Hæstiréttur íslands

Mál nr. 409/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. ágúst 2007.

Nr. 409/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Jón Höskuldsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. c. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. júlí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. júlí 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 25. september 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 12. júlí 2007 var varnaraðili dæmdur til að sæta fangelsi í tólf mánuði vegna brots gegn 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem framið var 25. mars 2007. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. júlí 2007.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að dómurinn úrskurði að X, kt. [...], Reykjavík, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 25. september 2007, kl. 16:00 vegna ætlaðra brota gegn 244. gr., 248. gr., og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr. um­ferðar­laga nr. 50/1987, 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.

Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að kærði hafi verið handtekinn í nótt þar sem hann hafi verið að brjótast inn í bifreið og bílskúr. Embætti lögreglustjórans á höfuð­borgar­svæðinu hafi nú til rannsóknar fjölmörg mál á hendur kærða og sé ljóst að hann hafi einbeittan brotavilja og virðist ekkert lát vera á brotastarfsemi hans. Eftirfarandi mál séu til rannsóknar hjá embættinu og muni þau líklega öll sæta ákærumeðferð á næstunni:

M. 007-2007-05933:

Húsbrot, með því að hafa aðfararnótt sunnudagsins 28. janúar 2007, spennt upp glugga á [...], Reykjavík, en lagt á flótta er húsráðandi kom að honum. Kærði hafi neitað sök við skýrslutöku hjá lögreglu en niðurstaða úr rannsókn á fingraförum sem fundust á rofjárni, sem fannst í íbúðinni, hafi sýnt að kærði hafi handleikið rofjárnið.

M. 007-2007-50331:

Akstur sviptur ökurétti þriðjudaginn 3. júlí 2007. Þá hafi kærði einnig verið grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og þvag– og blóðsýni verið send í rannsókn. Niðurstöður þeirra sýni að kærði hafi verið undir áhrifum amfetamíns við aksturinn.

M. 007-2007-51832:

Varsla á 0,51. gr. af amfetamíni laugardaginn 7. júlí 2007, sem hafi fundist er lögregla hafði afskipti af bifreið sem kærði var farþegi í.

M. 007-2007-52037:

Akstur sviptur ökurétti aðfararnótt sunnudagsins 8. júlí 2007.

M. 007-2007-52076:

Akstur sviptur ökurétti sunnudaginn 8. júlí 2007. Þá hafi kærði einnig verið grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna en blóðsýni sem sent hafi verið í rannsókn sé ekki komið til baka.

Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði neitað að hafa verið ökumaður bifreiðarinnar en lögreglumennirnir hafi séð hann skipta um sæti við vinkonu sína sem að hafi setið í farþegasætinu fram í. Hún hafi játað við skýrslutöku að hafa skipt um sæti við kærða umrætt sinn. Þá hafi fundist 0,39 gr. af tóbaksblönduðu kannabisefni í farþegarými bifreiðarinnar.

M. 007-2007-53367:

Akstur, sviptur ökurétti, fimmtudaginn 12. júlí s.l. Ekkert saknæmt hafi fundist í bifreiðinni.

M. 007-2007-53681:

Akstur sviptur ökurétti, föstudaginn 13. júlí s.l. Ekkert saknæmt hafi fundist í bifreiðinni.

M. 007-2007-53790:

Akstur sviptur ökurétti, laugardaginn 14. júlí s.l. Hafi kærði jafnframt verið grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna en blóð- og þvagsýni hafi ekki komið úr rannsókn. Þá hafi kærði kastað frá sér álpappír sem innhélt 0,46 gr. tóbaksblandað kannabisefni, og í farþegarými bifreiðarinnar hafi fundist 0,35 gr. af tóbaksblönduðu kannabisefni.

M. 007-2007-54013:

Akstur sviptur ökurétti, sunnudaginn 15. júlí s.l. Ekkert saknæmt hafi fundist í bifreiðinni.

M. 007-2007-54390:

Innbrot og þjófnað, með því að hafa mánudaginn 16. júlí s.l. farið inn í bifreiðina [...], sem stóð ólæst fyrir utan [...], Reykjavík, og tekið þaðan kr. 154.000, sem hafi verið í buxnavasa, sem geymdar voru í bifreiðinni, greiðslukort og farsíma.

Tilraun til fjársvika, með því að reyna að nota greiðslukort úr innbrotinu í leigubifreið sama dag.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu hafi kærði játað brotin og skilað til baka farsíma, kr. 142.000 og tveimur greiðslukortum.

M. 007-2007-54824:

Þjófnað á bensíni, mánudaginn 2. júlí s.l. með því að hafa tekið eldsneyti að fjárhæð kr. 3.738 og ekið burt án þess að greiða fyrir. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði játað að hafa verið þarna að verki, en sagst hafa ætlað að greiða fyrir eldsneytið.

