Hæstiréttur íslands

Mál nr. 346/2015


Lykilorð

  • Málsforræði
  • Veðleyfi
  • Málsástæða
  • Ógilding samnings
  • Fjármálafyrirtæki
  • Kröfugerð


                                     

Fimmtudaginn 17. desember 2015.

Nr. 346/2015.

 

Franz Jezorski

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

gegn

Arion banka hf.

(Friðbjörn E. Garðarsson hrl.)

 

Fjármálafyrirtæki. Veðleyfi. Ógilding samnings. Kröfugerð. Málsástæða. Málsforræði.

F höfðaði mál á hendur A hf. og krafðist þess að felld yrði úr gildi veðsetning skuldabréfs, útgefnu af dóttur hans árið 2004, sem hann veitti leyfi fyrir í fasteign sinni og að A hf. yrði gert að aflýsa skuldabréfinu. Fyrir Hæstarétti upplýsti F um ný atvik, sem hann taldi þó ekki breyta grundvelli málsins eins og hann var lagður í héraði, en veitti honum þó tilefni til að breyta kröfu sinni fyrir Hæstarétti og tefla fram nýrri málsástæðu. Í dómi Hæstaréttar var talið, að gegn andmælum A hf., gæti F ekki breytt kröfu sinni, sbr. 1. mgr. 163. gr., sbr. 1. mgr. 111. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá var heldur ekki talið að ný málsástæða kæmist að af hans hálfu. Í dómi Hæstaréttar kom einnig fram að við mat á því hvort samningi skyldi vikið til hliðar í heild eða að hluta með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga skyldi samkvæmt 2. mgr. greinarinnar líta til fjögurra þátta. Í fyrsta lagi var talið að af skýrslu sem F gaf fyrir dómi og öðru því sem fram kom í gögnum málsins yrði sú ályktun dregin að hann hefði sjálfur ekki haft sérstök samskipti við A hf. er hann veitti veðleyfið umrætt sinn. Lægi því ekki fyrir að hann hefði sjálfur samið um önnur atriði tengd þessu láni við bankann. Í öðru lagi var talið að líta bæri til atvika við samningsgerð en ljóst var að A hf. hefði ekki sinnt þeim skyldum sem á honum hefði hvílt samkvæmt ákvæðum samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001, meðal annars um að meta greiðslugetu dóttur F og kynna honum niðurstöðu þess og jafnframt upplýsingabækling um skuldaábyrgðir og veðsetningar. Á hinn bóginn hefði lánið að mestu leyti gengið til uppgreiðslu tveggja eldri skuldabréfa sem hefðu einnig verið tryggð með veði í sömu fasteign F. Í þriðja lagi var litið til þess að F væri einstaklingur, sem kvaðst ekki búa yfir sérstakri menntun á þessu sviði, en A hf. væri einn stærsti banki landsins sem á hefði hvílt lögboðnar og samningsbundnar skyldur um að vanda til verka við gerð samninga. Loks var litið til atvika sem síðar hefðu komið til, meðal annars að F hefði fyrst gert reka að því að athuga réttarstöðu sína meira en sjö árum eftir að honum hafði verið kunnugt um að veðleyfið hafði verið veitt. Þegar allt framangreint var virt heildstætt var ekki fallist á að sýnt hefði verið fram á að ósanngjarnt væri eða andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu A hf. að bera fyrir sig umrætt veðleyfi, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Þá var ekki talið að 33. gr. sömu laga gæti staðið því í vegi að A hf. bæri fyrir sig veðleyfið. Var A hf. því sýknað af kröfu F.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. maí 2015. Í áfrýjunarstefnu krefst hann þess aðallega að felld verði úr gildi veðsetning skuldabréfs að höfuðstól 4.150.000 krónur, útgefnu af Guðfinnu Franzdóttur 15. desember 2004, sem hann veitti leyfi fyrir í fasteign sinni að Blikanesi 26 í Garðabæ og að stefnda verði gert að aflýsa skuldabréfinu en til vara að veðsetningin verði felld úr gildi að því leyti sem hún var umfram 3.587.060 krónur er hún fór fram. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að málskostnaður verði felldur niður á báðum dómstigum.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum áfrýjanda, en til vara að framangreind veðsetning nemi 3.587.060 krónum á útgáfudegi skuldabréfsins. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Við flutning málsins fyrir Hæstarétti vildi áfrýjandi breyta kröfugerð sinni á þann hátt að í stað þess að hún bæri með sér að áfrýjandi hefði veitt leyfi fyrir veðsetningu skuldabréfsins 15. desember 2004 kæmi einungis fram að veitt hefði verið leyfi til hennar, án þess að tiltekið yrði að það hefði verið áfrýjandi sem það gerði. Stefndi andmælti þessari breytingu á kröfugerð og taldi hana raska grundvelli málsins, eins og hann hefði verið lagður í héraði og í sóknarskjölum áfrýjanda fyrir Hæstarétti. Með vísan til 1. mgr. 163. gr., sbr. 1. mgr. 111. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála getur hin breytta kröfugerð ekki komist að hér fyrir dómi.

