Hæstiréttur íslands

Mál nr. 511/2014


Lykilorð

  • Hæfi dómara
  • Stjórnarskrá
  • Ómerking héraðsdóms


Dómsatkvæði

                                     

Miðvikudaginn 22. apríl 2015.

Nr. 511/2014.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Óttar Pálsson hrl.)

Y

(Helgi Birgisson hrl.)

Z og

(Gestur Jónsson hrl.)

Þ

(Helgi Sigurðsson hrl.)

Hæfi dómara. Stjórnarskrá. Ómerking héraðsdóms.

Hæstiréttur ómerkti héraðsdóm í sakamáli ásamt meðferð þess frá upphafi aðalmeðferðar og vísaði því heim í hérað til úrlausnar á ný, með skírskotun til þess að sérfróðan meðdómsmann í málinu brysti hæfi samkvæmt g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála vegna ummæla sem hann lét falla í viðtölum sem birt voru í útvarpi og sjónvarpi eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms. Taldi Hæstiréttur óhjákvæmilegt að virtum atvikum málsins að líta svo á að ummæli meðdómsmannsins gæfu tilefni til að draga með réttu í efa að hann hefði verið óhlutdrægur í garð ákæruvaldsins fyrir uppkvaðningu héraðsdómsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. júlí 2014 af hálfu ákæruvaldsins. Í áfrýjunarstefnu krafðist hann þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur yrði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný, en til vara að ákærðu yrðu sakfelldir fyrir þá háttsemi, sem þeim var gefin að sök í ákæru, og þeim gerð refsing. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt munnlega 13. apríl 2015 um formhlið þess. Í þessum þætti málsins krefst ákæruvaldið ómerkingar héraðsdóms, svo og að allur áfrýjunarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.

Ákærðu krefjast þess hver fyrir sitt leyti að hafnað verði kröfu ákæruvaldsins um ómerkingu hins áfrýjaða dóms.

I

Sérstakur saksóknari höfðaði mál þetta með ákæru 12. desember 2012. Í henni voru ákærðu X og Y bornir sökum um að hafa í störfum sínum hjá A hf. brotið gegn 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að fara út fyrir heimildir sínar þegar þeir hafi 8. eða 9. júlí 2008 samþykkt í sameiningu milli funda áhættunefndar bankans, sem þeir hafi meðal annarra átt sæti í, að veita B ehf. lán að fjárhæð 6.000.000.000 krónur án fullnægjandi trygginga, sem hafi verið andstætt reglum bankans um lánveitingar og markaðsáhættu. Þá var ákærði Z borinn sökum aðallega um hlutdeild í fyrrgreindu broti, sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga, til vara um hylmingu, sbr. 254. gr. sömu laga, en að því frágengnu peningaþvætti, sem varði við 264. gr. laganna. Loks var ákærði Þ sakaður um hlutdeild í áðurnefndu broti ákærðu X og Y.

Málið var þingfest í héraði 7. janúar 2013 og neituðu allir ákærðu sök. Þegar málið var tekið fyrir 12. mars 2014 upplýsti héraðsdómarinn Guðjón St. Marteinsson, sem fram að því hafði farið einn með málið, að við upphaf aðalmeðferðar tækju jafnframt sæti í dóminum Arngrímur Ísberg héraðsdómari og Sverrir Ólafsson prófessor. Ekki gerðu aðilarnir athugasemd af þessu tilefni og gekk þessi ráðagerð eftir. Aðalmeðferðinni lauk 16. maí sama ár og var málið þá dómtekið. Með hinum áfrýjaða dómi, sem kveðinn var upp 5. júní 2014, voru ákærðu allir sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins, en í dóminum var lýst séráliti annars meðdómsmannsins, Arngríms Ísberg, um að sakfella ætti ákærðu X, Y og Z samkvæmt ákæru og dæma þá til fangelsisrefsingar.

