Hæstiréttur íslands

Mál nr. 552/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Útivist
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
  • Sératkvæði


                                                         

Miðvikudaginn 23. nóvember 2011.

Nr. 552/2011.

Drómi hf.

(Bjarki Már Baxter hdl.)

gegn

Herði Traustasyni

(enginn)

Kærumál. Útivist. Frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi. Sératkvæði.

D hf. krafði H um greiðslu gjaldfallinna eftirstöðva skuldabréfs, en útivist varð af hálfu hins síðarnefnda í héraði. Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi vegna vanreifunar, enda hefði málatilbúnaður D hf. verið reistur á því eingöngu að um erlent lán væri að ræða en það væri ekki í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar í sambærilegum málum. Hæstiréttur kvað D hf. reisa kröfu sína í málinu á því að skuldbinding H hefði verið ákveðin í japönskum jenum og svissneskum frönkum. Með skírskotun til þess að heiti samningsins bæri með sér að um væri að ræða skuldbindingu í erlendum myntum og enn frekar að þar væri hún nákvæmlega tilgreind í hinum erlendu gjaldmiðlum væri áðurgreind dómaframkvæmd ekki fordæmi fyrir ólögmæti skuldbindingarinnar. Í þeim málum, sem vísað hefði verið til, hefði þessu verið ólíkt farið að því leyti að þær skuldbindingar, sem krafist var efnda á, voru ekki tilgreindar í erlendum gjaldmiðlum, heldur ýmist sem tilteknar fjárhæðir í íslenskum krónum eða jafnvirði fjárhæða í íslenskum krónum er skiptast skyldu eftir tilteknum hlutföllum í tvær eða fleiri erlendar myntir. Felldi Hæstiréttur hinn kærða úrskurð úr gildi og lagði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. september 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. september 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Mál þetta var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 8. apríl 2010. Ekki var sótt þing af hálfu varnaraðila, sem þó var löglega stefnt. Málið var því að kröfu sóknaraðila tekið til dóms á þingfestingardegi í samræmi við 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991. Bar héraðsdómara að dæma málið eftir kröfum og málatilbúnaði sóknaraðila að því leyti sem samrýmanlegt var framkomnum gögnum nema gallar væru á málinu sem vörðuðu frávísun þess án kröfu. Þrátt fyrir útivist varnaraðila bar dómara ennfremur að kanna hvort lagastoð væri fyrir kröfu sóknaraðila og kemur það atriði því til skoðunar fyrir Hæstarétti.

Í forsendum hins kærða úrskurðar er talið að komist hafi verið að þeirri niðurstöðu í dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 að lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Sambærilega niðurstöðu sé að finna í dómum Hæstaréttar 14. febrúar 2011 í málum nr. 603/2010 og 604/2010,  dómum 8. mars sama ár í málum nr. 30/2011 og 31/2011 og dómi 9. júní sama ár í máli nr. 155/2011. Sé samningur sá, sem sóknaraðili reisi kröfu sína á, sambærilegur samningum sem á reyndi í áðurnefndum dómum Hæstaréttar.

Eins og greinir í forsendum fyrrgreindra dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 fer skuldbinding í erlendum gjaldmiðli ekki gegn ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt þeim er hins vegar óheimilt að binda lán eða annars konar skuldbindingu í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, svo sem tekið er fram í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til laganna. Af orðalagi ákvæðanna og lögskýringargögnum verður ráðið að við úrlausn á því, hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli eða gjaldmiðlum, verði fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skiptir einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin er tilgreind í þeim.

Málsatvikum, málsástæðum og lagarökum er nægilega lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar greinir sótti varnaraðili um lán hjá forvera sóknaraðila með „beiðni um reiknislán í erlendum myntum“ 21. september 2007. Þar kvaðst varnaraðili óska eftir að sér yrði veitt „fjölmyntareiknislán að upphæð jafnvirði ISK 2.025.253- í erlendum myntum ... sem verði samsett af eftirfarandi gjaldmiðlum: JPY 1.865.904,- og CHF 18.945,29-.“ Var orðið við þessari beiðni af forvera sóknaraðila 29. september 2007 með staðfestingu „á fjölmyntareikningsláni“ þar sem sagði meðal annars: „SPRON Verðbréf hf. lánar í formi fjölmyntareikningsláns á útgáfudegi skjals þessa í eftirfarandi myntum: JPY og CHF sbr. neðar ... JPY 1.865.904- ... CHF 18.945,29“.