Við sama tilefni upplýsti lögmaður áfrýjanda að sjá mætti af gögnum málsins, svo og gögnum sem hann afhenti við málflutninginn, að áfrýjandi sjálfur hefði ekki undirritað skuldabréfið 15. desember 2004 um samþykki fyrir veðsetningu fasteignarinnar, heldur hefði sonur hans, sem ber sama nafn, og eiginkona sonarins gert það. Af hálfu áfrýjanda var þetta þó ekki talið raska þeim grundvelli málsins, sem lagður hafi verið í héraði og í sóknarskjölum fyrir Hæstarétti, en á hinn bóginn bæri að taka tillit til þess að áfrýjandi hefði sjálfur ekki samþykkt veðsetninguna, þegar lagt væri mat á það hvort skilyrði væru til að víkja veðsetningunni til hliðar í heild eða að hluta.

Fyrir Hæstarétti hefur verið upplýst að áfrýjandi seldi fasteignina Blikanes 26 til áðurnefnds sonar síns og eiginkonu hans. Samkvæmt kaupsamningi þeirra 29. ágúst 2003 skyldi kaupverðið vera 33.000.000 krónur og greiðast með tilteknum hætti. Í kaupsamningnum voru taldar upp veðskuldir í níu töluliðum og sagt að þær væru kaupanda óviðkomandi og að seljandi skyldi aflýsa þeim eigi síðar en 30. desember 2003. Meðal þessara veðbanda var skuld á 4. veðrétti við Eftirlaunasjóð starfsmanna Búnaðarbanka Íslands frá 21. maí 1992, upphaflega að fjárhæð 1.000.000 krónur, og við Íslandsbanka hf. frá 6. október 1997, upphaflega að fjárhæð 2.000.000 krónur, en ágreiningslaust er að dóttir áfrýjanda, Guðfinna, var skuldari að þessum lánum og að áfrýjandi hafi veitt veðleyfi í fasteign sinni til tryggingar greiðslu þeirra.

Þegar skuldabréfið, sem mál þetta varðar, var undirritað 15. desember 2004, voru því sonur áfrýjanda og alnafni og eiginkona hans eigendur fasteignarinnar samkvæmt kaupsamningi, en áfrýjandi hafði þó ekki gefið út afsal til þeirra. Samkvæmt nýjum upplýsingum af hálfu áfrýjanda var það þessi sonur hans og eiginkona hans, kaupendur fasteignarinnar, sem undirrituðu samþykki sitt á skuldabréfið 15. desember 2004 fyrir veðsetningu eignarinnar.

Með yfirlýsingu 18. desember 2004 gerðu áfrýjandi og eiginkona hans samkomulag við kaupendur fasteignarinnar, son þeirra og tengdadóttur, um að rifta kaupsamningnum, sem gerður hafði verið 29. ágúst árinu áður. Sagði meðal annars í riftunaryfirlýsingunni að þeir sem hana gerðu myndu engar kröfur gera hver á hendur öðrum vegna riftunarinnar. Þá sagði að uppgjör hafi farið fram á milli aðila og að réttarstaða þeirra skyldi vera sú sama og enginn kaupsamningur hefði verið gerður. Við gerð þessara yfirlýsingar var aðstaðan sú að enn hvíldu á fasteigninni þær tvær veðskuldir sem dóttir áfrýjanda var skuldari að og hann hafði veitt veðleyfi fyrir. Skuldabréfið 15. desember 2004, sem málið varðar, var afhent til þinglýsingar 22. sama mánaðar og þinglýst athugasemdalaust, þótt áfrýjandi hefði ekki undirritað það sem eigandi fasteignarinnar samkvæmt afsali. Lánið var greitt út 29. þessa mánaðar og gekk mestur hluti þess, eins og síðar verður rakið, til að greiða upp þær tvær veðskuldir frá 1992 og 1997, sem áður greinir og dóttir áfrýjanda var skuldari að.

