Hæstiréttur íslands
Mál nr. 243/2000
Lykilorð
- Lausafjárkaup
- Verksamningur
- Skaðabætur
- Matsgerð
- Takmörkun ábyrgðar
- Málsástæða
|
|
Fimmtudaginn 15. mars 2001. |
|
Nr. 243/2000. |
Kristbjörn Árnason (Kristján Þorbergsson hrl.) gegn Baldri Halldórssyni og (Ólafur Axelsson hrl.) Heklu hf. (Karl Axelsson hrl.) |
Lausafjárkaup. Verksamningur. Skaðabætur. Matsgerð. Takmörkun ábyrgðar. Málsástæður.
K höfðaði mál á hendur B og H og krafðist skaðabóta vegna skemmda sem orðið höfðu á bátsvél sem K hafði keypt af H. B hafði tekið að sér að annast niðursetningu vélarinnar og hafði H eftirlit með því verki. Var báturinn í kjölfarið að veiðum í viku en lá eftir það óhreyfður í um eitt ár. Þegar vél bátsins var ræst að nýju veitti K því eftirtekt að smurolía vélarinnar var sérkennileg á litinn. Reyndist hún við nánari skoðun innihalda sjó og ferskvatn. Hafði vatn farið inn í ventlahús og voru strokkar vélarinnar ryðgaðir. Var vélin lýst ónýt í kjölfarið. Talið var að B, sem var vanur skipasmiður, hefði gert mistök við niðursetningu vélarinnar með því að haga afgaslögn frá túrbínu vélarinnar á annan veg en venjulegt var og eðlilegt. Var lagt til grundvallar að að þau mistök hefðu valdið því að vélin eyðilagðist. Var B látinn bera fébótaábyrgð á tjóni K. H var hins vegar sýknaður, enda var talið að ábyrgðarundanþága í sölu-, þjónustu- og ábyrgðarskilmálum hans ætti við og að sú málsástæða K væri of seint fram komin að undanþágan bryti gegn 24. gr. samkeppnislaga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson prófessor.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. júní 2000. Hann krefst þess að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða sér 1.300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. maí 1999 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi Baldur Halldórsson krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi Hekla hf. krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi eru málavextir þeir að vélbátur áfrýjanda Lundey ÞH 350 skemmdist í eldi og jafnframt gaf vél bátsins sig. Stefndi Baldur Halldórsson skipasmiður, sem rekur verkstæði á Akureyri, tók að sér að annast endurbætur á bátnum og niðursetningu nýrrar vélar, sem áfrýjandi keypti af stefnda Heklu hf. Sölureikningur stefnda Heklu hf. fyrir vélinni er dagsettur 31. júlí 1996 og virðist vélin hafa verið send norður til ísetningar í bátinn um svipað leyti.
Í svokölluðum sölu-, þjónustu- og ábyrgðarskilmálum stefnda Heklu hf. varðandi bátsvélina er í 13. tölulið svofellt ákvæði: „Eftirlit með niðursetningu. Við munum annast eðlilegt eftirlit í beinu sambandi við niðursetningu véla. Þetta eftirlit af okkar hálfu getur þó á engan hátt leitt til þess, að við séum ábyrgir fyrir niðursetningunni eða tjóni, sem kann að verða á vélasamstæðunni vegna mistaka eða ónákvæmrar niðursetningar, og hlutverk okkar í þessu sambandi er aðeins eftirlitsskylda.“ Í 16. tölulið skilmálanna segir meðal annars: „Ábyrgð. Sé ekki á annan veg skriflega samið, tekur ábyrgð okkar til vélar og fylgibúnaðar hennar frá Caterpillar Inc. og til búnaðar, sem við framleiðum sjálfir, en ábyrgðin fellur úr gildi eftir 12 mánuði frá reynsluferð, en er þó aldrei lengur en 18 mánuði frá afhendingu vélarinnar. ... Okkur skal því aðeins skylt að bæta hlut, að fullljóst sé, að tjónið stafi af framleiðslu- eða efnisgalla. Ábyrgð okkar tekur ekki til bilana, sem eiga rætur sínar að rekja til ... rangrar eða ónákvæmrar niðursetningar.“
Vinnu stefnda Baldurs við lagfæringar á bát áfrýjanda og niðursetningu vélar virðist hafa lokið í desember 1996 og var reikningur vegna efnis og vinnu gefinn út í þeim mánuði. Var pústbarki meðal efnis, sem stefndi Baldur lagði til. Báturinn var síðan í geymslu hjá stefnda Baldri uns hann fór í reynslusiglingu frá Akureyri 10. apríl 1997. Leifur Ólafsson vélfræðingur, verkstæðisformaður hjá stefnda Heklu hf., var í þessari reynsluferð og gerði þá athugasemd varðandi smávægilegan leka á útblástursbarka, sem var lagfærður. Stefndi Baldur var ekki viðstaddur reynslusiglinguna. Daginn eftir, 11. apríl, var báturinn fluttur landleiðina til Húsavíkur og sjósettur þar samdægurs. Hélt áfrýjandi Lundey fljótlega til veiða og voru skráðar sjö landanir á afla úr bátum á tímabilinu 18. til 25. apríl 1997. Eftir það lá báturinn óhreyfður við bryggju á Húsavík fram til aprílloka 1998, en að sögn áfrýjanda var reglulega fylgst með honum á þessu tímabili og vél hans gangsett að minnsta kosti tvisvar í mánuði og stundum oftar.
Í marsmánuði 1998 fór áfrýjandi að undirbúa Lundey til róðra. Skipti hann þá um olíu á vél bátsins. Sérstaklega aðspurður fyrir héraðsdómi taldi áfrýjandi að olía sú er hann tók af vélinni hafi verið óvenjuleg á litinn, „dökk frekar“. Eftir olíuskiptin setti áfrýjandi vélina í gang og síðan aftur tveim dögum síðar. Fannst honum þá að litur smurolíunnar á olíukvarðanum væri undarlegur. Tók hann sýni af olíunni. Við efnagreiningu Fjölvers ehf. 31. mars reyndist smurolíusýnið innihalda vatn og samsvaraði selta í sýninu því að sjór væri um 15% af vatninu í olíunni en annað ferskvatn. Páll Theodórsson vélvirki, starfsmaður vélaverkstæðis stefnda Heklu hf., fór til Húsavíkur 2. apríl 1998 og skoðaði vélina í bátnum. Leiddi skoðun hans í ljós að smurolían á vélinni var mjólkurlituð og er hann tók frá púströr, sem kemur frá svokallaðri afgastúrbínu, kom í ljós að þar var „allt fullt af vatni eða sjó“. Hafði vatn farið inn í ventlahús og voru strokkar vélarinnar ryðgaðir og hún mikið skemmd. Að beiðni stefnda Heklu hf. fjarlægðu starfsmenn vélsmiðjunnar Gríms ehf. á Húsavík vélina úr bátnum og sendu hana suður. Eftir nánari skoðun á verkstæði félagsins var það mat starfsmanna stefnda Heklu hf. að vélin væri svo mikið skemmd að ekki svaraði kostnaði að gera við hana.
Að beiðni áfrýjanda voru dómkvaddir tveir menn, Árni Björn Árnason vélvirkjameistari og Magnús Þorsteinsson vélvirkjameistari og vélstjóri, til að kanna orsakir þess að sjór komst í olíu vélar bátsins og sérstaklega hvort mistökum við niðursetningu vélarinnar væri um að kenna. Segir í matsgerð þeirra 11. ágúst 1998 meðal annars að ljóst megi vera að sjór geti komist í smurolíu véla á margan hátt en í þessu tilviki hafi athygli matsmanna beinst að afgasbarka vélarinnar, þar sem um svonefnt blautpúst sé að ræða. Er hér átt við það fyrirkomulag að sjó, sem notaður hefur verið til kælingar á vélinni, er dælt inn í útblástursgrein hennar til að kæla hana og draga úr hávaða. Matsmenn tóku fram að engin vél hafi verið í bátnum þegar matið fór fram en engu að síður hafi verið nokkuð ljóst í hvaða hæð afgaslögnin var tengd við afgastúrbínu vélarinnar. Lýstu þeir síðan legu lagnarinnar, sem myndað hafi „smá vatnsgildru“ eftir að hún kom frá stút afgastúrbínu vélarinnar með því að hún liggi niður um 50 mm á 250 mm kafla, en síðan taki við langur nánast láréttur kafli afgasbarka aftur að safnkút. Síðan segir í matsgerðinni: „Ekki verður fullyrt hvort sá sjór, sem í þessari láréttu lögn er þá drepið er á vélinni, hefur náð að renna inn á afgastúrbínu vélarinnar og þaðan inn á vélina en yfirgnæfandi líkur eru þó á að svo kunni að hafa verið.“ Taka matsmennirnir fram að venja sé við frágang slíkra afgaslagna að lögnin halli frá vél að safnkút.
Með bréfi 7. september 1998 krafði áfrýjandi stefnda Baldur um bætur vegna skemmda á vélinni og með bréfi 8. september krafði hann stefnda Heklu hf um bætur af sama tilefni. Hafnaði stefndi Baldur bótakröfunni með bréfi 20. september sama árs og það sama gerði stefndi Hekla hf. með bréfi 30. október. Í tilefni af fyrrgreindu bréfi stefnda Baldurs óskaði áfrýjandi eftir viðauka við matsgerðina með bréfi til matsmannanna 11. janúar 1999. Með bréfi 20. janúar 1999 ítrekuðu matsmenn fyrri niðurstöðu sína. Segir þar meðal annars: „Í matsgerðinni kemur skýrt fram að matsmenn telja að sjór hafi komist inn á vélina frá afgaslögn og að ekki hafi verið frá afgaslögninni gengið svo sem venja er til um slíkar lagnir.“ Í aprílmánuði 1999 var síðan sett í bátinn ný vél frá stefnda Heklu hf. Annaðist vélsmiðjan Grímur ehf. þá niðursetningu ásamt starfsmanni stefnda Heklu hf. Var legu afgaslagnar frá vélinni jafnframt breytt og hún lögð neðar og látin halla frá henni. Var kaupverð nýju vélarinnar og flutningskostnaður 1.300.000 krónur, sem er fjárhæð bótakröfu áfrýjanda í máli þessu.
II.
