Hæstiréttur íslands

Mál nr. 211/2009


Lykilorð

  • Afréttur
  • Sveitarfélög


                                                        

Fimmtudaginn 4. mars 2010.

Nr. 211/2009.

Rangárþing ytra

(Karl Axelsson hrl.

Jón Jónsson hdl.)

gegn

Ásahreppi

(Páll Arnór Pálsson hrl.

Bjarni G. Björgvinsson hdl.)

Afréttur. Sveitarfélög.

Ásahreppi í Rangárvallasýslu var skipt í tvö sveitarfélög 13. janúar 1936, Á og Djúpárhrepp, nú R. Deildu aðilar um hvort skýra ætti ráðuneytisskilmála um fjárskipti milli þeirra á þann hátt að réttindum, sem tengdust Holtamannaafrétti, skyldi skipt í sömu hlutföllum og kostnaði af honum og fjallskilasjóði eða hvort beita ætti í þessum efnum þeirri skiptingu að í hlut R kæmi 5/11 og í hlut Á 6/11. Ekki yrði litið svo á að deilan tæki til beins eignarréttar að Holtamannaafrétti, sem teldist þjóðlenda samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar, heldur hvernig skipta skyldi tekjum og öðrum réttindum varðandi afréttinn, sem á hendi sveitarfélaga gætu verið. Í skilmálunum frá 1936 var eignarhlutfalla ekki getið. Í sömu skilmálum var á hinn bóginn kveðið á um hlutfallslega skiptingu tiltekinna útgjalda vegna afréttarins, 4/7 hjá Á og 3/7 hjá Djúpárhreppi. Í málinu lá ekkert fyrir, sem gæfi tilefni til að álykta að eignarhlutföll sveitarfélaganna tveggja í réttindum varðandi Holtamannaafrétt hefðu átt að vera önnur en svaraði hlutdeild þeirra í útgjöldum. Þá var óumdeilt að mannvirki sveitarfélaganna, sem reist höfðu verið á afréttinum, tilheyrðu þeim í þessum sömu hlutföllum. Í kringum 1970 komu fyrst til tekjur í tengslum við afréttinn vegna skatta og bóta fyrir spjöll á afnotaréttindum þegar framkvæmdir hófust við raforkuvirkjanir. Fjölmörg gögn, sem lágu fyrir í málinu, sýndu að 4/7  teknanna fóru til Á og 3/7 til Djúpárhrepps. Var því niðurstaða héraðsdóms staðfest og Á sýknaður af aðalkröfu R.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. apríl 2009. Hann krefst þess aðallega að viðurkennt verði að skipting á eignum, tekjum, skuldum og skuldbindingum Ásahrepps eldri, sem skipt hafi verið í tvö hreppsfélög 13. janúar 1936, sé með þeim hætti að í hlut hans komi 6/11 og í hlut stefnda 5/11, þó að undanskildum fjallskilakostnaði og fjallskilasjóði vegna Holtamannaafréttar, þar með töldum fimm tilgreindum fjallskálum og gangnamannahúsum, réttum við Hald og Þóristungur og hestagirðingum á afréttinum, sem og tekjur og gjöld af þessum eignum, sem komi að 3/7 í hlut áfrýjanda og 4/7 í hlut stefnda. Til vara krefst áfrýjandi staðfestingar héraðsdóms. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í bréfi atvinnu- og samgöngumálaráðuneytisins 13. janúar 1936, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 10. júlí 1938, var staðfest ákvörðun um skiptingu Ásahrepps í Rangárvallasýslu í tvö sveitarfélög, sem annars vegar bæri áfram sama nafn og hins vegar Djúpárhrepp. Samkvæmt bréfinu skyldi fara um fjárskipti nýju hreppanna tveggja sem hér segir: „Afréttur núverandi Ásahrepps skal vera sameign hinna nýju hreppa. Af fjallskilakostnaði, þ.e. fjallgöngur, réttaferðir, refaeyðing, báta- og sæluhúsviðhald o.fl. skal Ásahreppur bera 4/7 hluta, en Djúpárhreppur 3/7 hluta. Fjallskilasjóði skal skipta í þessum hlutföllum. Öllum öðrum eignum, skuldum og skuldbindingum sveitarsjóðsins, sem og þurfamanna framfæri hins núverandi Ásahrepps, þeim er verða þegar skiptingin fer fram, skal skipt þannig milli hinna nýju hreppa, að í hlut Ásahrepps komi 5/11 hlutar, en í hlut Djúpárhrepps komi 6/11, og eftir sama hlutfalli skal skipta sveitarþyngslum þeim, sem síðar kunna að koma og eiga rót sína í félagsskap þeim, sem hingað til hefur átt sér stað milli hinna nýju hreppa.“ Djúpárhreppur mun á árinu 2002 hafa sameinast öðrum sveitarfélögum undir heiti áfrýjanda. Í málinu deila aðilarnir um hvort skýra eigi framangreinda skilmála um fjárskipti milli þeirra á þann hátt að réttindum, sem tengjast Holtamannaafrétti, skuli skipt í sömu hlutföllum og kostnaði af honum og fjallskilasjóði eða hvort beita eigi í þessum efnum þeirri skiptingu að í hlut stefnda komi 5/11 og í hlut áfrýjanda 6/11. Eins og orðalagi dómkrafna áfrýjanda er háttað verður ekki litið svo á að deila þessi taki til beins eignarréttar að Holtamannaafrétti, sem telst þjóðlenda samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar 10. desember 2004 í máli nr. 1/2003, heldur til þess hvernig skipta skuli tekjum og öðrum réttindum varðandi afréttinn, sem á hendi sveitarfélaga geta verið.

