Hæstiréttur íslands
Mál nr. 243/2013
Lykilorð
- Börn
- Faðerni
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 31. október 2013. |
|
Nr. 243/2013.
|
M (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl. málsvari) gegn A (Þyrí Steingrímsdóttir hrl.) |
Börn. Faðerni. Vanreifun. Frávísun frá héraðsdómi.
A krafðist þess að viðurkennt yrði að M væri faðir sinn og að honum yrði gert að greiða einfalt meðlag með A á mánuði til 18 ára aldurs. Í dómi Hæstaréttar kom fram að við höfðun málsins hefði allur málatilbúnaður A verið reistur á því að fram færi mannerfðafræðileg rannsókn á grundvelli 15. gr. barnalaga nr. 76/2003 og að í því tilliti hefði málatilbúnaður A verið fullnægjandi. Með því að A hefði hins vegar ekki haldið þeirri kröfu til streitu skorti með öllu að málið væri reifað og stutt sönnunargögnum þannig að dómur yrði á það lagður á öðrum grundvelli. Var því talið óhjákvæmilegt að vísa málinu frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. apríl 2013. Hann krefst þess „að kröfum stefnda verði hafnað.“ Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti sem greiðist úr ríkissjóði.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti sem greiðist úr ríkissjóði.
I
Stefndi reisir kröfu sína um frávísun málsins frá Hæstarétti á því að málsvari áfrýjanda samkvæmt 13. gr. barnalaga nr. 76/2003 hafi ekki verið bær til að áfrýja héraðsdómi, enda komi fram í lögskýringargögnum að málsvari hafi ekki heimild til að skuldbinda þann sem hann gæti hagsmuna fyrir. Málsvari samkvæmt 13. gr. barnalaga hefur það hlutverk í máli til feðrunar barns að gæta hagsmuna stefnda, sem ekki sækir þar þing. Í því felst að hann getur haft uppi varnir og gert þær athugasemdir sem við eiga eftir atvikum hverju sinni. Með því að áfrýja héraðsdómi í þessu máli leitar áfrýjandi eftir því að verða leystur undan þeirri skuldbindingu sem í dóminum fólst, en sú ráðstöfun bakar honum engar skuldbindingar sem málsvari er ekki fær um að taka ákvörðun um.
Í annan stað er krafa um frávísun reist á því að áfrýjandi hafi ekki sótt þing í héraði og því verði dómi ekki skotið til Hæstaréttar nema með gagnáfrýjun þegar stefnandi í héraði hafi áfrýjað fyrir sitt leyti, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þess í stað hafi áfrýjanda verið kleift að krefjast endurupptöku málsins eftir reglum XXIII. kafla sömu laga. Eftir að héraðsdómur skipaði áfrýjanda málsvara samkvæmt 13. gr. barnalaga var sótt þing af hans hálfu og var dómur ekki felldur á málið í héraði eftir reglum 96. gr. laga nr. 91/1991. Ákvæði 4. mgr. þeirrar lagagreinar stóð því ekki áfrýjun dómsins í vegi.
Samkvæmt framansögðu er hafnað kröfu stefnda um að máli þessu verði vísað frá Hæstarétti.
II
Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi er áfrýjandi portúgalskur ríkisborgari sem var um skeið búsettur hér á landi. Hann mun hafa flust héðan en ekki er vitað í hvaða landi hann er búsettur. Ekki tókst að birta fyrir honum stefnu í Portúgal eftir reglum Haag-samnings um birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum og var stefnan því birt í Lögbirtingablaði samkvæmt heimild í 89. gr. laga nr. 91/1991.
Í héraðsdómsstefnu gerði stefndi þá kröfu að dómari úrskurðaði að málsaðilar og móðir stefnda gengjust öll undir blóðrannsókn og aðra sérfræðilega könnun, þar á meðal mannerfðafræðilegar rannsóknir, sbr. 15. gr. barnalaga. Frá þessu virðist stefndi á hinn bóginn hafa fallið.