Eftir að héraðsdómur gekk í máli þessu fór áfrýjandi þess á leit að matsmennirnir, sem stóðu að fyrrnefndri matsgerð, yrðu dómkvaddir á ný til að meta orsök þess að umrædd bátsvél var talin ónýt. Héraðsdómur hafnaði beiðninni en með dómi Hæstaréttar 30. ágúst 2000 var lagt fyrir héraðsdóm að dómkveðja tvo menn samkvæmt beiðni áfrýjanda. Héraðsdómur dómkvaddi 22. september 2000 sömu menn sem fyrr til verksins. Hefur matsgerð þeirra 12. nóvember 2000 verið lögð fram í Hæstarétti. Jafnramt hafa nokkur önnur ný gögn verið lögð fram. Þeirra á meðal er endurrit af skýrslutökum í héraðsdómi 15. nóvember 2000 af stefnda Baldri og áðurnefndum matsmönnum. Í matsgerðinni kemur fram að hinir dómkvöddu menn hafi á ný framkvæmt skoðun um borð í Lundey, en ný vél var þá komin í bátinn. Þá hafi þeir skoðað vélina sem skemmdist en það gerðu þeir ekki við fyrri matsgerð. Tóku matsmenn fram að frágangur afgaslagnar væri nú með allt öðrum hætti en áður, en matsmenn hafi stillt upp gömlu lögninni á ný á sama hátt og áður til að fá glögga mynd af legu hennar og fengið þannig jafnframt samanburð við legu hinnar nýju. Niðurstöður matsmannanna eru þær að ekki sé nokkur vafi á að bakflæði úr afgaslögn hafi eyðilagt vél Lundeyjar. Segir meðal annars í matsgerðinni: „Það er bjargföst skoðun matsmanna að þessi sjór hafi komist inn á vélina, í hvert sinn er á henni var drepið, vegna bakrennslis úr afgasbarka, en öllum sjó frá sjódælu vélarinnar er dælt inn í afgaslögnina ... “ Jafnframt tóku matsmenn fram að skolloftskælir og pústgrein hafi verið þrýstiprófuð og reynst þétt. Þá sé ekkert sem bendi til að sjór hafi komist í vélarrúm bátsins.
III.
Áfrýjandi reisir kröfu sína á hendur stefnda Baldri á því að frágangur hans á afgaslögn Lundeyjar hafi verið ófullnægjandi og hafi það leitt til þess að sjór komst í vélina og eyðilagði hana. Stefndi Baldur tók að sér endurbætur á báti áfrýjanda og niðursetningu nýrrar vélar í hann. Hann rekur sjálfstæða starfsemi sem skipasmiður og hefur áratuga reynslu á því sviði. Verður ekki annað ráðið af gögnum málsins og málatilbúnaði aðila en að það hafi verið verkefni hans að ákveða fyrirkomulag, er tengdist niðursetningu vélarinnar, þar á meðal legu afgaslagnarinnar frá henni.
Í mati hinna dómkvöddu manna 11. ágúst 1998 kemur fram, eins og að framan er rakið, að venjan sé sú við frágang sjókældra afgaslagna að lögnin halli frá vél og að ekki hafi verið gengið frá lögninni í Lundey svo sem venja sé um slíkar lagnir. Þegar gengið var frá niðursetningu nýrrar vélar í Lundey af starfsmönnum vélsmiðjunnar Gríms ehf. og stefnda Heklu hf., í stað þeirrar sem skemmdist, var afgaslögninni breytt, hún lögð neðar í bátinn og látin halla frá vél. Ásgeir Kristjánsson vélvirki og verkstjóri hjá Grími ehf. annaðist niðursetningu nýju vélarinnar. Í framburði hans fyrir héraðsdómi kom fram að hann teldi að lega eldri afgaslagnarinnar hafi ekki verið eins og hann myndi ganga frá slíkri lögn. Hann teldi eðlilegt að lögnin hallaði í 45° niður frá túrbínu vélar og frágangur hans og starfsmanns stefnda Heklu hf. á afgaslögn nýju vélarinnar hafi verið í samræmi við það. Meðal gagna, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, eru ljósrit úr handbók vélaframleiðandans Caterpillar um niðursetningu skipsvéla og ljósrit af kynningarbæklingi frá Vetus, öðrum framleiðanda, um íhluti í sjókældar afgasgreinar, en stefndi Baldur mun annast sölu á framleiðsluvörum þess fyrirtækis. Á skýringarmyndum í báðum þessum bæklingum er sýnt að afgaslögn liggur niður í um 45° horni frá vél. Þá er það álit héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, að æskilegt hefði verið að lögnin hefði myndað krappari vatnsgildru þar sem hún lá frá afgastúrbínu vélarinnar. Verður að telja fyllilega í ljós leitt að stefndi Baldur hagaði afgaslögninni í Lundey á annan hátt en venjulegt var og eðlilegt. Jafnframt liggur fyrir, meðal annars í álitsgerðum hinna dómkvöddu manna, að þessi óvenjulegi frágangur var til þess fallinn að skapa hættu á að sjór kæmist í vél bátsins.
Matsmennirnir telja ljóst, meðal annars af ummerkjum í vélarrúmi bátsins, að sjór hafi ekki legið þar og þannig komist utanfrá í vélina. Þá hafi þrýstiprófun á skolloftskæli og pústgrein leitt í ljós að ekki geti verið um það að ræða að sjór hafi runnið frá þessum búnaði inn á vélina. Telja þeir að engin önnur skýring en óvenjulegur frágangur afgaslagnarinnar sé á því að vatn komst í vél bátins. Stefndi Baldur hefur bent á að þær upplýsingar, sem fyrir liggja um ástand smurolíu á vél bátsins við olíuskiptin í marslok 1999, og lágt hlutfall seltu, sem greindist í vatni í smurolíu bátsins, kunni að benda til annarra skýringa á sjónum í vélinni en þeirrar, sem matsmenn telja ótvíræða. Stefnda Baldri hefur þó hvorki tekist að sýna fram á eða gera líklegt að sjór hafi komist inn í vélina með öðrum hætti en sem bakflæði um margnefnda afgaslögn. Hún var ekki lögð með þeim hætti sem venjulegt var og eðlilegt og hefur hann ekki sýnt fram á að lögnin hafi þrátt fyrir það verið fullnægjandi til að hindra bakflæði á kælisjó til vélarinnar. Verður hann að bera hallann af því. Verður því lagt til grundvallar að ófullnægjandi frágangur stefnda Baldurs á afgaslögn hafi leitt til þess að sjór komst í vélina og eyðilagði hana.
IV.
Krafa áfrýjanda á hendur stefnda Heklu hf. er á því reist að með í kaupum á vélinni hafi fylgt eftirlit með niðursetningu og úttekt á frágangi hennar. Hafi úttekt þessi reynst ófullnægjandi og megi rekja tjón áfrýjanda til þess. Þá byggir hann á að félagið sé fébótaskylt vegna skemmda á vélinni á grundvelli ábyrgðarloforðs.
Eins og að framan er rakið er í 16. tölulið fyrrgreindra sölu-, þjónustu- og ábyrgðarskilmála stefnda Heklu hf. sérstök ábyrgðaryfirlýsing. Ábyrgð samkvæmt þeirri yfirlýsingu fellur úr gildi eftir 12 mánuði frá reynsluferð, en er þó aldrei lengur í gildi en 18 mánuði frá afhendingu vélarinnar. Samkvæmt gögnum málsins verður að miða við að félagið hafi afhent áfrýjanda vélina 31. júlí 1996 er hún var afhent flutningsmanni sbr. 10. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, sem er sama efnis og 7. töluliður framangreindra skilmála. Ábyrgð samkvæmt hinni sérstöku yfirlýsingu féll því niður í lok janúar 1998 eða tveimur mánuðum áður en skemmdir komu í ljós á vélinni í báti áfrýjanda. Verður ábyrgð stefnda Heklu hf. þegar af þeirri ástæðu ekki reist á þessari sérstöku ábyrgðaryfirlýsingu.
Í 13. tölulið fyrrgreindra skilmála er tekið fram að félagið muni annast eðlilegt eftirlit með niðursetningu vélarinnar. Í samræmi við þessa skilmála var starfsmaður félagsins viðstaddur reynslusiglingu Lundeyjar eftir vélaskiptin svo sem að framan er rakið. Verður að skýra þennan tölulið skilmálanna þannig að í samningi aðila hafi ekki aðeins falist kaup á vélinni heldur einnig samningur um að stefndi Hekla hf. annaðist eftirlit með niðursetningu hennar og er samningurinn því bæði kaup og verksamningur. Af gögnum málsins verður ráðið að afgaslögnin var að mestu sýnileg í vélarrúmi og lest bátsins og fremsti hluti hennar, sem samkvæmt framansögðu hallaði með ófullnægjandi hætti frá vél bátsins, blasti við ef litið var niður í vélarrúmið. Jafnframt liggur fyrir eins og að framan er rakið að sá starfsmaður félagsins, er annaðist úttekt á niðursetningu vélarinnar í reynslusiglingunni, gerði athugasemd við leka á afgasbarkanum. Verður að telja að starfsmaður stefnda Heklu hf. hefði við eðlilega skoðun átt að veita óvenjulegri tilhögun afgaslagnarinnar athygli og gera athugasemdir við hana. Ber félagið fébótaábygð á vanrækslu hans. Í 13. og 16. tölulið fyrrgreindra skilmála eru sérstakar ábyrgðartakmarkanir varðandi eftirlit með niðursetningu véla, sem að framan eru raktar. Með þeim undanskilur félagið sig allri ábyrgð á niðursetningu vélarinnar og því tjóni sem á vélinni kunni að verða vegna mistaka við hana. Verður að sýkna stefnda Heklu hf. á grundvelli þessara ábyrgðartakmarkana, enda verður að fallast á það með lögmanni félagsins að sú málsástæða að skilmálarnir brjóti að þessu leyti í bága við 24. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 og lögmaður áfrýjanda hélt fram við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti sé of seint fram komin.
Samkvæmt framansögðu verður stefndi Hekla hf. sýknuð af kröfu áfrýjanda. Verður málskostnaður felldur niður gagnvart þessum stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi Baldur Halldórsson verður dæmdur til að greiða áfrýjanda 1.300.000 krónur ásamt dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði. Verður þessum stefnda jafnframt gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Hekla hf., skal vera sýkn af kröfu áfrýjanda, Kristbjörns Árnasonar.
Stefndi, Baldur Halldórsson, greiði áfrýjanda 1.300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. maí 1999 til greiðsludags.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti vegna þáttar stefnda Heklu hf. fellur niður.
Stefndi, Baldur Halldórsson, greiði áfrýjanda samtals 900.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 17. mars 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 28. janúar s.l., hefur Jóhannes Bjarni Björnsson hdl., höfðað með stefnu útgefinni í Reykjavík 21. maí 1999, f.h. Kristbjörns Árnasonar, kt. 180837-2059, Baughóli 5, Húsavík, á hendur Baldri Halldórssyni, kt. 150124-2559, Hlíðarenda, Akureyri og Heklu h.f., kt. 600169-5139, Laugavegi 170-174, Reykjavík, til greiðslu á skaðabótum. Málið var þingfest þann 10. júní 1999.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði gert að greiða stefnanda in solidum kr. 1.300.000,- með dráttarvöxtum skv. 12. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 10. maí 1999 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu in solidum samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, alls kr. 413.241,-.
Stefndi, Baldur Halldórsson, krefst þess að vera sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, alls kr. 311.798,-.
Stefnda, Hekla h.f., krefst þess að vera sýknað af öllum kröfum stefnanda og jafnframt er krafist málskostnaðar úr hans hendi að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, samtals kr. 295.315,-.
Lögmaður stefnda Baldurs Halldórssonar er Ólafur Axelsson hrl., og lögmaður stefnda Heklu h.f. er Reimar Pétursson hdl.