Samkvæmt fyrrnefndu bréfi frá 13. janúar 1936 skyldi Holtamannaafréttur teljast sameign stefnda og Djúpárhrepps, en eignarhlutfalla var ekki getið. Í beinu framhaldi af því var á hinn bóginn kveðið á um hlutfallslega skiptingu tiltekinna útgjalda vegna afréttarins. Eðli máls samkvæmt verður að líta svo á að útgjöld vegna sameignar hljóti að deilast á eigendur í sömu hlutföllum og eignarhlutdeild þeirra, nema annað leiði af lögum eða samningi eigenda. Í málinu liggur ekkert fyrir, sem gefur tilefni til að álykta að eignarhlutföll sveitarfélaganna tveggja í réttindum varðandi Holtamannaafrétt hafi átt að verða önnur en sem svaraði hlutdeild þeirra í útgjöldum. Sú skýring á sér að auki stoð í því að samkvæmt bréfinu var útgjöldum ekki einum skipt í umræddum hlutföllum, heldur jafnframt fjallskilasjóði, sem þá var til. Þá er óumdeilt að mannvirki sveitarfélaganna, sem reist hafa verið á afréttinum, tilheyra þeim í sömu hlutföllum og hér um ræðir. Til þess verður jafnframt að líta að árunum kringum 1970 komu fyrst til tekjur til sveitarfélaganna í tengslum við afréttinn vegna skatta og bóta fyrir spjöll á afnotaréttindum þegar framkvæmdir hófust þar við raforkuvirkjanir. Á fundi hreppsnefndar Djúpárhrepps 9. apríl 1971 voru umræður um tillögur, sem gera ætti til hreppsnefndar Ásahrepps um hvernig haga ætti stjórn og fjármálum vegna framkvæmda annarra á Holtamannaafrétti. Um skiptingu tekna og gjalda, sem þessu tengdust, var rætt um tvo kosti, annars vegar að hún yrði í hlutföllunum 5/11 til stefnda og 6/11 til Djúpárhrepps og hins vegar 4/7 til stefnda og 3/7 til Djúpárhrepps. Í gögnum málsins verður ekki séð hvers efnis tillögur hafi endanlega orðið, en á fundi hreppsnefndar stefnda 15. sama mánaðar var fært til bókar að hún teldi sér ekki fært að ganga að tillögum Djúpárhrepps og fæli oddvita að „ganga frá samningi við Djúpárhrepp á grundvelli eignarhlutfalla hreppanna í afréttinum.“ Í málinu liggur ekki fyrir samningur milli hreppanna um þetta efni, en á hinn bóginn fjölmörg gögn, sem sýna að stefndi, sem annaðist innheimtu skatttekna þeirra beggja í tengslum við virkjanaframkvæmdir, stóð Djúpárhreppi skil á hlutdeild í þeim og var tekið berum orðum fram í kvittunum hreppsins frá árunum 1975 til 1984 að um væri að ræða 3/7 hluta þeirra. Sömu hlutföll voru og lögð til grundvallar við skiptingu sveitarfélaganna á bótum vegna landspjalla af virkjunarframkvæmdum á Holtamannaafrétti.

Að virtu framangreindu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Í ljósi þess verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Rangárþing ytra, greiði stefnda, Ásahreppi, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 16. apríl 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var öðru sinni 26. febrúar sl., er höfðað með stefnu birtri 6. júní 2007.

Stefnandi er Rangárþing ytra, kt. 520602-3050, Suðurlandsvegi 1, Hellu.

Stefndi er Ásahreppur, kt. 430169-0339, Laugalandi, Hellu.

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að viðurkennt verði með dómi að skipting á eignum, tekjum, skuldum og skuldbindingum Ásahrepps eldri, sem skipt var í tvö hreppsfélög 13. janúar 1936, sé með þeim hætti að í hlut sveitarfélagsins Rangárþings ytra komi sex elleftu (6/11) hlutar en í hlut sveitarfélagsins Ásahrepps komi fimm elleftu (5/11) hlutar, þó að undanskildum fjallskilakostnaði og fjallskilasjóði vegna Holtamannaafréttar, þar með töldum fjallskálum Þóristungna (fastanr. 219-8247) og Versala (fastanr. 219-8249 og 219-8250), gangnamannahúsum Biskupsþúfu, Illugavers og Hvanngils, réttir við Hald og við Þóristungur og hestagirðingum á afréttinum sem og tekjur og gjöld af þessum eignum, sem skiptist í hlutföllunum þrír sjöundu (3/7) hlutar Rangárþing ytra en fjórir sjöundu (4/7) hlutar Ásahreppur.