Áfrýjandi og eiginkona hans tóku sjálf lán hjá KB banka hf. 15. desember 2004, sem afhent var til þinglýsingar 22. sama mánaðar. Lánið var að fjárhæð 22.000.000 krónur. Á því skuldabréfi var að finna áritun, þar sem sagði: ,,Veðskuldabréf þetta skal hvíla samhliða veðskuldabréfi KB banka íbúðaláni, að fjárhæð kr. 4.150.000,- útgefnu af Guðfinnu Franzdóttur“. Var áfrýjanda því þá þegar kunnugt um að fasteignin hafði verið veðsett til tryggingar þessari skuld.

Áðurnefnd riftunaryfirlýsing var afhent til þinglýsingar 2. maí 2005 og færð inn tveimur dögum síðar.

Svo sem fram er komið var áfrýjanda þegar í desember 2004 kunnugt um þinglýsingu skuldabréfsins, sem dóttir hans hafði gefið út 15. desember 2004 og mál þetta varðar. Hann hefur ekki hreyft athugasemdum við gildi veðsetningarinnar vegna heimildarbrests og lýsti heldur ekki þeirri afstöðu þegar hann gaf skýrslu fyrir héraðsdómi, þótt honum hafi gefist tilefni til. Samkvæmt framansögðu verður lagt til grundvallar að áfrýjandi hafi fyrir sitt leyti samþykkt veðsetninguna og er það í samræmi við þann grundvöll málsins, sem var að þessu leyti skýrlega lagður af hans hálfu í héraði. Er áfrýjandi bundinn við þann málsgrundvöll.

Málsástæða um að taka beri tillit til þess að áfrýjandi hafi sjálfur ekki áritað skuldabréfið um samþykki sitt fyrir veðsetningunni við mat á því hvort það sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu stefnda að bera samþykkið fyrir sig, getur ekki komið til úrlausnar við meðferð málsins fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991.

II

Kröfu sína í málinu reisir áfrýjandi á 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, svo og á 33. gr. þeirra laga.

Við mat á því hvort samningi skuli vikið til hliðar í heild eða að hluta með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936 vegna þess að það sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig skal samkvæmt 2. mgr. greinarinnar líta til fjögurra þátta, eins og vikið er að í hinum áfrýjaða dómi.

Í fyrsta lagi ber að líta til efnis þess samnings, sem krafa lýtur að, en í því tilviki sem hér er til úrlausnar var um að ræða samkomulag eða samþykki áfrýjanda fyrir því að tryggja mætti áðurgreint skuldabréf, sem dóttir hans hafði gefið út til KB banka hf., með veði í fasteign hans að Blikanesi 26. Stefndi fer nú með kröfu samkvæmt skuldabréfinu. Af skýrslu sem áfrýjandi gaf fyrir dómi og öðru því sem fram kemur í gögnum málsins verður sú ályktun dregin að hann hafi sjálfur ekki haft sérstök samskipti við bankann er hann veitti veðleyfið umrætt sinn. Liggur því ekki fyrir að hann hafi sjálfur samið um önnur atriði tengd þessu láni við bankann.

Í öðru lagi ber að líta til atvika við samningsgerð. Í því efni er óumdeilt að KB banki hf. sinnti ekki þeim skyldum sem á bankanum hvíldu samkvæmt 3. og 4. grein, sbr. 1. mgr. 2. greinar, samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, frá 1. nóvember 2001. Samkvæmt því bar bankanum að meta greiðslugetu skuldarans, dóttur áfrýjanda, með þeim hætti sem fyrir er mælt um í 3. grein samkomulagsins. Bankanum bar einnig, samkvæmt 4. grein þess, að kynna áfrýjanda upplýsingabækling um skuldaábyrgðir og veðsetningar, auk þess sem bankanum bar að tryggja að áfrýjandi gæti kynnt sér niðurstöðu greiðslumatsins sem bankinn átti að framkvæma. Framangreindum skyldum sinnti bankinn í engu. Fór það einnig í bága við almenn fyrirmæli 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. til hliðsjónar almennar reglur 4. og 6. gr. þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti.