Stefnandi rekur málavexti svo, að mál þetta varði skemmdir á Caterpillar vél í mótorbát stefnanda, Lundey ÞH-350, skipaskrárnúmer 6961. Hafi stefnandi keypt bátavél þessa af Heklu h.f. þann 31. júlí 1996 fyrir kr. 1.450.000,- staðgreitt, sbr. dskj. nr. 3. Vél þessi hafi verið flutt til stefnda Baldurs Halldórssonar, skipasmiðs á Akureyri, sem átti að sjá um að setja vélina niður og ganga frá henni þannig að hún væri tilbúin til notkunar. Hafi stefndi Baldur unnið að endurbótum á báti stefnanda og niðursetningu vélarinnar og frágangi veturinn 1996 og hafi þeirri vinnu loklið í desember það ár miðað við útskrift reikninga. Báturinn hafi verið fluttur með kranabifreið frá starfsstöð stefnda Baldurs til Húsavíkur í byrjun apríl 1997. Afhendingardagur vélarinnar teljist vera 08.04.1997 samkvæmt „Engine Delivery Service Record“, sem afhent var stefnanda þann 10.04.1997 er báturinn var fyrst notaður og tekinn út af starfsmanni stefnda Heklu h.f. Samkvæmt skrá stefnda Heklu h.f. og þeim upplýsingum sem stefnandi fékk hafi vélin átt að vera í ábyrgð í 1 ár frá því hún var tekin í notkun og reynd af starfsmanni stefnda Heklu h.f. eða frá 10.04.1997. Við úttekt á vélinni af hálfu starfsmanns stefnda Heklu h.f. komu ekki fram athugasemdir og hafi starfsmaðurinn veitt heimild til að vélin yrði tekin í notkun.
Stefnandi hafi notað bát þennan til veiða á sumrin, en hér sé um að ræða lítinn bát, 9,93 metra að lengd og alls 9,29 brúttólestir. Eftir að gengið hafði verið frá vélinni hafi stefnandi haldið bátnum til veiða í 7 skipti í aprílmánuði 1997, en hafi ekki komist til frekari veiða sumarið 1997, en sinnti bátnum þar sem hann lá við bryggju á Húsavík. Snemma árs 1998 er stefnandi fór að undirbúa bátinn fyrir veiðar á sumarvertíð 1998 varð hann þess var að smurolía bátsins var ekki eðlileg og leitaði skýringa hjá seljanda vélarinnar, stefnda Heklu h.f. Lét hann að ósk starfsmanna Heklu h.f. þeim í té sýnishorn af smurolíu af vél bátsins. Reyndist það olíusýni verulega sjóblandað og kom í framhaldi af því starfsmaður stefnda Heklu h.f. til Húsavíkur til að skoða vélina. Mun það hafa verið þann 3. mars 1998, samkvæmt bréfi starfsmanna Heklu h.f., dags. 27. janúar 1999. Við þá skoðun reyndist sjór í pústgrein og forþjöppu vélarinnar. Hafi starfsmaðurinn tekið spíssana úr og sá hvar strokkar vélarinnar voru mikið ryðgaðir. Var vélin talin ónothæf og tekin úr bátnum og flutt á verkstæði stefnda Heklu h.f. til nánari skoðunar. Niðurstaða skoðunar leiddi í ljós að vélin var það illa farin að ekki borgaði sig að reyna viðgerð á henni. Ástæða þess að vélin skemmdist var talin sú að sjór hefði komist í hana.
Með beiðni, dagsettri 23. júní 1998, óskaði stefnandi eftir því við Héraðsdóm Norðurlands eystra að dómkvaddir yrðu tveir sérfróðir aðilar til að meta orsakir þess að vélin skemmdist. Þann 11. ágúst 1998 hafi matsmenn skilað áliti sínu, en niðurstaðan hafi verið í meginatriðum þessi:
1. Yfirgnæfandi líkur eru á því að sjór hafi komist í vélina úr 155 cm langri láréttri afgaslögninni, sem lá frá vélinni aftur að safnkút.
2. Að frágangur afgaslagna hafi ekki verið í samræmi við venju, en hún er sú að afgaslögn halli frá vél og í safnkút eða lögnin sjálf myndi vatnsgildru, sem rúmi þann sjó sem er í lögninni er drepið sé á vélinni.
Með bréfi, dags. 7. september 1998, krafði stefnandi stefnda Baldur um bætur vegna tjóns af völdum ófullnægjandi frágangs afgaslagna vélarinnar. Með bréfi, dags. 20. s.m., hafi stefndi hafnað bótaábyrgð sinni og að frágangur afgaslagnarinnar hafi verið ófullnægjandi. Í tilefni af bréfi stefnda Baldurs óskaði stefnandi eftir því við matsmenn að þeir könnuðu nánar tiltekin atriði og legðu mat á hvort hugsanlega gætu verið aðrar orsakir fyrir eyðileggingu vélarinnar. Með bréfi, dags. 20. janúar 1999, ítrekuðu matsmenn niðurstöðu sína og létu aðilum matsmálsins í té afrit af spurningum og svörum starfsmanna Heklu h.f. og Gríms ehf. vélsmiðju, sem mun hafa annast um að taka vélina úr bátnum. Var það mat matsmanna að niðurstaða þeirra væri ótvíræð varðandi orsakir þess að olía komst í vélina. Með bréfi, dags. 8. september 1998 krafði stefnandi stefnda Heklu h.f. um greiðslu bóta, sem var hafnað með bréfi, dags. 30. október s.á. Stefndi Baldur hafi ekki verið fáanlegur að leggja nokkuð af mörkum til lausnar á málinu, hvorki vinnu né fjármuni. Í apríl 1999 annaðist stefnda Hekla h.f. um að setja nýja vél í bát stefnanda og lagfæra frágang á afgaslögn. Hafi reikningur stefnda Heklu h.f. fyrir þá vinnu verið alls kr. 1.300.000,-, sbr. framlagðan reikning, dags. 30. apríl 1999. Stefnandi hafi greitt reikninginn þann 10. maí s.á. með fyrirvara um endurgreiðslu. þar sem ekki hafi náðst samkomulag á milli aðila um bætur til handa stefnanda sé stefnanda nauðsynlegt að höfða mál þetta.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefndu á almennum reglum kröfuréttar um skaðabætur innan samninga. Stefnandi hafi keypt þjónustu af báðum stefndu og hafi sú þjónusta reynst ófullnægjandi og telur stefnandi að tjón hans megi rekja til þess. Varðandi stefnda Baldur byggir stefnandi á því að frágangur hans á afgaslögn bátsins hafi verið ófullnægjandi og leitt til þess að sjór komst í vélina og eyðilagði hana. Því til sönnunar byggir stefnandi á ótvíræðu áliti tveggja dómkvaddra matsmanna. Stefndi Baldur sé skipasmiður og seldi stefnanda þjónustu sína við að hanna og ganga frá afgaslögn vélarinnar sem sérfræðingur á þessu sviði. Hafi stefnandi mátt treysta því að frágangur hans á afgaslögninni væri þannig að ekki væri hætta á því að sjór sem í lögninni væri er drepið væri á vélinni gæti runnið inn í vélina og eyðilagt hana.
Varðandi stefnda Heklu h.f. er á því byggt að stefndi hafi selt stefnanda þjónustu sem fólst í því að eftir að vélin hafi verið sett niður í bátinn og áður en notkun hennar hæfist yrði niðursetning og frágangur vélarinnar tekinn út af starfsmanni stefnda. Var kostnaður af þjónustu þessari innifalinn í kaupverði vélarinnar og þáttur í sölu stefnda á vélinni. Með þessu keypti stefnandi af stefnda Heklu h.f. sérfræðilega úttekt á frágangi vélarinnar. Starfsmaður stefnda kom og tók út frágang á niðursetningu vélarinnar og lýsti því yfir að hann væri fullnægjandi og óhætt væri að nota vélina. Úttekt og ráðgjöf stefnda Heklu h.f. var að þessu leyti ófullnægjandi þar sem frágangur afgaslagnar reyndist óviðunandi og ekki í samræmi við venju við frágang afgaslagna, sbr. niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna. Varðandi stefnda Heklu h.f. er einnig á því byggt að stefndi beri ábyrgð á skemmdum á vélinni gagnvart stefnanda á grundvelli ábyrgðarloforðs. Vélin hafi verið í ábyrgð á þeim tíma sem gallinn kom í ljós og stefnandi tilkynnti stefnda Heklu h.f. um hann. Í framhaldi af rannsókn á smurolíu vélarinnar hafi stefndi tekið vélina til sín og framkvæmt á henni ítarlega rannsókn. Hafi stefndi ekki gefið aðra skýringu á eyðileggingu vélarinnar, en fram kom í mati hinna dómkvöddu matsmanna og reyndar tekið undir niðurstöðu þeirra.
Í ábyrgðarloforði stefnda Heklu h.f. felist að félagið ábyrgist að vélin hvorki bili eða skemmist innan ábyrgðartímans og að stefndi Hekla h.f. ábyrgist allar slíkar skemmdir eða bilanir gagnvart stefnanda. Frá þessari ábyrgð sé einungis gerð sú undantekning að ábyrgð nái ekki til skemmda, sem stefnandi hefur sjálfur valdið á vélinni með saknæmum hætti. Stefndi hafi tekið út frágang vélarinnar og byggi stefnandi á því að stefndi geti ekki borið fyrir sig ábyrgðarleysi gagnvart stefnanda á grundvelli ófullnægjandi frágangs afgaslagnar vélarinnar, enda hafi sá frágangur verið sérstaklega tekinn út af starfsmanni stefnda Heklu h.f. Byggir stefnandi á því að í ábyrgðarloforði stefnda hafi falist að vélin eins og frá henni var gengið myndi hvorki bila eða skemmast á ábyrgðartímanum, enda fylgdi stefnandi leiðbeiningum um meðferð hennar. Enn fremur byggir stefnandi á því að stefndi Hekla h.f. verði að bera hallann af skorti á sönnun á orsökum tjónsins gagnvart stefnanda á grundvelli ábyrgðarloforðsins. Verði ekki talið sannað að vélin hafi eyðilagst vegna ófullkomins frágangs á afgaslögn sé ljóst að hún hefur bilað af öðrum ástæðum og þá líklegast vegna framleiðslugalla.
Stefndi Hekla h.f. hafi tekið vélina til sín eftir að hún skemmdist og hafi rannsakað hana. Það standi stefnda Heklu h.f. næst að færa fram sönnun fyrir annarri eða öðrum ástæðum þess að vélin bilaði innan ábyrgðartímans og/eða að orsakir bilunar séu þess eðlis að þær falli utan ábyrgðar stefnda. Byggir stefnandi á því að hann hafi í einu og öllu farið eftir leiðbeiningum starfsmanna stefnda Heklu h.f. varðandi meðferð vélarinnar.
Þann 10. maí 1999 greiddi stefnandi kr. 1.300.000,- fyrir nýja vél og niðursetningu hennar til stefnda Heklu h.f. Nemi tjón stefnanda þeirri fjárhæð.
Stefnandi byggir á því að stefndu beri hvor um sig fulla ábyrgð á tjóni hans og því er gerð krafa um að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda stefnufjárhæðina in solidum. Stefndi krefst dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá greiðsludegi 10. maí 1999 til greiðsludags.
Til lagaraka vísar stefnandi til almennra reglna kröfu- og kauparéttar um skaðabætur innan samninga og byggir hann á ákvæðum kaupalaga nr. 39, 1922 og ábyrgðarloforði stefnda Heklu h.f. Vaxtakrafan er byggð á vaxtalögum og málskostnaðarkrafan á lögum nr. 91, 1991.
