Hæstiréttur íslands
Mál nr. 325/2010
Lykilorð
- Dómur
- Sönnunarmat
- Ómerking héraðsdóms
|
Fimmtudaginn 24. febrúar 2011. |
|
|
Nr. 325/2010. |
Ákæruvaldið (Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari) gegn X (Gestur Jónsson hrl.) |
Dómar. Sönnunarmat. Ómerking héraðsdóms.
X var ákærður fyrir að hafa dregið sér fé með því að hafa 8. október 2008 sem starfsmaður L hf. látið millifæra fé af reikningi N Ltd. yfir á bankareikning í sinni eigu. X hélt því fram að vísa bæri málinu frá Hæstarétti þar sem sérstakur saksóknari færi með mál tengd hruni íslenska bankakerfisins og að ríkissaksóknari hefði með ummælum sínum á opinberum vettvangi látið í ljós huglæga afstöðu sína til sérstaks hæfis síns. Hæstiréttur hafnaði kröfu X þar sem millifærslan á fé N Ltd. hefði ekki tengst hruni bankanna þótt hún hefði átt sér stað á tímamarki þegar upplausnarástand ríkti hjá L hf. vegna hrunsins. Engin önnur rök væru fram komin til stuðnings kröfu ákærða. Með vísan til vitnisburðar fyrrverandi bankastjóra og regluvarðar L hf. auk samnings milli L hf. og tilgreindrar lögmannsstofu á eyjunni Guernsey var talið ljóst að L hf. hefði í raun haft fulla stjórn á félaginu N Ltd. og að L hf. og dótturfélag hans hefðu átt að njóta góðs af eignum N Ltd. Sú lýsing í ákæru að N Ltd. hefði verið félag á vegum L hf. væri því rétt. Í dómi Hæstaréttar var komist að þeirri niðurstöðu að héraðsdómur hefði ekki fellt dóm á málið með tilliti til allra gagna sem fyrir honum lágu. Vísað var til þess að nægjanleg gögn hefðu verið til staðar um samband L hf. og N Ltd. Ef héraðsdómur hefði talið nauðsynlegt í þessu skyni að grípa til tiltekinna rannsóknarúrræða hefði borið að beina tilmælum um slíkt til ákæruvaldsins sbr. 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Einnig hefði héraðsdómur ekki getað dregið einhlítar ályktanir um sakleysi X af þeirri staðreynd að hann hefði ekki reynt að millifæra féð með leynd, enda hefði verið óhjákvæmilegt fyrir X að fá atbeina annars innan L hf. til að millifæra féð. Í héraðsdómi var talið að X hefði haft réttmæta ástæðu til að millifæra féð 8. og 9. október 2008 til að tryggja að innstæða N Ltd. glataðist ekki. Í dómi Hæstaréttar var bent á að þrátt fyrir þetta væri gengið út frá því í hinum áfrýjaða dómi að tilraun X til að gæta hagsmuna N Ltd. hefði verið óþörf eftir setningu laga nr. 125/2008 þann 6. október 2008. Ekki yrði heldur litið fram hjá því að L hf. hefði verið skipuð skilanefnd 7. október 2008 sem hefði verið falið að tryggja áframhaldandi viðskiptabankastarfsemi hér á landi. Öllum vafa um hvort greinarmunur kynni að verða gerður á tryggingu innstæðna í innlendum útibúum bankans eftir þjóðerni reikningseigenda hefði verið endanlega eytt með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Í ljósi alls þessa varð að ætla að niðurstaða héraðsdóms um sönnunarmat kynni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit málsins. Með vísan til 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 varð því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar. Var málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. maí 2010 af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum gerð refsing.
Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur.
I
Mál þetta var höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra 19. nóvember 2009, þar sem ákærða var gefinn að sök fjárdráttur „með því að hafa 8. október 2008, í starfi sínu sem [...] Landsbanka Íslands hf., dregið sér kr. 118.544.950, andvirði GBP 712.323,94, sem hann lét millifæra af innlendum gjaldeyrisreikningi nr. ... í eigu NBI Holding Ltd. ..., félags á vegum bankans sem ákærði í tengslum við starf sitt var stjórnarmaður og hafði prókúru fyrir, yfir á eigin bankareikning nr. ..., en daginn eftir lét ákærði millifæra sömu fjárhæð yfir á bankareikning nr. ..., einnig í hans eigu.“ Í ákæru er þessi háttsemi ákærða talin varða við 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði telur verknaðarlýsingu ákæru vera ranga í veigamiklum atriðum. Þannig sé þess ekki getið að nafni NBI Holdings Ltd. hafi verið breytt á árinu 2006 í ZVV Holdings Ltd., sem hafi því verið eigandi innlends gjaldeyrisreiknings, sem um ræði í málinu. Þá hafi millifærslur, sem ákærði lét gera 8. og 9. október 2008, ekkert tengst starfi hans sem [...] Landsbanka Íslands hf., eins og segi í ákæru. Hann hafi verið annar tveggja manna í stjórn hins erlenda hlutafélags og prókúruhafi þess og sem slíkur ákveðið umrædda færslu af reikningi félagsins í umboði þess. Þá mótmælir hann að um sé að ræða félag á vegum Landsbanka Íslands hf., eins og segi í ákæru.
Í hinum áfrýjaða dómi kemur fram að nafni NBI Holdings Ltd. hafi verið breytt í nóvember 2006 í ZVV Holdings Ltd., en gjaldeyrisreikningur félagsins í Landsbanka Íslands hf. þó áfram verið skráður undir eldra nafni þess. Aðrar aðfinnslur ákærða við verknaðarlýsingu ákæru lúta að efni málsins, en af hálfu ákæruvaldsins er haldið fast við að tengsl félagsins og Landsbanka Íslands hf. hafi verið með þeim hætti, sem greinir í ákæru. Að því virtu, sem að framan segir, kemur ekki til álita að vísa málinu frá héraðsdómi vegna ónákvæmni í ákæru um nafn hins erlenda félags, sem hefur verið leiðrétt.