Ekki er upplýst hvort dóttir áfrýjanda hefði staðist greiðslumat samkvæmt framangreindu samkomulagi hefði það farið fram. Eru málsástæður af hálfu áfrýjanda í héraði ekki reistar á því að það hefði hún ekki gert. Staðhæfingar um það í greinargerð áfrýjanda til Hæstaréttar koma því ekki til álita.

Fjárhæð sú sem dóttir áfrýjanda fékk við útgáfu skuldabréfsins til KB banka hf., að frádregnum lántökukostnaði og opinberum gjöldum og kostnaði nam 4.056.825 kónum. Fjárhæðin gekk sem fyrr greinir að mestu leyti til uppgreiðslu tveggja skuldabréfa sem hún hafði áður gefið út og voru einnig tryggð með veði í fasteign áfrýjanda að Blikanesi 26. Runnu þannig 3.587.060 krónur til uppgreiðslu þeirra en eftirstöðvarnar gengu til greiðslu á tveimur tilgreindum skuldum dóttursonar áfrýjanda en að öðru leyti til eigin ráðstöfunar hennar. Samkvæmt framansögðu hækkaði fjárhæð veðsettra skulda í fasteign áfrýjanda um 569.940 krónur miðað við höfuðstól lánsins við veðsetningu skuldabréfsins frá 15. desember 2004. Þá verður einnig að líta til þess að fastir vextir á því láni, að teknu tilliti til vaxtaafsláttar, voru 4,15% en vextir á þeim lánum sem greidd voru upp námu annars vegar 5% af láninu frá 1992 en hins vegar 8% af láninu frá 1997.

Í þriðja lagi ber samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 að líta til stöðu samningsaðila. Áfrýjandi er einstaklingur, sem ekki kveðst búa yfir sérstakri menntun á þessu sviði og ekki er upplýst um þekkingu hans á því að öðru leyti, en KB banki hf. var einn stærsti banki landsins og hafði fjölda starfsmanna með mikla þekkingu á lánum og tryggingu þeirra. Auk þess hvíldu á bankanum lögboðnar og samningsbundnar skyldur um að vanda til verka svo sem rakið hefur verið.

Í fjórða lagi ber að líta til atvika sem síðar komu til. Áfrýjandi gerði fyrst reka að því að athuga réttarstöðu sína í ársbyrjun 2012, meira en sjö árum eftir að honum var kunnugt um að veðleyfið hafði verið veitt. Ekkert liggur fyrir í skjölum málsins um hver framvindan hefur orðið um fjárhagsstöðu skuldarans, dóttur áfrýjanda, frá því er skuldabréfið var gefið út og heldur ekki um fjárhagsstöðu áfrýjanda eða breytingar á henni. Þá liggur hvorki fyrir hver hækkun lánsins hefur verið á þeim tíma sem liðinn er frá útgáfu skuldabréfsins né hvaða þróun hefur orðið á launatekjum dóttur áfrýjanda. Loks er ekki upplýst um hver hækkun hefur orðið á hinni veðsettu fasteign á því tímabili sem um ræðir.

Þegar allt framangreint er virt heildstætt verður ekki fallist á að sýnt hafi verið fram á að ósanngjarnt sé eða andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu stefnda að bera fyrir sig veðleyfið 15. desember 2004, sem áfrýjandi hefur samþykkt. Þá getur 33. gr. laga nr. 7/1936 heldur ekki staðið því í vegi að stefndi beri fyrir sig veðleyfið.

Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Franz Jezorski, greiði stefnda, Arion banka hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2015.

                                                                                      I.

Mál þetta var höfðað þann 23. júní 2014 og dómtekið 4. mars 2015 að loknum munnlegum málflutningi.