Stefndi Baldur Halldórsson lýsir málavöxtum svo í greinargerð að rétt sé að hann hafi tekið að sér að setja niður nýja vél í umræddan bát. Hafi sú vinna farið fram á haustmánuðum 1996. Fyrir það hafi hann fengið greitt sbr. dskj. nr. 4 en reikningur hans sé dagsettur í desember 1996. Umrædd niðursetning hafi verið tekin út af starfsmanni seljanda vélarinnar stefnda Heklu h.f. og engar athugasemdir gerðar af hans hálfu varðandi verkið. Það sé fyrst löngu síðar eða 19 mánuðum eftir að verkinu var lokið að hann sé upplýstur um að sjór hafi komist í vélina. Í stefnu komi fram að eftir að vélin var sett niður hafi stefnandi haldið bátnum til veiða í 7 skipti í aprílmánuði 1997, en síðan hafi hann legið ónotaður í Húsavíkurhöfn. Það hafi fyrst verið snemma árs 1998 þegar verið var að undirbúa bátinn fyrir sumarvertíð að í ljós kom að smurolía bátsins var ekki eðlileg og síðar upplýst að hún var sjóblönduð. Byggi stefnandi á því að tjónið á vélinni verði rakið til ófullnægjandi frágangs á afgaslögninni, en hún hafi verið lögð lárétt í bátinn, en ekki hallað frá og því hafi sjór náð að renna inn á vélina þegar drepið var á. Þetta hafi valdið eyðileggingu á henni sem stefndi beri ábyrgð á.
Þessari fullyrðingu stefnanda vill stefndi mótmæla sem rangri og ósannaðri. Þegar skoðun matsmanna fór fram var búið að taka vélina úr bátnum. Ályktun matsmanna í þessum efnum byggi eingöngu á getgátum, en ekki staðreyndum. Engin skoðun hafi farið fram á vélinni sjálfri af matsmönnum og ekkert sé upplýst um viðhald og eftirlit á bátnum. Matinu sé því ábótavant í þessum efnum, auk þess sem matsmenn taki ekki á atriðum sem gátu skipt máli varðandi orsök tjónsins. Megi m.a. nefna ryðlit á byrðingi bátsins og vanrækt skoðun á millikæli. Reynt hafi verið að bæta úr þessum annmarka með viðbótarmatsgerð, en henni ber að hafna eins og síðar verði reifað.
Í málinu liggi fyrir að niðursetning vélarinnar hafi verið tekin út af sérfræðingi frá seljanda hennar og engin athugasemd gerð af honum við vinnu stefnda. Upplýst sé að báturinn lá í Húsavíkurhöfn óhreyfður í eitt ár. Þrátt fyrir áskorun í bréfi á dskj. nr. 18, að stefnandi upplýsi hvernig umhirðu vélarinnar hafi verið háttað á þeim tíma hjá vélgæslumanni, m.a. ú véladagbók bátsins, hafi stefnandi engin gögn lagt fram um það en hér sé um að ræða mjög veigamikið atriði sem stefnandi hafi alla sönnunarbyrði um. Bátur sem liggi ónotaður krefjist engu að síður mikils eftirlits. Við þessar aðstæður sé mikil hætta á að sjór komist í vélina ef þess sé ekki gætt við frágang á bátnum að loka fyrir botnloka og gefa síðan vélinni inn til þess að tæma út blástursrörið áður en drepið sé á. Þá geti einnig við þessar aðstæður sest sjóselta og raki í vélina, sem að geri það nauðsynlegt að gangsetja hana með vissu millibili og láta hana pústa út. Ekkert liggi fyrir um umhirðu stefnanda á meðan að báturinn var ónotaður og hafi umhirðan verið vanrækt séu verulegar líkur á því að tjónið verið eingöngu rakið til slíks. Um þetta hafi stefnandi alla sönnunarbyrði og beri að túlka þögn hans um þetta gegn honum.
Jafnframt er á það bent að jafnvel þótt lýsing stefnanda væri rétt um legu afgaslagnarinnar og að sjór hafi farið um hana, þá geti vél í bát sem að liggur ónotaður um lengri tíma aldrei eyðilagst nema um algjört eftirlitsleysi sé að ræða hjá eiganda. Slík eyðilegging sem stefnandi lýsi á vélinni gerist aðeins á mjög löngum tíma. Í eðlilegri umhirðu felist m.a. skoðun á olíu með vissu millibili, auk þess sem gangsetning öðru hverju sé nauðsynleg. Þetta virðist stefnandi algjörlega hafa vanrækt.
Þá er skorað á stefnanda að upplýsa af hverju hafi þurft að skipta um vél í bátnum.
Á því er byggt af hálfu stefnda að vinna hans við niðursetningu vélarinnar hafi verið fullnægjandi og jafnframt að stefnandi hafi alla sönnunarbyrði um annað.
Matsgerð sú sem liggi fyrir í málinu sé á engan hátt fullnægjandi sönnun miðað við allar kringumstæður þegar matið fór fram. Virðist niðurstaða matsmannanna byggjast á getgátum einum saman.
Viðbótarmati er mótmælt þar sem það sé haldið alvarlegum formgalla og beri því að virða að engu. Stefndi hafi aldrei verið boðaður til matsins og fékk því aldrei tækifæri til að koma athugasemdum á framfæri og færa rök fyrir máli sínu. Vísast í þessu efni til 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91, 1991.
Þá er einnig á það bent að ekkert sjálfstætt mat og þar með úrvinnsla fór fram vegna viðaukans við matsgerðina. Það að senda þau gögn sem fengin eru við gagnaöflum vegna matsgerðar til málsaðilja án þess að leggja nokkurt sjálfstætt mat á þau brjóti gegn 1. mgr. 63. gr. laga nr. 91, 1991.
Þá telur stefndi ástæðu til að draga í efa hlutleysi matsmannanna, þar sem að þeir hafi báðir verið starfsmenn Slippstöðvarinnar á Akureyri, sem stefnandi eigi töluverð viðskipti við.
Stefndi Hekla h.f. rekur málsástæður og önnur atvik og lagarök svo, að stefnandi hafi keypt vélina ásamt skrúfugír af stefnda Hekla h.f. 31. júlí 1996 á kr. 1.450.000,-, sbr. dskj. nr. 3. Var vélin í kjölfarið flutt til stefnda Baldurs Halldórssonar, skipasmiðs, sem annaðist niðursetningu hennar og vann á sama tíma að endurbótum á bát stefnanda. Samkvæmt reikningi stefnda, Baldurs, varði hann 500 tímum í niðursetningu vélarinnar og endurbætur yfirleitt, sbr. dskj. nr. 4.
Var m/b Lundey ÞH-350 flutt til Húsavíkur þann 11. apríl 1997, fyrsti skráði notkunardagur vélarinnar hjá stefnda Heklu h.f. er 10. apríl 1997, sbr. dskj. nr. 5. Þegar niðursetningu var lokið af hálfu stefnda Baldurs, leit starfsmaður stefnda Heklu h.f. eftir niðursetningu vélarinnar, veitti aðstoð við reynsluferð og tilsögn um rétta meðferð. Úttekt stefnda Heklu h.f. miðaðist við þau atriði sem sýnileg eru og breytt hefur verið í tengslum við niðursetningu vélarinnar. Úttektin miði að því að leiða í ljós getu vélarinnar til að framleiða uppsett afl með prufukeyrslu og mælingu á þeim þáttum í starfsemi vélarinnar sem best gefa til kynna hvort uppsett afl náist eða hvort vélin geti haldið því afli í takt við tæknilýsingu hennar. Afgaslögnin var að stærstum hluta hulin byrðingi bátsins þegar úttekt og reynslusigling fór fram og af hálfu stefnda Heklu h.f. fór ekki fram athugun á halla hennar eða legu.
Þann 3. mars 1998 kom í ljós að vél bátsins var skemmd og í framhaldinu að ekki svaraði kostnaði að gera við hana. Óskaði stefnanda þá eftir því við Héraðsdóm Norðurlands eystra að dómkvaddir yrðu tveir sérfróðir aðiljar til að meta orsakir þess að vélin skemmdist. Matinu hafi þeir skilað 11. ágúst s.á., sbr. dskj. nr. 9. Stefnandi hafi krafið stefnda Heklu h.f. um greiðslu bóta með bréfi dags. 8. september 1998, sbr. dskj. nr.13.
Stefndi Hekla h.f. hafi hafnað bótaskyldu með bréfi dags. 30. október s.á, sbr. dskj. nr. 16.
Þann 11. janúar 1999 hafi þess verið farið á leit við matsmenn að þeir önnuðust viðauka við hina fyrri matsgerð, þar sem þeim var uppálagt að kanna orsakir þess að sjór komst í olíu vélar bátsins og sérstaklega hvort mistökum við niðursetningu vélarinnar væri um að kenna, sbr. dskj. nr. 18.
Með bréfi dagsettu 20. janúar 1999 skýrðu matsmenn frekar niðurstöðu fyrra mats, sbr. dskj. nr. 20.
Stefnandi reisi kröfur sínar á hendur stefnda Heklu h.f. í fyrsta lagi á því að vélin hafi verið gölluð og í öðru lagi að eftirlit með niðursetningu hafi verið ófullnægjandi.
Stefndi Hekla h.f. mótmælir hvoru tveggja og krefst sýknu. Að því er varðar fyrri málsástæðu stefnanda að vélin hafi verið gölluð beri að nefna að eins og rakið sé í málavaxtalýsingu hafi vélin verið afhent 31. júlí 1996, en 3. mars 1998 komu upp skemmdir. Í 1. mgr. 16. gr. söluþjónustu- og ábyrgðarskilmála Heklu h.f., sbr. dskj. nr. 7, komi fram að ábyrgðin sé aldrei lengur en 18 mánuði frá afhendingu vélarinnar. Í byrjun mars 1998 voru liðnir rúmir 19 mánuðir frá afhendingu hennar og hún því ekki lengur í ábyrgð. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda. Verði ekki fallist á sýknukröfu af þessari ástæðu þá byggir stefndi Hekla h.f. á því að meintir gallar á vélinni séu ósannaðir. Þeirri málsástæðu stefnanda er alfarið mótmælt að stefndi Hekla h.f. beri hallan af skorti á sönnun á orsökum tjónsins á grundvelli ábyrgðarloforðsins. Í fyrsta lagi fái þessi lagaskilningur ekki staðist, enda hvíli sönnunarbyrði á þeim sem hefur uppi gallakröfu að skilyrði fyrir slíkri kröfu sé uppfyllt. Í öðru lagi sé þessi málsástæða í innbyris ósamræmi við annan málatilbúnað stefnanda, en hann haldi því fram í stefnu og allar götur síðan hann hóf rekstur málsins að það sé ótvírætt að orsakir skemmda vélarinnar sé að rekja til niðursetningar hennar en ekki vélarinnar sjálfrar og byggir þá á mati hinna dómkvöddu matsmanna. Sé þessi röksemdafærsla stefnanda ekki fallin til þess að auka trúverðugleika málatilbúnaðar hans.