Aðalkrafa ákærða um að málinu verði vísað frá Hæstarétti er studd við það að ríkissaksóknara hafi skort heimild að lögum til að áfrýja héraðsdómi. Atvik þessa máls tengist hruni íslenska bankakerfisins í byrjun október 2008, en ríkissaksóknari hafi lýst sig vanhæfan í málum, sem því tengist. Annar maður hafi því verið settur til að fara með hlutverk og valdheimildir ríkissaksóknara samkvæmt lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála og lögum nr. 135/2008 um embætti sérstaks saksóknara í öllum málum, sem eru og verða til meðferðar við það embætti. Settur ríkissaksóknari hafi því að lögum það hlutverk að taka ákvörðun um áfrýjun í öllum málum, sem tengist hruni viðskiptabankanna. Þá reisir ákærði kröfuna einnig á því að ríkissaksóknari hafi á opinberum vettvangi skírskotað til sjónarmiða um sérstakt hæfi sitt, en þau ummæli endurspegli huglæga afstöðu hans til þess. Verði sérstaklega að líta til þess hvernig ummælin horfi við almenningi og hvort ákærði geti í ljósi þeirra með réttu dregið óhlutdrægni ríkissaksóknara í efa.
Ríkislögreglustjóri gaf út ákæru í málinu og annaðist hann saksókn í því en ekki sérstakur saksóknari, án þess að ákærði gerði athugasemdir af því tilefni. Færsla ákærða 8. október 2008 á fé af reikningi hins erlenda félags yfir á eigin reikning með aðstoð útibússtjóra hjá bankanum var gerð á því tímamarki er upplausnarástand ríkti á vinnustað ákærða vegna hruns bankans og annarra viðskiptabanka, en tengdist því ekki á nokkurn hátt. Engin haldbær rök eru fram komin til stuðnings aðalkröfu ákærða og er henni því hafnað.
II
Meðal vitna, sem gáfu skýrslu við aðalmeðferð málsins, var A, fyrrverandi bankastjóri Landsbanka Íslands hf. Hann kvað sér hafa verið mjög vel kunnugt um NBI Holdings Ltd. og stofnun sjálfseignarsjóðsins The 1886 Trust á Ermarsundseyjunni Guernsey, en hann og nánustu samstarfsmenn hans hafi átt frumkvæði að stofnun félaganna árið 2000 eða 2001. Sjóðurinn ætti hlutafélagið og einnig LB Holdings Ltd., en fé á reikningi NBI Holdings Ltd. ætti „félagið sjálft og endanlega góðgerðarsjóðurinn 1886 Trust.“ Sjóðnum væri stýrt af svokölluðum „trustees“, sem hafi ákveðið að stofna hlutafélögin og veitt tilteknum mönnum umboð til að fara með stjórn þeirra. Þannig hafi komið í hlut ákærða að stýra málefnum áðurnefndra hlutafélaga í umboði sjálfseignarsjóðsins. NBI Holdings Ltd. hafi verið ætlað að eiga hlutabréf í skamman tíma í öðrum félögum en Landsbanka Íslands hf. Einkum hafi eignarhlutur bankans í Vátryggingafélagi Íslands hf. verið „mjög íþyngjandi fyrir eigið fé Landsbankans á þeim tíma, vegna reglna sem giltu á Íslandi og voru nokkuð sérstakar, höfðu ekki verið aðlagaðar því sem var víða í Evrópu og þess vegna tók það meira, batt það meira eigið fé“. Vitnið kvað sér hafa verið kunnugt um að NBI Holdings Ltd. ætti fé á reikningi í bankanum, sem væri hagnaður af sölu hlutabréfa í Vátryggingafélagi Íslands hf. á árinu 2003, en síðan hefði félagið verið „dormant“. Ákvörðun hafi þá verið tekin um að slíta ekki félaginu, þótt það hafi lokið tímabundnu hlutverki sínu á því ári, heldur hafa það til taks og nýta til viðskipta ef tækifæri gæfist og það hentaði, bæði vegna eðlis félagsins og lögsögunnar, sem það starfaði í. Þá kom fram hjá vitninu að eðlilegt hafi þótt að ákærði stýrði málefnum hlutafélaganna tveggja á Guernsey og hafi það verið hluti af starfi hans sem yfirmanns rekstrarsviðs bankans.
E, fyrrverandi bankastjóri Landsbanka Íslands hf., gaf einnig skýrslu fyrir dómi. Í framburði hans kom fram að hann þekkti betur til málefna LB Holdings Ltd. en NBI Holdings Ltd. Aðspurður um hvernig háttað hafi verið raunverulegri stjórnun „þessara félaga í eigu trustsins“ sagði hann að „efnislega funkerar þetta þannig að, að við erum með stjórn á þessum Trust held ég, ég held að það sé þannig, sem eru bara svona þar til bærir aðilar sem að sinna slíku, þetta er, þú getur fengið að kaupa svona trusta bara svona nánast eins, ja það er bara standard vara sem að menn kaupa af lögfræði- og endurskoðunarskrifstofum“. Ennfremur kom fram hjá honum að „ef það einhvern tímann verður gróði af þessu og þessu trusti er slitið þá, eins og ég skil þetta, þá rennur sá hagnaður, eða það sem tilheyrir því félagi til þess líknarfélags eða hvers sem af því hefur ánafnað“.