      Stefnandi er Franz Jezorski til heimilis að Blikanesi 26, Garðabæ, en stefndi er Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess að felld verði úr gildi veðsetning sem stefnandi veitti í fasteign sinni að Blikanesi 26, Garðabæ, fastanúmer 206-9374, með undirritun sinni á skuldabréf nr. 371-74-13565, útgefnu af Guðfinnu Franzdóttur, dagsettu 15. desember 2004. Þá er þess einnig krafist að stefnda verði gert að aflýsa skuldabréfinu af fasteigninni. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara er þess krafist að samþykki stefnanda um að veita veð í fasteign sinni Blikanesi 26, Garðabæ, fastanúmer 206-9374, samkvæmt veðskuldabréfi nr. 394813565, útgefnu útgefnu af Guðfinnu Franzdóttur þann 15. desember 2004, að upphaflegri höfuðstólsfjárhæð 4.150.000 krónur sé gilt að fjárhæð 3.587.060 krónur (í stað 4.150.000 krónur) frá útgáfudegi veðskuldabréfs nr. 394813565.

                                                                                     II.

Í máli þessu er deilt um gildi veðsetningar skuldabréfs á fasteign stefnanda að Blikanesi 26, Garðabæ. Umrætt veðskuldabréf nr. 0394-813565, var gefið út af dóttur stefnanda, Guðfinnu Franzdóttur, þann 15. desember 2004, að fjárhæð 4.150.000 krónur til KB banka hf., og var greind fasteign stefnanda sett að veði til tryggingar á skuldinni. Ritaði stefnandi undir frumrit bréfsins sem veðsali til staðfestingar á samþykki sínu. Skuldabréfið var framselt til stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 21. október 2008.

                Við útgáfu áðurgreinds veðskuldabréfs útbjó stefndi yfirlit (yfirlit vegna uppgreiðsluþjónustu) sem dagsett er 29. desember 2014, þar sem er að finna sundurgreiningu á þeim skuldum sem andvirði veðskuldabréfsins átti að greiða. Samkvæmt yfirlitinu var samtals 3.590.764 krónum (3.587.060 krónur í stefnu) lánsfjárhæðarinnar, ráðstafað til uppgreiðslu á tveimur veðskuldabréfum sem þegar hvíldu á fasteign stefnanda, Blikanesi 26, Garðabæ, útgefnum af dóttur stefnanda Guðfinnu Franzdóttur. Nánar tiltekið fóru 947.564 krónur til uppgreiðslu á veðskuldabréfi nr. 301-64-781268, að höfuðstólsfjárhæð 1.000.000 krónur, sem þá hvíldi á 3. veðrétti fasteignarinnar að Blikanesi 26, útgefnu af Guðfinnu Franzdóttur til Eftirlaunasjóðs starfsmanna Búnaðarbanka þann 21. maí 1992. Hins vegar var 2.639.496 krónum ráðstafað til uppgreiðslu á veðskuldabréfi nr. 511-74-15341 sem þá hvíldi á 5. veðrétti eignarinnar, útgefnu af Guðfinnu Franzdóttur þann 6. október 1997, til Íslandsbanka hf., að höfuðstólsfjárhæð 2.000.000 króna. Stefnandi hafði samþykkt greindar veðsetningar á fasteign hans með undirritun sinni á skuldabréfin. Þá var 205.000 krónum ráðstafað til greiðslu víxils nr. 30043 á nafni Guðjóns Baldvinssonar, sonar Guðfinnu, og 150.000 krónum var ráðstafað til að greiða yfirdráttarheimild á reikningi 0318-26-182609, í eigu Guðjóns. Þá fóru 111.850 krónur upp í kostnað vegna lánsins. Eftirstöðvar lánsins, 111.327 krónur, voru greiddar inn á bankareikning lántaka.

                Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 17. febrúar 2012 til stefnda, var krafist niðurfellingar ábyrgðarskuldbindingar stefnanda á hinu umþrætta veðskuldabréfi nr. 0394-813565 á þeim grundvelli að stefndi hefði ekki farið að samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 við greiðslumat lántakanda. Stefndi hafnaði kröfu stefnanda með bréfi, dags. 23. febrúar 2012, með þeim röksemdum að við lánveitingu umrædds skuldabréfs hefði ekki verið um nýja lánveitingu að ræða heldur endurfjármögnum skulda.