Til vara er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að skipting á eignum, tekjum, skuldum og skuldbindingum Ásahrepps eldri, sem skipt var í tvö hreppsfélög 13. janúar 1936, sé með þeim hætti að í hlut sveitarfélagsins Rangárþings ytra komi sex elleftu (6/11) hlutar en í hlut sveitarfélagsins Ásahrepps komi fimm elleftu (5/11) hlutar, þó að undanskildum Holtamannaafrétti að öllu meðtöldu, tekjum og gjöldum af honum, þ.m.t. fjallskilakostnaði og fjallskilasjóði, sem skiptist í hlutföllunum þrír sjöundu (3/7) hlutar Rangárþing ytra en fjórir sjöundu (4/7) hlutar Ásahreppur.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.

Dómur í máli þessu var kveðinn upp í héraði 11. janúar 2008 en með dómi Hæstaréttar Íslands var dómurinn ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs flutnings og dómsálagningar að nýju. Málskostnaður í Hæstarétti var felldur niður.

Málavextir.

Í samræmi við þágildandi sveitarstjórnarlög nr. 12/1927, sbr. 3. og 4. gr. laganna og að fengnu bréfi sýslumannsins í Rangárvallasýslu, dags. 27. desember 1935, erindi Ásahrepps dags. 29. nóvember sama ár og meðmælum sýslunefndarmanna Rangárvallasýslu, ákvað atvinnu-  og samgöngumálaráðuneytið að skipta Ásahreppi í tvö hreppsfélög.  Er bréf ráðuneytisins til sýslumanns dagsett 13. janúar 1936 og er birt í B-deild stjórnartíðinda árið 1938.  Var skiptingin ákveðin þannig að Kálfholtskirkjusókn með Vetleifsholtshverfi varð hreppur sér og nefndist Ásahreppur en Hábæjarkirkja með Bjóluhverfi, Ægissíðu og Rangá varð hinn hreppurinn og nefndist Djúpárhreppur, síðar stefnandi máls þessa.  Um fjárskipti hreppanna var svo ákveðið að afréttur Ásahrepps skyldi vera sameign hinna nýju hreppa. Af fjallskilakostnaði, þ.e. fjallgöngur, réttaferðir, refaeyðing, báta- og sæluhúsaviðhald o. fl. skyldi Ásahreppur bera 4/7 hluta, en Djúpárhreppur 3/7 hluta og skyldi skipta fjallskilasjóði í þessum hlutföllum.  Þá segir að öllum öðrum eignum, skuldum og skuldbindingum sveitarsjóðsins, sem og þurfamanna framfæri Ásahrepps, þeim er verða þegar skiptingin fer fram, skuli skipt þannig milli hinna nýju hreppa að í hlut Ásahrepps komi 5/11 hlutar en í hlut Djúpárhrepps komi 6/11 og eftir sama hlutfalli skuli skipta sveitarþyngslum þeim sem síðar kunna að koma og eigi rót sína í félagsskap þeim sem hingað til hafi átt sér stað milli hinna nýju hreppa.

Til grundvallar þessari skiptingu mun m.a. hafa legið tillaga nefndar sem kosin var á sérstökum hreppskilaþingsfundi 12. júní 1935.  Mun oddviti hins gamla Ásahrepps hafa unnið að undirbúningi fundarins með því að fá yfirlit yfir útsvarsupphæðir hreppsins í hinum ýmsu hlutum hans síðastliðin 5 ár á undan, fólksfjölda, fjölda búfjár, býlafjölda, fjallskilakostnað o.fl.  Lagði nefndin til að skiptingin yrði 3/7 hlutar Djúpárhreppur og 4/7 hlutar Ásahreppur.  Á fundi hreppsnefndar hins gamla Ásahrepps í nóvember 1935 var hins vegar tekin sú ákörðun að m.t.t. samandregins útsvars hreppsins næstu 5 ár á undan skyldi hreppnum skipt í hlutföllunum Djúpárhreppur 6/11 hlutar og Ásahreppur 5/11 hlutar.  Vegna mismunandi sauðfjáreignar í hreppunum á þessum tíma mun hins vegar hafa verið ákveðin sú undantekning að af fjallskilakostnaði skyldi Djúpárhreppur bera 3/7 hluta en Ásahreppur 4/7 hluta.

Að því er Holtamannaafrétt varðar mun fram yfir 1970 aðeins hafa reynt á skiptingu kostnaðar vegna fjallskila milli Djúpárhrepps og stefnda.  Eftir að virkjunarframkvæmdir hófust þar hafi sveitarfélögin farið að hafa annars konar fasteignatekjur af afréttinum.  Munu forsvarsmenn beggja sveitarfélaga á þessum tíma hafa látið það óátalið að tekjum af fasteignaskattinum væri skipt eins og um fjallskilaasjóð væri að ræða, þ.e. 3/7 Djúpárhreppur og 4/7 stefndi.  Þá munu ráðamenn Djúpárhrepps hafa látið það óátalið að öll stjórnsýsla varðandi afréttinn væri hjá stefnda en stefnandi áréttar að ekki hafi verið gert neitt samkomulag um þetta.