Stefnandi byggi á því að stefndi Hekla h.f. beri ábyrgð á skemmdum á vélinni á grundvelli ábyrgðarloforðs. Þessu mótmælir stefndi þar sem ábyrgðarskilmálarnir nái fyrst og fremst til sannanlegra framleiðslu- eða efnisgalla á vél. Engin gögn liggi fyrir sem renni stoðum undir staðhæfingu stefnanda um að ábyrgð á grundvelli skilmálanna eigi hér við. Stefnandi haldi því fram að í ábyrgðarloforði stefnda Heklu h.f. felist að stefndi ábyrgist að vélin hvorki bili eða skemmist innan ábyrgðartímans og að stefndi Hekla h.f. ábyrgist allar slíkar skemmdir eða bilanir gagnvart stefnanda nema saknæm háttsemi hafi verið viðhöfð af hans hálfu. Þessu er mótmælt, enda felist í skilmálanum að sá sem byggi rétt á þeim verði að sanna að þau atvik séu fyrir hendi sem leiði til ábyrgðar. Þess utan dragi stefnandi ekki réttar ályktanir um efnisleg skilyrði þess að skilmálarnir eigi við eins og sjá megi af orðalagi þeirra. Hvað sem öðru líði þá hafi stefnandi ekki reifað kröfu sína sem gallakröfu og beri því að sýkna af bótakröfu stefnanda í málinu eða a.m.k. að vísa henni frá dómi. Stefnandi reisir kröfu sína um bætur á því að þjónusta stefnda Heklu h.f. hafi verið ófullnægjandi þar sem niðursetning og frágangur vélarinnar hafi verið tekin út af stefnda og sú þjónusta væri innifalin í kaupverði og þáttur í sölu stefnda á vélinni. Haldi stefnandi því fram að með þessu hafi hann keypt sérfræðilega úttekt á frágangi vélarinnar af stefnda Heklu h.f. Þessu er mótmælt sem röngu og ósönnuðu. Í fyrsta lagi hafi ekki verið innifalið í kaupverði vélarinnar sérfræðileg úttekt á frágangi af hálfu stefnda Heklu h.f. Í þessu sambandi er vísað til 13. gr. söluþjónustu- og ábyrgðarskilmálanna er varðar Caterpillar vélasamstæður Heklu h.f., sbr. dskj. nr. 7, sem segi að stefndi Hekla h.f. annist eðlilegt eftirlit í beinu framhaldi við niðursetningu véla. Þá segi að þetta eftirlit af hálfu Heklu h.f. geti þó á engan hátt leitt til þess að Hekla h.f. sé ábyrg fyrir niðursetningu eða tjóni sem kunni að verða á vélasamstæðunni vegna mistaka eða ónákvæmrar niðursetningar og hlutverk stefnda í þessu sambandi sé aðeins eftirlitsskylda. Í 17. gr. ábyrgðarskilmálanna um ábyrgðartakmörkun sé hnykkt á þessu þar sem tekið sé fram að ábyrgðin nái ekki til niðursetningar.
Stefndi Hekla h.f. byggir á því að samkvæmt ábyrgðarskilmálunum hafi engin ábyrgð fylgt því eftirliti sem starfsmenn hans höfðu með höndum. Verði ekki fallist á þetta sjónarmið og er á það bent að sú takmarkaða ábyrgð sem stefndi hafi borið í tengslum við eftirlit og reynsluferð hafi fallið niður 18 mánuðum frá afhendingu. Þá er á því byggt að ósannað sé að aðstæður hafi verið með þeim hætti að eftirlit starfsmanna stefnda Heklu h.f. verði virt þeim til sakar. Verði svo talið þrátt fyrir allt framangreint að stefnda Hekla h.f. beri ábyrgð gagnvart stefnanda á niðursetningu vélarinnar er á því byggt að stefnanda mátti vera ljós hætta á því að vatn kæmist í vélina frá afgaslögn bátsins. Beri af þeirri ástæðu að sýkna stefnda Heklu h.f. vegna eigin sakar stefnanda eða a.m.k. lækka kröfur hans verulega.
Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda er upphafsdegi dráttarvaxta stefnanda mótmælt. Eins og málið liggi fyrir komi ekki til álita að dæma dráttarvexti fyrr en frá dómsuppsögudegi. Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda með vísan til 129. og 130. gr. laga nr. 91, 1991.
Stefndi byggir kröfur sínar á almennum reglum kröfu- og kauparéttar svo og söluþjónustu- og ábyrgðarskilmálum er varða Caterpillar vélasamstæður Heklu h.f. og meginreglur um skuldbindingagildi samninga.
Verða nú raktir framburðir aðila og vitna hér fyrir dómi svo og önnur gögn málsins er til skýringa horfa.
Stefndi, Baldur Halldórsson, skipasmiður, Hlíðarenda við Akureyri, bar að hann hafi starfað við skipasmíðar í rúm 50 ár sem skipasmiður. Hafi m/b Lundey orðið fyrir meintu brunatjóni og tryggingarfélag beðið hann um að gera við bátinn og stefnandi beðið hann að setja niður þessa vél í hann. Hafi þetta verið árið 1996 og hafi verið komið með bátinn til hans vélarlausan á verkstæði hans á Hlíðarenda. Hafi tekið á annan mánuð að setja vélina niður en hún hafi verið stærri en sú sem áður var fyrir. Mjög þröngt hafi verið um vélina í vélarrúminu og erfitt að komast að vélinni til að sinna henni, en vel hafi gengið að koma henni niður í bátinn. Hann taldi sig hafa gengið frá afgaslögn vélarinnar með fullnægjandi hætti og mótmælti niðurstöðum dómkvaddra matsmanna á dskj. nr. 9, sem hann taldi reyndar ekki kveða á um með afgerandi hætti að nokkuð hafi verið athugavert við frágang afgaslagnarinnar. Taldi hann að sjór í afgaslögninni rynni aftur í safnkút og það gengi ekki upp að sjór rynni inn á vélina um afgaslögnina. Afgastúrbína vélarinnar væri staðsett niðri á miðjum bol vélarinnar og afgastúrbínan hefði þurft að fyllast því afgaskanalar vélarinnar liggja svo upp á við frá afgastúrbínunni. Vélin hefði aldrei verið gangsett ef afgastúrbínan hefði verið full af sjó. Á vélinni hefði verið blautt sjópúst og blautt sjópúst væri varasamt og t.a.m. bætti ekki Vátryggingarfélagið Vörður sem er starfandi hér í bæ tjón sem yrði af völdum sjóraka í vélum. Hér hafi svo hagað til að báturinn væri afar grunnur þannig að lítill hæðarmunur væri þar sem afgasgreinin leiði út í safnkút. Hann kvaðst hafa lokið verkinu í nóvember 1996 og hafi gefið út reikning í desember það ár og stefnandi hafi fengið að geyma bátinn hjá honum fram yfir áramót. Hafi báturinn verið sjósettur hér á Akureyri en hann kvaðst ekki hafa verið viðstaddur úttekt Heklumanna á bátnum. Við úttektina hafi verið gerð athugasemd við leka á samsetningu á pústfestingu, hosuspennu, að því að hann taldi og hafi sonur hans lagfært þetta. Þessi athugasemd hafi komið frá Heklumönnum. Síðla vetrar 1998 hafi hann frétt af máli þessu. Sonur stefnanda hafi hringt í hann og hafi hann ætlað að starta vél og sá þá á olíukvarða að olían var gráleit. Hann kvaðst hafa spurt hvort eðlileg hæð væri á kvarðanum og honum tjáð að svo væri. Hafi stefnandi síðan hringt og staðfest það. Stefnandi kvaðst hafa þrifið vélarrúmið eins og gengur svo hafi hann hringt nokkrum sinnum í sig og hafi hann sagt að eðlileg hæð hafi verið á olíukvarðanum. Hann upplýsti að vélin væri mjög framarlega í bátnum, alveg undir stýrishúsi að hluta og afgaslögnin hafi legið þvert yfir bátinn og síðan aftur. Hann kvaðst ekki hafa mælt hallann á afgaslögninni en auðvelt hefði verið að kanna halla á afgaslögninni í vélarrúminu og engar athugasemdir hefðu verið gerðar vegna halla á lögninni. Hann upplýsti að báturinn væri plastbátur frá Mótun af Gáskagerð með beinum öxli og hálfplanandi og gengi 15-17 mílur. Hann taldi að vátryggingarfélag hefði bætt stefnanda að hluta viðgerðarkostnað á vélinni í bátnum sem ónýt var fyrir.
Stefndi lagði fram skissu af lögninni og er hún á dskj. nr. 42. Hann upplýsti að intercooler, þ.e. skolloftskælir, væri sambyggður við soggreinina. Afagaslögnin hafi ekki verið útbúin með einstefnulokum. Slíkt væri ekki gert nema hún lægi beint frá vél og út úr bát. Hér hefði afgaslögnin verið leidd aftur í safnkút og gerður á svanaháls þannig að sjór gæti ekki streymt til baka. Hann upplýsti að enginn afgasbúnaður hafi fylgt vélinni og teikningin á dskj. nr. 42 væri ekki í réttum hlutföllum heldur eingöngu skýringarskissa.
Á dskj. nr. 9 liggur fyrir eftirfarandi matsgerð þeirra Árna Björns Árnasonar og Magnúsar Þorsteinssonar dagsett á Akureyri 11. ágúst 1998.
„Skoðun var framkvæmd á Lundey ÞH-350 (Skipaskrá. nr. 6961) af Árna Birni Árnasyni (180835-2998) sem dómkvaddur var til þessa verks 29. júlí 1998 og Magnúsi Þorsteinssyni (201242-2319) er dómkvaddur var til verksins 5. ágúst 1998.
Nefnd skoðun fór fram í Húsavíkurhöfn kl. 9.00 laugardaginn 8. ágúst 1998 eftir að málsaðilum hafði verið kunngert hvenær skoðunin yrði framkvæmd.
Viðstaddir skoðunina voru Kristbjörn Árnason, skipstjóri og eigandi Lundeyjar og Jón Þorgrímsson, fulltrúi Heklu h/f. Reykjavík, sem er umboðsaðili Caterpillar vélar þeirrar sem í bátnum var.
Baldur Halldórsson, skipasmiður á Hlíðarenda, sem annaðist niðursetningu vélarinnar í bátinn, var látinn vita af skoðunartíma en hann taldi sig ekki hafa ástæður til að mæta á staðnum en kom til fundar við skoðunarmenn daginn áður en skoðun var framkvæmd og skýrði málið frá sínu sjónarmiði.
Samkvæmt dómkvaðningunni var skoðunarmönnum uppálagt að athuga eftirfarandi. „Að kanna orsakir þess að sjór komst í olíu vélar bátsins og sérstaklega hvort mistökum við niðursetningu vélarinnar sé um að kenna. Ennfremur skulu þeir athuga hvort og þá hvernig flans á skrúfuöxli sé gallaður“.
Ljóst má vera að sjór getur komist í smurolíu véla á margan hátt en í þessu tilfelli beindist athygli skoðunarmanna að afgangsbarka vélarinnar þar sem um blautpúst er að ræða, en blautpúst kallast það er sjó er dælt inn í afgangslögn til að halda lögninni kaldri og til að minnka hávaða.
Engin vél var í bátnum er skoðun fór fram en nokkuð ljóst lá þó fyrir í hvaða hæð afgasbarkinn hefur verið er hann var tengdur afgstúrbínu vélarinnar.