                Með bréfi, dags. 5. mars 2012, óskaði stefnandi eftir nánari upplýsingum um ákvörðun stefnda sem fram hefði komið í áðurgreindu svarbréfi stefnda, dags. 23. febrúar 2012. Í svari stefnda, dags. 23. mars. 2012, kom fram að stefndi hefði metið gildi ábyrgðarskuldbindingarinnar með hliðsjón af samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 og að niðurstaðan hefði verið sú að ábyrgðarskuldbinding stefnanda væri gild, þar sem ekki bæri að líta á lánveitinguna árið 2004 sem nýja lánveitingu, heldur endurfjármögnun. Jafnframt var ítrekað að umrætt veðskuldabréf hefði verið gefið út til þess að greiða upp eldri skuldbindingar Guðfinnu, sem voru m.a. tryggðar með veði í þinglýstri fasteign stefnanda.

                Með bréfi, dags. 23. október 2013, kvartaði stefnandi til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, yfir því að ekki hefði farið fram greiðslumat á lántaka, Guðfinnu. Með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 91/2013, var erindi stefnanda vísað frá úrskurðarnefndinni.

                Í svarbréfi stefnda, dags. 7. febrúar 2012 til stefnanda, er staðfest að greiðslumat hafi ekki fundist hjá stefnda vegna umrædds láns nr. 0394-813565.  

                Stefnandi gaf aðilaskýrslu fyrir dómi. Einnig kom fyrir dóminn Guðfinna Franzdóttir.

                                                                                   III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi reisir kröfur sínar á því að stefndi hafi brotið gegn reglum sem fram koma í samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, dagsettu 1. nóvember 2001, (samkomulagið) sem leysti af hólmi eldra samkomulag sama efnis frá árinu 1998.

                Byggir stefnandi á því að stefndi hafi vanrækt upplýsingaskyldu sem á stefnda hvíldi skv. 4. gr. samkomulagsins. Stefnandi hafi hvorki verið upplýstur um þær skyldur sem fólust í ábyrgðinni, heimild stefnanda til að segja ábyrgðinni upp, heimild hans til að óska eftir að greiðslumat yrði ekki framkvæmt og heimild hans til að bera ágreiningsmál vegna ábyrgðarinnar undir Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Hafi stefnanda ekki verið afhentur upplýsingabæklingur um skuldaábyrgðir og veðsetningar sem stefnda hafi borið að gefa út og dreifa til stefnanda. Með þessu hafi stefndi brotið upplýsingaskyldu sína og telja verði því að ábyrgðin sé fallin úr gildi samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

                Þá telur stefnandi enn fremur að stefndi hafi einnig brotið gegn 3. gr. samkomulagsins þar sem ekki hafi verið gert greiðslumat á lántakanum og greiðanda lánsins. Á stefnda hafi hvílt sú skylda að meta greiðslugetu greiðanda lánsins, Guðfinnu Franzdóttur. Eigi það að leiða til ógildingar veðsetningarinnar þó aðeins sé litið til þessa brots stefnda skv. 36. gr.

                Stefnandi fullyrðir að stefndi hafi, með ófullnægjandi upplýsingagjöf og vanrækslu við að gera greiðslumat á skuldaranum, ekki aðeins brotið gegn framangreindu samkomulagi heldur einnig gerst brotlegur við þágildandi 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 4. og 6. gr. þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti.

                Það sé meginmarkmið samkomulags um notkun ábyrgða frá árinu 2001 að ábyrgðarmenn geti metið áhættu af því að gangast í ábyrgð á skuldum einstaklinga áður en þeir samþykktu hana. Til þess að slíkt mat gæti farið fram af hálfu ábyrgðarmanns var nauðsynlegt að fjármálafyrirtæki hefði viðhaft vönduð og nákvæm vinnubrögð við gerð greiðslumats og við uppýsingagjöf til ábyrgðarmanns enda er það forsenda þess að markmið samkomulagsins náist að lánveitingar séu miðaðar við greiðslugetu greiðanda og eigin tryggingar hans. Því hafi stefnda borið skylda til þess að meta greiðslugetu lántaka sérstaklega vegna veðs þess sem sóst var eftir að stefnandi veitti.