Fram til ársins 1970 munu málsaðilar hafa búið við skiptinguna 3/7 og 4/7 án þess að önnur nýting hafi orðið af afréttinum en sú er laut að fjallskilum.  Árið 1999 komu fram hugmyndir stefnanda um skiptinguna 5/11 og 6/11 í samræmi við framangreint bréf ráðuneytisins frá 1936.  Stefnandi heldur því fram að um 1970 hafi menn verið orðnir svo vanir skiptingunni 3/7 og 4/7 að fyrir mistök og misskilning hafi sú skipting verið látin átölulaus fram undir 1999.

Stefnandi mun hafa reynt frá árinu 2002 að fá stefnda til að viðurkenna skiptinguna 5/11 stefndi og 6/11stefnandi, þó að undanskildum fjallskilakostnaði og fjallskilasjóði vegna Holtamannaafréttar í samræmi við framangreint bréf ráðuneytisins frá 13. janúar 1936.  Hefur stefndi hafnað þessu og vísað til þess hvernig kostnaðarskipting milli sveitarfélaganna varðandi afréttinn hafi verið svo árum skiptir og ekkert liggi fyrir sem gefi tilefni til breytinga á því.  Telur stefnandi sig því knúinn til málshöfðunar þessarar, en tekið skal fram að stefnandi höfðaði mál af sama toga 6. desember 2006 en vegna ágreinings aðila um inntak kröfugerðar stefnanda var það mál fellt niður.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi reisir aðalkröfu sína á framangreindu bréfi atvinnu- og samgöngumálaráðuneytis frá 13. janúar 1936 þar sem fjallað er um hvernig skuli fara um fjárskipti hreppanna.  Af texta þeim sem birtur sé í Stjórnartíðindum að undangengnum lögmætum undirbúningi og með lögformlegum hætti og byggist á ákvörðun ráðherra að fengnum tillögum hreppsnefndar og sýslunefndar, telur stefnandi unnt að draga þrjár ályktanir.  Í fyrsta lagi að Holtamannaafréttur sé sameign beggja sveitarfélaganna, í öðru lagi að fjallskilakostnaði, þ.e. kostnaði við smölun, leitir, réttir og viðhald þeirra eigna sem beinlínis tilheyri nýtingu afréttarins, skuli skipt í hlutföllunum 3/7 Djúpárhreppur og 4/7 Ásahreppur.  Þá skuli jafnframt skipta fjallskilasjóði í þessum hlutföllum.  Í þriðja lagi að öllum öðrum eignum, skuldum og skuldbindingum skuli skipta í hlutföllunum 6/11 Djúpárhreppur og 5/11 Ásahreppur.

Krafa stefnanda um að Holtamannaafréttur skiptist í hlutföllunum 6/11 Djúpárhreppur og 5/11 stefndi, er byggð á því að þegar gamla Ásahreppi hafi verið skipt hafi hlutfallsskiptingin 3/7 Djúpárhreppur og 4/7 stefndi afmarkast við sauðfjáreign íbúa hinna nýju hreppa og rétti þeirra til að reka sauðfé sitt á beit á Holtamannaafrétt.  Hlutfallsskiptingin 6/11 Djúpárhreppur og 5/11 stefndi hafi hins vegar helgast af því að fleira fólk hafi orðið í Djúpárhreppi og útsvarshlutfall þar hærra en hjá stefnda.  Sé hlutfallaskiptingin 3/7 og 4/7 því öllum öðrum eignum, skuldum og skuldbindingum hins gamla Ásahrepps óviðkomandi, þ.á m. Holtamannaafréttur, en þær skiptist í hlutföllunum 5/11 og 6/11 með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem ráðið hafi hlutfallsskiptingunni á sínum tíma.

Stefnandi segir óumdeilt að árið 1936 hafi sveitarfélögin ekki haft aðrar tekjur eða kostnað af hinum sameiginlega afrétti en þann sem lotið hafi að hefðbundnum fjallskilum, þ.e. upprekstri til sumarbeitar fyrir sauðfé, einu þekktu og mögulegu afnot af Holtamannaafrétti á þeim tíma.  Frá þeirri tilhögun sem ákveðin hafi verið með tilliti til fjölda sauðfjár í hvoru sveitarfélaginu fyrir sig beri að gagnálykta á þann veg að allar aðrar eigur, kostnaður og tekjur skyldu skiptast í samræmi við meginreglu sem fram komi í stjórnarráðsbréfinu, þ.e. í hlutföllunum 5/11 og 6/11.  Þegar farið hafi að koma tekjur af Holtamannaafrétti án nokkurra tengsla við hefðbundin fjallskil hafi að sjálfsögðu borið að skipta þeim kostnaði í samræmi við meginregluna.  Röng framkvæmd um árabil sem að auki sýnist byggð á misskilningi geti ekki upphafið hina lögformlegu skiptingu.  Hið sama eigi við um einhliða skráningu stefnda um framtöl sín varðandi Holtamannaafrétt í eignarhlutfallinu 4/7. 

