Hæstiréttur íslands
Mál nr. 14/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Lánssamningur
- Gengistrygging
|
|
Mánudaginn 20. janúar 2014. |
|
Nr. 14/2014. |
Nýherji hf. (Tómas Jónsson hrl.) gegn ALMC hf. (Bjarki H. Diego hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Lánssamningur. Gengistrygging.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi um viðurkenningu kröfu A hf. við gjaldþrotaskipti á þrotabúi R ehf. sem N hf. hafði mótmælt við skiptin. Í málinu krafðist A hf. þess að viðurkennd yrði krafa hans samkvæmt lánssamningi ásamt síðari viðaukum, svo og krafa hans um dráttarvexti samkvæmt samningnum. Krafa A hf. var tekin til greina en ekki var tekin afstaða til stöðu einstakra þátta kröfunnar í réttindaröð við skiptin, sökum þess að A hf. hafði við munnlegan flutning málsins í héraði fallið frá kröfum er lutu að rétthæð kröfu hans.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. desember 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. janúar 2014. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. desember 2013, þar sem leyst var úr ágreiningi um viðurkenningu kröfu varnaraðila við skipti á þrotabúi Roku ehf. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að við gjaldþrotaskiptin verði krafa varnaraðila viðurkennd aðallega með fjárhæðinni 183.188.811 krónur, en til vara 188.989.796 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og nánar greinir í úrskurði héraðsdóms krefst varnaraðili þess að við gjaldþrotaskipti á búi Roku ehf. verði viðurkennd annars vegar krafa sín samkvæmt lánssamningi 1. ágúst 2005 ásamt síðari viðaukum með nánar tilteknum fjárhæðum í erlendum gjaldmiðlum, sem hann kveður svara til 256.910.175 króna miðað við skráð gengi á þeim degi sem úrskurður gekk um að taka bú félagsins til gjaldþrotaskipta, og hins vegar krafa um dráttarvexti á grundvelli ákvæðis í samningnum frá „úrskurðardegi til uppgjörsdags“, svo sem komist var að orði í greinargerð varnaraðila í héraði. Í þeirri greinargerð var þess krafist að fyrrnefnda krafan fengi notið stöðu í réttindaröð við gjaldþrotaskiptin samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, en sú síðarnefnda samkvæmt 114. gr. sömu laga. Við munnlegan flutning málsins í héraði féll varnaraðili frá kröfum, sem lutu að rétthæð kröfu hans, án þess að sú ráðstöfun hafi verið skýrð frekar í bókun um þetta í þingbók. Að þessu virtu verður að skilja niðurstöðu hins kærða úrskurðar á þann veg að hún feli ekki í sér afstöðu til rétthæðar einstakra þátta í kröfu varnaraðila. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Nýherji hf., greiði varnaraðila, ALMC hf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. desember 2013.
Með bréfi skiptastjóra, sem móttekið var hjá Héraðsdómi Reykjaness 21. júní 2013, var ágreiningi aðila við skipti skotið til héraðsdóms til úrlausnar, sbr. 171. gr., sbr. 120. gr., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var þingfest 9. júlí 2013 og tekið til úrskurðar 28. nóvember sl. Sóknaraðili er ALMC hf., Borgartúni 25, Reykjavík, en varnaraðili er Nýherji hf., Borgartúni 37, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að við gjaldþrotaskipti þrotabús Roku ehf. verði viðurkennd krafa sóknaraðila samkvæmt lánssamningi, dags. 1. ágúst 2005, ásamt síðari skilmálabreytingum lánssamningsins, samtals að fjárhæð CHF 125.710,56, DKK 630.234,44, NOK 674.079.03, SEK 783.223,32, JPY 10.746.029, GBP 115.926,21, EUR 665.088,36 og USD 490.764,92, sem jafngildir samtals 256.910.175 krónum, miðað við sölugengi Seðlabanka Íslands á úrskurðardegi. Þá er krafist dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. í lánssamningi Burðaráss hf. (nú ALMC hf.) og Tölvumynda hf. (nú þrotabú Roku ehf.) af kröfunni frá úrskurðardegi til uppgjörsdags.