II

Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, birtust fréttir af því í útvarpi og sjónvarpi 8. júní 2014 að Sverrir Ólafsson, sem eins og fyrr segir gegndi starfi meðdómsmanns í máli þessu, væri bróðir C, sem hafi verið ákærður af sérstökum saksóknara í öðru tilteknu máli og sakfelldur í héraðsdómi, en sú sakfelling var síðar staðfest að hluta með dómi Hæstaréttar 12. febrúar 2015 í máli nr. 145/2014. Í þessum fréttaflutningi voru í þremur tilvikum birt viðtöl við sérstakan saksóknara, Ólaf Þór Hauksson, sem hafði flutt þetta mál í héraði. Í einu af þessum viðtölum var hann spurður hvort embætti hans hafi verið kunnugt um að meðdómsmaðurinn væri bróðir áðurnefnds manns og var svar hans svofellt: „Nei, slíkar upplýsingar komu ekki fram undir rekstri málsins fyrir dómi eða fyrir aðalmeðferðina.“ Saksóknarinn var þá spurður hvort hann hefði hreyft mótmælum við setu meðdómsmannsins hefði honum verið kunnugt um þessi tengsl og svaraði hann því til að hann hefði talið tilefni til að gera athugasemdir. Í framhaldi af því var svohljóðandi spurning lögð fyrir saksóknarann: „Getur dómari litið hlutlaust á málatilbúnað ákæruvaldsins ef að ákæruvaldið er saksóknaraembætti sem að hefur áður ákært bróður hans“ og svaraði hann þannig: „Það er alla veganna vert að gefa því sérstakan gaum og taka það alveg sérstaklega til skoðunar og velta því upp hvort að viðkomandi sé hæfur til þess að taka sæti í dómi undir slíkum kringumstæðum.“ Greindi fréttamaður síðan frá því að ákveðið hafi verið að áfrýja þessum dómi og var í tengslum við það haft eftir saksóknaranum að það yrði „mat ríkissaksóknara hvort vakin verði athygli á þessu fyrir Hæstarétti eða hvort krafist verði ómerkingar héraðsdóms á þessum forsendum.“ Í lokin var svo aftur skotið inn viðtali við saksóknarann, þar sem hann sagði: „En þetta lá ekki fyrir þegar að málið var rekið fyrir héraði og ég hefði talið eðlilegt að þetta hefði komið fram áður en að viðkomandi aðili tók sæti í dómnum.“ Í öðru viðtali var saksóknarinn spurður hvort meðdómsmaðurinn hefði átt að „upplýsa um þessi ættartengsl“ og kvaðst hann telja „að þetta hafi skipt máli bara með vísan til þess hver staðan var á málum dómarans.“ Aðspurður hvort hann hefði „samþykkt þessa tilnefningu dómarans“ ef honum hefði verið kunnugt um þetta sagði saksóknarinn að sér fyndust „allar líkur á því að við hefðum gert athugasemd við þetta og óskað eftir að þetta yrði kannað eitthvað frekar, sko, hvort þetta færi alveg saman.“ Benti hann síðan á að það væri á hendi ríkissaksóknara að ákveða hvort dóminum yrði áfrýjað og hvaða kröfur yrðu þá gerðar fyrir Hæstarétti.

Næsta dag, 9. júní 2014, birtust í útvarpi og sjónvarpi frekari fréttir um framangreint efni, þar sem meðal annars voru viðtöl við meðdómsmanninn. Í útvarpsfrétt var meðal annars haft eftir honum að hann tryði ekki „að sérstökum saksóknara hafi verið ókunnugt um að þeir C væru bræður.“ Sagði síðan að meðdómsmaðurinn hafi greint „aðaldómara málsins“ frá þessum tengslum, en ekki hafi verið „talin ástæða til að upplýsa sérstakan saksóknara um þau.“ Hann segði „málin tvö aðskilin og að C eigi engan þátt í D málinu.“ Hann þekkti engan þeirra fjögurra, sem hafi verið ákærðir í þessu máli, og hafi hann því ákveðið eftir umhugsun að taka starfið að sér. Var síðan eftirfarandi tekið upp úr viðtali við meðdómsmanninn: „Ég fór til dómarans, Guðjóns St. Marteinssonar, sagði honum frá tengslum mínum. Hann taldi að það væru ekki vandkvæði á því að ég tæki þetta að mér … Ég trúi því ekki í eina sekúndu að sérstakur saksóknari hafi ekki vitað af mínum tengslum strax í upphafi. Ef hann vissi ekki af mínum tengslum, þá ber það vott um afskaplega léleg og yfirborðskennd vinnubrögð. Mér finnst viðbrögð hans, sko, hæpin og mér finnst þetta bera vott um örvæntingarfullar og jafnvel óheiðarlegar aðgerðir. Og hann grípur til þeirra á erfiðum tímum þegar að trúverðugleiki hans stofnunar er eiginlega í molum.“ Í sjónvarpi birtist lík frétt, en í byrjun hennar var tekið fram að „Sverrir tilkynnti tengslin til aðaldómara málsins sem sá ekki ástæðu til að upplýsa sérstakan saksóknara um þau.“ Í þessari frétt var birtur hluti af viðtalinu við meðdómsmanninn, sem greint var frá að framan, en eftirfarandi ummælum hans einnig bætt við: „Ég trúi því fastlega að sérstakur saksóknari hafi vitað allan tímann hver ég var, hann telji það hins vegar kost að fullyrða núna að hann hafi ekki vitað það. Það laumast að mér sá grunur að saksóknari sé í rauninni að gera þetta til þess að veikja dóminn.“