Stefnandi byggir á því að fyrir liggi lögformleg skipting eigna og skulda sveitarfélaganna sem ekki sé með nokkru móti hægt að sniðganga.  Ekki sé hægt, án þess að það styðjist við formlega og lögmæta breytingu að byggja á annarri skiptingu en skýrt komi fram í erindinu frá 1936, sem byggi á gildum lagafyrirmælum þess tíma og birt hafi verið með lögformlega réttum hætti.  Misskilningur um réttarstöðu og/eða röng framkvæmd upphefji ekki lögbundna framkvæmd mála.  Árið 1936 hafi gilt lög nr. 11/1877 um birtingu laga og tilskipana.  Í 1. gr. laganna hafi verið kveðið á um að lög og tilskipanir, hvort heldur þær væru konunglegar eða útgefnar af stjórnarráðum (opin bréf, auglýsingar, reglugerðir, erindisbréf og samþykktir o.s.frv.) væru með birtingu í Stjórnartíðindum skuldbindandi fyrir alla.  Með skiptingunni 1936 hafi með endanlegum og bindandi hætti verið kveðið á um eignarréttarlega skiptingu sveitarfélaganna tveggja.  Þeirri skiptingu, sem lúti að meðferð og varanlegri ráðstöfun eignarréttinda, verði ekki síðar rutt á grundvelli tómlætis eða venjuréttar.

Um nánari afmörkun fjallskilakostnaðar og fjallskilasjóðs vísar stefnandi sérstaklega til lögbundinna fyrirmæla, sbr. lög nr. 6/1986 og fyrirmæla fjallskilasamþykktar fyrir Rangárvallasýslu nr. 157/1990, sjá einkum fyrirmæli 44. gr. um fjallskilasjóð.  Um ráðstöfun og niðurjöfnun þess kostnaðar fari eftir undantekningarreglu 2. tl. 2. mgr. stjórnarráðsbréfsins frá 1936 í hlutföllunum 3/7 stefnandi en 4/7 stefndi.  Til þess að stefnandi njóti sannanlega alls vafa telur stefnandi rétt að þau mannvirki sem komið hafi verið fyrir á afréttinum og beinlínis tengist hefðbundnum afréttarnotum og fjallskilum, skiptist í sömu hlutföllum.  Það eigi við um fjallskála Þóristungna og Versala, gangnamannahús Biskupsþúfu, Illugavers og Hvanngils, réttir og hestagirðingar vegna Holtamannaafréttar sem og tekjur og gjöld af þessum eignum.  Allur annar kostnaður eða tekjur vegna sameiginlegra eigna og skulda skiptist hins vegar eftir meginreglunni 6/11 stefnandi og 5/11 stefndi.

Að því er varakröfu varðar vísar stefnandi til sömu málsástæðna og fram koma í rökstuðningi fyrir aðalkröfu að undanskildum þeim sem sérstaklega varða Holtamannaafrétt.

Stefnandi vísar til meginreglna eignarréttarins, lögfestra og ólögfestra.  Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 129. og 130. gr.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir á því að hann eigi 4/7 af Holtamannaafrétti eins og fram komi í öllum gögnum málsins og viðurkennt sé í öðru orðinu af stefnanda.  Stefndi byggir á því að öllum tekjum og gjöldum vegna þessarar eignar skuli skipt eftir eignarhlutföllum og gildi þá einu hvort um sé að ræða bætur fyrir landspjöll, framlög til vegagerðar, byggingu mannvirkja á vegum sveitarfélaganna, fasteignagjöld af mannvirkjum, leigutekjur af landspildum eða aðrar tekjur af fyrirtækjum og einstaklingum sem þar séu með starfsemi.  Allir þessi tekju- og gjaldaliðir tengist eigninni.  Stefndi byggir á því að Djúpárhreppur og síðar stefnandi hafi í framkvæmd viðurkennt rétt stefnda og skyldur með áratuga viðtöku greiðslna án athugasemda og geti hann ekki söðlað um og komið með nýja skoðun á því máli.  Hafi stefnandi einhvern rétt haft sé hann niður fallinn fyrir tómlæti.