Til vara er krafist lægri fjárhæðar, samningsvaxta og dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Þá gerir sóknaraðili kröfu um að sér verði dæmdur málskostnaður úr hendi varnaraðila. Varnaraðili krefst þess aðallega að krafa sóknaraðila við gjaldþrotaskipti á búi Roku ehf. verði að hámarki samþykkt að fjárhæð 183.188.811 króna en til vara að hámarki 188.989.796 krónur. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
II.
Bú Roku ehf. (áður TM Software ehf.) var tekið til gjaldþrotaskipta 17. mars 2010 að kröfu Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf. (nú ALMC hf.). Kröfulýsingarfresti lauk 20. júlí 2010. Á skiptafundi 19. ágúst 2010 gerði skiptastjóri grein fyrir afstöðu sinni til lýstra krafna en meðal þeirra var krafa sóknaraðila sem skiptastjóri leit á að væri krafa um skuldbindingu í íslenskum krónum sem óheimilt væri að verðtryggja miðað við gengi erlendra gjaldmiðla. Lögmaður sóknaraðila lýsti yfir mótmælum gegn afstöðu skiptastjóra. Nokkrir ágreiningsfundir voru haldnir og á fundi 16. maí 2013 ákvað skiptastjóri að breyta afstöðu sinni og viðurkenna kröfuna í þrotabúið eins og henni var lýst, þ.e. samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 256.910.175 krónur. Á skiptafundi 14. júní 2013 mótmælti lögmaður varnaraðila þessari ákvörðun skiptastjóra og taldi að krafan væri um skuldbindingu í íslenskum krónum sem óheimilt væri að verðtryggja miðað við gengi erlendra gjaldmiðla. Ágreiningur aðila í málinu snýst um þetta.
Þann 15. september 2005 samþykktu hluthafafundir Straums Fjárfestingarbanka hf. og Burðaráss hf. samruna félaganna á grundvelli skiptingar- og samrunaáætlunar sem birt var í Lögbirtingablaðinu þann 5. ágúst 2005. Í kjölfar samruna áðurgreindra félaga tók Straumur Fjárfestingarbanki hf. síðan yfir réttindi og skyldur Burðaráss hf., þ.m.t. réttindi og skyldur samkvæmt lánssamningnum. Nafni Straums Fjárfestingarbanka hf. var síðan breytt í ALMC hf. í kjölfar nauðasamnings sem staðfestur var fyrir sóknaraðila í júlí 2010.
Krafa sóknaraðila er samkvæmt lánssamningi, dags. 1. ágúst 2005, á milli Burðaráss hf. (nú ALMC hf.) og Tölvumynda hf. (nú þrotabú Roku hf.), ásamt síðari skilmálabreytingum við lánssamninginn, dags. 1. apríl og 1. október 2008. Í 1. gr. lánssamningsins segir:
„Lánveitandi lánar lántaka kr. 140.956.798 sem ráðstafast sem uppgreiðsla á eldri lánum. Lánið er veitt í eftirfarnandi hlutföllum og myntum sem miðast við lokagengi Seðlabankans 29. júlí 2005.
|
Tegund myntar |
Upphæð í mynt |
|
Bandarískir dollarar (USD) |
543.815 |
|
Evrur (EUR) |
718.984 |
|
Bresk pund (GBP) |
123.831 |
|
Japönsk jen (JPY) |
12.216.744 |
|
Sænskar krónur (SEK) |
844.660 |
|
Norskar krónur (NOK) |
710.539 |
|
Danskar krónur (DKK) |
670.329 |
|
Svissneskir frankar (CHF) |
140.228“ |
Samkvæmt 2. gr. lánssamningsins skuldbatt lántaki sig til að endurgreiða lánið með fjórum afborgunum, í fyrsta sinn þann 1. apríl 2008 og síðan á sex mánaða fresti eftir það.