Frétt birtist í dagblaði 11. júní 2014 undir fyrirsögninni: „Spilltum ekki málinu segir D-dómari“, en þar var einnig svofelld undirfyrirsögn: „Guðjón S. Marteinsson, dómsformaður í D-málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur, segir hvorki hann né sérfróðan meðdómara í málinu hafa valdið réttarspjöllum með því að upplýsa ekki sérstakan saksóknara um ættartengsl meðdómarans.“ Í fréttinni var haft eftir dómsformanninum að vegna þess starfs gætti hann að hæfi sérfróðs meðdómsmanns, en í framhaldi af því voru svofelld ummæli tekin upp eftir honum: „Það var gert eins og lög áskilja. Meðdómsmaður hefur enga tilkynningaskyldu út á við. Ef málflytjendur eru ósammála dómsformanni um hæfi meðdómsmanns geta þeir gert athugasemdir. Sé það ekki gert er ekki við dóminn að sakast.“ Í lok fréttarinnar var síðan eftirfarandi haft eftir honum: „Það er því ekki rétt sem haldið hefur verið fram að dómurinn, hér dómsformaður eða meðdómsmaður, hafi með athöfnum eða athafnaleysi valdið einhvers konar réttarspjöllum þannig að ákæruvaldið hafi ekki komið að andmælum. Ákæruvaldið á við sjálft sig hvernig það kannar bakgrunn sérfróðra meðdómsmanna. Hvað ákæruvaldið vissi eða vissi ekki er fyrir utan þessa umræðu“.

Meðal gagna, sem lögð hafa verið fram í Hæstarétti, er tölvubréf dómsformannsins í héraði 18. febrúar 2015 til ríkissaksóknara og verjenda ákærðu. Í bréfinu sagði meðal annars: „Ég varð bæði undrandi og fannst að mér vegið með ummælum sérstaks saksóknara í fjölmiðlum eftir uppsögu dómsins. Af því tilefni sendi ég hinn 10. júní 2014 stutta grein til birtingar í dagblaði. Mér þótti sanngjarnt og eðlilegt að greina ríkissaksóknara frá þessu og ræddi því við hana í síma sama dag auk þess að senda henni greinina. Sama dag ræddi ég símleiðis við sérstakan saksóknara sem kannaðist ekki við að hafa rætt bræðratengslin í símtali okkar 13. mars 2014 þótt hann kannaðist við símtalið og ýmislegt sem þar var rætt. Eftir þetta ákvað ég að birta ekki greinina enda ljóst að birtingin myndi valda miklu fjaðrafoki sem ekki væri á bætandi. Á þessum tíma gat ég hvorki séð fyrir né reiknað með því að krafa ákæruvaldsins undir áfrýjun málsins yrði ómerkingarkrafa. Ég hefði hins vegar birt greinina hefði svo verið. Það næsta sem gerðist var að ríkissaksóknari áfrýjaði og krefst ómerkingar dómsins. Sé ómerkingarkrafan byggð á hugmyndum ákæruvaldsins um vanhæfi Sverris Ólafssonar þrátt fyrir vitneskju um bræðratengslin frá upphafi og þrátt fyrir að ummæli sem Sverrir lét falla í fjölmiðlum eftir ómaklega aðdróttun sérstaks saksóknara í hans garð og raunar gegn mér einnig, en ummæli Sverris voru í raun ekki annað en eðlileg og skiljanleg mannleg viðbrögð hans, þykir mér sú krafa sæta furðu og nánast geta talist ódrengileg í þessu ljósi, enda vissi ríkissaksóknari allt um samskipti mín og sérstaks saksóknara og allt um framgöngu saksóknarans í fjölmiðlum og að Sverrir var í raun að svara ómaklegum aðdróttunum saksóknarans í sinn garð og í raun einnig í minn garð. Það sem hér hefur verið rakið eru málavextir í stórum dráttum og er rétt að allir hlutaðeigandi fái þessar upplýsingar nú.“ Í niðurlagi tölvubréfsins var vísað til þess að með því fylgdi „óbirta blaðagreinin (örlítið stytt)“, svo og bréf frá Sverri Ólafssyni, sem hann hafi heimilað að sent yrði ríkissaksóknara og verjendunum. Í óbirtu blaðagreininni, sem einnig hefur verið lögð fram í Hæstarétti, sagði meðal annars: „Í þinghaldi 12. mars 2014 greindi ég frá því hverjir tækju sæti sem meðdómsmenn við upphaf aðalmeðferðar málsins. Það var því nægur tími fyrir málflytjendur að gera athugasemdir við skipan dómsins og unnt að leysa úr því fyrir aðalmeðferðina sem hófst 3. apríl. Daginn eftir, 13. mars, hringdi sérstakur saksóknari í mig og greindi mér frá tengslum Sverris og C. Var sérstökum saksóknara greint frá því áliti mínu að ekkert skyggði á hæfi Sverris í málinu. Lauk samtalinu með því að sérstakur saksóknari kvað ákæruvaldið ekki ætla að gera athugasemd við hæfi meðdómsmannsins og var það ekki gert.“ Þá sagði meðal annars eftirfarandi í bréfi Sverris Ólafssonar til dómsformannsins, sem dagsett var 4. júlí 2014: „Það kom mér hins vegar mjög á óvart og gerði mig reiðan, sáran og hugsi þegar sérstakur saksóknari kom fram og lýsti því yfir opinberlega 8. júní 2014 að hann hefði ekki vitað af bróður tengslum mínum við C fyrr en eftir að dómur var uppkveðinn. Þú sagðir mér frá því að sérstakur saksóknari hafi hringt í þig 13. mars 2014 og greint þér frá tengslum mínum og C. Eftir að þú greindir honum frá því áliti þínu að ekkert skyggði á hæfi mitt í málinu hafi sérstakur saksóknari sagt að ákæruvaldið mundi ekki gera athugasemd við hæfi mitt og var það ekki gert. Þrátt fyrir allt þetta segist hann í dag ekkert hafa vitað um tengsl okkar C og virðist sú afstaða hafa leitt til þess að ákæruvaldið krefst þess núna að dómurinn verði ómerktur. Slíkt er með algjörum ólíkindum.“