Í máli þessu krefst sóknaraðili greiðslu úr hendi varnaraðila á gjaldföllnum höfuðstól lánsins samkvæmt ofangreindum samningi ásamt vöxtum og reisir kröfu sína á því að skuldbinding varnaraðila hafi verið ákveðin í japönskum jenum og svissneskum frönkum. Með skírskotun til þess að heiti lánsins ber með sér að um sé að ræða skuldbindingu í erlendum myntum og enn frekar að í beiðni um lánið er hún nákvæmlega tilgreind í hinum erlendu gjaldmiðlum og eingöngu í staðfestingu þess, eru áðurgreindir dómar Hæstaréttar ekki fordæmi fyrir ólögmæti skuldbindingarinnar. Í þeim málum, sem þar var leyst úr, var þessu ólíkt farið að því leyti að þær skuldbindingar, sem krafist var efnda á, voru ekki tilgreindar í erlendum gjaldmiðlum, heldur ýmist sem tilteknar fjárhæðir í íslenskum krónum eða jafnvirði fjárhæða í íslenskum krónum er skiptast skyldu eftir ákveðnum hlutföllum í tvær eða fleiri erlendar myntir.

Samkvæmt þessu og með vísan til dóms Hæstaréttar 3. nóvember 2011 í máli nr. 520/2011 verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar lögum samkvæmt.

Ákvörðun um málskostnað í héraði bíður efnislegrar meðferðar málsins þar, en rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

 Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Sératkvæði

Viðars Más Matthíassonar

Ég tel að í vafatilvikum verði við úrlausn á því hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum, sem bundin sé gengi erlendra gjaldmiðla, eða hvort um sé að ræða skuldbindingu í erlendum gjaldmiðli, að beita reglum um túlkun samninga. Ég er sammála meirihlutanum um að við slíka túlkun skipti mestu hvert sé efni samningsskilmálanna, en þegar það er óskýrt verði að líta til gagna og upplýsinga um tilurð samnings og framkvæmd hans þegar við á.

Að þessu gættu er ég sammála niðurstöðu meirihlutans um mat á því, hvers eðlis skuldbinding varnaraðila sé.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. september 2011.

Þetta mál, sem var dómtekið 8. apríl 2010, er höfðað af Dróma hf., kt. 710309-1670, Lágmúla 6, Reykjavík, með stefnu, birtri 8. mars 2010, á hendur Herði Traustasyni, kt. 020267-3809, Reykjavíkurvegi 22, Hafnarfirði.

Dómkröfur: Þess er krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.394.027 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. mars 2009 til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar auk virðisaukaskatts.

Málsatvik: Að sögn stefnanda óskaði stefndi eftir því að Spron Verðbréf hf. myndi veita honum reikningslán að jafnvirði 2.025.253 króna, sem næmi 18.945,29 svissneskum frönkum og 1.865.904 japönskum jenum. Þess hafi jafnframt verið óskað að jafnvirði framangreindrar fjárhæðar yrði til reiðu á reikningi, nr. 1151-26-436, 24. september 2007 og að lánið yrði skuldfært af sama reikningi í einu lagi ásamt vöxtum og kostnaði á gjalddaga lánsins 20. mars 2008.