Þann 1. apríl 2008 var lánssamningnum breytt með samkomulagi aðila um skilmálabreytingu lánssamningsins, þannig að lántaki skuldbatt sig til að greiða nánar tilgreinda fjárhæð í erlendum myntum þann 1. apríl 2008, auk þess sem lántaki skuldbatt sig til að greiða eftirstöðvar lánsins með þremur jöfnum afborgunum, þann 1. október 2008, 1. apríl 2009 og 1. október 2009. Þann 1. október 2008 var lánssamningnum breytt aftur og nú þannig að eftirstöðvar lánsins skyldu greiðast með þremur jöfnum afborgunum, þann 1. desember 2008, 1. apríl 2009 og 1. október 2009. Auk þess skyldi lántaki setja lánveitanda að handveði 22.000.000 króna til tryggingar efndum lánssamningsins samkvæmt handveðsyfirlýsingu 1. október 2008. Þann 26. mars 2009 var andvirði handveðsins, þá 23.803.820 krónur, með áföllnum innlánsvöxtum, ráðstafað inn á skuld lántaka gagnvart lánveitanda, þar sem gjalddagi þann 1. desember 2008 var í vanskilum. Voru keyptar erlendar myntir fyrir andvirði handveðsins og þeim síðan ráðstafað til innborgunar inn á skuld lántaka gagnvart lánveitanda samkvæmt lánssamningnum. Er tekið tillit til þessarar innborgunar í kröfugerð sóknaraðila.
Þann 3. nóvember 2009 sendi forveri sóknaraðila lántaka tilkynningu um gjaldfellingu lánsins vegna vanefnda á greiðslum og krafðist þess að lántaki greiddi lánið auk áfallandi dráttarvaxta þegar í stað með fullnægjandi hætti. Þar sem lántaki varð ekki við áskorunum sóknaraðila um greiðslu lánsins krafðist sóknaraðili þann 3. desember 2009 kyrrsetningar í eignum lántaka til tryggingar fullnustu krafna sinna samkvæmt lánssamningnum. Þann 14. desember 2009 tók sýslumaðurinn í Kópavogi fyrir kyrrsetningargerð vegna kröfu sóknaraðila sem lokið var án árangurs. Í kjölfar hinnar árangurslausu kyrrsetningar lagði sóknaraðili fram kröfu um gjaldþrotaskipti 1. febrúar 2010 þar sem þess var krafist að bú TM Software ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta með vísan til 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Uppreiknuð krafa sóknaraðila samkvæmt kröfu um gjaldþrotaskipti, að teknu tilliti til vaxta og dráttarvaxta, nam samtals eftirfarandi fjárhæð í svofelldum myntum:
|
Tegund myntar |
Upphæð í mynt |
|
Svissneskir frankar (CHF) |
125.710,56 |
|
Danskar krónur (DKK) |
630.234,44 |
|
Norskar krónur (NOK) |
674.079,03 |
|
Sænskar krónur (SEK) |
783.223,32 |
|
Japönsk jen (JPY) |
10.746,029 |
|
Bresk pund (GBP) |
115.926,21 |
|
Evrur (EUR) |
665.088,36 |
|
Bandarískir dollarar (USD) |
490.764,92 |
II.
Sóknaraðili byggir aðalkröfu sína á því að um lögmætt lán í erlendum myntum sé að ræða og byggir á ákvæðum lánssamningsins og dómafordæmum því til stuðnings. Sóknaraðili byggir á því að efni lánssamningsins, ásamt atvikum að öðru leyti, sýni glögglega að þrotamaður hafi gengist undir fjárskuldbindingu í erlendum myntum gagnvart sóknaraðila. Lánsfjárhæð sé tilgreind í erlendum myntum og vaxtakjör lánssamningsins miðist við Libor-vexti, sbr. 3. mgr. og 4. mgr. 5. gr. lánssamningsins. Öll önnur ákvæði lánssamningsins séu í samræmi við þá staðreynd að lánið hafi verið veitt í erlendum myntum. Þar með verði að telja að skuldbinding þrotamanns samkvæmt lánssamningnum sé með öllu lögmæt, enda engar hömlur lagðar við því að lána í erlendum myntum. Mestu máli skipti við mat á eðli skuldbindingar skuldabréfsins hvernig tilgreining lánsfjárhæðarinnar var háttað, þ.e. hvort hún var tilgreind í erlendum myntum eða eingöngu í hlutföllum hinna erlendu mynta. Ef tilgreind sé fjárhæð í erlendum myntum skipti engu máli þótt vísað sé til jafnvirðis hinna erlendu mynta í íslenskum krónum í lánssamningi eða hvernig aðilar hafa efnt skyldur sínar samkvæmt samningnum. Þannig skipti ekki máli þótt lánsfjárhæð hafi verið greidd til lántaka í íslenskum krónum og lántaki síðan endurgreitt lánið í íslenskum krónum.