Meðal málsgagna er tölvubréf M regluvarðar Landsbanka Íslands hf. 4. október 2007 til Fjármálaeftirlitsins, sem var svar við fyrirspurn þess meðal annars um hverjir væru „raunverulega eigendur sjálfseignarfélaganna LB Holding Ltd. (stofnað árið 2000) ...“ og fleiri, sem talin voru upp. Í þessu svari regluvarðar sagði að eins og kæmi fram í tölvubréfi bankans til stofnunarinnar þremur dögum fyrr „þá eru framangreind félög í eigu sjálfseignarfélaga (hér eftir nefnd Trust) þar sem raunverulegur eigandi (hér eftir nefndur sem beneficial owner) eru alþjóðleg líknarfélög. ... Stofnaðir voru sjálfseignarsjóðir en það eru sjóðir sem eiga sig sjálfir eins og íslenska heitið ber með sér. Þessum sjóðum er stjórnað af Trustee og er ávallt stjórnað með hag rétthafa (hér eftir nefndir beneficiary) að leiðarljósi. Trustee stjórnar því Trust með þann tilgang að leiðarljósi að tryggja að markmið sjóðsins náist, þ.e. að geta staðið við samninga um að selja hlutabréf í eigu félaganna á tilteknu verði á fyrirfram ákveðnum tíma. Rétt er að leggja ríka áherslu á það að Trust lagahefð er löng og rík í engilsaxneskum rétti ... Það hefur tíðkast í slíkum sjóðum að telja líknarfélög sem beneficial owner að slíkum félögum en vegna þess að ekki mun koma til þess að sjóðurinn eða félögin skili hagnaði munu fjármunir ekki renna til líknarfélaga.“ Regluvörðurinn gaf einnig skýrslu fyrir dómi, þar sem fram kom að honum hafi ekki verið kunnugt um tilvist NBI Holdings Ltd., en LB Holdings Ltd. „var þekkt félag innan bankans“. Þá greindi hann frá því hvernig uppvíst varð eftir miðjan nóvember 2008 um þær færslur ákærða milli bankareikninga, sem ákæra tekur til. Hann kvað NBI Holdings Ltd. ekki hafa verið á lista yfir dótturfélög bankans, enda bankinn ekki verið eigandi að félaginu, en „listar yfir venslaaðila voru með þeim hætti að starfsmenn áttu að gefa mér upplýsingar um þau félög sem þeir sátu í stjórnum hjá.“ Ákærði hafi hvorki greint honum frá setu sinni í stjórn LB Holdings Ltd. né NBI Holdings Ltd.
Aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi fór fram 22. og 23. mars 2010 og var það dómtekið að loknum munnlegum flutningi, en það var síðan tekið fyrir á ný 21. apríl sama ár. Ákærði gaf þá nánari skýrslu, fimm skjöl voru lögð fram af hálfu ákæruvaldsins og var málið síðan dómtekið. Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp í kjölfarið sama dag.
Meðal nýrra skjala, sem lögð voru fram í þinghaldi 21. apríl 2010, var samningur 30. júní 2000 milli Landsbanka Íslands hf., sem þar er nefndur „the Settlor“, og Legis Trust Ltd. á Guernsey, nefnt „the Trustee“. Síðastnefnt félag virðist vera eitt nokkurra félaga, sem tengist Legis Corporate Services Ltd., en ráða má að það sé lögmannsstofa á Guernsey, sem annast þjónustu við stofnun og rekstur sjóða og félaga í þeirra eigu. Samningurinn er um stofnun „The 1886 LB Trust“, en af hálfu bankans er hann undirritaður af A bankastjóra. Í samningnum segir í upphafi að „the Settlor“ hafi lagt „the Trustee“ til fjármuni, sem tilgreindir séu í 1. viðauka við samninginn og voru 100 sterlingspund, til að stofna „the Trust Fund“ og að viðbótarframlag kunni að verða afhent með sama hætti. Í kjölfarið eru skilgreind ýmis hugtök, sem samningurinn hafi að geyma. Meðal þeirra er „Beneficiaries“, en það merki þá sem svo séu nefndir í 2. viðauka við samninginn og þann sem bætt sé við sem „Beneficiary“ samkvæmt 10. gr. a. í samningnum. Samkvæmt henni má hvenær sem er bæta við nöfnum nýrra „Beneficiaries“, hvort heldur er mönnum eða líknarsamtökum. Í 2. viðauka standa nöfn Landsbanka Íslands hf. og Landsbréfa Íslands hf. sem „Beneficiaries“, en engin önnur. Ekki munu fleiri nöfn hafa bæst við samkvæmt heimild í 10. gr. a.
Af því öllu, sem að framan er rakið, verður nægilega ráðið hvernig tengslum Landsbanka Íslands hf. við áðurnefndan sjálfseignarsjóð og tvö hlutafélög á Guernsey var háttað. Enginn vafi getur leikið á að bankinn hafði í raun fulla stjórn á þeim hvað sem leið því lagalega umhverfi, sem þeim var búið í erlendri lögsögu, auk þess sem bankinn og íslenskt dótturfélag hans voru rétthafarnir, sem njóta skyldu góðs af eignum sjóðsins. Því verður að leggja til grundvallar að sú lýsing í ákæru sé rétt að NBI Holdings Ltd. hafi verið félag á vegum Landsbanka Íslands hf. Ákærði var starfsmaður bankans og verður að líta svo á að sú staðreynd hafi legið að baki því að honum var falin stjórn á málefnum þessa félags, sem bankinn réði í raun yfir.