Til marks um það hefur barkinn verið felldur upp í dekkbita og ekki er hægt að koma honum hærra í þeim tilgangi að fá halla frá afgastúrbínunni að safnkút.
Lýsing á afgaslögninni, sem er gúmmíbarki 6“ að utanmáli, er í stórum dráttum á þessi. Frá afgastúrbínunni liggur rörið á 250 mm. kafla niður um 50 mm. og myndi þar smá vatnsgildru. Þaðan liggur barkinn nokkuð lárétt 750 mm. aftur að lestarþili, í gegn um það og 800 mm. aftur í safnkút, sem á að taka við þeim sjó, sem í rörinu kann að vera er drepið er á vélinni. Lárétti kafli lagnarinnar eru því um 1550 mm.
Ekki verður fullyrt hvort sá sjór, sem í þessari láréttu lögn er þá drepið er á vélinni, hefur náð að renna inn á afgastúrbínu vélarinnar og þaðan inn á vélina en yfirgnæfandi líkur eru þó á að svo kunni að hafa verið.
Benda má á að þrátt fyrir að smá vatnsgildra sé í hné 250 mm. frá afgastúrbínunni þá er oftar en ekki hreyfing á bátum þó að í höfn séu.
Eins og fram hefur komið var báturinn vélarlaus er skoðun fór fram en af skítarönd utan á byrðingi má ráða að hann leggst fram um ca. 50 til 100 mm. er vélin er komin um borð, sem eykur hættuna á að sjór í afgaslögninni renni fremur að vél en safnkút.
Venjan er sú við frágang slíkra afgaslagna og er hefur verið lýst, að lögnin halli frá vél að safnkút og ef kútur er ekki fyrir hendi að lögnin sjálf myndi góða vatnsgildru, sem rúmi þann sjó er í lögninni situr þá drepið er á vél.
Vert er að geta þess að frá safnkútnum liggja tveir afgasbarkar hvort upp af öðrum upp í gegn um þilfar, niður úr því aftur og aftur úr skutgafli. Frá neðri brún barkans, þar sem hann liggur hæst, og að sjólínu eru 850 mm. þannig að útilokað má telja að sjór hafi runnið inn um enda afgaslagnarinnar og inn á vélina.
Athugaður var hugsanlegur galli á öxulflangsi en enga galla var á honum að sjá né öxulbúnaði bátsins.
Eigandi bátsins, Kristbjörn Árnason, benti á við skoðun á öxulflangsi að um einhvern misskilning hlyti að vera að ræða því hann hefði beðið um skoðun á leka, sem verið hefði á óhertu tengi kælilagnar og skutpípu. Ekki var hægt að sannreyna hvort tengi þetta hafi áður en skoðun fór fram, verið óhert en ryðlitur á byrðingi undir því benti til að úr því hafi dropið.“
Á dskj. nr. 18 er bréf lögmanns stefnanda dagsett í Reykjavík 11.01.1999, þar sem beðið er um viðauka við matsgerð og stílað til matsmanna. Í bréfinu segir að þess sé farið á leit við matsmenn að þeir skoði vél bátsins og aðrar mögulegar ástæður þess að sjór komst í smurolíu bátsins og gefi að því loknu rökstutt mat á orsökum þess að sjór komst í olíu vélar m/b Lundeyjar og eyðilagði hana. Er þess farið á leit við matsmenn að allir möguleikar á því að sjór hafi komist í olíu bátsins verði metnir, svo sem hvort orsökin kunni að liggja í galla í vél eða rangri meðferð hennar. Í því skyni telur lögmaðurinn nauðsynlegt að matsmenn skoði vélina, en hún sé í vörslum Heklu h.f. og er bent á Albert Klemensson hjá Heklu h.f. til þess að hafa milligöngu á skoðun á vélinni. Til þess að meta orsakir þess að sjór komst í vélina geti einnig verið nauðsynlegt að matsmenn fái nánari og ítarlegri upplýsingar frá aðiljum matsmálsins og er matsmönnum bent á þann möguleika að leggja fyrir aðilja skriflegar spurningar um þau atriði sem máli kunna að skipta og að óska afrita nauðsynlegra gagna.
Í bréfi lögmannsins segir að það varði matsgerðina dagsetta 11. ágúst 1998 þar sem að matsmennirnir á grundvelli dómkvaðningar mátu vél bátsins Lundeyjar ÞH 350 m.a. „Orsakir þess að sjór komst í olíu vélar bátsins og sérstaklega hvort mistökum við niðursetningu vélarinnar sé um að kenna.“ Síðan segir í bréfinu að lokinni ítarlegri skoðun og öflun upplýsinga er þess óskað að matsmenn svari eftirfarandi spurningum. 1. Hver er orsök eða líklegust orsök þess að sjór komst í vél m/b Lundeyjar ÞH 350 og eyðilagði hana? 2. Telji matsmenn orsakirnar vera fleiri en eina, er þess óskað að lagt verði mat á vægi þeirra, þ.e.a.s. hver teljist meginorsök þess að vélin eyðilagðist o.s.frv.? 3. Hvert sé verðmæti vélarinnar í núverandi ástandi fyrir matsbeiðanda Kristbjörn Árnason? 4. Hver sé kostnaður við kaup á nýrri vél og niðursetningu hennar? Er þess farið á leit við matsmenn að vinnu við framkvæmd viðaukamats verði hraðað svo sem frekast er kostur.
Bréfi þessu svara matsmenn með bréfi dagsettu á Akureyri 20. janúar 1999, sbr. dskj. nr. 20. Í svarbréfi matsmannanna segir að segja megi að matsgerðin hafi ekki tekið til umfjöllunar aðkomu að vélinni er hún var tekin úr bátnum né ásigkomulag hennar eftir að búið var að rífa hana í sundur, enda búið að framkvæma þau verk er matið fór fram. Í matsgerðinni komi skýrt fram að matsmenn telji að sjór hafi komist inn á vélina frá afgaslögn og ekki hafi verið frá afgaslögninni gengið svo sem venja er til um slíkar lagnir. Samkvæmt upplýsingum umboðsaðilja er smurolíukælir vélarinnar kældur frá kápuvatni hennar, en frá sjódælu fari kælisjórinn í gírkæli, skolloftskæli, afgasgrein og út í afgaslögn vélarinnar. Engin merki sáust þess að sjór hafi staðið upp í vélarrúmi bátsins þannig að um hugsanlegan leka inn með sveifarás sé ekki að ræða. Til stuðnings þeirri niðurstöðu matsmanna að sjór hafi komist inn í vélina frá afgasröri hennar eru meðfylgjandi bréf send Grími ehf. vélsmiðju á Húsavík og Heklu h.f. í Reykjavík, til að fá skriflegar yfirlýsingar þessara aðilja um aðkomu og ástand vélarinnar er hún var tekin úr bátnum. Svarbréf þessara aðilja verði send viðkomandi aðiljum er þau berast matsmönnum.
Á dskj. nr. 21 er bréf matsmanna dagsett á Akureyri 20. janúar 1999 til Heklu h.f. c/o Alberts Klemenzsonar sölumanns sjóvéla og Jóhanns Gunnarssonar verkstjóra. Segir í bréfinu að þar sem búið var að taka vélina í sundur af starfsmönnum Heklu h.f. í Reykjavík er dómkvaðning matsmanna fór fram var eftirfarandi spurningum beint til ofangreindra starfsmanna Heklu h.f.: 1. Var sjór í afgasrein vélarinnar eða merki þess að sjór hafi komist inn í greinina? 2. Var sjór í afgasblásara vélarinnar eða merki þess að sjór hafi komist inn í afgasblásarann? 3. Voru sjáanleg merki þess að sjór hafi komist inn á ventla vélarinnar, stimpla og í smurolíu hennar? 4. Eru kælar vélarinnar sjókældir?
5. Er gúmmíhjól í sjódælu vélarinnar? 6. Þolir sjódælan að snúast eftir að skrúfað hefur verið fyrir botnkrana? 7. Hvert er verðmæti vélarinnar í núverandi ástandi? 8. Hver er kostnaður við kaup á nýrri vél og niðursetningu hennar?
Með bréfi dagsettu í Reykjavík 26. janúar 1999, sbr. dskj. nr. 22, svara þeir Jóhann Gunnarsson og Albert Klemenzson, starfsmenn Heklu h.f. bréfi matsmannanna. Upplýsa þeir að starfsmaður vélaverkstæðis Heklu h.f. Páll Theodórsson hafi farið norður til Húsavíkur þann 2. mars 1998 og skoðað vélina í bátnum. Hafi hann rifið eftirkælinn, pústgreinina og forþjöppuna af vélinni og reyndist vera sjór í pústgreininni og forþjöppunni. Spíssana tók hann úr og sá þá inn á strokkana og voru þeir mikið ryðgaðir. En spurningum matsmanna svara þeir eftirfarandi: 1. spurning. Já. 2. spurning. Já. 3. spurning. Já, ventlar og strokkar ryðgaðir og smurolían mjólkurhvít, smurolíusýni sent Fjölveri sýndi að ca. 15% sjór væri í olíunni. 4. spurning. Já. 5. spurning. Já. 6. spurning. Gúmmíhjólið skemmist ef ekki er skrúfað frá botnlokunum. 7. spurning. Áætlað verðmæti vélarinnar er 120.000 án vsk. 8. spurning. 1.250.000 án vsk. ný vél. Niðursetning áætluð 150.000 að ganga frá nýrri vél ef engu er breytt.
Með bréfi dagsettu 31. janúar 1999, sbr. dskj. nr. 23 rita matsmenn sömu starfsmönnum Heklu h.f. bréf. Segja þeir að í bréfi sínu 20. janúar s.á. hafi þeim láðst að fara fram á þrýstiprófun á skolloftskæli og afgasgrein vélarinnar, þar sem þessir hlutir eru sjókældir. Svar óskast því við eftirfarandi spurningum. 1. Er skolloftskælirinn þéttur? 2. Er afgasgreinin þétt? Svar Heklu h.f. dagsett 4. febrúar 1999 og undirritað af Jóhanni Gunnarssyni, sbr. dskj. nr. 24, er þannig varðandi spurningu 1. Skolloftskælirinn var prófaður þannig að hann var látinn liggja í heitu vatni ca. 70° C og settur 3 bar loftþrýstingur á hann reyndist hann þéttur. Spurning 2. Pústgreinin var einnig hituð upp í ca. 70° C í vatni og settur 4 bar inn á hana reyndist hún einnig vera þétt.
Þann 20. janúar 1999 rita matsmenn einnig Grími ehf. vélsmiðju, Garðarsbraut 48, Húsavík, bréf þar sem óskað er eftir að Ásgeir Kristjánsson gefi matsmönnum skrifleg svör við eftirfarandi spurningum, sbr. dskj. nr. 25.: 1. Hvers vegna var vélin tekin úr bátnum og hverjar voru orsakir þess að hún var send umboðsaðilja Heklu h.f. í Reykjavík? 2. Var sjór í afgasgrein vélarinnar er hún var losuð frá afgasröri vélarinnar? 3. Var sjór í vélarrúmi bátsins er vélin var fjarlægð úr honum eða einhver merki þess að svo hafi verið? 4. Hefur Grímur ehf. vélsmiðja annast viðhald eða viðgerðir á nefndri vél eftir að hann kom til Húsavíkur og ef svo er þá hverjar?