Í lánssamningnum sé lánsfjárhæð erlendra mynta skilmerkilega tilgreind í samtals átta gjaldmiðlum. Þá komi fram í lánssamningnum að vaxtakjör í erlendum gjaldmiðlum miðist við Libor-vexti eins og þeir séu ákveðnir fyrir viðkomandi gjaldmiðil og hvert vaxtatímabil hverju sinni auk þess sem tekið sé sérstaklega fram að ef krafist er dráttarvaxta af lánshlutum í erlendri mynt skuli dráttarvextir nema 5% álagi ofan á vaxtaálag, sbr. 9. gr. lánssamningsins. Vaxtakjör lánshluta í íslenskum krónum miðist hins vegar við Reibor-vexti eins og þeir eru skráðir fyrir viðeigandi vaxtatímabil og um dráttarvexti á lánshlutum í íslenskum krónum fari samkvæmt ákvæðum vaxtalaga nr. 38/2001. Lántaki hafi hins vegar ekki óskað eftir að lánshlutar yrðu í íslenskum krónum, heldur hafi hann þvert á móti óskað eftir að lánshlutar væru í hinum tilgreindu erlendu myntum. Fari því ekki á milli mála að vilji bæði sóknaraðila og þrotamanns hafi frá öndverðu staðið til þess að haga skuldbindingum þannig að lánið yrði veitt í þeim erlendu myntum sem lánssamningurinn tilgreini.
Sjá megi af dómskjölum að lántaki hafi við hverja afborgun samkvæmt lánssamningnum efnt aðalskyldu sína um endurgreiðslu lánsins í erlendum gjaldmiðlum. Leiði sú staðreynd, auk efnis lánssamningsins sem skilmerkilega tilgreini fjárhæðir erlendra mynta, til þess að leggja verði til grundvallar að skuldbinding þrotamanns hafi verið í erlendum myntum sem og að þrotamaður hafi efnt aðalskyldu sína um endurgreiðslu lánsins í erlendum myntum.
Sóknaraðili byggir á því að ef dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að um lögmætt lán í erlendum myntum sé að ræða beri að viðurkenna aðalkröfu hans eins og henni er lýst í kröfu um gjaldþrotaskipti, enda hafi útreikningi sóknaraðila samkvæmt aðalkröfu hans ekki verið mótmælt eða hnekkt.
Fari svo að ekki verði fallist á aðalkröfu sóknaraðila er til vara krafist lægri fjárhæðar auk samningsvaxta og dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Sóknaraðili byggir aðallega á ákvæðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá vísar sóknaraðili einnig til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, þ. á m. reglna um skuldbindingargildi samninga og samningsfrelsi og til dóma Hæstaréttar þar sem leyst hefur verið úr ágreiningi um hvort fjárskuldbinding teljist í erlendum myntum eða íslenskum krónum, bundnum við gengi erlendra gjaldmiðla, aðallega dóma Hæstaréttar í málum nr. 524/2011 og 50/2012 en einnig dóma Hæstaréttar í málum nr. 3/2012 og 66/2012. Sóknaraðili byggir málskostnaðarkröfu sína á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
III.