III
Í forsendum héraðsdóms segir meðal annars að „málatilbúnaður ákæruvalds sýnist byggja að hluta til á þeirri ályktun að NBI Holdings hafi í reynd verið stýrt á skrifstofum Landsbankans og að þeir sem aðsetur hafa á Guernsey hafi ekki skipt sér neitt af félögunum. Kann sú staðreynd að ákærði kveðst hafa ætlað að ræða málefni félagsins við nýjan bankastjóra Landsbankans að styrkja þessa ályktun. Þrátt fyrir það stoðar ekki án frekari rannsóknar að draga slíkar ályktanir. Ætla verður að stjórnarmenn í félögum sinni skyldum sínum.“
Að því verður að gæta að með réttu getur málatilbúnaður ákæruvaldsins ekki sýnst byggja á tiltekinni ályktun um stöðu NBI Holdings Ltd., enda kemur nægilega fram í ákæru hver afstaða ákæruvaldsins er um það. Ekki er unnt að fallast á að þörf hafi verið á frekari rannsókn til að draga ályktanir um hvort félaginu hafi í reynd verið stýrt af Landsbanka Íslands hf. án afskipta annarra, en í því skyni er nægilegt að leggja mat á sönnunargögn, sem að framan var gerð grein fyrir, ekki síst samning um stofnun „The 1886 LB Trust“, sem lagður var fram í þinghaldi 21. apríl 2010. Ekkert er fram komið um afskipti þess manns, sem hafði aðsetur á Guernsey og sat í stjórn NBI Holdings Ltd. með ákærða, af málefnum félagsins, en hafi héraðsdómur talið framburð hans einhverju skipta átti hann að gæta þess að málið yrði nægilega upplýst og beina því til ákæruvaldsins að leiða þann mann til skýrslugjafar fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008. Eins og málið liggur fyrir virðast þó engin efni vera til að álykta að sá maður hafi gegnt einhverjum sérstökum skyldum gagnvart félaginu, sem óháðar hafi verið hagsmunum Landsbanka Íslands hf.
Í forsendum héraðsdóms er jafnframt vikið að því að ákærði hafi ekki reynt að millifæra féð af reikningi NBI Holdings Ltd. á sinn reikning með leynd. Fram er komið í málinu að ákærði hafði ekki vegna starfa sinna innan bankans heimild til að færa fé milli reikninga og var því óhjákvæmilegt að hann leitaði um þetta til einhvers, sem hefði slíka heimild, svo sem hann gerði. Af þessu verða ekki að réttu lagi dregnar einhlítar ályktanir um hvort ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem í ákæru greinir.
Í forsendum héraðsdóms er meðal annars vísað til þess að eftir setningu laga nr. 125/2008 þann 6. október 2008 hafi komið á daginn að allar innstæður í útibúum íslensku bankanna hér á landi hafi verið yfirteknar af nýjum bönkum og hafi því tilraun ákærða til að gæta hagsmuna NBI Holdings Ltd. verið óþörf. Allt að einu er í framhaldi af þessu ályktað að þegar ákærði millifærði féð 8. og 9. sama mánaðar hafi hann haft réttmæta ástæðu til að gæta að innstæðu NBI Holdings Ltd. og grípa til aðgerða sem hann teldi hæfilegar til að tryggja að hún glataðist ekki. Án tillits til þeirrar þversagnar, sem í þessu gætir, verður ekki litið fram hjá því að Fjármálaeftirlitið skipaði Landsbanka Íslands hf. skilanefnd 7. október 2008 og fól henni meðal annars að „vinna að því að tryggja áframhaldandi viðskiptabankastarfsemi Landsbanka Íslands hf. hér á landi“. Hafi einhver vafi staðið eftir þetta um hvort greinarmunur kynni að verða gerður á tryggingu innstæðna í innlendum útibúum bankans eftir þjóðerni reikningseigenda var honum endanlega eytt með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf.
Af þeim ástæðum, sem að framan greinir, hefur héraðsdómur ekki fellt dóm á málið með tilliti til allra gagna, sem fyrir honum lágu. Vegna þessa verður að ætla að niðurstaða dómsins um sönnunarmat kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit málsins. Með vísan til 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 verður því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar og vísa því heim í hérað til meðferðar á ný.
Ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíður nýs efnisdóms. Leggja verður á ríkissjóð allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talda málflutningsþóknun skipaðs verjanda ákærða, sem er ákveðin með virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.
Það athugast að í málinu hafa verið lögð fram fjölmörg skjöl, þar á meðal nokkur sem verulega miklu skipta, án þess að gæta að ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur ásamt meðferð málsins frá og með þinghaldi 22. mars 2010 og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða, 627.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. apríl 2010.
Mál þetta var höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra, dags. 19. nóvember 2009, á hendur X, kt.[...],[...]. Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 23. mars sl. Það var endurupptekið fyrr í dag og dómtekið á ný.
Ákærði er sakaður um: ... fjárdrátt, með því að hafa 8. október 2008, í starfi sínu sem [...] Landsbanka Íslands hf., dregið sér kr. 118.544.950, andvirði GBP 712.323,94, sem hann lét millifæra af innlendum gjaldeyrisreikningi nr. 0114-38-200162 í eigu NBI Holding Ltd., kt. 700501-9060, félags á vegum bankans sem ákærði í tengslum við starf sitt var stjórnarmaður og hafði prókúru fyrir, yfir á eigin bankareikning nr. 0117-26-521, en daginn eftir lét ákærði millifæra sömu fjárhæð yfir á bankareikning nr. 0115-15-380583, einnig í hans eigu.
Þetta er talið varða við 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákæruvald krefst refsingar og greiðslu sakarkostnaðar.
Ákærði krefst sýknu og að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
Á árinu 2000 hafði Landsbanki Íslands hf. frumkvæði að stofnun sjálfseignarsjóðs á Ermarsundseyjunni Guernsey, The 1886 Trust. Sjóður þessi er eini hluthafinn í félaginu NBI Holding Ltd., sem er einnig skráð á Guernsey. Var félag þetta stofnað í maí 2001. Fram kemur í málinu að sjóðurinn og félagið var stofnað til að taka þátt í viðskiptum með hlutabréf við hlið Landsbankans. Ákærði sat í stjórn NBI Holding frá upphafi. Ekki er eiginleg stjórn í The 1886 Trust, en fulltrúar frá tiltekinni lögfræðiskrifstofu á Guernsey eru vörsluaðilar sjóðsins. Sjóður þessi er sjálfseignarsjóður, en við slit hans munu eignir hans renna til tilnefnds aðila, sem á ensku er nefndur beneficial owner.
