Hæstiréttur íslands
Mál nr. 285/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Niðurfelling máls
- Málskostnaður
|
|
Þriðjudaginn 7. maí 2013. |
|
Nr. 285/2013.
|
Sýr ehf. (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) gegn Advania hf. (Kristinn Hallgrímsson hrl.) |
Kærumál. Niðurfelling máls. Málskostnaður.
Með úrskurði héraðsdóms var mál sem S ehf. hafði höfðað á hendur A hf. til greiðslu húsaleigu fellt niður svo og málskostnaður milli aðilanna. Í málinu krafðist S ehf. þess að A hf. yrði gert að greiða sér málskostnað. Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að fella niður málskostnað í málinu með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem hvorki lá fyrir efnisleg niðurstaða um þann réttarágreining sem var milli aðilanna, né væri hægt að draga ályktun af samkomulagi þeirra um greiðslu húsaleigunnar undir rekstri málsins, hvor aðilinn hefði unnið eða tapað í skilningi 130. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttur settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. apríl 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2013, þar sem mál sóknaraðila á hendur varnaraðila var fellt niður og málskostnaður milli þeirra felldur niður. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Það athugist að engin skýring liggur fyrir á því að fimm mánuðir liðu frá því að málið fór af reglulegu dómþingi til úthlutunar dómstjóra þar til dómari málsins tók það fyrir á dómþingi 5. mars 2013.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Sýr ehf., greiði varnaraðila, Advania hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2013.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 3. apríl sl., var höfðað 4. september 2012. Stefnandi er Sýr ehf., kt. 450393-2749, Höfðatúni 2, Reykjavík. Stefndi er Advania hf., kt. 590269-7199, Sætúni 10, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda voru að stefndi yrði dæmdur til að greiða stefnanda 176.970.565 kr. auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 19.251.545 kr. frá 4.11.2011 til 4.01.2012, af 38.568.382 kr. frá 4.1.2012 til 4.2.2012, af 57.955.536 kr. frá 4.2.2012 til 4.3.2012, af 77.397.939 kr. frá 4.3.2012 til 4.4.2012, af 97.036.223 kr. frá 4.4.2012 til 4.5.2012, af 116.880.433 kr. frá 4.5.2012 til 4.6.2012, af 136.880.339 kr. frá 4.6.2012 til 4.7.2012, af 156.875.226 kr. frá 4.7.2012 til 4.8.2012, en af 176.970.565 kr. frá 4.8.2012 til greiðsludags. Allt að frádregnum innborgunum er inntar voru af hendi af hálfu stefnda þann 25.11.11, samtals kr. 19.251.545, og dregst sú fjárhæð frá skuldinni m.v. stöðu hennar á innborgunardegi. Þá krafðist stefnandi málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Dómkröfur stefndu voru aðallega að hann yrði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að stefndi yrði sýknaður af öllum kröfum stefnanda að svo stöddu. Í báðum tilvikum krafðist stefndi þess að stefnanda yrði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
Í máli þessu krafðist stefnandi stefnda um greiðslu á húsaleigu á grundvelli framlagðra húsaleigusamninga. Stefndi krafðist sýknu þar sem hann taldi verulegan vafa leika á um heimild stefnanda til að krefjast leigugreiðslna vegna fasteignanna í ljósi yfirlýsingar Lýsingar hf. um riftun kaupleigusamninga um fasteignirnar við stefnanda sem leigusamningarnir eru um. Í fyrsta þinghaldi eftir að undirritaður dómari tók meðferð málsins lagði lögmaður stefnanda til að stefndi greiddi höfuðstól skuldarinnar inn á reikning Lýsingar hf. Stefnda var veittur frestur til 3. apríl sl. til að skoða þetta sáttatilboð. Þegar málið var tekið fyrir 3. apríl sl. lagði stefndi fram kvittun fyrir millifærslu hans að fjárhæð 322.960.709 krónur inn á reikning Lýsingar hf. Stefnandi krafðist niðurfellingar málsins og úrskurðar um málskostnað. Stefndi krafðist þess að málskostnaður yrði felldur niður á milli aðila. Lögmönnum aðila var gefinn kostur á að tjá sig munnlega um ágreininginn og var málið að því loknu tekið til úrskurðar.
Efnisleg niðurstaða um réttarágreininginn sem var á milli aðila liggur ekki fyrir. Af framangreindri greiðslu stefnda inn á reikning Lýsingar hf. verður heldur ekki dregin nein ályktun um það hvor aðilinn hafi með gerð fyrrgreinds samkomulags unnið eða tapað í skilningi 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaður verður því felldur niður á milli aðila með, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málið er fellt niður samkvæmt c-lið 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991.
Áslaug Björgvinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Málið er fellt niður. Málskostnaður fellur niður.