Hæstiréttur íslands
Mál nr. 350/2002
Lykilorð
- Skjalafals
- Fíkniefnalagabrot
|
|
Fimmtudaginn 5. desember 2002. |
|
Nr. 350/2002. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Atla Erni Sævarssyni og (Hilmar Ingimundarson hrl.) Brynjari Tómassyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Skjalafals. Fíkniefni.
A og B voru ákærðir fyrir skjalafals með því að hafa ásamt X staðið saman að því að framvísa til sölu 36 fölsuðum verðtryggðum húsbréfum Íbúðalánasjóðs, hverju að nafnvirði 1 milljón krónur. Þá var B einnig ákærður fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni. Við handtöku hafði ákærðu tekist að fá rúmlega 24,5 milljónir króna lagðar inn á bankareikninga sína. Játuðu ákærðu háttsemi sína. Samkvæmt framburði A og B hafði sá síðarnefndi engin afskipti af fölsun bréfanna. Var því ekki talið að hann hafi að þessu leyti tekið þátt í skipulagningu brotanna að öðru leyti en að samþykkja að nafn hans og kennitala kæmi fram á hluta húsbréfanna. Voru ekki efni til að líta svo á að þáttur B í brotunum væri slíkur að gera ætti mun á refsingu hans og annarra ákærðu. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var niðurstaða hans um tveggja ára fangelsisrefsingu A og B staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. júlí 2002 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu.
Ákærðu krefjast þess að refsing þeirra verði milduð og hún skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta.
Fram kemur í gögnum málsins að ákærði Atli Örn og meðákærði Davíð Örn tóku þátt í að falsa þau 36 húsbréf sem mál þetta snýst um og skipuleggja þann verknað. Samkvæmt framburði ákærðu Atla Arnar og Brynjars hafði sá síðarnefndi hins vegar engin afskipti af þessum þætti málsins, enda hafi fyrst borist í tal milli ákærðu að Brynjar tæki þátt í brotunum þremur dögum fyrir sölu bréfanna, en þá hafi fölsun þeirra verið lokið. Verður því ekki talið að ákærði Brynjar hafi að þessu leyti tekið þátt í skipulagningu brotanna að öðru leyti en að samþykkja að nafn sitt og kennitala kæmi fram á hluta húsbréfanna. Ljóst er að ákærðu og Davíð Örn höfðu komið sér saman um hvernig staðið skyldi að framvísun bréfanna eins og nánar er lýst í ákæru. Eru ekki efni til að líta svo á að þáttur ákærða Brynjars í brotunum sé slíkur að gera eigi mun á refsingu hans og annarra ákærðu. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur að öðru leyti en því að frá refsingu beggja ákærðu skal draga gæsluvarðhald þeirra, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að frá refsingu ákærðu, Atla Arnar Sævarssonar og Brynjars Tómassonar, skal draga gæsluvarðhald þeirra með fullri dagatölu frá 23. maí 2001 til 30. sama mánaðar.
Ákærði Atli Örn greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur. Ákærði Brynjar greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur. Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 2002.
Árið 2002, föstudaginn 31. maí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr: S-834/2002: Ákæruvaldið gegn Alta Erni Sævarssyni, Brynjari Tómassyni og Davíð Erni Vignissyni, en málið var dómtekið 15. þ.m. á grundvelli 125. gr. laga nr. 19/1991.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni 19. mars 2002 á hendur:
,, Atla Erni Sævarssyni, Frostafold 2,
kt. 131175-4859,
Brynjari Tómassyni, Hverfisgötu 108,
kt. 231073-5749,
og
Davíð Erni Vignissyni, Hléskógum 16,
kt. 251175-5789,
öllum til heimilis í Reykjavík,
fyrir skjalafals og ákærða Brynjari einnig fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni í Reykjavík þriðjudaginn 22. maí 2001:
I. Ákærðu öllum fyrir skjalafals með því að hafa staðið saman að því að framvísa til sölu hjá eftirgreindum verðbréfafyrirtækjum og lánastofnunum 36 fölsuðum verðtryggðum húsbréfum Íbúðalánasjóðs, hverju að nafnvirði 1.000.000 kr. úr 2. flokki 1998 en öllum samtals að söluandvirði 44.131.403 kr., sem ákærðu hugðust skipta með sér, en ákærðu framvísuðu hver 12 bréfum rituðum til ákærðu sem skuldareigenda á eyðublöð gefnum út fyrir hönd Íbúðalánasjóðs af Gunnari S. Björnssyni, framkvæmdastjóra og fyrir hönd ríkissjóðs af Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, sem ákærðu Atli Örn og Davíð Örn áttu þátt í að falsa með ljósritun og tekist þannig að fá söluandvirði 20 bréfa, alls 24.512.495 kr., lagt inn á bankareikninga, sem þeir höfðu stofnað í þessum tilgangi. Tókst ákærðu ekki að ná út peningum en lögregla handtók ákærðu sama dag, ákærðu Atla Örn og Davíð í bönkum í Reykjavík og Hafnarfirði þar sem þeir reyndu taka út kr. 9.787.885 af bankareikningunum og tók jafnframt úr vörslum þeirra 80 fölsuð húsbréf, hvert að nafnverði 1.000.000 kr., rituð til ákærðu Atla Arnar og Brynjars sem skuldareigenda:
A. Ákærði Atli Örn:
1. Hjá Verðbréfamarkaði Íslandsbanka, Kirkjusandi 4, bréfum nr. 98748131-34 að söluandvirði 4.888.062 kr.
.2. Hjá Verðbréfastofunni hf., Suðurlandsbraut 18, 4 bréfum nr. 98748135-38 að söluandvirði 4.905.816 kr.