Rannsókn lögreglu hófst í kjölfar bréfs skilanefndar Landsbankans, dags. 26. nóvember 2008. Þar er því beint til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra að rannsaka millifærslur þær sem lýst er í ákæru. Er tekið svo til orða í niðurlagi bréfsins að óskað sé eftir því að umræddar millifærslur verði skoðaðar. Bréf þetta var ritað í kjölfar minnisblaðs frá endurskoðunarskrifstofunni Deloitte, dags. 20. nóvember 2008. Þar er leitað eftir skýringum á þessum millifærslum inn á reikninga ákærða.
Verjandi ákærða gerði athugasemd við vinnubrögð lögreglu af þessu tilefni. Þótti honum rangt af lögreglu að kalla bréf skilanefndarinnar kæru, eins og gert var við skýrslutökur.
G, starfsmaður innri endurskoðunar bankans, gaf skýrslu fyrir dómi um það hvernig upp komst um millifærslu þessa. Hún sagði að endurskoðunarstofan Deloitte hefði beðið um að allar stórar millifærslur í september og fyrstu dagana í október yrðu skoðaðar. Hafi þá þessi millifærsla á reikning ákærða komið fram, en skoðunin hafi verið mjög viðamikil og tekið mikinn tíma.
A, fyrrverandi bankastjóri, sagði frá sjóðnum, The 1886 Trust, og félögunum í skýrslu sinni fyrir dómi. Hann kvaðst hafa verið bankastjóri þegar ákveðið var að stofna félögin á Guernsey. Sjálfseignarsjóðurinn hafi átt tvö félög, annars vegar LB Holding, sem hafi haldið utan um hlutabréf til að standa við kaupréttarsamninga starfsmanna bankans. Hins vegar hafi verið NBI Holdings. Það félag hafi átt að eiga hlutabréf í skamman tíma, í öðrum félögum en Landsbankanum. Fyrst og fremst hafi það verið hluturinn í Vátryggingafélagi Íslands sem félagið átti til hliðar við hlut bankans sjálfs, en einnig í Kaupþingi og DeCode. Hafi þessi tilhögun helgast af reglum sem gildi hér á landi um útreikning eigin fjár fjármálafyrirtækja.
Eftir að NBI Holdings hafði selt hlutabréf sín í Kaupþingi og Vátryggingafélagi Íslands, og var að mestu hætt starfsemi, átti það eftir talsverðan hagnað. Var öllu fé þess skipt í sterlingspund og það ávaxtað á reikningi í Landsbankanum. Var nafni félagsins breytt í ZVV Holdings Ltd. í nóvember 2006 og breytingin skráð í félagaskrár á Guernsey. Bankareikningur þess í Landsbankanum var þó áfram skráður á nafninu NBI Holdings. Í samræmi við notkun þessa heitis í ákæru og málflutningi öllum verður það einnig notað hér.
A sagði að það hefði verið hluti af starfi ákærða í bankanum að sitja í stjórn NBI Holding. Hann sagði að félagið hafi ekkert starfað frá 2003. Það hafi hins vegar verið ákveðið að slíta félaginu ekki, heldur nýta það til viðskipta ef möguleikar opnuðust síðar meir.
Í byrjun október 2008 sat ákærði í stjórn NBI Holdings. Með honum í stjórn var Q, lögmaður á Guernsey.
Bæði í skýrslu ákærða fyrir dómi og í greinargerð er verjandi hans lagði fram, segir að ákærði hafi látið millifæra umrædda innistæðu sem var á reikningi NBI Holdings inn á eigin reikning. Ákærði sagði að hann hefði strax beðið um að fjárhæðin yrði lögð inn á reikning [...]83. Hann hafi tekið eftir því að millifært hefði verið inn á reikning nr. [...]-[...]-[...]21. Hann hefði því beðið um að millifært yrði af þeim reikningi inn á reikning nr. [...]83. Á þeim reikningi hafi ekki verið önnur innstæða. Hann kvaðst hafa beðið F, sem var útibússtjóri í [...] bankans, að millifæra þetta fé. Hann hefði ekki sjálfur haft aðgang til að millifæra með þessum hætti. Hann hefði þekkt F lengi og oft beðið hann að afgreiða sín viðskipti.
F kom fyrir dóm og staðfesti að X hefði hringt í sig og beðið að millifæra. Hann kvaðst ekki muna inn á hvaða reikning hann hafi beðið um að lagt yrði. Hann kvaðst muna að hann hafi viljað hafa þetta fé sérgreint á reikningi.
Meðal skjala málsins er útprentun af tölvupósti er F sendi afgreiðslustjóra í [...] bankans og bað um að reikningur NBI Holdings yrði eyðilagður og að lagt yrði inn á reikning ákærða nr. [...]21. Afgreiðslustjórinn fól síðan öðrum starfsmanni verkefnið.
Ákærði var spurður um aðdraganda þess að hann ákvað að millifæra féð. Sagði hann að á þessum tíma, í september og október 2008, hafi verið uppi mikil óvissa um tryggingar innlána og örlög þeirra. Hann hafi sjálfur setið í stjórn [...]. Það hafi komið í bankann fyrirspurnir frá Fjármálaeftirlitinu um skiptingu innlána milli eigenda. Það hafi legið í loftinu að innlán erlendra aðila yrðu látin brenna úti. Þá hafi einnig komið í fyrirspurn beiðni um skiptingu innlána eftir myntum. Þessi millifærsla hafi verið sitt ráð til að tryggja þá hagsmuni sem honum hafi verið trúað fyrir, til að gæta þess að féð brynni ekki úti. Hann hafi því fært féð í það form sem hann hafi talið öruggast, innlán á nafni íslensks einstaklings.