Stefndi telur stefnanda misskilja nokkuð bréf ráðuneytisins frá 1936.  Ljóst sé að ráðuneytið taki afréttinn fyrst fyrir sem eign í 1. mgr. og afgreiði skiptahlutföll varðandi fjallskil o.fl. í 2. mgr. þar sem segi skýrt: „Öllum öðrum eignum....skal skipt þannig....“  Telur stefndi ljóst að allt er varði afréttinn skiptist í eignarhlutföllunum 4/7:3/7 en ráðuneytið hafi ekki getað séð fyrir allar tekjur af afréttinum, en upptalningin sé ekki tæmandi, sbr. orðalagið „o.fl.“  Þá verði skýrt ráðið af atvikum málsins að um leið og tekjur komu af Holtamannaafrétti á 7. áratugnum fóru Ásahreppur og Djúpárhreppur að skipta þeim eins og gjöldunum fram að tíma, eða í hlutföllunum 4/7:3/7.  Hafi verið sameiginlegur skilningur sveitarstjórnanna hver skiptingin ætti að vera á réttindum og skyldum sem tengdust Holtamannaafrétti, enda í fullu samræmi við texta samkomulags aðila og tilkynningar ráðuneytisins frá 1936.  Virðist tilkynningin og skipting hreppanna hafa glatast hjá hreppsnefnd Djúpárhrepps því 25. ágúst 1999 hafi oddviti kynnt bréf um skiptingu hreppanna sem fundist hafi á þjóðskjalasafni.  Hafi verið látið sem einhver ný sannindi hafi uppgötvast en reyndin hafi verið sú að öll samskipti hreppanna í áratugi hafi verið í fullu samræmi við þetta bréf, enda grundvallarskjal við skiptingu hreppanna.  Þrátt fyrir ofangreinda kynningu virðist engin hreyfing hafa komið á kostnaðarskiptingarmálið fyrr en eftir sameiningu Djúpárhrepps, Holta- og Landssveitar og Rangárvallahrepps í sveitarfélagið Rangárþing ytra árið 2002.  Engu að síður hafi verið gerður samningur milli aðila um tilhögun stjórnsýslu Holtamannaafréttar 14. febrúar 2003, þar sem fram komi að stjórnunin skuli vera hjá stefnda.  Stefndi mótmælir því að þessi samningur um framkvæmd stjórnsýslu breyti nokkru um eignarhald að svæðinu og enn síður um skiptingu eigna og annarra gæða að öðru leyti.  Þótt rætt sé um sameign að afréttinum sé hún ekki jöfn og þar sem aðeins eitt sveitarfélag geti farið með stjórnina hljóti það að koma í hlut meirihlutaeigandans að fara með stjórnsýsluvald á afréttinum. 

Stefndi byggir á því að þótt kostnaðarskipting tengist sauðfjáreign girði það ekki fyrir að eignarhaldið á afréttinum ætti að vera í sömu hlutföllum, enda hafi hann verið nýttur meira af stefnda og hafi stefndi borið meiri kostnað, mannvirkin hafi verið skráð í þessum hlutföllum, tilkynningin frá 1936 beri það með sér svo og hin huglæga afstaða og framkvæmd í áratugaraðir.

Stefndi bendir á að stefnandi hafi áður höfðað mál á hendur stefnda og hafi hann tekið til varna í málinu.  Hafi hann krafist frávísunar þess vegna óljósra krafna og vanreifunar.  Stefnandi hafi fellt málið niður en hann hafi lagt fram lítið af gögnum.  Hins vegar hafi stefndi lagt fram mörg gögn sem stefnandi leggi nú fram.  Hafi stefndi því átt mikinn þátt í að varpa ljósi á málsatvik, sem beri að meta honum í hag.  Stefndi telur hin skriflegu gögn sem lögð hafi verið fram renna stoðum undir allt sem stefndi hafi haldið fram.  Sé þar að finna áratuga framtöl á Holtamannaafrétti sem eign stefnda að 4/7 hlutum og sömuleiðis mannvirkjum þar.  Jafnframt séu gögn um skiptingu gjalda af afréttinum í nefndum hlutföllum og skiptingu tekna af honum og kvittanir frá Djúpárhreppi fyrir viðtöku á 3/7 hlutum.  Stefndi telur stefnanda hins vegar ekkert hafa fram að færa til stuðnings máli sínu annað en sérstæða túlkun á tilkynningunni frá 1936.  Eins og málið liggi fyrir sé ekkert sem stutt geti röksemdafærslu hans í málinu og verði því að sýkna stefnda af kröfum hans.

Stefndi vísar til meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi samninga, gildi loforða, samþykkis, löggerningsígildis og áhrif tómlætis.  Þá byggir stefndi á reglum sveitarstjórnarlaga um skiptingu sveitarfélaga, upphaflega lög nr. 12/1927.  Þá vísar stefndi til meginreglna eignarréttar um vörslur og innihald, svo og til óskráðra reglna eignarréttar um óskipta sameign og skiptingu arðs af slíkri eign eftir eignarhlutföllum.

Niðurstaða.

