Hæstiréttur íslands

Mál nr. 387/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann


Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. september 2004.

Nr. 387/2004.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Jón Magnússon hrl.)

 

Kærumál. Nálgunarbann.

X var með úrskurði héraðsdóms um nálgunarbann meðal annars bannað að koma á eða í námunda við þrjár tilteknar fasteignir. X undi úrskurði héraðsdóms að öðru leyti en varðaði nálgunarbann vegna tveggja þessara fasteigna. Talið var að L hefði ekki gert sennilegt að ástæða væri til að nálgunarbann næði til þeirra. Var sá hluti úrskurðar héraðsdóms því felldur úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. september 2004. Kærumálsgögn bárust réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2004, þar sem varnaraðila var með nánar tilteknum hætti gert að sæta nálgunarbanni. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði breytt á þá leið að honum verði ekki gert að sæta nálgunarbanni hvað varðar M og N. Þá krefst hann að kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.

I.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði var varnaraðila 20. janúar 2004 gert að sæta nálgunarbanni í níu mánuði þar sem honum var bannað að koma á eða í námunda við heimili barnsmóður sinnar og fyrrum sambúðarkonu og heimili unnusta hennar. Auk þessa var honum bannað að veita þeim eftirför eða nálgast á almannafæri, hringja í eða setja sig á annan hátt beint í samband við þau. Þar sem varnaraðili var grunaður um að hafa brotið gegn þessu banni var honum gert að sæta gæsluvarðhaldi frá 26. mars 2004 til 23. apríl sama árs og geðrannsókn, sbr. dóm Hæstaréttar 30. mars 2004 í máli nr. 129/2004. Var varnaraðila gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til 19. maí 2004, sbr. dóm Hæstaréttar 27. apríl sama árs í máli nr. 152/2004. Ákæra var gefin út á hendur varnaraðila 21. apríl 2004 þar sem honum voru meðal annars gefin að sök ýmis brot í tengslum við háttsemi hans gagnvart fyrrnefndri barnsmóður hans og unnusta hennar sem og brot gegn nálgunarbanni. Sat varnaraðili samkvæmt úrskurði héraðsdóms í gæsluvarðhaldi þar til dómur var kveðinn upp í máli hans 7. júní 2004 en með þeim dómi var hann dæmdur í sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi. Varnaraðili hóf þá þegar afplánun og mun henni hafa lokið 22. þessa mánaðar.

          Fyrir héraðsdómi krafðist sóknaraðili að varnaraðila yrði gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig að honum væri bannað að koma á eða í námunda við heimili barnsmóður sinnar og sambúðarmanns hennar að L, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis húsið. Þá var þess einnig krafist að bann yrði lagt við því að varnaraðili kæmi á eða í námunda við M og N. Auk þess yrði honum bannað að veita áðurnefndum mönnum eftirför, nálgast þá á almannafæri sem nemur 200 metrum og setja sig með nánar tilgreindum hætti í samband við þá. Í þinghaldi 20. september síðastliðinn féllst varnaraðili á að hann skyldi sæta nálgunarbanni og umfang þess, að öðru leyti en því að hann mótmælti slíku banni varðandi M og N, en á þessum stöðum búa skyldmenni barnsmóður hans og sambúðarmanns hennar.

          Með hinum kærða úrskurði var fallist á kröfur sóknaraðila. Varnaraðili unir úrskurði héraðsdóms að öðru leyti en varðar nálgunarbann vegna M og N og kemur sú niðurstaða hins kærða úrskurðar því eingöngu til skoðunar fyrir Hæstarétti.

II.

Eins og rakið er hér að framan hefur varnaraðili afplánað þá refsingu sem honum var gert að sæta meðal annars vegna ýmissa brota sem nálgunarbannið 20. janúar 2004 byggðist á. Samkvæmt gögnum málsins hefur varnaraðili ekki brotið gegn fyrrnefndu banni frá því honum var gert að sæta gæsluvarðhaldi 26. mars 2004. Hefur sóknaraðili ekki gert sennilegt að ástæða sé til að nálgunarbann nái til M og N. Eru því ekki efni til að leggja bann við því að varnaraðili komi á eða í námunda við þessi hús. Verður hinn kærði úrskurður er varðar þetta atriði því felldur úr gildi.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi að því er varðar bann við því að varnaraðili, X, komi á eða í námunda við M og N, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis þessi hús, mælt frá þeim miðjum.