Hinn 20. september 2007 hafi SPRON samþykkt beiðni stefnda um lánið. SPRON hafi veitt fjölmyntareikningslánið á útgáfudegi í eftirfarandi myntum og fjárhæðum miðað við kaupgengi þeirra mynta hjá Sparisjóðabanka Íslands hf. tveimur dögum fyrr:

 Mynt

Lánsfjárhæð í mynt

Kaupgengi 13.12.2006

LIBOR

Álag á LIBOR

 CHF

18.945,29

53,45

3%

 JPY

1.865.904

0,5427

3%

Fram komi í skilmálum lánsins að á gjalddaga þess sé SPRON heimilt að skuldfæra framangreindan reikning fyrir andvirði lánsins í íslenskum krónum, að viðbættum vöxtum sem miðist við sex mánaða LIBOR útlánsvexti (Bid) hverrar myntar sem lánað sé í að viðbættu 3% álagi. Vextir af láninu reiknist á grundvelli actual/360 daga eða raunverulegs dagafjölda á vaxtatímabilinu/360.

Stefndi hafi skuldbundið sig til þess að hafa til ráðstöfunar á framangreindum reikningi á gjalddaga lánsins fjárhæð í íslenskum krónum sem svari til uppgreiðslu á láninu, þ.e. höfuðstól lánsins og vexti auk afgreiðslugjalds samkvæmt gjaldskrá Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. Útreikningur á þeirri fjárhæð sem greiða skyldi á gjalddaga í íslenskum krónum skyldi miðast við sölugengi Sparisjóðabanka Íslands hf. á gjalddaga lánsins.

Í samræmi við skilmála fjölmyntareikningslánsins hafi fyrrgreindum lánsfjárhæðum í erlendum myntum verið skipt yfir í íslenskar krónur á kaupgengi þeirra hjá Sparisjóðabanka Íslands hf. 20. september 2007.

Hinn 2. apríl 2008 hafi stefndi óskað eftir því við SPRON að reikningslánið yrði framlengt. SPRON hafi samþykkt það og skyldi nýr gjalddagi lánsins verða 25. mars 2009, í stað 25. mars 2008, en þó þannig að báða þessa daga skyldi greiða vexti af láninu. Fjárhæð lánsins hafi þá skipst þannig milli mynta: JPY 582.902 og CHF 5.970,39 en framlenging lánsins hafi miðast við óbreyttar myntir. Þá hafi vaxtakjörum lánsins verið breytt á þann veg að vextir skyldu nú vera 12 mánaða LIBOR-vextir að viðbættu 5,8% álagi. Loks hafi stefndi heimilað að 25. mars 2009 yrði fjárhæðin skuld­færð ásamt vöxtum og kostnaði í einu lagi af reikningi hans nr. 1151-26-436. Í öllum framangreindum tilvikum hafi stefndi jafnframt staðfest að hann hefði verið upplýstur um og hann skilið áhrif hugsanlegra gengissveiflna á skuld hans.

Stefndi hafi lofað að greiða skuldina á gjalddaga samkvæmt framangreindu og hafi skuldbundið sig til þess að hafa til ráðstöfunar á reikningi sínum nr. 1151-26-436, á gjalddaga, fjárhæð í íslenskum krónum sem svari til uppgreiðslu lánsins, þ.e. höfuð­stóls og vaxta auk afgreiðslugjalds samkvæmt gjaldskrá. Skuldin hafi verið í vanskilum frá 25. mars 2009. Innheimtuaðgerðir hafi engan árangur borið og því sé málshöfðun þessi nauðsynleg.

Hinn 11. febrúar 2009 hafi lánið verið framselt til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. af SPRON Verðbréfum hf. Hinn 21. mars 2009 hafi Fjármálaeftirlitið vikið stjórn SPRON frá og skipað skilanefnd yfir sparisjóðinn. Hinn 23. júní 2009 hafi Héraðsdómur Reykjavíkur skipað SPRON slitastjórn, sbr. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi verið stofnað sérstakt hlutafélag, Drómi hf., stefnandi þessa máls, í eigu SPRON, sem hafi tekið við öllum eignum félagsins og jafnframt öllum tryggingarréttindum, þ.m.t. öllum veð­réttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem tengist kröfum SPRON.

Málsástæður og lagarök: Stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefnda á ákvæðum fjölmyntareikningsláns milli aðila og viðauka og á almennum reglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða og greiðslu skulda. Stefnandi byggir á því að stefndi hafi skuldbundið sig til að greiða lánið í samræmi við skilmála þess, meðal annars með því að hafa til ráðstöfunar á bankareikningi sínum, á gjalddaga þess, fjárhæð í íslenskum krónum sem svari til greiðslu lánsins, það er höfuðstóls, ásamt vöxtum og öllum kostnaði.