3. Hjá MP Verðbréfum hf., Skipholti 50d, 4 bréfum nr. 98748139-42 að söluandvirði 4.942.364 kr.
B. Ákærði Brynjar:
1. Hjá Landsbréfum, Suðurlandsbraut 24, 4 bréfum nr. 98748231-34 að söluandvirði 4.888.062 kr.
2. Hjá Kaupþingi hf., Ármúla 13a, 4 bréfum nr. 98748179-82 að söluandvirði 4.882.068 kr.
3. Hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, Hátúni 4, 4 bréfum nr. 98748187-90 að söluandvirði 4.928.600 kr.
C. Ákærði Davíð Örn:
1. Hjá Landsbréfum, Suðurlandsbraut 24, 4 bréfum nr. 98748239-42 að söluandvirði 4.888.062 kr.
2. Hjá Kaupþingi hf., Ármúla 13a, 4 bréfum nr. 98748287-90 að söluandvirði 4.882.068 kr.
3. Hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, Skólavörðustíg 11, 4 bréfum nr. 98748243-46 að söluandvirði 4.906.421 kr.
Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
II. Ákærða Brynjari fyrir að hafa haft í fórum sínum 9,77 g af hassi þegar lögreglan handtók hann við Landsbanka Íslands, Múlaútibú, Lágmúla 9.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. 9.gr. laga nr. 75, 1982, sbr. lög nr. 13, 1985, sbr. lög nr. 68, 2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 490, 2001.
Þess er krafist, að ákærðu verði dæmdir til refsingar.”
Verjandi ákærða Atla Arnar krefst vægustu refsingar sem lög leyfa sem jafnframt verði skilorðsbundinn að öllu leyti eða að hluta til. Þá er þess krafist að frá refsingu komi gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 23. maí 2001 til 30. maí 2001. Réttargæslu- og málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.
Verjandi ákærða Brynjars krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsing verði skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.
Verjandi áærða Davíðs Arnar krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsing verði skilorðsbundin að öllu leyti. Komi til refsivistar er þess krafist að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar með fullri dagatölu. Réttargæslu- og málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.
Ákærðu hafa allir skýlaust játað þá háttsemi, sem þeim er gefin að sök í ákærunni. Allir höfðu ákærðu áður borið á sama veg hjá lögreglu og játað brot sín. Samkvæmt þessu er sannað með eindreginni játningu allra ákærðu fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að ákærðu hafi framið þá háttsemi sem í ákærunni greinir. Skírskotað er til ákærunnar um lýsingu málavaxta, sbr. 2. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Brot ákærðu eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.
Enginn hinna ákærðu hefur áður gerst brotlegur við almenn hegningarlög og sakaferill þeirra hefur ekki áhrif á refsiákvörðun í málinu.
Skipulagning og framkvæmd brota ákærðu bera vott um styrkan brotavilja þeirra og þeir frömdu brot sín í sameiningu. Brot ákærðu beindust að húsnæðislánakerfi landsmanna og varðaði þannig mjög mikilvæga hagsmuni. Allt er þetta virt ákærðu til refsiþyngingar, sbr. 1. og 6. tl. 1. mgr. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Til þyngingar við refsiákvörðun ber einnig að hafa hliðsjón af 2. málslið 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærðu framvísuðu til sölu 36 fölsuðum verðtryggðum húsbréfum Íbúðalánasjóðs að söluvirði rúmlega 44 milljónir króna. Við handtöku hafði ákærðu tekist að fá rúmlega 24,5 milljónir króna lagðar inn á bankareiknina sína. Brot ákærðu eru stórfelld. Ákærðu hafa allir játað brot sín hreinskilningslega og er það virt þeim til refsilækkunar.
Refsing ákærða Brynjars er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga.
Skjalafals ákærðu var fullframið er þeir stóðu saman að því að framvísa húsbréfunum til sölu eins og lýst er í ákærunni. Sök allra ákærðu er jöfn.
Að öllu ofanrituðu virtu þykir refsing hvers ákærðu um sig hæfilega ákvörðuð fangelsi í 2 ár.
Eins og brotum ákærðu er háttað þykir skilorðsbinding refsingarinnar í heild eða að hluta ekki koma til álita.
Með vísan til 76. gr. almennra hegnigarlaga skal draga frá refsivist ákærðu gæsluvarðhald þeirra allra með fullri dagatölu að því er hvern um sig varðar.
Ákærði Alti Örn greiði verjanda sínum Hilmari Ingimundarsyni hæstaréttarlögmanni 120.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun.
Ákærði Brynjar greiði verjanda sínum Smára Hilmarssyni héraðsdómslögmanni 100.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Davíð Örn greiði verjanda sínum Jóni Höskuldssyni héraðsdómslögmanni 120.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun.
Sakarkostnað að öðru leyti en sérgreindur hefur verið greiði ákærðu óskipt.
Guðjón Magnússon fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærðu, Alti Örn Sævarsson, Brynjar Tómasson og Davíð Örn Vignisson sæti hver um sig fangelsi í 2 ár.
Frá refsivist hvers um sig dragist gæsluvarðhald viðkomandi með fullri dagatölu.
Ákærði Atli Örn greiði verjanda sínum Hilmar Ingimundarsyni hæstaréttarlögmanni 120.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun.
Ákærði Brynjar greiði verjanda sínum Smára Hilmarssyni héraðsdómslögmanni 100.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Davíð Örn greiði verjanda sínum Jóni Höskuldssyni héraðsdómslögmanni 120.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun.
Sakarkostnað að öðru leyti greiði ákærðu óskipt.