni, kt. 071078-5589, 783.094 krónur í skaðabætur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af þeirri fjárhæð frá dómsuppsögudegi til greiðsludags og 50.000 krónur vegna kostnaðar hans við að halda fram bótakröfunni.