Svar barst matsmönnum með bréfi Gríms ehf. vélsmiðju dagsett á Húsavík 25. janúar 1999 undirritað af Ásgeiri Kristjánssyni, sbr. dskj. nr. 26 þannig: 1. spurningu er svarað þannig: Hún var tekin úr bátnum og send suður að beiðni Heklu h.f. Svar við 2. spurningu: Það var ekki skoðað. Svar við 3. spurningu: Svo var ekki að sjá. Svar við 4. spurningu: Nei það hefur ekki verið gert.
Fyrir dóminn kom sem vitni Árni Björn Árnason, verkefnisstjóri hjá Stáltaki h.f., kt. 180835-2889, Dalsgerði 7 f, Akureyri, en vitnið er vélvirkjameistari að mennt. Staðfesti hann matsgerð sína á dskj. nr. 9, svo og framangreind bréf. Vísaði hann til matsins, hann sagði greinilegt hvar pústgreinin hafi komist hæst og niðurstaða matsins væri sú að sjór hafi runnið í gegnum afgasgreinina og komist þannig í olíuna. Venjulega sé afgasgrein lögð niður frá vélinni, en þarna hafi hún nánast verið lárétt og því greið leið fyrir sjó inn í vélina. Aðspurður um aðra möguleika eða skýringu, þá væri sá möguleik að sjór hefði komist utan frá en ekki hafi verið að sjá að sjór hafi komist í vélarrúm, þannig að þetta hafi verið eina leiðin. Greinar og afgastúrbínur hafi verið þéttar þannig að ekki hafi sjór komist þá leið og ekki væri möguleiki á að sjór hafi komist frá safnkút.
Vitninu var sýnt dskj. nr. 42, taldi hann mynd stefnda Baldurs ekki í samræmi við lögnina eins og hún var og hún væri villandi og ekki rétt. Hann kvaðst halda sig við niðurstöðu matsins, að sjór hafi komið inn um pústið inn á vélina.
Aðspurður um niðurstöðu Fjölvers ehf. á dskj. nr. 35 og 36, sem sýndi að í smurolíunni var sjóblandað ferskvatn ca. 15% sjór. Ef svo væri taldi hann um hreina bilun í vélinni að ræða, en það breytti ekki skoðun vitnisins að sá sjór sem kæmi inn á vélina með pústinu væru alveg nægur til að eyðileggja vélina. Hann kvaðst aldrei hafa séð vélina. Aðspurður um öndunar rör á vélinni, þá upplýsti hann að þeir hafi ekki getað skoðað það, en hann upplýsti að hann vissi ekki hvernig að öndun væri á vélinni. Hann sagði að ryð á stimplum gæti gerst á skömmum tíma, ef sjór væri á vélarflötum þá yrðu þeir ryðslegnir eftir sólarhringinn. Aðspurður hvernig ganga ætti frá bát fyrir vetur, þá taldi hann ekki þurfa að ganga sérstaklega frá þeim ef allt væri í lagi. Taldi hann til bóta að gangsetja bátavélina reglulega, en það ætti ekki að vera neinn sjór inn á afgaslögninni. Hann kvaðst ekki hafa ástæðu til að halda að vélin hafi ekki verið í lagi. Hann taldi að auðvelt hafi verið að sjá legu afgaslagnar við úttekt á vélinni að hans mati.
Aðspurður um leka við stefnisrör að þá taldi hann það ekki skipta máli í þessu sambandi. Aðspurður um viðskipti Slippstöðvarinnar h.f., nú Stáltak h.f., sem vitnið er starfsmaður hjá, þá sagði hann að bæði stefnandi og stefndi hefðu haft góð samskipti við það fyrirtæki og kvaðst hann ekki gera upp á milli þessara aðilja.
Fyrir dóminn kom sem vitni Magnús Þorsteinsson, verkstjóri hjá Stáltaki h.f., kt. 201242-2319, Ásvegi 14, Akureyri, en vitnið er vélvirki og vélstóri að mennt. Hann staðfesti matsgerð sína og bréfaskriftir, vísaði hann til matsgerðarinnar og sagði að bleyta kæmist ekki inn á vél nema í gegnum afgasgreinina. Afgasgrein og millikælir hafi verið þrýstiprófaðir og reynst í lagi, þannig að vatn hafi ekki komist þaðan inn á vélina. Þeir hafi skoðað bátinn vélarlausan í Húsavíkurhöfn. Til þess að fá bleytu inn á afgasgrein þyrfti bátinn nánast að fylla.
Vitninu var sýnt dskj. nr. 42 og sagði hann það ekki rétta mynd af afgaslögninni. Ekki vissi vitnið um niðurstöðu Fjölvers ehf. um efnagreiningu olíunnar og magn ferskvatns í henni, en sagði þá niðurstöðu ekki breyta sinni skoðun. Hann kvaðst ekki hafa séð vélina, en ekki hafi verið merki í bátnum um að leki hafi komið að honum. Hann taldi skynsamlegt að gangsetja bátavél öðru hverju.
Fyrir dóminn kom sem vitni Leifur Ólafsson, verkstæðisformaður, vélfræðingur hjá Heklu h.f., kt. 181148-7999, Álfhólsvegi 46 c, Kópavogi. Hann kvaðst hafa farið í reynsluferð á bátnum eftir niðursetningu vélarinnar. Hann kvaðst engar athugasemdir hafa gert vegna niðursetningar vélarinnar varðandi afgaslögnina og hafi allt verið lokað af, hann hafi bara séð smábút af henni. Hann kvaðst muna eftir leka sem var lagaður af stefnanda. Hafi þetta verið á barka afturí, en vitnið mundi þetta ekki nákvæmlega.
Vitninu var sýnt dskj. nr. 5 og 6. Dskj. nr. 6 Engine Delivery Service Record sagði hann vera undirritað af sér og þetta væri sent til Caterpillar verksmiðjanna sem sýndi að vélin væri komin í notkun, það er tíma og dagsetningu, þetta væri alltaf sent til verksmiðjanna. Dskj. nr. 5 kannaðist vitnið ekki við.
Vitnið kvaðst ekki þekkja reglur um halla á afgaslögnum, hann væri eingöngu að álagsprófa vélina. Prufukeyrslan hafi farið fram hér í Akureyrarhöfn, hafi hann komið 9. apríl 1997 og farið 10. s.m. og hafi unnið við bátinn, skráð alls í 24 dagvinnutíma og 11 næturvinnutíma, þ.e.a.s. frá komu til komu á verkstæði í Reykjavík. Með í reynsluför hafi verið skipstjóri á bátnum og þeir sem önnuðust niðursetningu vélarinnar hafi verið við sjósetningu bátsins. Vélin væri 420 hestöfl miðað við 2800 snúninga á mínútu, týpan 3126. Varðandi Installation manual kvaðst vitnið ekki hafa verið með svoleiðis gögn undir höndum.
Fyrir dóminn kom sem vitni Páll Theodórsson, vélvirki hjá Heklu h.f., kt. 010360-2429, Kambaseli 79, Reykjavík. Hafi hann farið til Húsavíkur þegar upp komu vandræði með vélina og komi þangað 2. mars 1998. Hafi hann verið beðinn um að líta á vélina. Hafi hann séð að smurolían var svona mjólkurlituð og hafi hann farið að athuga hvað gæti verið að. Taki hann frá pústurrör sem að kemur frá forþjöppunni eða túrbínunni og sjái að það er fullt af vatni eða sjó. Rífi hann túrbínuna frá og sjái að vatn hefur farið í pústgrein og taki hana frá og sjái að vatn hefur farið inn í ventlahús, kíki hann niður í strokklok og tekur ventlalok af. Sé þetta haugryðgað. Rífi hann eftirkælinn, túrbínu og pústgreinina og fari með til Reykjavíkur. Síðan taki Grímur ehf. vélsmiðja á Húsavík vélina úr og sendi til Reykjavíkur. Ekki mundi hann eftir neinu sérstöku í vélarrúmi, hafi hann ekki tekið eftir að það hafi fyllst af vatni eða gat ekki séð það. Aðspurður um þetta vatn í pústgreininni, þá hafi það ekki verið eðlilegt, en hann hafi enga skýringu séð á því að vatn var þarna. Hann hafi ekki mælt halla á afgaslögn, hann hafi ekki þekkingu á því.
Vitninu voru sýnt dskj. nr. 5 og 6 og kannaðist hann ekki við þau.
Hann hafi tekið sýni af smurolíu vélarinnar og hafi ekki verið frostlögur í því sýni, en frostlögur hafi verið á vélinni. Aðspurður um hæð á olíukvarða, þá hafi hún verið fullmikið fyrir ofan hámark ca. 1-2 cm. fyrir ofan hámark. Hann telur að mikið vatn hafi verið í olíunni, þar sem olían var svo hvít. Hann upplýsti að túrbínan hafi ekki verið stíf eða föst. Hann gat ekki sagt um hvort að túrbínan var ónýt, en ekki hafi verið vatn á lofthliðinni á túrbínunni.
Fyrir dóminn kom sem vitni Jóhann Gunnarsson, verkstjóri á vélaverkstæði Heklu h.f., kt. 150448-2719, Fiskakvísl 16, Reykjavík. Hann staðfesti undirritun sína á þeim bréfum er hér að framan hafa verið rakin. Telur hann að ekki hafi verið efnis- eða framleiðslugallar á vélinni, samkvæmt þessum prófunum þeirra. Aðspurður um dskj. nr. 5 segir hann það vera prentun úr skrá Heklu h.f. þar sem fram komi eigandi vélar, tegund, notkunardagur o.s.frv. Prufukeyrsla hafi verið 10. apríl 1997 og ábyrgðin þá byrjað að telja. Dskj. nr. 6 hafi verið sent til Caterpillar og vélin þá í ábyrgð hjá Caterpillarverksmiðjunum. Hann kvaðst meta vélina ónýta, stimplar ónýtir og ekki væri lausar slífar í blokkinni og svaraði ekki kostnaði að gera við hana. Vélin hefði ekki getað skemmst svona við að standa óhreyfð yfir veturinn. Í túrbínunni hefði setið sjór og vatn, túrbínan væri ca. 20-30 cm. neðan við afgasgreinarnar. Aðspurður hvaðan vatnið kæmi inn á vélina, þá segir hann pústið sjókælt, það gæti hugsanlega komið þaðan, þó varla nógu mikið sem gæti safnast í pústið, veit þetta ekki. Ryð á stimplum vegna þess að vatn hefur staðið á stimplunum, stimplarnir voru það mikið ryðgaðir, hvergi hafi verið bilun í vélinni.
Vitnið Leifur Ólafsson, verkstæðisformaður, kom aftur fyrir dóm og upplýsti að frostlögur og tæringar varnarefni hafi verið sett á vélina þegar báturinn var sjósettur.
Fyrir dóm kom vitnið Ásgeir Kristjánsson, vélvirki og verkstjóri hjá Grími ehf. vélsmiðju á Húsavík, kt. 050853-4899, Baldursbrekku 5, Húsavík. Vitnið staðfesti bréf sitt á dskj. nr. 26. Hvergi kvaðst hann hafa séð að sjór hafi komist í bátinn og vissi ekki til þess að báturinn hafi fyllst af sjó veturinn 1997-1998.