                Stefnandi telur að stefndi hafi brotið gegn óskráðum meginreglum um heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti og að starfa í samræmi við venjur á fjármálamarkaði sem og að viðhafa ekki háttsemi sem brjóti gegn hagsmunum stefnanda. Að öllu framangreindu virtu geti stefndi ekki byggt rétt á veðsetningu þeirri sem veitt var í fasteign stefnanda, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, og beri því að víkja veðsetningunni til hliðar og afmá hana úr þinglýsingabókum.

                Þá byggir stefnandi á því að óheiðarlegt sé fyrir stefnda að bera samninginn fyrir sig vegna atvika sem voru fyrir hendi þegar löggerningurinn kom til vitundar hans og hann mátti vita um, sbr. 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Það sé óheiðarlegt af hálfu stefnda að bera fyrir sig samning um veðsetningu í fasteign stefnanda, þegar ljóst sé að stefndi hafi vanrækt skyldur sínar við samningsgerðina um að framkvæma greiðslumat á lántakendum, með þeim afleiðingum að öll áhætta vegna vanefnda færðist af stefnda yfir á stefnanda.

2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir á því að um endurfjármögnun á skuldum Guðfinnu og sonar hennar hafi verið að ræða með útgáfu veðskuldabréfs nr. 394813565. Málið snúist um skuldir sem að mestu hafi þegar verið tryggðar í fasteign stefnanda og stofnað hafi verið til fyrir gildistöku áðurnefnds samkomulags.

                Óumdeilt sé að forveri stefnda hafi ekki framkvæmt greiðslumat við útgáfu hins umþrætta veðskuldabréfs enda hafi verið um endurfjármögnun skulda að ræða, sem tryggðar voru með veði í fasteign stefnanda. Því eigi ákvæði samkomulagsins ekki við í máli þessu.

                Stefndi telur að þótt brotið hafi verið gegn ákvæð­um samkomulags um notkun ábyrgða leiði það ekki sjálfkrafa til ógildingar á veðsetn­ingunni heldur verði að fara fram heildarmat á aðstæðum aðila fyrir, eftir og við undirritun stefnanda á hið umþrætta veðskuldabréf. Telur stefndi að slíkt mat leiði til þess að sýkna bera stefnda af ógildingarkröfu stefnanda með vísan til eftirfarandi:

                i) Umrætt veðskuldabréf hafi verið gefið út til að endurfjármagna lán sem hvíldu á 3. og 5. veðrétti á eign stefnanda að Blikanesi 26. Veðskuldabréfið hafi verið að höfuðstólsfjárhæð 4.150.000 krónur og af þeirri fjárhæð hafi 3.590.764 krónur (92%) verið nýttar til uppgreiðslu lána sem þegar hvíldu á fasteign stefnanda.

                ii) Samhliða útgáfu umrædds veðskuldabréfs hafi stefnandi gefið út nýtt veðskuldabréf sem tekið var til uppgreiðslu lána sem hvíldu á 4. og 6. veðrétti á fasteign hans. Hafi bæði stefnandi og Guðfinna því fengið betri kjör á skuldum sínum en þeim uppgreiddu við þessa endurfjármögnun.

                iii) Stefndi hafi þekkt stöðu dóttur sinnar, en hún hafi verið námsmaður á þeim tíma sem hið umþrætta veðskuldabréf var gefið út. Stefnandi hafi af fúsum og frjálsum vilja sett eign sína að veði fyrir skuldum dóttur sinnar, til þess að aðstoða hana. Framkvæmd greiðslumats hefði því engu breytt um vilja stefnanda til þess að veðsetja fasteign sína fyrir skuldum dóttur sinnar. Það sé því ekki ósanngjarnt fyrir stefnda að byggja á efni veðskuldabréfsins.

                iv) Stefndi hafnar því að skilyrði 33. eða 36. gr. samningalaga séu uppfyllt og telur fjarri, að það sé óheiðarlegt eða bersýnilega ósanngjarnt af hálfu stefnda að byggja á efni veðskuldabréfsins. Stefndi hafnar því einnig að 38. gr. samningalaga hafi einhver áhrif á gildi veðsetningar fasteignar stefnanda. Þá hafnar stefndi því að viðskiptahættir stefnda hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þá sé tilvísun stefnda, um að stefndi hafi brotið gegn skyldu sinni að starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, sbr.  4. og 6. gr. þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, órökstudd.