Ákærði sagði að menn hafi gert sér ljóst að ekki yrði hægt að bjarga öllum innlánum. Þess vegna hafi verið óvissa um hvað yrði tryggt. Í yfirlýsingu sem kom frá ríkisstjórninni hafi t.d. verið notað orðmyndina „verði“ í merkingunni að innstæður yrðu tryggðar, en ekki orðmyndina „eru“. Þá hafi verið ljóst að Tryggingasjóðurinn gæti ekki staðið við skuldbindingarnar.
Í skýrslu H, forstöðumanns innri endurskoðunar Landsbankans, fyrir dómi, kom fram að menn hafi á þessum tíma ekki verið vissir um hvort innstæður erlendra aðila væru tryggðar. Þá kvaðst N, löggiltur endurskoðandi, sem annaðist m.a. endurskoðun Landsbankans, muna eftir samræðum sínum við ákærða í kringum hrunið. Hefði ákærði haft áhyggjur af stöðu erlendra aðila og tryggingu innstæðna þeirra.
Ákærði kvaðst hafa reynt að segja D bankastjóra frá þessari millifærslu og bera undir hana hvað ætti að gera með félagið og eignir þess. Hann hafi ítrekað reynt að ná fundi hennar til að reifa málið. Hann hafi hitt hana einu sinni og rætt við hana einu sinni í síma, en ekki komið málefni NBI Holdings að. Hann kvaðst hafa sagt að hann þyrfti að ræða málefni aflandsfélaga við hana. Hann kvaðst ekki hafa rætt þetta við M regluvörð. Þá hefði hann ekki rætt þetta við hinn stjórnarmanninn í NBI Holdings, Q.
D sagði fyrir dómi að ákærði hefði ekki talað við sig um neitt ákveðið félag. Hann hefði sagst þurfa að ræða málefni aflandsfélaga. Hann hafi hitt hann tvisvar á fundi, í annað skipti hafi fleiri verið á fundinum. Þá hafi þau rætt saman í síma einu sinni og einu sinni hefði hún fengið skilaboð um að ákærði hefði beðið um fund með henni.
R, forstöðumaður skrifstofu bankastjórnar Landsbankans, sagði fyrir dómi að hann vissi að ákærði hefði komið nokkrum sinnum til að hitta D. Hann hefði þurft að bíða mjög lengi einu sinni. R kvaðst ekki vita hvaða erindi ákærði átti.
S, sem er ritari á skrifstofu bankastjóra Landsbankans, sagði að á tímabilinu 9. október til 26. nóvember hefði ákærði oft komið til þeirra. Hún hafi ekki vitað hvaða erindi hann átti.
Málflytjendur lögðu mikið upp úr því hvort tilvist NBI Holdings hafi verið mörgum kunn. Eins og áður segir var starfsemi þess að miklu leyti hætt á árinu 2002. Virðist ákæruvald byggja á því að þar sem félagið hafi verið nær óþekkt hefði enginn tekið eftir því þó að sjóðir þess tæmdust.
A, fyrrverandi bankastjóri, sagði í skýrslu sinni að hann hefði alla tíð vitað af félaginu og að það ætti nokkurt fé á innlánsreikningi.
K, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsbankans, kvaðst ekki hafa þekkt til NBI Holdings. Hann hafi vitað af LB Holding. Sama kom fram í skýrslu T, lögfræðings í bankanum. Hann kvaðst hafa vitað af því sem hann nefndi kaupréttarfélögin. Ákærði hefði nefnt við sig að það væru peningar inni í þeim félögum. Þá má geta þess að E, fyrrverandi bankastjóri, kvaðst ekki hafa þekkt NBI Holdings. Félagið hefði enda ekki staðið í neinum viðskiptum eftir að hann kom til starfa í bankanum.
Hvorki Q, sem sat í stjórn NBI Holdings, né umsjónarmenn The 1886 Trust sjóðsins, komu fyrir dóm til skýrslugjafar.
H, forstöðumaður innri endurskoðunar, sem áður er getið, sagði að í gangi hefðu verið víðtæk eftirlitskerfi innan bankans. Þau hefðu, ef allt væri með felldu, vakið athygli á þessari millifærslu. Hann sagði að ákærði hefði vitað að ýmis eftirlitskerfi væru í gangi, en hann hefði ekki átt að þekkja þau nákvæmlega frekar en aðrir utan við innri endurskoðun. Þá sagði H að færslan hefði komið fram í svokölluðum Norkom listum, en því kerfi væri ætlað að hamla gegn peningaþvætti.
Í greinargerð verjanda eru rakin ítarlega samskipti er ákærði átti á árinu 2003 við regluvörð bankans og aðdragandann að því að ákveðið var að NBI Holdings teldist ekki vera venslaður aðili við ákærða. Ekki er tilefni til að rekja þessi samskipti nákvæmlega, en ljóst er að öllum er að komu mátti vera ljós tilvera þessa félags og að ákærði sat í stjórn þess.
Þá eru í greinargerð ákærða raktar ítarlega ýmsar tilkynningar frá stjórnvöldum er birtust í fjölmiðlum fyrstu daga októbermánaðar 2008 og varða tryggingu innlána í bönkum og sparisjóðum. Óþarft er að rekja allar þær tilkynningar sem verjandi tekur upp og fréttir sem fjölmiðlar fluttu þessa daga. Nægir að geta nokkurra atriða.