Samkvæmt 17. gr. barnalaga skal maður talinn faðir barns ef niðurstaða mannerfðafræðilegra rannsókna benda eindregið til þess. Af þessu verður þó ekki ályktað að maður verði því aðeins dæmdur faðir barns að slíkar rannsóknir liggi fyrir, enda getur niðurstaða faðernismáls byggst á öðrum sönnunargögnum eftir almennum reglum, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 26. mars 2013 í máli nr. 618/2012. Að því verður hins vegar að gæta að við höfðun málsins var allur málatilbúnaður stefnda reistur á því að fram færi rannsókn á grundvelli 15. gr. barnalaga og í því tilliti var málatilbúnaðurinn fullnægjandi. Með því að stefndi hélt þeirri kröfu sinni ekki til streitu skortir með öllu að málið sé reifað og stutt sönnunargögnum með því móti að dómur verði á það lagður á öðrum grundvelli. Samkvæmt þessu er óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun málsvara áfrýjanda og lögmanns stefnda, sbr. 11. og 13. gr. barnalaga, sem ákveðin er í einu lagi handa hvorum um sig eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun málsvara áfrýjanda, M, 150.000 krónur, og lögmanns stefnda, A, 250.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 6. febrúar sl., var höfðað með stefnu birtri 5. nóvember 2012 í Lögbirtingablaði af B, kt. [...], [...], Reykjavík, fyrir hönd ólögráða sonar sín, A, kt. [...], til heimilis á sama stað, á hendur M, kt. [...] , með ókunnugt heimilisfang í Portúgal.
Stefnandi krefst þess að dæmt verði að stefndi sé faðir stefnanda, A. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða einfalt meðlag með stefnanda frá fæðingu til 18 ára aldurs stefnanda. Einnig er þess krafist að þóknun lögmanns stefnanda, sem og annar málskostnaður, verði greidd úr ríkissjóði.
Stefndi sótti ekki þing við þingfestingu málsins 6. desember 2012. Aðstoðarmaður dómara boðaði til þinghalds 16. janúar sl. og var Hulda Rós Rúriksdóttir hrl. þá skipuð málsvari stefnda. Málinu var þá frestað til 6. febrúar sl. Málið var tekið fyrir þann dag og upplýsti málsvari stefnda að samkvæmt upplýsingum frá ræðismanni Portúgals á Íslandi væri ekki unnt að hafa uppi á stefnda í Portúgal. Var málið að því búnu dómtekið.
Málavextir
Stefnandi lýsir málavöxtum á þá leið að móðir hans og stefndi hafi átt í sambandi frá því snemma vors 2008 fram til sumarloka sama ár eða á getnaðartíma stefnanda. Samkvæmt fæðingarskýrslu sé stefndi lýstur faðir stefnanda en hann hafi ekki viðurkennt faðerni. Stefndi sé portúgalskur ríkisborgari og hafi búið um tíma á Íslandi en sé nú fluttur af landi brott. Móðir stefnanda hafi ekki átt í sambandi við aðra menn á hugsanlegum getnaðartíma og því komi enginn annar til greina sem faðir stefnanda en stefndi.
Hinn 27. mars 2009 hafi móðir stefnanda lagt fram beiðni hjá Sýslumanninum í Reykjavík um öflun faðernisviðurkenningar og til greiðslu framfærslueyris hjá stefnda. Stefnda hafi verið sent bréf af hálfu embættisins 15. apríl 2009, móttekið af stefnda þann 21. sama mánaðar, þar sem stefnda hafi verið kynnt beiðnin og afstöðu óskað. Stefndi hafi ekki látið málið til sín taka og hafi málinu verið vísað frá embættinu með bréfi 12. ágúst 2009.
Í ljósi ofangreinds og þar sem stefndi hafi hvorki viðurkennt að vera faðir stefnanda né undirgengist blóðerfðafræðilegar rannsóknir sé móður stefnanda og forsjáraðila nauðsynlegt að höfða þetta mál fyrir hans hönd.
Reynt hafi verið að birta stefnu á eina hugsanlega heimilisfangi stefnda í Portúgal en ekki tekist. Skýring þarlendra yfirvalda hafi verið að heimilisfang stefnda væri ófullnægjandi. Móður stefnanda sé ekki kunnugt um annað hugsanlegt heimilisfang eða búsetu stefnda. Allar tilraunir til að hafa uppi á stefnda hafi verið án árangurs.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi rekur að málið sé höfðað á grundvelli II. kafla barnalaga nr. 76/2003. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. barnalaga nr. 76/2003 skuli stefnt þeim mönnum eða manni sem séu taldir hafa haft samfarir við móður á getnaðartíma barns. Móðir stefnanda og stefndi hafi átt í kynferðissambandi á getnaðartíma stefnda vorið 2008. Móðir stefnanda fullyrði að enginn annar en stefndi komi til greina sem faðir stefnanda.
Beiðni móður stefnanda um öflun faðernisviðurkenningar og framfærslueyris hjá stefnanda hafi verið vísað frá Sýslumanninum í Reykjavík. Þá hafi stefndi ekki látið málið til sín taka. Móðir stefnanda telji sig ekki eiga annarra kosta völ en að höfða faðernismál til að fá viðurkennt með dómi að stefndi sé faðir stefnanda.