Í fyrri niðurstöðu dómsins var komist að þeirri niðurstöðu að stefndi skyldi vera sýkn af öllum kröfum stefnanda í máli þess og var málskostnaður felldur niður.  Hæstiréttur Íslands kemst að svofelldri niðurstöðu í dómi sínum 20. nóvember sl.: „Í héraðsdómsstefnu gerði aðaláfrýjandi aðalkröfu og varakröfu sem svara til sömu krafna og hann gerir fyrir Hæstarétti.  Í röksemdum fyrir niðurstöðu hins áfrýjaða dóms var ekki tekin afstaða til varakröfu aðaláfrýjanda, sem í nánar tilteknum atriðum er frábrugðin aðalkröfu hans.  Af þessum sökum verður ekki komist hjá því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til munnlegs flutnings og dómsálagningar að nýju.“ 

Ágreiningur aðila máls þessa snýst um það hvernig skipta skuli fasteigninni Holtamannaafrétti milli þeirra.  Stefnandi heldur því fram að honum beri 6/11 hlutar afréttarins en í hlut stefnda komi 5/11 hlutar.  Stefndi heldur því hins vegar fram að hann eigi 4/7 hluta af Holtamannaafrétti. Ekki virðist ágreiningur um að fjallskilakostnaði skuli skipta í hlutföllunum 4/7 hlutar stefndi og 3/7 hlutar stefnandi.

Á hreppsnefndarfundi í hinum gamla Ásahreppi sem haldinn var 17. júní 1935 var fjallað um yfirlit oddvita sem hafði verið falið að draga saman og fá yfirlit yfir útsvarsupphæðir hreppsins síðastliðin 5 ár o.fl.  Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að hagfelldustu skiptin væru þau að Háfssókn og Oddasókn yrðu hreppur sér og Kálfholtssókn sér.  Yrði Hábæjar- og Oddasókn 4/7 og Kálfholtssókn 3/7 hlutar miðað við virði sveitarinnar og fjallskilakostnað s.l. 5 ár.  Á þessum fundi virðist ekki hafa verið vikið að skiptingunni 5/11:6/11.  Á fundi hreppsnefndarinnar sem haldinn var 9. nóvember sama ár var samþykkt endanleg skipting hreppsins og jafnframt var samþykkt með vísan til samandregins yfirlits yfir útsvör síðastliðin 5 ár að eystri hreppurinn (Djúpárhreppur) bæri 6/11 hluta af byrðum hreppsins en vestari hreppurinn (Ásahreppur) 5/11 hluta.  Síðan er bókað að eftir þessum hlutföllum skiptist hreppurinn.  Síðan er bókað að eystri hreppurinn beri 3/7 hluta af fjallskilakostnaði en vestari hreppurinn 4/7 hluta.  Á grundvelli þessarar samþykktar er með bréfi atvinnu- og samgöngumálaráðuneytisins dagsettu 13. janúar 1936 mælt fyrir um skiptingu Ásahrepps í tvö hreppsfélög, Ásahrepp og Djúpárhrepp.  Skyldi afréttur þáverandi Ásahrepps vera sameign hinna nýju hreppa og af nánar skilgreindum fjallskilakostnaði skyldi Ásahreppur bera 4/7 hluta en Djúpárhreppur 3/7 hluta.  Þá skyldi skipta fjallskilasjóði í þessum hlutföllum.  Þá segir að öllum öðrum eignum, skuldum og skuldbindingum sveitarsjóðsins skuli skipta þannig að í hlut Ásahrepps komi 5/11 hlutar en í hlut Djúpárhrepps komi 6/11 hlutar.

Ekki er um það deilt að um áratugaskeið, eða eftir að sveitarfélögin fóru að fá tekjur vegna virkjanaframkvæmda á afréttinum, hefur í framkvæmd verið litið svo á að í hlut stefnda kæmu 4/7 hlutar allra tekna og í hlut stefnanda 3/7 hlutar. Forveri stefnanda virðist fyrst hafa hreyft sjónarmiðum um aðra skiptingu um 1970 þegar Holtamannaafréttur hafi fyrst farið að gefa af sér tekjur í formi fasteignagjalda, en öllum sjónarmiðum þar að lútandi mun hafa verið hafnað af þáverandi forsvarsmönnum stefnda. Á aukafundi hreppsnefndar Djúpárhrepps 25. ágúst 1999 kynnti oddviti bréf atvinnu- og samgöngumálaráðuneytis sem hann segir hafa fundist á þjóðskjalasafni.  Taldi oddviti eðlilegt að fá á hreint hvort einhvers staðar séu til heimildir um skiptingu tekna af afréttinum milli hreppanna.  

Ljóst er að árið 1936, þegar framangreind ákvörðun um fjárskipti milli hreppanna var tekin, var ekki fyrirsjáanlegt að afrétturinn gæfi af sér tekjur.  Var því ekki óeðlilegt að ekki væri vikið að tekjuskiptingu sérstaklega að því er afréttinn varðaði.  Í margnefndu bréfi er fjallað um fjárskipti milli hreppanna með þeim hætti að fyrst er fjallað um afréttinn og er hann sagður vera sameign hinna nýju hreppa.  Þá er fjallað um fjallskilakostnað af afréttinum og honum skipt í hlutföllunum 4/7 stefndi en 3/7 Djúpárhreppur, nú stefnandi.  Lýkur þar með umfjöllun um afréttinn því í næstu málsgrein er fjallað um allar aðrar eignir, skuldir og skuldbindingar og þeim skipt í hlutföllunum 5/11 stefndi og 6/11 Djúpárhreppur, nú stefnandi.  Þegar litið er til þessa og áratuga nær athugasemdalausrar framkvæmdar aðila að því er ráðstöfun tekna af afréttinum varðar, verður að telja að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á að tekjum af afréttinum beri að skipta með þeim hætti sem hann fer fram á.  Verður stefndi því sýknaður af aðalkröfu stefnanda í máli þessu.

