Hæstiréttur íslands

Mál nr. 399/2017

Ásta Guðjónsdóttir og Gunnlaugur I. Bjarnason (Gunnar Ingi Jóhannsson hrl.)
gegn
Rögnvaldi S. Gíslasyni, Steinvöru Eddu Einarsdóttur og Álfheimum 23, húsfélagi (sjálf)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Frestur

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu R, S og Á var frestað. Í dómi Hæstaréttar kom fram að réttmæt ástæða hefði verið til að verða við kröfu R, S og Á um frestun málsins, enda hefði hún verið reist á málaefnalegri ástæðu og frestun málsins hefði verið stillt í hóf. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júní 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2017, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að máli sóknaraðila á hendur þeim yrði frestað til 6. september 2017. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Fallast verður á með héraðsdómi að réttmæt ástæða sé til að verða við kröfu varnaraðila um frestun málsins, enda er hún reist á málefnalegri ástæðu og frestun málsins í hóf stillt. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Ásta Guðjónsdóttir og Gunnlaugur I. Bjarnason, greiði óskipt varnaraðilum, Rögnvaldi S. Gíslasyni, Steinvöru Eddu Einarsdóttur og Álfheimum 23, húsfélagi, hverju fyrir sig 125.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2017.

                Mál þetta, sem var höfðað 20. janúar sl., var tekið til úrskurðar í dag.

                Stefnendur eru Ásta Guðjónsdóttir, Álfheimum 38 í Reykjavík og Gunnlaugur I. Bjarnason, Bjargartanga 10 í Mosfellsbæ.

                Stefndu eru Rögnvaldur S. Gíslason og Steinvör Edda Einarsdóttir, bæði til heimilis að Sólheimum 43 í Reykjavík, og Álfheimar 23, húsfélag.

                Stefnendur krefjast þess að stefndu verði dæmd óskipt til að greiða þeim 20.887.195 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingu til greiðsludags. Þá krefjast þau málskostnaðar auk virðisaukaskatts.

                Stefndu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara krefjast þau sýknu af öllum kröfum stefnenda og til þrautavara stórlegrar lækkunar. Þá krefjast þau málskostnaðar verði fallist á aðal- eða varakröfu þeirra, en verði fallist á þrautavarakröfu að málskostnaður verði felldur niður.

                Málið var tekið til úrskurðar í dag að kröfu stefnenda vegna beiðni stefndu um frestun á munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu þeirra.

                Mál þetta var þingfest 31. janúar sl. Þann 30. mars sl. lögðu stefndu, sem eru ólöglærð, fram greinargerð. Stefndi Rögnvaldur er jafnframt fyrirsvarsmaður stefnda Álfheima 23, húsfélags. Við fyrirtöku málsins 28. apríl sl. lýstu stefndu því að þau hygðust afla sér lögmannsaðstoðar. Þau hefðu leitað til Daggar Pálsdóttur lögfræðings sem ætti von á því að fá lögmannsréttindi veitt að nýju fljótlega. Af hálfu lögmanns stefnanda var upplýst að hann færi í sumarfrí 10. júní nk. og þess óskað að munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefndu færi fram fyrir þann dag. Var málflutningurinn ákveðinn 6. júní sl., en frestað til dagsins í dag að beiðni dómara.

                Í gær, 7. júní, var dómara tilkynnt að beiðni Daggar Pálsdóttur lögfræðings um endurútgáfu lögmannsréttinda hefði ekki enn verið afgreidd þar sem tilteknar upplýsingar hefði vantað í gögn sem fylgdu umsókninni og þess óskað að munnlegum málflutningi yrði frestað. Dómari taldi rétt að fallast á beiðnina, enda ekki nema sólarhringur til stefnu og því ekki hægt að ætlast til þess að stefndu finndu sér nýjan lögmann sem hefði tök á því að flytja málið.

                Lögmaður stefnenda andmælti því að veittur yrði frestur í málinu og krafðist þess að málið yrði flutt eða úrskurðað um frestinn. Við fyrirtöku málsins í dag lýsti hann því að hann færi í leyfi 21. júní og málflutningur þyrfti að fara fram fyrir þann dag. Stefndu töldu sig ekki vera örugg um að geta fundið nýjan lögmann sem gæti flutt málið fyrir þann tíma, en töldu Dögg ekki hafa fengið lögmannsréttindi þá þar sem taka ætti málið fyrir á fundi Lögmannafélags Íslands 21. júní nk. Þau óskuðu því eftir fresti í tvær til þrjár vikur.

                Stefnendur kveðast hafa hagsmuni af því að málið sé rekið án ónauðsynlegra tafa. Það sé meginregla að hraða skuli málsmeðferð og krafa stefndu um frest sé ekki heimil að lögum. Ekkert sé að vanbúnaði að flytja málið um frávísunarkröfuna. Stefndu hafi upphaflega ekki haft lögmann í málinu en hafi haft frest frá því í apríl sl. til þess að finna sér lögmann. Því sé ekki hægt að fallast á að fyrirvarinn sé skammur.

                Með hliðsjón af því sem að framan greinir um aðstæður stefndu telur dómurinn að réttmæt ástæða sé til að fallast á að fyrirhuguðum málflutningi verði frestað, enda hafa engar tafir orðið á málinu fram að þessu, auk þess sem ekki verða tafir á aðalmeðferð af þessum sökum, verði frávísunarkröfu hafnað. Dómari bauð málflytjendum fyrsta mögulega tíma í sumar, en vegna fjarveru lögmanns stefnenda er ekki hægt að setja málið á dagskrá frá og með 21. júní nk. Vegna mikilla framkvæmda í dómhúsinu í sumar er óæskilegt að setja mál á dagskrá í júlí og ágúst. Er fyrsti mögulegi tími því í september. Með hliðsjón af framangreindu verður munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefndu frestað til miðvikudagsins 6. september nk. kl. 9.15 í dómsal 402.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

                                                               Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefndu, Rögnvaldar S. Gíslasonar, Steinvarar Eddu Einarsdóttur og Álfheima 23, húsfélags, er frestað til 6. september nk.