Reynt hafi verið að birta stefnu þessa fyrir stefnda í Portúgal samkvæmt reglum Haag-samnings um birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum. Þar sem slík birting hafi ekki tekist sé stefnan birt í Lögbirtingablaði með vísan til a og b-liða 1. mgr. 89. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Ákvæði 90. gr. laga nr. 91/1991 gildi þegar vitað sé um lögheimili stefnda. Sé heimilisfang rétt en aðili búi ekki þar lengur, sé fluttur eða ekki sé vitað um hann gildi reglur laga nr. 91/1991 fullum fetum. Það sé því heimilt að birta stefnu samkvæmt a- lið 1. mgr. 89. gr. þegar upplýsinga verði ekki aflað um hvar megi birta stefnuna eftir almennum reglum. Samkvæmt bréfi miðstjórnvaldsins í Portúgal sem samkvæmt 2. gr. Haag-samningsins taki afstöðu til birtra dómskjala og hvort þau fullnægi skilyrðum Haag-samningsins, hafi uppgefið heimilisfang í stefnunni verið ófullnægjandi. Stefnandi hafi ekki aðrar upplýsingar um heimilisfang stefnda.
Krafa um meðlag byggist á 6. mgr. 57. gr. barnalaga. Krafa um málskostnað sé reist á 11. gr. barnalaga. Málið sé höfðað á heimilisvarnarþingi stefnanda með vísan til 1. mgr. 9. gr. barnalaga.
Niðurstaða
Fyrir liggur að stefndi er búsettur í Portúgal. Samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að birta stefnu í Portúgal eftir lögum þess ríkis og þjóðréttarsamningi. Bæði Ísland og Portúgal eru aðilar að Haag-samningi frá 15. nóvember 1965 um birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum. Samkvæmt 1. gr. samningsins gildir hann ekki þegar heimilisfang viðtakanda er óþekkt. Þá liggur fyrir að stefnubirting tókst ekki þar sem heimilisfang stefnda reyndist vera ófullnægjandi. Fram kom hjá málsvara stefnda við fyrirtöku málsins 6. febrúar sl. að hún hafi leitað til ræðismanns Portúgals á Íslandi og hafi verið tjáð að ekki væri möguleiki að hafa uppi á stefnda í Portúgal. Þar sem heimilisfang stefnda er óþekkt og portúgölsk yfirvöld geta ekki orðið við því að hafa uppi á honum þar í landi verður að telja að heimilt hafi verið að birta stefnu málsins í Lögbirtingablaði, sbr. b-lið 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991.
Samkvæmt því sem fram kemur í stefnu áttu móðir stefnanda og stefndi í sambandi á þeim tíma þegar getnaður átti sér stað. Móðir stefnanda hafi ekki átt í sambandi við aðra menn á hugsanlegum getnaðartíma og því komi enginn annar til greina sem faðir stefnanda en stefndi. Samkvæmt gögnum málsins leitaði móðir stefnanda til Sýslumannsins í Reykjavík 27. mars 2009 til að afla faðernisviðurkenningar frá stefnda. Af hálfu stefnanda var fallið frá kröfu um að aðilar málsins gengjust undir mannerfðafræðilegar rannsóknir til að staðreyna faðerni stefnanda. Með vísan til málatilbúnaðar stefnanda um að engir aðrir menn komi til greina sem faðir stefnanda verður krafa stefnanda um að stefndi sé faðir hans tekin til greina.
Þess er krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða einfalt meðlag með stefnanda frá fæðingu hans til 18 ára aldurs stefnanda. Með vísan til 6., sbr. 3. mgr., 57. gr. barnalaga nr. 76/2003 ber að dæma stefnda til greiðslu einfalds meðlags með stefnanda. Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 57. gr. barnalaga verður meðlag þó ekki ákvarðað lengra aftur í tímann en eitt ár frá því að krafa var sett fram nema alveg sérstakar ástæður leiði til þess. Krafa um meðlag var sett fram með birtingu stefnu 5. nóvember 2012 og verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda meðlag frá 5. nóvember 2011.
Málskostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 11. gr. barnalaga, þar á meðal málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Þyríar Steingrímsdóttur hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 194.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til skyldu stefnanda að greiða virðisaukaskatt.
Í samræmi við 13. gr. barnalaga er þóknun málsvara stefnda, Huldu Rósar Rúriksdóttur hrl., ákveðin 50.000 krónur sem greiðist úr ríkissjóði.
Ásbjörn Jónasson, aðstoðarmaður dómara, kveður upp þennan dóm.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, M, telst vera faðir stefnanda, A.
Stefndi greiði einfalt meðlag með stefnanda frá 5. nóvember 2011 til fullnaðs 18 ára aldurs hans.
Málskostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hans, Þyríar Steingrímsdóttur hrl., 194.000 krónur.
Þóknun málsvara stefnda, Huldu Rósar Rúriksdóttur, 50.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.