Dómkrafa varnaraðila um verulega lækkun kröfunnar er á því reist að samningurinn hafi verið um lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Slík gengistrygging sé ólögmæt samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu en verðtrygging skuldbindinga í íslenskum krónum sé aðeins heimil á þann hátt sem segir í 14. gr. laganna. Fjárhæð kröfu sóknaraðila á hendur þrotabúi Roku ehf. sé þess vegna til muna lægri.
Samningurinn beri ekki annað heiti en „lánasamningur“. Engin tilvísun sé því í heiti samningsins til erlendra gjaldmiðla. Hefði það verið ætlun sóknaraðila að veita lán í erlendum gjaldmiðlum, og vilji aðila staðið til þess, hefði verið rétt að taka það fram í fyrirsögn lánssamningsins. Það hafi ekki verið gert. Aftur á móti séu íslenskar krónur fyrstar tilgreindar sem gjaldmiðill í samningnum og megi jafna því til þess að það sé fyrirsögn samningsins.
Í 1. gr. samningsins segi að sóknaraðili (þá Burðarás hf.) láni Tölvumyndum hf. (nú þb. Roka ehf.) 140.956.798 íslenskar krónur sem verði ráðstafað til uppgreiðslu á eldri lánum. Þá segi ennfremur að lánið sé veitt í ákveðnum hlutföllum og myntum sem miðist við lokagengi Seðlabankans 29. júlí 2005. Að mati varnaraðila hafi verið óþarft að fjalla um gengisviðmiðun hefði lánið verið í erlendum gjaldmiðlum. Fjárhæðir hinna erlendu gjaldmiðla, sem þar séu tilgreindar, séu ekki annað en umreikningur á hlutfalli lánsfjárhæðarinnar í íslenskum krónum yfir í erlenda gjaldmiðla samkvæmt umsömdu viðmiðunargengi 29. júlí 2005. Ástæðulaust hefði verið að tilgreina viðmiðunargengi ákveðins dags og hlutfall af lánsfjárhæðinni í íslenskum krónum hefði lánið verið veitt í erlendum gjaldmiðlum. Viðmiðunargengið hafi aftur á móti verið nauðsynlegt til gengistryggingar sem hafi verið eini tilgangur þess. Ljóst sé því að lánið hafi verið veitt í íslenskum krónum en bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.
Í 5. gr. samningsins sé fjallað um vexti. Þar segi að „vaxtakjör lánshluta í íslenskum krónum“ miðist við „Reibor-vexti“, þ.e. millibankavexti í íslenskum krónum. Óskiljanlegt sé hvers vegna fjallað sé um vexti ofan á íslenskar krónur ef lánið var veitt í erlendum gjaldmiðlum svo sem sóknaraðili heldur fram. Varnaraðili byggir á því að þetta ákvæði sé í öllu falli í ósamræmi við þann málatilbúnað sóknaraðila. Það komi aftur á móti heim og saman við þá staðreynd að lánið var gengistryggt þar sem lánshlutar báru mismunandi vexti eftir því við hvaða myntir þeir miðuðust hverju sinni.
Í 6. gr. lánssamningsins sé kveðið á um myntbreytingarheimild. Þar segi að „lántaka sé heimilt að óska eftir myntbreytingu [lánsins] á vaxtagjalddögum, þannig að eftirstöðvar lánsins miðast við aðra erlenda mynt, eina eða fleiri, frá og með upphafi næsta vaxtatímabili.“ Tilgangur þessa ákvæðis sé bersýnilega að gengistryggja lán í íslenskum krónum. Tekið sé fram að eftirstöðvar skuldarinnar „miðist við“ aðra erlenda mynt, eina eða fleiri, eftir myntbreytingu. Óskiljanlegt sé hvers vegna þörf sé á að skuld samkvæmt lánssamningi miðist við ákveðna gjaldmiðla ef lán hefur verið veitt í þeim gjaldmiðlum í raun. Hefði lánið verið í erlendum gjaldmiðlum hefði heimildarákvæði um myntbreytingu ekki kveðið á um breytingu á viðmiðum heldur sölu þess gjaldmiðils sem var lánaður og kaup annars. Í greininni sé jafnframt útfært með hvaða hætti skuli staðið að málum komi til myntbreytingar. Þar segi m.a.: „Við myntbreytingu skal við umreikning nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt er að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skal miða við, samkvæmt síðustu gengisskráningu Seðlabanka Íslands ...“ Staðfesti þetta orðalag að höfuðstóll lánsins sé ávallt hugsaður í íslenskum krónum sem breytist í takt við gengi ákveðinna gjaldmiðla gagnvart íslenskri krónu.