Við munnlegan flutning málsins og í greinagerð til Hæstaréttar rökstyður stefnandi varakröfu sína með þeim hætti   hann fái ekki með nokkru móti séð hvernig unnt ætti að vera að sniðganga þá skiptingu sem varakrafan lýtur að.   Stefnandi bendir á fyrirmæli í síðari málsgrein 2. tl. í erindi atvinnu- og samgönguráðuneytisins og þá liggi fyrir að stefndi hafi um árabil sjálfur byggt ársreikninga sína á umræddri skiptingu.  Hafi af hálfu stefnda verið efnt til réttarágreinings vegna þessa, einkum vegna eignarhluta í jörðinni Réttarnesi, sbr. bókun á samráðsfundi sveitarstjórna 6. febrúar 2006.  Þá telur stefnandi að sama afstaða verði ráðin af kröfugerð stefnda í málinu, þó svo umfjöllun um grundvöll þeirrar afstöðu sé fátæklegur.  Stefndi hafi þó ekki lýst því yfir að hann fallist á varakröfuna, heldur þvert á móti eins og fram hafi komið og því sé nauðsynlegt að dæma hana að efni til fari svo ólíklega að ekki yrði á aðalkröfu stefnanda fallist.

Af greinargerð stefnda í máli þessu verður ekki ráðið að hann fjalli sérstaklega um varakröfuna og í greinargerð sinni til Hæstaréttar og í málflutningi hér fyrir dómi kemur fram að hann hafi ekki áttað sig á varakröfunni og rökum fyrir henni fyrr en við málflutning í héraði.  Stefndi telur varakröfuna óljósa og ekki ljóst hvaða eignir séu undir.  Til séu jaðareignir svo sem sérmetnar fasteignir á afréttinum sem stefndi hafi í ársreikningi talist vera eigandi að 4/7 hlutum.  Stefnandi segi Réttarnesið þar á meðal en geri ekki grein fyrir eignaskráningu nema að takmörkuðu leyti.  Stefndi taldi í greinargerð sinni fyrir Hæstarétti að réttast væri að vísa varakröfunni frá dómi.

Í síðari málsgrein 2. tl. í bréfi atvinnu og samgöngumálaráðuneytisins segir að öllum öðrum eignum, skuldum og skuldbindingum sveitarsjóðsins, sem og þurfamanna framfæri Ásahrepps, þeim er verða þegar skiptingin fer fram, skuli skipt þannig milli hinna nýju hreppa að í hlut Ásahrepps komi 5/11 hlutar en í hlut Djúpárhrepps komi 6/11 og eftir sama hlutfalli skuli skipta sveitarþyngslum þeim sem síðar kunna að koma og eigi rót sína í félagsskap þeim sem hingað til hafi átt sér stað milli hinna nýju hreppa.  Stefnandi byggir á því að skipting allra eigna og skuldbindinga eigi samkvæmt þessu að vera með þeim hætti að í hlut hans komi 6/11 hlutar en í hlut stefnda 5/11 hlutar, þó að undanskildum Holtamannaafrétti að öllu meðtöldu sem skiptist í hlutföllunum 3/7 hlutar stefnandi en 4/7 hlutar stefndi.  Með vísan til þessara skýlausu fyrirmæla hefur stefnanda að mati dómsins tekist að sýna fram á að skipting allra eigna og skulda, þó að undaskildum Holtamannaafrétti að öllu meðtöldu, skuli vera með þeim hætti og greinir í varakröfu hans og þar sem stefnda hefur ekki tekist að hnekkja röksemdum stefnanda að þessu leyti verður hún því tekin til greina.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóminn.  Dómsuppkvaðning hefur dregist vegna embættisanna dómarans en lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Ásahreppur, skal vera sýkn af aðalkröfu stefnanda, Rangárþings ytra í máli þessu.

Varakrafa stefnanda er tekin til greina og viðurkennt að skipting á eignum, tekjum, skuldum og skuldbindingum Ásahrepps eldri, sem skipt var í tvö hreppsfélög 13. janúar 1936, sé með þeim hætti að í hlut sveitarfélagsins Rangárþings ytra komi sex elleftu (6/11) hlutar en í hlut sveitarfélagsins Ásahrepps komi fimm elleftu (5/11) hlutar, þó að undanskildum Holtamannaafrétti að öllu meðtöldu, tekjum og gjöldum af honum, þ.m.t. fjallskilakostnaði og fjallskilasjóði, sem skiptist í hlutföllunum þrír sjöundu (3/7) hlutar Rangárþing ytra en fjórir sjöundu (4/7) hlutar Ásahreppur.

Málskostnaður fellur niður.