Af hálfu ákæruvaldsins hefur í tengslum við framangreint verið lagt fram tölvubréf sérstaks saksóknara til ríkissaksóknara 18. febrúar 2015, þar sem sagði meðal annars: „Kærandinn í D málinu var slitastjórn A en fram hafði komið að meðdómarinn hafði unnið fyrir slitastjórn A í tilteknu máli. Að þessum upplýsingum fengnum taldi ég tilefni til að gera dómaranum viðvart um þau tengsl meðdómarans við kæranda málsins þannig að hægt væri að taka afstöðu til þess varðandi hæfi hans. Af því tilefni þá hringdi ég til hans sennilega 13. mars. Enn og aftur skyldleikatengsl meðdómarans við C voru ekki rædd í því símtali enda hefði ákæruvaldið þá klárlega gert athugasemd við þá skipan dómsins.“

III

Ákæruvaldið reisir kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms á því að meðdómsmaðurinn Sverrir Ólafsson hafi samkvæmt g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verið vanhæfur til að sitja í dómi í málinu. Annars vegar með því að meðdómsmaðurinn sé bróðir manns, sem hafi verið sakborningur í máli sem sérstakur saksóknari hafi haft til rannsóknar og saksóknar, en af þeim sökum séu uppi aðstæður sem fallnar séu til að draga með réttu í efa óhlutdrægni hans í þessu máli. Hins vegar hafi meðdómsmaðurinn viðhaft ummæli í fjölmiðlum eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms, sem gefi ríka ástæðu til að ætla að hann hafi áður en dómurinn gekk haft slíka afstöðu til ákærandans í málinu og stofnunarinnar sem hann stýrir að ástæða sé til að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu. Þessu öllu hafa ákærðu andmælt.