Allur kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2004.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess með kröfu, dags. í dag, að X, nú afplánunarfanga á Litla Hrauni, verði áfram gert að sæta nálgunarbanni í 6 mánuði frá og með uppkvaðningu úrskurðar þannig að lagt verði bann við því að X komi á eða í námunda við heimili A og B, L, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis L, mælt frá miðju hússins.  Einnig að lagt verði bann við því að X komi á eða í námunda við M og N, í sama tíma, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis M og N, mælt frá miðju húsanna.  Enn fremur er þess krafist að X verði í sama tíma bannað að veita A og B eftirför, nálgast þau á almannafæri sem nemur 200 metrum, senda tölvupóst, bréf, böggla og aðrar póst- eða boðsendingar á heimili þeirra, vinnustaði og skóla, eða hringja í heima-, vinnu- og farsíma þeirra, þar með talið sending SMS skeyta og skilaboð á talhólf eða símsvara téðra númera, eða setja sig á annan hátt beint í samband við þau.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að þann 20. janúar sl. hafi í Héraðsdómi Reykjavíkur, að kröfu lögreglustjórans í Reykjavík, verið kveðinn upp úrskurður þess efnis að X yrði gert að sæta nálgunarbanni í 9 mánuði.  Lagt var bann við því að X kæmi á eða í námunda við heimili A, O, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis O.  Jafnframt hafi verið lagt bann við því í 9 mánuði að X kæmi á eða í námunda við heimili B, N, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis N.  Ennfremur hafi X verið bannað í 9 mánuði að veita A og B eftirför, nálgast þau á almannafæri, hringja í heima-, vinnu- og farsíma þeirra eða setja sig á annan hátt beint í samband við þau  Eftir að nálgunarbannsúrskurður hafi verið kveðinn upp og birtur fyrir X hafi komið upp nokkur tilvik þar sem X hafi verið grunaður um að hafa brotið gegn framan­greindu nálgunarbanni.  Hafi þetta orðið tilefni þess að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi úrskurðað þann 26. mars sl., að kröfu lögreglustjórans í Reykjavík, að X sætti gæsluvarðhaldi allt til 23. apríl 2004.  Gæsluvarðhaldsúrskurðinn hafi verið byggður á c- og d-liðum 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.  X hafi jafnframt verið gert að sæta geðrannsókn á gæsluvarðhaldstímanum á grundvelli d-liðar 1. mgr. 71. gr. sömu laga.  Þann 30. s.m. hafi Hæstiréttur Íslands staðfest úrskurð héraðsdóms, sbr. dóm nr. 129/2004.  Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavík þann 21. apríl sl., hafi gæsluvarðhaldið verið framlengt á sama grundvelli til 19. maí sl., sem Hæstiréttur hafi staðfest með dómi þann 27. s.m., sbr. dóm nr. 152/2004.  Þann 19. maí sl. hafi gæsluvarðhaldið enn verið framlengt þar til dómur gengi í máli X, en þó eigi lengur en til 9. júní sl.  Geðrannsókn á X hafi legið fyrir þann 16. apríl sl.

Þann 21. apríl sl. hafi verið gefin út ákæra á hendur X þar sem honum hafi verið gefið að sök margskonar brot, flest þeirra í tengslum við háttsemi hans gagnvart nefndri A og B, fyrir og eftir nálgunarbannið.  X hafi verið sakfelldur fyrir hluta ákæruatriða en sýknaður að hluta.  Með dóminum hafi X verið dæmdur í 6 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir brotin en til frádráttar komi 73 dagar í gæsluvarðhaldi.  Við dómsuppkvaðningu hafi ákærði lýst því yfir að dóminum yrði ekki áfrýjað af hans hálfu og dóminum hafi ekki verið áfrýjað af ákæruvaldsins hálfu og hafi dómurinn komið til fullnustu sama dag.

Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun ríkisins þá ljúki X afplánun dómsins miðviku­daginn 22. september nk.  Nálgunarbannið muni renna úr gildi í dag en þá séu 9 mánuðir liðnir frá því úrskurður héraðsdóms hafi verið kveðinn upp.