Gjaldfallin krafa miðist við gjalddaga 25. mars 2009. Lánið sé í svissneskum frönkum (CHF) og japönskum Jenum (JPY) og sundurliðist með eftirfarandi hætti:

Mynt

Eftirstöðvar höfuðstóls í mynt

LIBOR vextir til gjaldd. 25. 3. 2009

Samtals

Greiðsla á gjaldd. í ISK

CHF

5.970,39

530,98

6.501,37

ISK

(5.980,39 x 101,84)

ISK 608.024

(530,98 x 101,84)

ISK 54.075

(6.501,37 x 101,84)

ISK 662.099

ISK 662.099

JPY

582.902

40.919

623.821

ISK

(582.902 x 1,1733)

ISK 683.918

(40.919 x 1,1733)

ISK 48.010

(623.821 x 1,1733)

ISK 731.928

ISK 731.928

Samtals h.st. ISK

1.291.942

Samtals vextir ISK

102.085

Samtals til greiðslu á gjalddaga 25.  mars 2009

ISK 1.394.027

Kröfu sína um vexti á höfuðstól styður stefnandi við ákvæði reikningslánsins, en lánið beri sex mánaða LIBOR-vexti að viðbættu 3% álagi frá 20. september 2007 til 20. mars 2008 en 12 mánaða LIBOR-vexti að viðbættu 5,8% álagi frá 20. mars 2008 til 25. mars 2009.

Útreikningur á vöxtum og höfuðstól hverrar myntar miðist við sölugengi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. á gjalddaga lánsins 25. mars 2009. Í lok þess dags hafi skráð sölugengi svissnesks franka hjá SPRON verið 101,84 krónur og sölugengi japansks jens 1,1733 króna. Krafa stefnanda í íslenskum krónum á gjalddaga nemi 1.394.027 krónum sem sundurliðist þannig að gjaldfallinn höfuðstóll í íslenskum krónum sé 1.291.942 krónur, gjaldfallnir vextir séu 102.085 krónur, samtals 1.394.027 krónur, sem sé stefnufjárhæð þessa máls. Krafan beri vexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá gjalddaga 25. mars 2009 til greiðsludags.

Krafan um málskostnað byggi á XXI. kafla laga nr. 91/1991. Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lög­mönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þóknun sinni. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur, sbr. 10. tl. 3. mgr. 2. gr. 1. nr. 50/1988 og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Málið sé rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur samkvæmt 40. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða: Af hálfu stefnda hefur hvorki verið sótt né látið sækja þing og er honum þó löglega stefnt. Verður þá eftir 96. gr. laga nr. 91/1991 að dæma málið eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda að því leyti sem er samrýmanlegt fram komnum gögnum, nema gallar séu á málinu sem varða frávísun þess án kröfu.

Samkvæmt gögnum málsins sótti stefndi um „reiknislán í erlendum myntum“ til SPRON Verðbréfa, með skriflegri beiðni, 21. september 2007. Í beiðninni óskaði stefndi eftir því að sparisjóðurinn veitt honum „fjölmyntareiknislán að upphæð jafnvirði ISK 2.025.253“, sem skyldi standa honum til reiðu 24. september 2007. Lánsfjárhæðin skyldi mynduð af 18.945,29 svissneskum frönkum og 1.865.904 japönskum jenum og skyldu vextir vera sex mánaða LIBOR-vextir að viðbættu 3% álagi. Lánið skyldi endurgreiða 20. mars 2008 í einu lagi ásamt vöxtum og kostnaði með skuld­færslu á reikning stefnda nr. 1151-26-436. SPRON Verðbréf hf. gaf út yfirlýsingu, 20. september 2007, með fyrirsögninni „Staðfesting á fjölmyntareikningsláni“. Í yfirlýsingunni kemur meðal annars fram að sparisjóðurinn vísi til umsóknar stefnda um „reikn­ings­lán bundið erlendum gjaldmiðlum“. Einnig segir að SPRON Verðbréf hf. láni „í formi fjölmyntareikningsláns“ í svissneskum frönkum og japönskum jenum, „m.v. kaupgengi Sparisjóðabanka Íslands hf. 2 dögum fyrr“.