Jafnframt leiði framkvæmd lánssamningsins í ljós ólögmæta gengistryggingu lánsins. Svo sem fram komi í 1. gr. lánssamningsins hafi láninu verið varið til uppgreiðslu á eldri lánum. Varnaraðili byggir á því að hin eldri lán hafi verið í íslenskum krónum og því hafi hið gjaldþrota félag enga þörf haft fyrir lán í erlendum gjaldmiðlum. Varnaraðili mótmælir því að vilji sóknaraðila og fyrirsvarsmanna Roku ehf. hafi staðið til þess að lánið yrði veitt í erlendum gjaldmiðlum. Lánið hafi verið greitt út og að sama skapi veitt í íslenskum krónum. Fé í erlendum gjaldmiðlum hafi heldur aldrei skipt um hendur í reynd heldur aðeins við gengi þeirra miðað. Í bókhaldi Roku ehf. hafi lánið ávallt verið fært í íslenskum krónum og hækkað og lækkað eftir breytingum á gengi þeirra gjaldmiðla sem það miðaðist við. Roka ehf. hafi jafnframt greitt af láninu í íslenskum krónum með úttekt af tékkareikningi sínum í íslenskum krónum. Roku ehf. hafi ekkert varðað um ætluð gjaldeyrisviðskipti sóknaraðila í kjölfar greiðslna sem allar fóru fram í íslenskum krónum af hálfu Roku ehf. Félagið hafi ekki heldur óskað eftir umræddum gjaldeyrisviðskiptum. Tilkynning sóknaraðila 27. mars 2009 til Roku ehf. hafi heldur enga þýðingu. Um sé að ræða einhliða tilkynningu sóknaraðila um ætluð gjaldeyrisviðskipti með innistæðu Roku ehf. í íslenskum krónum sem sett hafi verið til tryggingar efndum samningsins. Sömu sögu sé að segja um aðrar kvittanir sem sóknaraðili hafi lagt fram í málinu.
Ofangreind atriði í lánssamningnum og við framkvæmd hans varpi skýru ljósi á þá staðreynd að skuldbinding hins gjaldþrota félags var í íslenskum krónum en ekki erlendum gjaldmiðlum. Sé þess vegna hafið yfir allan vafa að lánið var bundið við gengi erlendra gjaldmiðla en slík verðtrygging sé ólögmæt svo sem að framan sé rakið.
Varnaraðili byggir jafnframt á því að samkomulag um skilmálabreytingu samningsins, annars vegar dagsett 1. apríl 2008 og hins vegar 1. október 2008, hafi ekkert gildi að því er gengistryggingu lánsins varðar. Sóknaraðili hafi ekki getað breytt eðli skuldbindingar Roku ehf. með skilmálabreytingum einum saman og þannig barið í brestina eftir á.
Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 13. gr. og 14. gr. laganna, sem og almennra reglna kröfuréttarins. Krafa varnaraðila um málskostnað byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. laganna.
IV.
Deilt er um í málinu hvort lánssamningur Burðaráss hf. (nú ALMC) og Tölvumynda hf. (nú þrotabú Roku ehf.), dags. 1. ágúst 2005, hafi verið skuldbinding í erlendri mynt eða hvort lánið hafi verið í íslenskum krónum, bundið gengi erlendra gjaldmiðla, en slík skuldbinding fer í bága við ófrávíkjanlegar reglur 13. gr. og 14. gr., sbr. 2. gr., laga nr. 38/2001, sbr. og dómaframkvæmd. Við úrlausn þess hvort um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum er að ræða eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum verður að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar hinni umdeildu skuldbindingu.