                Til stuðnings varakröfu sinni telur stefndi að veðsetningin á fasteign stefnanda sé a.m.k. gild að því leyti sem hún nemi uppgreiðslu á þeim skuldum sem hvíldu á fasteign stefnanda og voru greiddar upp með útgáfu hins umþrætta veðskuldabréfs nr. 394813565. Við sanngirnismat samkvæmt ógildingarreglum samningaréttar verði að taka tillit til þess að stefnandi hafi haft hag af uppgreiðslufjárhæðinni við lánveitinguna og því sé ekki ósanngjarnt af stefnda að bera veðskuldabréfið fyrir sig að því leyti sem lánsfjárhæðin var nýtt til uppgreiðslu skulda sem þegar hvíldu á fasteign stefnanda.

                                                                                     IV.

                                                                              Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um gildi veðsetningar skuldabréfs nr.  0371-74-013565, á fasteign stefnanda að Blikanesi 26 í Garðabæ að fjárhæð 4.150.000 krónur, sem gefið var út af dóttur stefnanda þann 15. desember 2004. Stefnandi veitti samþykki sitt fyrir því að fasteign hans yrði sett að veði til tryggingar fyrrgreindri kröfu. Óumdeilt er í málinu að meginhluta fjárhæðar þeirrar sem til útborgunar kom samkvæmt skuldabréfinu var ráðstafað til uppgreiðslu á tveimur skuldabréfum, útgefnum 21. maí 1992 og 6. október 1997, sem þegar hvíldu á fyrrgreindri fasteign stefnanda.

                Stefnandi krefst ógildingar veðsetningarinnar einkum með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og þess að forveri stefnda hafi ekki sinnt þeim skyldum sem á honum hvíldu samkvæmt þágildandi 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 4. og 6. gr. þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti. Í því sambandi er því haldið fram að forveri stefnda hafi ekki sinnt þeim skyldum sem á honum hvíldu á grundvelli „Samkomulag[s] um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga“ frá 1. nóvember 2001, en samkomulag þetta er undirritað af viðskiptaráðherra, Sambandi íslenskra sparisjóða, Samtökum banka og verðbréfasjóða og Neytendasamtökunum. Áður giltu svipaðar reglur um þetta efni frá 27. janúar 1998, en aðilar að því samkomulagi voru þó ekki að öllu leyti þeir sömu.

                Óumdeilt er að forveri stefnda hafi ekki framkvæmt greiðslumat við útgáfu skuldabréfsins. Það er því ljóst að stefnanda voru ekki kynntar reglur samkomulagsins áður en hann samþykkti að veita veð í fasteign sinni á árinu 2004.

                Samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 má víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta eða breyta ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við sanngirnismatið skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Óumdeilt er að stærstum hluta útgreiddrar lánsfjárhæðar samkvæmt skuldabréfinu (sem var 4.056,825 krónur), eða 3.590.764 krónum, var varið til uppgreiðslu á tveimur veðskuldabréfum, útgefnum af dóttur stefnanda á árunum 1992 og 1997, sem þegar hvíldu á fasteign stefnanda. Af þessu er ljóst að ekki var verið að stofna til nýrra skulda með lánveitingu forvera stefnda til dóttur stefnanda á árinu 2004, nema að óverulegu leyti. Því verður ekki talið að ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936 veiti stoð fyrir því að taka stefnukröfurnar til greina. Af sömu ástæðum verður hvorki séð að fyrrgreint samkomulag frá 1. nóvember 2001 né 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki eða 4. og 6. gr. þágildandi laga nr. 33/2003 veiti stoð fyrir stefnukröfum máls þessa.

                Með vísan til þessa ber að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda í máli þessu.

                Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ber stefnanda að greiða stefnda 500.000 krónur í málskostnað.

                Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

                                                                    DÓMSORÐ:

Stefndi, Arion banki hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Franz Jezorski, í máli þessu.

Stefnanda ber að greiða stefnda 500.000 krónur í málskostnað.