Mynt

Lánsfjárhæð í mynt

Kaupgengi 20. september 2007

LIBOR-vextir 20. sept. 2007

Álag á LIBOR

JPY

1.865.904

0,5427

3%

CHF

18.945,29

53,45

3%

Tekið er fram að á gjalddaga megi sparisjóðurinn skuldfæra reikning nr. 1151-26-436 „fyrir andvirði lánsins í ISK að viðbættum vöxtum…“. Þá segir að „Útreikningur í ISK mun miðast við sölugengi Sparisjóðabanka Íslands hf. (SPB) tveimur virkum dögum fyrir gjalddaga“.

Stefndi óskaði eftir því með bréfi, 2. apríl 2008, að gjalddagi lánsins yrði færður fram til 25. mars 2009. Í bréfinu er því lýst að lánið hafi verið „í upphafi jafnvirði ISK 2.002.500- en [sé] í dag með eftirfarandi stöðu mynta: JPY 582.902 og CHF 5.970,39“ og er tekið fram að framlenging miðist við óbreyttar myntir. Þá er tekið fram að vextir séu „12 mán. Libor + 5,8% álag“. Í bréfinu er tekið fram að lántakandi staðfesti að hann hafi verið upplýstur um og hann hafi fyllilega skilið að áhrif hugsanlegra gengissveiflna gætu orðið þau að heildarskuld hans „í þeim gjaldmiðlum sem lánið samanstendur af hverju sinni“ geti orðið hærri en upphafleg lánsfjárhæð. Beiðnin ber með sér að hafa verið samþykkt fyrir hönd SPRON Verðbréfa.

Í dómum Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 reyndi á það hvort samningur væri um skuldbindingu í erlendri mynt eða í íslenskum krónum og jafnframt hvort gengistrygging, væri um hana að ræða, væri heimil samkvæmt ákvæðum VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Niðurstaða Hæstaréttar, sem var samhljóða í báðum málunum, var sú að þeir samningar sem þar reyndi á væru lánasamningar um skuldbindingu í íslenskum krónum og að lög nr. 38/2001 heimiluðu ekki að lán í íslenskum krónum væru verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla.

Í dómi Hæstaréttar Íslands, 16. september 2010, í máli nr. 471/2010, var fjallað um það hvort og þá hvaða áhrif niðurstaða Hæstaréttar í framangreindum málum hefði á vexti af láni aðila, sem var veitt samkvæmt samningi hliðstæðum þeim sem fjallað var um í fyrrgreindum dómum Hæstaréttar. Niðurstaða dómsins var sú að bein og órjúfanleg tengsl væru milli ákvæðis um gengistryggingu og ákvæðis um LIBOR-vexti, þannig að óhjákvæmilegt væri að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Atvik málsins svöruðu því til þess að samið hefði verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir vextirnir væru og skyldu þeir þá, samkvæmt 4. gr. sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum.

Í dómum Hæstaréttar Íslands, 14. febrúar sl., í málum nr. 603/2010 og 604/2010 voru til umfjöllunar lánssamningar til fasteignakaupa. Niðurstaða Hæstaréttar var á þá leið að um væri að ræða lán í íslenskum krónum en ekki erlendum gjaldmiðlum. Í forsendum réttarins kemur meðal annars fram að mestu máli skipti „það efni [samningsins] að lánsfjárhæð var ákveðin í íslenskum krónum og hana bar að endurgreiða í sama gjaldmiðli“.

Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 155/2011 9. júní sl., reyndi á efni lánssamnings sem einkahlutafélag hafði gert við fjármálafyrirtæki. Ágreiningurinn laut að því hvort félagið hefði tekið lán í erlendri mynt eða í íslenskum krónum og fjárhæð þess bundin við gengi þeirra gjaldmiðla sem tilgreindir voru í samningnum. Í þeim samningi sem málið snerist um var fjárhæð lánsins tilgreind sem „jafnvirði“ tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum en í tilteknum erlendum gjaldmiðlum. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að þetta væri lán í íslenskum krónum en ekki erlendum gjaldmiðlum. Áður hafði Hæstiréttur komist að sömu niðurstöðu í dómum sem kveðnir voru upp 8. mars sl. í málum nr. 30/2011 og 31/2011.

Hér að framan er lýst ákvæðum „fjölmyntareikningsláns“ og tengdra skjala, að því marki sem skiptir máli við úrlausn þessa máls. Af gögnum málsins verður ekki ótvírætt ráðið hvort samningur aðila sé í japönskum jenum og svissneskum frönkum eða hvort lánið sé í íslenskum krónum og þá gengistryggt miðað við gengi íslenskrar krónu gagnvart þessum gjaldmiðlum. Eins og þar kemur fram sótti stefndi um lán hjá SPRON „í erlendum myntum“ en að jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum. Í beiðninni var jafnframt tekið fram að hún skyldi mynduð af tilteknum fjárhæðum í japönskum jenum og svissneskum frönkum. Sparisjóðurinn veitti stefnda lán „í formi fjölmyntareikningsláns“ í japönskum jenum og svissneskum frönkum, og eru fjárhæðir þessara mynta tilgreindar í yfirlýsingu um staðfestingu lánsins. Eru fjárhæðirnar þær sömu og fram koma í beiðni stefnda. Ekki verður hins vegar litið fram hjá því að lánsfjárhæðin var greidd inn á nánar tiltekinn reikning stefnda sem samkvæmt gögnum málsins var fyrir íslenskar krónur. Samkvæmt staðfestingunni var SPRON heimilt að skuldfæra þennan sama reikning fyrir „andvirði lánsins í ISK“, en samkvæmt beiðni um framlengingu lánsins, sem SPRON Verðbréf samþykkti, skyldi skuldfæra umræddan reikning. Samkvæmt þessu var lánsfjárhæðin ákveðin í íslenskum krónum og greidd út í þeim gjaldmiðli og hana skyldi sömuleiðis endurgreiða í íslenskum krónum. Þá var fjárhæð lánsins bundin við gengi íslenskrar krónu gagnvart japönskum jenum og svissneskum franka samkvæmt skýru ákvæði í áður nefndri yfirlýsingu.

Að mati dómsins er um að ræða sambærilegt tilvik og á reyndi í áðurnefndum dómum Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, 153/2010, 603/2010, 604/2010 og 155/2011. Er það því niðurstaða dómsins að það lán sem stefndi tók hjá stefnanda sé lán í íslenskum krónum sem gengistryggt var miðað við gengi krónunnar gagnvart japönskum jenum og svissneskum franka. Með vísan til áður nefndra dóma Hæstaréttar verður að telja gengistryggingarákvæði hans ólögmætt.

Í áðurnefndum dómi Hæstaréttar frá 16. september 2010 var því slegið föstu að slík tengsl væru milli ógilds ákvæðis um gengistryggingu og ákvæðis um LIBOR vexti að líta yrði fram hjá hinu síðarnefnda ákvæði. Eins og rakið er að framan segir í yfir­lýsingu um staðfestingu á fjölmyntareikningsláni að vextir taki mið af „6 mánaða LIBOR útlánsvöxtum …“ auk þar tilgreinds vaxtaálags. Verður að telja slík tengsl milli þessa ákvæðis samningsins og gengistryggingarákvæðis hans að einnig þetta ákvæði samningsins sé ógilt.

Skilja verður málatilbúnað stefnanda þannig að hann telji samning aðila lögmætan að öllu leyti og miðast krafa hans við það. Hvorki í stefnu né í gögnum málsins er gerð grein fyrir því hverjar séu eftirstöðvar lánsins, án tillits til áðurnefndra ákvæða um gengistryggingu og vexti. Að þessu leyti er málatilbúnaður stefnanda vanreifaður og verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi án kröfu.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Þessu máli er vísað frá dómi án kröfu.