Í 1. gr. lánssamningsins segir að lánveitandi láni lántakanda 140.956.798 krónur sem ráðstafist til uppgreiðslu á eldri lánum. Síðan segir að lánið sé veitt í nánar tilgreindum átta myntum og í ákveðnum hlutföllum. Þetta ákvæði samningsins, um að lánið sé veitt í nánar tilgreindum myntum, bendir til að samið hafi verið um lán í erlendum myntum og að tilgreining fjárhæðar í íslenskum krónum sé einungis viðmiðunarfjárhæð. Afborganir af láninu og vaxtagreiðslur fóru þannig fram að lántaki keypti gjaldeyri og greiddi með honum inn á skuldina. Erlend mynt skipti því um hendur að þessu leyti í viðskiptum aðila. Í samkomulagi um skilmálabreytingu lánssamningsins 1. apríl 2008 og 1. október 2008 er höfuðstóll lánsins eingöngu sagður vera í erlendum myntum en ekki íslenskum krónum. Þá er einnig til þess að líta að samkvæmt 6. gr. lánssamningsins var lántaka heimilt að óska eftir myntbreytingu lánsins þannig að eftirstöðvar lánsins miðuðust við aðra erlenda mynt eða yrði breytt í íslenskar krónur. Hefði ekki verið þörf á að kveða á um það í samningi aðila ef lánið var í íslenskum krónum. Loks er að líta til þess að í 5. gr. lánssamningsins er kveðið á um að vaxtakjör lánshlutans í íslenskum krónum miðist við Reibor-vexti en vaxtakjör í erlendum gjaldmiðli miðist við Libor-vexti. Er þetta ákvæði í samræmi við 6. gr. samningsins þar sem gert er ráð fyrir að lántaki geti breytt láninu í íslenskar krónur að einhverju eða öllu leyti. Ákvæði 5. gr. um Libor-vexti benda til þess að lánið sé í erlendri mynt.
Allt framangreint bendir eindregið til þess að skuldbindingin hafi verið í erlendri mynt og það hafi verið vilji lánveitanda og lántaka í upphafi að haga skuldbindingunni þannig að lánið yrði veitt í erlendum gjaldmiðlum.
Ekki er hald í þeirri viðbáru varnaraðila að þess sé ekki getið á forsíðu lánssamningsins eða fyrirsögn hans að lánið sé í erlendum gjaldmiðlum. Þá verður ekki fallist á með varnaraðila að fjárhæð hinna erlendu gjaldmiðla sé umreikningur á hlutfalli lánsfjárhæðar í íslenskum krónum. Engu máli skiptir þó að lánið hafi í bókhaldi Roku ehf. ávallt verið fært í íslenskum krónum. Breytir heldur engu þótt eldra lán, sem greitt var upp með hinu nýja láni, hafi verið í íslenskum krónum.
Samkvæmt framansögðu verður að öllu leyti fallist á kröfur sóknaraðila í málinu eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Eftir þessum úrslitum verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur og hefur þá ekki verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Við gjaldþrotaskipti á þrotabúi Roku ehf. er viðurkennd krafa sóknaraðila samkvæmt lánssamningi, dags. 1. ágúst 2005, ásamt síðari skilmálabreytingum lánssamningsins, samtals að fjárhæð CHF 125.710,56, DKK 630.234,44, NOK 674.079.03, SEK 783.223,32, JPY 10.746.029, GBP 115.926,21, EUR 665.088,36 og USD 490.764,92, sem jafngildir samtals 256.910.175 krónum, miðað við sölugengi Seðlabanka Íslands á úrskurðardegi. Ennfremur er viðurkennd krafa sóknaraðila um dráttarvexti samkvæmt 9. gr. framangreinds lánssamnings af kröfunni frá úrskurðardegi til uppgjörsdags.
Varnaraðili, Nýherji ehf., greiði sóknaraðila, ALMC hf., 300.000 krónur í málskostnað.