Þegar lagt er mat á hæfi dómara eftir g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 til að fara með mál verður að gæta að því að tilgangur hæfisreglna í réttarfarslögum er ekki einungis að tryggja að dómari sitji ekki í máli nema hann sé óhlutdrægur gagnvart bæði aðilum þess og efni, heldur einnig að tryggja traust aðilanna jafnt sem almennings til dómstóla með því að koma í veg fyrir að dómari standi að úrlausn máls í tilviki, þar sem réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni hans. Þá er hæfisreglum ekki ætlað það eitt að vernda rétt sakaðs manns samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér fyrir óhlutdrægum dómstóli, heldur einnig að girða fyrir að hlutdrægni gæti gagnvart ákæruvaldinu við rækslu á því lögbundna hlutverki þess að halda uppi refsivörslu ríkisins í þágu almannahagsmuna. Sé með réttu vafi um óhlutdrægni dómara er óhjákvæmilegt að hann víki sæti í máli eða ómerkt verði eftir atvikum fyrir æðra dómi úrlausn, sem hann hefur staðið að, þótt af því geti hlotist röskun á rétti aðila til að fá leyst úr máli sínu innan hæfilegs tíma.

Hér að framan voru rakin ummæli, sem meðdómsmaðurinn Sverrir Ólafsson lét falla í viðtölum sem birt voru í útvarpi og sjónvarpi 9. júní 2014. Meðal annars kvaðst hann þar ekki trúa því „í eina sekúndu“ að sérstökum saksóknara hafi ekki verið kunnugt um tengsl sín við fyrrnefndan C, auk þess sem hann tryði „því fastlega“ að saksóknarinn hafi vitað um þetta „allan tímann“ þótt hann kysi nú að fullyrða það gagnstæða. Að öðrum kosti bæri þetta „vott um afskaplega léleg og yfirborðskennd vinnubrögð“ og væru viðbrögð saksóknarans hæpin, þau bæru vott um „örvæntingarfullar og jafnvel óheiðarlegar aðgerðir“ og læddist sá grunur að meðdómsmanninum að í raun gerði saksóknarinn þetta til „að veikja dóminn.“ Með þessum ummælum vændi meðdómsmaðurinn saksóknarann um ósannsögli, óheiðarleika og aðgerðir til að vega að dómstólnum eða úrlausn hans. Ef rétt væri teldist þessi háttsemi í ljósi allra atvika stórlega ámælisverð. Síðast en ekki síst bætti svo meðdómsmaðurinn því við að saksóknarinn gripi til þessara aðgerða á erfiðum tímum þegar „trúverðugleiki hans stofnunar er eiginlega í molum.“ Þessi gildishlöðnu ummæli meðdómsmannsins verða ekki skilin öðru vísi en sem tjáning á neikvæðu viðhorfi hans til embættis sérstaks saksóknara og starfsemi þess. Fram hjá því verður ekki horft að viðtölin, þar sem framangreind ummæli meðdómsmannsins féllu, voru birt fjórum dögum eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms. Á þeim dögum hafði það vissulega gerst að saksóknarinn hafði tjáð sig við fjölmiðla um atvik, sem hann kvað sér ekki hafa áður verið kunnugt um og valdið hefðu að „allar líkur“ hefðu verið á að athugasemdir hefðu verið gerðar um hæfi meðdómsmannsins. Ummæli saksóknarans voru á hinn bóginn eins og atvikum var háttað hófsöm og gáfu ekki tilefni til slíkra viðbragða sem meðdómsmaðurinn sýndi. Mestu skiptir þó að ummæli saksóknarans gáfu ekkert tilefni til þess gildisdóms meðdómsmannsins um trúverðugleika embættis þess fyrrnefnda, sem áður var getið, og verður ekki séð að nokkuð annað hafi gerst á tímabilinu 5. til 9. júní 2014, sem gæti hafa myndað slíka skoðun meðdómsmannsins, þó svo að fyrrnefnda daginn hafi gengið annar dómur í héraði, þar sem sakborningar voru einnig sýknaðir í viðamiklu máli sem sérstakur saksóknari höfðaði. Að þessu öllu virtu er óhjákvæmilegt að líta svo á að ummæli meðdómsmannsins, sem að framan greinir, gefi hlutlægt séð tilefni til að draga með réttu í efa að hann hafi verið óhlutdrægur í garð sérstaks saksóknara fyrir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms.

Samkvæmt framansögðu verður að ómerkja hinn áfrýjaða dóm ásamt meðferð málsins í héraði frá upphafi aðalmeðferðar og vísa því til héraðsdóms til úrlausnar á ný. Í samræmi við kröfur allra málsaðila fyrir Hæstarétti verður áfrýjunarkostnaður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjenda ákærðu, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur ásamt meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar og er því vísað heim í hérað til úrlausnar á ný.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjenda ákærðu, hæstaréttarlögmannanna Óttars Pálssonar, Helga Birgissonar, Gests Jónssonar og Helga Sigurðssonar, 1.500.000 krónur til hvers.