Hæstiréttur íslands

Mál nr. 600/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 24

 

Föstudaginn 24. nóvember 2006.

Nr. 600/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 var staðfestur en gæsluvarðhaldinu markaður skemmri tími.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. nóvember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 8. desember 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt lögregluskýrslu, sem er meðal gagna málsins, var varnaraðili handtekinn eftir að hafa tekið við pakka erlendis frá, en lögreglan hafði þá komið fyrir í pakkanum gerviefnum í stað fíkniefna og búnaði sem tekur upp hljóð.

Af gögnum málsins má ráða að rökstuddur grunur leiki á að varnaraðili eigi aðild að tilraun til að flytja 300 grömm af MDMA til landsins. Fram kemur af hálfu sóknaraðila að nú sé meðal annars unnið að því að afla símagagna í málinu og yfirfara þau. Varnaraðili hefur neitað að hafa vitað að fíkniefni væru í póstsendingunni og gefið skýringar á því af hverju hann var skráður móttakandi hennar. Kann rannsókn málsins á næstu dögum að varpa ljósi á hvort frásögn hans af málsatvikum teljist trúverðug. Í ljósi þess þykir rétt að marka gæsluvarðhaldi varnaraðila þann tíma sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, skal sæta gæsluvarðhaldi til mánudagsins 4. desember 2006 kl. 16.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2006.

Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. ríkis- og heimilisfang], sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 8. desember 2006, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans í Reykjavík rannsaki tilraun til innflutnings á miklu magni af fíkniefnum sem hafi fundist við leit tollgæslu í Hollandi í hraðsendingu sem hafi verið merkt kærða sem viðtakanda.  Fíkniefnin hafi verið send áfram til Íslands undir eftirliti lögreglu þar sem lagt hafi verið hald á sendinguna.  Líklegt þyki að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu hér á landi. 

Kærði hafi móttekið hraðsendinguna í gær á heimili sínu undir eftirliti lögreglu.  Hafi áfram verið haft eftirlit með húsnæðinu fram eftir degi þar til ljóst hafi verið að sendingin hafði verið opnuð en þá hafi lögreglan farið inn í húsnæðið þar sem kærði var handtekinn ásamt bróður kærða A, [kt.], og B, [kt.], sem þar var einnig staddur.  Þegar lögreglumenn fóru  inn í húsnæðið hafi þeir orðið þess varir að hinir grunuðu reyndu að losa sig við hraðsendinguna með því að koma henni þaðan út og einn hinna grunuðu, nefndur B, hafi reynt að koma sér hjá handtöku.  Kærði, A og B hafi verið yfirheyrðir í gærkvöldi.  Kærði hafi greint m.a. frá því við yfirheyrsluna að hann hafi, að beiðni B, samþykkt að vera skráður viðtakandi bögguls sem átti að innihalda bækur.  Fyrir liggi að ekki er samræmi í framburðum þeirra þriggja.  Sé nánar vísað til fyrirliggjandi framburðarskýrslna. 

Kærði þyki vera undir rökstuddum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti en svo virðist sem kærði hafi ætlað að flytja flytja fíkniefnin til landsins og móttaka efnin.  Rannsókn málsins sé á frumstigi en nauðsynlegt sé að upplýsa nánar um einstaka verknaðarþætti hinna grunuðu og meinta aðild kærða að brotinu og ætluð tengsl hans við aðra meinta vitorðsmenn, hérlendis eða erlendis.  Framundan séu frekari yfirheyrslur af vitnum og sakborningum, þ.m.t. kærða.  Nauðsynlegt sé að kærði sæti gæsluvarðhaldi en ljóst sé að gangi kærði laus geti hann sett sig í samband við meinta vitorðsmenn sem ganga lausir eða þeir geta sett sig í samband við hann eða kærði geti komið undan gögnum með sönnunargildi sem ekki hafi verið lagt hald á.  Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknarhagmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus. 

Sakarefnið sé talið varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001.  Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Kærði hefur samþykkt að sæta gæsluvarðhaldi en mótmælt tímalengd kröfunnar. Samkvæmt rannsóknargögnum liggur fyrir að kærði var handtekinn á vettvangi eftir að hafa móttekið hraðsendingu erlendis frá sem hafði að geyma fíkniefni og var merkt honum sem viðtakanda. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til rannsóknargagna verður að telja að rökstuddur grunur sé um að kærði eigi aðild að stórfelldu fíkniefnabroti sem varðað getur fangelsisrefsingu skv. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Rannsókn málsins er á frumstigi og er fallist á að brýnt sé að vernda rannsóknarhagsmuni þegar í upphafi. Samkvæmt því og með vísan í a. lið 1. mgr. 173. gr. laga nr. 19/1991 verður fallist á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um gæsluvarðhald kærða. Að því er tímalengd varðar ber að líta til þess að rannsóknin er á byrjunarstigi og málið kann að hafa tengsl við aðila erlendis. Verður því fallist á kröfuna eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

 

Úrskurðarorð :

Kærði, X, [kt., ríkis- og heimilisfang], skal sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 8. desember 2006, kl. 16:00.