Eftir lokun markaða 2. október 2008 barst Landsbankanum beiðni frá Fjármálaeftirlitinu um upplýsingar um innlán þann 30. september 2008. Kemur fram í skýringum að greina eigi á milli mynta í yfirlitinu, svo og hvort innlánin komi frá því landi þar sem bankinn var skráður, eða annars staðar frá.
Aðfaranótt 6. október barst yfirlýsing ríkisstjórnarinnar þar sem segir að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum verði tryggðar að fullu. Segir þar nánar að átt sé við innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem tryggingar innstæðudeildar Tryggingasjóðs taki til. Hafa ákærði og verjandi hans bent á að í þessari yfirlýsingu hafi verið notuð sögnin að verða, en ekki sögnin að vera í nútíð. Þá segir í greinargerð að þennan dag hafi verið stöðug fundahöld í bankanum og hafi umræðan snúist um að beita svokallaðri Washington Mutual aðferð. Sú aðferð feli í sér að góðar eignir og skuldir séu teknar yfir í góðan banka sem sé búinn til, en slæmar eignir og skuldir skildar eftir í gamla bankanum. Hafi hugmyndin þá verið að skilja alla erlenda kröfuhafa, bæði innstæðueigendur og skuldabréfaeigendur eftir í gamla bankanum.
Þá kom oftsinnis fram í máli ráðherra að tilgangur allra aðgerða væri að gæta hagsmuna þjóðarinnar í hvívetna. Seint að kvöldi 6. október voru lög nr. 125/2008 samþykkt á Alþingi.
Fjármálaeftirlitið skipaði skilanefnd yfir Landsbankann að morgni 7. október 2008. Daginn eftir bað ákærði F að millifæra eins og lýst er í ákæru. Þann 9. október bað hann F enn að millifæra á annan reikning eins og lýst er að framan. Síðar þann dag var gefin út ákvörðun Fjármálaeftirlitsins sem fól í sér að allar innstæður í útibúum Landsbankans hér á landi flyttust óskertar til nýja bankans.
Ákærði byggir sýknukröfu sína á þremur atriðum, sem fjallað er um ítarlega í greinargerð hans. Í fyrsta lagi hafi hann ekki haft auðgunarásetning er hann lét millifæra innstæðuna og slíkur ásetningur hafi ekki stofnast á þeim tíma er innstæðan var á reikningi í hans nafni. Í öðru lagi telur hann að málsatvik uppfylli ekki efnisþætti fjárdráttar. Í þriðja lagi hafi verið brotið gegn rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar við rannsókn hjá lögreglu. Telur hann ágalla á rannsókn málsins vera svo alvarlega að brotið hafi verið gegn rétti sínum samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 6. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu og meginreglum laga nr. 88/2008. Leiði þetta óhjákvæmilega til þess að hann verði sýknaður.
Í fyrsta lagi hafi við rannsókn á tölvugögnum sem hald var lagt á verið sleppt mikilvægu leitarorði, NBI Holdings Ltd. Leiði þetta til þess að leitin hafi ekki skilað öllum þeim niðurstöðum sem máli skiptu.
Þá hafi lögregla reynt að gera tortryggilegt hvernig innstæða NBI Holdings myndaðist, í stað þess að taka upp úr tölvunni mikilvæg skjöl um kaup og sölu á hlutabréfum í Vátryggingafélagi Íslands.
Í þriðja lagi segir verjandi ákærða að hann hafi óskað eftir því að lögregla aflaði tiltekinna gagna sem væri að finna hjá Landsbankanum, þ.e. afrits af bréfi ytri endurskoðanda þar sem gerð var athugasemd við fjárhagsstöðu LB Holding Ltd. og afrit fundargerða fjármálanefndar Landsbankans. Í svari Landsbankans hafi verið sagt að umrædd gögn fyndust ekki. Hann hafi sjálfur lagt þau fram með greinargerð sinni.
Þá segir að lögregla hafi ávallt kynnt bréf skilanefndar Landsbankans sem kæru. Það sé orðum aukið, eins og bréfið beri með sér og fram komi í skýrslu U skilanefndarmanns, hjá lögreglu.
Í fimmta lagi mótmælir verjandi þeirri ályktun lögreglu að mjög fáir hafi vitað af félaginu NBI Holdings. Sú ályktun sé röng, mjög margir starfsmenn Landsbankans hafi vitað af félaginu. Telur hann í greinargerð sinni rúmlega þrjátíu starfsmenn sem vitað hafi af félaginu í október 2008.
Um þá ágalla sem verjandi telur vera á rannsókn lögreglu skal þetta tekið fram: Það er ekki sýnt fram á að einhver sakargögn sem máli skipta um niðurstöðu málsins hafi ekki fundist, eða glatast í meðförum lögreglu. Þá er ekki hægt að sjá að í þeim atriðum sem verjandi nefnir sé málið ekki upplýst nægilega. Lögreglan kaus að nefna bréf skilanefndarinnar kæru við yfirheyrslur bæði vitna og ákærða. Þessi ónákvæmni kemur ekki að sök.
Samþykktir The 1886 Trust voru lagðar fram er málið var endurupptekið. Af þeim eða samþykktum NBI Holdings verður ekki margt ráðið um það hvort stjórnendur Landsbankans hafi í reynd haft skipunarvald yfir ákærða sem stjórnarmanni og prókúruhafa í félaginu. Ekki liggja frammi neinir samningar er kunna að hafa verið gerðir milli bankans og félagsins.
Ákærði millifærði fé eins og lýst er í ákæru og hann hefur staðfest fyrir dómi, inn á sinn eigin bankareikning. Með þessu hefur hann komið fénu svo fyrir að hann hafði umráð þess í eigin nafni, en umráðin hafði hann áður í skjóli prókúruumboðs er hann hafði fyrir NBI Holdings Ltd.