Dskj. nr. 45 er teiknað af vitninu ásamt þeim sem að tók vélina úr bátnum og sýnir afgaslögnina eins og hún var við vélina. En samkvæmt teikningunni er gatið fyrir pústbarkann 7,5 cm. hærra en neðri brún úttaks á pústgrein. Er nýja vélin var sett niður þá hafi hann lagt pústbarkann í 45° niður frá forþjöppu strax. Maður að nafni Finnbogi hafi komið frá Heklu h.f. og hafi verið viðstaddur þegar nýja vélin var sett niður í bátinn. Hann kvaðst ekki hafa séð leiðbeiningar frá Heklu h.f., hvernig eigi að ganga frá afgaslögn, en telur nauðsynlegt að hafa beygju á lögninni.
Fyrir dóminn kom sem vitni Jón Gíslason, sjómaður, kt. 190457-5089, Baughóli 35, Húsavík, en vitnið er tengdasonur stefnanda. Aðspurður hvernig eftirliti hans hafi verið háttað á bátnum í Húsavíkurhöfn 1997 til 1998 sagði hann að vél bátsins hafi verið sett í gang á 10-14 daga fresti þegar vitnið var heima og stefnandi hafi verið á sjó. Vélin hafi verið sett reglulega í gang og ekki hafi hann vitað til að vatn kæmi í vélarrúm bátsins. Hafi báturinn verið gangsettur af öðrum, vitnið upplýsti að hann hafi verið á sjó á frystiskipi, vélin hafi alltaf rokið í gang. Hafi hann litið á olíukvarða og hafi aldrei merkt neitt óeðlilegt. Hann hafi verið á sjó þegar að þetta kom upp á, ekki vissi hann hver sá um að gangsetja bátinn þegar hann var ekki við. Ekki mundi hann hvenær hann mældi olíuna en hann hafi litið á kvarðann. Hann hafi gangsett vélina þegar hann var í landi. Ekki vissi hann hve oft var tékkað á olíu, hann hafi gert það einu sinni og kvaðst hafa unnið við vélar alla sína tíð, en vera próflaus.
Fyrir dóminn kom stefnandi Kristbjörn Árnason, skipstjóri á m/s Sigurði VE-15, kt. 180837-2059, með lögheimili að Illugagötu 7, Vestmannaeyjum.
Hann bar að eftir að þeir hættu að róa 1997 um vorið var gengið frá bátnum við bryggju á Húsavík og hafi hann látið fylgjast með honum. Vélin hafi verið sett í gang öðru hvoru til að hlaða uppá geyma. Hafi hann fengið menn í þetta þegar hann var ekki sjálfur heima og alltaf sett í gang minna en tvisvar í mánuði og það hafi verið fylgst með öllu, lokað fyrir og gengið frá öllu. Hann verði ekki var við að neitt séð að fyrr en hann fer að skipta um olíu á vélinni 1998. Hafi hann verið að fara til Kanaríeyja og vildi hafa allt klárt áður en sonur hans færi að róa bátnum. Setji hann vélina í gang rétt áður en hann fór suður og hringi hann í Albert hjá Heklu h.f. sem seldi honum vélina sem biðji hann um sýni af olíunni og fari hann með það daginn eftir til Heklu h.f. Hann kveðst hafa skipt um olíu á vélinni og hafi það verið 27-30 lítrar. Hafi hann ekkert séð athugavert við gömlu olíuna þegar hann skipti. Fannst olían ekki eins og eðlileg, fannst hún hálf gráleit, fannst hún vera frekar dökk -slabb-, á vélina hafi verið sett ný olía og ný sía. Setji hann í gang með nýju olíunni og þá sé allt í lagi. Athugi hann síðan olíuna áður en hann fari til Kanaríeyja einum til tveimur dögum eftir olíuskiptin og sjái þá að olían er gráleit eftir að vélin var sett í gang í seinna skiptið en hún hafi verið gangsett tvisvar eftir olíuskiptin. Olían hafi verið eins og hálf þeytt og hafi hann tekið sýni og hafi látið Albert hafa sýnið eins og áður greinir. Hafi hann fengið niðurstöðu eftir einhverja daga og hafi þá verð staddur á Kanaríeyjum og hafi neyðst til að fara í málaferli þessi. Varðandi olíuskiptin þá hafi þurft að skipta um olíu eftir einhvern klukkustundafjölda og sá tími hafi verið að nálgast sem hafi þurft að skipta um olíu. Ekki mundi hann hve lengi vélin var búin ganga þegar olíuskiptin fóru fram en það hafi verið komin tími á skiptin. Ekki mundi hann hvað búið var að keyra vélina mikið en Albert hjá Heklu hafi verið búinn að segja honum hvenær átti að skipta. Olíuskiptin hafi farið fram síðustu dagana í mars 1998, sennilega 26. eða 27. mars. Báturinn hafi þá verið búinn standa í tæpt ár óhreyfður í höfninni á Húsavík. Hann hafi heyrt að í olíunni hafi verið um 15% sjór og að megnið af vatninu í olíunni hafi verið hreint vatn. Ekki vissi hann neina skýringu á hversvegna þetta var en svo sem áður getur hafi hann sett vélina tvisvar sinnum í gang eftir olíuskiptin. Hann hafi ekki haldið véladagbók. Hann kveðst ekki hafa látið vélina pústa út þegar hann drap á henni. Varðandi gömlu olíuna þá hafi hann skoðað hana ósköp lítið þeim hafi ekki fundist hún falleg, verið frekar gráleit. Eftir að vélin var tekin úr bátunum þá hafi þrifið upp úr bátnum. Hann hafi þvegið hann hátt og lágt.
Samkvæmt vottorði Fiskistofu á dskj. nr. 27 dags. 19. mars 1999 þá landaði m/b Lundey afla á Húsavík á tímabilinu 18. apríl til og með 25. apríl 1997 úr sjö veiðiferðum. Samkvæmt dskj. nr. 32 sem er vottorð Heklu h.f. dagsett 27. janúar 2000. Þá vottast það þann 2. apríl 1998 þegar viðgerðarmaður Heklu h.f., Páll Theodórsson, kom að vélinni þá var búið að nota hana í 103 tíma samkvæmt tímamæli í mælaborði. Samkvæmt vottorði hafnarvarðarins á Húsavík dagsett 27. janúar 2000 skv. dskj. nr. 33, þá var m/b Lundey ÞH-350 sjósett þann 11.04.1997 og var við bryggju í Húsavíkurhöfn til aprílloka 1998 og var aldrei sett á land veturinn 1997-1998.
Samkvæmt dskj. nr. 35 sem er símbréf frá Fjölveri ehf. til Heklu h.f. dagsett 31. mars 1998 sem er niðurstaða rannsóknar á smurolíusýni úr Lundey ÞH, þá segir að um útlit að það sé gráleitt, vatn vol% 5,7, glýkól-próf (frostlögur) neikvætt, klóríðákvörðun (Selta) 3000 mg. Cl¯/líter, hreinn sjór inniheldur um 18900 mg. Cl¯/líter, ferskvatn um 20 mg. Cl¯/líter. Hér er því um að ræða sjóblandað ferskvatn ca. 15% sjór.
Á dskj. nr. 36 er bréf Fjölvers ehf. til Heklu h.f. dagsett 1. apríl 1998, gefur bréfið til kynna að um sé að ræða rannsókn smurolíu úr Lundey ÞH. Mælt er Glýkól próf, er það neikvætt. Vatn vol% 5,7. Klóríðákvörðun á vatni 3000 mg Cl¯/L (15%sjór). Útlit gráleit.
Samkvæmt dskj. nr. 44 sem er lýsing á Caterpillar Marine Engine 3126 kemur fram að til að fylla á smurolíukerfið þurfi 25 lítra og olíuskipti fari fram á 250 klukkustunda millibili.
Álit dómsins:
Fyrir liggur í málinu niðurstaða rannsóknar Fjölvers ehf. á smurolíusýni úr m/b Lundey ÞH-350 þar sem fram kemur að í smurolíuna hefur komist sjóblandað ferskvatn, sem innihélt um 15% sjó. Vatnið miðað við rúmmál er 5,7% og ef gengið er út frá þeirri forsendu að á vélinni hafi verið 25 lítrar af smurolíu svarar það til tæplega 1 ½ lítra af vatni. Ekki er að sjá að upplýsingar þessar hafi legið fyrir er matsmenn skiluðu matsgerð sinni þann 11. ágúst 1998, sbr. dskj. nr. 9 og framburð matsmanna hér fyrir dómi.
Þegar stefnandi skipti um smurolíu á vélinni í mars 1998 þá kvaðst hann ekkert hafa séð athugavert við gömlu olíuna, en dró síðan í land með það, fannst olían ekki eins og eðlileg, hafi fundist hún hálfgráleit, fannst hún vera frekar dökk.
Stefnandi ber að vélin hafi verið gangsett reglulega svo og tengdasonur hans, Jón Gíslason, og stefnandi ber að vélin hafi verið gangsett tvisvar eftir olíuskiptin.
Á það má fallast með matsmönnum að æskilegt hefði verið að pústbarkinn hefði myndað krappari vatnsgildru þar sem hann lá frá afgastúrbínu vélarinnar.
Taka má undir þá skoðun matsmanna að ljóst megi vera að sjór geti komið í smurolíu véla á margan hátt. Í matsgerðinni segir að ekki verði fullyrt hvort sá sjór sem sé í þessari láréttu lögn er, þá drepið er á vélinni hafi náð að renna inn á afgastúrbínu vélarinnar og þaðan inn á vélina, en yfirgnæfandi líkur séu þó á að svo kunni að hafa verið.
Hafa ber í huga að matsmenn skoða aldrei sjálfa vélina. Væri þessi tilgáta þeirra rétt þá ber að hafa í huga að stefnandi ber að hann hafi gangsett vélina reglulega eða hlutast til um að svo var gert. Við þessar gangsetningar hefði þá sjórinn úr afgaslögninni átt að renna inn á afgastúrbínu vélarinnar og upp í afgasgreinarnar og komast þannig í smurolíuna og miðað við ástand smurolíunnar eftir olíuskiptin og tvær gangsetningar hefði ástand hennar ekki átt að fara fram hjá stefnanda við olíuskiptin. Ekki styrkir það heldur bakflæðiskenningu matsmannanna að sjórinn sem kælir afgaslögnina skuli skila sér sem sjóblandað vatn í smurolíu vélarinnar.
Að þessu virtu telur dómurinn alls ósannað að tjón stefnanda verði rakið til handvammar stefnda Baldurs Halldórssonar né heldur stefnda Heklu h.f. og stefnanda hafi ekki tekist að sanna með hvaða hætti tjónið varð á vélinni.
Samkvæmt þessu ber að sýkna báða stefndu af fjárkröfum stefnanda.
Eftir atvikum þykir rétt að hver aðili um sig beri kostnað af málinu, það vill segja að málskostnaður fellur niður.
Dóm þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson héraðsdómari, ásamt meðdómsmönnunum, Sigurði Ólafs Jónssyni, vélfræðingi og bátahönnuði, og Páli Hlöðvessyni skipatæknifræðingi.
D Ó M S O R Ð :
Stefndu, Baldur Halldórsson og Hekla h.f., eru sýknuð af kröfum stefnanda Kristbjörns Árnasonar.
Málskostnaður fellur niður.