                Í gögnum málsins liggi fyrir vottorð Kristófers Þorleifssonar, geðlæknis, frá 6. janúar sl. og geðrannsóknarskýrsla Tómasar Zoega geðlæknis, dags. 16. apríl sl.  Í vottorði Kristófers komi fram að X sé mjög persónuleikaraskaður og sé hvatvís, reiðigjarn og ofstopafullur. Þá segi þar að X sé hættulegur öðrum en síður sjálfum sér.  Í geðrannsóknarskýrslu Tómasar komi fram að X sé haldinn alvarlegri blandaðri persónuleikaröskun og að hann geti verið öðrum hættulegur. 

                Lögregla kveður samband A og B vera náið og hafi þau eignast barn saman.  Þann 9. þ.m. hafi lögreglustjóranum í Reykjavík borist yfirlýsing frá B og A, dags. 8. s.m., þar sem fram hafi komið eindregin afstaða þeirra með framlengingu nálgunarbannsins af ótta þeirra við X.  Nánar sé vísað til yfirlýsingarinnar.

                A og B séu bæði búsett að L, en þau dveljist einnig mikið á heimili móður A, C, að M, sem og á heimili foreldra B, þeim D og E, að N.

                Þann 7. júní sl., sama dag og dómur nr. [...] hafi verið kveðinn upp, hafi X sótt um að honum yrði veitt reynslulausn þegar afplánaður væri helmingur refsitímans.  Með bréfi, dags. 16. s.m., hafi X verið tilkynnt að Fangelsis­mála­stofnun hefði ákveðið að synja honum reynslulausn á grundvelli 2. mgr. 40. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þegar af þeirri ástæðu að hann afplánaði refsingu fyrir sérlega gróf brot, sbr. 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993 um fullnustu refsidóma.

                Að mati lögreglu þykir nauðsynlegt að X sæti áfram nálgunarbanni sem krafist sé.  Þyki slík ráðstöfun nauðsynleg í öryggisskyni fyrstu mánuði eftir að X ljúki afplánun þar sem ástæða þyki vera fyrir hendi um að X kunni að halda ofsóknum áfram.  Verði að telja að A og B hafi verulega hagsmuni af því að fá frið fyrir X og þau hafi raunhæfa ástæðu til að óttast hann og því nauðsynlegt að hann sæti áfram nálgunarbanni sem krafist sé. 

Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og 110. gr. a. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, sé þess krafist að framangreind krafa nái fram að ganga.

 

                Varnaraðili, X, hefur samþykkt kröfu Lögreglustjórans í Reykjavík að því er varðar L en hafnað kröfunni að því er varðar M og N, með þeim rökum að A og B séu búsett að L en ekki á tveimur síðastgreindum heimilisföngum.

Með vísan til þess sem fram er komið og er í samræmi við rannsóknargögn, sem lögð hafa verið fyrir dóminn og þess að samkvæmt framanrituðu er rökstudd ástæða til að ætla að X muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði A og B, er fallist á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík og ákveðið með heimild í 110. gr. a. laga nr. 19,1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94, 2000 að taka kröfu lögreglustjórans til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.  Vegna náinna tengsla A og B og barna þeirra við skyldmenni sem búa að N og M þykir verða að taka kröfuna til greina að því er varðar þá staði jafnvel þótt þar sé ekki um að ræða sameiginlegt heimili þeirra.

Arnfríður Einardóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

                Varnaraðila, X, er gert að sæta nálgunarbanni í 6 mánuði frá og með uppkvaðningu úrskurðar þannig að lagt er bann við því að X komi á eða í námunda við heimili A og B, L, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis L, mælt frá miðju hússins.  Einnig er lagt bann við því að X komi á eða í námunda við M og N, í sama tíma, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis M og N, mælt frá miðju húsanna.  Þá er X bannað að veita A og B eftirför, nálgast þau á almannafæri sem nemur 200 metrum, senda tölvupóst, bréf, böggla og aðrar póst- eða boðsendingar á heimili þeirra, vinnustaði og skóla, eða hringja í heima-, vinnu- og farsíma þeirra, þar með talið sending SMS skeyta og skilaboð á talhólf eða símsvara téðra númera, eða setja sig á annan hátt beint í samband við þau.