Ákærði staðhæfir að hann hafi ekki ætlað sér að ná fénu til sín, hann hafi talið þessa millifærslu nauðsynlega öryggisráðstöfun til að koma í veg fyrir að féð kynni að glatast þegar Landsbanki Íslands féll sem kallað er í byrjun október 2008. Hann hafi með öðrum orðum ekki haft ásetning til að auðgast á kostnað NBI Holdings með þessum hætti.
Sönnunarfærslan fyrir dómi snerist að mestu um atriði sem geta gefið vísbendingar um trúverðugleika þessarar skýringar ákærða.
Af þeim sem gáfu skýrslur fyrir dómi var það einungis A sem þekkti vel til NBI Holdings, fyrir utan ákærða sjálfan. Nokkrir aðrir vissu af félaginu, eða höfðu hugmynd um tilvist þess. Hins vegar var stjórnarmaður í félaginu ekki leiddur sem vitni og heldur ekki umsjónarmenn The 1886 Trust. Málatilbúnaður ákæruvalds sýnist byggja að hluta til á þeirri ályktun að NBI Holdings hafi í reynd verið stýrt á skrifstofum Landsbankans og að þeir sem aðsetur hafa á Guernsey hafi ekki skipt sér neitt af félögunum. Kann sú staðreynd að ákærði kveðst hafa ætlað að ræða málefni félagsins við nýjan bankastjóra Landsbankans að styrkja þessa ályktun. Þrátt fyrir það stoðar ekki án frekari rannsóknar að draga slíkar ályktanir. Ætla verður að stjórnarmenn í félögum sinni skyldum sínum. Verður að miða við að ákærða hefði verið ljóst að taka fjárins myndi fljótlega komast upp á vettvangi félagsins sjálfs og sjálfseignarsjóðsins.
Upplýsingar um eftirlitskerfi innan bankans eru ekki mjög nákvæmar. Hefur í skýrslum vitna komið fram frásögn af eftirlitskerfi sem ætlað er að koma upp um peningaþvætti. Þá hefur verið sagt frá eftirliti með stórum millifærslum í því skyni að hindra missi viðskiptavina úr bankanum. Þá lýstu þau vitni sem starfa eða störfuðu í innri endurskoðun bankans því að notast væri við margs konar eftirlitsaðgerðir til að hindra svikastarfsemi. Töldu allir að sú staðreynd að lögð var há fjárhæð inn á reikning starfsmanns í bankanum yki líkurnar á því að millifærslan yrði tekin til skoðunar. Má af öllu þessu draga þá ályktun að ákærði hafi mátt sjá að líklega yrði hann spurður um þessa millifærslu og að hún yrði rannsökuð.
Þá verður ekki séð að ákærði hafi reynt að millifæra féð laumulega. Nokkrir starfsmenn komu að því að millifæra féð og enn aðrir að gjaldmiðlaskiptunum. Þá reyndi hann ekki að beita neinum blekkingum.
Þá má líta til þess að ákærði lét færa féð á reikning þar sem ekki var nein innstæða fyrir, þannig að það var á sinn hátt sérgreint í vörslum hans. Á móti vegur hins vegar að ákærði lét féð liggja óhreyft á eigin reikningi í meira en einn mánuð, án þess að segja nokkrum frá. Þó ber að hafa í huga að hann var sjálfur stjórnarmaður í NBI Holdings og nærtækast hefði verið að ákærði tilkynnti meðstjórnarmanni sínum um ráðstöfunina.
Eftir setningu laga nr. 125/2008 kom á daginn að allar innstæður í útibúum íslensku bankanna hér á landi voru yfirteknar og viðurkenndar að fullu af nýju bönkunum sem stofnaðir voru. Þannig reyndist tilraun ákærða til að gæta hagsmuna NBI Holdings hafa verið óþörf.
Skilanefnd var sett yfir Landsbankann að morgni 7. október. Síðar sama dag millifærði ákærði féð. Ákvörðun um að nýi bankinn sem stofnaður var tæki yfir og ábyrgðist allar innstæður í Landsbanka Íslands hf. var ekki birt fyrr en 9. október. Þegar litið er til allra aðstæðna og þess sem upplýst hefur verið um vitneskju manna og hugmyndir sem menn gerðu sér um stöðu innstæðueigenda, verður að meta það skiljanlegt að ákærði hefði nokkrar áhyggjur af stöðu NBI Holdings. Hafði hann réttmæta ástæðu til að gæta að innstæðu NBI Holdings og grípa til aðgerða sem hann teldi hæfilegar til að tryggja það að hún glataðist ekki. Er ekki í gögnum málsins eða atvikum í heild nægur grundvöllur til að hafna þeirri skýringu ákærða að hann hafi einungis ætlað að tryggja það að fé félagsins glataðist ekki við greiðsluþrot Landsbanka Íslands hf. Er því gegn neitun ákærða ósannað að hann hafi haft ásetning til auðgunar, sbr. 243. gr. almennra hegningarlaga. Verður því að sýkna hann af ákærunni.
Sakarkostnað ber að greiða úr ríkissjóði. Yfirlit verjanda sýnir að hann og fulltrúi hans hafa eytt miklum tíma í málið. Sést að ekkert hefur verið til sparað og er skjalaframlagning verjandans til vitnis um það, á sama hátt og rannsóknargögn lögreglu, að farið hefur verið talsvert út fyrir efnið og tíma eytt í gagnaöflun sem telja verður þarflausa. Allt að einu verður ekki hjá því komist að taka að talsverðu leyti mið af tímaskýrslu verjanda. Eru málsvarnarlaun hans ákveðin að viðbættum virðisaukaskatti 4.000.000 króna.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Ákærði, X, er sýknaður af kröfum ákæruvalds.
Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 4.000.000 króna.