M. 007-2007-55249

Akstur sviptur ökurétti, miðvikudaginn 18. júlí s.l. Ekkert saknæmt hafi fundist í bifreiðinni.

M. 007-2007-56323:

Akstur sviptur ökurétti, mánudaginn 23. júlí s.l.

M. 007-2007-56613:

Akstur sviptur ökurétti, mánudaginn 23. júlí s.l.

M. 007-2007-57078:

Akstur sviptur ökurétti, fimmtudaginn 26. júlí s.l.

M. 007-2007-57087:

Innbrot í bifreiðina [...], miðvikudaginn 25. júlí s.l. þar sem hún stóð fyrir utan [...], Reykjavík.

M. 0007-2007-57086:

Innbrot í bifreiðina [...] fimmtudaginn 26. júlí s.l. þar sem hún stóð fyrir utan Þín Verslun, við Seljabraut, Reykjavík og stolið þaðan geislaspilara, sjónauka og smámynt.

M. 007-2007-57089:

Kærði hafi verið handtekinn fimmtudaginn 26. júlí s.l. ásamt tveimur öðrum þar sem hann var nálægt bifreiðinni [...], sem tilkynnt hafði verið stolin. Er lögreglumenn höfðu afskipti af kærða kastaði hann frá sér kveikjuláslyklum í götuna. Hafi þetta verið kveikjuláslyklar að umræddri bifreið. Sagðist eigandi bifreiðarinnar sakna fartölvu sem hefði verið í bifreiðinni og að skráningarmerki bifreiðarinnar að framan hefðu verið fjarlægð. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði neitað að hafa stolið bifreiðinni en játað að hafa ekið henni að þeim stað sem hún fannst á. Kærði segist ekki vita neitt um munina úr bifreiðinni.

M. 007-2007-57879:

Akstur sviptur ökurétti, sunnudaginn 29. júlí s.l.

M. 007-2007-58014:

Varsla á ætluðu amfetamíni sunnudaginn 29. júlí s.l., efnið er ekki komið úr rannsókn.

M. 007-2007-58129:

Akstur sviptur ökurétti, mánudaginn 30. júlí s.l.

M. 007-2007-58239:

Akstur sviptur ökurétti, mánudaginn 30. júlí s.l.

M. 007-2007-58264:

Akstur sviptur ökurétti, aðfararnótt þriðjudagsins 31. júlí. Sé kærði einnig grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Tekin hafi verið blóð- og þvagsýni úr kærða og eigi þau eftir að fara í rannsókn. Þá hafi fundist ætlað amfetamín í klæðningu við framrúðu bifreiðarinnar vinstra megin. Eigi það eftir að fara í rannsókn.

M. 007-2007-58283:

Innbrot og þjófnað, með því að hafa aðfararnótt þriðjudagsins 31. júlí 2007 reynt að stela bifreiðinni [...]þar sem hún hafi staðið fyrir utan [...], Reykjavík og brotist svo inn í bílskúr við [...], Reykjavík og tekið þaðan Olympus Digital 800 myndavél í tösku. Myndavélin hafi fundist í bakpoka sem kærði hafi játað að vera eigandi að.

                Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2007, í máli nr. S-607/2007 hafi kærði verið dæmdur til 3 mánaða fangelsisrefsingar, skilorðsbundið til 2 ára, fyrir þjófnaði, fjársvik, nytjastuldi, umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot. Brotaferill kærða hafi verið nær óslitinn frá byrjun þessa árs en kærði hafi setið í síbrotagæslu frá 25. mars til 3. maí á þessu ári en þá hafi Hæstiréttur fellt úr gildi úrskurð um gæsluvarðhald með dómi nr. 228/2007. Frá byrjun júlí hafi kærði eins og að framan sé rakið enn á ný hafið innbrot og þjófnaði og auk þess ítrekað ekið bifreið sviptur ökurétti. Sé því ljóst að um sé að ræða einbeittan brotavilja kærða. Með vísan til framangreinds ferils kærða telji lögregla yfirgnæfandi líkur á því að kærði muni halda brotastarfsemi áfram fari hann frjáls ferða sinna og því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sæti dómsmeðferð.  

                    Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Hjá lögreglu eru 24 tilvik til rannsóknar þar sem kærði hefur ýmist viðurkennt að hafa gerst brotlegur, ekki muna atvik eða neitað sök. Í öllum tilvikum kemur hann við sögu. Ætluð brot kærða utan eitt eru framin á tímabilinu frá 3. júlí sl. Fyrir hendi er rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um verknaði sem geta varðað hann fangelsisrefsingu. Þá verður á því byggt að ætla megi að kærði muni halda áfram brotum meðan málum hans er ekki lokið þegar litið er til hegðunar hans sl. þrjár vikur. Eru því skilyrði c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála  uppfyllt. Samkvæmt framansögðu verður krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tekin til greina eins og hún er fram sett.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

                Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 25. september nk. kl. 16.00.