Hæstiréttur íslands
Mál nr. 127/2008
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
|
|
Fimmtudaginn 18. september 2008. |
|
Nr. 127/2008. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari) gegn Helga Sigurgeir Péturssyni(Brynjar Níelsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Börn.
X var sakfelldur fyrir brot gegn 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir að hafa haft í vörslum sínum rúmlega 24.000 ljósmyndir og 750 hreyfimyndir, sem sýndu börn á ýmsum aldri á kynferðislegan og klámfenginn hátt og voru margar myndanna mjög grófar. Taldist brot hans því stórfellt. Var X gert að sæta fangelsi í tólf mánuði, en fullnustu níu mánaða af refsingunni var frestað skilorðsbundið.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 8. febrúar 2008 af hálfu ákæruvalds sem krefst þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst aðallega að refsing verði milduð en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.
Ákærði hefur skýlaust játað að hafa framið þau brot sem honum voru gefin að sök í ákæru. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Þá hefur hann leitað aðstoðar sálfræðings vegna klámfíknar sinnar og kemur fram í vottorði sáfræðingsins að ákærði hafi vilja til að takast á við vanda sinn. Við ákvörðun refsingar verður ákærða á hinn bóginn virt til refsiþyngingar að hann hafði mjög mikið magn af barnaklámi í vörslum sínum og að hluti þess er af allra grófasta tagi og varðar mjög ung börn. Telst brot hans stórfellt í skilningi 4. mgr. 210 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 74/2006. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Þegar virt er eðli brotsins og alvarleiki þess verða ekki talin efni til að skilorðbinda refsinguna nema að hluta. Verður fullnustu níu mánaða af refsingunni frestað og falli sá hluti refsingarinnar niður að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað verða staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Helgi Sigurgeir Pétursson, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu níu mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu þessa dóms, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 244.639 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2008.
Ár 2007, þriðjudaginn 15. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 2038/2007: Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir) gegn Helga Sigurgeiri Péturssyni (Guðrún Sesselja Arnardóttir hdl.), sem tekið var til dóms í sama þinghaldi.
Málið er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 17. desember sl. á hendur ákærða, Helga Sigurgeir Péturssyni, kennitala 161262-2509, Eyjabakka 22 Reykjavík, „ fyrir kynferðisbrot:
1. Með því að hafa haft í vörslu sinni, í neðangreindum búnaði sem haldlagður var á heimili á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Myndanna aflaði ákærði sér af netinu og vistaði á neðangreindan búnað.
a) Í silfurlitaðri turntölvu af óþekktri gerð 23.937 ljósmyndir og 750 hreyfimyndir.
b) Í turntölvu af óþekktri gerð 13 ljósmyndir.
c) Í turntölvu af óþekktri gerð 480 ljósmyndir.
2. með því að hafa 6. janúar 2006 aflað sér hreyfimynda og ljósmynda, sem sýna börn á kynferðislegan og klámfengin hátt, af bandarísku heimasíðunni http://xevucagawoxuy.com. Eftir að hafa greitt fyrir aðgang að síðunni gat ákærði horft á framangreint efni í gegnum netið og hlaðið niður myndefni að vild.
3. Með því að hafa 13. júní 2006 aflað sér hreyfimyndar, sem sýnir stúlkubarn á kynferðislegan eða klámfengin hátt, af heimasíðunni www.youngvideomodels.net. Ákærði pantaði myndina með rafrænum hætti á netinu og greiddi fyrir hana með greiðslukorti en myndin komst ekki í vörslur hans.
4. Með því að hafa 1. og 5. ágúst 2006 reynt að afla sér hreyfimyndar, sem sýnir stúlkubarn á kynferðislegan og klámfenginn hátt, af heimasíðunni www.youngvideomodels.net. Ákærði pantaði myndina með rafrænum hætti á netinu og greiddi fyrir hana með greiðslukorti en myndin komst ekki í hans vörslu.
Telst háttsemi ákærða samkvæmt 1. 3. tölulið varða 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en samkvæmt 4. tölulið við 4. mgr. 210. gr hegningarlaga, sbr. 20. gr. sömu laga, sbr. 7. gr. laga nr. 39/2000, 2. gr. laga nr. 14/2002 og 2. gr. laga nr. 74/2006.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga á þremur turntölvum af óþekktri gerð.“
Ákæruvaldið hefur með yfirlýsingu í dómi fallið frá ákæruliðum 2 og 3.
Málavextir
Ákærði hefur skýlaust játað það brot sem hann er saksóttur fyrir. Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæða. Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot og hefur leitað sér sálfræðiaðstoðar til þess að vinna bug á hneigðum sínum. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Rétt er að fresta því að framkvæma refsingu þessa og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Dæma ber ákærða til þess að þola upptöku á þremur tölvum, eins og krafist er í ákæru og með heimild í því lagaákvæði sem þar er tilfært..
Loks ber að dæma ákærða til þess að greiða verjanda sínum 180.000 krónur í málsvarnarlaun, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Helgi Sigurgeir Pétursson, sæti fangelsi í 6 mánuði. Framkvæmd refsingarinnar er frestað og fellur hún niður að liðnum 3 árum haldi ákærði almennt skilorð.
Ákærði sæti upptöku á þremur turntölvum.
Ákærði greiði verjanda sínum, Guðrúnu Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanni, 180.000 krónur í málsvarnarlaun.